Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011
Ég hef oft minnst á það, að hrun krónunnar sem varð í undanfara og kjölfari hruns fjármálakerfisins, sé stærsta vandamál íslenska hagkerfisins. Þetta sést t.d. berlega í vanda Orkuveitu Reykjavíkur, bágri stöðu íslenskra fyrirtækja, skuldavanda íslenskra heimila, fáránlega klikkaðri stöðu margra sveitarfélaga í landinu og svo að sjálfsögðu erfiðri stöðu ríkissjóðs. Staðreyndin er nefnilega að ef við þurrkum út áhrifin af hruni krónunnar, þá hverfur stærsti hluti vandans. Vissulega má segja að krónan hafi verið of sterkt skráð og því hafi hún þurft leiðréttingar við, en léleg hagstjórn á árunum fyrir hrun sá til þess að krónan fékk að haldast svona sterk.
Hvað væri öðruvísi, ef krónan hefði ekki hrunið? Mig langar að gera tilraun til greiningar. Ég er viss um að mér yfirsést eitthvað og tel annað með sem lesendur eru ekki sammála um.
1. Gengisbundin lán væru 40 - 60% lægra skráð í íslenskum krónum, en fjármálafyrirtækin hafa viljað halda á lofti undanfarin ár. Þar með hefði greiðslubyrði þeirra haldist óbreytt og viðráðanleg fyrir flesta. Engum hefði dottið í hug að efast um lögmæti þeirra. Þar með hefði sparast ótrúlega mikill tími einstaklinga og fyrirtækja sem hefur farið í þennan slag um "erlend lán". Efnahagur Orkuveitu Reykjavíkur væri bara í góðum málum, fjármögnunarleigur væru ekki í hópi erkióvina bíleigenda, Álftanesbær væri í góðum málum og þyrfti ekki að sameinast Garðabæ, greiðslubyrði gengistryggðra húsnæðislána væri í dúr og moll við greiðsluáætlun og ég væri nánast óþekktur ráðgjafi um upplýsingaöryggismál.
2. Verðbólga hefði haldist innan við 5% á ári frá september 2007 til dagsins í dag. Og meira að segja líklegast innan við 3% stóran hluta tímans. Þetta hefði þýtt hóflega hækkun verðtryggðra skuldbindinga landsmanna. Húsnæðislán hefðu hækkað um innan við 10% frá ársbyrjun 2008 í staðinn fyrir þau rúmlega 30% sem reyndin er. Óánægja landsmanna með verðtrygginguna væri því hverfandi enda yfir litlu að kvarta.
3. Efnahagur bankanna hefði ekki blásið jafnmikið út og raun bar vitni. Stór hluti bólgnunar á efnahagsreikningi bankanna varð vegna falls krónunnar, en ekki vegna útlánaaukningar í nýjum lánum.
4. Erlendar skuldir þjóðarbúsins væru ekki eins ógnvænlegar í krónum talið og þær eru í dag. Vissulegu hefðu þær hækkað eitthvað vegna lána sem stjórnvöld hafa þurft að taka. Upphæð sem er 4.000 ma.kr. í dag væri t.d. ekki nema í kringum 2.000 ma.kr.
5. Icesave-skuld Landsbankans væri um 600 ma.kr. í staðinn fyrir 1.200 ma.kr., en á móti væru eignir bankans líka helmingi minni. Reikningurinn sem Icesave samningurinn snýst um, væri á bilinu 20 - 120 ma.kr. en ekki 40 - 240 ma.kr.
6. Hrun bankanna hefði ekki orðið eins svakalegt í íslenskum krónum og þar með skuldir þeirra við erlenda kröfuhafa. Hugsanlega hefði ríkissjóður átt fleiri kosti og Seðlabankinn líka.
7. Kostnaður ríkissjóðs af endurreisn fjármálakerfisins hefði ekki orðið eins mikill. Helgast það af því að gæði lánasafna bankanna hefði verið betra, þ.e. færri lán í vanskilum eða með greiðslubyrði umfram greiðslugetu lántaka.
8. Minna hefði verið gefið út af "ástarbréfum" og þar með hefði gjaldþrot Seðlabanka Íslands orðið mun minna umfangs. Endurreisn SÍ hefði kostað ríkissjóð verulegar upphæðir, en líklegast innan við 200 ma.kr.
9. Efnahagsaðstoð AGS hefði orðið mun minni að umfangi í íslenskum krónum talið og líklegast líka í erlendri mynt. Það þýðir lægri vaxtabyrði ríkissjóðs.
10. Heimilin og fyrirtækin hefðu haft meiri fjármuni til að nota í neyslu, veltu og fjárfestingar. Vissulega hefði húsnæðisverð lækkað, en það hefði bara hjálpað til við að halda aftur af verðbólgunni.
11. Þrátt fyrir að ríkissjóður hefði tapað einhverjum tekjustofnum vegna hruns bankanna, þá hefði þörfin fyrir hækkun skatta verið mun minni og sama gildir um niðurskurð. Þar sem margar aðgerðir stjórnvalda frá hruni hafa leitt af sér meiri harðindi, þá hefði stöðug króna hjálpað mikið til við að forða slíku.
12. Vissulega hefði þurft kröftuga stjórnun á gjaldeyrismálum þjóðarinnar, þar sem hér á landi er mikið fjármagn í erlendri eigu sem gjarnan vill út. En stöðug króna hefði aukið trúverðugleika hagkerfisins og þar með dregið út flótta fjármagns úr landi.
Á neikvæðu hliðinni, þá hefði ekki dregið eins mikið úr innflutningi og verðmæti útflutnings ekki aukist í íslenskum krónum. Við værum því enn að kljást við óhagstæðan gjaldeyrisjöfnuð. Fjármálakerfið hefði líklegast ekki fengið þennan harða skell, sem það gjörsamlega þurfti á að halda. Hugsanlega hefði ríkisstjórn Geirs H. tekist að bjarga einhverjum banka og þar með haldið að ástandið væri ekki eins alvarlegt og það var. Staða okkar væri nær því sem er að gerast í Írlandi, Portúgal og á Spáni.
Þetta eru vissulega vangaveltur um veröld sem var eða hefði geta orðið.
En aftur að OR. Já, menn fóru geyst þar og talsvert fram úr sér. Menn gleymdu að huga að aðskilnaði milli almenningsveitu og orkuöflunar fyrir stóriðju. Farið var í gæluverkefni með litlu eigin fé. Málið er bara að þetta hefði allt bjargast, ef bara við hefðum verið með einhvern annan gjaldmiðil en krónuna. Gjaldmiðil sem ekki hefði skoppað eins og korktappi í ólgusjó.
Stærstu hagstjórnarmistök síðari ára var að binda ekki krónuna við einhvern annan gjaldmiðil árið 2001. Örmyntin krónan hafði og hefur ekki enn burði til að lifa sjálfstæðu lífi, a.m.k. með þá efnahagsstjórn sem Íslendingar hafa mátt búa við. Hún hefur raunar aldrei haft þá burði. Í árdaga ævi sinnar var hún jafnsterk dönsku krónunni og allt fram til 1920 að farið var að skrá hana sjálfstætt. Síðan erum við búin að sníða tvö núll aftan af og samt er ein dönsk króna yfir 21 íslensk króna. Virði íslensku krónunnar er í dag innan 0,05% af upphaflegu virði hennar fyrir hátt í öld. Hún hefur tapað tapað árlega 8,2% af virði sínu! Frá myntbreytingu er rýrnunin 10,3% árlega, en ef við látum duga að skoða rýrnunina til 31.12.2007, þá er árleg rýrnun (miðað við danska krónu) 9,6%. Verr tókst sem sagt til við að halda genginu stöðugu frá 1981 til áramóta 2007/8, en frá 1920 í gegn um heimskreppu og stríð til ársins 1981!
Ef sama þróun hefði haldið áfram 2008-10 og var frá 1981, þá væri danska krónan 16,59 íslenskar krónur, þ.e. 34,7% hækkun í staðinn fyrir 76,7% hækkun. Munurinn á því gengi og gengi dagsins í dag (1 DKK = 21,773 IKR) er 31,2% en það tekur ekki nema um 3 ár að vinna það upp.
Getuleysi stjórnvalda og Seðlabanka (og Landsbanka fyrir stofnun SÍ) til að hafa stjórn á krónunni er vandamálið. Menn geta falið sig bak við, að hún hafi bjargað einhverju eftir hrun, en gleyma því þá í leiðinni að vangeta stjórnvalda og Seðlabanka til að hafa stjórn á henni var orsök hrunsins, sem og óábyrg háttsemi fjármálakerfisins í undanfara hrunsins. Halda menn að stjórnvöld eða Seðlabankastjórnendur framtíðarinnar reynist þeir töframenn að halda krónunni stöðugri í ólgusjó alþjóðagjaldeyrismála? Ég hef enga trú á því. Framtíð myntmála Íslands verður fjarri íslensku krónunni.
Hvað gerist þangað til? Svarið kom fyrir helgi: Gjaldeyrishöft. Og eftir að þeim líkur verður tekin upp ný mynt, Evra.
Áætlun um fjármögnun OR rædd á morgun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
28.3.2011 | 14:48
Upphaf Internetsins - Í minningu Paul Baran
Menn geta deilt um það hvor þeirra Pauls Barans eða Tims Berners-Lees sé faðir Internetsins eða kannski voru þeir það báðir. Óumdeilt er að Paul Baran er sá sem þróaði aðferð til pakkasamskipta milli tölva og Tim Barners-Lee þróaði http-samskiptaaðferðina svo hægt væri að birta snið upplýsinganna með myndrænum hætti.
Á árunum 1992 til 1995 skrifaði ég um tölvumál í Morgunblaðið. Þetta var á þeim árum, þegar Internetið tók sín fyrstu alvöru skref inn í heim almennings, þ.e. eftir að veraldarvefurinn varð að veruleika. Af þeim sökum var leitað til mín um að skrifa stutta bók um notkun Internetsins í viðskiptalegum tilgangi. Var bók undir því heiti gefin út sem hluti af ritröð Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands og Framtíðarsýnar hf. árið 1995. Hvað sem því líður því hvor skiptir meira máli Baran eða Berners-Lee langar mig að birta undirkafla úr bókinni "Internetið í viðskiptalegum tilgangi" þar sem lýst er tilurð netsins.
Tilurð netsins
Internetið á rætur sínar að rekja til ógna kaldastríðsins. Bandarísk hernaðaryfirvöld óttuðust kjarnorkuárás frá Sovétríkjunum sálugu og voru að velta fyrir sér hvernig hægt væri að hald uppi vörnum ef gerð væri árás á aðalstöðvar hersins. Um líkt leyti sendu Sovétmenn Spútnik á loft (1957) og sýndu svo ekki varð um villst að flaugar þeirra gætu hæft Bandaríkin. Í framhaldi af því fór fram gagnger endurskoðun á mennta- og vísindastefnu Bandaríkjanna.
Innan varnarmálaráðuneytisins var stofnuð sérstök rannsóknadeild, Advanced Research Projects Agency (ARPA), sem átti meðal annars að endurskoða stjórnun hersins með kjarnorkuárás í huga. Rúmlega tíu árum síðar var kynnt í tilraunaskyni tölvusamskiptanet, svo kallað ARPANET, sem var fyrsta kerfið til að leyfa pakkasendingar milli fjarlægra staða (packet-switched computer network). Við hönnun netsins þurfti að takast á við margs konar vandamál. Eitt af þeim var öryggismál. Þeirra tíma tækni bauð ekki upp á mikið öryggi. Þannig gat bilun í einni tölvu orðið til þess að allt samskiptakerfið hrundi, sem var að sjálfsögðu ekki boðlegt. Markið var sett á kerfi sem gat starfað þó einstakir hlutar þess yrðu óstarfhæfir af einhverjum orsökum. Einnig var talið mikilvægt að allar tölvur á netinu yrðu að vera jafnréttháar, þ.e. netið varð að vera jafningja net. Niðurstaðan af þessari hönnunarvinnu var svo sett fram árið 1974 er birt var forskrift að TCP/IP samskiptareglunum. (TCP/IP - Transmission Control Protocol/Internet Protocol ...) Nokkru síðar var ARPANETið tekið í notkun.
Til að byrja með var vöxtur ARPANETs mjög hægur, enda einangraður við rannsóknastofur og stjórnstöðvar hersins. Um miðjan síðasta áratug [(níunda áratuginn)] lagði Vísindaráð Bandaríkjanna (National Science Foundation) það til að háskólar notuðu það til að tengjast ofurtölvum víðvegar um Bandaríkin. Eftir því sem fleiri háskólar tengdust því varð til nýtt fyrirbrigði, sem kallað var Internet. Jafnframt var hernaðarhluti netsins (MIL-NET) skilinn frá til að koma í veg fyrir fikt. Samskipti á Internetinu urðu brátt mikil þrátt fyrir að vera takmörkuð við vísindi og menntamál. Notendur áttuðu sig á hinum miklu möguleikum þess og þægindum sem fylgdu rafrænum samskiptum.
Almenningur áttaði sig líka fljótlega á þessu. Háskólanemar komu út á vinnumarkaðinn og vildu halda í þægindi tölvusamskiptanna. Fyrirtæki settu upp eigin Internetþjóna, en svo nefnist sá tölvubúnaður sem veitir Internet þjónustu. Þróun var hafin sem ekki er séð fyrir endann á. Á hverju ári frá 1989 hefur fjöldi notenda að minnsta kosti tvöfaldast. Árið 1993 var fjöldi notenda í fyrirtækjum í fyrsta sinn í meirihluta. Vöxturinn er slíkur að hann er að sprengja netið. Í janúar 1988 fóru 17,2 gígabæti (GB) af gögnum um menntahluta Internetsins. Tæplega sex árum síðar, í desember 1993, var gagnamagnið á Internetinu orðið 19,2 terabæti (TB).
---
Þetta er hluti kafla sem ritaður var 1995. Margt hefur breyst á þessum tíma og er svo komið að rekstur margra fyrirtækja hreinlega stöðvast komi upp bilun í netsamskiptum. Ótrúlegast af öllu er að nútímatölvusamskipti séu Spútnik að kenna/þakka.
Faðir internetsins látinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.3.2011 | 11:33
Lífeyrissöfnun þingmanna og ráðherra - Kerfi sem er löngu úr sér gengið
Enn einu sinni hefur verið bent á fáránleikann í tengslum við lífeyrissöfnun þingmanna og ráðherra. Tilefnið er í þetta sinn skilnaður, en umræðan er þörf.
Þegar ég var að googla áðan um lífeyrissjóð alþingismanna, þá rakst ég m.a. á grein sem birtist í Morgunblaðinu árið 1991, þ.e. fyrir 20 árum. Þá áttuðu a.m.k. einhverjir sig á því að lífeyrissöfnunarkerfi alþingismanna og ráðherra gengi ekki upp og ekki hefur ástandið skánað síðan. Sjálfur ritaði ég grein í Morgunblaðið 1996 um sama efni og hef tjáð mig um það í opinberri umræðu í tengslum við eftirlaun núverandi ritstjóra Morgunblaðsins, sem á víst réttindi á hverju ári frá störfum sínum sem borgarstjóri, forsætisráðherra og seðlabankastjóri. Hvernig hann semur um sín réttindi við einkaaðila er algjörlega hans mál, en að embættismaður fái stóraukin lífeyrisréttindi eftir nokkur ár í áberandi starfi er gjörsamlega út í hött. Nú tek ég ritstjórann bara sem dæmi til að lýsa göllum kerfisins. Bið ég fólk um að hafa það í huga við ritun athugasemda, að þetta snýst ekki um persónur heldur kerfið.
Eðlilegast er að allir launþegar sitji við sama borð í lífeyrissöfnun, þ.e. að þeir ávinni sér hlutfallsleg réttindi á hverju ári miðað við þau laun sem þeir hafa. Hér er miðað við 2% sem hærra en lífeyrissöfnun á almennum vinnumarkaði er. (Þetta er kerfið eins og ég tel að það eigi að virka.) Þannig hefði borgarstjórinn áunnið sér um 2% á ári af launum sínum fyrir hvert ár sem hann var borgarstjóri, forsætisráðherrann hefði áunnið sér um 2% á ári af launum sínum fyrir hvert ár sem hann gegndi starfi forsætisráðherra, seðlabankastjórinn hefði áunnið sér um 2% á ári af launum fyrir þann tíma sem hann var seðlabankastjóri og ritstjórinn væri að ávinna sér um 2% á ári af launum sínum sem ritstjóri. (Ath. að þetta eru árleg réttindi.) Davíð sat 17 ár í borgarstjórn, þar af 9 sem borgarstjóri. Hann hefði því áunnið sér 34% af meðallaunum þess tímabils (verðtryggt með 3,5% árlegri raunávöxtun), þá var hann forsætisráðherra og utanríkisráðherra í um 14 ár og hefði því samkvæmt þessu átt ávinna sér 28% af meðallaunum þess tímabils (aftur verðtryggt og með 3,5% árlegri raunávöxtun), tæp fjögur ár sat hann í Seðlabanka Íslands sem gera 7-8% af meðlaunum í lífeyrisréttindi og síðan er það spurning hvað hann verður lengi ritstjóri, en verði það til sjötugs, þá verða það 9 ár sem gefa 18% af meðallaunum í lífeyrisréttindi. (Tekið skal fram að vægi uppsöfnunar minnkar eftir því sem líður á starfsævina.) Samtals gerir þetta dágóða uppsöfnun lífeyrisréttinda. Þó tölurnar verði samanlagt hátt í 90%, þá eru þær reiknaðar af mismunandi upphæðum og ekki hægt að leggja þær þannig saman. En í staðinn fyrir þetta, þá eru eftirlaunin 1) eftirlaun sem borgarstjóri; 2) full eftirlaun ráðherra; 3) eftirlaun seðlabankastjóra; og 4) eftirlaun sem hann ávinnur sér sem ritstjóri. Vegna ráðherra sposlunnar þá fær hann fær hann líklegast umtalsvert hærri tekjur á mánuði þegar hann kemst á eftirlaun, en hann nokkru sinni fékk sem launaþegi. (Tekið fram að ég fékk símtal þar sem bent var á villur í fyrri upplýsingum og þeim því breytt.)
Tekið skal fram að ég tek Davíð Oddsson bara sem dæmi um fáránleika kerfisins. Hann hefur vissulega komið að ákvörðunum um þessi mál, en í einhverjum tilfellum varð það til að draga úr fáránleiknum, þó í öðrum tilfellum var það til að auka við hann.
Ég get alveg skilið rök fyrir því að kjörinn fulltrúi sem gegnir áburðarmikilli stöðu eigi að fá góð eftirlaun, en þá og því aðeins að viðkomandi hafi ekki haft möguleika á að afla sér frekari lífeyrisréttinda eftir að hann hætti því starfi. Sama gildir um prófessora, sendiherra, yfirmenn ríkisstofnana eða seðlabankastjóra. Með fullri virðingu fyrir þessum störfum, þá er ekkert sem réttlætir að skattgreiðendur pungi út margföldum eftirlaunum til einstaklings bara vegna þess að honum tókst að koma sér vel fyrir innan kerfisins eða að pólitískir samstarfsmenn útveguðu viðkomandi góðri stöðu eftir að viðkomandi nennti ekki að vera lengur í pólitík eða kjósendur höfnuðu viðkomandi. Að ráðherra geti áunnið sér á 8 árum réttindi sem tekur almennan ríkisstarfsmann 30 ár að ávinna sér, er út í hött. Gleymum ekki því, að hin 22 árin ávann ráðherrann sér líka réttindi. Hann er því kominn sem 44% ávinning af meðallaunum þessara 22 ára auk 60% af ráðherralaunum. Síðan á viðkomandi líklegast 10 ár af starfsævinni eftir sem bæta 20% við. Meðan almenni ríkisstarfsmaðurinn ávinnur sér 80% á 40 árum, þá nær ráðherrann 124%.
Aftur vil ég ítreka að þessi færsla snýst ekki um persónur heldur alvarlega galla í kerfinu. Ég hefði alveg eins getað fjallað um sjónvarpsfréttamanninn, þingmanninn, ráðherrann og sendiherrann Eið Svanberg Guðnason; ritstjórann, þingmanninn, ráðherrann og aftur ritstjórann Þorstein Pálsson; eða endurskoðandann, þingmanninn, ráðherrann og framkvæmdastjórann Halldór Ásgrímsson. Einnig hefði ég getað tekið dæmi um eftirlaun þess sem fetaði slóð lögmanns, prófessors, héraðsdómara og hæstaréttardómara. Málið er að í seinni tíð er mjög algengt að þingmenn og ráðherrar hafi ekki lokið starfsævi sinni þó þingmennsku og ráðherradómi ljúki, svo eru þeir sem enginn vill sjá. Eftirlaunakerfið verður að taka tillit til þess. Séu þessi störf svona erfið að það taki tugi ára að jafna sig á þeim, þá er eðlilegt að það endurspeglist í þóknun fyrir störfin en ekki í sérréttindaeftirlaunum. Eins á að vera gjörsamlega bannað, að menn þiggi eftirlaun frá hinu opinbera meðan þeir sinna launuðu starfi á þess vegum. Má segja Davíð Oddssyni það til hróss að hann þáði ekki ráðherraeftirlaun samhliða launum seðlabankastjóra, þó hann hefði haft rétt á því. Ýmsir aðrir fyrrum stjórnmálamenn hafa ekki allir verið eins vandir að virðingu sinni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.3.2011 | 18:48
Skortir bankana aðild að hluta endurútreiknings lána og hvað þýðir það fyrir endurútreikning lánanna
Undanfarnar vikur hefur lántökum fyrrum gengistryggðra lána borist inn um lúguna og í vefbönkum sínum upplýsingar um endurútreikning áður gengistryggðra lána í samræmi við lög nr. 151/2010. Samkvæmt lögunum, þá skal reikna greiðsluflæði lánanna aftur til útgáfudags og þau bera lægstu vexti Seðlabanka Íslands í samræmi við 10. gr. laga nr. 38/2010 um vexti og verðbætur (vaxtalaga). Er þetta í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 471/2010. Ágreiningur er þó ennþá uppi um frá hvaða tíma Hæstiréttur telur að vextir skv. 10. gr. vaxtalaga eiga að taka gildi og hvort þetta nái eingöngu til lána sem voru með LIBOR vaxtaviðmið.
Umboðsmaður skuldara hefur sent frá sér harðorðatilkynningu og vísar í henni til enn harðorðari umsögn um frumvarpið að lögum nr. 151/2010, þar sem umboðsmaður kemst að þeirri niðurstöðu að krafa um afturvirkni vaxtanna sé brot á neytendavernd í Evrópurétti (sem við erum bundin af) og jafnvel eignarétti samkvæmt stjórnarskrá. Talsmaður neytenda heldur einnig þeirri skoðun fram vef sínum. Fjallaði ég um þetta í færslu í gær og bendi fólki á að kynna sér nánar efni hennar.
Í dag vil ég fjalla nánar um aðildarskort nýju bankana að endurútreikningi vaxta fyrir þann tíma að lánin komust í þeirra eigu. Svo vill nefnilega til, að Sjómannafélag Íslands krafði Arion banka um endurgreiðslu á ofgreiðslu vegna láns sem félagið hafði tekið hjá Kaupþingi og var komið í eigu Arion banka. Þetta er mál nr. 5215/2010 hjá Héraðsdómi Reykjavíkur og var dómur felldur 18. febrúar sl. Krafa Sjómannafélagsins var upp á kr. 19.867.805. Vissulega var uppi ágreiningur um nákvæma tölu, en það er ekki stóra atriðið í þessu máli. Arion banki bar fyrir aðildarskorti, þar sem lánið hafði ekki komist í eigu bankans fyrr en 8. janúar 2010. Héraðsdómur féllst á þessi rök og taldi bankann því eingöngu eiga að greiða Sjómannafélaginu til baka vegna greiðslna eftir þann dag. Gott og blessað. Nú þarf Sjómannafélagið að stefna fyrri eigendum lánsins, þ.e. Seðlabanka Íslands og Kaupþingi.
Ég er ekki viss um að Arion banki átti sig á því hvers konar ormagryfju hann var að opna. Lántakar allra fyrrum gengistryggðra lána sem núna eru í eigu Arion banka geta nefnilega notað sömu rök, þegar kemur að kröfum vegna endurútreiknings lánanna. Þ.e. Arion banki er ekki aðili að málinu fram að þeim degi þegar lánið komst í eigu bankans. Engu máli skiptir að lánið hafi verið í innheimtu hjá bankanum frá því í október 2008, hafi bankinn ekki átt lánið getur hann ekki krafið lántaka um vangreidda vexti í fortíð. Hann getur heldur ekki krafið lántaka um vexti sem endurreiknast á lánin meðan þau voru hjá Kaupþingi fyrir hrun. Sama gildir um lán hjá Íslandsbanka og NBI.
Ekki held ég að stjórnendur Íslandsbanka og NBI kunni lögfræðingi Arion banka miklar þakkir. Það er nefnilega staðfest af starfsmanni NBI að bankinn eignaðist ekki kröfuna fyrr en hún var "flutt yfir til NBI þann 9.10.2008, samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins sama dag", eins og segir í tölvupósti sem ég hef undir höndum. Samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. E-5215/2010, þá var Arion banki ekki aðili að máli Sjómannafélags Íslands vegna endurgreiðslukröfu nema frá þeim degi sem lánið varð eign bankans. Ég veit ekki hvort dagsetning flutnings láns frá Landsbanka Íslands til NBI sé líka dagsetning "eigendaskipta". Mér finnst raunar líklegra að þessi "eigendaskipti" hafi átt sér stað síðar og tel að grunnforsenda slíkra "eigendaskipta" sé að stofnefnahagsreikningur hafi verið orðinn til.
Gefum okkur samt að fyrrum gengistryggð lán hafi komist í eigu NBI í októberbyrjun 2008. Gefum okkur líka að ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur verði staðfest í Hæstarétti. Þar með verður NBI eingöngu málsaðili að endurútreikningi lána frá 9.10.2008 til dagsins í dag. Hvað varðar Íslandsbanka, þá er dagsetningin líklegast 10.10.2008 eða síðar. Hvað Arion banka varðar komu lánin yfir á misjöfnum tíma.
Ef við færum þetta allt yfir á lán tekið í september 2005 að fjárhæð kr. 10 m.kr. Samkvæmt útreikningum frá banka voru greiddar um 2,0 m.kr. í vexti af láninu meðan lánið var hjá gamla bankanum, endurútreiknaðir vextir til 12.9.2008 eru hins vegar tæplega 5,3 m.kr. mismunur upp á um 3,3 m kr. Bætum þessum mánuði sem upp á vantar við og talan er komin í um 3,5 m.kr. Um þessa upphæð er nýi bankinn að krefja lántakann, auk þess sem bankinn krefur hann um vexti á þessa upphæð frá 9.10.2008. Loks greiddi lántakinn ríflega 1,3 m.kr. í afborganir af láninu. (Tekið skal fram að um raunverulegt dæmi er að ræða, þó tölum hafi verið breytt.)
Eins og ég sé stöðuna út frá dómum Hæstaréttar og Héraðsdóms Reykjavíkur og áliti frá umboðsmanni skuldara, talsmanni neytenda og lögfræðinga sem ég hef rætt við, þá sýnist mér að höfuðstóll umrædds láns hafi staðið í 8,7 m.kr. við færslu þess frá gamla bankanum til þess nýja, þ.e. upphaflegur höfuðstóll mínus afborganir á nafnvirði. Þá eigi nýi bankinn rétt á því að reikna sér samningsvexti frá yfirtökudegi til 16/9/2010, þegar Hæstiréttur felldi úrskurð sinn nr. 471/2010, en eftir það vexti Seðlabanka Íslands í samræmi við 10. gr. vaxtalaga. Vissulega eru bankarnir ekki sammála því að eingöngu megi reikna Seðlabankavexti frá 16/9/2010, en það er þeirra að sækja mál um þann ágreining, en ekki lántaka að verjast hærri kröfunni. Mér finnst eðlilegast að einhver banki fari í prófmál til að fá úr þessu skorið, frekar en að níðast á lántökum, sem nóg hafa mátt þola, með hærri vaxtakröfu en ótvírætt er að hafi rétt til.
Höfum í huga, að nýju bankarnir tapa ekkert á því að kröfurnar sem þeir eiga séu minna virði. Með því að greina á milli aðildar nýja og gamla bankans að hugsanlegri vaxtakröfu í samræmi við dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-5215/2010, þá gerist það eitt að hluti kröfu sem nýi bankinn taldi sig eiga færist til gamla bankans. Samanlagðar eignir bankanna breytast ekkert. Þegar síðan dómur fellur, sem tekur á því hvort krafa sé réttmæt eða ekki, þá kemur í ljós hvers virði krafan er fyrir gamla bankann.
Loks vil ég velja athygli á frétt mbl.is frá því í morgun (sjá http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2011/03/22/urskurdur_hristir_upp_i_thyska_bankakerfinu/). Í henni kemur fram að Deutsche Bank hafi verið snupraður af þýskum dómstóli fyrir að taka stöðu gegn viðskiptavini sínum. Er þetta í mínum huga stórmerkilegur dómur. Ástæða hrunsins má einmitt að stórum hluta rekja til þess að fjármálafyrirtæki stór og smá voru ítrekað að vinna með einum hópi viðskiptavina sinna og í eigin viðskiptum gegn hagsmunum viðskiptavina sem minna máttu sín. Áhugavert yrði að sjá nánari greiningu á þessum dómi frá Þýskalandi, t.d. á hvaða lögum hann er reistur og tengingu þeirra laga við Evrópurétt.
Lögin stríða gegn neytendarétti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 23.3.2011 kl. 14:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.3.2011 | 12:04
Ríkisskattstjóri svarar fyrirspurn
Ég átti gott spjall við Skúla Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóra, rétt í þessu vegna fyrirspurnar minnar til hans í síðustu viku (sjá Bréf til ríkisskattstjóra). Hann var hissa á því að svar hafi ekki borist, þar sem það hafi verið sent til mín fyrir helgi og endursendi það meðan spjall okkar varði. Bar það þess merki að vera talið spam og gæti það verið skýring á því að fyrri póstur barst ekki. En hér kemur svarið:
Í tilefni af bréfi yðar til ríkisskattstjóra dags. 16. mars 2011 þar sem fjalla er um áritun í skattframtöl einstaklinga 2011 að því skuldir og vaxtagjöld [séu ekki rétt skráð] vill embættið taka eftirfarandi fram:
Með auglýsingu dagsettri 3. janúar sl. kallaði ríkisskattstjóri eftir upplýsingum vegna framtalsgerðar o.fl. á árinu 2011. Auglýsingin var með vísan til 92. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt sem kveður á um að ríkisskattstjóri geti ákveðið almenna skyldu um að skilað sé skýrslu um atriði sem máli skipta varðandi álagningu skatta. Í áttunda tölulið þeirrar auglýsingar voru lánastofnanir skyldaðar til að skila inn upplýsingum um lán til einstaklinga. Auglýsingin var birt í B-deild Stjórnartíðina, nr. 8/2011, og var birt 12. janúar sl. Fjármálastofnanir skiluðu þessum upplýsingum með rafrænum hætti og voru upplýsingarnar síðan áritaðar inn á framtöl einstaklinga. Áritun upplýsinga inn á framtöl, svo sem um laun eða skuldir við banka, er gerð til að auðvelda framtalsskil og gera þau öruggari og réttari. Eftir sem áður bera framteljendur ábyrgð á framtalsskilum sínum og ber að yfirfara þær upplýsingar sem þar eru og fullvissa sig um að þær séu réttar.
Þegar farið er inn á vefframtalið er vakin sérstök athygli á þessari skyldu og að framteljandi þurfi að yfirfara framtalið og kanna hvort áritaðar upplýsingar séu réttar og það áréttað að framtalsskilin séu ætíð á ábyrgð framteljanda en þar segir: Framtalsskil eru alltaf á ábyrgð framteljanda. Því þarf að fara vandlega yfir þær upplýsingar sem eru áritaðar á framtalið, bæta við því sem kann að vanta og gera leiðréttingar ef tilefni er til. Framteljendum ber því að leiðrétta áritaðar upplýsingar á framtali séu þær rangar.
Samkvæmt framansögðu voru upplýsingar um stöðu lána og vaxtagjöld áritaðar í skattframtöl einstaklinga eins og þær komu frá fjármálastofnunum. Ef fram koma leiðréttingar á þeim upplýsingum mun ríkisskattstjóri breyta viðkomandi skattframtölum til samræmis áður en til álagningar kemur.
Jafnframt er áréttað að hver einstaklingur getur leiðrétt skattframtal sitt áður en því er skilað til ríkisskattstjóra.
Með vísan til framangreinds þykja því ekki forsendur til að gera breytingar á framtalsfresti einstaklinga af þessum sökum.
Kveðja / Regards
Skúli Eggert Þórðarson
Við ræddum málið frekar og ítrekaði hann þar að séu almennar villur í gögnum frá fjármálafyrirtækjum, þá væri það þeirra að leiðrétta þær og skattsins að keyra leiðréttingarnar inn. Skúli virtist hafa góðan skilning á því sem ég var að benda á og sagði að þegar væri búið að beina fyrirspurn til fjármálafyrirtækjanna um málið. Miðað við skriflega svar hans, þá held ég samt að hann hafi ekki, þegar það var ritað, áttað sig á alvarleika málsins.
Ég ítrekaði við hann, að eðli villnanna í gögnum fjármálafyrirtækjanna væri þannig, að ómögulegt væri fyrir almennan lántaka að átta sig á því hvaða tölur ættu að koma í stað hinna röngu. Áttaði hann sig á því. Ég skýrði líka út fyrir honum eðli dóma Hæstaréttar frá 8. mars sl., þar sem NBI hf. var snupraður fyrir að reyna að innheimta kröfu með gengistryggingu, eins og dómar Hæstaréttar frá 16. júní í fyrra hefðu aldrei fallið. Mér fannst að við það hafi hann enn frekar áttað sig á þýðingu rangra upplýsinga, þar sem nefndi þá til útreikning vaxtabóta og ég bætti svo við útreikning auðlegðarskatts.
Samkvæmt skriflegu svari ríkisskattstjóra (sem mér finnst rýrt í roðinu), þá verða rangar upplýsingar leiðréttar áður en kemur að álagningu. Framtalsfrestur verður þrátt fyrir þessar alvarlegu villur ekki framlengdur. Eina sem ég velti fyrir mér í því samhengi: Munum við skattframteljendur nokkru sinni fá að vita réttar tölur og síðan fá tækifæri til að hafna þeim eða samþykkja?
Tekið skal fram, að ég átti ekki á því að framtalsfresti yrði breytt. Ég tel það hins vegar vera ótækt að ríkisskattstjóri ætli að breyta innsendum framtölum eftir á án þess að ég sem framteljandi fái tækifæri til að samþykkja eða hafna þeim upplýsingum. Segjum nú sem svo að ég hafi lagt á mig vinnu við að endurreikna hinar röngu tölur og fá aðra niðurstöðu en fjármálafyrirtækin, þá þarf það ekki að vera vegna þess að ég hafi reiknað vitlaust. Staðreyndin er sú, að mikill ágreiningur er milli hópa lántaka og fjármálafyrirtækjanna um stöðu áður gengistryggðra lána. Hingað til hafa hóparnir skipst á að hafa betur í dómsmálum. Um þessar mundir snýst ágreiningurinn helst um hvaða vexti fjármálafyrirtæki mega krefjast á lánin og hverjar eftirstöðvar höfuðstóls lánanna eigi að vera. Ýmislegt bendir til þess að þar fari fjármálafyrirtækin offörum og krefji lántaka um vexti sem þeir skulda ekki viðkomandi fjármálafyrirtæki (á bara við þegar krafa hefur færst á milli fjármálafyrirtækja) og að eftirstöðvar höfuðstóls séu þannig rangt reiknaðar. Mun ég fjalla nánar um það síðar.
Viðbót kl. 12:27: Skúli sendi mér póst rétt í þessu og sagði að framteljendur fái alltaf að vita af breytingum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2011 | 22:51
Endurútreikningur án samþykkis lántaka hefur enga merkingu - Afturvirk hækkun vaxta er eign gamla bankans
Flest fjármálafyrirtæki hafa sent lántökum áður gengistryggðra lána upplýsingar um endurútreikning þeirra. Jafnframt hefur lántökum verið tilkynnt að þeir hafi takmarkaðan tíma til að samþykkja útreikninginn og í sumum tilfellum velja leið, eins og það er orðað, þ.e. form láns til framtíðar. Mér finnst rétt að benda fólki á, að nýr samningur tekur ekki gildi fyrr en báðir aðilar hafa skrifað undir. Allt tal fjármálafyrirtækja um annað á sér ekki lagastoð. Fallist lántaki ekki á útreikning fjármálafyrirtækis, þá er hann í fullum rétti að hafna honum eða bara einfaldlega að gera ekki neitt. Þeir sem telja hag sínum betur borgið með því að skrifa upp á nýjan samning ættu að setja fyrirvara um betri rétt neytenda inn á skjalið. Ég hef svo sem heyrt af því að fjármálafyrirtæki hafi hafnað slíkri áritun og einnig að sýslumenn hafi tekið upp á því að neita að þinglýsa slíkum skjölum.
Sem neytandi á ég fullan rétt á því að setja fyrirvara inn á samning sem ég er aðili að. Samningurinn er á milli tveggja aðila og hafi eingöngu annar aðilinn heimild til að skrifa texta samningsins, þá er ekki um samning að ræða heldur krafa annars aðilans á hendur hinum. Tekið er á því í neytendarétti, að samningsákvæði sem sterkari aðili samnings þvingar upp á veikari aðilann geti verið dæmt ólöglegt. Um þetta er líka fjallað í lögum um neytendalán.
Það er ótvíræður réttur neytandans að setja fyrirvara inn í samninga alveg eins og öll þau ákvæði sem sterkari aðilinn setur inn. Hafni lánveitandinn fyrirvaranum, þá er vörn neytandans einföld: Ekki skrifa undir. Undirskrift bindur samninginn og innihald hans. Með því fær fjármálafyrirtækið vald til að innheimta kröfuna samkvæmt efni samningsins. Hafi ekki verið skrifað undir samninginn, þá er fjármálafyrirtækið ekki með neitt í höndunum. Vissulega er gamli samningurinn ennþá í gildi, en samkvæmt dómum Hæstaréttar nr. 30/2011 og 31/2011, þá getur fjármálafyrirtækið eingöngu innheimt kröfuna eins og hún sé í íslenskum krónum. Samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-5215/2010, þá átti Arion banki ekki aðild að kröfu fyrr en eftir að hún komst í eigu bankans. Ef við yfirfærum það á áður gengistryggð lán, þá eiga núverandi eigendur lánanna ekki kröfu á lántaka fyrr en eftir að lánin komust í eigu fyrirtækjanna (í sumum tilfellum hafa kröfur ekki skipt um hendur). Nýju bankarnir eiga því ekki vaxtakröfuna á lántakana, heldur sá gamli. Nýi bankinn á því ekki kröfuna um höfuðstólshækkun vegna afturvirkra vaxta. Hann er samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur ekki málsaðili. Tekið skal fram, að það var Arion banki sem beitti þessari vörn í málinu, þannig að hugmyndin er ekki frá lántakanum komin. Krafan, sem nýi bankinn á, á hendur lántakanum er því upprunalegur höfuðstóll í íslenskum krónum að frádregnum (núvirtum) afborgunum/greiðslum inn á lánið. Síðan á nýi bankinn alveg örugglega ógreidda vexti frá uppkvaðningu úrskurðar Hæstaréttar frá 16. september 2010 í máli 471/2010. Ekki er aftur ljóst hvaða vexti bankinn má krefjast frá því að krafan komst í hans eigu og þar til dómurinn var kveðinn upp.
Bæði umboðsmaður skuldara og talsmaður neytenda hafa fjallað um lögmæti afturvirkrar hækkunar vaxta. Raunar komust þessir aðilar að sameiginlegri niðurstöðu og hefur hún verið birt á vef beggja aðila, þ.e. Um endurútreikning ólögmætra gengislána af vef umboðsmanns og Leiðbeiningar til neytenda í kjölfar endurútreikninga gengislána af vef talsmanns neytenda. Einnig vil ég vekja athygli á umsögn umboðsmanns skuldara um frumvarp að lögum nr. 151/2010, þ.e. lögin sem endurreikningur lána byggir á. Þessir aðilar sem eiga að vernda rétt lántaka eru einróma um að afturvirk hækkun vaxta sé óheimil eða eins og segir hjá umboðsmanni:
Í umsögn sinni um breytingar þær sem gerðar voru á lögunum komu fram athugasemdir umboðsmanns skuldara þar sem því var mótmælt að lögin heimiluðu hækkun eftirstöðvar höfuðstóls í kjölfar endurútreiknings sem og að skuldurum gæti verið gert að greiða bakreikning vegna efndrar skuldbindingar. Umboðsmaður skuldara lagði til að bætt yrði við frumvarpið almennri skýringarreglu þess efnis að endurútreikningur skuli aldrei leiða til viðbótarfjárútláta skuldara. Meirihluti alþingis studdi ekki þessa tillögu.
Annars vegar taldi umboðsmaður skuldara verulegar líkur á að aðferðafræðin við endurútreikning samkvæmt núgildandi lögum samræmist ekki Evróputilskipunum um neytendavernd.
Hins vegar taldi umboðsmaður skuldara að hækkun höfuðstóls og bakreikningar í kjölfar endurútreiknings feli í sér skerðingu eignarréttar og að hugsanlega felist í lögunum ólögmæt eignaupptaka.
Telur umboðsmaður því mikilvægt að aflað verði ítarlegs lögfræðiálits á því hvort lögin séu í samræmi við þær skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist á grundvelli EES-samningsins og hvort lögin stangist á við eignarréttarákvæði íslensku stjórnarskrárinnar. Hagsmunum skuldara er best borgið með því að draga úr þeirri óvissu hið fyrsta
Og í grein talsmanns neytenda segir:
Þrátt fyrir dóm Hæstaréttar frá 14. febrúar sl. liggur því ekki fyrir dómur þar sem fallist er á að endurútreikningur miðað við nýja vexti, sem Seðlabanki Íslands hefur auglýst á hverjum tíma, geti leitt til þess að neytandi standi í skuld.
Á hinn bóginn verður að telja að ýmislegt bendi til þess að slíkur bakreikningur standist ekki - hvorki að íslenskum lögum né Evrópurétti eða jafnvel samkvæmt stjórnarskrá og þjóðarétti. Er þá m.a. byggt á meginreglum kröfuréttar um gildi fullnaðarkvittana, sem margir dómar hafa gengið um, tómlætisreglum og reglum neytendamarkaðsréttar. Þá kunna kröfur um slíka bakreikninga að vera fyrndar.
Í nýlegum dómi um fullnaðarkvittun, sem staðfestur var með vísan til forsendna í Hæstarétti, segir:
Þann 3. maí 2006 greiddi stefnda samkvæmt kröfu eftirstöðvar skuldabréfsins með 766.799 kr. á skrifstofu [innheimtuaðila]. Fékk stefnda kvittun um fullnaðargreiðslu vegna þessa. - Þann 11. maí 2006 barst stefndu bréf frá lögmanni [...] þar sem fram kemur að mistök hefðu átt sér stað við innslátt skuldabréfsins og að greiðsla sú sem stefnda innti af hendi þann 3. maí 2006 hafi ekki verið fullnaðargreiðsla. [...] - Ekki liggur fyrir í málinu sönnun þess að stefndu hafi verið eða mátt vera ljóst þegar hún fékk innheimtubréfið [...] og gekk í framhaldi af því frá greiðslu 3. maí 2006 að fjárhæð kröfunnar væri röng. Sjónarmið um óréttmæta auðgun eiga því ekki við. Stefnda fékk kvittun um fullnaðargreiðslu og mátti því vænta þess að gengið hefði verið frá fullnaðaruppgjöri vegna skuldabréfsins, sem var í innheimtu hjá lögfræðingi í umboði stefnanda. Hefur ekki þýðingu í því sambandi þótt þeirri veðsetningu, sem tryggja átti skuldina með, hafi ekki verið aflýst. Þá leiða reglur um viðskiptabréf til þess að stefnda getur borið greiðslukvittun fyrir sig gagnvart stefnanda, sbr. 2. gr. tilskipunar frá 9. febrúar 1798 um áritun afborgana á skuldabréf.
Samkvæmt þessu hefur fallið dómur um að hafi greiðandi fengið kvittun fyrir greiðslu og ekki er gerð athugasemd um að eitthvað vanti upp á, þá megi greiðandi vera í góðri trú um að rétt hafi verið gert upp.
En þetta er ekki það eina sem bendir til þess að fjármálafyrirtæki álíti uppgjör endanlegt. Þau nefnilega ákváðu að leggja neytendum enn frekar lið með því að koma ekki með bakkröfu á uppgerða samninga eða á fyrir eiganda, þegar eigendaskipti hafa átt sér stað. Fjallaði ég m.a. um þetta í færslunni Fjármálafyrirtæki í klemmu frá 2. mars sl. og talsmaður neytenda fjallar líka um þetta í sínu áliti:
Ákvörðun Íslandsbanka-Fjármögnunar er svohljóðandi samkvæmt tölvuskeyti til talsmanns neytenda í dag:
Uppgreiddir samningar sem falla undir dóma Hæstaréttar hjá Íslandsbanka Fjármögnun.
Þeir samningar sem hafa verið greiddir upp og niðurstaða endurútreiknings felur í sér skuld lántaka miðað við þær forsendur sem endurútreikningur byggist á þá hefur Íslandsbanki Fjármögnun ákveðið að innheimta ekki þá skuld sem er niðurstaða endurútreiknings.
Eins og ég kem inn á í minni umfjöllun, þá er Íslandsbanki-fjármögnun hreinlega að mismuna viðskiptavinum sínum. Af hverju á ég, sem ennþá er að greiða af láni, að greiða afturvirka okurvexti meðan sá sem var svo heppinn að losa sig við bifreið sína í ársbyrjun 2008, þarf þess ekki. Þetta er hrein og klár mismunun.
Loks snýst þetta um neytendavernd í Evrópurétti. Ítrekað hefur verið óskað eftir því við Hæstarétt og Alþingi að leitað verði álits Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) eða EFTA-dómstólsins um þetta um hvort það standist neytendaverndartilskipun ESB að hægt sé að hækka vexti neytendalána afturvirkt. Meira að segja lög nr. 38/2001 um vexti og verðbætur gera ekki ráð fyrir því að fjármálafyrirtækið geti heimt vangreidda vexti afturvirkt heldur er það eingöngu lántakinn sem getur krafið um ofgreidda vexti.
Undirbúningur er kominn á fullt með að fara með mál til ESA. Nú stendur yfir söfnun á fáránlegum málum, þar sem ljóst að engin skynsemi getur verið í afturvirkri vaxtakröfu. Ég er með dæmi um bílalán, þar sem lántaki skuldar fjármálafyrirtækinu aukalega, þrátt fyrir að hafa alltaf staðið í skilum. Einn lántaki var svo óheppinn að taka lán um mitt ár 2006 og endurreiknaðar gjalddagagreiðslur viðkomandi verða umtalsvert hærri en hæstu greiðslur voru miðað við allt að 130% hækkun höfuðstóls. Annar var með kjörvexti Kaupþings á láninu sínu, en Arion banki telur þá einnig eiga að víkja, þrátt fyrir að þeir hafi enga tilvísun í erlendar myntir.
Hvet ég alla þá sem eru með furðulega endurútreikninga að senda mér upplýsingar um þá. Ætlunin er að ná saman góðu safni slíkra mála til að leggja fyrir ESA. Því fáránlegri sem málin eru, þess betra. Einnig óskum við eftir að fá dæmi um mál, þar sem lántaki hafði samkvæmt öllu átt að skulda dágóða upphæð í vangreiddum vöxtum, en fjármálafyrirtækið hefur fallið frá kröfunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.3.2011 | 00:10
110% leiðin leikur Íbúðalánasjóð grátt
Mér finnst það ótrúlegt að þessi vandi Íbúðalánasjóðs sé að koma mönnum á óvart. Hann var gjörsamlega fyrirséður eftir að Jóhanna, Steingrímur, Árni Páll og Guðbjartur ákváðu að semja við fjármálafyrirtækin um að fara 110% leiðina í skuldamálum heimilanna. Hvers vegna var þetta fyrirséð? Jú, ástæðan er einföld og langar mig að skýra hana út hér:
Lán ÍLS til húsnæðiskaupa utan höfuðborgarsvæðisins hefur undanfarin ár ekki miðast nema að takmörkuðu leiti við fasteignamat, en í staðinn miðast við hlutfall af brunabótamati. Síðara matið hefur verið talsvert hærra en hið fyrra og því hafa lánin almennt verið talsvert yfir fasteignamati eignarinnar. Þannig hefur t.d. eign verið metin við kaup á 6 m.kr., brunabótamat verið 10 m.kr. og lán verið 8 m.kr. (þetta er tilbúið dæmi). Fasteignamat hefur lækkað undanfarin ár og fyrir þessa eign hefur það hugsanlega lækkað niður í 4 m.kr., lánið hefur aftur hækkað í 12 m.kr. Samkvæmt 110% leiðinni getur lántakinn sótt um að lán sitt verði lækkað niður í 110% af fasteignamat, en annars af markaðsvirði. Á mörgum stöðum úti á landi er ekki virkur fasteignamarkaður og því bara hægt að miða við fasteignaverð. 110% af 4 m.kr. er 4,4 m.kr. og því gæti niðurfærsla lánsins numið 7,6 m.kr. 12 m.kr. lán er með greiðslubyrði upp á 60.000 kr. á mánuði miðað við lán til 25 ára. Lántaki þarf því ekki að vera með miklar tekjur til að standa undir þessari greiðslubyrði og því er hann að fá niðurfærslu þrátt fyrir að þurfa þess ekki með. Vissulega eru aðrir í þeirri stöðu að ráða ekki við greiðslubyrðina og því er nauðsynlegt að veit þeim lántökum aðstoð.
Ég varaði við því í séráliti mínu við skýrslu "sérfræðingahópsins" svo kallaða, að 110% leiðin myndi nýtast mörgum sem ekki þyrftu á því að halda og ekki nýtast öðrum sem þurfa á því að halda. Afskriftarþörf Íbúðalánasjóðs er skýrt dæmi um að ég hafði rétt fyrir mér. Kaldhæðnin í þessu, er að tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna um leiðréttingu skulda og þak á verðbætur hefðu kostað Íbúðalánasjóð mun lægri upphæð hvað varðar lán til húsnæðiskaupa utan höfuðborgarsvæðisins. Ofangreint lán hefði t.d. fengið leiðréttingu upp á ríflega 2 m.kr. samkvæmt aðferð HH. Tjón ÍLS af 110% leiðinni umfram leið HH er því 5,6 m.kr.
Ekki var nú lögð nein smávinna í það í "sérfræðingahópnum" og skýrslu hans að sverta tillögur HH. Allt var talið þeim til foráttu og ekki var litið við hugmyndum mínum, fyrir hönd HH, að breytingum. Nú er ljóst að menn reiknuðu ekki dæmið til enda eða áttu menn kannski von á því að lántakar utan höfuðsborgarsvæðisins yrðu svona duglegir við að sækja um 110% leiðina?
AGS varðaði við
Ég hef oft varað við því að vandi ÍLS sé ekki bara vegna lána heimilanna, heldur líka lána til sveitarfélaga og byggingafélaga, m.a. verktakafyrirtækja og samvinnufélaga. Samkvæmt svo kallaðri októberskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem kom út í nóvember byrjun 2009, er lagt mat á væntanlegar/nauðsynlegar afskriftir ÍLS. Matið er byggt á gögnum og upplýsingum frá Seðlabanka Íslands og ÍLS og síðan áliti starfsmanna AGS. Þar var gert ráð fyrir að afskriftarþörf ÍLS væri 20% af heildarútlánum eða 140 milljarðar. Þessi upphæð er verulega mikið hærri en þær tölur sem stjórnmálamenn hafa reynt að telja almenningi trú um að væri í farvatninu. Ef þessi tala er síðan brotin upp í afskriftir vegna heimilanna annars vegar og vegna sveitarfélaga og byggingafélaga hins vegar, þá kemur í ljós að skiptingin var á þeim tíma líklegast um 30 milljarðar vegna fyrri hópsins en 110 milljarðar vegna síðari hópsins.Þetta var þá. Vegna fáránlegrar vangetu stjórnvalda til að taka á skuldavanda heimilanna, þá versnaði staða heimilanna verulega frá hausti 2009 fram á haust 2010 og enn hallar undan fæti. Þetta vita fjármálafyrirtækin en stjórnvöld sitja í sinni ótrúlegu afneitun um að láti maður sem vandinn sé ekki til, þá leysist hann sjálfkrafa. Meðan stjórnvöld voru með hausinn ofan í jörðunni, þá jók á vandann. ÍLS sem hafði verið í þokkalegri stöðu gagnvart skuldum heimilanna sogaðist inn í erfiða stöðu bankanna og loks var fallist á, að sjóðurinn tæki á sig stærri hluta afskrifta en þörf hefði verið á, ef tekið hefði verið á málunum af festu haustið 2009, eins og ég lýsi að ofan.
Afneitun stjórnvalda er ennþá megn vegna annarra lána ÍLS en til heimilanna. Sjóðurinn hefur þegar leyst til sín heilu blokkirnar á Austurlandi og stigagangana í Kórahverfi í Kópavogi. Uppsöfnun eigna heldur áfram. Meðan eignirnar eru í eigu ÍLS, þarf sjóðurinn að halda þeim við, greiða af þeim skatta og skyldur, tryggja og halda á þeim hita. Í öðrum tilfellum eignast sjóðurinn ekki eignirnar en býður í staðinn eigendunum (oftast sveitarfélög í miklum fjárhagsvanda) upp á skilmálabreytingar, breytt greiðslufyrirkomulag eða jafnvel niðurfellingu hluta lána. AGS reiknaði með því að þetta jafngilti um 50% af lánum í þessum lánflokki. 50% er há tala og sem betur fer hefur hún ekki orðið að veruleika, en skuldavandinn er ekki liðin hjá, þannig að þegar öll kurl eru komin til grafar, þá er aldrei að vita hvar þetta endar.
Hagsmunasamtök heimilanna vöruðu við
Hagsmunasamtök heimilanna vöruðu við því strax í febrúar 2009 að yrði ekki tekið án tafar á skuldavanda heimilanna, þá myndi það gerast að sífellt stærri hluti íbúðarhúsnæðis endaði í eigu fjármálafyrirtækja. Því myndi fylgja umtalsverð lækkun á fasteignaverði, sem aftur yrði til þess að fleiri eignir enduðu hjá fjármálafyrirtækjunum. Stjórnvöld hlustuðu ekki og fjármálafyrirtækin ekki heldur. Eða að þar á bæ hafi mönnum þótt það æskileg þróun. Nú hefur allt það gerst sem Hagsmunasamtök heimilanna vöruðu við. Fjármálafyrirtækin eru orðin stærsti eigandi íbúðarhúsnæðis í landinu og fátt bendir til annars en að fleiri eignir séu á leið í fang þeirra. Samhliða þessu hefur verð fasteigna lækkað mikið og fasteignamat. Þetta væri svo sem í besta lagi, ef ekki kæmi til 110% leiðin.
Íbúðalánasjóður og önnur húsnæðislánafyrirtæki eru komin í mikinn vanda. Hratt lækkandi fasteignamat og fasteignaverð hefur gert það að verkum að mjög stórir hópar lántaka geta nýtt sér 110% leið fjármálafyrirtækjanna. Einnig er sá hópur sem getur nýtt sér sértæka skuldaaðlögun orðinn talvert stór. Þó velta á fasteignamarkaði taki stöku kippi til að sanna að hann sé með lífsmarki, þá er hún svipur hjá sjón miðað við meira að segja 2001 - 2004. Öll er þessi þróun í samræmi við spár Hagsmunasamtaka heimilanna, spár sem samtökin settu fram til að vara stjórnvöld við svo snúa mætti þróuninni til betri vegar. Því miður skelltu þau skollaeyrunum við varúðarorðum samtakanna, en hlustuðu í staðinn á bljúga rödd fjármálafyrirtækjanna.
Ég er hættur að nenna að segja lengur að ég hafi varað stjórnvöld við. Þau hafa hvort eð er engan áhuga á að hlusta. Ég færði að mínu mati góð rök fyrir máli mínu í séráliti við skýrslu "sérfræðingahópsins". Með hverjum deginum sem líður kemur betur og betur í ljós að rök mín voru gild.
(Sérálitið fylgir með hér fyrir neðan.)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sem fagmaður á sviði áhættustjórnunar, þá hef ég sérstakan áhuga á áhrifum jarðskjálftans í Japan á umhverfið. Segja má að hörmungarnar sem skollið hafa á Japönum séu margar og ólíkar. Fyrst var það náttúrulega stóri skjálftinn. Hann er núna metinn á 9,0 á Richterskala, en í upphafi var hann metinn 7,9. Skjálftinn reið yfir kl. 14:46 á staðartíma föstudaginn 11. mars. En hann var ekki upphaf hamfaranna.
Hamfarirnar hófust raunar með skjálfta upp á 7,2 á Richterskala kl. 11:45 miðvikudaginn 9. mars. Sá skjálfti var nánasta á sama staða og stóri skjálftinn tveimur dögum síðar. Munar aðeins 0,42 lengdargráðum og 0,19 breiddargráðum á þessum tveimur skjálftum eða vel innan við 50 km. Eftir fyrri stóra skjálftann fylgdu síðan fjölmargir skjálftar á bilinu 4,6 til 6,3 áður en sá risastóri kom þann 11. mars.
Svo furðulegt sem það kann að hljóma, þá bendir fátt til þess að tjón af völdum 9,0 skjálfta hafi verið svo mikið, a.m.k. á yfirborðinu. Vissulega hafa birst myndir af vegaskemmdum og sprungumyndunum, en til algjörar undantekningar heyrir að sjá myndir af húsum sem hrundu. Þetta er mjög merkilegt í ljósi þess að í skjálftanum við Kobe, sem var umtalsvert veikari en þessi skjálfti, þá varð mjög mikið tjón á byggingum og mannvirkjum. Raunar svo mikið, að talið er að efnahagshrunið í Japan megi að miklu leiti rekja til tjónsins sem þá varð. Ástæðan fyrir því að svo fáar byggingar skemmdust í jarðskjálftanum sjálfum má rekja til aðgerða sem gripið var til í kjölfar skjálftans og þess hve timburhús eru algeng í Japan. Það er staðreynd að þau eiga mun auðveldara með að standa af sér stóra jarðskjálfta.
Tjónið varð í næstu bylgju og hún var stór. Flóðbylgjan sem skall á land aðeins 5 - 10 mínútum eftir að skjálftinn reið yfir eirðu engu á vegi sínum. Þetta er svipað og í Indónesíu 2004. Aftur gerðist það, að steinsteypt mannvirki stóðu af sér vatnsflauminn, en timburhús sópuðust í burtu. Húsin sem hönnuð voru til að standa af sér stóra jarðskjálfta máttu sín lítils gegn hafinu þegar það ruddist innlands. Á nokkrum stöðu höfðu bæir byggt allt að 10 metra háa sjóvarnargarða til varnar byggðinni fyrir innan. Garðarnir standa heilir, en vatnflaumurinn var einfaldlega svo mikill að hann gusaðist yfir garðana og byggðina fyrir innan. Þeir reyndust því falskt fyrirheit um öryggi.
Þriðja tjónið varð í eldunum sem kviknuðu í molnuðum timburhúsum. Líklegt er að þó fólk hafi lifað af flóðbylgjuna, þá hafi það orðið eldunum að bráð. Menn hafa ekki viljað ræða þetta mikið, en þó má sjá einstaka færslum um þetta inn á milli frétta.
Fjórða áfallið er síðan kjarnorkuslysið í Fukushima Daiichi kjarnorkuverinu. Þar brugðust varnarkerfin eitt af öðru, enda var þeim ekki ætlað að standast bæði jarðskjálfta upp á 9,0 og flóðbylgju. Hugsanlega gæti slysið í Fukushima bæði orðið það erfiðasta að eiga við og sem varir lengst. Annars er áhugavert að fylgjast með fréttum um geislavirkni á svæðinu. Sýndar eru mælingar með klukkutímagildum og þær bornar saman við "náttúrulega" geislun sem fólk verður fyrir á hverju ár. Þar sem klukkutímagildin eru eitthvað undir ársgildunum, þá eru menn á fullu við að telja fólki trú um að allt sé í lagi. Séu klukkutímagildin aftur margfölduð með 24 og svo með fjölda daga, þá kemur í ljós að hættan er meiri en af er látið.
Fimmta áfallið er síðan veðrið, en hitastig er rétt í kringum frostmark á norðanverðu hamfarasvæðinu og snjór yfir öllu. Samkvæmt fréttum á fólk í miklum erfiðleikum með að halda á sér hita og óttast menn að mannfall verði vegna þessa.
Sjötta áfallið er skortur á nauðsynjum. Neyðarstöðin í Sandei segir að allt vanti á svæðið. Vegir eru illfærir og þó þeir væru greiðfærir, þá er ekki til eldsneyti á farartæki. Þar eiga menn ekki einu sinni mat handa hjálparstarfsmönnum hvað þá fleiri hundruð þúsund flóttamönnum sem hafast við í neyðarathvörfum á svæðinu. Af sömu ástæðu er ekki hægt að flytja sjúka, veika og gamalt fólk út af svæðinu. Því miður er hætta á því, að fólk eigi hreinlega eftir að látast úr vosbúð eða skorts á lyfjum og nauðsynlegri læknishjálp. Ég trúi því ekki að fólk verði hungurmorða þarna, en meðan ekki berst nægur matur inn á svæðið, þá aukast líkur á slíku.
Sjöunda áfallið er líklegast það sem fer minnst fyrir og í samhengi við önnur vart hægt að telja með. Það er eldgosið sem hófst í suðurhluta Japans á sunnudaginn. Auk hræringa þar, þá hefur víst mælst aukin virkni í kringum Fuji fjall.
Áhrifin á jarðskorpuna
Óhætt er að segja að jarðskjálftinn á föstudag hafi haft gríðarleg áhrif á jarðskorpuna. Vísindamenn komust fljótlega að þeirri niðurstöðu að öxull jarðar hafi færst um 10 cm. Það er meiri tilflutningur en í stóra skjálftanum í Indlandshafi 2004. Annað sem komið hefur í ljós að Honshu eyja, meginland Japans, hafi færst til um 2,4 m við skjálftann og jarðskorpuflekarnir hafi færst um 18 metra á svæði sem er minnst 400 km langt og 160 km breitt. Nú er það svo að jarðskorpan er bæði teygjanleg og aðlögunarhæfni hennar er mikil, en það kallar allt á breytingar á yfirborði hennar. Sprungur myndast eða hreinlega bara "teygist" á landinu. Þannig þurftu bændur í Mývatnssveit/Gjástykki að bæta heilum 8 metrum inn í girðingu eftir náttúruhamfarirnar á 9. áratugnum, þar sem gliðnun hafði orðið á landinu. 8 metrar er nokkuð drjúgur spotti svo ekki sé meira sagt.
Kóreuskagi mun hafa færst í austur um 5 cm við skjálftann meðan Honshu eyja færðist um 2,4 m. Ekki fylgir sögunni í hvaða átt Honshu eyja færðist, en svæðin tvö eru á aðskildum jarðskorpuflekum. Hvorki 2,4 m né 18 m eru stórar tölur þegar horft er til jarðarinnar í heild. Þetta hlýtur þó að vekja upp spurningar um hvort meiri hreyfinga sé að vænta.
Þó jarðfræðingar hafi keppst við að hafna kenningum að jarðskjálfti á einum stað leiði af sér jarðskjálfta annars staðar, þá er ekki þar með sagt að einhver keðjuverkun sé í gangi. Aðeins eru rúm 6 ár frá síðasta ofurskjálfta og ekki er hægt að segja að tímabilið á milli hafi verið rólegt. Tölfræðilega séð, þá getur það staðist að tveir "hundrað ára skjálftar" eigi sér stað með 6 ára millibili. Annar í lok tímabils og hinn í upphafi annars tímabils. Verði einn í viðbót á næstu 10 árum, þá getur það samt verið eðlilegt út frá tölfræðinni. Staðreyndin er samt sú að flekarnir eru á eilífri hreyfingu. Jarðskjálfti á einum hluta flekamóta losar spennu í kringum skjálftasvæðið, en við það byggist spenna upp á aðliggjandi svæðum. Þetta er ástand sem við þekkjum vel hér á landi. Þannig er þetta líka í eldhringnum í kringum Kyrrahaf og spurningin er því hvenær en ekki hvort næsti stóri skjálfti ríður yfir.Ný og aukin hætta í Fukushima | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.3.2011 | 00:36
Bréf til ríkisskattstjóra
Í framhaldi af færslu minni í fyrrakvöld (sjá NBI tapar málum fyrir Hæstarétti þar sem varnaraðili mætti ekki - Hefur áhrif á skattframtalið) um að forinnskráðar upplýsingar frá fjármálafyrirtækjum um áður gengistryggð lán séu rangar sendi ég eftirfarandi tölvupóst til ríkisskattstjóra:
Berist til ríkisskattstjóra
Ágæti viðtakandi
Ég vil beina kvörtun til ríkisskattsstjóra þess efnis að forinnfærðar upplýsingar frá fjármálafyrirtækjum séu yfir höfuð rangar. Í þeim er ekki tekið tillit til dóma Hæstaréttar frá 16/6/2010 um að gengistrygging sé ólögleg verðtrygging og því sé fyrirtækjunum óheimilt að reikna höfuðstól lána eins og um lán með gengistryggingu sé að ræða. Hæstiréttur staðfesti þennan skilning minn í dómum 30/2011 og 31/2011 sem kveðnir voru upp 8/3/2011. Gera á þá skýlausu kröfu til fjármálafyrirtækjanna að þau sendi ríkisskattstjóra réttar upplýsingar um stöðu lánanna, gjaldfallnar greiðslur síðasta árs og vexti þeirra. Einnig skulu fjármálafyrirtækin taka tillit til laga nr. 151/2010 um vexti og að lán skuli ekki teljast í vanskilum, þó ekki hafi verið greitt af þeim í samræmi við upprunalegan lánasamning.
Jafnframt krefst ég þess að frestur til að skila framtali lengist, svo fjármálafyrirtækjunum gefist færi á að leiðrétta upplýsingarnar og framteljendur hafi eðlilegan tíma til að yfirfara upplýsingarnar eftir að þeim hefur verið skilað inn réttum. Ég get verið kærður fyrir skattalagabrot sendi ég skattayfirvöldum inn framtal með upplýsingum sem ég veit að eru rangar. Með staðfestingu minni við innslátt á auðkennislykli mínum, þá gef ég til kynna að í framtalinu séu réttar upplýsingar. Þar sem fjármálafyrirtækin sendu ekki inn réttar upplýsingar og ekki er hægt að ætlast til þess að ég viti hvaða tölur eru réttar, þá er ég að brjóta lög við innsendingu framtalsins. Af þessari ástæðu krefst ég þess að skattstjóri krefji fjármálafyrirtækin um réttar upplýsingar, þær verði færðar inn í skjal sem framteljendur geta síðan fært yfir í framtalið og hafi hæfilegan tíma til verksins.
Hafa skal í huga að það getur varðað við 248 gr. almennra hegningalaga að gefa upp rangar upplýsingar líkt og fjármálafyrirtækin gera. Finnst mér vel athugandi fyrir skattayfirvöld að kanna hvort fjármálafyrirtækin hafi brotið gegn þessu ákvæði. Dómarnir frá 16/6/2010 voru mjög skýrir og dómarnir frá 8/3/2011 eru það líka. Í þeim síðari er NBI hf. snupraður fyrir að reyna að innheimta gengistryggt lán sem slíkt og bankanum bent á að krafa hans eigi sér ekki stöð í lögum. Það sama á við um forinnskráðar upplýsingar frá fjármálafyrirtækjunum um áður gengistryggð lán. Þær eiga sér ekki stoð í lögum og eru því tilraun grófrar fölsunar á upplýsingum sem gefa skal upp til skatts.
Virðingarfyllst
Marinó G. Njálsson
Nú er bara að bíða og sjá. Mér finnst það liggja í augum uppi að þeir sem eru með áður gengistryggð lán og lán sem falla undir ákvæði laga nr. 151/2010 eru að brjóta skattalög með því að senda skattframtöl inn með upplýsingum fjármálafyrirtækja eins og þær standa núna (tek að vísu fram að ég veit ekki hvernig tölurnar eru frá Íslandsbanka). Þessir lántakar geta því bakað sér refsiábyrgð með því að skila framtölum sínum inn með óbreyttum tölum. Skattinum er örugglega ekki heimilt að sjá í gegn um fingur sér með þetta, fyrir utan að forsendur fyrir útreikning vaxtabóta rjúka út í veður og vind.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
14.3.2011 | 21:59
NBI tapar málum fyrir Hæstarétti þar sem varnaraðili mætti ekki - Hefur áhrif á skattframtalið
Þriðjudaginn 8. mars sl. féllu tveir dómar í Hæstarétti nr. 30/2011 og 31/2011 vegna gengistryggðra lánasamninga einkahlutafélaga. NBI hf. stefndi í hvoru máli lántökum vegna gjaldfelldra mála, en byggði kröfu sína á því að um gengistryggð lán væri að ræða. Allir útreikningar voru því miðaðir við erlendu gjaldmiðlana og gengi þeirra. Stefndu hvorki sóttu né létu sækja fyrir þig dómþing í héraðsdómi, þ.e. það var útivist í málinu, eins og það heitir víst á lagamáli. Þrátt fyrir það tók héraðsdómur málin fyrir og vísaði málunum frá á þeirri forsendu að kröfurnar skorti lagastoð. Meirihluti Hæstaréttar staðfesti úrskurð héraðsdóms, en minnihlutinn vildi vísa málinu heim í hérað til efnislegrar meðferðar. Svo vitað sé í Hæstarétt:
N hf. krafði G ehf. um greiðslu gjaldfallinna eftirstöðva samkvæmt lánssamningi þeirra í millum ásamt vöxtum og reisti kröfu sína á því að skuldbinding G ehf. hefði verið ákveðin í erlendum myntum. Útivist varð af hálfu G ehf. í héraði og var málið tekið til dóms í samræmi við 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, var talið að skuldbinding G ehf. væri ákveðin í íslenskum krónum, bundin við gengi erlendra gjaldmiðla, og skorti kröfuna því lagastoð. Krafa N hf. væri ekki reifuð með tilliti til þess að skuldbinding G ehf. væri í íslenskum krónum og var málinu því vísað frá dómi sökum vanreifunar.
Hér er um merkileg mál að ræða, þar sem lántakar héldu ekki uppi vörnum, en sóknaraðili tapar samt málinu. Þó er það tekið fram að NBI hf. eigi ennþá kröfu á varnaraðila, en hún sé í íslenskum krónum en ekki japönskum jenum og svissneskum frönkum.
Mér er sagt af lögmanni, að bankamenn séu í áfalli vegna þessarar niðurstöðu. Þeir nefnilega héldu að meðan lántaki héldi ekki uppi vörnum, þá gætu fengið svona mál dæmd sér í hag. Svo er greinilega ekki. Fjármálafyrirtæki geta ekki gert kröfu um að fólk eða fyrirtæki greiði af gengistryggðum lánum, eins og þau séu gengistryggð bara vegna þess að fjármálafyrirtækin dettur það í hug. Það þýðir jafnframt, eins og ég hef haldið ítrekað fram, að þau gátu ekki eftir úrskurði Hæstaréttar í málum 92/2010 og 153/2010 haldið áfram að innheimta lánin eins og þau væru gengistryggð. Fjármálafyrirtækin mega bara byggja kröfur sínar á því að lánin hafi verið í íslenskum krónum.
Áhrif inn í skattframtölin
Þessir dómar Hæstaréttar hafa í reynd gríðarleg áhrif. Um þessar mundir eru landsmenn að fylla út skattframtölin sín. Það litla sem ég hef skoðað mitt framtal bendir til þess að forskráðar upplýsingar frá fjármálafyrirtækjum séu rangar, þegar kemur að lánum sem upprunalega voru gengistryggð. Lán okkar hjóna hafa öll verið færð inn eins og dómar nr. 92/2010 og 153/2010 hafi aldrei fallið. Miðað við dóma Hæstaréttar í síðustu viku, þá er ekki lagastoð fyrir þessum kröfum fjármálafyrirtækjanna. Fáránleikinn í þessu er líklegast að ég sem framteljandi verð að leiðrétta vitleysuna sem fjármálafyrirtækin sendu inn.
En þetta er ekki einu villurnar sem ég fann þegar ég opnaði framtalið í gær. Ekki seinna að vænna að byrja, þar sem tíminn er knappari nú en oft áður. Ég var spenntastur fyrir því að sjá mat fjármálafyrirtækjanna á stöðu lánanna minna. Þegar ég skoðaði þær, þá fannst mér eitthvað meiri háttar vera að. Í fyrsta lagi, var eins og dómar Hæstaréttar frá 16. júní 2010 hafi bara verið ómerkilegt blaður í einhverju fólki úti í bæ. Ekkert hafði verið tekið tillit til þessara dóma. Í öðru lagi, var eins og Alþingi hafi bara verið að grínast með setningu laga nr. 151/2010, en þar er tekið á fjölmörgum atriðum varðandi endurmat á öllum lánum sem tekin voru til fasteignakaupa og höfðu viðmið við erlenda gjaldmiðla. Í þriðja lagi, var ótrúlegt ósamræmi á milli þess hvort lán var gefið upp af viðkomandi fjármálastofnun sem húsnæðislán eða ekki. Í fjórða lagi, voru tölur út úr kortinu. Mér telst til að ég hafi átt að greiða hátt í 50 m.kr. í afborganir af lánum á síðasta ári, sem er í engu samræmi við raunveruleikann. Og í fimmta lagi, þá voru tölur um eftirstöðva lána allar mun hærri en átti að vera, þó svo að allt annað hefði verið rétt (sem var ekki). Fyrir einhver fáránleg mistök höfðu tölur verið lagðar saman, þegar eingöngu átti að endurtaka aðra töluna. Í það heila telst mér til að fjármálafyrirtækjunum hafi með þessu tekist að ofmeta skuldir okkar hjóna um 100-130 m.kr., ef ekki meira. Nógar eru þær fyrir þó slembitöluframkallari sé ekki notaður til að hækka þær margfalt.
Ég setti mig í samband við Skattinn út af þessu og eftir hopp á milli starfsmanna skattsins fékk ég loks samband við manninn sem áttaði sig á því hvað var í gangi. Ég tek fram að honum var ekki skemmt yfir þessari vitleysu, en það er mitt að leiðrétta gögnin. (Tekið fram að ég var ekki búinn að lesa dóma Hæstaréttar.) Það er aftur nánast ógjörningur. Hvernig á ég að átta mig á hverjar hefðu átt að vera afborganir láns á síðasta ári, þegar lánveitandinn birtir kolvitlausar upplýsingar um höfuðstólinn. Hann er sagður vera hátt í 50 m.kr., þegar hann er samkvæmt endurútreikningi eitthvað um 8 m.kr. auk vaxta (og verðbóta, kjósi ég þá leiðina). Nú vilji maður leita að nánari upplýsingum um lánin á vefsvæðum fjármálafyrirtækjanna, þá grípur maður yfirleitt í tómt. Þau eru nefnilega farin að senda upplýsingarnar beint til skattsins og þá telja þau ekki lengur nauðsynlegt að segja kúnnanum hvaða upplýsingar þau senda. (Þetta er brot á persónuverndarlögum, ef einhver hefur áhuga.)
Jæja, eins og tíminn til að gera framtalið hafi ekki verið nógu stuttur, heldur þarf maður nú að fara í heilmikla gagnaöflun til að leiðrétta upplýsingarnar sem áttu að létta manni lífið. Upplýsingar sem Hæstiréttur hefur komist að, að hafi átt að reikna rétt strax í júní í fyrra. Finnst mér það helv.. hart. Mér finnst það líka hart að svona vitleysa hafi komist í gegnum kerfið hjá Skattinum. Villa eins og að leggja saman tölur í staðinn fyrir að taka bara aðra, á ekki að eiga sér stað.
Ég þarf að minnsta kosti ekki að óttast að fá ekki vaxtabætur 1. ágúst nk. Bara eitt lán nær í allri þessari vitleysu að vera með vaxtakostnað á síðasta ári upp á ríflega 12 m.kr. Það er náttúrulega tær snilld að geta bætt 12 m.kr. ofan á 8 m.kr. höfuðstól. Ég gæti skilið það, ef viðkomandi lán hefði verið í mörg ár í löginnheimtu með tilheyrandi lögfræðikostnaði, en svo er ekki. Það einfaldlega sló eitthvað út hjá fjármálafyrirtækjunum (tvö ótengd fyrirtæki) og reiknivélarnar þeirra virka ekki rétt. Þetta heitir afneitun og er því miður á mjög alvarlegu stigi. Ég hef haldið því fram frá því 16/6 að fjármálafyrirtækin hafi ekki mátt halda áfram að meðhöndla lánin og innheimta eins og um gengistryggð lán væri að ræða. Ekki í fyrsta skiptið sem Hæstiréttur staðfestir lagaskilning minn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.9.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 31
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 28
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði