Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Er hægt að afturkalla hreppaflutninga?

Ég er í hópi fjölmargra viðskiptavina SPRON, sem var fluttur hreppaflutningum fyrir réttri viku.  Tekin var ákvörðun að mér forspurðum að rjúfa um 45 ára viðskiptasamband mitt við SPRON og flytja yfir í banka sem ég hef hingað til ekki verið í viðskiptum við.  Hvers vegna sú leið var valin, er mér óskiljanlegt og hefur mér sýnst margir vera sammála mér varðandi það.  Hefði ekki verið betra að taka SPRON yfir og selja í heilulagi, en vera með þessa vitleysu.  Það er sem oftar, að gripið er til sleggjunnar, þegar hamar hefði dugað.  Nú þætti mér vænt um, ef hægt væri að ýta á "undo" takkann.

Ég vona innilega, að Margeir ráði til sín stóran hluta af því frábæra starfsfólki sem missti vinnuna um daginn.  Ég vona líka að starfsfólkið sem fluttist yfir í Kaupþing snúi aftur "heim".  Ég þegar heyrt af því að það hafi fengið kúltúrsjokk á nýjum vinnustað.  Vissulega væri akkur af því fyrir Kaupþing að halda því, þar sem það er afburðastarfsfólk og gæti vafalaust smitað út frá sér þeim anda, sem fært hefur sparisjóðunum viðurkenningar viðskiptavina ár eftir ár fyrir að vera hlýlegastir viðskiptabankanna.


mbl.is MP banki eignast SPRON
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir eru þekktir á Google?

Af því tilefni að fyrrverandi Seðlabankastjóri óskapaðist í gjörningi sínum á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í gær yfir því hve þekktir menn eru á Google, þá gerði ég smá könnun.  Ég valdi nokkra "þjóðþekkta" einstaklinga og athugaði hversu vel kynntir þeir væru á Google.  Könnun var þannig framkvæmd, að ég leitaði eftir því nafni sem viðkomandi gengur undir, þ.e. noti viðkomandi millinafn þá var það haft með.  Leitarorð voru sett innan gæsalappa, t.d. "Davíð Oddsson", svo ekki kæmu upp allir Davíðar mannkynssögunnar.  Talan sem Google birtir á fyrstu síðu með niðurstöðum er birt hér sem fyrsta tala.  Því næst var flett, þar til að Google sýndi ekki fleiri færslur og er sá fjöldi birtur undir "Í reynd".  Hafa skal í huga að Google birtir í svona leit í mesta lagi 2 færslur frá hverju léni, þannig að mbl.is telur bara tvisvar hjá hverjum og einum.  Ég geri enga tilraun til að gera upp á milli einstaklinga með sama nafni.  Þannig heita fleiri en einn Davíð Oddsson og Bjarni Benediktsson, nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins, á sér nafna sem er mun þekktari en hann.  Vegna mismunandi ritvenju þá skoðaði ég Svein Harald bæði sem Öygard og Øygard.  Þetta er sem sagt ákaflega óvísindalegt, en svo hefur einnig gilt um alls konar fullyrðingar manna, sem birst hafa á vefsíðum síðasta sólarhringinn eða svo. 

Hér eru niðurstöðurnar í þessari óvísindalegu könnun:

Nafn

Fyrsta tala

Í reynd

Davíð Oddsson

222.000

632

Eiríkur Guðnason

7.500

299

Ingimundur Friðriksson

7.020

304

Svein Harald Øygard

23.200

310

Bjarni Benediktsson

44.200

443

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

48.000

459

Þorgerður K. Gunnarsdóttir

3900

149

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

28.400

282

Steingrímur J. Sigfússon

115.000

350

Jóhanna Sigurðardóttir

134.000

399

 

Miðað við þetta hefur einna minnst verið fjallað um Svein Harald af þeim aðilum sem hér eru til skoðunar, en þegar haft er í huga að maðurinn hefur gegnt starfinu í nokkrar vikur, þá þarf það ekki að koma á óvart.  Annað sem vekur athygli, að lítið hefur farið mönnunum Davíð til hægri og vinstri handa (svo notuð sé samlíking hans sjálfs) þó svo að þeir hafi verið býsna lengi í sínum störfum áður en þeir hættu.


Skoðanakönnun eða kosningaspá?

Mér finnst vera mjög áberandi í flóði "skoðanakannana" að þær eru ekki að lýsa skoðunum fólks, heldur er verið að birta kosningaspár.  Það er haf og himinn á milli þessa.

Í niðurstöðum könnunar Gallups, sem birt var í gær, þá kemur í ljós að það er enginn óákveðinn, það er engin sem ætlar að skila auðu, það var að vísu getið að 76% ætluðu að kjósa.  Þetta endurspeglar ekki niðurstöðu skoðunarkönnunar, heldur er þarna að mínu viti verið að birta niðurstöðu "hreinsaðra" gagna.  Þetta er kosningaspá og á því að birta sem kosningaspá, en ekki niðurstöðu skoðanakönnunar.

Kosningaspá er allt annar hlutur en svör fólks í könnun.  Það er gott og blessað að birta kosningaspá, en ekki telja trú um að þetta séu niðurstöður skoðunarkönnunar.  Til þess vantar alltof mikið.  Í raun má segja að um fölsun á niðurstöður könnunarinnar sé að ræða.  Eigi tölurnar að endurspegla svör svarenda, þá á að birta þau eins og svörin eru gefin upp.  Ef það er ekki gert, þá er lágmark að skýra út hve mörgum svörum var breytt.

Ég vil sem kjósandi, sem ekki er búinn að gera upp hug minn, fá að vita hve stór hluti annarra kjósenda, samkvæmt úrtaki, er ekki búinn að gera upp hug sinn.  Ég myndi líka vilja fá að vita, hver stór hópur neitaði að svara, ætlar að skila auðu eða ætlar yfir höfuð ekki að kjósa.  Að birta bara kosningaspá eftir að búið er að hreinsa út óæskileg svör og kalla það niðurstöðu skoðanakönnunar er ekkert annað en vísvitandi blekking.  Fyrir utan að slík framsetning gagna virkar neikvæð fyrir ný framboð og þá sem sem eru að hugsa sér að styðja ný framboð (sem ég er ekki að segja að ég ætli að gera), þar sem barátta virðist gjörsamlega vonlaus.


mbl.is Tekjuháir færa sig um set
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kunnuglegur útúrsnúningur um LSR í fréttum Stöðvar 2

Stöð 2 bar saman epli og appelsínu í fréttatíma sínum í kvöld.  Þar voru þeir að skoða stöðu LSR og kölluðu í viðtal helsta afbakara stöðu LSR í gegnum tíðina, þ.e. Pétur Blöndal, alþingismann.  Minnst var á í fréttinni að LSR vantaði mikið til að standa undir skuldbindingum sínum.  Pétur reyndi að tengja þetta við lélega stjórn Ögmundar Jónasson, sem formanns stjórnar sjóðsins, og gaf í skyn að ávöxtun sjóðsins væri svona léleg.  Talaði hann um að Ögmundur bæri ábyrgð á því að svona eitt stykki icesave vantaði inn í eignir sjóðsins, svo hann stæði undir skuldbindingum.

Málið er að ákveðinn hluti skuldbindinga LSR kemur ávöxtun sjóðsins ekkert við.  Þær hækka nefnilega í takt við kjarasamninga. Í hvert sinn, sem nýr kjarasamningur er gerðir, ætti ríkið að greiða inn í sjóðinn andvirði hækkunar skuldbindinga vegna samninganna.  Það hefur brugðist.  Þetta veit Pétur Blöndal og að kenna Ögmundi Jónassyni um skuld ríkisins við LSR er vitleysa sem Pétur hefur orðið uppvís að oftar en einu sinni.  22. maí 1996 svaraði ég þessu bulli í þingmanninum með grein í Morgunblaðið.  Greinina er hægt að lesa hér - Lífeyrisréttindi.  Verð ég að viðurkenna, að ég skil ekki af hverju þingmaðurinn heldur sífellt áfram með þessar rangfærslur sínar.  Hann veit að hann er að fara með rangt mál, en það virðist ekki skipta hann neinu máli.  Sorglegt í meira lagi.

Vissulega tapaði LSR við hrun bankanna, en það er ekki það sem Pétur er að draga fram til að koma óverðskuldugu höggi á Ögmund Jónasson.  Mismunurinn á eignum og skuldbindingum LSR, sem Pétur Blöndal var að benda á í frétt Stöðvar 2, er eingöngu vegna nýrra kjarasamninga.  Hækki laun kennara, þá aukast skuldbindingar LSR.  Ríkið á að bæta sjóðnum þetta upp, en gerir ekki.  Þannig myndast misræmið sem Pétur var að benda.  Það er besta mál að benda á þessa staðreynd og ætla ég ekki að setja út á það, en hann átti að láta þar við sitja.  Það er Ögmundi gjörsamlega óviðkomandi að fjármálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa ekki bætt LSR upp auknar skuldbindingar sjóðsins, eins og lög kveða á um.

Það skal tekið fram, að eftir grein mína fyrir nærri 13 árum, þá tók ríkissjóður sig tak.  Á þeim tíma voru eignir LSR 20 milljarðar, en skuldbindingar 70 millarðar.  Á næstu 10 árum eða svo gerði ríkissjóður upp við LSR, en slíkt verður að gera í kjölfar allra nýrra samninga við ríkisstarfsmenn. Þetta hefur ríkissjóður verið að spara sér undanfarin misseri eða hefur ekki lokið við verkið.

Það er svo allt annað mál, að LSR tapaði einhverjum 50 milljörðum á hruni bankanna.  Ég verðviðurkenni fúslega, að þar er ábyrgð stjórnar og stjórnenda sjóðsins einhver.  Hvort hún er eins mikil og ábyrgð stjórnar, stjórnenda og þeirra stofnfjáreigenda SPRON sem stóðu að hlutafélagavæðingu SPRON (m.a. Péturs Blöndals) á 50 milljarða tapi hlutabréfaeigenda frá skráningu til falls sjóðsins í síðustu viku, læt ég aðra um að dæma.  En mér finnst Pétur vera að kasta grjóti úr glerhúsi.


Falsanir í niðurstöðum skoðanakannana

Ég hef í dag átt í skoðanaskiptum við bloggarann Svanborgu um skoðanakannanir.  Þekki ég svo sem engin frekari deili á bloggaranum, en hitt er að ég furða mig á ýmsum ummælum hans (bloggarans).

Ég er þeirrar skoðunar að aðferðafræði sumra fyrirtækja, sem sjá um skoðanakannanir, virki gegn nýjum framboðum og vinni með ríkjandi flokkakerfi.  Ég vil raunar ganga svo langt að segja, að niðurstöður skoðanakannana séu hrein og bein fölsun á þeim skoðunum sem gefnar voru upp.  Er þetta m.a. vegna þess, að fyrirtækin eru að rugla saman könnun á viðhorfi fólks til stjórnmálaflokka og svo spá þessara sömu fyrirtækja á hugsanlegri útkomu flokkana í kosningum.  Þetta eru nefnilega tveir ólíkir hlutir.

Rök mín eru:

1.  Hluti óákveðinna er vísvitandi minnkaður með þvinguðum spurningum.

Þessi aðferð viðheldur gamla flokkakerfinu á þann hátt að hlutfall óákveðinna er ekki birt eins og það kemur út úr fyrstu spurningu. Með því eru færri sem sjá tilgang í því að kjósa nýja flokka, þar sem líkurnar á því að þeir komi manni að minnka. Fólki finnst það vera að eyðileggja atkvæðið sitt með því að kjósa þá. Ef það kæmi í ljós að hlutfall óákveðinna er í raun 40%, þá lítur dæmið allt öðruvísi út.

2.  Hluta óákveðinna er dreift hlutfallslega á önnur framboð en D í sama hlutfalli og þeir ákveðnu dreifðust. 

Ég held ég geti fullyrt að stærsti hluti kjósenda getur sagt til um hvort líklegt sé að hann kjósi Sjálfstæðisflokkinn eða ekki. Að segja að allir aðrir óákveðnir hagi sér eins og hjörðin viðheldur flokkakerfinu og er fölsun á skoðunum fólks.

Ég man eftir skoðunarkönnun einhvers fyrirtækis í janúar. Þá kom í ljós að hátt í 50% neituðu að svara eða voru óákveðnir. Samt var fullyrt að Sjálfstæðisflokkurinn hefði 32% fylgi, Samfylkingin 28% og aðrir flokkar minna. En í raun hafði Sjálfstæðisflokkurinn bara 16% fylgi og Samfylkingin 14%. Þannig að í staðinn fyrir að ríkisstjórnarflokkarnir hefðu stuðning meirihluta landsmanna, eins og sagt var í fréttinni, þá studdi eingöngu 30% landsmanna flokkana. Það má ekki hunsa vilja óákveðinna í skoðanakönnunum og menn mega ekki blanda saman niðurstöðum könnunarinnar og spá þeirra um úrslit í kosningum. Í tilfellinu með um 50% sem neita að svara eða eru óákveðnir, þá er bara einfaldlega ljóst samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar hvernig helmingur þingsæta skiptist, en hinn helmingurinn er óljós. Svo einfalt er það. Þetta er það sem ég á líka við um, þegar ég tala um falsaðar niðurstöður kannana.

Skoðanakannanir um fylgi flokka snúast ekki um að sýna fjöldann sem fylgir flokk heldur hundraðshluta. Fjöldinn skiptir því ekki máli. Ef “atkvæðum” þeirra sem svara spurningunni "hvort heldurðu að þú kjósir Sjálfstæðisflokkinn eða ekki?" þannig að þeir ætla ekki að kjósa Sjálfstæðisflokkin, er dreift jafnt á alla hina miðað við afstöðu annarra sem voru búnir að svara, þá er ekki verið að breyta neinum hlutföllum í þeim hópi. Það er verið fullyrða að hlutföllin haldist óbreytt. Í þessu fellst m.a. fölsunin. Síðan er fækkað í hópi óákveðinna, þó svo að fjöldi þeirra sem er óákveðinn hafi ekkert breyst. Önnur fölsun.

Enn og aftur, það má ekki blanda saman niðurstöðum skoðanakönnunar og spá um fylgi.


Lífeyrissjóðir eiga "þolinmótt fé"

Árið 2008 var afleitt í ávöxtun lífeyrissjóðanna.  Heimsendahamfarir gengu yfir íslenska fjármálakerfið og ástandið utan landsteinanna var lítið skárra.  Tap lífeyrissjóðanna var gríðarlegt, en það sem verra var, að það fór samfara mikilli verðbólgu.  Þetta tvennt verður til þess að ávöxtun (á hvaða formi sem er) lítur mjög illa út fyrir það ár.  Það sem meira er að eignarstaða sjóðanna lítur illa út vegna mikillar lækkunar eignaverðs bæði hér á landi og erlendis.

Lífeyrissjóðir eru í eðli sínu langtíma fjárfestar.  Vissulega er gott fyrir sjóðina að sýna góða ávöxtun á hverju ári, en mestu skiptir að ávöxtun yfir langan tíma sé góð.  Að ætla að nota stöðu í miðjum hamförum sem vitnisburð um ávöxtun lífeyrissjóðanna er í besta falli fáránlegt.  Að grípa neikvæðasta viðmiðunarpunktinn og mæla út frá honum ber ekki vott um mikla skynsemi.  Satt best að segja, þá finnst mér það frábær árangur lífeyrissjóðanna að hafa skilað 2,5% raunávöxtun á ári síðustu 10 ár, ef tekið er mið af þeim mikla skelli sem sjóðirnir fengu árið 2008. 

Við skulum hafa í huga, að lífeyrissjóðirnir töpuðu yfir 200 milljörðum króna við fall bankanna.  Það um 12% af eign þeirra miðað við stöðu í lokárs 2007.  Ofan á þetta tap bætist tæplega 18% ársverðbólga. Þetta er hátt í 30% tap!  Ef þessum tölum er sleppt, fer raunávöxtun sjóðanna úr 2,5% í 5,5% á ári sl. 10 ár.  Ef bankarnir hefðu fallið í 8% verðbólgu í staðinn fyrir 18%, þá hefði ávöxtunin verið 3,5%.

Lífeyrissjóðirnir eru, eins og áður hefur verið bent á, langtíma fjárfestar.  Fé þeirra er svo kallað þolinmótt fé.  Vissulega er það skylda sjóðanna að bregðast við breytingum á fjármálamörkuðum, en það var ekki í mörg skjól að leita.  Norski olíusjóðurinn, sem er í reynd lífeyrissjóður Norðmanna, varð fyrir mun meiri skell en íslensku lífeyrissjóðirnir, en samt hrundi norska fjármálakerfið ekki.  Væru Norðmenn með verðbólgu í samræmi við það sem hér er, þá hefði rauntap hans verið hér um bil tvöfalt á við áfall íslensku lífeyrissjóðanna.

"Þolinmótt fé" hefur tíma til að bíða og það verður hlutverk lífeyrissjóðanna núna.  Þeir verða að taka kinnhestinum sem þeir fengu hér innanlands, en bíða af sér hamfarastorminn erlendis.  Það er ekki sanngjarnt að nota stöðu sjóðanna í árslok 2008 sem mælikvarða á ávöxtun þeirra.  Besta mál að hafa hana bak við eyrun og einnig besta mál að nota tækifærið til að endurnýja í forystuliði sjóðanna, en að koma með áfellisdóm yfir sjóðunum vegna þess að þeir fóru illa út úr fjármálakreppunni er í besta falli ósanngjarnt og í versta falli heimskulegt.  Við skulum hafa í huga að 2,5% raunávöxtun náðist á tímabili þegar verðbólga mældist rúm 80%!  Bætum 2,5% ofan á á ári og þá fæst vel yfir 100% nafnávöxtun!  Það er því stærsta hagsmunamál sjóðsfélaga að hér myndist stöðugleiki.  Nokkuð sem ekki tekst nema með afnámi verðtryggingarinnar og traustri peningamálastjón Seðlabanka og ríkisvalds.


mbl.is Erfitt framundan hjá lífeyrissjóðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögbundinn sparnaður tapast - valfrjáls ekki

Mikið er ég ánægður að sjá gagnrýni Kára Arnórs Kárasonar í þessari frétt Morgunblaðsins.  Ég hef verið eins og biluð plata að benda á þá mismunun sparnaðarforma sem fólst í setningu neyðarlaganna.  Með þeim var sá valfrjálsa sparnaðarins, sem fór inn á bankabækur, tryggður upp í topp, en allur annar sparnaður skilinn eftir óvarinn.  Þar með hluti lögbundins lífeyrissparnaðar.  Ég segi "hluti" vegna þess að sumir lífeyrissjóðir eru tryggðir í bak og fyrir með ríkisábyrgð, meðan aðrir verða að treysta á góðan rekstur og góða ávöxtun.

Ég efast um að þessi mismunun sparnaðarforma standist jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar og tek heilshugar undir með Kára Arnóri um rétt gæti verið að reyna á réttmæti laganna.  Getur það staðist að valfrjáls sparnaður á einu formi megi njóta meiri verndar en valfrjáls sparnaður á öðru formi.  Hver er munurinn að leggja séreignasparnað inn í banka og leggja pening inn á bankabók.  Sama aðilanum er falin varsla fjárins, en lögin mismuna sparifjáreigandanum.  Síðan má ekki gleyma því, að settir voru yfir 200 milljarðar inn í peningasjóði þessara sömu banka, aftur virðist það gert í þeim tilgangi að mismuna sparifjáreigendum.

Á blaðamannafundum á fyrstu dögum eftir bankahrunið í haust komu þáverandi forsætisráðherra og viðskiptaráðherra fram og fullyrtu að lífeyrir landsmanna yrði varinn.  Það sem komið hefur á daginn, er að lífeyrir þingmanna og ráðherra var varinn!  Lífeyrissjóðir þeirra eru nefnilega tryggðir í bak og fyrir af ríkissjóði.  Það skiptir engu máli hver staða þessara sjóða er, ríkið bætir það sem upp á vantar.  Sama gildir um aðra opinbera sjóði.  Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins mun ekki þurfa að skerða greiðslur til sjóðfélaga, þar sem ríkið bætir honum tap sitt.  Þetta á EKKI við um almenna lífeyrissjóði, Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda og séreignasjóði.  Hjá þessum sjóðum þurfa sjóðfélagar að bera tapið.

Fleiri sparnaðarform njóta heldur ekki verndar.  Mér hefur verið tíðrætt um þann sparnað sem fór í að koma sér þaki yfir höfuðið eða myndast í fasteignum landsmanna.  Ég hef lagt milljónir á milljónir ofan við það að búa fjölskyldu minni heimili, en það þykir besta mál að þessar milljónir tapist.  Eins á við um hlutafé.  Fjölmargir einstaklingar settu sparnað sinn í hlutafé í fyrirtækjum.  Ekki endilega til að græða einhver ósköp á því, heldur til að taka þátt í atvinnuuppbyggingu.  Stór hluti af þessum sparnaði er tapaður. 

Við skulum ekki gleyma því, að öll þessi sparnaðarform fólu í sér áhættu, en öll þóttu traust upp að vissu marki.  Við það að taka eitt þeirra út og verja það í topp, var einum fámennum hópi (samkvæmt orðum Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur í Silfri Egils) ofurríkra sparifjáreigenda afhentir hundruð milljarða á silfurfati.  Almenningur í landinu þarf aftur að sjá lögbundinn sparnað sinn brenna upp.  Furðuleg er forgangsröðun ríkisstjórnarinnar.

Ég hef heyrt þau rök, að það hafi verið nauðsynlegt að verja innistæðurnar, því annars myndi fólk aldrei treysta bönkunum aftur.  Ég held að það sé bara góð ástæða fyrir því, að fólk treysti bönkunum ekki.  Að minnsta kosti ekki strax.  Bankarnir þurfa að ávinna sér traust aftur.  Þeir eiga ekki mitt traust og hafa ekkert sýnt til að ávinna sér það traust.  Aðeins einn banki hefur komið með einhverja hugmyndir að lausn greiðsluvanda húsnæðislántakenda.  Ég veit ekki hvað hinir hafa verið að gera síðustu mánuði.  Ég hef ekki séð nein úrræði.  Ég hef ekki séð neinn vilja til annars en að sjúga til sín hverja einustu krónu sem er á sveimi.

Og hvað viðkemur stjórnvöldum, þá er furða mín ennþá meiri.  Geir og Björgvin sögðu í október að verja þyrfti heimilin.  Jóhanna og Steingrímur töluðu um að slá skjaldborg um heimilin.  Það eina sem ég hef séð, er að ég á sífellt minna eftir til að mæta útgjöldum heimilisins, þegar bankarnir eru búnir að fá sitt.  Heimilin hafa ekki verið varin.  Um þau hefur engin skjaldborg verið slegin.  Varnir felast í því að fólk sé öruggt með húsnæðið sitt og afkomu. Stjórnvöld hafa stuðlað að hvorugu.


mbl.is Lífeyrisréttindi skerðast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvö námskeið um stjórnun upplýsingaöryggis, áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu

Mig langar að vekja aftur athygli á tveimur námskeiðum sem haldin verða í apríl. 

Fyrra námskeiðið er haldið 2. apríl á vegum Staðlaráðs Íslands og er um  Stjórnun upplýsingaöryggis samkvæmt ISO/IEC 27001 og 27002 - Lykilatriði og notku

MARKMIРnámskeiðsins er að þátttakendur geti gert grein fyrir lykilatriðum staðlanna ISO/IEC 27002 og ISO/IEC 27001 og þekki hvernig þeim er beitt við stjórnun upplýsingaöryggis.

Staðlarnir eru nánar tiltekið:

  • ÍST ISO/IEC 27001:2005 Upplýsingatækni - Öryggistækni - Stjórnkerfi upplýsingaöryggis - Kröfur
  • ÍST ISO/IEC 27002:2005 Stjórnkerfi upplýsingaöryggis - Starfsvenjur fyrir stjórnun upplýsingaöryggis

Farið er yfir lykilatriði og uppbyggingu staðlanna. Verklegar æfingar í hópum.

Dagsetning og tími:

2. apríl

Staður:

Staðlaráð Íslands, Skúlatúni 2.

Verð:

43.000 kr.

Hámarksfjöldi þátttakenda:

Leiðbeinandi:

16 manns

Marinó G. Njálsson, tölvunarfræðingur og sérfræðingur í stjórnun upplýsingaöryggis.

Hægt er að skrá sig með því að senda póst á Staðlaráð stadlar@stadlar.is 

Síðara námskeiðið verður haldið dagana 20. og 21. apríl á vegum Betri ákvörðunar ráðgjafaþjónustu og er um  Áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu

MARKMIРnámskeiðsins er að kynna aðferðafræði við áhættumat og samspil áhættumats og stjórnunar rekstrarsamfellu. 

Meðal þeirra staðla og aðferða sem stuðst er við á námskeiðinu má nefna ISO 27001, ISO 27002, ISO 27005, BS 25999, BS 31100 og CobiT (Control Objectives for Information and Related Technology).

Leiðbeinandi á námskeiðinu er Marinó G. Njálsson, tölvunarfræðingur og sérfræðingur í stjórnun upplýsingaöryggis, M Sc og Engineer Degree Operations Research, Stanford University.

Verð kr. 80.000, innifalið námskeiðsgögn, léttar veitingar og hádegisverður.  Veittur er 10% afsláttur ef tveir eða fleiri koma frá sama aðila.

Námskeiðið verður haldið annað hvort í Reykjavík eða Kópavogi, en staðsetning hefur ekki verið ákveðin á þessari stundu.

Skráning á námskeiðið er hafin og fer hún fram með því að senda tölvupóst á oryggi@internet.is.  Þar eru einnig veittar nánari upplýsingar, ef óskað er.

 


Lækkun visitölu á milli mánaða - efni í stýrivaxtalækkun!

Þetta verður að teljast stórfrétt.  Veruleg lækknun visistölu neysluverðs (VNV) á milli mánaða.  Ég var búinn að gera ráð fyrir 0,25-0,4% hækkun vísitölu milli mánaða, sem er nokkuð nærri lagi að vera hækkun vísitölu án húsnæðis. Miðað við 0,25% hækkun hefði ársverðbólga mælst 16,2%. 

Húsnæðisverð er hér liggur við eini áhrifavaldurinn og neyslukostnaður almennings hækkar, þó óverulega sé.  Þessi mikla lækkun húsnæðisverðs endurspeglast líklegast í hinu algera frosti sem er á húsnæðismarkaði.

Það ber að fagna þessum tölum.  Þær gefa tilefni til bjartsýni með að Seðlabankinn geti lækkað stýrivexti verulega. Ég hef verið talsmaður þess að Seðlabankinn horfi til 3 mánaða verðbólgu við ákvörðun stýrivaxta.  Sú tala er mjög áhugaverð, svo ekki sé meira sagt.  Hækkun VNV síðustu þrjá mánuði er 0,49% sem jafngildi um 2% ársverðbólgu(!) samanborið við 22,1% í desember, 15,5% í janúar og 10,5% í febrúar.  Er það umtalsvert brattari lækkun en bjartsýnustu menn dreymdi um.  Ég tel að peningastefnunefnd Seðlabankans eigi að koma saman hið fyrsta og tilkynna lækkun stýrivaxta niður fyrir 10%. Raunar tel ég að með því að miða við 3 mánaða verðbólgu, þá megi lækka stýrivexti niður í 5%.

Hér áður fyrr notaði Seðlabankinn alltaf rökin fyrir "undirliggjandi verðbólguþrýstingi" fyrir allt of háum stýrivöxtum.  Nú er "undirliggjandi" verðhjöðnun og við henni þarf að bregðast með því að lækka vexti verulega og það ekki seinna en strax.

Í sögulegu samheingi er þessi lækkun VNV, sem nú mælist, mesta lækkun sem orðið hefur frá því að núverandi vísitala var tekin upp í maí 1988.   Áður hefur VNV mest lækkað um 0,54%, þ.e. í ágúst 1998 og 2002 og síðan í maí 2005.  Er þetta aðeins í fertugasta og fyrsta skipti á þeim 251 mánuði sem liðnir eru frá maí 1988 sem VNV lækkar á milli mánaða. Fjórtán sinnum hefur lækkun VNV náði yfir 3 mánuði, fjórum sinnum enst 6 mánuði og aðeins einu sinni í nóvember 1994 hefur 12 mánaða verðbólga sýnt verðhjöðnun upp á heil 0,1%!


mbl.is Talsvert dregur úr verðbólgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhugaverð lesning, svo ekki sé meira sagt

Mér finnst þetta skjal hin áhugaverðasta lesning.  Meira í átt við hryllingssögu en fagurbókmenntir.  Það er gott að búið er að birta þessar upplýsingar, en ég get ekki tekið undir það að þetta sé einhver syndaaflausn fyrir Seðlabankann.  Langar mig að skýra það nánar.

Allt of víða í skjalinu er eins og hinir erlendu viðmælendur séu að vara Seðlabankann við einhverju sem bankinn átti að vita.  Á blaðsíðu 5 er t.d. sagt:

Það var talin ein meginskýringin á háum CDS-kjörum þessara banka [Glitnis og Kaupþings], að þessi staða sem seðlabankamenn væru að kynnast til fulls núna og kyngja, væri tiltölulega vel þekkt á markaði..

Framhaldið af setningunni er síðan opinberun á því að Seðlabankinn hafi vitað í 6 vikur fyrir aðalfund bankans í lok mars á síðasta ári, að menn væru að taka skortsstöðu í íslensku bönkunum:

..og því hefði skortsstaða verið tekin á íslensku bankana í trausti þess að markaðir yrðu þeim algerlega lokaðir lengi..

Samkvæmt þessu var búið að vara Seðlabankann við því að gert yrði áhlaup á bankana og þar með krónuna líkt og átti sér stað 4 vikum síðar.

Seðlabankanum er því næst leiðbeint um það sem hann þyrfti að gera:

Sumir töldu það eina sem gæti slegið á þessi háu eftirá kjör væri ef íslenski Seðlabankinn gæti náð samningi við erlenda seðlabanka um að veita bankanum fyrirgreiðslu í nauð.

Síðan kemur eiginlega það sem mér finnst toppa allt:

Það er ljóst að íslensku bankarnir, Kaupþing og Glitnir alveg sérstaklega, hafa stefnt sér og það sem verra er, íslensku fjármálalífi, í mikla hættu, jafnvel í hreinar ógöngur, með ábyrgðarlausri framgöngu á undanförnum árum.  Hættulegt er að hafast ekkert að í þeirri von að markaðir opnist óvænt og allur vandinn verði þá úr sögunni.  Nauðsynlegt er að hefjast þegar handa við að vinda ofan af stöðunni svo hún verði ekki óleysanleg. [leturbreyting MGN]

Allar þessar tilvitnanir sem ég hef valið af blaðsíðum 5 og 6 í skýrslunni eru í mínum huga áfellisdómur á Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið.   Í fyrsta lagið er sagt beint út að Seðlabankinn hafi ekki fylgst með, sofið á verðinum.  Hann var, jú, að kynnast stöðunni til fulls á þessum fundum í febrúar og kyngja, þrátt fyrir að þessi staða væri vel þekkt á markaði.  Í öðru lagi, þá Seðlabankinn upplýstur um að skortsstaða hafi verið tekin gegn bönkunum, þannig að menn voru þegar búnir að vera að grafa undan þeim.  Það mátti því vera ljóst strax þá að gert yrði áhlaup á krónuna.  Það liðu að vísu um 4 vikur, en ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvað gerði Seðlabankinn til að koma í veg fyrir það.  Í þriðja lagi, þá er lagt til að Seðlabankinn sækist eftir nauðasamningi við erlenda Seðlabanka.  Greint hefur verið frá því að Seðlabankinn hafi leitað til erlendra Seðlabanka, en það er minn skilningur að það hafi ekki átt sér stað fyrr en farið var að líða vel á vorið.  Eins hefur kom fram að mönnum hafi þótt beiðnin óljós.  Fjórða atriðið, sem mér finnst vera áfellisdómur á Seðlabankann er að hvatt er til þess að strax sé hafist handa við að vinda ofan af vandanum.  Þetta var í febrúar 2008.  Bankarnir féllu í október 7 og hálfum mánuði síðar.  Vissulega var vandinn orðinn gríðarlegur í febrúar og því ekki víst að tími hafi gefist til að ljúka verkinu, en gott væri að vita hvað hafi verið gert á þessum tíma.  Voru bankarnir hvattir eða neyddir til eignasölu?  Var útþensla þeirra stöðvuð?  Var reynt að koma ábyrgðum vegna þeirra úr landi?  Nú spyr sá sem ekki veit.

Eitt veit ég:  Í maí gaf Seðlabankinn út skýrslu um fjárhagslegan stöðugleika.  Ekkert af þessum áhyggjum komu fram í þeirri skýrslu.  Miðað við hryllinginn sem birtist í minnisblaðinu frá 12. febrúar, þá var maí skýrslan glæpsamleg rangfærsla á raunverulegri stöðu þjóðarbúsins, hagkerfisins og bankakerfisins.  Skýrslan var algjör afneitun á ástandinu og sama á við um allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar, Seðlabankans og bankanna.  Það var jafnmikil afneitun á ástandinu að Seðlabankinn hafi samþykkt að lána smærri fjármálafyrirtækjum pening til að eiga endurhverf viðskipti við bankana þrjá.  Hafi Sparisjóðabankinn t.d. haft aðgang að þessu minnisblaði, þá þykir ólíklegt að hann hefði tekið 150 milljarða að láni hjá Seðlabankanum til að kaupa í raun verðlaus skuldabréf af bönkunum.  Seðlabankinn hafði, hafi hann á annað borð tekið mark á þessu minnisblaði, í höndunum upplýsingar sem sögðu í að bankarnir myndu falla með haustinu.  Að hafa stefnt rekstrargrundvelli fjölmargra smærri fjármálafyrirtækja í voða með því að samþykkja hin endurhverfu viðskipti myndi ég segja að hafi verið glæpsamlegt og ekkert annað en vísvitandi tilraun til að fella fyrirtækin.

Í mínum huga, þá er þetta minnisblað meiri áfellisdómur yfir Seðlabankanum en syndaaflausn.  Raunar vil ég ganga svo langt að segja, að með þeim upplýsingum sem þar koma fram (hafi þær ekki verið á vitorði manna í smærri fjármálafyrirtækjum) þá myndar minnisblaðið góðan grunn að skaðabótamáli fyrir smærri fjármálafyrirtæki á hendur Seðlabankanum.  Ástæðan er einföld:  Seðlabankinn bjó yfir upplýsingum um bankana þrjá sem bentu leynt og ljóst til þess að minnst tveir þeirra væru svo illa staddir að þeim yrði vart bjargað.


mbl.is Stefndu fjármálalífinu í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.9.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 1679457

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband