Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2016

Af hverju er vísitala neysluverð mæling á verðgildi peninga?

Ég hef oft velt fyrir mér hvers vegna vísitala neysluverðs er notuð til að mæla verðgildi peninga.  Nú er ég ekki að tala um hina íslensku vísitölu neysluverðs, heldur svona almennt.

Vísitala neysluverðs er í flestum löndum til að mæla verðbólgu, en hvaða verðbólgu er verið að mæla?  Jú, það er verið að mæla neysluverðbólgu.  Verðbreytingar á neysluvörum heimilanna.  Það er ekki verið að mæla nema að hluta verðbreytingar sem fyrirtæki verða fyrir, sveitafélög eða ríkið.  Hvað koma verðbreytingar á neysluvörum heimilanna verðgildi peninga við?  Ekki neitt.  Peningar verða hvorki verðmeiri eða verðminni við það að verð á mjólk breytist eða hvítum stuttermabol eða sjampói, hvað þá hjólbörðum, flugferðum eða dagblöðum.   Það sem hins vegar hugsanlega breytist er kaupmáttur tekna viðkomandi einstaklings.

Samt er það svo, að vísitala neysluverðs er notuð á Íslandi til að mæla verðgildi peninga.  Hún er notuð til að ákvarða verðbætur á lán og skiptir þá engu máli í hvað peningarnir fóru sem teknir voru að láni.  En hún er notuð í fleira.

Nú stendur fjárlagaumræða yfir á Alþingi og sveitastjórnir víða um land liggja yfir fjárhagsáætlunum sínum fyrir næsta ár.  Fréttir hafa birst um að hinir og þessir, m.a. Bjarni Benediktsson, starfandi fjármálaráðherra, eru að nota verðbólgu mælda með vísitölu neysluverðs til að réttlæta ýmsar hækkanir.  Sagt er að verið sé að leiðrétta þá með tilliti til verðlags.  En hvaða verðlags?  Vísitala neysluverðs mælir ekki verðhækkanir sem ríkissjóður eða sveitafélög verða fyrir.  Hvers vegna ættu þessir aðilar því að hækka verð hjá sér til jafns við þann kostnaðarauka sem almenningur verður fyrir?  Síðan er annað, að eigi að færa tekjuliði til breytinga á verðlagi, hvers vegna eru skatttekjur þá ekki lagaðar að hækkun verðlags?  Á þessu ári og hinu síðasta hefur orðið mikil kaupmáttaraukning, sem skilar sér í hækkun skatttekna langt umfram verðlagsbreytingar.  Væri fjármálaráðherra ekki samkvæmur sjálfum sér með því að lækka skattprósentur eða hækka persónuafslátt, svo breyting skatttekna væri til samræmis við verðlagsbreytingar!

En aftur af upprunalegu spurningunni.  Hvers vegna á að meta verðgildi peninga út frá vísitölu neysluverðs?  Það er raunar arfavitlaust.  Landsframleiðsla mun enda í einhverjum 2.300 - 2.400 ma.kr. á þessu ári.  Landsframleiðsla segir hins vegar ekki til um veltuna.  Samkvæmt tölum Hagstofunnar um veltu á virðisaukaskattsskýrslum nam hún 2,735 ma.kr. á síðasta ári og hafði fyrstu 8 mánuði þessa árs aukist um 10% frá sömu mánuðum síðasta árs.  Má því gera ráð fyrir að veltan verði ríflega 3.000 ma.kr. á þessu ári.  Þá vantar veltu sem ekki kemur fram á virðisaukaskattsskýrslum og vegur fjármálamarkaðurinn langþyngst þar.  Ég hef ekki hugmynd um hvaða upphæðir er þar að ræða, en gefum okkur að það sé 1.500 ma.kr.  Svo koma útgjöld hins opinbera og nema þau um 700 ma.kr.  Alls er því veltan einhvers staðar í kring um 5.000 ma.kr.  Á síðasta ári voru ráðstöfunartekjur einstaklinga 1.020 ma.kr.  Gefum okkur að þær hafi hækkað um 10% í  1.130 ma.kr.  Það þýðir að vísitala neysluverðs mælir verðbreytingar á innan við fjórðungi af veltunni í samfélaginu og þó við bættum við veltunni á fasteignamarkaði upp á um 400 ma.kr., þá slefar hlutfallið rétt upp í 30%.

Hvers vegna á vísitala sem mælir í mesta lagi 30% af veltunni í þjóðfélaginu að segja til um verðmæti peninga?  Sama svar og áður:  Það er arfavitlaust.

En hvað ætti að nota til að meta verðmætabreytingu á peningum?  Eðlilegast er líklegast að miðað við stöðu þessara peninga í milliríkjaviðskiptum.  Það væru þá annars vegar viðskiptakjör og hins vegar gengið.  Hvorutveggja hefur þróast í mjög jákvæða átt fyrir krónuna á síðustu árum, þannig að verðmæti krónunnar hefur verið að aukast MJÖG mikið mjög hratt.  Þetta þýðir að verðmæti húsnæðisláns hefði hækkað gríðarlega og væri það verðtryggt, þá ættu eftirstöðvarnar að hafa lækkað mikið vegna verðhjöðnunar!  Sýnir að verðtrygging er einstaklega vitlaus aðferð.

Annar mælikvarði er vextir innanlands.  Þeir eru, jú, endurgjaldið sem lánveitendur krefjast fyrir að hafa ekki ráðstöfunarrétt á því sem er lánað.  Í tilfelli innlánsstofnana, þá bjuggu þær peninga sérstaklega til sem lagðir voru inn á innlánsreikning lántakans.  Gagnvart lífeyrissjóðum og öðrum lánafyrirtækjum, þá öfluðu þessir aðilar fjár sem notað var til útlána. Á meðan peningurinn er bundinn í lánum, þá verður hann ekki notaður í annað.  Það er því ekki óeðlilegt að miða verðbreytingar á peningum við lágmarksvexti á markaði.  Annað viðmið gæti verið staða á hlutabréfamarkaði.

Hvernig sem á allt er litið, þá eru verðbreytingar á neysluvörum og þjónustu  (þó húsnæðisliðurinn sé með) röng aðferð til að meta verðgildi peninga.


Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.9.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 1679456

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband