22.11.2008 | 18:04
Áfallastjórnun vegna bankanna lokið, en allt hitt er eftir
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir steig í pontu í dag og lýsti því yfir að áfallastjórnuninni eftir fall bankanna væri lokið. Ég ætla ekki að mótmæla þeirri staðhæfingu hennar, að því leiti sem hún snýr að bönkunum og endurfjármögnun þeirra. Hitt er annað mál, að viðbragðsáætlunin sem sett var í gang með neyðarlögunum í byrjun október var bara ein af mörgum sem settar voru í gang eða þurfti að setja í gang. Auk þess er allt endurreisnarstarfið eftir. Skoðum þetta nánar.
Ég fæst við það að atvinnu að veita fyrirtækjum og stofnunum ráðgjöf um stjórnun rekstrarsamfellu. Stjórnun rekstrarsamfellu felur m.a. í sér gerð viðbragðsáætlana, skilgreiningu á stjórnskipulagi neyðarstjórnunar og gerð endurreisnaráætlunar. Neyðarstjórnun getur kallað á að margar viðbragðsáætlanir séu virkjaðar. Ríkisstjórnin telur einhverra hluta vegna að neyðarástandið hafi bara náð til bankanna og því hafi verið nóg að bregðast við falli þeirra á því takmarkaða sviði sem starfsemi þeirra nær til. Öll önnur viðbrögð ríkisstjórnarinnar höfðu því greinilega ekkert með fall bankanna að gera!
Eins og ég sé hlutina, þá er fall bankanna aðeins einn angi af mjög stóru máli, þ.e. hrun efnahagskerfis þjóðarinnar. Það getur verið að einhverjum finnist ég taka djúpt í árinni, en staðreyndirnar tala sínu máli. Krónan hefur fallið eins steinn og leitt af sér stórfelda hækkun verðlags og lána. Atvinnuleysi er meira en dæmi er um á síðari tímum og ekki er séð fyrir endann á aukningu þess. Dregið hefur verulega úr inn- og útflutningi til og frá landinu. Fjölmörg, ef ekki flest, fyrirtæki eru tæknilega gjaldþrota, þar sem eignir þeirra duga ekki fyrir skuldum. Skuldir heimilanna hafa vaxið það mikið, að þau standa ekki undir greiðslubyrði þeirra. Uppfærður höfuðstóll húsnæðislána er í mjög mörgum tilfellum kominn yfir markaðsverð fasteigna. Námsmenn og lífeyrisþegar í útlöndum eru á vonarvöl vegna þess að framfærslueyrir þeirra dugar ekki fyrir útgjöldum. Ég gæti haldið svona áfram í góða stund í viðbót, en læt þetta duga. Stóra málið er, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, það á eftir að ljúka áfallastjórnuninni vegna þessara þátta og annarra sem ég taldi ekki upp. Það er frumhlaup hjá þér að flauta áfallastjórnunina af, þegar eftir á að greiða úr stærsta hluta vandans. Það merkilega við þessa upptalningu mína, er að ekkert af þessu er hruni bankanna að kenna. Þetta er allt stöðu krónunnar að kenna. Gengi hennar er ennþá ákveðið með uppboði og gengisvísitalan er 100% hærri í dag en hún var fyrir ári.
Það er eitt af grundvallaratriðum í neyðarstjórnun, að neyðarástandi er ekki aflýst fyrr en lágmarksvirkni er komin í gang varðandi þau atriði sem neyðarstjórnunin nær til. Það er alveg á hreinu, að blessuð krónan hefur ekki náð þeim áfanga. Hvað varðar framfærslueyrir fyrir námsmenn og lífeyrisþega í útlöndum, þá lepja þessir aðilar dauðann úr skel. Skuldir heimilanna eru ennþá þannig að allt of mörg eiga í miklum vanda að standa undir þeim. Þarf ég að halda áfram? Neyðarástandið varir ennþá og það sem verra er, að flestar, ef ekki allar, viðbragðsáætlanir ríkisstjórnarinnar eru annað hvort meingallaðar eða að gripið var í tómt, þegar skoða átti innihald þeirra. Þessu til viðbótar vantar allar endurreisnaráætlanir. Sérstaklega vantar þann þátt í endurreisnina, þar sem fjallað er um endurreisn hins pólitíska kerfis.
Þetta er því miður allt of algengt. Hvort heldur litið er til stjórnvalda, fyrirtækja eða stofnana, þá hefur ekki verið útbúin viðbragðsáætlun. Skipulag neyðarstjórnunar er ekki fyrirliggjandi. Ekki hefur verið mótuð ætlun um stjórnun rekstrarsamfellu. Og í þeim tilfellum sem áætlun um stjórnun rekstrarsamfellu er til staðar, þá nær hún eingöngu til rekstrarsamfellu upplýsingatæknikerfa, en ekki þjónustu, framleiðslu eða annarra viðskiptalegra þátta.
Eins og ég sagði, þá hef ég það að atvinnu að veita fyrirtækjum ráðgjöf um stjórnun rekstrarsamfellu. 8. og 9. desember verð ég með námskeið um áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu, þar sem þátttakendum verður veitt innsýn í þær aðferðir sem hægt er að nota við að koma upp stjórnkerfi fyrir stjórnun rekstrarsamfellu og aðferðum við áhættustjórnun. Nánari upplýsingar um námskeiðið er að finna hér og hér.
Áfallastjórnuninni lokið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.9.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 31
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 28
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Mér sýnist Marínó að þú þurfir að ræða við ráðherrana hér og láta þeim í té ráðgjöf á þessu sviði. Pantaðu tíma hjá þeim, þau eru ein á toppnum.
Þegar að áfall ríður yfir er mjög mikilvægt að fókúsera á aðalatriðin, einnig til lengri tíma - og þá fer vel. Hvers kyns áföll.
Aðalatriðið núna eru heimilin í landinu - fólkið í landinu og velferð þess. Þú nefnir mög atriði sem miður hafa farið.
Mótmælin á Austurvelli eru vegna þess að stjórnvöldum hefur ekki tekist að fókúsera - fram að þessu.
Við íslendingar erum ekki fífl, fólkið veit að það er mjög margt að hér - og að það má laga margt.
Það er skrítið í raun að segja það - en þau hafa einn kost og það núna, að taka við sér. Gríman þarf að falla. Menn eins og þú geta komið þar að. Kveðja Hákon Jóhannesson
Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 00:13
Ég kýs þig sem fulltrúa minn til þess að ráðleggja stjórninni, hvernig á að bjarga okkur skrílnum, t.d með lækkun höfuðsstóls lána sem eru verðtryggð. Mér leist vel á þá færslu þína líka.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 23.11.2008 kl. 01:11
Góð færsla, tek undir með þér. Hvað varðar pólítísku endurreisnina held ég að VIÐ þ.e. þjóðin, fólkið, grasrótin þurum að stimpla okkur sterkt inn í það starf. Við þurfum að ákveða hvert við viljum stefna, ekki láta stjórnmálaflokkana segja okkur hvert við viljum fara. Það þýðir annað af tvennu: ganga í stjórnmálaflokk og láta í sér heyra eða stofna nýja eða nýjan flokk. Það verður hver og einn að gera upp við sjálfn sig hvað hann gerir. Hin vegar kæmi það mér ekki á óvart ef up sprytti nýr flokkur eftir vonbrigðaræðu ISG í gær. Takk fyir.
Arinbjörn Kúld (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 10:33
Það sem skortir á þetta hjá ríkisstjónrinni er að skipta út mannskap þetta er eins og í íþróttunum að fá nýjan þjálfara.
Vandamál okkar leysist ekki með nýjum kosningum og nýrri ríkisstjórn. Gæti kanski verið rétt til að friða þjóðina sem er orðin mjög reið. Leiðin er mörkuð næstu árin. Það sem verður stóra málið hvort á að stefna á Evrópubandalagsaðild eður ei. Að stefna að því er hluti af lengra ferli og eins og ég og fleirri hafa margoft bent á er langt frá því að Ísland fyllnægi lágmarksskilyrðum að myntbandalaginu og Evru aðild og undirritaður leyfir sér að efast um það að það verði á döfinni næstu 5-10 árin. Þetta mun samt væntanlega auka tiltrú á okkur enda er hún í algjöru lágmarki eins og tilraunir síðustu vikna hafa sýnt.
Sama hver mun sitja í forsætisráðherrastólnum, mun verða gríðarlegur niðurskurður á útgjöldum hins opinbera og sveitarfélaga. Það mun verða fjöldagjaldþrot fyrirtækja og einstaklinga og stórfelldur fólksflótti og erfið næstu árin.
Hversu djúp og löng kreppan hér mun að mestu ráðast af utanaðkomandi ástæðum hvort það gerist að það verði alheimskreppa sem margt virðist stefna í þá getur þetta tekið langan tíma.
Gunn (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 13:20
Gunn, rök fólksins er að enginn vill axla ábyrgð. Efnahagur Íslands er í rúst. Fall bankanna er svakalegt og sorglegt, en við megum ekki líta framhjá því að vandamál okkar, þ.e. almennings, hefur sáralítið með fall bankanna að gera. Mér finnst fólk rugla saman orsök og afleiðingu. Staða krónunnar var og er vandamálið. Öll vandamál almennings eru meira og minna afleiðing af stöðu krónunnar. Ríkisstjórnin virðist ekki átta sig á þessu og er ekkert að gera til að bæta stöðu okkar. Eina lausn hennar er að fólk taki meira lán, framlengi lán, hækki vaxtabyrði. Þess vegna þurfum við nýtt fólk með nýjar hugmyndir.
Marinó G. Njálsson, 23.11.2008 kl. 14:32
Ég er ekki sammála þér hér Marinó um túlkun en um staðreyndirnar. Þær eru runnar eða að renna upp fyrir flestum.
Það er eiginlega ekki í eðli mínu að vera neitt sérstaklega svartsýnn en mín svartsýni hefur varað á 2. ár og hefur aukist núna til muna frá í sumar. Mér hefur fundist umræðan á Íslandi hafi einkennst af afneitun fyrir þessum augljósu staðreyndum að efnahagslífið stóð á brauðfótum. Sá góði maður Andrés Magnússon geðlæknir safnaði á stuttum tíma opinberum upplýsingum sem sýndi fram á þetta þegar um áramótin, þessar greinar fékk hann ekki einu sinni birtar á Íslandi. Þessar upplýsingar voru auðsæar flestum erlendum aðilum þótt íslensk þjóð hafi vaknað upp með andkvælum og það sem er eiginlega ótrúlegt að viðskiptaráðherra og fleiri stjórnmálamenn hafi ekki vitað af þessu er í hæsta máta undarlegt.
Þetta er náttúrulega allt samofið. Efnahagsstjórn og efnahangsástand kemur fram í gengi krónunnar sem er nokkurs konar hitamælir á efnahagsástandið. Gengið fellur miðað við aðra gjaldmiðla og það hefur áhrif á lán i erlendri mynt og gengistryggingu. Vaxtaálagið er annað, skattar og álögur það þriðja.
Vandi okkar er svo gríðarlegur að það er erfitt að segja fyrir um hvaða áhrif einstakar aðgerðir hafa. Við höfum einnig flókin lagaleg vafaatriði þar sem við erum ofurseld samningum við aðrar þjóðir og auk þess sem lagalegur grundvöllur margra ákvarðana og laga síðustu vikurnar ótraustur.
Okkar dæmi er ekki til í hagfræðibókum. Ónýtur gjaldmiðill, skortur á lánstrausti, hrunið bankakerfi sem er i raun 3 óskipt þrotabú sem eru stýrð af FME og pólitískt kjörnum bankafulltrúum til bráðabirgða. Lausafjárskortur, gjaldeyrisskortur og lánsfjárskortur. Ofurskuldsett heimili, fyrirtæki hjá þjóð sem hefur lifað um efni fram í áraraðir samt gjaldþrota fyrirtæki sem eru að stöðvast samfara er að skella á stórfellt atvinnuleysi samt gríðarlegar opinberar skuldir..... uff, já þetta er svona slæmt.
Léleg efnahagsstjórn hefur einkennt síðustu ár þar sem keyrt hefur verið á botni fram hjá tugum rauðra ljósa. Þegar við erum komin í þessar ógöngur verður að meta heildarástandið en ekki hægt að leysa einstakan vanda með þar til gerðum aðgerðum sem síðar sýna sig ekki að falla saman þetta sér maður margoft m.a. í íslenskri efnahagsstjórn þegar menn missa sjónar á heildarmyndinni.
Ástandið verður ekki betra þegar það eru birtar myndir af skríl sem ræðst inn í lögreglustöð og þetta fær mikla umfjöllun erlendis. Þar eru menn farnir að álykta að við séum búin að missa tökin og það sé hvorki tryggt að ferðast hingað eða versla við okkur. Við verðum látin sigla okkar sjó.. og það mun hafa gríðarlega slæm áhrif á okkur.
Gunn (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 15:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.