Bloggfærslur mánaðarins, september 2012
Fyrir um 20 árum var ljóst að þáverandi lífeyriskerfi opinberra starfsmanna stefndi í þrot, ef svo héldi sem horfði, þ.e. að greiðslubyrði myndi smátt og smátt vaxa ríkinu yfir höfuð. Þá var farin sú leið að skipta Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og fleiri opinberum sjóðum upp í tvær deildir. Eina sem nýir starfsmenn greiddu í og þeir sem skiptu um störf eða fóru í takmarkað starfshlutfall og aðra sem þeir sem voru fyrir í sjóðnum greiddu í.
Ég held að við verðum að fara svipaða leið varðandi alla lífeyrissjóði í dag. Raunar held ég að við verðum að taka ennþá stærra og áhrifaríkara skref.
Staðreyndir tala sínu máli. Nánast enginn lífeyrissjóður stendur undir þeim loforðum sem hann hefur gefið sjóðfélögum sínum þegar sjóðurinn tók við iðgjaldagreiðslum þeirra hvort heldur þær voru dregnar af launum við komandi eða kom úr pyngju launagreiðandans. Halli sumra þessara sjóða er ógnvænlegur og verður ekki réttur af nema með stórtækum aðgerðum. Aðrir eru í þokkalegum málum og örfáir í fínum málum.
Þó svo að staða sumra sjóða sé alveg með ágætum, þá tel ég rétt að gera samræmda breytingu á lífeyrissjóðakerfinu. Hún er sem hér segir:
Frá og með nýju ári verði öllum lífeyrissjóðunum skipt upp í nýjan sjóð og gamlan. Hætt verði greiða í gamla sjóðinn, en í staðinn hefji allir sjóðfélagar að greiða í nýja sjóðinn. Gamla sjóðnum verði sem sagt lokað fyrir inngreiðslu iðgjalda, en sá nýi verður virkur frá og með áramótum. Iðgjöld í nýja sjóðinn verði óbreytt frá sem áður var, nema hvað greiddur yrði strax skattur til ríkisins og útsvar til sveitarfélaga af iðgjöldunum. Ríki og sveitarfélög yrðu þó að leggja þessar skatttekjur í varasjóð sem aðeins mætti ganga á í sérstökum tilfellum, sem ég ætla ekki að fara út í hér og nú. Höfum í huga að lífeyrissjóðirnir töpuðu í hruninu vel yfir 100 milljarða af framtíðarskatttekjum ríkis og sveitarfélaga og hafa því glatað rétti sínum til að ávaxta skattféð.
Ávinningur
Hvað vinnst með þessari breytingu? Í stórum dráttum er það tvennt:
1. Komið verður í veg fyrir að iðgjaldagreiðendur framtíðarinnar verði látnir borga upp það sem vantar upp á að lífeyrissjóðirnir eigi til að standa undir útgreiðslu lífeyris miðað við loforð sjóðanna um áunnin réttindi þeirra sem greitt hafa í sjóðina til þess. Uppi eru áform um að hækka iðgjaldagreiðslur í lífeyrissjóðina úr 12% í 15,5%. Þessi peningur á að koma frá launagreiðendum, sem margir eiga þegar erfitt með að standa undir öllum þeim launatengduálögum sem þeim er ætlað að greiða. En hvorki þessi viðbótar 3,5% né þau 2% sem bættustu við fyrir 6 og 7 árum var/er ætlað að auka réttindi þeirra sem greitt er fyrir í samræmi við viðbótargreiðslurnar. Nei, þessi hækkun iðgjalda á að bæta upp það klúður sem orðið hefur í ávöxtun sjóðanna. Tekið skal fram að hugmyndin um hækkun í 15,5% kom fram áður en lífeyrissjóðunum tókst að tapa nokkur hundruð milljörðum árið 2008.
Mikilvægt er að greiðendur framtíðarinnar verði ekki látnir burðast með lífeyrisskuldbindingar sem lífeyrissjóðirnir standa ekki undir. Nýjar kynslóðir eiga að vera öruggar um að það sem þær greiða í lífeyrissjóðinn sinn fari í þeirra réttindaávinning, en ekki til að rétta af fortíðarhalla. Nýjar kynslóðir greiðenda eiga að koma að hreinu borði. Á sama hátt þarf að skilja á milli fortíðargreiðslna og réttindaávinnings þeirra sem eru núna að greiða í lífeyrissjóði og framtíðargreiðslna og réttindaávinnings þeirra sem munu greiða frá og með áramótum. Þannig verða minni líkur á að lífeyrissjóðirnir verði tómir þegar kemur að því að þeir sem eru nýlega byrjaðir að greiða í sjóðina, komast á lífeyrisaldur.
2. Hitt sem ávinnst er að hægt verður að gera upp lífeyrissjóðina og skilja betur hvert tap núverandi sjóðfélaga er. Staðreyndin er nefnilega sú, að ávöxtun sjóðanna hefur líklegast aldrei staðið undir þeim væntingum sem til hennar var gerð. Myndast hefur gríðarstór hola í mörgum sjóðanna, ekki öllum, og þessi hola gerir það að verkum að viðkomandi lífeyrissjóðir eiga ekki fyrir þeim greiðslum sem búið er að lofa iðgjaldagreiðendum/lífeyrisþegum. Menn voru búnir að búa til leikfléttu sem átti að bjarga þessu, þ.e. láta iðgjaldagreiðendur framtíðarinnar borga meira án þess að þeir ættu að njóta þess í betri lífeyrisréttindum. Viðbótin átti, eins og áður segir, að leiðrétta klúður fortíðarinnar. Yngri kynslóðirnar áttu að greiða fyrir lífeyri þeirra eldri.
Þó svo að margir sjóðir standi illa í dag, þá er ekkert sem segir að séu færustu sérfræðingar fengnir til að aðstoða við fjárstýringu þeirra, þá geti þeir ekki rétt sig af. Málið er að þá áhættu á ekki að leggja á framtíðargreiðendur, heldur verða þeir sem eiga réttindi í sjóðunum í dag að bera þá áhættu. Ég er einn af þeim. Það sem síðan ekki verður hægt að endurheimta af tapaðri ávöxtun verður síðan ýmist að bæta með sértækum aðgerðum í gegn um skattkerfið eða að koma fram í skerðingu réttinda.
Lífeyrisréttindi - loforð sem ekki gengu eftir
Nú þýðir ekki að segja, að einhver eigi réttindi vegna þess að viðkomandi greiddi í lífeyrissjóð. Þau réttindi voru ekki raunveruleg, heldur bara svikin loforð. Mönnum mistókst í flestum tilfellum að ávaxta eignir sjóðanna, eins og nauðsynlegt var, svo hægt væri að standa við loforð um réttindi. Við getum ekki ætlast til þess að greiðendur framtíðarinnar taki á sig þau mistök. Það verðum við, sem greitt höfum í sjóðina að gera. Skítt? Já, alveg örugglega, en það eina sanngjarna og réttláta í stöðunni. Við verðum að sýna þá manndóm, ef svo má segja, að láta ekki börnin okkar líða fyrir mistök manna sem misfóru með fé okkar. Þessir aðilar (nær eingöngu karlmenn) klessukeyrðu fína, flotta bílinn okkar og nú eigum við bara til pening fyrir umtalsvert lakari gerð.
Ef rétt verður haldið á spilunum, þá verður hægt að rétta marga lífeyrissjóði af. Hjá öðrum verður ekki komist hjá einhverjum skerðingum, en mér finnst rétt að stilla þeim í hóf og grípa frekar til sértækra aðgerða til að koma í veg fyrir óbærilegar skerðingar. Þessar skerðingar þurfa að ná jafnt til almennra lífeyrissjóða og opinberra. Svo vill til að ég á réttindi á báðum vígvöllum og er því að tala fyrir skerðingu eigin réttinda. Ég bara sé ekkert réttlæti í því að börnin mín eigi að fá lægri réttindaávinning á hverjar 1.000 kr. greiddar í lífeyrissjóðinn sinn, en eðlilegt er, eingöngu vegna þess að þeim er ætlað að tryggja mér betri réttindi. Svo lágt neita ég að leggjast. Nei, hafi einhverjum "snillingum" tekist að tapa mínum peningum í lífeyrissjóðunum mínum, þá skal ég vera meiri maður en svo að ég láti börnin mín borga með mér í gegn um lífeyrissjóðina.
Aldurstengd skerðing réttinda
Ég á 15 - 20 ár eftir af minni starfsævi og mun því borga í nýja lífeyrissjóð í þann tíma (verði þessi hugmynd ofan á). Vonandi verður skerðing réttinda í þeim sjóðum sem ég á réttindi í, ekki það mikil að hún reynist mér þungbær, en þeir sem komnir eru á lífeyrisaldur eða eru nálægt því gætu orðið fyrir búsifjum. Af þeim sökum þarf að leggja öryggisnet fyrir þá og hjálpa þeim. Þetta öryggisnet gæti falist í því að réttindi sjóðfélaga skreðist í réttu hlutfalli við þann tíma sem þeir eiga eftir að greiða í lífeyrissjóð og ekki hjá þeim sem eru byrjaðir að taka lífeyri. Segjum sem svo að skerða þurfi réttindi í lífeyrissjóði um 10%, þá skertust réttindi þeirra sem eru nálægt lífeyrisaldri um 1 - 2% meðan réttindi þeirra sem yngri eru skertust um kannski allt að 15%. Á móti kæmi að tækist lífeyrissjóðnum að snúa spilinu við og ávöxtun yrði nægileg til að auka réttindi sjóðfélaga, þá rynni sú aukning fyrst til þeirra sem fengu mesta skerðingu og síðar til þeirra sem sátu uppi með óverulega skerðingu.
Hitt er annað mál, að ekkert óréttlæti fælist í því að allir tækju á sig skerðinguna, jafnt lífeyrisþegar sem aðrir, en í mínum augum, þá snýst þetta ekki bara um hvað er stærðfræðilega rétt heldur líka hvað er siðferðilega rétt. Og siðferðilega, þá finnst mér ekki hægt að skerða réttindi þeirra sem ekki eiga möguleika á að rétta hlut sinn. Þess fyrir utan, þá mun skerðing á núverandi lífeyrisþega bara leiða til hærri útgjalda í almannatryggingakerfinu og þar með auka skattbyrðina. Við sem erum á atvinnumarkaði höfum því einfaldlega um tvennt að ræða: að greiða þetta í gegn um skerðingu lífeyrisréttinda eða að greiða þetta í gegn um skatta til ríkisins.
Lífeyrissjóðir | Breytt 6.12.2013 kl. 00:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
8.9.2012 | 10:30
Illa fengin krafa getur ekki orsakað vanskil - Leiðréttið stökkbreytingu og þá lagast margt!
Í janúar 2009 voru Hagsmunasamtök heimilanna stofnuð. Markmið samtakanna er meðal annars að vinna í leiðréttingum á lánamálum heimilanna. Krafa um slíkt var lögð fram strax í febrúar 2009 og hljóðaði hún upp á að forsendubrestur lána yrði leiðréttur, þannig að verðbætur vegna hækkunar vísitölu neysluverðs umfram 4% yrðu felldar niður af lánum. Færð hafa verið mörg rök fyrir bæði réttlæti slíkrar aðgerðar og ekki síður skynsemi hennar. Stjórnvöld og fjármálafyrirtæki hafa slegið skollaeyrum vð þessari kröfu með rökunum "ekki hægt". Aldrei allan tímann hefur verið sest niður og reynt að finna út hvernig þetta gæti verið hægt. Starfshópur var stofnaður um málið haustið 2010, svo kallaður sérfræðingahópur, en niðurstaða þeirrar vinnu var öll á forsendum fjármálafyrirtækjanna og fengu fulltrúar lántaka ekki einu sinni aðgang að því borði þegar ákveðið var hvaða brauðmolum ætti að henda í lántaka.
Ég sat í þessum sérfræðingahópi og benti í séráliti mínu á hvað þyrfti að gera. Skipti ég lántöku í hópa (raunar sambærilega og sérfræðingahópurinn) og reyndi að skilgreina til hvaða nauðsynlegra aðgerða þyrfti að grípa. Ég tel enn að mín nálgun í þessu máli hefði orðið árangursríkari en sú leið sem fjármálafyrirtækin og stjórnvöld fóru. Auk þess vil ég benda á að tillögur stjórnvalda og fjármálafyrirtækja gerði ráð fyrir meiri leiðréttingu verðtryggðra lána, en reyndin hefur verið. Munar þar líklegast ekki undir 50 milljörðum króna. (Hef þó ekki endurreiknað það nýlega.)
Hagsmunasamtök heimilanna hafa ítrekað varað við því sem myndi gerast, ef ekki yrði gripið til víðtækari ráðstafana. Samtökin hafa bent á að flest úrræði stjórnvalda hafa byggt á því að færa eignir heimilanna til fjármálafyrirtækjanna, þ.e. heimilin áttu að ganga á sparnað og selja seljanlegar eignir svo þau gætu greitt fjármálafyrirtækjunum, en fjármálafyrirtækin ættu ekki að leiðrétta þau afglöp sem hrunbankarnir urðu uppvísir að. Vissulega tóku lífeyrissjóðirnir og Íbúðalánasjóður ekki virkan þátt í hrunadansi fjármálafyrirtækjanna, en þessir aðilar þáðu með þökkum brauðhleifana sem til þeirra var kastað af nægtarborði fjárglæfrafyrirtækjanna. Hrunbankarnir orsökuðu hér mikinn óstöðugleika sem lýsti sér meðal annars í falli krónunnar og hækkun verðbólgu. Þetta leiddi til mikillar hækkunar verðbóta og þessar verðbætur tóku lífeyrissjóðirnir og Íbúðalánasjóður fengins hendi. Við sem höfum staðið í réttlætisbaráttunni fyrir heimilin lítum svo á að þessar verðbætur séu þýfi og með því að þiggja verðbæturnar hafi lífeyrissjóðirnir og Íbúðalánasjóður orðið þjófsnautnar.
Í öllum siðuðum samfélögum þykir eðlilegt að þjófar sem gripnir eru, séu látnir skila þýfinu og hafi aðrir notið þýfisins, þá skili þeir því líka. Ekki er tekin gild sú afsökun að menn hafi ekki vitað að um þýfi væri að ræða. Kannski er grimmt að tala um þýfi, en a.m.k. er um illa fengið fé að ræða og um það gilda almennt sömu reglur. Hafi fé vrið haft af manni, þá ber að skila því. Ljóst er að mikið vantar upp á að Ísland teljist til siðaðra þjóða, a.m.k. hvað þetta varðar. Fjármálafyrirtæki geta augljóslega framið alls konar lögbrot, brotið gegn viðskiptavinum sínum, sett heilt þjóðfélag nánast á hausinn og síðast en ekki síst nýtt lögbrot annarra til að hagnast án þess að þurfa að svara til saka eða bæta fólki og fyrirtækjum skaðann.
Hagsmunasamtök heimilanna hafa ítrekað varað við því að úrræði stjórnvalda og fjármálafyrirtækjanna væru ófullnægjandi. Að um tímabundin úrræði væri að ræða til að vonast til þess að viðhalda greiðsluvilja heimilanna. Vissulega hafa mörg heimili nýtt sér fjölbreytt úrræð, en því miður hafa mörg þessara úrræða ekki leitt til varanlegrar lausnar. Vandanum hefur verið ýtt á undan í von um að kraftaverkið gerðist. Fólk fékk að leysa út séreignarsparnað. Margir nýttu sér það, en nú er sá sjóður uppurinn. Aðrir áttu einhvern sparnað inni á bankabók, en það var að mestu bara ríka fólkið. Heimilin náðu að halda sér á floti í einhvern tíma, en hefur hópur þeirra einfaldlega ekki við að ausa bátinn. Þessu var varað við. En stjórnvöld voru ekki að hlusta eða í fásinnu sinni trúðu fjármálafyrirtækjunum, þar sem sitja að stórum hluta sama fólk og setti okkur í þessa stöðu.
Meðan stökkið í verðbótum á höfuðstól verðtryggðra lána hefur ekki verið leiðrétt, þá er hætt við að tiltekinn hópur heimila mun bara sökkva dýpra og dýpra. Önnur ráða enn við birgðarnar, en jafnvel hjá þeim er róðurinn tekinn að þyngjast. Hvað þarf að gerast svo stjórnvöld og fjármálafyrirtækin átti sig á þessu? Hvert er virði lánasafns, þar sem hluti lántaka standa ekki undir afborgunum? Hver er munurinn á því að koma til móts við núverandi lántaka og að afskrifa lán sem hvíla á eign áður en hún er seld áfram?
Ég veit ekki hvað þarf til svo stjórnvöld og lánveitendur átti sig, en vakni menn ekki fljótlega, þá mun það einfaldlega bitna á greiðsluhæfi Íbúðalánasjóðs og ég er ekki viss um að stjórnvöld vilji hugsa þá hugsun til enda að Íbúðalánasjóður lendi í verulegum vanda. Í mínum er það lánasafn verðmætara þar sem búið er að skilja á milli "góðra" lána og "slæmra", þar sem búið er að stilla kröfuna af þannig að lántakinn getur greitt af þeim og hefur vilja til þess. Loks, í mínum huga, þá er enginn munur á því að láta núverandi lántaka njóta afskrifta sem nýr lántaki fengi. Raunar tel ég það siðferðislega rétta aðferð.
(Síðar mun ég rifja upp tillögur mínar í sérálitinu og færa frekari rök fyrir því af hverju ég taldi það rétta aðgerð.)
Um 500 ný heimili í vanskilum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lánamál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.9.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 31
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 28
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði