Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2012
28.11.2012 | 22:01
Óverðtryggður og verðtryggður vandi Íbúðalánasjóðs
Eftir að skýrsla IFS um stöðu Íbúðalánasjóðs var birt í gær hafa alls konar sérfræðingar ætt fram á völlinn og kennt hinum og þessum um vanda sjóðsins. Einn vill fara aftur til 2001, annar til 2004 og enn aðrir til 2009. Staðreyndir málsins eru að líklegast þarf að fara ennþá lengra aftur og síðan kenna íslenskum lögum um vilji menn finna sökkudólg.
Í grunninn liggur vandi Íbúðalánasjóðs í því að tryggingarnar sem sjóðurinn hefur tekið fyrir útlánum sínum eru óverðtryggðar og háðar duttlungum starfsmanna fasteignamatssviðs Þjóðskrár, meðan skuldir sjóðsins eru verðtryggðar og háðar duttlungum starfsmanna Hagstofunnar sem mæla hækkun vísitölu neysluverðs. (Ég er ekki að væna starfsmenn Hagstofunnar um óheiðarleika, en í ljós hefur komið að alls konar reglur virðast hamla að lægra vöruverð rati inn í mælingar stofnunarinnar.) Samkvæmt reglu sem fjármálafyrirtækjum er skylt að fara eftir, má fjármálafyrirtæki ekki færa til eignar útlán sem standa utan veðrýmis þess veðs sem sett var fyrir láninu.
Hvernig myndast misvægið
Til að skilja hvað þetta þýðir skulum við skoða dæmi:
Gefum okkur að einstaklingur hafi tekið 18 m.kr. lán í ársbyrjun 2007 til að kaupa eign sem þá var að fasteignamati 20 m.kr., en markaðsvirði 24 m.kr. Á kaupdegi dekkaði lánið 90% af veðrými eignarinnar, þó lánið væri bara 75% af markaðsvirði. Frá því að lánið var tekið hefur verðbólga verið 50%, sem þýðir að heilmiklar verðbætur hafa lagst á það. Gerum ráð fyrir að um 1 m.kr. hefi verið greiddar í afborganir (sem er líklegast ofrausn). Eftirstöðvar lánsins eru því nálægt því 26 m.kr. Á sama tíma hefur fasteignamatið staðið stað. (Það hefur lækkað og hækkað, en gefum okkur að það sé jafnhátt núna og þegar eignin var keypt.) Markaðsverð eignarinnar skiptir ekki máli hér, þar sem Íbúðalánasjóður miðar verðmæti tryggingarinnar við fasteignamat. Eignastaða Íbúðalánasjóðs gagnvart þessu láni hefur því farið út því að vera trygg í að eiga bara tryggingu fyrir 77% af eftirstöðvum lánsins. Að tryggingin hafi lækkað svona mikið, segir ekkert til um hvort greiðslugeta lántakans sé fyrir hendi, enda er ekki verið að mæla hana, heldur eingöngu hvort ÍLS eigi tryggingar að baki láninu.
Á hinni hliðinni, þá þurfti ÍLS að fjármagna sig til að geta veitt lánið. Það var gert með því að selja íbúðabréf eða annað form HFF-bréfa, en slíkir flokkar skuldabréfa eru ýmist þannig að greitt er af þeim reglulega eða í einu lagi í lok lánstímans. Sé greitt reglulega, þá má gera ráð fyrir að afborgun og vaxtagreiðsla íbúðarkaupandans sé á hverjum tíma notuð til að greiða afborgun HFF-bréfsins. Annars þarf ÍLS að lána peninginn aftur út eða leggja hann inn á reikning. Til einföldunar fyrir þetta dæmi, geri ég ráð fyrir reglulegum greiðslum. Skuld ÍLS við eiganda HHF-bréfs vegna útlánsins er því 26 m.kr. eða 23% umfram þá tryggingu sem ÍLS hefur fyrir láninu.
Hér er tekið dæmi um eitt lán, þar sem staða ÍLS hefur snúist frá því að vera með "örugga" tryggingu í það að eiga ekki tryggingu fyrir nema 77% af eftirstöðvum, þ.e. 23% af eftirstöðvunum eru ekki tryggðar með veði.
Vandinn fjórfaldast á tveimur árum
Þegar ég sat í sérfræðingahópnum, svo kallaða, um skuldavanda heimilanna í október 2010, þá var staða ÍLS sú, að um 19 milljarðar af eftirstöðvum útlána ÍLS stóðu utan veðrýmis (þetta er tala fengin frá ÍLS meðan á vinnu sérfræðingahópsins stóð). Um 33% upphæðarinnar var vegna lána veittum til húsnæðiskaupa á höfuðborgarsvæðinu, en 67% vegna húsnæðiskaupa utan þess. Samkvæmt skýrslu IFS stóðu 80 milljarðar af eftirstöðvum útlána ÍLS utan veðrýmis, sem er rúmlega fjórföldun á aðeins 2 árum. Vissulega er aðeins 1 mánuður í að fasteignamat hækki umtalsvert, en hve lengi áhrifin vara fer eftir verðbólgu næstu mánaða. (Tekið skal fram að verðbólgumælingin sem birt var í dag, kemur ekki fram í verðtryggðu lánum fyrr en í janúar.)
Þessi þróun að ÍLS missir tryggingar fyrir útlánum sínum, mun halda áfram meðan fasteignamat heldur ekki í við verðbólgu. Engin regla segir til um slík tengsl og raunar væri slík tenging frekar merki um ósjálfstæði fasteignamatsmanna en fagleg vinnubrögð.
Skiptir aðferð ÍLS við fjármögnun máli?
Nokkrir aðilar hafa haldið því fram að máli skiptir hvort ÍLS fjármagnaði útlán með húsbréfum eða öðrum hætti. Meðan fjármögnun var verðtryggð og tryggingin ekki, þá skiptir það engu máli. Misvægið myndast hvað sem pappírinn heitir. Vandi Íbúðalánasjóðs er því sá sami og lántaka hans, þ.e. verðtryggingin.
Stóri vandi ÍLS
Stærsti vandi ÍLS er ekki hallinn sem ég hef lýst að ofan. Stærsti vandinn er munurinn á eignum hans og skuldbindingum vegna uppgreiddra lána og síðan tap sjóðsins á útlánum til sveitarfélaga og lögaðila. Einhvern tímann mat ég þetta gat á ekki undir 150 milljarða króna og var gagnrýndur fyrir. Nú sé ég í vefmiðlum í dag menn tala um 200 milljarða bara vegna uppgreiddra lána. Þessi vandi er því augljóslega vaxandi. Síðan má ekki líta framhjá því að sífellt stærri hluti útlána ÍLS til einstaklinga er að þrýsta síðasta súrefninu út úr veðrými margra eigna og síðan hækkar talan stöðugt sem er utan veðrýmis á þeim lánum sem þegar hafa full nýtt rýmið.
Hvað er hægt að gera varðandi lán einstaklinga
Gagnvart lánum einstaklinga þá er einfaldasta lausnin sú sem Hagsmunasamtök heimilanna og þingflokkur Hreyfingarinnar hafa lagt til. Færa þarf höfuðstól verðtryggðra lána niður! Menn geta haldið áfram að stinga höfðinu í sandinn, en vandinn hverfur ekkert við það. Lán sem eru utan veðrýmis ber að færa á varúðarreikning og teljast þar með ekki til eiginlegra eigna hjá fjármálafyrirtækjum. Hjá ÍLS er þessi tala núna 80 milljarðar kr., auk þess sem sjóðurinn á um 2.000 eignir sem hann kemur ekki í verð. Eignir sem sjóðurinn hefur mögulega tekið yfir að óþörfu og tap hans hefur í reynd orðið meira með yfirtöku, en með því að gefa eftir hluta verðbótanna, eins og kröfur HH og tillögur Hreyfingarinnar ganga út á. Við erum að tala um að þegar eru hátt í 10% af lánum ÍLS utan veðrýmis og miðað við tölur IFS þá var heildarupphæð umræddra lána um 360 milljarðar króna. 80 milljarðar eru 22% af þeirri tölu. Vissulega dreifist upphæðin misjafnlega á lánin og sum lánin verða því að hluta enn utan veðrýmis eftir slíka meðaltalsniðurfærslu. Mestu máli skiptir þó, að fleiri greiðendur eiga meiri möguleika á að standa í skilum og þannig eykst tekjustreymi ÍLS.
Um hinn vandann ætla ég ekki að þykjast hafa lausn.
Íbúðalánasjóður | Breytt 6.12.2013 kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.11.2012 | 21:41
Endurútreikningar áður gengistryggðra lána - Taka 55
Ég heyrði um daginn stutt viðtal við Unu Steinsdóttur, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Íslandsbanka. Heimir og Kolla ræddu við hana í þættinum sínum Í bítið á Bylgjunni. M.a. var rætt um þessi 11 mál sem valin voru til að greiða úr ágreiningi vegna útreiknings vaxta áður gengistryggðra lána. Án þess að vita hvaða mál þetta eru, sem valin voru, þá hef ég alltaf haft þá tilfinningu, að þau hafi verið valin út frá hagsmunum bankanna og á forsendum bankanna, en ekki til að greiða í raun og veru úr þeim ágreiningi sem uppi er. Hér gæti ég verið að misskilja hlutina, en lögmenn, sem ég hef rætt við taka undir þennan skilning minn.
En aðeins aftur að Unu. Hún sagði nokkuð sem ég óttaðist að myndi verða. Íslandsbanki er að túlka niðurstöðu Hæstaréttar í málum 600/2011 og 464/2012 á mjög frjálslegan hátt. Raunar svo frjálslegan, að ég reikna með dómsmálum í kjölfar kolvitlausra útreikninga bankans. Það sem ég hjó í, í máli Unu var vísun í seðlabankavexti fyrir dóma Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggingarinnar. Hvernig sem allt fer getur það aldrei gerst og raunar hefur Hæstiréttur ítrekað sagt að rangan lagaskilning sé eingöngu hægt að leiðrétta til framtíðar. En þessi túlkun Íslandsbanka hefur leitt til þess að bankinn ætlar að draga til baka þrjú af þessum 11 málum.
Stærsti ágreiningurinn
Mikilvægasta málið sem ég tel að þurfi að fá á hreint, er hvort Hæstarétti hafi verið heimilt að breyta vöxtum áður gengistryggðra lána í dómi sínum í máli 471/2010. Í 3. mgr. c-liðar 36. gr. laga nr. 7/1936 segir:
Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Ef slíkum skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans.
Þetta ákvæði var innleitt með lögum nr. 14/1995 til þess að uppfylla ákvæði tilskipunar ESB 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um ósanngjarna skilmála í neytendasamningum. Tökum sérstaklega eftir orðum síðari setningar málsgreinarinnar:
Ef slíkum skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans.
Evrópudómstóllinn vísaði til þessa ákvæðis í dómi sínum í máli C-618/10 frá 14. júní í sumar. Þar var fjallað um mál þar sem spánskur dómstóll hafði úrskurðað að dráttarvextir af láni hafi verið ósanngjarnir og dómstóllinn ákveðið að í staðinn ættu að gilda lægri "sanngjarnir" dráttarvextir. Niðurstaða Evrópudómstólsins var að það væri ekki hlutverk dómstóla að íhlutast um eða ákveða sanngjarnt ákvæði í neytendasamningi hafi dómstóllinn ákveðið að eitthvað annað ákvæði væri ósanngjarnt. Hafi ákvæðið um dráttarvextina talist ósanngjarnt, þá félli ákvæðið hreinlega niður og ekkert annað kæmi í staðinn.
Hvers vegna eiga dómstólar ekki að ákvæða sanngjarnt ákvæði í stað ósanngjarns ákvæðis sem fellt er niður? Svarið við þessu er sáraeinfalt:
Ef dómstólar íhlutast um innihald samnings með því að ákveða "sanngjarnt" ákvæði í staðinn fyrir ósanngjarnt, þá munu fyrirtæki sem útbúa samninga einfaldlega ganga á lagið og hlaða samningana ósanngjörnum og íþyngjandi ákvæðum vitandi að það versta sem gerist er að dómstóll mun slá á fingur þeirra, en færa ákvæðin niður í það sem dómstóllinn álítur sanngjarnt. Fyrirtækið tapar sem sagt engu á því að brjóta lög um ósanngjarna samningsskilmála.
Því miður lét Hæstiréttur glepjast í máli 471/2010 og þess vegna sitjum við uppi með þá fáránlegu niðurstöðu, að vextir lánanna voru hækkaðir í leit Hæstaréttar eftir "sanngirni".
Gengislán og C-618/10
Ef við heimfærum niðurstöðu Evrópudómstólsins í máli C-618/10 yfir á gengistryggðu lánin, þá er staðan sú að ósanngjarn samningsskilmáli, þ.e. verðtryggingarákvæði sem stríddi gegn lögum, var dæmdur ógildur með dómum 92/2010 og 153/2010. Í máli 471/2010 gleypti Hæstiréttur við þeim málflutningi fjármálafyrirtækisins að ófrávíkjanleg tengsl væru á milli gengistryggingarinnar og vaxtanna og því bæri að ógilda vaxtaákvæðið líka. Síðan kom Hæstiréttur með sína furðulegu ályktun, að þá bæri að líta svo á að engir vextir væru á láninu og því skuli styðjast við 4. gr. laga 38/2001.
Dómur Evrópudómstólsins féll ekki fyrr en 14. júní 2012 og því gat Hæstiréttur ekki haft hann til hliðsjónar eða notað sem fordæmi. Ég sagði samt strax í framhaldi dóms 471/2010 að rétturinn hafi brotið gegn tilskipun 93/13/EBE og hef ekki skipt um skoðun. Var ég því mjög glaður, að sjá Evrópudómstólinn komast í einu og öllu að sömu niðurstöðu í máli C-618/10, þ.e. að ósanngjarn skilmáli fellur niður og EKKERT kemur í staðinn.
Hæstiréttur gekk gegn tilskipun 93/13/EBE, þegar hann ákvað að aðrir skilmálar ættu að koma í staðinn fyrir ósanngjarna skilmála lánssamnings sem áður hafði verið gengistryggður. Hann ákvað að skera fjármálafyrirtækin niður úr snöru eigin mistaka.
Höfum í huga, að Evrópudómstóllinn hefur nokkrum sinnum snuprað landsdómstóla fyrir að huga ekki að neytendarétti í úrskurðum sínum. Raunar hefur dómstóllinn gengið svo langt að segja nokkuð ótvírætt, að landsdómstólar skuli taka tillit til neytendaréttarákvæða/neytendaverndar þó svo að slíkar málsástæður/röksemdir séu ekki hafðar uppi í dómsmálum! Samkvæmt þessu bar Hæstarétti að líta til 3. mgr. c-liðar 36. gr. laga nr. 7/1936 áður en rétturinn ákvað að samningsvextir gengistryggðra lána gætu ekki haldið og fara ætti eftir 4. gr. laga 38/2001 við ákvörðun vaxta í staðinn. (Ég hef áður bent á vitleysuna í þeirri ákvörðun út frá 2. gr. laga 38/2001, en ætla ekki að fjalla um það hér.)
Jæja, en hver er þá niðurstaðan? Hún getur verið tvíþætt og er sú fyrri algjörlega í samræmi við niðurstöðu Evrópudómstólsins í máli C-618/10:
1. Hæstiréttur hefði í máli 471/2010 átt að hafna þeim málflutningi fjármálafyrirtækisins, að ekki væri hægt að efna samninginn með samningsvöxtum. Þó svo að ekki verði lengur tilgreindar myntir í samningnum, þá er lítill vandi að miða við upprunalega myntskiptingu og segja að hafi lán verið upprunalega verðtryggt 50/50 í jenum og frönkum, þá eru vextir lánsins einfaldlega 0,5*japanskir vextir + 0,5*svissneskir vextir + vaxtaálag samkvæmt samningi. Rök um að engin tenging sé milli íslenskrar krónu og vaxtanna skipta ekki máli, þar sem hægt er að efna samninginn á þennan hátt, sbr. síðari setningu 3. mgr. c-liðar 36. gr. laga 7/1936. Þetta þýðir að vextir miðast við samningsvexti á íslenskan höfuðstól/eftirstöðvar á hverjum tíma. Undantekningin er að aldrei skal þó greiða hærri vexti en greiddir hafa verið (vegna gildi fullnaðarkvittunar), en á þeim tíma þegar krónan var sterk, þá gætu gengisreiknaðar eftirstöðvar hafa verið lægri, en eftirstöðvar án gengisútreiknings. Lántakar eiga samkvæmt þessu inni ofgreiddar vexti á því tímabili, þegar gengi einstakra mynta var sterkara (krónan veikari gagnvart myntunum) en var á lántökudegi. Allt tal um seðlabankavexti er því úr sögunni.
2. Hæstiréttur keypti í máli 471/2010 þann rökstuðning, að samningsvextir væru ófrávíkjanlega bundnir gengistryggingarákvæði samninganna og þar sem gengistryggingin hafði verið vikið til hliðar, þá bæri að víkja samningsvöxtunum líka til hliðar. Ég hef aldrei getað skilið með hvaða lagarökum þetta var gert. Þau eru mér vitanlega ekki fyrir hendi. Ef einhver hefur slík lagarök á takteinum, þá væri gott að fá þau. En hvað þýðir þetta miðað við C-618/10? Hér er hin hræðilega staðreynd fyrir fjármálafyrirtækin:
Enga vexti má innheimta af lánunum og ekki er hægt að vísa til 4. gr. laga 38/2001, þar sem verið er að ógilda ósanngjarna skilmála og 3. mgr. c-liðar 36. gr. laga 7/1936 kemur í veg fyrir að skipta megi ósanngjörnum skilmálum út fyrir "sanngjarna".
Höfum alveg á hreinu, að lögin eiga ekki að vernda fjármálafyrirtækin fyrir eigin mistökum. Lögin eiga að vernda veikari aðila samningssambands gegn ofríki sterkari aðilans. Hafi sterkari aðilinn drullað upp á bak, þá verður hann bara að bera það tjón sjálfur.
Niðurstöðu Hæstaréttar í máli 471/2010 má helst líkja við að í knattspyrnuleik hafi, segjum FH (Íslandsmeistararnir í fótbolta), teflt fram ólöglegum leikmanni í bikarleik gegn Augnabliki (í 3. deild). Segjum að FH hafi unnið leikinn 15-0, en þar sem liðið tefldi fram ólöglegum leikmanni, þá hafi málið ratað til dómstóla og endað hjá Hæstarétti. Hefði rétturinn fylgt sömu rökum og í máli 471/2010, þá hefði FH komist upp með mistök sín, talist hafa unnið leikinn 9-0 og fengið sæti í næstu umferð bikarsins. Það hefðu nefnilega verið líklegustu úrslitin ef FH-ingar hefðu spilað manni færri allan leikinn! En þannig er það ekki í fótboltanum. Hafi menn rangt við, þá tapast leikurinn 3-0 og engar refjar um það. Sama gildir um neytendavernd. Hæstiréttur á bara eftir að fatta hve leikreglurnar eru í raun einfaldar.
Lánamál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.11.2012 | 20:14
Einelti - Sagan sem ég ætlaði aldrei að segja
Um þessar mundir er mikil umræða í þjóðfélaginu um einelti. Er það gott. Ég skrifaði þessa færslu fyrir mörgum mánuðum og hún er búin að vera lengi í smíðum. Raunar stóð ekki til að birta hana, en hér er hún.
Einelti er skelfilegur hlutur, þó vissulega gangi það misjafnlega langt. Allt of stór hluti þjóðarinnar á sögu af því að hafa lagt í einelti eða verið fórnarlamb þess. Sjálfur leið ég einelti nokkurn veginn frá því ég fór að tala og fram á fullorðins ár. Ástæðan var málhelti, gormælgi, þ.e. ég gat ekki sagt r.
Ég heiti Marinó og gat ekki sagt nafn mitt rétt fyrr en ég var 26 ára gamall. Þess vegna var ég alltaf Maddi nema þegar ég varð að gefa upp hitt nafnið, sem var þá yfirleitt Maginó. En 26 ára gamall fór ég í talkennsluna sem ég hefði átt að fara í 3 ára, 6 ára eða öll hin árin en gerði ekki. Enn þann dag í dag hugsa ég gormælt og verð oft að vanda mig áður en ég segi sum orð og sniðganga önnur.
Eineltið sem ég lenti í var bæði sárt og niðurbrjótandi, þó það hafi vafalaust verið saklaust miðað við það sem aðrir hafa þurft að ganga í gegn um. Auðveldasta leiðin til að fá mig til að þegja, var að einhver hermdi eftir mér. Það var gert í tíma og ótíma. Í tímum í skólanum, á fundum í félögum, á böllum, í frístundastarfi og nefnið það bara. Ef ekki hefði verið fyrir eineltið vegna gormælginnar hefði ég örugglega tekið þátt í ýmis konar starfi á mínum unglingsárum, sem ég tók ekki þátt í. Gefist tækifæri sem ég fékk ekki. En ég passaði mig að halda mig innan hópsins, þar sem ég taldi mig öruggan. Og í hvert sinn sem ég hætti mér út fyrir hann, þá bjó ég mig undir árásina sem ég vissi að kæmi og hún lét sjaldnast bíða lengi eftir sér. Ég held ég megi segja, að eina ókunna fólkið sem lét mér líða vel í návist sinni á þessum árum, voru nokkrir krakkar á Seyðisfirði sem ég átti kvöldstund með sumarið 1977 eða 8. Og ástæðan? Jú, á Seyðisfirði bjó maður sem var svo illa málhaltur að fólk hafði skilning á vandanum.
Erfiðasti tíminn var líklega menntaskólaárin. Þar voru fjölmargir einstaklingar, sem eru margir hverjir virtir þjóðfélagsþegnar í dag, sem töldu það heilaga skyldu sína að minna mig á það helst daglega að ég gæti ekki sagt nafnið mitt rétt. Meira að segja kennari við skólann tók þátt í þessum einkennilega leik. Þetta snerist upp í það, að eðlilegt þótti að hafa mig að skotspæni. Ekki bara út af málheltinni heldur bara öllu sem mönnum datt í hug. Menntaskólaárin voru vissulega góð ár, en þeim fylgdi samt nýtt sár á nánast hverjum degi og þó maður hafi stundum verið ónæmur fyrir stungunum, þá vissi maður aldrei nema næsta yrði verri en þær sem á undan komu. Og í hverjum mánuði datt mönnum eitthvað nýtt í hug og það þurfti ekkert að koma gormælginni við. Ég var einfaldlega samþykkt skotmark.
Ég vissi svo sem alveg hvernig ég gat snúið á suma kvalara mína. Ég vann þá í íþróttum, ræðukeppnum, kosningum um embætti í skólanum og hverju því sem var að slá þeim við. Enginn hafði mig heldur undir í rökræðum. Það sem ekki brýtur mann, styrkir mann, segir einhvers staðar. Hugsanlega, en spurningin er ekki hver styrkur þinn er í dag vegna óvæginna árása fyrri ára, heldur hver hefði styrkur manns getað orðið hefði maður nýtt þau tækifæri sem buðust en þorði ekki að nýta vegna óttans við laumulega árás lítilmenna. Svo má ekki gleyma tækifærunum sem manni buðust ekki vegna þess að ekki þótti boðlegt fyrir "elítuna" að málhaltur maðurinn væri í starfinu. Ég er alveg klár á að margt rann mér úr greipum vegna þess að ég var ekki boðlegur, þar sem ég gat ekki sagt err.
Kaldhæðin er, að það var ekki fyrr en ég fór í nám í Bandaríkjunum, sem ég áttaði mig á því að til var líf án þessa eineltis. Það var líka á milli skólaáranna í Bandaríkjunum að ég skráði mig í talkennslu og vann að mestu leiti á talgallanum. Já, það var sumarið 1987 og fólk í kringum mig minntist aldrei á það. Aldrei. Ekki einn einasti maður nefndi það við mig. Jú, einhverjir gerðu það 5 eða 6 árum síðar og þá fannst mér eins og þeir gerðu það í eftirsjá vegna þess að eineltistilefnið var horfið!
Ég vann mig út úr þessu, en finn við að skrifa þennan texta að stutt er í særindin og gremjuna. Það sem verra er, ekki er langt síðan ég hitti manneskju sem kallaði mig Maginó. Komin á fimmtugsaldur, þá var þroskinn ekki meira en þetta hjá þessari manneskju. Ég lenti oft í þessu milli þrítugs og fertugs og velti því þá fyrir mér, hvers vegna ég væri að búa í þessu þjóðfélagi. Fólki er bara ekki sjálfrátt, þegar því líður illa. Lausnin er þá að upphefja sig á kostnað annarra.
Vegna minnar reynslu passaði ég upp á að börnin mín fengju strax viðeigandi talþjálfun. Ég hef líka gefið mig á tal við gormælta einstaklinga og hvatt því til að fara í talþjálfun. Þeir hafa alltaf tekið ábendingu minni vel, en fólk í kringum þá sagt það vera óþarft. Bara svo það sé á hreinu. Það er aldrei óþarfi að fjarlægja þann þátt úr lífi einstaklings sem dregur úr sjálfstrausti viðkomandi og gefur öðrum tækifæri til að níðast á honum. Þeir sem leggja aðra manneskju í einelti, leita alltaf af veikasta blettinum hjá viðkomandi og hamast á honum, þar til eitthvað lætur undan.
Mín aðferð til að flýja eineltið var að yfirgefa svæðið, ef það var mögulegt. Slíkt er ekki alltaf hægt. En þó ég hafi aldrei verið laminn eða á annan hátt gengið í skrokk á mér, þá voru sárin mörg og djúp á sálina. Og ekki má gleyma varanlegu áhrifunum, sem eru þau, að fáir komast að mér í dag og ég umgengst nánast ekkert þá sem ég þekkti á þessum árum. Ekki endilega vegna þess að þeir væru beinir gerendur, heldur vegna þess að þeir voru annað hvort hlutlausir áhorfendur eða bara hluti af umhverfi sem mig langar ekkert að tengja mig lengur við.
Bara svo allt sé á hreinu, þá hef ég ekki áhuga á að skipta á því lífi sem ég lifi í dag og einhverju öðru sem mér hefði hugsanlega boðist. Allt hefur sinn tilgang og engin er rósin án þyrna. Ég er ekkert viss um að einhver önnur braut hefði boðið upp á færri þyrna, þeir hefðu bara verið öðruvísi. En þessi reynsla mín hefur mótað mig og mótar það hvernig ég el upp börnin mín og kem þeim til varnar, þegar mér finnst þau vera beitt órétti. Því miður hef ég ekki alltaf brugðist nógu skjótt við.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
8.11.2012 | 22:35
Dómur með mikið fordæmisgildi
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur kveðið upp enn einn tímamótadóminn. Nú er það um endurútreikning áður gengistryggðs bílaláns. Stóra niðurstaðan í þessum dómi er án efa:
Með vísan til dóma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012 verður jafnframt fallist á það með stefnanda að stefnda sé ekki heimilt að beita ákvæðum laga nr. 151/2010 sbr. lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, við útreikning á eftirstöðvum samnings aðila, afturvirkt á íþyngjandi hátt gagnvart stefnanda. Slík beiting væri andstæð 72. gr. stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttarins.
Undanfarna daga hefur þetta atriði verið mikið til umræðu og hef ég tekið virkan þátt í henni. Afstaða mín hefur svo sem ekkert breyst frá því 16. júní 2010, þegar fyrstu gengislánadómarnir gengu í Hæstarétti, þ.e. að ekki væri hægt að gera breytingu á vöxtum afturvirkt. Nú er búið að staðfesta þetta gagnvart íbúðalánum einstaklinga, lánum lögaðila og í dag bílaláni lögaðila.
Það sem gerir dóminn í dag svo sérstakan, er að aðalmeðferð málsins var 4. október sl., en það var endurflutt 30. október, þ.e. 12 dögum eftir að dómur 464/2012 (Borgarbyggð gegn Arion banka) gekk í Hæstarétti. (Ég sé að vísu að Lýsing er að reyna að gera lítið úr dómnum, þar sem greinargerð hafi verið send inn áður en dómur gekk í máli 600/2011.) Annað sem gerir þennan dóm mjög sérstakan er að maður sem kann að reikna (Gunnlaugur Kristinsson, endurskoðandi) er fenginn til að vinna kröfugerðina í málinu. Ég tel því líklegt, að aldrei áður hafi dómstólar fengið til umfjöllunar jafn nákvæma og rétta útreikninga og í þessu máli. Er ég þar alls ekkert að gera lítið úr öðrum, en ég held einfaldlega að Gunnlaugur sé hér fremstur meðal jafningja, þegar að þessum útreikningum.
Rökleiðsla dómara
Þegar dómur héraðsdóms er lesin, þá er ljóst að farið er þokkalega ítarlega yfir málið. Dómurinn er byggður á dómum Hæstaréttar hvað lagarök snertir, þó útreikningarnir séu ólíkir, þar sem mun faglegra er staðið að þeim í þessu máli. En hér er meginrökleiðsla dómsins:
Kemur því næst til skoðunar hvort þau skilyrði sem rakin voru í margnefndum dómi Hæstaréttar nr. 600/2011 og voru jafnframt til umfjöllunar í nýuppkveðnum dómi réttarins frá 18. október 2012 í máli nr. 464/2012, séu uppfyllt í þessu máli.
Fyrsta atriðið sem líta verður til er hvort stefnandi hafi verið í góðri trú um að þær greiðslur sem hann innti af hendi hafi falið í sér fullar og réttar efndir af hans hálfu. Af fyrirliggjandi gögnum má sjá að stefndi sendi stefnanda frá fyrsta gjalddaga samningsins, 10. desember 2006 til og með 10. júní 2010, greiðsluseðla þar sem fram kom upphæð afborgunar og vaxta auk gengis þeirra erlendu mynta sem lánið var tengt við. Stefnandi greiddi þá fjárhæð sem tiltekin var á seðlinum og fékk kvittun fyrir í samræmi við þá greiðslu. Hafa verður til hliðsjónar að á þeim tíma er stefnandi greiddi afborganir og vexti samkvæmt útreikningi stefnda, leit hvorugur aðili samningsins svo á að sú fjárhæð sem var til greiðslu hverju sinni, væri bundin við ólögmæta gengistryggingu. Í ljósi þess verður að telja að stefnandi hafi verið í góðri trú um að hann þyrfti ekki að greiða frekari greiðslur en þær sem hann hafði þegar innt af hendi. Sú málsástæða stefnda að stefnanda hafi verið ljóst að hann hefði þurft að greiða hærri vexti ef ekki hefði verið um gengistryggt lán að ræða og að það leiði til grandsemi stefnanda um ólögmæti samningsins er órökstudd með öllu og því haldlaus. Loks þykir sú málsástæða stefnda að stefnandi hafi verið grandsamur að minnsta kosti frá og með 3. september 2009, þegar hann krafði stefnanda um leiðréttingu og endurgreiðslu vegna samningsins, gegn andmælum stefnanda, of seint fram komin.
Næsta atriðið sem kemur til athugunar lýtur að skuldbindingu stefnanda. Stefnandi skuldbatt sig samkvæmt samningi aðila til þess að greiða stefnda 5.972.738 kr. með 60 afborgunum á fimm árum. Hinn 31. janúar 2011, þegar samningurinn hafði verið endurútreiknaður af hálfu stefnda, hafði stefnandi þegar greitt 43 afborganir af láninu eða alls 4.260.973 kr. Þar að auki hafði stefnandi greitt 764.459 kr. í vexti. Samkvæmt endurútreikningi stefnda voru endurreiknaðir vextir fram að síðasta greidda gjalddaga 2.200.784 kr. Mismunurinn á milli þeirrar fjárhæðar sem stefnandi hafði þegar greitt í vexti við endurútreikning lánsins og fjárhæðar endurútreiknaðra vaxta fyrir tímabilið 10. desember 2006 til 10. júní 2010, þ.e. 1.436.325 kr., er sú fjárhæð vaxta sem stefndi krefur stefnanda um til viðbótar fyrir liðna tíð. Þykir sú fjárhæð umtalsverð þegar haft er í huga að upphafleg heildarfjárhæð bílasamningsins var 5.972.738 kr.
Loks ber að kanna hvort einhver aðstöðumunur hafi verið milli aðila við gerð bílasamningsins. Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi sérþekkingu á sviði fjármála og því sé ekki hægt að líta svo á að stefndi hafi haft yfirburðastöðu við gerð samningsins...Að framangreindu virtu verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á af hálfu stefnda að stefnandi hafi á einhvern hátt komið að samningsgerðinni eða að skilmálar samningsins hafi ekki verið ákvarðaðir einhliða af stefnda.
Dómurinn fylgir því í öllu þeirri rökleiðslu sem Hæstiréttur notaði í málum 600/2011 og 464/2012. Fæ ég því ekki betur séð, en að staðfesti Hæstiréttur þennan dóm, þá fáist mikið fordæmisgildi fyrir lán til styttri tíma.
Máli að linni
Mjög mörg mál, þar sem tekist er á um gengistryggingu og vaxtaútreikning, hafa farið fyrir dómstóla. Fjármálafyrirtækin hafa reynt að véfengja hvern einasta úrskurð, sama hve afgerandi hann virðist vera. Í öðrum tilfellum, þar sem allt stefndi í að lykilmál kæmust í gegn um dómskerfið, hafa fjármálafyrirtæki gripið til þess ráðs að semja utan dómstóla til að forðast fordæmið. Grófasta dæmið um það er mál Arion banka gegn Sjómannafélagi Íslands, þar sem menn sömdu örfáum dögum áður en taka átti málið fyrir í Hæstarétti. Önnur fjármálafyrirtæki hafa gert það sama.
Með þessu hefur fjármálafyrirtækjunum tekist að draga málin alveg óheyrilega á langinn. Nú er mál að linni. Komnar eru mjög skýrar leiðbeiningar frá Hæstarétti um að ekki er heimilt að endurreikna vexti á þegar greidda gjalddaga, þar sem greitt var í samræmi við útsendar greiðslutilkynningar í samræmi við ákvæði samnings. Einnig hefur Hæstiréttur sagt að misskilningur í lagatúlkun verði bara leiðréttur til framtíðar, þegar sterkari aðilinn (fjármálafyrirtækið) gæti átt eitthvað inni hjá veikari aðilanum (lántakanum). Út frá þessum tveimur atriðum eiga fjármálafyrirtæki að geta leiðrétt endurútreikninga sína, þannig að eytt verði út úr útreikningum þeirri fásinnu að endurreikna þegar greidda gjalddaga. Í málinu hér að ofan bættu þessir arfavitlausu útreikningar við 1.436.325 kr. ofan á þegar greidda vexti upp á 764.459 kr. Í málum sem ég hef fengið til mín erum við stundum að tala um vel yfir tug milljóna, ef ekki tugi milljóna, ofan á lán sem upphaflega var 20 m.kr.
Ég skil ekki hvernig fjármálafyrirtækjunum dettur í hug að slík gullgerðarvél sé til og þá lögleg.
Tap flestra lánþega á hruninu er gríðarlegt, hvort heldur lánið er verðtryggt, óverðtryggt, löglega gengistryggt eða ólöglega gengistryggt, þá hefur hrunið leitt af sér óheyrilegt tap. Lán sem áttu að vera hagstæð og grunnur að nýju lánakerfi reyndust vera stærsta svikamylla Íslandssögunnar. 10 m.kr. lán sem átti að greiðast upp á 30 árum með heildargreiðslu upp á innan við 16 m.kr. endar allt í einu að vera upp á 25 m.kr. eftirstöðvar og eftir er að greiða af láninu í 25 ár á himinn háum vöxtum. Forsendur fjármálafyrirtækisins voru að fá 15,4 m.kr. til baka með vöxtum. Þar sem nánast allir upprunalegir lánveitendur eru annað hvort í slitameðferð eða farnir undir græna torfu, þá finnst mér hreina eðlilegast að tekið verði mið af upprunalegri greiðsluáætlun í íslenskum krónum og málin kláruð á þeim nótum. Vissulega þýðir þetta að kröfuhafar hinna föllnu fyrirtækja fá ekki jafn mikið og annars, en eins og staðan er í dag varðandi þjóðarskuldir, þá er það til bóta. Einhver segir að Lýsing standi öðruvísi, en ég held að það sé bara sýndarleikur. Lýsing skuldar erlendum kröfuhafa háar upphæðir og þær geta ekkert frekar farið úr landi, en greiðslur til vogunarsjóðanna sem eiga hrunbankana. Þetta snýst ekki lengur um að hámarka endurheimtur því slíkt stefnir efnahag þjóðarinnar í voða.
Gert að lækka höfuðstól | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lánamál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.9.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 30
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 22
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði