17.4.2017 | 21:50
Verðtrygging - böl eða blessun?
Samþykkt þessara ákvæða, þótt aðeins sé i heimildarformi, getur aðeins vakið tálvonir um úrlausnir eftir ófærum leiðum og dregið athyglina frá aðalatriðinu, að til er ein örugg leið til verðtryggingar á sparifé, sem sé að forðast það, sem verðrýrnuninni veldur, sjálfa verðbólguna.
Umsögn bankastjóra Landsbanka Íslands til Alþingis árið 1966 um heimild til verðtryggingar lánsfjár
Lög nr. 13/1979 um stjórn efnahagsmála o.fl., almennt kölluð Ólafslög í höfuðið á Ólafi Jóhannessyni þáverandi forsætisráðherra, tóku gildi 10. apríl 1979. Með lögunum var m.a. heimiluð verðtrygging lánsfjár. Þar sem þetta átti að vera tímabundin lausn, hefur nokkrum sinnum komið upp sú umræða að fella niður ákvæði lagana um heimild til að verðtryggja lánsfé, en því hefur jafnan verið hafnað sem algerri fásinnu. Ég tel það vera löngu tímabært, a.m.k. hvað neytendalán varðar.
Mikil verðbólga hafði geisað nær allan 8. áratuginn. Meðalverðbólga frá maí 1972 fram til setningu Ólafslaga var 34,3%. Sparifé og lífeyrissparnaður brann upp og var það því nánast fáviska að geyma pening inni á einhvers konar sparnaðarreikningum. En stjórnvöld hefðu betur hlustað á ráð bankastjóranna frá 1966, því hafi menn ætlað að ná stjórn á verðbólgunni, þá misheppnaðist það algjörlega.
Frá maí 1979 til ársloka 1983 fór verðbólgan fyrst af alvöru á flug. Nokkra mánuði á þessu tímabili jafngilti hækkun vísitölu milli mánaða um og yfir 100% ársverðbólgu. Toppaði í 10,4% hækkun milli febrúar og mars 1983 sem jafngildir 229,6% ársverðbólgu! Ársverðbólgan fór hins vegar hæst í 102,8% í ágúst 1983. Meðalverðbólga á þessu tímabili var 58,5%. Hélst verðbólgan óásættanlega há allt fram að Þjóðarsáttarsamningum árið 1990., þannig að allt tal um að verðtryggingin hafi komið böndum á verðbólguna er því eitt stórt kjaftæði. Það voru samningar á vinnumarkaði sem sigruðu verðbólguófreskjuna.
Líklegast átta fáir sig á því að sú útfærsla á verðtryggðum lánum, sem við þekkjum í dag, þ.e. að leggja verðbætur mánaðarlega ofan á eftirstöðvar höfuðstóls, var bara heimildarákvæði, þegar verðbólgan væri mikil, en annars ætti að greiða verðbætur eins og um vexti væri að ræða. Form verðtryggingarinnar, eins og við þekkjum hana, var sem sagt að vera plan B, þegar illa áraði.
Mynd 1 Verðbólga fyrir og eftir Ólafslög og fram yfir Þjóðarsáttarsamninga. Rauða línan á sýnir þegar Ólafslög voru sett. (Heimild: Hagstofa Íslands)
Áhrif verðtryggingarinnar
Markmið Ólafslaga var að verja sparifé. Ekki er þó ljóst hvort það hefur tekist, því almenningur átti mest lítið sparifé, þegar hún var sett á. Hinir raunverulegu sparifjáreigendur voru hinir efnuðu. Eins og fyrr segir bjó verðtrygging til verðbólguskrímsli í upphafi. Það var ekki fyrr en verðtrygging launa var afnumin, að verðbólga fór að lækka og raunar er ekkert sem bendir til að verðtryggingin hafi nokkur þátt átt í að svo varð. Verðbólgan hélt áfram að malla, þar til Þjóðarsáttarsamningarnir svo kölluðu voru gerði í febrúar 1990, um hóflegar kjarabætur á vinnumarkaði. Það er því mun frekar hægt að tengja stöðugleika við kjarasamninga en verðtrygginguna. Mitt álit er að verðtryggingin hafi frekar neikvæð áhrif á verðbólgu, en jákvæð, enda býr verðtryggingin til peninga, þegar verðbætur leggjast á eftirstöðvar lánanna og ekki þarf mikinn snilling í hagfræði til að þekkja tengsl aukins peningamagns við verðbólgu.
Verðtryggð lán
Ein af afurðum Ólafslaga voru verðtryggð lán. Mikið er deilt um kosti þeirra og í staðinn fyrir að sækja rök til innlendra aðila, þá langar mig að vitna í vefsíðu hjá ísraelska húsnæðislánafyrirtækinu First Israeli Mortgages, þar sem fyrirtækið er að bera saman ýmsa kosti, m.a. verðtryggð lán. Kaflinn sem fjallar um verðtryggð lán heitir The best loan for you (if you are a bank) og held ég að það segi allt sem þarf að segja.
Á meðfylgjandi línuriti sést þróun 40 ára verðtryggðs láns tekið í byrjun maí 1988. Lánsfjárhæð er 10 m.kr. og það ber 4,9% verðtryggða vexti. Fram til apríl 2016 er notuð raunveruleg verðbólga, en 2,5% eftir það.
Mynd 2 Þróun 10 m.kr. verðtryggðs láns til 40 ára með 4,9% vöxtum tekið 1.5.1988. Sýnt með raunverðbólgu til apríl 2016 og 2,5% verðbólgu eftir það. (Útreikningar höfundar)
Eftirstöðvar lánsins eru byrjaðar að lækka eftir að hafa stigið samfellt í 24 ár! Lækkunin er nokkuð skörp síðustu mánuðina, en það er bæði vegna þess að verðbólgan hefur verið undir 2,5% í talsvert langan tíma og að mánaðarlegar greiðslur eru orðnar gríðarlega háar eða ríflega fjórföld upphafsgreiðslan. Í þessu sýnidæmi stefnir lokagreiðslan á 276.000 kr. miðað við 2,5% verðbólgu, þar sem eftir lifir lánstímann.
Á 40 árum (miðað við forsendur útreikninganna) verða heildargreiðslur 73,9 m kr. eða ríflega 7-föld lánsfjárhæðin. Skiptist hún sem hér segir: Höfuðstóll 10 m.kr., verðbætur á eftirstöðvar og vexti rúmar 51 m.kr., vextir tæpar 13 m.kr.
Yfirfærum þetta nú yfir á öll verðtryggð lán heimilanna. Samkvæmt tölum Seðlabanka Íslands stóðu eftirstöðvar þeirra í um 1.236 milljörðum króna þann 31.12.2015, en stóðu í 444 ma.kr. í árlok 1999, sem þýðir hækkun um tæpar 792 ma.kr. Hvað ætli stór hluti þessara 792 ma.kr. séu verðbætur? Ég hef reiknað það gróflega út og fæ að verðbætur upp á 812 ma.kr. hafi lagst á verðtryggð lán heimilanna frá 1.1.2000 til 31.12.2015. Sem sagt öll hækkun eftirstöðva verðtryggðra skulda heimilanna á 16 ára tímabili má rekja til verðbóta! Á þessu tímabili greiddu heimilin gróft áætlað 475 ma.kr. í afborganir (bæði af upprunalegum höfuðstóli og verðbótum, leiðréttingin meðtalin) og líklegast ekki undir 633 ma.kr. í vexti (miðað við 4% vexti, sem örugglega eru of lágir). Ný lántaka heimilanna hefur þá verið 455 ma.kr. Ef lánin hefðu verið óverðtryggð og sleppum vöxtunum út úr myndinni, þá væru eftirstöðvar lánanna 424 ma.kr., þ.e. 20 ma.kr. lægri upphæð, en var í árslok 1999.
Nú er þetta kannski ekki alveg svona einfalt, því verðbættar eftirstöðvar lána hafa verið notaðar við fasteignaviðskipti og því hefði þurft að taka hærri viðbótarlán til að fjármagna húsnæðiskaup, hvort sem verðþróun húsnæðis hefði orðið sú sem hún varð, en líka þó hún hefði orðið mun hóflegri. Einnig hefðu vextir lánanna orðið hærri. Ólíklegt er þó að húsnæðisskuldir heimilanna væru eitthvað nálægt þeim 1.236 ma.kr., sem verðtryggð lán stóðu í um síðustu áramót. Reikna ég frekar með á bilinu 600-800 ma.kr. Mikilvægast af öllu væri þó að eftirstöðvarnar lækkuðu með hverri greiðslu!
Dæmi um skaðsemi verðtryggingarinnar
Líklega skaðar verðtryggingin mest samkeppnishæfi þjóðarinnar. Það er vegna þess, að hún ýtir undir þörf launafólks fyrir launahækkanir. Þessi sjálfvirka viðbót ofan á eftirstöðvar skulda, sem verðtryggingin veldur, verður til þess að kauphækkunin, sem kom í síðasta mánuði, er kannski horfin. Líklegt er að í óverðtryggðu umhverfi, þá héldi lánveitandi að sér höndum með vaxtabreytingar til að sjá hvort um lengri tíma breytingu á verðbólgu var að ræða eða bara stutt skot. Einnig er líklegt að hægt væri að fá lán með föstum vöxtum til nokkurra ár og þá hefði stundarverðbólga engin áhrif á vaxtabyrði lánanna. En í verðtryggðu lánakerfi, þá er engin miskunn, allar hreyfingar á verðlagi leggjast á eftirstöðvarnar.
Til að skilja þessa skaðsemi fyrir launagreiðendur, þá vil ég sýna næmnigreiningu á 40 ára láninu að ofan. Miðað við 2,5% verðbólgu, þá endar lokagreiðslan í 276.000 kr. Verði meðalverðbólgan 5%, þá fer lokagreiðslan af láninu í 373.000 kr., en aðeins 204.000 kr. væri lánið óverðtryggt frá og með deginum í dag og á sömu vöxtum. Verðtryggingin er því að kosta lántakann háar upphæðir á mánuði. Tökum muninn á 0% verðbólgu og 2,5%, sem gefur okkur 72.000 kr. Sá sem er að greiða yfir 200.000 á mánuði af láni, er búinn að fullnýta persónuafsláttinn. Til að eiga fyrir 72.000 kr. greiðslu ofan á 204.000 kr. þarf hátt í 120.000 kr. aukalega í tekjur. Svo launagreiðandinn geti greitt 120.000 kr. aukalega í laun, þarf hann líklegast að auka tekjur sínar um 6-8 falda þá upphæð, allt eftir því hvaða álagningarprósenta er notuð, þannig að 72.000 kr. hærri greiðsla af láni verður allt í einu að 720-960 þús.kr. tekjuþörf hjá launagreiðandanum. Miðað við þetta er alveg ótrúlegt, að Samtök atvinnulífsins skuli ekki berjast af fullum þunga fyrir afnámi verðtryggðra neytendalána og að á Íslandi verði komið á óverðtryggðu lánakerfi, þar sem lántökum bjóðast hóflegir vextir.
(Þessi færsla var upprunalega skrifuð sem grein að ósk Eggerts Skúlasonar, þáverandi ritstjóra DV, til birtingar í blaðinu. Átti hún að birtast í apríl eða maí 2016.)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.9.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 31
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 28
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Sæll Marinó og takk fyrir þessa góðu grein.
Því verður aldrei of oft haldið uppi að verðtryggingin kom ekki böndum á verðbólguna, þvert á móti magnaði hún hana upp.
Þjóðarsáttin, sem gerð var og má að stæðstum hluta má þakka Einari Oddi, árið 1990, kom hins vega böndum á þetta skrímsli. Reyndar tók nokkur ár að ná verðbólgunni niður, en það tókst.
Þjóðarsáttin snerist um fleira en hóflegar hækkanir launa. Hún snerist um sátt meðal allra aðila á markaði. Ríki og sveitarfélög tóku á sig að hækka ekki álögur hjá sér, verslunin lofaði að taka á sig erlendar hækkanir í meira mæli meðan böndum væri komið á drauginn og að sjálfsögðu kom launafólk að þessu með hóflegar kröfur. Reyndar var það svo að sumir sem höfðu gert kjarasamninga skömmu fyrir samþykkt þjóðarsáttar, tóku á sig kjaraskerðingu frá þeim samningum, til að koma til móts við sáttina. Undirritaður er einn fjölmargra sem lentu í slíkri skerðingu.
Það var því um þjóðarsátt að ræða, allra á markaði, ekki bara launafólks eins og svo gjarnan er boðið upp á nú, þegar menn tala um þjóðarsátt. Hvort sem það er gert undir því nafni eða nefnt einhverju torkennilegu eins og SALEK.
Verðtryggingin er mannanna verk, gert með nánast einu pennastriki vorið 1979. Hún er ekki eitthvað lögmál. Eins og staðreyndir segja þá magnaði hún verðbólguna í stað þess að draga úr henni. Það hefði átt að duga til að annað pennastrik yrði dregið og verðtrygging afnumin. Reyndar var það gert að hluta, eins og þú nefnir, þegar verðtrygging launa var afnumin.
Það er aldrei of seint að draga þetta pennastrik, bara spurning hversu lengi við viljum að skaðinn standi yfir. Einhverjum þætti 38 ár yfirdrifið nóg af slíkri sjálfspíningu.
kveðja
Gunnar Heiðarsson, 18.4.2017 kl. 10:29
Nú er einmitt lag að drag strikið góða, það mundi ef til vill koma böndum á fasteignabóluna.
Góð grein Marinó og rökin gegn verðbólgueyðandi áhrifum verðtryggingar eru skotheld.
Verðtrygging eins og framkvæmdin var og er hér, er verðbólguvaldur.
Guðmundur Jónsson, 18.4.2017 kl. 16:04
Þetta er frábær samantekt! Verðtryggingunni var vissulega ætlað að auka sparifjármyndun með því að vinna gegn vantrú almennings á því að sparnaður borgaði sig. En vandinn er að hún ýtir undir óstöðugleika einfaldlega vegna þess að fjármagnseigendur, þmt. lífeyrissjóðir, auðmenn og bankar, þurfa ekki að hafa áhyggjur af óstöðugleikanum. Þess vegna gerast hlutir á borð við það að samtök atvinnurekenda samþykki gríðarlegar launahækkanir fyrir skemmstu. Þessar hækkanir hafa að vísu enn ekki komið inn í verðlagið, en það er einungis vegna gengisþróunar krónunnar. Hana þekktu menn hins vegar ekki fyrirfram og mátti því allt eins búast við óðaverðbólgu. En kjarasamningshöfum var einfaldlega sama.
Þorsteinn Siglaugsson, 18.4.2017 kl. 19:58
Snilldarpistill að venju frá þér.
Get tekið undir með aðrar athugasemdir.
M.b.kv.
Sigurður Kristján Hjaltested, 18.4.2017 kl. 20:44
Sæll Marinó og takk fyrir þessa frábæru samantekt, en ég man vel þessi ár og það ástand sem þá var.
En varðandi verðtrygginguna þá finnst mér eiginlega ekki hægt skauta framhjá aðalgeranda og ástæðu verðtryggingarinnar, þ.e krónunnar.
Aðeins áður en ég kem að því, þá vil ég aðeins koma inná það ástand, sem var hérna áður en verðtryggingin komst á, vorið 1979. Faðir minn byggði sér einbýlishús 1967 og aðeins til að gera sér grein fyrir ástandinu, að þá þurfti hann að sjálfsögðu lán til byggingarinnar en það var ekki sjálfgefið á þessum tíma að fá lán, lánastofnanir og ríkið höfðu einfaldlega afar takmarkað fé til að lána, þannig að nánast eina leiðin til að fá lán var í gegnum klíkuskap. Faðir minn talaði við sinn þingmann sem á þessum tíma var Þorvaldur Garðar, Þorvaldur sagði föður mínum að hann ætlaði að athuga hvað hann gæti gert en Þorvaldur talaði svo við forseta alþingis sem svo talaði við fulltrúa í Landsbankanum sem síðan hafði samband við Þorvald, sem síðan hafði samband við föður minn og sagði honum að mæta á fund í aðalútibúi Landsbankans og þar með var lánið afgreitt, 40 ára lán með 2% vöxtum óverðtryggt, þannig gengu kaupin á eyrini fyrir sig á þeim tíma.
Faðir minn segði mér að hann hefði fundið aðeins fyrir því að greiða af láninu fyrsta árið en eftir það mundi hann varla eftir láninu og 1974 var verðbólgan búin að éta lánið svo mikið niður að afborgunin var sára lítil, og lánsfjárhæðin í hlutfalli við verðlag og laun orðin hljægilega lág, þannig át verðbólgan upp lán og einnig sparifé landsmanna, þannig að eina vitið til að eignast eitthvað var að fjárfesta í steinsteypu nú eða fasteign á hjólum eins og fræg auglýsing hljóðaði á þeim tíma.
Áður en verðtryggingin komst á var á þeim tíma, eins og nú, veitt lífeyrissjóðslán en afar erfitt var samt að fá lán og þeir sem fengu lán hjá lífeyrisjóðunum þóttu einstaklega "láns"samir og var því eiginlega líkt við happdrættisvinningi, því þessi lán voru náttúrulega óverðtryggð og með afar lága vexti og hurfu nánast nokkrum mánuðum eftir að þau voru tekin, svo mikil var verðbólgan að lánin gátu ómögulega fylgt launa þróun og verðlagshækkunum.
1979 voru Ólafslöginn sett á en þau gengu í megin atriðum út á það að laun og lán voru verðtryggð. Það er skemmst frá því að segja að þegar fólk áttaði sig á því að nú þyrfti það að skyndilega greiða lánin með verðbótum, þá reis launþegahreyfingin upp á afturlappirnar og heimtaði launahækkanir, til að vega upp á móti hækkunum lána. Þetta gat auðvita ekki endað vel, enda skrúfaðist verðbólgan fljótt uppí þriggja stafa tölu og allir töpuðu.
Þetta endaði svo með því að einu eða tveimur árum seinn var verðtrygging á laun afnumin, en ekki á lán, því miður.
Af hverju er ég svo að rifja þessi ósköp upp, jú til að við getum gert okkur betur grein fyrir því af hverju við búum í þessu verðtryggða umhverfi. Ein aðalástæða fyrir því að verðtrygging á lánsfé var haldið eftir var vegna þess að með því móti var mögulega hægt að fá almenning í landinu til að leggja sparifé sitt inná vertryggða sparireikninga og til að auka tiltrú fjárfesta á að kaupa verðtryggð skuldabréf, en með því móti var hægt að auka lánsfé í landinu sem´sárlega vantaði.
Með öðrum orðum, til að fá fjársterka aðila til að fá aukna trú á fjármálamarkið íslands, varð að búa til nýja krónu, sem er verðtryggða krónan sem því miður, við launþegar þekkjum ekki, en fjármagnseigendur þekkja vel.
Það að vera með gjaldmiðil sem ekki dugar bara að vera með belti, heldur axlabönd líka hlýtur að vera sérstakt vandamál útaf fyrir sig og ég tel vera kjarni vandamálsins og eina lausnin á þessu er að ná góðum samningi við Evrópusambandið og taka upp Evru, eða að taka þá upp annan gjaldmiðil einhliða.
Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 19.4.2017 kl. 16:28
Á einu sviði er verð ekki framreiknað en þyrfti að vera, en það er eignvirði sem talið er til skatts. T.d. bókfært verð eigna hjá okkur bændum og væntanlega öðrum sjálfstæðum atvinnurekendum.
Vegna þess að þetta er ekki gert þá fer fljótlega svo á verðbólgutímum að bóndinn/atvinnurekandinn er farinn að greiða skatt af þeim hluta innkomunar sem fer í útgjöld, þetta eru ekki neinar smá upphæðir.
Svipað er líklega í gangi hjá t.d. öldruðu fólki sem selur sumarbústaðinn sinn á eðlilegu verði en skatturinn metur sem ógnargróða frá einhverju óframreiknuðu stofnverði.
Þegar viðbætist að uppsafnað tap bóndans/atvinnurekandans er heldur ekki framreiknað og fellur út 10 árum, þá er nú fullhert að hálsi einyrkjans af hálfu ríkisapparatsins.
Björgúlfarnir og Ólafarnir gerðu sitt til að hér fór fjármálakerfið á hliðina en útfærsla valdaapparatsins í kjölfarið með vaxtaokri og skattaokri hefur sett og mun halda þúsundum aðila í æfilangri fátæktargildru að óþörfu og af órétti.
Vegna þess hve flækjustig skattkerfisins er hátt munu þó færri en skyldi gera sér grein fyrir þessu sem veldur því að þetta misrétti verður ekki lagað, enda, hver ætti að gera það?
Skattaflokkarnir til vinstri sem hatast út í allt sem heitir sjálfstæður atvinnurekstur og lækkun skatta?
Sjálfstæðisflokkurinn sem kom þessu óréttlæti á í nafni N1ar klisjunnar sinnar sem kallast "einföldun skattkerfisins"?
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 19.4.2017 kl. 17:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.