Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

Stjórn VR getur ekki stutt Hagsmunasamtök heimilanna né afnám verðtryggingar

Mér finnst með ólíkindum í svari meirihluta stjórnar VR sú yfirlýsing að stjórnin geti ekki stutt við baráttu Hagsmunasamtaka heimilanna vegna samstarfs HH við Nýtt Ísland um baráttufundi á Austurvelli!  Orðrétt segir í svari meirihluta stjórnar VR:

En stjórn VR getur ekki stutt Hagsmunasamtök heimilanna meðan þau eru í samstarfi við samtökin Nýtt Ísland sem varla er hægt að lýsa öðruvísi en sem öfgasamtökum.

Mér finnst það sorglegt að meirihluti stjórnar VR skuli ekki geta greint á milli hagsmunabaráttu Hagsmunasamtaka heimilanna og þess að samtökin haldi útifundi með "stjórnarandstöðunni".  Ég held að það sé kominn tími til að meirihluti stjórnar VR ræði við félagsmenn sína um ástandið í þjóðfélaginu.  Það þarf óvenjulegar aðferðir til að ná athygli, alveg eins og forsvarsmenn verklýðshreyfingarinnar gerðu á árum áður.  Þessu virðist verkalýðshreyfing hafa gleymt.  Með heiðarlegri undantekningu í "stjórnarandstöðu" VR og Vilhjálmi Birgissyni, þá hefur ENGINN forystumaður í launþegahreyfingu þorað að víkja af línunni sem mörkuð var af ASÍ.

Látum vera að stjórn VR lýsi ekki yfir stuðningi við HH, en að bera fyrir sig greiðslum til lífeyrisþega sem ástæðu fyrir því að ekki megi afnema verðtryggingu er ótrúlegt.  Það er ekkert, já ekkert, sem bendir til þess að verðtrygging útlána eða eigna lífeyrissjóðanna ráði um það hvort þeir geta staðið undir verðtryggingu lífeyris.  Lífeyrissjóður verzlunarmanna, svo dæmi sé tekið, fékk inngreidd iðgjöld upp á um 14 milljarðar á síðasta ári meðan útgreiddur lífeyrir nam innan við 7 milljörðum.  Hvað bendir til þess að verðtryggja þurfi um og yfir 50% af eignum sjóðsins?  (Samkvæmt árshlutauppgjöri vegna 3. ársfjórðungs 2009 eru tæp 53% eigna sjóðsins verðtryggðar með vísitöluneysluverðs.) Það er nákvæmlega ekkert, auk þess er það krafa HH að verðtrygging sé tekin úr sambandi vegna fasteignaveðlána.  HH hefur aldrei skipt sér að því hvort önnur lán séu verðtryggð, en það er skoðun samtakanna að verðtrygging sé barn síns tíma.

En skoðum svar meirihluta stjórnar VR við áskorun um að hann styðji kröfuna um afnám verðtryggingar:

Skilja má kröfu þremenninganna þannig að þeir krefjist neikvæðra raunvaxta enda ekki ljóst hvar þeir vilja að vaxtaþakið liggi. Hvernig neikvæð ávöxtun getur samrýmst hagsmunum efnahagslífsins og t.d. sjóðfélaga í lífeyrissjóðum er vandséð. Er það virkilega ásetningur þremenningana (sic) að rýra eignir lífeyrissjóðsfélaga enn frekar sem myndi hafa í för með sér lækkun  á greiðslum til elli- og örorkulífeyrisþega núna  og í framtíðinni? Vilja þeir jafnvel  ganga enn lengra og afnema verðtryggð afkomuréttindi þeirra líka? Lítil er samúð þeirra og samkennd með öldruðum og öryrkjum.

Mér finnst þetta svar benda skýrt til þess, að meirihluti stjórnar VR hefur enga trú á stöðugleika í íslensku hagkerfinu og sá stöðugleiki eigi ekki verða til vegna þess að fjármagnseigendur taki þátt í að skapa hann.  Raunvextir verða þá og því aðeins neikvæðir að óstöðugleikinn haldi áfram.  Hvergi í heiminum er húsnæðiseigendum boði upp á lán sem alltaf bera jákvæða raunvexti.  Hvergi í heiminum eru húsnæðislán alltaf með lágmarksraunvexti.  Alls staðar annars staðar taka lánveitendur áhættu í lánveitingum sínum.  Húsnæðislán eru ekki hugsuð sem gróðrarlind fyrir fjármálafyrirtæki heldur sem traust og örugg lágmarksávöxtun til langs tíma. Þess vegna vilja Hagsmunasamtök heimilanna að verðtrygging fasteignaveðlána verði aflögð.

Með fullri virðingu, þá vissi ég ekki að það væri hlutverk stjórnar VR að gæta hagsmuna lífeyrissjóðanna.  Það væri hlutverk stjórna lífeyrissjóðanna.  Ég hélt að þetta væru tveir óháðir aðilar.  En burt séð frá því, þá vil ég benda stjórn VR á nokkrar staðreyndir, þar sem ég veit talsvert um starfsemi lífeyrissjóðanna:

  • Fjölmargir lífeyrissjóðir hafa skert útgreiðslu til lífeyrisþega á undanförnum árum þrátt fyrir umfangsmiklar verðtryggðar eignir sjóðanna.
  • Verðtryggðar eignir fjögurra stærstu lífeyrissjóða landsins voru í upphafi árs 2009 á bilinu 45-55% af eignasöfnum sjóðanna, þrátt fyrir að verðtryggðar skuldbindingar þeirra væru umtalsvert minni, eða innan við 10% hjá þeim öllum (raunar 4 - 8%).  Það þarf ekki verðtryggðar eignir upp á 45-55% til að standa undir innan við 10% verðtryggðum útgreiðslum.
  • Ávöxtun þessara fjögurra stærstu sjóða hefur undanfarin ár (að 2009 undanskildu) stjórnast alfarið af óverðtryggða hluta eigna þeirra og þrátt fyrir góða ávöxtun, þá hefur þurft að skerða lífeyrisgreiðslur, þar sem menn vanmátu skuldbindingar sjóðanna.
  • Greiðslur inn í lífeyrissjóðina voru of litlar fyrstu ár sjóðakerfisins, sjóðirnir voru margir illa reknir og sýndu lélega ávöxtun.  Þeir, sem greiddu inn í sjóðina á þeim tíma, greiddu einfaldlega of lítið inn og eru að fá meiri greiðslur út en nemur réttindaávinningi þeirra.  Þess vegna var ákveðið að hækka iðgjöldin upp í 12%.
  • Krafan um 3,5% raunávöxtun er bara tala.  Henni má breyta.
  • Ákvæðið um verðtryggingu afkomu lífeyrisþega hefur ekki komið í veg fyrir ítrekaðar skerðingar á lífeyrisgreiðslum.

Annars sýnist mér svar meirihluta stjórnar VR benda til þess, að í lagi sé að vera með mismunandi hægfara eignaupptöku í formi verðtryggðra húsnæðislána.  Gerir stjórn VR sér grein fyrir, að sé tekið 20 m. kr. verðtryggt lán til 40 ára með 5,0% vöxtum og meðalverðbólga síðustu tveggja áratuga upp á um 6% notuð, þá greiðast tæpar 60 m.kr. í verðbætur á lánstímanum!  Það er þreföld lánsupphæðin!  Vaxta- og verðbótaþáttur lánsins nemur samtals 112 m.kr. af 131 m.kr. heildargreiðslu.  Sé verðbótaþátturinn tekinn út, þá lækkar heildargreiðslan í 40 m.kr., þannig að verðbótaþátturinn er alls 91 m.kr.  Hvað ætli mætti hækka greiðslur í lífeyrissjóði mikið, ef greiðandi hefði þessa peninga til eigin ráðstöfunar?

Sjónarmið meirihluta stjórnar VR til verðtryggingarinnar fasteignaveðlána er kolrangt.  Verðtryggingin er böl, ekki kostur.  Hún ýtir undir óstöðugleika og dregur úr þörf fyrir áhættustýringu.  Verðtrygging hefur ekki komið í veg fyrir að lífeyrir hafi verið skertur og hún hefur ekki verið ástæðan, þegar lífeyrir hefur hækkað.  Skjaldborg verðtryggingarinnar um lífeyrinn hefur ekki haldið, ef lífeyrissjóðir hafa klúðrað einhverju eða að forsendur hafa breyst.

Ég tek það skýrt fram, að ég er á engan hátt að gagnrýna félagsmenn eða starfsmenn VR. Sjálfur er ég ekki félagsmaður, en var það fyrir um 20 árum.  Ég er að gagnrýna það, að þrír stjórnarmenn koma með áskorun til meirihlutans um mál sem maður hefði haldið að auðvelt væri að sameinast um.  Í staðinn fyrir að ræða áskorunina er farið í skotgrafirnar og reynt að gera lítið úr málflutningi þremenninganna. Hagsmunasamtök heimilanna eru dreginn inn í skotgrafahernaðinn vegna þess að þau vinna með Nýju Íslandi, en þau samtök eru meirihluta stjórnar VR ekki þóknanleg.  Ég vil skora á stjórn VR að endurmeta afstöðu sína og búa til sína eigin yfirlýsingu til stuðnings heimilum landsins.  Ég skora á meirihluta stjórnar VR að sanna fyrir hvern félagið vinnur með því að taka afstöðu með hinum almenna félagsmanni í baráttunni fyrir bættum kjörum og þá fyrst og fremst lánakjörum.  Þið þurfið ekkert að vinna með Hagsmunasamtökum heimilanna, bara að þið komið út og verið með í baráttu almennings.


mbl.is VR snúi sér að atvinnulausum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáránleiki verðtryggingarinnar - Lausnin er að stytta í lánum eins og fólk frekast ræður við

Ég var að leika mér með tölur í kvöld og reiknaði m.a. út áhrif verðtryggingar á 20 m.kr. lán til 40 ára.  Niðurstöðurnar komu mér svo sem ekkert á óvart, en þær eru samt fáránlegar.

Sé tekið 20 m.kr. lán til 40 ára, gert ráð 5,0% vöxtum og að verðbólga sé 6% á ári (nokkurn veginn söguleg verðbólga síðustu 20 ára), þá greiðir lántaki til baka 131 m.kr.  Af þessari tölu eru verðbætur og áhrif vegna verðbótanna í formi hærri vaxtagreiðslu alls 91 m.kr.  Þessi tala fæst með því að reikna út heildargreiðslu án verðbólgu (þ.e. 40 m.kr.) og draga frá 131 m.kr.  Verðtryggingin er að kosta lántakann 91 m.kr.

Breytum nú forsendum og færum verðbólguna niður í 4%.  Þá er heildargreiðslan 85 m.kr. og verðbótaþátturinn því 45 m.kr.  Við 2,5% verðbólgu lækkar heildargreiðslan í 62 m.kr. og verðbótaþátturinn i 22 m.kr.

Tekið skal fram að reiknað er með jöfnum afborgunum, en samkvæmt þeirri aðferð er greiðslubyrðin há til að byrja með en lækkar svo eftir því sem á lánstímann líður.

Ef þetta er skoðað út frá jafngreiðslu láni (annuitetslán), þá fer heildargreiðslan miðað við 6,0% verðbólgu upp í 185 m.kr. eða hækkar um 54 m.kr. og verðbótaþátturinn verður 139 m.kr.  (Heildargreiðsla án verðbólgu er um 46 m.kr.)

Sé láninu aftur breytt í 20 ára jafngreiðslulán, þá er heildargreiðslan 60 m.kr. (eða innan við þriðjungur af heildargreiðslu 40 ára láns) og verðbótaþátturinn um 29 m.kr. (eða um 20% af verðbótaþætti 40 ára láns).

Vissulega skiptir upphæð mánaðarlegrar greiðslu nokkru um hvaða leið fólk hefur efni á ætli fólk að taka 40 ára lán, þá er betra að vera með jafnar afborganir en jafnar greiðslur.  Mánaðarlegar greiðslur eru vissulega hærri til að byrja með, en munurinn er ekki það mikill.  Síðari hluta lánstímans verður munurinn aftur óhugnanlega mikill jafngreiðsluláninu í óhag.  Ráði fólk á annað borð við þessa greiðslubyrði, þá mæli ég með því að stytt sé í láninu niður í 20 ár og það haft jafngreiðslulán.

(Allir útreikningar voru framkvæmdir á lánareikni Landsbankans.)


Skatturinn notaður gegn heimilunum?

Einn félagi minn fékk símtal í dag, þar sem honum var tjáð af viðmælanda sínum "að það væri kominn einhver úrskurður frá skattstjóra og félagsmálaráðuneytinu um að ekki sé hægt að gefa eftir skatt af niðurfellingu skulda".  Ég verð að segja eins og er, að það er með ólíkindum, ef stjórnvöld ætla að nota skattayfirvöld sem stjórntæki til að koma í veg fyrir eðlilega og sanngjarna leiðréttingu á stökkbreyttum höfuðstóli lána.  Ég man ekki til þess, að ég hafi fengið einhvern frádrátt frá tekjuskatti þegar skuldirnar bólgnuðu út.  Af hverju ætti ég þá að borga tekjuskatt af leiðréttingunni, þegar hlutirnir eru færðir í áttina að því sem þeir voru áður?

Mér finnst þessi taktík ríkisstjórnarinnar vera heldur ósmekkleg, svo ég segi ekki meira, að bera skattinum fyrir sig.  Það er greinilegt að spurningin sem skattstjóri fékk var rangt orðuð.  Hana hefði átt að orða:  "Verður leiðrétting lána tekjuskattsskyld og ef svo er, hvaða breytingar þarf að gera á lögum tekjuskatt til að svo verði ekki?"

Ég mun að sjálfsögðu taka þetta upp í hinni þverpólitísku nefnd sem ég sit í.  Það er ekki hægt að láta skattalög koma í veg fyrir að fólk fái eðlilega og sanngjarna leiðréttingu sinna mála.

 


Yrði kosið aftur, ef niðurstaðan síðast hefði verið á hinn veginn?

Mér finnst þetta vera áhugaverð staða sem er kominn upp í Hafnarfirði.  Fyrir tveimur árum eða svo, var hafnað í atkvæðagreiðslu meðal bæjarbúa að heimila stækkun álversins í Straumsvík.  Það munaði ákaflega mjóu, en meirihluti þeirra sem tók þátt hafnaði stækkuninni.  Maður hefði haldið að niðurstaðan síðast væri endanleg, en annað kemur á daginn.  Það er nefnilega ekkert endanlegt.

Nú ætla ég ekki að fjalla sérstaklega um þetta mál, þó freistandi sé að nota það sem dæmi, en fyrst og fremst að fjalla um grundvallarsjónarmiðið sem fellst í niðurstöðum kosninga.  Í tilfelli álversins breyttu niðurstöðurnar engu í ásýnd umhverfisins.  Kosið var með óbreyttu ástandi.  Málið er að mönnum finnst sem það að velja óbreytt ástand sé ekki endanleg niðurstaða.  Hana er alltaf hægt að endurskoða.  En ef þetta hefði farið á hinn veginn, þ.e. stækkun álversins verið samþykkt, væru menn þá að velta því fyrir sér í Hafnarfirði að kjósa um að loka hluta álversins?  Það efast ég um.  Slíkt væri nefnilega talin "endanleg" ákvörðun og óafturkræf.

Ég velti því fyrir mér, af hverju þeir sem vilja óbreytt ástand eða verndun náttúru þurfa að berjast fyrir því reglulega sama hversu oft þeir bera sigur úr bítum, en þeir sem vilja breytingar þurfa bara að vinna einu sinni.  Svo virðist vera, að eina ákvörðunin, sem er "endanleg", er sú sem er óafturkræf, en hinar má endurskoða þess vegna árlega.  Dæmi eru um að landsvæði hafa verið friðlýst, en svo á að breyta friðlýsingunni við fyrsta tækifæri vegna þess að það hentar í pólitískum hráskinnaleik eða vegna tímabundinna erfiðleika í atvinnumálum.  Sem leiðsögumaður, þá vil ég geta treyst því að friðlýsing sé varanleg, en ekki bara þar til nýir pólitískir vindar blása um héruð.  Friðlýsing svæðis þýði að ekki megi raska því, en ekki að í lagi er að raska 5% af því vegna þess að það hentar.

Ef ætlunin er að fara þá braut, sem bæjarstjórn Hafnarfjarðar er að íhuga, þá verða menn líka að vera tilbúnir að kjósa um að fara til baka í upprunalega stöðu.  Leikreglurnar verða að tryggja jafnan rétt allra aðila.  Annað hvort ákveðum við að niðurstöður kosninga séu endanlegar eða við ákveðum að allir aðilar hafi rétt á því að krefjast nýrra kosninga um málefnið.  Ekki má kjósa oft um sama Icesave samninginn, þar til hann er samþykktur, nema kjósa megi um hann eftir að hann hefur verið samþykktur til að þjóðin geti hafnað honum.  Ekki má kjósa um oft um ESB aðild, þar til hún hefur verið samþykkt, nema kjósa megi síðar um að hætta við ESB aðild.  Best er náttúrulega, að niðurstöður íbúakosninga/þjóðaratkvæðagreiðslu hafi einhvern lágmarks líftíma, þannig að ekki megi kjósa aftur um málið fyrr en að þeim tíma liðnum.  Við verðum að læra að lifa með niðurstöðum lýðræðislegra ákvarðanna, en ekki ýta undir endalausan hringlanda hátt.

Aftur vil ég taka fram, að þessum skrifum er ekki beint gegn álverinu á einn eða neinn hátt.  Þau snúast um virðingu fyrir lýðræðislegri ákvörðun kjósenda í íbúakosningu/þjóðaratkvæðagreiðslu.


mbl.is Kosið verði um álverið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfum í huga: Ísland þarf eitt stig

Tölfræði, sagnfræði og allt það hefur ekkert að segja, þegar flautað verður til leiks í dag.  Norðmenn eru með feikisterkt lið og geta hæglega gert okkur skráveifu.  Þeir geta með sigri komist upp fyrir okkur og Dani, tapi Danir gegn Króötum.  Draumurinn um undanúrslit er því langt því frá úti hjá þeim.

Mér hefur alltaf fundist það vafasöm sálfræði að segja að jafntefli dugi.  Við þurfum jafntefli til að tryggja okkur áfram.  Svo einfalt er það.  Stigið sem við glopruðum úr höndunum á móti Austurríki gæti reynst dýrkeypt.  Með það í húsi værum við að spila upp á sigur í riðlinum í dag, en í staðinn erum við að spila upp á sæti í undanúrslitum.  Þangað förum við ekki, ef Danir gera jafntefli eða vinna Króata nema við tökum a.m.k. eitt stig á móti Norðmönnum.  Íslenska liðið verður því að mæta til leiks með það eitt að markmiði að vinna.  Ekki gengur að treysta á úrslit í öðrum leikjum!


mbl.is EM: Sama munstur og 2002?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stýrivextir lækka en raunstýrivextir hækka!

Ég verð að viðurkenna, að mér fannst vera svigrúm til meiri lækkunar stýrivaxta.  Stýrivextir umfram veðbólgu hafa á undanförnum mánuðum verið talsvert lægri, en þeir verða við þessa ákvörðun Peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands.  Þarf að fara aftur til júní  á síðasta ári til að finna sambærilega raunstýrivexti, en þá voru þeir 2,82% samanborið við 2,92% eftir þessa ákvörðun.  Lægst fóru raunstýrivextir niður í 1,1% í ágúst og hafa síðan verið að hækka hægt og bítandi.  Stökkið núna nemur rúmlega 0,4%, þ.e. úr 2,48% í 2,92%.

Mér finnst vera mikilvægt að Peningastefnunefndin sýni trú sína á hagkerfið.  Bandastjórn Seðlabankans undir stjórn Davíðs Oddssonar gerði það ekki með því að halda raunstýrivöxtum langtímum saman yfir 5% og þaðan af hærra.  Hæst fóru raunstýrivextir í tæp 9,9% í ágúst 2007 sem þá jafngilti nærri því þrefaldri ársverðbólgu.  Ekki sýndi það beint trú bankans á að vopn hans bitu.

Forvitnilegt verður að sjá hvort bankarnir bregðist við þessari lækkun með því að lækka en frekar útlánsvexti sína.  Því miður hefur atvinnulífið þurft að greiða allt of háa vexti undanfarin misseri, vexti sem hamla alla uppbyggingu og vöxt.  Með fjármagnskostnað upp á 12 - 15% og þaðan af meira, er erfitt annað en að hleypa þeim kostnaði út í vöruverðið.  Nú er verðbólgan komin niður fyrir 7% og það sem meira er, að þriggja mánaða verðbólga er komin niður fyrir 4% (3,6% til að vera nákvæmur).  Mér hefur alltaf fundist skammtíma verðbólgumæling vera mun marktækari mælikvarði á ástandið í þjóðfélaginu og skarpari breytingar séu líklegri til að skila árangri.  Höfum í huga að þriggja mánaða verðbólga mun fara talsvert niður fyrir 3% í næstu mælingu, þó svo að ársverðbólgan haldist óbreytt milli mánaða.


mbl.is Stýrivextir lækka í 9,5%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

FME tekur ekki afstöðu til gengistryggðra lána - Tekur FME afstöðu til nokkurs?

Hagsmunasamtök heimilanna sendu Fjármálaeftirlitinu fyrirspurn um lögmæti gengistryggðra lána 18. maí 2009.  Sjö mánuðum síðar, eftir nokkrar ítrekanir kom svar.  Það er sem hér segir:

Beiðni Hagsmunasamtaka heimilanna felur í sér að Fjármálaeftirlitið veiti lagalega álitsgerð um lögmæti gengistryggðra skuldabréfa.  Fjármálaeftirlitið  bendir á í því sambandi að hlutverk þess er að fylgjast með því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög og reglur og að öðru leyti í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, sbr. 8. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.  Það samræmist ekki hlutverki Fjármálaeftirlitsins að veita lagalega álitsgerð til Hagsmunasamtaka heimilanna.  Þá er Fjármálaeftirlitinu ekki falið úrskurðarvald í einstökum ágreiningsmálum eða sker úr um réttindi og skyldur aðila að einkarétti eða ágreiningi um sönnun málsatvika.

Þetta er heljarinnar réttlæting hjá Fjármálaeftirlitinu fyrir því að hafa staðið hjá meðan íslensk fjármálafyrirtæki hafa vaðið yfir íslensk lög á skítugum skónum.  Fyrir utan að FME fer í nokkra andstöðu við sjálft sig.  Í svarinu segir nefnilega "að hlutverk [FME] er að fylgjast með því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög og reglur og að öðru leyti í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti".

Ég verð að viðurkenna, að allt of margt í starfsemi fjármálafyrirtækja undanfarin ár á ekkert skylt við "eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti".  Ef hagsmunasamtök, eins og Hagsmunasamtök heimilanna, geta ekki vísað til FME máli, þar sem efast er um að "starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög og reglur" vegna þess að "[þ]að samræmist  ekki hlutverki Fjármálaeftirlitsins að veita lagalega álitsgerð" til samtakanna, þá skil ég ekki hverjir eiga að geta leitað til FME um álitamál.  Eru það bara fjármálafyrirtækin sem mega leita til FME?

Tökum bara bullið með SP-fjármögnun.  Fyrirtækið hefur boðið gengistryggð lán í gengissjóði!  Ég skora á fólk að lesa færslu Þórdísar Bjarkar Sigurþórsdóttur um þetta, sjá Neytendalán í gervigjaldmiðlum.  Tekur FME ekki svona mál til athugunar?  Ef ekki, hvert er þá verksvið FME?  Hver er skoðun FME á gengistryggðum lánum?  Er þögn sama og samþykki?  Það verður að segja að þögn stofnunarinnar er æpandi.


Verðhjöðnun milli mánaða - Svigrúm til lækkunar stýrivaxta

Hún var óvænt niðurstaðan úr verðbólgumælingu Hagstofnunnar.  Meðan allir bjuggust við hækkun verðbólgu, þá kom lækkun upp á 0.31%, en þetta er aðeins í annað sinn á tæpum þremur árum, sem vísitalaneysluverðs lækkar milli mánaða.  Hitt skiptið var í mars 2009.

Þetta eru vissulega jákvæðar fréttir.  Verðbólga undir 7% sást síðast í febrúar 2008.  Málið er að skattahækkanir ríkisstjórnarinnar um áramót komu í veg fyrir ennþá frekari lækkun vísitölunnar.  Hagstofan reiknar að þar muni 0,74%.  Það er kannski ekki mikið svona eitt og sér, en veldur því að verðbólgan helst yfir 6% og þriggja mánaða verðbólga er 3,62% í staðinn fyrir 0,57%.  Það sem skiptir mestu máli er að svigrúm til lækkunar stýrivaxta er ekki eins mikið og það væri annars.  Svigrúmið er þó talsvert og miðað við raunstýrivexti undanfarinna mánaða, þá ættu stýrivextirnir að geta lækkað um 1,0 - 1,5%.


mbl.is Verðbólgan mælist 6,6%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ræða Jóhannesar Björns á Austurvelli 23/01/2010: Lögin eru með almenningi en valdið ekki!

Hér fyrir neðan er ræða Jóhannesar Björns á Austurvelli í gær 23. janúar 2010:

Góðir fundargestir,

Það er deginum ljósara að pólitíska yfirstéttin og peningaelítan sem stýrir fjórflokknum tóku snemma hruns þá ákvörðun að fórna skuldsettum heimilum landsins. Þetta var gert á meðan skjaldborg var slegin um fjármagnseigendur og glæpaliðið sem setti landið á hausinn.

Flest bendir til þess að ráðamenn hafi ákveðið að draga almenning á asnaeyrunum með því að þæfa málið sem lengst - gefa út yfirlýsingar sem veittu fólki tímabundna von, en reyndust við nánari athugun ekkert annað en lengri hengingaról.

Við skulum hafa eitt grundvallaratriði á hreinu: Myntkörfulán, borguð út í íslenskum krónum, eru algjörlega ólögleg og verðtryggð lán eru bæði siðlaus og standast heldur ekki lög um eðlilega viðskiptahætti. Einstaklingar sem hafa verið flæktir í þetta skuldanet og óska nú leiðréttingar eru því ekki að biðja um ölmusu eða sérstaka fyrirgreiðslu - þeir eru einfaldlega að krefjast þess að lögum landsins sé framfylgt. Spurningin snýst raunverulega um hvort við búum í réttarríki eða bananalýðveldi.

Lög nr. 38 frá 2001 eru skýr. Gjaldeyristryggð lán eru ólögleg. En jafnvel þótt þessi lög væru ekki fyrir hendi þá gerði gjaldeyrisbrask bankanna 2008 verðtryggðu lánin marklaus. Í stuttu máli þá tóku bankarnir stöðu á móti viðskiptavinum sínum þegar þeir snarfelldu gengi íslensku krónunnar. Þeir græddu því bæði á fallandi gengi og hækkun allra gengistryggðra og verðtryggðra lána. Þetta voru ekki eðlileg bankaviðskipti heldur glæpastarfsemi og margur hefur verið settur í járn fyrir minna.

Í 36. grein laga nr. 7 frá 1936 segir orðrétt: “Samningi má víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig…”

Síðan segir í þessum sömu lögum: “Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag.”

Lögin eru skýr og nýlegur dómur sem féll lánafyrirtæki í vil í Héraðsdómi Reykjavíkur sýnir okkur aðeins að samtrygging valdsins hefur náð óþolandi stigi og réttarfar á Íslandi á enga samleið með kerfi landa sem við viljum bera okkur saman við. Orðið “bananalýðveldi” kemur aftur upp í hugann… en við hverju er að búast í landi þar sem þjónar dómsvaldsins eru án undantekninga valdir samkvæmt pólitískri forskrift?

Verðtrygging lána er eitthvert mesta glapræði seinni tíma. Á áratugunum fyrir 1980 ríkti algjör óstjórn á íslenskum fjármálamarkaði. Verðbólgan æddi áfram og ráðamenn annað hvort skildu ekki hvað var að gerast eða vildu ekki skilja það. Í staðinn fyrir að beita raunhæfum lausnum, t.d. draga úr útlánum bankanna með hærri bindiskyldu, þá var kerfið sett á sjálfstýringu með verðtryggingunni. Þetta var taktísk viðurkenning valdamanna á þeirri staðreynd að þeir kunnu ekki að stjórna hagkerfinu.

Verðtryggingin er ólögleg að því leyti að hún er ekki í anda eðlilegra viðskiptahátta. Hvernig getur það staðist að aðeins annar aðilinn taki alla áhættu af öllu sem kann að fara úrskeiðis í framtíðinni? Þegar bankakerfið bauð fólki verðtryggð lán á árunum fyrir 2008 lögðu “sérfræðingar” bankanna fram greiðsluáætlanir sem hljóðuðu upp á 3-5% verðbólgu næstu árin. Þetta ógildir skilmála verðtryggðra lána vegna þess að lög um trúnað og tillitskyldu við samningagerð segja að það sé óheimilt að bera fyrir samning vegna atvika sem voru til staðar og ekki eiga lengur við.

Sú staðreynd að bankakerfið sjálft rústaði landinu og keyrði gengið niður úr öllu valdi með viðeigandi verðbólguskoti tekur af allan vafa um lögmæti verðtryggðra samninga.

Í stuttu máli: Bankakerfið eyðilagði hagkerfið og ber fulla ábyrgð á því að verðtryggð lán hafa stórhækkað og gjaldeyristryggð lán jafnvel tvöfaldast. Og nú sparkar kerfið í liggjandi mann og heimtar að fólk ekki aðeins borgi okrið, heldur haldi áfram að borga af lánum af húsnæði og bílum sem það er búið að missa. Þetta er einhver hroðalegasta ósvífni allra tíma. Það er algjör lágmarkskrafa að fólk sem gengur frá ofurskuldsettum eignum sé þar með laust allra mála. Þingmenn sem standa í vegi fyrir þessari breytingu eru með frosin hjörtu og ekki mannlegar verur í þeim skilningi er við leggjum í það hugtak.

Elítan sem hefur hreiðrað um sig í skjaldborginni og sett fólkið út á gaddinn kemst upp með myrkraverk sín í skjóli leynimakks og pukurs sem lengi hefur viljað loða við íslenska stjórnsýslu. Þótt tugþúsundir Íslendinga hafi verið gerðir eignalausir þá heldur leynimakkið áfram. Hvar eru nákvæmir listar yfir alla pólitíkusa sem fengu kúlulán og aðra óeðlilega fyrirgreiðslu frá glæpagenginu sem setti landið á hausinn? Hvers vegna fær fólkið sem verður að borga fyrir glæpinn ekki nákvæmar upplýsingar um hvað bankarnir eru að afskrifa?

Íslenskir stjórnmálamenn hafa tilhneigingu til að hegða sér eins og danskir embættismenn í kringum aldamótin 1900. Sem stétt eru þeir andlýðræðislegir og hrokafullir. Þeir hika ekki við að halda mikilvægustu upplýsingum frá fólkinu. Raforkuverð til erlendra fyrirtækja - atriði sem varðar alla framtíðaruppbyggingu landsins - er t.d. leyndarmál. Gamlir samningar við Alþjóðabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sem mótuðu atvinnustefnuna í marga áratugi, eru líka leyndarmál. Munið að ríkisstjórnin vildi upphaflega að Alþingismenn samþykktu Icesave-samninginn án þess að lesa hann! Allt annað er í sama dúr.

Hér verður mikið að breytast ef mönnum er full alvara í þeim ásetningi að endurreisa landið. Gamla launhyggjan verður að hverfa og það verður að hrista duglega upp í embættismannakerfinu. Valið er einfalt: Annað hvort verður hér gjörbreytt kerfi þar sem nýir kústar sópa spillingunni út… eða hálfgerð skálmöld, stórskert lífskjör almennings og gífurlegur landflótti. Það er búið að ganga eins nálægt réttlætisvitund fólks og mögulegt er.

Ef stjórnvöld halda áfram á sömu braut þá blasir allt annað og verra Ísland við okkur eftir nokkur ár. Okurvextir, óraunhæfar afborganir af erlendum skuldbindingum og atvinnuleysi eiga eftir að orsaka enn frekari gjaldþrot og flóknari erfiðleika. Þetta er óþolandi vítahringur og þróun sem strax ber að stöðva. Það verður að höggva á hnútinn. Afnema verðtryggingu lána, breyta gjaldeyrislánum í íslensk á því verði sem þau voru fyrir 15 mánuðum og stórlækka stýrivexti.

Okurvextir eru böl. Á meðan flest fyrirtæki á Vesturlöndum hafa aðgang að ódýrum peningum - og ekki veitir þeim af á þessum krepputímum - þá verða helsærð fyrirtæki á Íslandi að borga yfir þriðjung veltunnar í vexti. Aðeins hagfræðingum á framfæri ríkisins dytti til hugar að verja slíka sjálfsvígsstefnu.

Dæmið væri kannski skiljanlegt ef hér væri verið að reyna eitthvað hagfræðibrölt í fyrsta skipti, en margra ára og áratuga reynsla hefur sýnt okkur að vaxtaokrið virkar ekki. Okurvextir kynda undir verðbólgu í litlu hagkerfi vegna þess að innlend verðsamkeppni er allt of lítil. Okurvextir styrkja heldur ekki gjaldmiðilinn. Þeir láta umheiminn aðeins vita að hér bjátar eitthvað hræðilega mikið á.

Fimmtán mánuðum eftir að nokkrir glæpamenn - með hjálp pólitísku yfirstéttarinnar - rústuðu lífi tugþúsunda íslendinga, setti Saksóknari Ríkisins allt í gang og kærði nokkur ungmenni fyrir að ráðast inn í Alþingishúsið! Þetta er auðvitað eins og hver önnur martröð og henni fylgir ákveðin hætta. Þegar fólk þarf að berjast við vindmyllur - það glímir stöðugt við atburðarás sem gæti komið beint úr skáldsögu eftir Kafka - þá er stórhætta á að það missi móðinn. Það má aldrei gerast.

Við skulum hafa það hugfast að svo til allar framfarir sjá dagsins ljós þegar fólk vinnur bug á einhverjum erfiðleikum… og það er nánast náttúrulögmál að allt andstreymi skapar ný tækifæri. Eða eins og Shakespeare orðaði það: “Hve ljúft er að nota mótlætið sér í hag.”

Gömul kínversk saga segir frá bónda sem átti hest sem einn góðan veðurdag strauk að heiman. Þegar nágrannarnir komu til þess að votta honum samúð sína spurði bóndinn: “Hvernig vitið þið að þetta séu slæm tíðindi?” Nágrannarnir hristu hausinn og fóru, en næsta dag kom hesturinn til baka í fylgd með villtum hesti. Nú komu nágrannarnir til þess að óska bóndanum til hamingju með nýja hestinn, en hann leit á þá með undrun og spurði: “En hvernig vitið þið að ég hafi dottið í lukkupottinn?” Stuttu seinna var sonur bóndans að temja nýja hestinn og fótbrotnaði þegar hann kastaðist af baki. Aftur komu nágrannarnir til þess að votta samúð sína og aftur sagði bóndinn: “Hvernig vitið þið að þetta eigi eftir að koma sér illa?” Nágrannarnir kvöddu bóndann orðlausir… en næsta dag kom stríðsherra í héraðið og smalaði saman öllum heilbrigðum ungum mönnum og sendi út á vígvöllinn.

Góðir fundargestir. Bankahrunið gefur okkur gullið tækifæri til þess að skapa hér betra samfélag. Við höfum allt of lengi búið við forhert framkvæmdavald, grútmáttlaust Alþingi og rammpólitískt dómsvald. Ef við stöndum þétt saman þá missir klíkustéttin heljartakið sem hún hefur á kerfinu og við uppskerum betra þjóðfélag… réttlátara þjóðfélag… land sem við getum öll verið stolt af.


Ræða Atla Steins Guðmundssonar á Austurvelli 23/1/2010: Ríkisstjórn Íslands, pereat!

Hér fyrir neðan er ræða Atla Steins Guðmundssonar sem hann flutti á Austurvelli í gær, 23. janúar 2010.

Góðir Íslendingar

Náttum fóru seggir
negldar vóru brynjur,
skildir bliku þeirra
við inn skarða mána.

Þetta stutta en firnasterka vísukorn er komið úr Völundarkviðu og lýsir orrustu sem er okkur fjarlæg og óþekkt. Kveðskapurinn á þó vel við hér í okkar samfélagi ársins 2010 þar sem sannarlega hafa seggir farið hér um að næturþeli og búið þjóðinni kaldar kveðjur með ósýnilegu og torskildu hagkerfi sem nú er á góðri leið með að binda íslenska skattgreiðendur á þann klafa sem lengi mun uppi verða.

Mér var boðið að koma hingað í dag og ræða um þá ákvörðun okkar sambýliskonu minnar að flytjast búferlum til Noregs með rísandi sól. Mér rann auðvitað blóðið til skyldunnar og þáði það góða boð enda tel ég mér það ljúft að greina frá forsendum og aðdraganda þeirrar ákvörðunar okkar.

Raunar vorum við orðin nokkuð viss í okkar sök þegar undir lok síðasta sumars um að við stefndum á brottflutning og sennilega værum við farin ætti ég ekki þennan vetur eftir af háskólanámi. Brottför er því ráðgerð í maí.

Okkar val stóð á milli Hollands og Noregs, þeirra tveggja landa þar sem minnst atvinnuleysi er innan Evrópska efnahagssvæðisins, flóknari útreikningar bjuggu nú ekki að baki. Eftir að vinir okkar og kunningjar tóku að flykkjast til Noregs og við fórum að heyra viðbrögð þeirra við norsku samfélagi varð það fljótt ofan á að hverfa þangað enda tungumálið nær okkur og hægara um vik að fá vinnu en í Hollandi þar sem atvinnuleysi hefur aukist nokkuð.

Þá skemmdi það ekki fyrir að vinafólk okkar hefur átt láni að fagna hjá frændum okkar Norðmönnum og ber saman um það að þarna sé komið samfélag sem styðji við bakið á þegnunum og aðstoði þegar á móti blæs.

Reynsla mín hérna heima er sú að þegar á móti blæs, blási stjórnvöld enn meira, og í sömu átt. Ég ætla að gera þá játningu hér og nú, frammi fyrir guði og mönnum, að greina frá því að ég kaus Samfylkinguna í kosningunum vorið 2009. Þau mistök geri ég bara einu sinni á ævinni. Ég trúði Jóhönnu Sigurðardóttur. Félagsmálaráðherrann gamli sem barðist með kjafti og klóm fyrir litla manninn um það leyti sem ég var að fermast.

Ég fylltist öryggistilfinningu þegar Jóhanna steig fram í kosningabaráttunni og lofaði þjóðinni skjaldborg um þær fasteignir sem nú eru á leið undir hamarinn í þúsundatali eftir 1. mars næstkomandi.

Reyndin varð önnur. Skjaldborg Jóhönnu Sigurðardóttur reyndist stærsti gúmmítékki íslenskra kosningaloforða og er nú á góðri leið með að verða brandari ársins 2009. Hin týnda borg Samfylkingarinnar, sveipuð dulúð, myrkri og himinháum vöxtum.
Í stað þess að hyggja að atvinnulausu fjölskyldufólki á leið í gjaldþrot var stefnan sett til Brussel. Evrópusambandið sem öllu á að bjarga – í fyrsta lagi árið 2012 þegar hér verður löngu sviðin jörð.

Hvað er þá orðið okkar starf í sex hundruð sumur, höfum við gengið til góðs, götuna fram eftir veg? Mér er það til efs.

Skattar og aftur skattar er hið eina meðal sem ríkisstjórn Samfylkingar og vinstri grænna þekkir. Mér reiknaðist til, eftir stutta rannsóknarvinnu, að hæsti leyfilegi virðisaukaskattur innan ESB sé 25 prósent. Hér æða menn í aðildarviðræður og byrja svo á því að taka upp 25,5 prósent virðisaukaskatt. Það er gott veganesti til Brussel.

Góðir Íslendingar.

Viljum við 25,5 prósent virðisaukaskatt?

Viljum við verðtryggð okurlán?

Viljum við nýtt heimsmet í nauðungarsölum?

En … viljum við réttlæti?

Því miður – það er bara ekki á matseðlinum.

Kæru samlandar. Ég verð sennilega hvorki forsætisráðherra né forseti úr þessu. Því er þetta sennilega eina skiptið sem ég fæ að ávarpa svo stóran hóp hér á Austurvelli og mér þykir sannarlega vænt um það tækifæri.

Mér þykir vænt um að fá að segja ykkur frá því að ég ætla að flytja burt af landi mínu áður en hæstvirtur fjármálaráðherra skattleggur sjálft andrúmsloftið.

Mér þykir vænt um að segja ykkur að ég kæri mig ekki um að deila 103.000 ferkílómetrum með mönnum sem fengu að eignast heilan banka fyrir ágóða af dularfullri bruggverksmiðju í Rússlandi. Sannara reyndist þó að kaupféð var fengið að láni frá öðrum banka, er nú horfið í kreppunnar skaut og aldrei það kemur til baka.

Okkur sem hér stöndum er hins vegar ætlað að greiða til baka ofurskuld þessara sömu manna við breska og hollenska sparifjáreigendur sem hafa ekkert til saka unnið annað en að láta glepjast af hinni tæru snilld Landsbankans. Það er ekki öfundsvert hlutskipti að fæðast hér á landi í dag, með tíu milljón króna yfirdráttarheimild – í botni.

Ég skvetti ekki rauðri málningu á hús manna um nætur, ég hef ekki í hótunum við útrásarvíkinga eða hraðlygin stjórnvöld. En ég fer. Þannig kýs ég að sýna mitt álit á þeirri vitleysu sem hér blasir við hvert sem litið er. Eftir endalaust röfl þings og stjórnar um ekki neitt, þar á meðal hvenær þingmenn fái næst matarhlé, er ekkert í sjónmáli. Ekki neitt!

Ég hef engan áhuga á að horfa hér upp á menn á borð við Sigurjón Árnason steypa þjóðinni í mörg hundruð milljarða skuld og fara svo að kenna fjármálaverkfræði við Háskólann í Reykjavík. Ekki fannst mér skemmtilegra að lesa um það í fjölmiðlum nú í byrjun janúar að maðurinn lægi á sólarströnd á Kanaríeyjum meðan Íslendingar reyndu af veikum mætti að landa einhvers konar greiðsluáætlun gagnvart Bretum og Hollendingum. Svo ég vitni nú í gamalt og gott dægurlag: Er ekki kominn tími til að sjá og sigra….Sigurjón Árnason?

Enn minni áhuga hef ég á að horfa upp á Björgólf Guðmundsson akandi um götur borgarinnar á 12 milljóna króna jeppa, marggjaldþrota, og Björgólf Thor valsandi um sína mörg hundruð milljóna villu í London.

Hvenær ætla þessir herramenn að bæta þjóðinni þann skaða sem þeir hafa valdið?

Hvenær ætla þeir að segja eitt einasta orð við þjóðina?

Hvenær ætla þeir að opna þá feitu bankareikninga sem þeir eiga á Tortola og fleiri skattaskjólum og bæta þessari og næstu kynslóðum tjónið sem þeir ollu þegar þá vantaði pening til að gefa viðskiptavinum sínum gull að éta einhvers staðar í helvíti?

Hvenær!?!

Ég segi bara eins og Guðmundur jaki heitinn sagði einhvern tímann í ræðu: „Hvílíkur helvítis kjarkur!“

Íslenskir verktakar krefjast hér stórframkvæmda áður en þeir verða hungurmorða. Og nú er lag. Geymum álverin, hátæknisjúkrahúsið og netþjónabúið. Það sem Íslendinga vantar er eitt stórt, rammgert fangelsi í úkraínskum barokkstíl, staðsett á miðhálendinu. Það myndi ég kalla tæra snilld.

Hér stendur hnípin þjóð í vanda og óttast reiði breskra og hollenskra yfirvalda. Var það ekki þessi sama þjóð sem skaut úr fallbyssum á breska togara vorið 1973 og gaf dauðann og djöfulinn í reiði breskra ráðamanna. Ég sé ekki að Gordon Brown sé meiri bógur en Edward Heath og Harold Wilson þótt hann hafi einhver hryðjuverkalög á kantinum. Auðvitað á hver einasti Breti og Hollendingur að fá sitt sparifé til baka, annað tek ég ekki í mál. En greiðslubyrðin má ekki vera þannig að þjóðin sé sigld í kaf. Og þeir sem ábyrgðina bera eiga að leggja allt sitt fé á borðið, hvar sem það er falið.

Eitt er Icesave og annað er sú skuldabyrði sem komin er til af verðbólgu og gengishruni. Þar ættu lánastofnanir vissulega að axla ábyrgð en skjaldborg Jóhönnu og félaga hennar er hins vegar umhverfis þær stofnanir. Mín lán hækkuðu um tæpar 40 milljónir á 16 mánuðum. Í sex mánuði samfleytt hækkaði myntkörfulán frá Frjálsa fjárfestingarbankanum að meðaltali um 77.000 krónur á dag.

Það kemur ekki til greina að ég borgi þessa hækkun. Ekki til að tala um! Þegar lögfræðingur bankans sendi mér bréf til að tilkynna mér um nauðungarsölu kom þar fram að innheimtukostnaður væri 923.107 krónur, fyrir utan virðisaukaskatt. Það er dýrt að skrifa eitt bréf á þessum síðustu og verstu.

Við Íslendingar eigum heimsmet í fleiru en myntkörfulánum, sköttum og bridge. Við eigum nefnilega líka hæsta fílabeinsturn á Vesturlöndum. Þar er komið félags- og tryggingamálaráðuneytið. Þar situr fyrrverandi bankaráðsmaður úr Kaupþingi og glottir við tönn eins og Skarphéðinn í Njálu.

Þessi maður heitir Árni Páll Árnason og sat nýlega fyrir svörum í þættinum Í Bítið á Bylgjunni. Lítið kom það á óvart að nákvæmlega helmingur þeirra hlustenda sem hringdu inn spurði Árna Pál hvenær hann ætlaði að fara að gera eitthvað í málum þjóðarinnar. Árni sagðist vera búinn að gera alveg fullt og benti á hin miklu greiðslujöfnunarúrræði sín. Sá galli er hins vegar á gjöf Njarðar að í fyrsta lagi eru úrræði Árna svo flókin að þau skilur ekki nokkur maður og í öðru lagi virðist það úrræði sem lengst gengur, eftir að hagfræðingar þýddu það á mannamál, lækka greiðslubyrði húsnæðislána um 17 prósent. Þetta er nú aldeilis munur, sérstaklega þegar báðar fyrirvinnur heimilisins eru án atvinnu eins og sums staðar er. Hvílíkt björgunarvesti.

Í kvöldfréttum sjónvarpsins á þriðjudag lýsti Árni Páll því svo yfir að engum væri greiði gerður með frekari frestun á nauðungarsölum. Hagur skuldarans væri einfaldlega að klára sín mál gagnvart lánardrottnum. Þar höfum við það. Hæstvirtur ráðherra virðist telja að Ísland skorti fleiri tóm hús í eigu banka og lánastofnana. Gott og vel. Samkvæmt kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær á Landsbankinn einn nú 428 fasteignir sem hann hefur hirt upp í skuldir. Best að fjölga aðeins í því safni.

Árni virðist líka álíta að hér sé bara allt í lukkunnar velstandi og þjóðin sigli hraðan byr út úr ógöngum sínum. Lái honum hver sem vill. Mér fyndist lífið ábyggilega bara fínt ef ég sæti inni á skrifstofu á ráðherralaunum með eðalvagn og einkabílstjóra fyrir utan. Skítt með það þótt atvinnuleysisskrá fitni um 40 manns á dag og fólk streymi frá landinu í leit að þjóðfélagi þar sem það getur lifað með reisn.

Stjórnmálamenn sem hafa aldrei verið starfsmenn á plani verða aldrei réttsýnir stjórnmálamenn. Enginn ætti að fá að gegna embætti félagsmálaráðherra nema að undangenginni námsvist í félagslegri íbúð í Þórufelli með 50 þúsund krónur á mánuði til að lifa af og frítt í strætó og sund. Mér skilst að flugfreyjustarf hjá Loftleiðum gefi líka af sér ágæta félagsmálaráðherra – en það skilar afleitum forsætisráðherra.

Góðir Íslendingar. Síðastliðinn sunnudag, 17. janúar, voru 160 ár liðin síðan skólapiltar úr Lærða skólanum lentu upp á kant við rektor sinn, Sveinbjörn Egilsson. Þeir gengu fylktu liði um götur Reykjavíkur, sem þá var vart nema bær, og hrópuðu „Rektor Sveinbjörn Egilsson, pereat!“ sem á latínu útleggst hann farist eða tortímist.

Núna, 160 árum síðar, ætla ég að snúa pereati þeirra skólapilta upp á ríkisstjórn Íslands. Ekki þá einstaklinga sem hana skipa, en stjórnina sem pólitískt fyrirbæri. Góðir fundarmenn, við skulum hrópa þrisvar sinnum ríkisstjórn Íslands, pereat.

Góðir Íslendingar.

Látum aldrei aftur bjóða okkur upp á þá afarkosti sem okkur eru nú settir!

Látum aldrei aftur einkafyrirtæki í eigu glæpamanna grafa okkur lifandi í skuldum!

Og látum aldrei aftur stjórnmálamenn landsins segja framan í stútfullt Háskólabíó „Þið eruð ekki þjóðin“! Því svo sannarlega erum við sterk þjóð sem gengið hefur fylktu liði gegnum þykkt og þunnt. Þjóð með þjóðum!

Ég segi hingað og ekki lengra og kveð þetta land. Ykkur, samlanda mína, þjáningarbræður og -systur, hvet ég og kveð með þessum orðum:

Íslendingar, stöndum upp!
 


Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 1676995

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband