Leita í fréttum mbl.is

Aðgerðaráætlun fyrir Ísland

Út um allt þjóðfélagið hafa verið mótaðir hópar, þar sem fólk er að ræða hvað þarf að gera til að koma þjóðfélaginu á skrið aftur.  Eitt glæsilegasta framtakið af þessu er í mínum huga síða Kjartans Péturs Sigurðssonar, ljósmyndara og leiðsögumanns, photo.blog.is, þar sem Kjartan veltir fyrir sér hvernig stórauka megi verðmætasköpun í landinu.  Hvet ég alla sem ekki hafa kynnt sér efni síðunnar að skoða hana.  Ekki síst vil ég hvetja þá ráðamenn þjóðarinnar, sem vilja láta taka sig alvarlega að skoða efni hennar.

Á laugardaginn var ég á vinnuráðstefnu hjá Félagi viðskiptafræðinga og hagfræðinga um aðgerðir fyrir Ísland.  Þar kom saman hópur áhugafólks og velti fyrir sér lausnum á efnahagsvandanum út frá sýn til peninga-, gjaldmiðils- og alþjóðamála, aðrir ræddu endurbyggingu bankanna og eignarhald þeirra, ég var í hópi þar sem fólk var að skoða hvernig skapa mætti fleiri störf og þannig afla þjóðinni meiri gjaldeyris og hugaði einn hópur að líðan þjóðarinnar.  Þarna komu fram margar góðar sem verða kynntar á næstunni.

Sjálfur hef ég birt tillögur að aðgerðahópum, sem þarft væri að setja í gang.  Birti ég þá í færslu hér um daginn, en góð vísa er aldrei of oft kveðin, þannig að ég endurbirti þessa tillögu mína hér.

  1. Fjármálaumhverfi: Verkefnið að fara yfir og endurskoða allt regluumhverfi fjármálamarkaðarins.
  2. Bankahrunið og afleiðingar þess:  Verkefnið að fara yfir aðdraganda bankahrunsins svo hægt sé að læra af reynslunni og draga menn til ábyrgða.
  3. Atvinnumál:  Verkefnið að tryggja eins hátt atvinnustig í landinu og hægt er á komandi mánuðum.
  4. Húsnæðismál:  Verkefnið að finna leiðir til að koma veltu á fasteignamarkaði aftur á stað.
  5. Skuldir heimilanna:  Verkefnið að finna leiðir til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot heimilanna í landinu.
  6. Ímynd Íslands:  Verkefnið að endurreisa ímynd Íslands á alþjóðavettvangi.
  7. Félagslegir þættir:  Verkefnið að byggja upp félagslega innviði landsins.
  8. Ríkisfjármál: Verkefnið að móta hugmyndir um hvernig rétta má af stöðu ríkissjóðs.
  9. Peningamál: Verkefnið að fara ofan í peningamálastefnu Seðlabanka Íslands, endurskoða hana eftir þörfum og hrinda í framkvæmd breyttri stefnu með það að markmiði endurreisa traust umheimsins á Seðlabanka Íslands
  10. Gengismál:  Verkefnið að skoða möguleika í gengismálum og leggja fram tillögur um framtíðartilhögun.
  11. Verðbólga og verðbætur:  Verkefnið að fara yfir fyrirkomulag þessara mála og leggja til umbætur sem gætu stuðlað að auknum stöðugleika.
  12. Framtíð Íslands - Á hverju ætlum við að lifa: Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi nýja atvinnuvegi.
  13. Framtíð Íslands - Hvernig þjóðfélag viljum við:  Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi inniviði þjóðfélagsins.

Einn þessara hópa er í burðarliðunum hjá hópi fólks sem telur rétt að taka málin í sínar hendur.  Það er hópurinn um skuldir heimilanna.  Haft var samband við mig fyrr í gær og óskað eftir þátttöku minni í hópnum, þar sem nota á hugmynd mína um niðurfærslu höfuðstóls lána sem grunninn að vinnu þessa hóps.

Ég held að við getum ekki beðið mikið lengur með að koma með aðgerðaráætlun fyrir almenning í landinu, ef sýn Spaugstofumanni á laugardaginn á ekki að verða að veruleika.  Almenningur bíður eftir áætlunum frá stjórnvöldum um hvað á að gera.  Þá er ég að tala um áætlanir sem greiða úr þeim vanda sem almenningur stendur frammi fyrir. Þær tillögur sem hingað til hafa komið, hafa einblínt á að auka skuldir fólks og tryggja því atvinnuleysisbætur.  Ég get ekki séð að þetta sé það sem fólkið í landinu vill.  Ég fyrir mína parta vil sjá að tekjur mínar dugi fyrir útgjöldum.  Ég vil sjá að fyrirtækjum verði gert kleift að halda fólki í vinnu og að rekstur þeirra breytist ekki of mikið.  Ég vil sjá að rekstrargrundvöllur fyrirtækja og heimila í landinu verði styrktur, þannig að þjóðfélagið dafni en grotni ekki niður.  Ég vil sjá hið opinbera fara út í mannaflsfrek verkefni, þó svo að það kosti pening.  Ég vil sjá hið opinbera viðhalda þjónustustigi sínu, en ekki samdrátt.  Mér finnst sorglegt að ríkisstjórn sem stýrt er af hagfræðingi skuli ætla að skera niður útgjöld og umsvif í niðursveiflunni í staðinn fyrir að fylgja þeirri algildu hagfræðikenningu, að hið opinbera á auka umsvif sín í samdrætti. Ég hef kallað eftir því farið sé í endurreisn íslenska þjóðfélagsins, en ekki aukið á samdráttinn með niðurskurði.  Það besta sem hægt er að hugsa sér fyrir samfélagið, er að tekjur fólks aukist, að sem flestir borgi skatta, að framleiðsla aukist, að útflutningur aukist.  Þetta er grunnurinn að nýju Íslandi og þennan grunn er hægt að leggja strax.  Við þurfum öll að leggjast á árarnar svo að þetta megi verða. 

Ef núverandi ríkisstjórn er ekki tilbúin að hlusta á fólkið í landinu og fara þessa leið með okkur, þá verður hún að víkja.  Ef núverandi ríkisstjórn hefur ekki betri tillögur fram að færa en að hækka álögur og aukna skuldasöfnun heimilanna, þá verður hún að víkja.  Ef núverandi ríkisstjórn ætlar að fórna hagsmunum almennings, þá verður hún að víkja.  Ef núverandi ríkisstjórn hefur engin úrræði fyrir atvinnulífið í landinu önnur en fjöldauppsagnir og gjaldþrot, þá verður hún að víkja.

Ég hef líst þeirri skoðun minni áður, að boða eigi til kosninga í vor.  Þá eigi að kjósa þing, en jafnframt að setja eigi á fót utanþingsstjórn.  Verkefni þingsins verði aftur að fara í ítarlega skoðun á lagasafninu (með hjálp færustu sérfræðinga).  Þessi skoðun eigi m.a. að hafa það að markmiði að endurskoða alla löggjöf sem við höfum innleitt vegna EES.  Eitt af því sem þarf að gera, er að framkvæma áhættu- og kostnaðarmat á þessum lögum og öðrum lögum sem gætu stefnt þjóðarhag í hættu.  Það er líka mín tillaga, að stofnuð verð ný fastanefnd á Alþingi, laganefnd.  Hennar hlutverk verði m.a. að framkvæma (með aðstoð færustu sérfræðinga) slíkt áhættu- og kostnaðarmat á öllum frumvörpum sem lögð eru fyrir Alþingi.  Verkefni hennar verði einnig að fara yfir öll frumvörp sem koma frá ríkisstjórninni, ekki til að stoppa þau af, heldur til að tryggja að hjá Alþingi verði til skilningur á frumvarpinu áður en það er lagt fram, en ekki eftir að það er samþykkt.

Formaður Samfylkingarinnar lýsti því yfir á laugardaginn að áfallastjórnun væri lokið.  Ég mótmælti þessari staðhæfingu hennar í færslu hér sama dag.  Ég vil ítreka mótmæli mín. Sá sem heldur því fram að áfallastjórnuninni sé lokið hefur ekki mikinn skilning á því viðfangsefnum sem við er að glíma og hefur ekki mikinn skilning á áfallastjórnun.  Ég segi viðfangsefni, þar sem ég vil frekar líta á þetta sem viðfangsefni en vandamál.  Og þau eru mörg og flókin, svo sem að styrkja stöðu heimilanna, að halda fyrirtækjum landsins gangandi, að tryggja aðföng til framleiðslufyrirtækja, að koma í veg fyrir að fólk missi störf sín, að koma hjólum fasteignamarkaðarins af stað, að endurreisa traust Íslands erlendis, að gera upp skuldir gömlu bankanna.  Ef við förum ekki að takast á við þessi viðfangsefni og önnur fyrirliggjandi, þá fjölgar þeim bara.  Þau eru nógu flókin núna og erfið viðureignar, þó svo að við látum ekki aðgerðarleysi gera illt verra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 1676995

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband