Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Verð- og gengistrygging böl heimilanna - 760 milljarða skattur á 8 árum

Greining Glitnis, nei, Íslandsbanka birtir áhugaverðar tölur um þróun skulda heimilanna.  Gerður er samanburður við skuldastöðu heimila í öðrum löndum og er staða þeirra ekki jafn slæm.  En þessi samanburður er ekki sanngjarn.  Annars vegar eru skoðaðar skuldir sem eru með höfuðstól í mynt viðkomandi lands og bera ekkert annað en hreina vexti, en hins vegar eru skoðaðar skuldir sem breytast eftir stemmningu á gjaldeyrismarkaði þjóðarinnar og hversu vel Seðlabanka og ríkisstjórn tekst að halda jafnvægi.

Skoðum þessar skuldir íslenskra heimila, ef þær væru í samanburðarhæfum lánum.  Ég geng út frá því að af þessum 2.017 milljörðum séu 1.500 milljarðar í verðtryggðum lánum, 400 milljarðar í gengistryggðum lánum og rúmlega 100 milljarðar í óverðtryggðum lánum.  Skoðum nú hve háar þessar skuldir væru, ef hér væri hvorki verðtrygging né gengistrygging.  Þá fáum við forvitnilega niðurstöðum.

Ég setti upp smá líkan, þar sem ég geri ráð fyrir ákveðinni dreifingu verðtryggðra lána eftir lántöku ári.  Til að flækja málið ekki of mikið, þá geri ég ráð fyrir 20% verðtryggðra lána hafi verið tekinn fyrir árið 2000 og síðan 10% á ári eftir það, nema að nær ekkert hafi bæst í ný verðtryggð lán á síðasta ári.  Þá kemur í ljós að upprunalegur höfuðstóll þessara lána er líklegast í mesta lagi í kringum 930 milljarðar, en verðbætur að lágmarki um 570 milljarðar eða um 38% af heildartölunni.

Nú gagnvart gengistryggðu lánunum, þá geri ég ráð fyrir að um 10% þeirra hafi verið tekin á síðasta ári, fjórðungur hafi verið tekinn árlega 2005 - 2007 og 15% 2004.   Miðað er við gengisvísitölu um mitt ár á hverju ári og að öll lánin séu gengisvísitölulán. Til samanburðar er notuð gengisvísitala Glitnis frá 31.12.2008.  Í ljós kemur að upprunalegur höfuðstóll lánanna er líklegast um 225 milljarðar eða tæp 57% af heildarupphæðinni.

Miðað við þessa útreikninga, sem eru frumstæðir og ónákvæmir en gefa vísbendingu um þróun, þá er upprunalegur höfuðstóll lána heimilanna nálægt því að vera 100 + 930 +  225 = 1255 milljarðar eða 169% af ráðstöfunartekjunum.  Afgangurinn, þ.e. 760 milljarðar, eru skattar sem heimilin greiða fyrir ónýta peningamálastefnu, getuleysi Seðlabankans, óstöðugleika krónunnar, verðbólgu, glæfraskap bankamanna og menntunarkostnað fjármálakerfisins.  Það væri örugglega hægt að hækka þessa tölu, þar sem ég tek ekki inn í greiðslur lántakenda á þessum árum, sem að stórum hluta voru verðbætur á höfuðstól og svo mesta snilldin, verðbætur á vexti!


mbl.is Skuldir heimila hækka hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikil verðmæti í Nýja Kaupþingi

Ég hef kynnt mér gögn sem birt hafa verið um líklegan stofnaefnahagsreikning Nýja Kaupþings og verð að segja, að í bankanum liggja mörg tækifæri.  Sérstaklega hlýtur að vekja athygli hin gríðarlega háa upphæð, sem felst í niðurfærslu útlána bankans til innlendra viðskiptavina.  Sú upphæð nemur 935 milljörðum til viðbótar við þá 19 milljarða sem áður höfðu verið lagðir til hliðar.  Alls nemur þetta 67% af heildarútlánum innanlands.

Það þarf ekki harða innheimtu til að búa til mikinn hagnað út úr þessari upphæð.  Á móti kemur, að fari þessi upphæð ekki í afskriftir og niðurfærslur, þá nýtist það ekki til endurreisnar fyrirtækja og heimila sem voru/eru í viðskiptum við Kaupþingin tvö.

Tvennt sem ég velti fyrir mér í þessu:  Mun sala á Nýja Kaupþingi til kröfuhafa þýða að ríkissjóður mun ekki þurfa að leggja bankanum til nýtt eigið fé?  Og hitt:  Hafa kröfuhafar áhuga á því að reka banka á Íslandi?

Komi erlendur eigandi að bankanum, þá gæti það opnað fyrir gjörbreytingu á viðskiptabankastarfsemi hér á landi.  Lánalíkön, vextir, áhættustýring og þjónustulínur gætu tekið miklum breytingum. Hvort það yrði innlendum viðskiptavinum til góða er vandi um að spá.


mbl.is Áforma að selja körfuhöfum Nýja Kaupþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagsmunir heimilanna eru hagsmunir þjóðarinnar

Hagsmunasamtök heimilanna hafa sannað tilverurétt sinn.  Á þeim stutta tíma frá því að samtökin voru stofnuð hafa þau náð augum og eyrum ráðamanna, fjölmiðla og almennings.  Tillögur samtakanna hafa vakið athygli og fengið hljómgrunn vegna þess að þar eru lagðar fram almennar og nauðsynlegar aðgerðir til endurreisnar heimilum landsins.

Stefnumálin:

  • Almennar leiðréttingar á gengis- og verðtryggðum lánum heimilanna.
  • Afnám verðtryggingar.
  • Jöfnun á áhættu milli lánveitenda og lántakenda.
  • Að veð takmarkist við þá eign sem sett er að veði.
  • Samfélagslega ábyrgð lánveitenda.

eru sjálfsagðar kröfur um jafnrétti.  Þessar kröfur útiloka ekki aðrar kröfur eða ganga á rétt annarra.  Það er bara verið að fara fram á að heimilin séu varin.

Við, hjá Hagsmunasamtökum heimilanna, gerum okkur grein fyrir að kröfur okkar kosta sitt.  En hver er hin hliðin?  Mig langar raunar ekkert að tala um hina hliðina nema óbeint.  Ég vil einblína á ávinninginn af því að þessum kröfum verði mætt.  Ávinningurinn er að mínum mati að lágmarki eftirfarandi:

  1. Skuldir heimilanna lækka og greiðslubyrði lána minnkar
  2. Fleiri eiga kost á því að halda heimilum sínum
  3. Heimilin hafa meiri pening til að standa í skilum með aðrar skuldbindingar sínar
  4. Meiri peningur fer í neyslu sem fer þá inn í hagkerfið
  5. Veltuskattar til ríkisins dragast ekki eins mikið saman og annars hefði orðið.
  6. Meiri tekjur ríkisins þýðir að ríkissjóður þarf að skera minna niður, en annars, eða á meiri möguleika á að standa undir vaxtagjöldum
  7. Fyrirtækin fá meiri veltu, sem eykur líkur á því að þau lifi af.
  8. Fyrirtækin hafa meiri pening til að greiða laun og önnur útgjöld með tilheyrandi ruðningsáhrifum.  M.a. munu þau eiga auðveldara með að greiða skatta til ríkisins og mótframlag launagreiðanda til lífeyrissjóðanna.
  9. Færri þurfa að fara á atvinnuleysisbætur

Mér finnst þetta vera alveg nóg til þess að menn íhugi þessa leið af fullri alvöru.

Ég vil hvetja alla, sem áhuga hafa og ekki eru félagar í samtökunum, að skrá sig í þau á www.heimilin.is (hægt er að fara beint í skráningu hér).  Þá vil ég vekja athygli á því að ég verð ræðumaður á opnum fundi Radda fólksins á Austurvelli næst komandi laugardag.  Umfjöllunarefni mitt verður hagmunir heimilanna og fleira því tengt.

Loks auglýsi ég eftir stefnumótun og aðgerðum frá stjórnvöldum, sem byggja á tillögum frá hagsmunaaðilum á vinnumarkaði, fjármálafyrirtækjum, framleiðslufyrirtækjum, hagsmunahópum og almenningi, þar sem sett er fram framtíðarsýn um uppbyggingu landsins.  Ég hef ítrekað stungið upp á að settir verði á fót aðgerðahópa á vegum stjórnvalda um eftirfarandi málefni:

  1. Fjármálaumhverfi: Verkefnið að fara yfir og endurskoða allt regluumhverfi fjármálamarkaðarins.
  2. Bankahrunið og afleiðingar þess:  Verkefnið að fara yfir aðdraganda bankahrunsins svo hægt sé að læra af reynslunni og draga menn til ábyrgða.
  3. Atvinnumál:  Verkefnið að tryggja eins hátt atvinnustig í landinu og hægt er á komandi mánuðum.
  4. Húsnæðismál:  Verkefnið að finna leiðir til að koma veltu á fasteignamarkaði aftur á stað.
  5. Skuldir heimilanna:  Verkefnið að finna leiðir til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot heimilanna í landinu.
  6. Ímynd Íslands:  Verkefnið að endurreisa ímynd Íslands á alþjóðavettvangi.
  7. Félagslegir þættir:  Verkefnið að byggja upp félagslega innviði landsins.
  8. Ríkisfjármál: Verkefnið að móta hugmyndir um hvernig rétta má af stöðu ríkissjóðs.
  9. Peningamál: Verkefnið að fara ofan í peningamálastefnu Seðlabanka Íslands, endurskoða hana eftir þörfum og hrinda í framkvæmd breyttri stefnu með það að markmiði endurreisa traust umheimsins á Seðlabanka Íslands
  10. Gengismál:  Verkefnið að skoða möguleika í gengismálum og leggja fram tillögur um framtíðartilhögun.
  11. Verðbólga og verðbætur:  Verkefnið að fara yfir fyrirkomulag þessara mála og leggja til umbætur sem gætu stuðlað að auknum stöðugleika.
  12. Framtíð Íslands - Á hverju ætlum við að lifa: Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi nýja atvinnuvegi.
  13. Framtíð Íslands - Hvernig þjóðfélag viljum við:  Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi inniviði þjóðfélagsins.

(Þessi listi var fyrst birtur 6. nóvember 2008.) 

Vissulega hefur eitthvað verið gert, en betur má ef duga skal. Annars förum við leið fjárhagslegs og andlegs gjaldþrots.


mbl.is Vilja meira jafnræði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að ósi skal stemma: Leynifélög á Tortola afhjúpa galla í lögum

Hún er sífellt að vinda upp á sig þessi saga um eyjuna Tortola sem skyndilega allir Íslendingar vita um.  Eigendur félaganna eru sagðir óþekktir, en ég held að við vitum hverjir flestir þeirra eru.  Ég ætla ekki að nefna nein nöfn, en í mínum huga eru þetta stærstu gerendurnir í hruni íslenska hagkerfisins.  Þetta er fólkið, sem nýtti sér götótt íslensk lög til hins ýtrasta.  Hákarlarnir sem rifu netin meðan við smáfiskarnir komumst ekkert.

Með fullri virðingu, þá er ekki nema ein lausn á þessu máli.  Gera þarf upptækar allar eignir þessara félaga á Íslandi!  Eftir því sem meira er fjallað um þessi félög, þá bendir flest til þess að tilgangur þeirra sé að komast hjá því að greiða skatta af tekjum og koma þeim aftur í umferð með því að  fela eignarhald.  Í mínum huga er þetta peningaþvætti, þar sem óhreinum peningum er komið aftur í umferð í gegnum skúffufyrirtæki sem enginn veit hver á eða hvernig það aflaði tekna.

Þá er nauðsynlegt að breyta reglum um fjármálamarkað og Kauphöll, þannig að allar upplýsingar verða að liggja upp á borðinu, þegar viðskipti eiga sér stað, og upplýsingar um öll viðskipti verða að vera aðgengilegar.  Krafa fjármagnseigenda og fjárfesta um sífellt meiri leynd yfir viðskiptum er ein af orsökum fjármálahrunsins.  Ógagnsæi í viðskiptum hefur aukist, þrátt fyrir reglur sem áttu að tryggja gagnsæið og rekjanleikann.  (Þá er ég að tala um svo kallaðar MIFiD reglur um gagnsæi í fjármálafærslum.)  Nú verður að vinda ofan af fáránleika eignarhaldsfélaga sem eiga keðju eignarhaldsfélaga, þannig að raunverulegt eignarhald hefur verið grafið undir þykku pappírsfargi.  Setja þarf skorður á að eignarhaldsfélögum eigi eignarhaldsfélag.  Banna þarf að félag eigi sæti í stjórn annars félags.  Skilyrða þarf að minnst einn aðili úr hópi aðaleigenda sé skráður forsvarsmaður félagsins og nafn viðkomandi sé tengt öllum skráðum viðskiptum.  Það á sem sagt ekki að vera nóg að vita að félagið AA ehf. hafi keypt hlut í Glitni eða Kaupþingi, heldur skal fylgja skráningunni að forsvarsmaður félagsins úr hópi aðaleigenda sé Jón Ásgeir eða Ólafur Ólafsson eða hver það nú er.  Vissulega gæti aðaleigandi verið hlutafélag, en þá yrðu að liggja fyrir upplýsingar um 10 stærstu eigendur þess.  Þannig verði tryggður rekjanleiki upplýsinganna og ekki þurfi að fara í fyrirtækjaskrár í mörgum löndum til að finna út hver á hvað.

Ég geri mér grein fyrir að svona regluverk þarfnast nánari yfirlegu.  Einnig verða glufur í því til að byrja með, en þær er hægt að þétta.  Mikilvægast er að setja fyrir þetta bull sem hefur verið í gangi, þar sem fáeinir auðmenn hafa í skjóli bankaleyndar í Lúxemborg og með hjálp siðblindra einstaklinga tekist að blóðmjólka samfélagið og setja það í leiðinni á hliðina.


mbl.is Félög skráð á Tortola-eyju fluttu peninga frá Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

USD 700 milljarða tap hjá vogunarsjóðum

Samkvæmt lítilli frétt sem ég rakst á, þá kemur fram að vogunarsjóðir hafi tapað um USD 700 milljörðum á síðasta ári, sem er nálægt þriðjungi eigna þeirra.  Þar af mælist tap þeirra á nýmörkuðum (sem Ísland telst til) vera yfir 50%.  Þetta eru háar tölur, en þessu til viðbótar er mikill flótti fjármagns frá vogunarsjóðunum.  Tölurnar ná til um 9.700 sjóða, sem voru starfandi við árslok 2007, en þeim hafði fækkað niður í 8.900 í árslok 2008.

Þetta er þróun sem menn voru búnir að spá fyrir í kjölfar falls Lehman Brothers.  USD 700 milljarðar eru gríðarlega há tala, en er dropi í hafi þegar horft er til þeirra upphæða sem eru undir í afleiðuviðskiptum og skuldatryggingaviðskiptum.  Þar er talað um að USD 512.000 milljarðar séu á sveimi í fjármálakerfi heimsins í slíkum pappírum.  Þar er að vísu mikið um endurhverf viðskipti og stöðutökur með og á móti, þannig að tap á einum stað er oftast unnið upp með hagnaði annars staðar. Menn óttast að ekki þurfi mikið út af að bera til spilaborgin falli sérstaklega í kjölfar ársuppgjöra fjármálafyrirtækja og stórra alþjóðlegra fyrirtækja.  Talið er að þau geti komið af stað keðjuverkun með ógnvænlegum afleiðingum.  USD 512.000 milljarðar er há tala og 10% tap af þeirri upphæð (sem ekki er talin ólíkleg niðurstaða) væri meira en efnahagur heimsins gæti þolað, ef það lenti á grunnstarfseminni, þ.e. viðskiptabönkum og framleiðslufyrirtækjum.  Búist er við fjöldagjaldþrotum fjárfestingasjóða og fagfjárfesta og sérstaklega eigi eftir að hrikta í fjármálakerfi Bandaríkjanna.  Nú er bara að bíða niðurstöðunnar.


Björgun í gegnum fjármálageirann full reynd

Mér sýnist sem fjármálageirinn Vestanhafs vilji blóðmjólka ríkissjóðs Bandaríkjanna eins og frekast er kostur.  Það er þegar búið að dæla yfir 1.000 milljörðum dala inn í kerfið og nú á að bæta 787 milljörðum við, en samt er það ekki nóg.  Er það ekki bara vegna þess, að hinir gírugu bankamenn ætla að sjá hve mikið þeir geta sogið upp úr ríkiskassanum?

Þetta er alveg dæmigert fyrir menn sem hafa allt niður um sig.  Þeir eru búnir að rýja fyrirtæki sín inn að skinni með röngum ákvörðunum, pýramídasvindli og ofurlaunum.  Og í staðinn fyrir að vinda sjálfir ofan af dellunni, þá á ríkissjóður að borga.  Þeir bera sjálfir enga ábyrgð.  Við skulum hafa í huga, að þetta eru sömu menn og keyptu hagstætt mat á skuldabréfavafningum frá matsfyrirtækjunum, bjuggu til svikamyllu með húsnæðislán, fundu upp skuldatryggingar og afleiður til að losna undan eftirliti bandaríska fjármálaeftirlitsins, stofnuðu 12.000 gervifyrirtæki í einni og sömu byggingunni á Bresku jómfrúreyjum og svona mætti lengi telja.  Og hafa þeir flutt peningana til baka?  Nei.  Þeir eru búnir að koma þeim í öruggt skjól, þar sem bandaríski skatturinn nær ekki til þeirra.

Vandi Bandaríkjanna er að því leiti til meiri en hér á landi, að dalurinn er gjaldgengur hvar sem er í heiminum.  Hér getum við gengið út á að flest allar krónur sem gefnar hafa verið út séu því í umferð hér á landi.  Það ætti því að vera auðvelt að finna peningana.  Þetta á ekki við um Bandaríkjadal.  Peningar sem settir hafa verið í umferð í Bandaríkjunum geta verið hvar sem er.  Og það sem meira er, að stór hluti þeirra er í Kína.  Það er jú þangað sem stærsti hluti framleiðslunnar er kominn.  Á leiðinni til Bandaríkjanna kemur reikningurinn við í einhverju skúffufyrirtæki á eyju í Kyrrahafi eða Karabískahafinu og síðan er annar gefinn út sem er 100% hærri.  Mismuninum er stungið undan skatti.  Þetta er það sem við þekktum í gamla daga sem "hækkun í hafi".

En aftur að fjármálageiranum.  Menn fengu létt lost í haust, þegar Lehman Brothers var látinn falla.  Nú treysta menn á að það gerist ekki aftur.  Nýjasta innspýtingin hefur fallið í grýttan jarðveg, eins og sú fyrsta.  Ástæðan er fyrst og fremst sú, að fjármálageirinn vill fá að ákveða sjálfur hvert peningarnir fara.  (Sem er sama vandamál og hér.)  Ég skil alveg tregðu stjórnvalda til þess, þar sem ekki gæfi ég manni, sem er búinn að sólunda peningum af glannaskap í bölvaða vitleysu og krefst ofurauna fyrir að hafa gert, meiri pening til að halda vitleysunni áfram.  En markaðurinn hefur sínar leiðir og nú eins og áður fellur verð hlutabréfa.  Ég tæki þessu ekki alvarlega, þar sem menn jafna sig á vonbrigðunum.

Líkt og hér, þá verður málum ekki bjargað með því að dæla peningum inn í fjármálafyrirtækin.  Lausnin felst í því að bjarga heimilunum og framleiðslufyrirtækjunum.  Bankarnir jafna sig á einhverjum mánuðum eða árum.  Síðan eiga að gilda sömu lögmál um banka og aðra atvinnustarfsemi.  Standi hún ekki á eigin fótum, þá á bara að loka.  Það verður að vingsa út þá sem geta staðið sig og láta hina flakka.  Þeir sem tapa á þroti fjármálafyrirtækjanna eru fyrst og fremst þeir sem hafa verið iðnastir að beita öllum tiltækum ráðum til að skara eld að sinni könnu.  Þetta er aðilarnir sem hafa eignast allt í krafti áhrifa sinna innan fjármálageirans og alþjóðlegu auðhringanna.  Þetta eru þeir sem sogið hafa til sín allt fjármagn í stærstu svikamylla allra tíma.  Segir ekki: "Sek bítur sekan" eða á ensku "That goes around, comes around".  Mér sýnist sem komið sé að skuldaskilum og fjármálageiranum í Bandaríkjunum verði ekki bjargað nema menn þar samþykki að fara í stærstu afskriftir og skuldajafnanir sem sögur fara af.  Það voru ekki  múhameðstrúarmenn frá Mið-austurlöndum sem felldu bandaríska hagkerfið.  Nei, það voru hvítir, miðaldra, bandarískir fjármálakarlar sem séu um það og gerðu það með stæl.


mbl.is Obama staðfestir aðgerðaráætlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott fyrsta skref - ábendingar til bóta

Það er ánægjulegt að ríkisstjórnin er að hlusta á ábendingar þeirra sem standa í fararbroddi fyrir því að verja hagsmuni heimilanna.  Þarna koma fram þrjú mikilvæg atriði í baráttunni, en mér sýnist tvö þeirra mætti bæta örlítið, til að gera gott mál ennþá betra.

1. Ekki er nóg að breyta lögum um gjaldþrot þannig að kröfur fyrnist á 2 árum, heldur þarf einnig að taka fyrir að endalaust sé hægt að halda kröfum á lífi með því endurlýsa kröfum áður en fyrningarfrestur rennur út.  Í því felst helsti galli núverandi fyrirkomulags, þ.e. hægt er að halda fólki í lífstíðarskuldafangelsi með því að kröfur eru endurnýjaðar út í það endalausa.

2. Betra er að stöðva nauðungarsölur lengur, en til 1. ágúst.  Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt til 1. nóvember.  Ástæður fyrir þeirri dagsetningu eru nokkrar:  Alþingi hefur hafið störf aftur eftir sitt venjubundna aukna sumarleyfi og getur því skoðað árangur af aðgerðinni áður en hún fellur úr gildi eða  tekið ákvörðun um að framlengja bannið við nauðungarsölum.  Í annan stað gefst lengri tími til að koma með úrræði.  Nú fer í gang kosningabarátta og því mun verða hálfgerður biðtími eða leikhlé í þjóðfélaginu 1 - 2 mánuði af þessum 6 mánuðum.  Í þriðja lagi eru sumarleyfi hjá dómstólum við lok þessa tímabils og því tefjast mál sjálfkrafa af þeim sökum.

 


mbl.is Kröfur fyrnast á tveimur árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Game over - Gefa þarf upp á nýtt

Það stefnir í uppgjör í Monopoly spilinu sem fjármálastofnanir austan hafs og vestan hafa verið að spila undanfarin ár.  Í fréttum dagsins er spáð falli ríkja víða um Evrópu og nú hefur pestin breiðst til Persaflóa.  Í Japan var á síðasta ársfjórðungi meiri samdráttur en dæmi eru um frá því á stríðsárunum.  Spilaborg blekkinganna er að falla.  Fjárskuldbindingar án baklands, eignir án innistæðu.  Það er kominn tími til að gefa upp á nýtt.

Kannski er rússneska leiðin sú eina færa, en þar í landi fékk fólk sent afsal að íbúðarhúsnæði sínu við fall Sovétríkjanna.  Allir byrjuðu með veðlausar eignir.  Menn eru víst að íhuga slíkt í landi fjármagnsins enda átta menn sig á því að stærsta píramídasvindl sögunnar hefur átt sér stað innan fjármálafyrirtækja landsins.  Madcoff var ekkert óheiðarlegri en aðrir.  Hver er munurinn að velta peningunum eins og hann gerði eða láta menn hafa afleiðupappíra í hendur sem eiga að gefa sífellt meira af sér en eru í reynd innistæðulausir.  Þetta voru ekkert annað en keðjubréf, sem tryggðu þeim fyrstu í keðjunni gríðarlegar tekjur, en þeir sem aftar eru áttu að taka skellinn. 516.000 milljarða dollara keðjubréf í heimi með 56.000 milljarða dollara heimsframleiðslu.

Eina lausnin er að ríkisstjórnir leggi hald á allt tiltækt fjármagn, hver í sínu landi, og gefi upp á nýtt.  Peningarnir eru til.  Þeir fóru í umferð og þá má nálgast, ef við vitum bara hvar þeir eru geymdir.  Þeir gufuðu ekki bara upp.  En eignir manna, hvort heldur í skuldabréfum, hlutabréfum, afleiðum, tryggingasamningum eða hvað þetta nú allt heitir, eru orðnar að engu.

Það verður að ýta á reset hnappinn og ræsa hagkerfi heimsins upp á nýtt.  Hugsanlega væri hægt að ná í gamalt afrit (backup) eða bakka aftur í fyrri stöðu sem virkaði (recover from last stable setup) eins og boðið er upp á í Windows.  En ég er ekki viss um að það borgi sig.  Ég held að það verði fljótlegra að gefa öllum upp stóran hluta skulda sinna og leysa svo önnur mál í sameiningu.  T.d. má færa allar skuldir við fjármálastofnanir niður þannig að eftir standi upphæð innlán plús 10%.  Allt umfram það yrði afskrifað.  Fjármálastofnanir afskrifuðu allar skuldir sín á milli. Þetta er hvort eð er allt meira og minna verðlaust, tapað, glatað.  Þetta var hvort eð er greitt með sýndarpeningum sem höfðu engin verðmæti að baki sér. Hvernig er hægt að setja 20% verðbætur ofan á lán, þegar aukning verðmætasköpunar, þ.e. hagvöxtur, er neikvæð?  Eða hvernig er hægt að rukka 12% nafnvexti í þjóðfélagi, þar sem búið er að færa stærstan hluta allrar framleiðslu úr landi til Kína, eins og er í Bandaríkjunum?  Þetta gengur ekki upp. 

Öll verðmætaaukning í heiminum dugar ekki til að greiða vexti af öllum þeim lánum sem hafa verið tekin.  Þess vegna er kerfið að hrynja.  Tekjur heimila og fyrirtækja standa ekki lengur undir fjármagnskostnaði.  Það á ekki bara við hér.  Þetta "byrjaði" jú allt með undirmálslánunum í Bandaríkjunum.  Málið er að undirmálslánin virka nákvæmlega eins og verðtryggð og gengistryggð lán á Íslandi. Dag einn hækka vaxtagreiðslur af lánunum upp fyrir greiðslugetu lántakandans og þá byrja dómínókubbarnir að falla einn af öðrum þar til hver einn og einasti er fallinn.  Game over.


mbl.is Dubai líkt við Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undanfari falls og uppbygging: Tenglar á skrif mín

Hér fyrir neðan er samansafn af þeim færslum sem ég hef skrifað undanfarin tæp 2 ár um það sem snýr að aðdragandi falls bankanna/hagkerfisins og neðst eru þær tillögur sem ég hef sett fram til að takast á við vandann.  Elstu færslurnar eru efst og á meðal þeirra eru ýmsar, sem eru ákaflega áhugaverðar í ljós þess sem síðar gerðist.  Yngstu færslurnar eru neðst.  Saman held ég að þessi pakki gefi góða mynd af ýmsu sem fór úrskeiðis, vanhæfi og afneitun manna sem áttu að vita betur og loks ýmislegt sem þarf að gera (þar af sumt hefði betur verið gert strax) til að koma í veg fyrir að kreppan verði of djúp. 

Ábendingar, gagnrýni, ýmislegt sem fór úrskeiðis og vanhæfi

  1. Í apríl 2007 spurði ég Getur starfsemin staðið af sér áfall?  Var það gert í kjölfar brunans á horni Austurstrætis og Lækjagötu.  Nú kemur í ljós að fjölmörg fyrirtæki geta svarað þessari spurningu neitandi.  Mikið hefði verið gaman, að þó ekki væri nema bankarnir hefðu verið búnir að velta þessu ítarlega fyrir sér, að ég tali nú ekki um stærstu eigendur þeirra.  Ekki það að ég bætti síðan við færslum um sama efni nokkrum sinnum til viðbótar (sjá Rekstraröryggi og stjórnun rekstrarsamfellu frá 29.2.2008).  Í færslu 2.4.2008 segi ég:  "Vissulega hefðu ríkisvaldið og Seðlabankinn átt að hafa tilbúna aðgerðaráætlun sem hægt hefði verið að grípa til ef í óefni stefndi.  Ég aðstoða fyrirtæki gjarnan við að útbúa slíkar áætlanir.  Í slíkum áætlunum eru skoðuð þau atriði sem geta ógnað rekstrarsamfellu fyrirtækja, innleiddar ráðstafanir til að styrkja innviði þeirra og skjalfestar viðbragðsáætlanir sem hægt er að grípa til, ef/þegar áfall ríður yfir.  Vandamálið er að fæst fyrirtæki hafa farið út í slíka vinnu og fyrirtækið Ísland virðist enginn undantekning á því."  Í framhaldinu af þessari færslu byrjaði ég að vinna greiningarvinnu þar sem ég var að skoða Viðnámsþol þjóðarinnar, en birti ekki færslu um það fyrr en nokkrum dögum áður en bankarnir hrundu eða 3.10. Annars er ég þeirrar skoðunar að Rétt innleidd stjórnun rekstrarsamfellu hefði breytt miklu
  2. Í ágúst 2007 setti ég í færslu kenningar mínar um Láglaunalandið Bandaríkin.  Alveg frá því að ég var í námi í Bandaríkjunum hef ég verið þeirrar skoðunar að ýmislegt í grunngerð ríkisins væri ekki í lagi. Það virðist nú heldur betur hafa komið í ljós undan farna mánuði.  Nú í september 2008 þá kemur þessi færsla: Innviðir bandaríska hagkerfisins að molna?
  3. Ég byrjaði 2008 með færslu 3. janúar með fyrirsögninni: Spákaupmennska og ævintýramennska stjórna efnahagsmálum heimsins.  Ég held að mér sé óhætt að segja, að þar hafi ég hitt naglann á höfuðið og að þessi spákaupmennska og ævintýramennska hafi að lokum sett íslenska hagkerfið á hliðina.  Málið var bara, að ég hélt að spákaupmennirnir og ævintýramennirnirr væru erlendir, en það kemur alltaf betur og betur í ljós að þeir bera allir íslenska kennitölu og bankarnir eru líklegast samsekir í því að breiða yfir skattaundanskot og peningaþvætti í gegnum fyrirtæki á eyjunni Tortola og öðrum slíkum skattaskjólum.
  4. Nokkrum dögum síðar fjalla ég um andstöðu Seðlabankans við að Kaupþing geri upp í erlendri mynt í færslunni  Skiljanleg andstaða, en er leikurinn ekki tapaður?.  Seðlabankinn hefur síðar viðurkennt að kannski var þessi andstaða hans röng.  Einnig vil ég vekja athygli á eftirfarandi orðum í færslunni:  "Ég á móti átta mig alveg á afleiðingum þess að halda krónunni í þeim ólgusjó sem alþjóðlegt fjármálakerfi er að ganga í gegnum og ég átta mig á hættunni á að óprúttnir spákaupmenn fari að leika sér með fjöregg þjóðarinnar."  Þetta er skrifað 11. janúar 2008.  Það er alveg öruggt, að ef ég áttaði mig á þessu á þessum tímapunkti, þá voru aðrir löngu búnir að setja upp leikvöllinn fyrir áhlaupið.
  5. Menn í fjármálaheiminum voru í sjokki síðari hluta janúar (24.1.2008), þegar það spurðist út að einn miðlari hafði tapað 50 milljörðum af fé franska bankans Societe Generale (sjá Ótrúlegt að þetta sé hægt). Menn hefðu kannski átt að velta því fyrir sér hvort þetta væri að gerast víðar. Það var í sjálfu sér enginn munur á þessu og því sem menn gerðu innan íslensku bankanna.
  6. En ég var haldinn Pollyönnu heilkenninu, eins og svo margir, og hélt að íslenskir bankamenn sýndu meiri heilindi en aðrir (sjá Góður árangur í erfiðu árferði, og Mat byggt á hverju?).  Annað átti heldur betur eftir að koma í ljós. Einnig laust því niður í mig (þ.e. Pollyönnu heilkenninu) síðari hluta maí (sjá Viðsnúningurinn hafinn?) og í lok ágúst (sjá Verðbólgutoppnum náð).
  7. Ég kallaði 31. janúar eftir lækkun stýrivaxta (sjá Hagkerfið í niðursveiflu og Seðlabankinn bíður átektar) og taldi vaxtastefnu Seðlabankans gera meira ógagn en gagn.  Seðlabankinn vildi halda þeim háum áfram.  Ég held að orð mín um við værum að fara inn í "[t]ímabil þar sem háir stýrivextir veikja hagkerfið í staðinn fyrir að örva það", hafi reynst rétt.
  8. Ég velti fyrir mér atlögu að krónunni 7. mars 2008 (sjá Er verið að gera atlögu að krónunni?), en menn töldu allt vera eðlilegt.  Síðan hefur komið í ljós að gerð var atlaga að krónunni nær allan mars mánuð og bankarnir græddu óhemju mikið á þessari lækkun krónunnar. Talið líklegt að þeir hafi haft þar hönd í bagga.
  9. Í færslu 3.4.2008 og nokkrum sinnu eftir það velti ég fyrir mér trúverðugleika matsfyrirtækjanna (sjá Eru matsfyrirtækin traustsins verð? og Eru matsfyrirtækin traustsins verð - hluti 2).  Í júní gerði SEC (FME Bandaríkjanna) húsleit hjá þeim sem leiddi í ljós að þau voru í reynd gjörsamlega vanhæf.  Höguðu mati sínu þannig að það skaðaði ekki viðskipti.
  10. Næst velti ég fyrir mér hvort við værum að nota ranga vísitölu og hverju það hefði breytt (sjá Verðbólga sem hefði geta orðið).
  11. Í lok apríl gagnrýndi ég Seðlabankann fyrir að nota ekki bindiskylduna betur til að draga úr vexti bankanna og benti á, þá sem oftar, að Seðlabankinn hafi haft tæki sem hann ekki notaði (sjá Var Seðlabankinn undanþeginn aðhaldi?). 
  12. Nú maí byrjar á hvatningu frá mér til stjórnvalda um að styrkja atvinnulífið.  Þar held ég því fram að sterkara atvinnulíf leiði til styrkingar krónunnar og þar með slái á verðbólguna (sjá Ólíkt hafast menn að). Einnig vara ég við að verðbólgan geti orðið 18-20% á haustmánuðum, ef svo haldi áfram sem þá benti ýmislegt til (sjá Verður 12 mánaðaverðbólga 18 - 20% í haust), þó ég hafi vissulega vonast til betri niðurstöðu.
  13. Greiningadeild Kaupþings fær pillu frá mér 8. maí, þegar ég gagnrýni nokkur atriði í hagspá hennar (sjá Hagspá greiningardeildar Kaupþings).
  14. Þá set ég spurningarmerki við hagspeki hagfræðingsins, Geirs H. Haarde, og ég-varaði-ykkur-við Seðlabankastjórans, Davíðs Oddssonar, en þeir létu hafa eftir sér seinna hluta maí (þrátt fyrir síðari fullyrðingar Davíðs um hið gagnstæða) "að efnahagskreppan sem dunið hefur yfir þjóðina í kjölfar alþjóðlegu bankakreppunnar hafi ekki verið fyrirséð". Svar mitt er það sama og alltaf:  Allt er fyrirsjáanlegt, ef menn hafa bara hugmyndaflug til að hugsa upp kostina.  (Sjá færsluna Efnahagskreppan - Fyrirsjáanleg eða ekki?.) 
  15. Næst spurði ég Vantar almenning og atvinnulíf lánveitanda til þrautavara?, þar sem mér fannst þá og finnst enn, að fjármálafyrirtækin séu að bregðast.
  16. Fjármálaráðherrann fyrrverandi fékk ádeilu á þessu formi: "Fjármálaráðherra hélt því fram í dag, að ástæða vandans væri vandræðagangurinn með undirmálslánin í Bandaríkjunum.  Vá, þetta er eins og með apana þrjá:  Ég sé ekkert illt, ég heyri ekkert illt, ég mæli ekkert illt.  Árni, það hefur enginn annar gjaldmiðill í hinum vestræna heimi fallið eins illilega og íslenska krónan.  Það hefur ekkert land í hinum vestræna heimi fengið eins háðulega útreið hjá matsfyrirtækjum og Ísland.  Það hefur ekkert annað ríki veikt svo peningalegar undirstöður sínar eins heiftarlega og Ísland og boðið þannig upp á ótæpilega spákaupmennsku með gjaldmiðilinn og stærstu fyrirtæki þess.  Ekkert af þessu kemur undirmálslánunum nokkurn skapaðan hlut við.  Þetta var svo ámátlegt yfirklór hjá ráðherra að það lýsir best þeirri "ekki mér að kenna" afneitun sem ríkisstjórnin er í.  Það er greinilegt að ráðherrar hennar keppast við að sannfæra hver annan um að þetta sé allt útlendingum að kenna.  Vandinn er að mestu leiti heimatilbúinn og taka verður á honum heima fyrir með hagfræðilega viðurkenndum aðferðum.  Ríkisstjórnin græðir ekkert á því að stinga höfðinu í sandinn."
  17. Næst er innlegg (sjá Glitnir: Svartsýni fyrir þetta ár, en bjartsýni fyrir það næsta) um þá sannfæringu að bankarnir hafi beitt fólki blekkingum, þar sem greiningadeild Glitnis hélt því fram í lok maí að gengisvísitalan myndi enda í 135 á síðasta ári.  Deildin breytti þessu nokkrum vikum síðar all verulega.  En ef við áttum ekki að treysta greiningadeildunum, þá höfðum við ekki í mörg hús að venda.
  18. Ég taldi að reglur Seðlabankans um gjaldeyrisjöfnuð gætu veikt krónuna (sjá Auka reglurnar gengisáhættu?).  Núna kemur í ljós að þær eru notaðar sem skýring hjá Sparisjóðabankanum fyrir því að breyta láni í jenum yfir í lán í krónur á eins óhagstæðu gengi og hægt er að hugsa sér.
  19. Ein uppáhalds færslan mín er um ummæli í hátíðarræðu Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, á Austurvelli 17. júní 2008:  Hlustar forsætisráðherrann á sjálfan sig?  Það ljóst strax þá að hann hafði ekki nægan skilning á stöðunni og hafði greinilega ekki verið upplýstur af Seðlabankanum um alvarleika mála, eins og Davíð Oddsson hefur fullyrt svo oft.
  20. Önnur í þessum flokki er Ótrúlegur Geir.  Hvað er hægt að segja við þessu?  Við kusum hann yfir okkur og áttum líklegast ekki betra skilið.  (Ég tek það fram að ég kaus hann ekki.)
  21. Nú fjármálaráðherrann fyrrverandi sýndi ekki meiri visku en yfirmaður hans í viðtali 12. ágúst og sendi ég honum pillu fyrir það: Ekki á að bjarga þeim sem "fóru of geyst", en hvað með hina?.  Í ljós hefur komið að engum var bjargað heldur bara siglt áfram sofandi að feigðarósi.
  22. Fyrstu vangaveltur um bann við verðtryggingu koma 31. ágúst (sjá Treysta lífeyrissjóðir á verðtryggingu?) og síðan birtast þær nokkrum sinnum í viðbót á næstu mánuðum (sjá t.d. Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?).  Nú er ég sannfærður um að verðtryggingin verður að víkja eða drepa hana í Dróma.
  23. Þegar nálgast hrun bankanna hvet ég ríkisstjórn og Seðlabanka til að vakna af Þyrnirósarsvefni sínum í tveimur færslum (sjá Ó, vakna þú mín Þyrnirós), en maður á að varast hver maður óskar sér, því þegar viðbrögðin komu, þá höfðu þau hræðilegar afleiðingar fyrir þjóðfélagið.
  24. Aftur óska ég eftir leið fyrir fólk út út fjárhagsvandanum eftir að Pétur Blöndal vill veita því áfallahjálp í formi sálfræðiaðstoðar (sjá Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum).  Þetta er líka áður en bankarnir falla, en aðeins stuttu áður.
  25. Líkt og margir aðrir var ég ekki hrifinn af þjóðnýtingu Glitnis og spurði: Var sleggju beitt þar sem hamar hefði dugað?
  26. Enn koma furðuleg ummæli Geirs H. Haarde mér í vont skap (sjá Hvað er langt í landsfund Sjálfstæðismanna?).
  27. Geir sló öllu, sem áður hafði komið frá honum, við þegar hann kom fram í fjölmiðlum eftir mikla fundarsetur 4. og 5. október og sagði að sagði að spennunni hefði verið létt.  Ég spurði að bragði: Hvaða spennu var létt? auk þess sem ég kom með þessa færslu 3.11. Geir, þú átt að segja satt.  Svo er ekki hægt að sleppa þessari frá 12.12. Ályktunargáfa sem á sér ekki sinn líka, þar sem hann segir hækkanir ekki valda verðbólgu.
  28. Daginn eftir að neyðarlögin voru sett, þá kom Davíð í hið kostulega viðtal í Kastljósi.  Ég féll ekki fyrir dáleiðslu Davíð og sagði: Það er verr fyrir okkur komið en ég hélt.  Það voru fáir sammála mér þá, en ég held að það hafi breyst.   Síðar kom færslan Játning Davíðs í nóvember.

Tillögur

Strax á fyrstu dögum eftir hrunið lagði ég fram fullt af tillögum, sem fengu lítinn hljómgrunn þá, en hefur vaxið fylgi síðar.  Má þar nefna:

  1. Ég auglýsti eftir úrræðum frá öllum fjármálafyrirtækjum vegna þungrar greiðslubyrði af lánum (sjá Bankarnir bjóði upp á frystingu lána) í ágúst.  Þetta sýnir að greiðsluvandi heimilanna hófst löngu áður en bankarnir féllu.
  2. Fyrstu hugmyndir um úrræði fyrir almenning komu í september (sjá Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning).
  3. Tillögur um niðurfærslu húsnæðislána (9.10.) sem fóru inn í pakka Talsmanns neytenda (sjá Tillögur talsmanns neytenda)
  4. Þá kom Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
  5. Tillaga um að leita til AGS: Við þurfum að brjóta odd af oflæti okkar
  6. Vangaveltur um Á hverju munu Íslendingar lifa?
  7. Ákall um að komið sé til móts við almenning: Hinn almenni borgari á að blæða og Færa þarf höfuðstól lánanna niður
  8. Að verja störf fólks: Að halda uppi atvinnu skiptir sköpum, Mikilvægast að varðveita störfin, Hvar setjum við varnarlínuna?
  9. Þegar leið á október óx óþolinmæði mín yfir skort á viðbrögðum Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
  10. Næst gerðist það, að DV valdi mig sem forsætisráðherra í ríkisstjórn alþýðunnar og setti ég fram ýmsar hugmyndir (sjá Ríkisstjórn alþýðunnar í DV).
  11. Og þá var meiri gagnrýni á aðgerðir ríkisstjórnarinnar sett fram: Leið ríkisstjórnarinnar er röng
  12. Síðan set ég fram brjálæðislega hugmynd, sem ég átti ekki von á að yrði að veruleika: Þurfum við stjórnarbyltingu?
  13. Ingibjörg Sólrún taldi allt komið í lag 22. nóvember, en ég sagði: Áfallastjórnun vegna bankanna lokið, en allt hitt er eftir
  14. Þá set ég fram Aðgerðaráætlun fyrir Ísland og aftur hér Aðgerðaráætlun fyrir nýtt Ísland
  15. Nú ég hef margoft bent á að Það er verðbólgan að baki sem er mesta vandamálið
  16. Mér fundust flest viðbrögð stjórnvalda byggjast á því að fórna heimilunum (sjá 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna)
  17. Í byrjun árs sagði ég 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
  18. Enn og aftur velti ég stýrivöxtum fyrir mér (sjá Hafa stýrivextir eitthvað með gengi krónunnar að gera í þessu árferði?)
  19. Þá var kominn tími til að hætta að kvarta frá tölvunni og gera eitthvað.  Ég fór á stofnfund nýrra samtaka og bauð mig fram til stjórnarsetu.  Nú er ég í varastjórn samtakanna (sjá Hagsmunasamtök heimilanna stofnuð)
  20. Ég gagnrýni ríkisstjórnina fyrir Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
  21. Og benti á að Björgunaraðgerðir vegna Seðlabankans geta nýst heimilunum
  22. Þá kemur Tillaga um aðgerðir fyrir heimilin
  23. Ítreka að breytinga sé þörf: Oft var þörf en nú er nauðsyn
  24. Og set fram hugmyndir í færslunni Aðgerðir fyrir heimilin
  25. Þá vara ég við því að Heimilin eigi að fjármagna bankana með fasteignum sínum og að bankarnir ætli að Taka á sig tapið hjá þeim stóru, en hvað með litlu aðilana?
  26. Eftir allt þetta set ég saman greininguna Vandi heimilanna: Tilraun til greiningar
  27. Þá vil ég Ekki spyrja um kostnað heldur ávinning
  28. Og loks velti ég því fyrir mér: Er hægt að ógilda verðtryggða og gengistryggða lánasamninga?
Ég tek það skýrt fram að hér og þar í bloggum mínum eru ekki eins góðar hugmyndir.  Ég treysti eins og flestir að menn væru að segja satt, en ekki væri verið að ljúga endalaust að fólki.  Grófast þykir mér í þegar litið er í baksýnisspegilinn, að ekki hafi verið hlutlausir innlendir greiningaraðilar, sem gátu gefið almenningi og stjórnvöldum rétta mynda af því sem var að gerast.  Davíð Oddsson lagði Þjóðhagsstofnun niður fyrir að vera honum ekki sammála og þar með fór eini aðilinn sem við, almenningur, gátum verið þokkalega viss um að segði okkur sannleikann undanbragðalaust.

Eftirlitið ber ekki sök á glannaskap bankanna, bara á að hafa ekki stoppað hann

Á ýmsu átti ég von en því að hið veika íslenska fjármálaeftirlit hafi verið margfalt betur mannað hlutfallslega en hið stóra öfluga Financial Services Authority (FSA) í Bretlandi.  Ég hef alltaf staðið í þeirri trú að FSA væri fyrirmynd annarra fjármálaeftirlita, en svo kemur kaldur sannleikurinn í ljós.  Það var engan veginn í stakk búið til að sinna starfi sínu.  Það sem meira er, að mjög líklegt er að fjármálafyrirtæki hafi leitað í jafnríku mæli til London með starfsemi sína, vegna þess að þau fundu út að þar var veikt eftirlit.  Ég hafði svo sem oft skoðað útgáfur FSA og stundum fundist þær rýrar, t.d. er FSA handbook oft bara beinagrind, en taldi bara að bakvið lægju skjöl sem ég hefði ekki aðgang að.  Nú veit er að svo er ekki.  Kröfurnar eru slappar, svo einfalt er það.

Annars eru menn brjálaðir í Bretlandi yfir kostnaðinum sem fór í FSA og árangrinum af starfsemi þess.  Hér á landi gráta menn bara árangursleysið.  Ég held að vandi liggi í því að fyrirtækin sjálf eru vísvitandi eða af gáleysi að leggja of litla áherslu á sitt innra eftirlit.  Hvernig stendur á því að kannski í kringum 10 manns eiga að sjá um stjórnun upplýsingaöryggis, regluvörslu og innri endurskoðun fyrir 1.500 - 2.000 manna banka?  (Miðað við starfsemi hér á landi.)  Í þessu felst bullið, þar sem fyrirtækin eiga ekki að rembast við að uppfylla öryggiskröfur vegna þess að FME eða FSA gætu bankað upp á.  Þau eiga að gera það, vegna þess að það er gott fyrir afkomu fyrirtækisins.

Við erum búin að læra, að það eykur öryggi okkar umtalsvert, ef við lendum í bílslysi, að hafa bílbeltin spennt.  Rannsóknir hafa leitt í ljós að það eru meiri líkur á að sleppa ómeiddur eða lítið slasaður úr 99% bílslysa, ef beltin hafa verið spennt.  Samt er alltaf einhverjir sem spenna ekki beltin.  Þeir taka frekar sjensinn á því að verða ekki gripnir af lögreglu og að sleppa við slys.

Bankarnir gerðu þetta og það sem meira er, þeir halda ennþá uppteknum hætti.  Þeir valsa um hagkerfið án þess að vera með beltin spennt.  Samt eru þeir nýbúnir að lenda í mjög alvarlegu slysi sem kostaði miklar fórnir.  Ekki bara fyrir þá, heldur hagkerfið í heild. Það er því grafalvarlegur hlutur, að þeir hafi ekki fjölgað í þessum grunneftirlitsstörfum sínum.  Allir stóru bankarnir eiga að vera með mun fleiri í upplýsingaöryggismálum, regluvörslu og innri endurskoðun, en þeir höfðu fyrir hrunið.  Ein ástæða stendur það upp úr.  Nú eru meira og minna allir starfsmenn bankanna í þeirri óþægilegu stöðu að hafa lækkað í launum, tapað fjármunum, eru með himinháar húsnæðisskuldir eða að einhver nákominn þeim er í þessari stöðu.  Það er því nauðsynlegt að herða allt eftirlit með starfsmönnunum, þar sem líkurnar á því að þeir fremji auðgunarbrot hafa margfaldast frá því áður.

Ef stjórnvöld geta lært eitthvað af þessum glannaakstri bankanna, þá er það að draga úr hámarkshraða og herða eftirlitið.  Ekki endilega eftirlit FME, heldur auka kröfur til innra eftirlits hjá fjármálafyrirtækjum.  Starfsmannafjöldi hjá innri endurskoðun þarf að byggja á stærð og umfangi, ekki hvað fyrirtækið sjálft vill leggja í þennan þátt.  Sama á við um öryggisstjórnun og regluvörslu.  Einn maður sinnir ekki öryggisstjórnun eða regluvörslu hjá 1.500 - 2.000 manna fyrirtæki, ef einhver árangur á að nást.  Það er bara djók, yfirklór eða hvað eigum við að kalla það. 

Kannski átti FME að vera löngu búið að setja strangari reglur um umfang þessarar starfsemi hjá bönkunum.  En voru það ekki fyrst og fremst stjórnir bankanna, sem áttu að gera þessar kröfur.  Öryggisvitund verður að koma innan frá.  Áhættustýring verður að byggjast á viðskiptalegum og rekstrarlegum markmiðum og hlutverk hennar á fyrst og fremst að vera að tryggja samfelldan rekstur fyrirtækjanna.  Það er hliðarmarkmið að uppfylla réttarfarslegar kröfur og kröfur í samningum við ytri aðila. Öryggismál og innra eftirlit er hagsmunamál hluthafanna, þar sem tekjur þeirra ráðast af afkomu fyrirtækisins.  Því miður hafa menn ekki verið nægilega vakandi fyrir þessu hér á landi (og þó víðar væri leitað) og það þarf að laga.  Eitt veit ég þó, að hert eftirlit FME mun ekki skila eins góðum árangri og aukin öryggisvitund fjármálafyrirtækjanna.  Þetta er vinna sem verður að koma ofan frá og færast niður.  Koma innan frá og færast út.

Þetta er það sem ég fæst við og þykist því vita nokkuð vel hvað ég er að tala um.  Ég hef líka orðið var við breytt viðhorf til öryggismála eða öllu heldur að það er betra að selja mönnum að öryggi borgar sig.  Ég get nefnilega alltaf sagt, ef mönnum finnst einhver möguleiki út í hött.  "Já, en hverjum datt í hug í febrúar í fyrra, að allir bankarnir myndu hrynja í október?"  Ég þarf ekki að segja neitt frekar.  Öll mótstaða, ef svo má segja, er brotin á bak aftur.  En höfum eitt á hreinu:  Það voru ekki bara bankarnir sem voru að leika sér að eldinum.  Stór hluti fyrirtækja landsins var að því líka.  Fyrirtæki geta aldrei varpað sökinni á mistökum sínum á það að eftirlitsaðilinn hafi ekki stoppað þau af.  Það er þeirra eigið hlutverk að stoppa sig af!

Ég bið svo fólk að misskilja mig ekki.  Ég er ekki að taka ábyrgðina af FME.  Það er mín skoðun að stofnunin hafi ekki verið að beita réttum vinnubrögðum.  Ég er heldur ekki að taka ábyrgðina af stjórnvöldum.  Ég er ennþá þeirrar skoðunar að regluverk fjármálageirans hafi verið of opið.  Ég fyrst og fremst að segja að eftirlitið verður að byrja vegna eigin þarfa fyrirtækjanna.  Vegna þeirrar áhættu sem kemur út úr áhættumati fyrirtækjanna.  Allt annað kemur þar á eftir.  Og það var þetta sem fór fyrst og síðast úrskeiðis.  Fyrirtækin vanmátu eða mátu alls ekki áhættuna af gjörðum sínum eða því að bregðast ekki við.


mbl.is Segir breska fjármálaeftirlitið hafa brugðist gersamlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband