Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2012

Af endurútreikningi og vöxtum áður gengistryggðra lána

Ég hef fengið nokkrar fyrirspurnir um áhrif dóms Hæstaréttar í máli 464/2012 á áður gengistryggð lán.  Í staðinn fyrir að svara hverjum og einum, þá langar mig að koma með eina ýtarlega greiningu á dómnum og fleiri vinklum á stöðu áður gengistryggðra neytendalána (og lánum fyrirtækja að hluta).

Hvað sagði Hæstiréttur?

Gera verður skýran greinarmun á niðurstöðu Hæstaréttar og síðan rökleiðslu réttarins.  Rökleiðsla er leið réttarins að niðurstöðu, en hvorki niðurstaða né er hægt að draga víðtækar ályktanir á rökleiðslunni.

Niðurstaða réttarins er tvíþætt.  Sú fyrri er:

..Þótt ekkert þeirra atriða, sem að framan greinir, geti ráðið úrslitum eitt og sér, verður að líta svo á þegar þau eru öll virt í heild að það standi stefnda nær en áfrýjanda að bera þann vaxtamun, sem deilt er um í málinu og hlaust af hinni ólögmætu gengistryggingu. Er því fallist á með áfrýjanda að sá rangi lagaskilningur sem lá að baki lögskiptum hans og Sparisjóðs Mýrasýslu í upphafi verði í uppgjöri aðila einungis leiðréttur til framtíðar. Af því leiðir að stefndi getur ekki krafið áfrýjanda um viðbótargreiðslur vegna þegar greiddra vaxta aftur í tímann. 

 

Hin síðari snýr að eignarrétti skuldara og gildi laga 151/2010:

..Með almennum lögum er ekki unnt með íþyngjandi hætti að hrófla á afturvirkan veg við réttarreglum um efni skuldbindinga og greiðslu skulda frá því sem gilti þegar til þeirra var stofnað og af þeim greitt, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 600/2011. Færi slíkt í bága við þá vernd eignarréttinda sem leiðir af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Af þessum sökum fá nefnd lög [151/2010] ekki haggað þeirri niðurstöðu sem komist var að hér að framan. 

Bæði þessi atriði eru nákvæmlega þau sömu og komu fram í dómi Hæstaréttar í máli 600/2011, þ.e. máli Elviru og Sigga gegn Dróma.  Þetta ætti því ekki að koma á óvart og hefur ekkert með neytendarétt að gera.  Annað snýr að kröfurétti og hitt að eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar.  Málið verður fyrst áhugavert, þegar við bætum neytendaréttinum við.

Hvað þýðir þetta fyrir lántaka?

Spurningarnar sem við stöndum frammi fyrir eru nokkrar, en þó er ekki víst að við þurfum að svara þeim öllum.

1.  Eiga vextir að halda áfram að vera með LIBOR tengingu í samræmi við þá myntkörfu sem skilgreind var í upphaflegum lánasamningi eða síðari breytingu á myntsamsetningu hafi hún átt sér stað?
2.  Ef ekki, hvaða vextir eiga að gilda?
3.  Frá hvaða tíma eiga nýir vextir að taka gildi?

Í mínum huga er svar við spurningu 1 hreint og beint JÁ.  Rökin eru:  Samkvæmt neytendaverndartilskipun ESB 93/13/EEC, þá skal víkja ósanngjörnum skilmálum til hliðar en ekki breyta öðru sé samningurinn efnalegur á þann hátt.  Því liggur í augum uppi að LIBOR vextir eigi að halda sér á samningunum í sömu hlutföllum og áður.  Hafi lán borið 50% japanska vexti og 50% svissneska með 2% vaxtaálagi við upphaf samnings, þá skal samningurinn áfram bera 50/50 vexti viðmiðunarmyntanna og síðan það vaxtaálag sem er í gildi. Hæstiréttur hafði ekki leyfi til að hrófla við þessu, þar sem hann hafði ekkert með það að gera að finna "sanngjarna" vexti til að vega upp á móti tjóninu sem fjármálafyrirtækið varð fyrir.  (Sjá nánar um þetta neðar, þar sem ég fjalla um dóm Evrópudómstólsins í máli C-618/10.)

En ef LIBOR tengingin á að víkja, hvað þá?  Á þessu eru tvær hliðar.  Önnur er sú sem Hæstiréttur er að rembast við að draga fram í dómum sínum og hin er sú sem ég lýsir síðar í pistlinum.

Hæstiréttur komst að því í dómum 600/2011 og 464/2012 að rangur lagaskilningur yrði bara leiðréttur til framtíðar og að fjármálafyrirtækin ættu að bera hallann af vaxtamuninum.  Þá er spurningin hvaða vexti lánin eiga að taka og frá hvaða degi.  Varðandi fyrra atriðið, þá komst Hæstiréttur að því í máli 471/2010, að Seðlabankavextir ættu að koma í staðinn fyrir samningsvexti.  Þessu er ég ósammála, en látum mína skoðun liggja á milli hluta.  Næst er því að skoða frá hvaða degi Seðlabankavextirnir eiga að gilda.

Dagsetningarnar sem koma til greina eru:

  • Lántökudagur
  • 16. júní 2010, þegar gengistrygging var dæmd ólögleg í Hæstarétti
  • 16. september 2010, þegar Hæstiréttur kvað úr um vexti gengistryggðs bílaláns (471/2010)
  • 28. desember 2010, þegar lög nr. 151/2010 tóku gildi
  • 14. febrúar 2011, þegar Hæstiréttur kvað upp dóm í málum 603 og 604/2010
  • 15. febrúar 2012, þegar dómur gekk í máli 600/2011
  • 18. október 2012, þegar dómur gekk í máli 464/2012
  • einhver önnur dagsetning

Allar þessar dagsetningar koma til greina og raunar má segja að í dómum í málum 471/2010, 603/2010, 604/2010, 600/2011 og 464/2012 þá togist á hjá Hæstarétti hver þessi dagsetning er.  Í  máli 471/2010, þá voru vextir endurreiknaðir til lántökudags og viðurkennd krafa Lýsingar sem byggði á þeim útreikningum.  Gallinn við það mál, var að ekki voru lagðir nægilega margir möguleikar fyrir Hæstarétt.  Kröfurnar hljóðuðu bara upp á allan tímann fyrir hverja þá vexti sem lagðir voru til.  Og þar sem Hæstiréttur getur bara valið úr þeim kröfum sem reistar eru fyrir dómnum, þá hafði hann nánast ekkert val.

Næst er það 28. desember 2010.  Á þessum degi taka gildi lög sem gjörbreyta samningum milli aðila.  Hæstiréttur úrskurðar í dómum 600/2011 og 464/2012 að almenn lög geti ekki haft afturvirk áhrif.  En geta þau haft framvirk áhrif?  Er mögulegt að lögin geti breytt vöxtunum til framtíðar, þó þau geti ekki breytt þeim til fortíðar?  Þetta er möguleiki sem ég vil ekki útloka, en Hæstiréttur kemst að gagnstæðri niðurstöðu í málum 600/2011 og 464/2012.

Dómar 603 og 604/2010 kveða úr um ólögmæti lánasamninga til lengri tíma og Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu að þeir skuli líka bera Seðlabankavexti, en segir ekki frá hvaða tíma.  Því þurfti að stefna aftur og í dómi 600/2011 fæst loksins dagsetning, þ.e. 14. febrúar 2011, en á þeim degi var leiðréttur sá rangi lagaskilningur sem var um vexti áður gengistryggðra lána.  Í dómi 464/2012 er síðan vísað til þeirrar dagsetningar og aðalkrafa Borgarbyggðar miðar við þá dagsetningu. 

Loks hefur því  verið haldið fram að dagsetning vaxtabreytinga ráðist af því hvort lán hafi verið í skilum eða ekki.  Því er ég ósammála, eins og ég fjalla um næst.

Hvaða vexti og af hvaða fjárhæð?

Ég get ekki séð að leyst hafi verið út þeirri óvissu hvaða vexti eigi í raun að reikna af áður gengistryggðum lánum, a.m.k. eru menn eitthvað að ruglast með hver höfuðstólsfjárhæðin eigi að vera.  Miðað við útreikningana sem lagðir voru fyrir Hæstarétt í máli 464/2012, þá virðist mér sem þar sé boðið upp á að greiddir vextir gildi þó svo að höfuðstólsfjárhæð skuldarinnar hafi lækkað.  Mér finnst þetta ekki geta staðist miðað við orð Hæstaréttar um að rangur lagaskilningur verði bara leiðréttur til framtíðar.  Hafi Borgarbyggð greitt 4% vexti af láni sem stóð í 200 m.kr., þá á Borgarbyggð áfram að borga 4% vexti þó svo að höfuðstóllinn haldi ekki lengur gengistryggingunni sinni.  Fyrir þann sem greiddi í fleiri ár vexti af gengisuppreiknuðum höfuðstóli, þá munar þetta talsverðu.  Segjum að höfuðstóll áður gengistryggðs láns lækki um 10 m.kr.  4% af 10 m.kr. eru 400 þúsund kr. og það í 4 ár gerir 1,6 m.kr.  Í mínum huga fer ekkert á milli mála, að lántakinn hefur í þessu tilfelli ofgreitt vextina og á að fá þá endurgreidda í samræmi viðákvæði vaxtalaga.

Mörg dæmi eru um að gengi á lántökudegi var hærra, en á einstökum gjalddögum.  Í þeim tilfellum gilda þeir vextir sem innheimtir voru fyrir þá gjalddaga.  Er það byggt á því að ekki skal greiða hærri vexti en krafist var.

Hvað með lán sem ekki voru í skilum?

Lánin í málum 600/2011 og 464/2012 voru bæði í skilum og því telja sumir að fordæmi dómanna nái ekki lána sem ekki voru í skilum.  Ég held að það standist ekki kröfurétt.

Leið lánveitanda til að fá bætur fyrir drátt á greiðslu er í gegn um dráttarvexti.  Og ekki bara hvaða dráttarvexti sem er, heldur þá dráttarvexti sem lánssamningurinn tiltekur að eigi að gilda.  Hafi lánveitandinn sent lántaka kröfu um greiðslu, þar sem tilgreind er skipting milli vaxta, afborgunar og annars kostnaðar, þá verður því ekki breytt.  Drátturinn á greiðslu getur hins vegar veitt lánveitandanum rétt til að krefjast dráttarvaxta af greiðslunni sem átti að inna af hendi.  Ekki af höfuðstólnum öllum, heldur bara hverri gjalddagagreiðslu sem hefur dregist fram yfir samningabundinn gjalddaga.  Svo segir í bókinn Kaflar úr kröfurétti eftir Ólaf Lárusson.

Að lántaki eigi að greiða margfalda samningsvexti (og margfalda dráttarvexti) vegna þess, að lánveitandi hafi  reynt að kúga af honum fé með því að rukka hann um mun hærri upphæð, en lög sögðu til um, stenst engan veginn.  Ástæða þess að flestir hættu að greiða af lánum sínum var annars vegar sú trú lántaka að gengistryggingin væri ólögleg og lántakar biðu eftir því að fá greiðsluseðla með réttum upphæðum og hins vegar vegna þess að fólk hafði fengið frystingar á lán sín.  Hið síðara hefur ekkert með vanskil að gera, þar sem greiðsla í frystingu er í skilum samkvæmt ákvæðum frystingarinnar og í lok frystingarinnar var vöxtum á frystingartímanum bætt ofan á eftirstöðvar lánsins og því voru vextirnir greiddir með því að fá lán fyrir þeim.  Vissulega má segja að hið fyrra hafi verið vanskil, en svo ég tali fyrir sjálfan mig, þá skoraði ég á minn banka að senda mér rétta greiðsluseðla.  Áskorun sem hann varð ekki við.

Mál ECJ C-618/10 og Hæstaréttardómur 471/2010

Dómur gekk í máli C-618/10 við Evrópudómstólinn þann 14. júní sl.  Var dómurinn samhljóma forúrskurði lögsögumann dómstólsins frá 14. febrúar 2012. Í staðinn fyrir að vitna beint í dóminn, þá vil ég frekar endursegja niðurstöðuna og styðst í endursögninni við tvær greinar um málið, annars vegar af vefnum lexgo.be og hins vegar europolitics.info en niðurstöður beggja eru nokkuð samhljóma:

Niðurstaða Evrópudómstólsins í máli C-618/10 er að komist dómstóll í aðildarlandi að því að í neytendasamningi séu ósanngjarnir skilmálar, þá ber dómstólnum að víkja þeim ósanngjörnu skilmálum til hliðar, en samninginn skal efna að öðru leiti sé hann efnalegur.  Dómstólnum er óheimilt að breyta ósanngjörnu ákvæði, því með geti sterki aðili samningsins hlaðið hann ýmsum ósanngjörnum ákvæðum vitandi að dómstóll muni einfaldlega leiðrétta samninginn til þess sem talist gæti sanngjarnt.

Þannig að dómstóll skal ógildi frekar en lagfæra ósanngjörn ákvæði í neytendasamningi.

Þetta atriði er sérlega áhugavert, þegar það er sett í samhengi við niðurstöðu Hæstaréttar í máli 471/2010.  Þar komst Hæstiréttur nefnilega að því að gengistrygging og LIBOR vextir væru með svo órjúfanleg tengsl, að væri gengistryggingin dæmd ógild, þá leiddi af því að LIBOR vextir gætu ekki lengur haldið.  Samkvæmt niðurstöðu Evrópudómstólsins í máli C-618/10, þá leiðir niðurstaða Hæstaréttar til þess, að bæði gengistryggingin og vaxtaákvæði áður gengistryggðra samninga eru ógild og ekkert á að koma í staðinn, þar sem samningarnir eru efnalegir án þessara ákvæða.  Með því að dæma Seðlabankavextina á samningana í stað LIBOR vaxta var Hæstiréttur (samkvæmt ECJ) að ganga gegn neytendaverndartilskipun ESB og taka að sér að bjarga sterkari aðila samningsins frá stöðu sem hann hafði sjálfur komið sér í með því að bjóða upp á lánasamninga með ólöglegri gengistryggingu.

Er hægt að endurreikna lánin strax?

Það er mín skoðun, að hægt sé að endurreikna öll lán nú þegar.  Þó svo að endanlegar leiðbeiningar vanti frá Hæstarétti um allt sem viðkemur endurútreikningunum, þá hefur Hæstiréttur samt sagt nóg til þess að leiðrétta má höfuðstólsstöðu lánanna fram að þeim tíma sem vanskil áttu sér 2008 og síðar.  Þannig geta fjármálafyrirtækin endurreiknað fyrir tímabilið frá lántökudegi fram að þeim tíma þegar hætt var að greiða af láni og vanskil urðu.  Hafi lán farið í frystingu, þá telst lánið í skilum samanber það sem ég sagði að ofan.

Hafi verið greitt af láni fram yfir dóm 604/2011, þá er ekki hægt að tala um vanskil.

Fyrir þann sem tók gengistryggt lán 2004 og fékk brjálæðislega háan bakreikning við fyrri endurútreikning þýðir endurútreikningur allt fram til ársbyrjun 2010 (svo dæmi sé tekið) líklega um 40% lækkun eftirstöðva.  Í þeim tilfellum sem skuldaraskipti hafa orðið á slíkum lánum, myndi fyrri skuldari/skuldarar losna undan skuld, sem ranglega var á þá reiknuð.

Vegna þess tímabils sem ágreiningur er um, þá þyrfti viðkomandi lánveitandi að bíða frekari niðurstöðu Hæstaréttar.  Það ætti samt ekki að koma í veg fyrir að tímabilið fram til ársbyrjunar 2008 og jafnvel lengur sé endurreiknað í samræmi við leiðbeiningar Hæstaréttar í dómi 464/2012.  Búið er að halda nógu mörgum nógu lengi í gíslingu, þó ekki sé viljandi verið að lengja þann tíma.

Niðurstaða

Mín niðurstaða er frekar einföld.  Hvað varðar neytendur, þá skulu samningsvextir lána haldast og þeir reiknast allan lánstímann af höfuðstóli (eftirstöðvum) lánsins eins og það hafi verið allan tímann í íslenskum krónum.  Þó skal aldrei greiða hærri vexti fyrir hvern gjalddaga, en greitt var samkvæmt greiðsluseðli/greiðslutilkynningu frá lánveitanda að viðbættum hverjum þeim dráttarvöxtum og öðrum kostnaði sem á gjalddagagreiðsluna lagðist hverju sinni.  (Hafa skal í huga, að lög 151/2010 breyttu þessu, þannig að greiddir dráttarvextir og annar kostnaður telst til innborgunar á höfuðstól.)  Þetta þýðir að hverfa þarf frá fordæmi dóms 471/2010 hvað neytendur varðar og leita í staðinn eftir fordæmi í dómi Evrópudómstólsins í máli C-618/10.

Hvað varðar lögaðila, þá má líklegast skipta þeim í tvo hópa.  Annar hópurinn er þeir sem hafa í raun stöðu neytenda, hinn er aftur lögaðilar sem ekki er hægt að segja að hafi stöðu neytenda.  Um fyrri hópinn gildir það sem ég segi að ofan.  Um hinn hópinn gildir það sama fram að dómi Hæstaréttar 14. febrúar 2011, en eftir það gilda vextir Seðlabankans.


Greiðsluvandi þjóðarbúsins - Hvað er til ráða?

Í pistli 14. október fjallaði ég um mat mitt á skuldum þjóðarbúsins (sjá Erlendar skuldir þjóðarbúsins - Þrjár snjóhengjur upp á 3.600 - 4.400 milljarða).  Það komst ég að þeirri niðurstöðu að yfir Íslandi héngju þrjár snjóhengjur, þ.a. eignir áhættufjárfesta sem voru að sækjast í íslenska vextir fyrir hrun, íslenskar eignir þrotabúa hrunbankanna og loks hlutabréf og framtíðartekjur þrotabúanna frá nýju bönkunum.  Í pistlinum gat ég mér þess til að þessar fjárhæðir væru í fyrstu snjóhengjunni allt að 970 milljarðar, 1460 milljarðar í þeirra annarri og á bilinu 1.200 - 2.000 milljarðar í þeirri þriðju en útstreymið vegna hennar dreifðist yfir lengri tíma.

Þegar horft er til þeirrar upphæðar sem ég nefndi hér að ofan, þ.e. 3.600 - 4.400 milljarðar, þá er því fljótt svarað, að þá upphæð getum við ekki greitt meðan íslenska krónan er gjaldmiðill landsins og gjaldeyrir flæðir bara inn, ef erlendar tekjur eru meiri en erlendar greiðslur.  Verði skipt um gjaldmiðil og alþjóðlega viðurkenndur gjaldmiðill tekinn upp í staðinn, þá mun upphæðin sem hér er nefnd, fljótlega soga allt fjármagn úr landi eða auka verulega á ríkisskuldir vegna lána sem ríkið þyrfti að taka til að til að fjármagna þetta útflæði hjá þeim seðlabanka sem leitað væri til um slíka peningaprentun.  Ef svo ólíklega vildi til, að Seðlabanki Íslands hefði þetta peningaprentunar vald, þá efast ég um að myntin verði mjög lengi alþjóðlega viðurkennd og hringekjan hefst á nýjan leik.  Þá er næst að skoða hvort við getum komist upp með að greiða lægra en kröfufjárhæð fyrir þessar skuldir.

Skipta má vandanum í stórum dráttum í tvennt: 

1) Innlendar eignir áhættufjárfesta sem vildu hagnast á háu vaxtastigi á Íslandi, þ.e. það sem hingað til hefur verið vísað til sem snjóhengjan.  Upphæð þeirra er allt að 970 milljarðar kr. miðað við tölur SÍ.  Þessir aðilar eiga fullan rétt á því að koma peningum sínum úr landi, en það verður ekki gert með góðu móti.  Þessum aðilum hefur verið gerð alls konar tilboð, þar sem þeir raunar gefa eftir hluta eigna sinna.  Á móti hefur þeim verið boðið upp á ákaflega hagstæðar ávöxtunarleiðir sem ýtir ekki beint á þá að taka útgönguleiðatilboðum.  Á einum eða öðrum tímapunkti mun þolinmæði bæði Seðlabankans og fjárfestanna bresta og þá er spurningin bara hve hátt hlutfall eignanna viðkomandi geta flutt úr landi og hve mikið verður hreinlega fellt niður. 

Mín skoðun er að lækka verður verulega vaxtastigið í landinu til að draga úr aðdráttarafli þess að geyma peningana hér til lengri tíma og hækka sífellt andvirði þess sem að lokum fer út landi.  Taka þarf af markaði eins mikið af hávaxtaávöxtunarleiðum og koma í staðinn með ávöxtunarleiðir með 1 - 3% nafnvöxtum.  Ég sé t.d. fyrir mér að hægt verði að bjóða upp á húsnæðislán með slíkri ávöxtun gegn því að afborganir lánanna megi færa úr landi jafnóðum.  Þannig byðist húsnæðieigendum loksins sambærileg vaxtakjör og í nágrannalöndum, en í Danmörku er t.d. nú um stundir boðið upp á lán með innan við 1% vöxtum.

2) Eignir og tekjur þrotabúa hrunbankanna hér á landi.  Þetta mál er bæði stærra og auðveldara, svo furðulegt sem það er. Raunar er það einkennilegt, að menn hafi ekki reynt þessa lausn fyrr.  Hún er sú að ríkið yfirtaki allar kröfur í þrotabúin og komi þannig í veg fyrir að nota þurfi verðmætan gjaldeyri í að greiða þeim.  Hæstiréttur hefur þegar tilgreint hvert eignarnámsvirði slíkra krafna væri, þ.e. það verð sem kröfuhafar greiddu fyrir kröfurnar hafi þeir eignast þær eftir 6. október 2008.

Í mínum huga er tómt mál fyrir kröfuhafa að gera ráð fyrir því að eignir og framtíðartekjur þrotabúanna á Íslandi, fari úr landi í bráð.  Og hvað þá að þær fari úr landi á nafnvirði.   Bjartsýnustu spár eru 50% afföll og tímaramminn sé ekki undir áratug, þegar krónan hefur haldið áfram að síga undir endalausum þrýstingi á gengið.  Mér finnst líklegra að afföllin þurfi að vera enn þá meiri.

Þjóðnýting þrotabúanna

Ein leið út úr vandanum er þjóðnýting þrotabúanna.  Samkvæmt fréttaskýringu Morgunblaðsins, þá hafa um 80% af kröfum í þrotabú Glitnis og Kaupþings skipt um hendur og eru nú í eigu vogunarsjóða.  Flestir greiddu þessir vogunarsjóðir sáralítið fyrir kröfurnar, líklegast vel innan við 10%, þó gengi skuldabréfanna sé í dag ýmist 25 eða 30% samkvæmt upplýsingum á keldan.is.  Við þjóðnýtingu þyrfti þó ekki að greiða samkvæmt gangvirði í dag, heldur að bæta eigendum útlagðan kostnað og síðan eðlilega ávöxtun ofan á hann.  Hæstiréttur kvað úr um það í Icesave-dómum sínum í fyrra að þeir sem eignuðust kröfur í Landsbanka Íslands hf. eftir hrunið geti ekki talið sér til tjóns þar sem er umfram  það sem greitt var fyrir kröfu.  Þau rök halda líka, þegar kæmi að þjóðnýtingu.

Vitað er að kröfurnar hljóða upp á ríflega 8.000 milljarða, en slitastjórnir hafa ekki viðurkennt þær nema að hluta.  Gefum okkur að kröfur að upphæð 5.000 milljarðar hafi verið teknar til greina og að 70% þeirra hafi skipt um hendur eftir 6. október 2008 á um 10% af nafnvirði kröfunnar.  Þá standa eftir annars vegar innstæðueigendur með tæplega 1.100 milljarða sem ætlunin er að greiða upp í topp og aðrir með 400 milljarða og þeir tækju á sig 50% afföll.  Alls gerði þetta 1.100 + 350 + 200 = 1.650 milljarðar króna eða nánast það sama og erlendar eignir þrotabúanna hljóða upp á, en þær voru í lok 2. ársfjórðungs 1.631 milljarður.  (Tekið skal fram að útreikningarnir eru ekki alveg svona einfaldir, þar sem misjafnt er hvað hvert þrotabúa á í erlendum eignum og hve háar viðurkenndar kröfur í búin eru.)

Verði þessi leið farin, þá væri hægt að fara hér í róttæka uppbyggingu og endurskipulagningu skulda heimila, atvinnulífs og hins opinbera.  Allt í einu væru tiltækir peningar til að koma til móts við alla þess aðila. 

Nauðasamningar eða gjaldþrot

Undanfarið hefur átt sér stað umræða um hvort er betra nauðasamningar eða gjaldþrot.  Eins og staðan er í dag, þá hefur þjóðarbúið ekki efni á því að missa neinn umfram gjaldeyri úr landi til að gera upp við kröfuhafa, hvort heldur þrotabúin leita nauðasamninga eða fara í gjaldþrot.  Satt best að segja, þá skil ég ekki hver ætti að vera munurinn á þessum tveimur leiðum.  Við gjaldþrot, þá hafa menn sagt að þrotabúin myndu þurfa að selja nýju bankana, þ.e. Íslandsbanka og Arion banka, þar sem gjaldþrotaaðili má ekki eiga fjármálastofnun.  Ég sé fyrir mér að kröfuhafar einfaldlega stofni félag um reksturinn, færi eignarhaldið yfir í þetta nýja félag og verði þannig formlegir eigendur í stað þessa sýndarleiks sem nú er í gangi.  Sama gæti gerst verði farið í nauðasamninga eða a.m.k. yrðu áhrifin þau sömu, þ.e. að þrýstingur væri á að koma háum fjárhæðum úr landi.  Fjárhæðum sem eru svo háar, að þær færu léttilega með að tæma gjaldeyrisforða þjóðarinnar. 

Hvorug þessarra leiða er fær vegna þeirra upphæða sem um ræðir.  Þó svo að erlendir kröfuhafar myndu sætta sig við að fá í sinn hlut erlendar eignir þrotabúanna, þá væri eftir að leysa mörg mál. 

Stærsta málið er eignarhaldið á Íslandsbanka og Arion banka. Ef eignarhaldið væri enn hjá kröfuhöfunum, þá hangir snjóhengjan áfram yfir.  Í fyrsta lagi í virði bankanna, þá í framtíðararðgreiðslum frá bönkunum og loks í þeim fjárhæðum sem gert er ráð fyrir að renni til kröfuhafa vegna betri innheimtu af lánum (sem vissulega mætti setja undir tvennt hið fyrra).  Inn í þetta blandast svo skuldabréf Landsbankans hf. til Landsbanka Íslands hf.

Nei, sama hvernig ég hef velt þessu máli upp, þá er yfirtaka ríkissjóðs á þrotabúunum á þeirri forsendu sem lýst er að ofan, eini kosturinn í stöðunni sem ekki tæmir gjaldeyrissjóði þjóðarinnar.  Tómt mál er að tala um framtíðar innstreymi gjaldeyris, þar sem það er dropi í hafi miðað við umfang fjármagnsins sem vill úr landi.

Mistök að taka ekki yfir alla nýju banka

Svo asnalegt sem það nú er, þá var sú ákvörðun ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms, að taka ekki yfir Íslandsbanka og Arion banka og spara ríkissjóði stórar upphæðir í eiginfjárframlögum, líklegast mjög dýr afleikur.  Ef ríkið væri eigandi allra þriggja bankanna, þá hefði t.d. ekki þurft að setja bann á arðgreiðslur og ríkið hefði því getað tekið til sín háar fjárhæðir á hverju ári.  Við erum að tala um nægilega háar fjárhæðir til að leiðrétta lán heimilanna, draga verulega úr niðurskurði í grunnkerfum þjóðfélagsins og standa undir a.m.k. hluta vaxtagreiðslna ríkissjóðs.  Ef þetta hefði verið gert, væri snjóhengjan vegna hrunbankanna og nýju bankanna umtalsvert lægri eða sem nemur líklegast um 1.000 milljörðum kr.  Felst það í því að Íslandsbanki og Arion banki væri ekki í bókum Glitnis og Kaupþing.  Þar með rynni framtíðarsöluverð bankanna ekki að stærstum hluta úr landi og hagnaður þeirra færi ekki að stærstum hluta úr landi.  Miðað við þann gríðarlega hagnað sem verið hefur á bönkunum, þá eru þetta hærri upphæðir en gjaldeyrissjóðir þjóðarinnar ráða við í dag og um fyrirséða framtíð. Já, svona getur, að því virtist, skynsamlegur sparnaður í fortíðinni reynst margfalt dýrari fyrir þjóðfélagið í framtíðinni.


mbl.is Má ekki vanmeta vogunarsjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótbárur sendar fjármálastofnun - endurbirt færsla

Vegna nýfallins dóms Hæstaréttar nr. 464/2012 langar mig að endurbirta tæplega ársgamla færslu, en hún er með mótbárum mínum við endurútreikning Landsbankans hf. á áður gengistryggðum lánum, sem ég var með hjá bankanum.

Mótbárur sendar fjármálastofnun

Fjármálafyrirtækin eru orðin ansi ágeng í innheimtum sínum og knýja þá sem ekki viðurkenna útreikninga sína til að gangast undir þá.  Eina sem lántakar geta gert fyrir utan að fara í dómsmál, er að hafa uppi mótbárur, þ.e. mótmæla því að krafa á hendur þeim sé réttileg.  Hér fyrir neðan eru mótbárur sem ég sendi Landsbankanum í dag og er öðrum frjálst að nota þær aðlagaðar að sínum þörfum.  Tekið skal fram að textinn er lítillega breyttur frá þeim sem ég sendi.

Mótbárur

Með þessum pósti er ég að halda uppi mótbárum við kröfu Landsbankans hf. og hafa mótbárurnar skjalfestar með mínum tilvísunum til kröfuréttar.  Í bók Páls Hreinssonar Viðskiptabréf segir m.a. um mótbárur:

Mótbárur skuldara gagnvart framsalshafa má flokka í þrennt.  Í fyrsta lagi mótbárur um að krafa á hendur skuldara sé falin niður.  Í öðru lagi mótbárur er lúta að stofnun viðskiptabréfakröfunnar, þ.e. að hún hafi verið ógild frá upphafi.  Í þriðja lagi geta mótbárur varðað efni kröfunnar.. 

Mínar mótbárur falla undir fyrsta liðinn og lúta fyrst og fremst að því að krafa hafi að hluta verið fallin niður þar sem sá hluti hafi verið að fullu efndur eða eins og Páll Hreinsson segir:

Í þennan flokk mótbára [um að viðskiptabréfakrafa sé niður fallin] fellur að sjálfsögðu sú mótbára að krafa sé greidd sbr. tilskipun frá 9. febrúar 1798..

Ég tek að sjálfsögðu fram að ég lít ekki á það að ég hafi verið í vanskilum.  Samkvæmt kröfurétti hef ég fullan rétt á að greiða ekki það sem ég tel ekki vera rétt krafa enda mótmælti ég útreikningunum.  Vanefnd myndast þegar réttileg krafa er ekki greidd með réttilegum hætti og án galla.

Ástæðan fyrir því að ég tel kröfu ykkar ekki rétta er svo sem vel þekkt, en langar mig að rifja það upp með tilvísunum í kröfurétt.  Í bókinni Kaflar úr Kröfurétti Ólafs Lárussonar segir m.a.:

Kröfuhafinn á heimtingu á því, að skuldarinn efni að fullu þær skyldur sem krafan leggur honum á herðar.  Til fullra efnda heyrir það að þær fari fram á réttum stað og á réttum tíma.  Ef fullar efndir eiga sér stað, er skyldu skuldarans þar með lokið og kröfuhafinn getur þá einskis frekar af honum krafist.

Og síðar í bókinni segir:

Við framsalið öðlast nýi kröfuhafinn (framsalshafi) allan þann rétt sem fyrri kröfuhafi (framseljandi) átti á hendur skuldara og að jafnaði öðlast hann ekki annan rétt gegn skuldara en framseljandi átti.

Og enn segir í þeirri ágætu bók:

Þegar krafa er liðin undir lok er greiðsluskyldu skuldarans lokið.  Ef kröfuhafinn færi í mál við skuldarann út af slíkri kröfu og skuldarinn hefði uppi þá vörn að krafan væri úr gildi gengin myndi skuldarinn verða sýknaður af kröfu sækjandans.

Nú í bókinni Kröfuréttur I eftir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Eyvind G. Gunnarsson segir:

Greiðsla skuldara til kröfuhafa leiðir því aðeins til brottfalls skyldu skuldara og þar með til loka kröfuréttinda, að greitt sé í samræmi við ákvæði samnings eða lagareglna.  Til réttra efnda af hálfu skuldara heyrir m.a. að hann inni greiðslu sína af hendi á réttum stað og réttum tíma.  (Neðanmáls: Til viðbótar því, að krafa sé greidd á réttum stað og tíma, heyrir það til réttra efnda á kröfu, að innt sé af hendi greiðsla sú sem greiða átti, hún hafi þá eiginleika til að bera sem um var samið, og að hún sé greidd til kröfuhafa eða einhvers sem heimild hefur til að taka við greiðslunni fyrir hans hönd.) (Leturbreyting er mín)

Og loks vil ég vitna í:

Það heyrir til réttra efnda kröfu í gagnkvæmu skuldarsambandi í fyrst lagi að hún sé greidd á réttum stað og réttum tíma.  Í öðru lagi að kröfuhafi hljóti þá réttarstöðu, sem af samningi leiðir, þ.e. hann öðlist þær heimildir yfir greiðslunni, sem samningur hans og skuldara gerir ráð fyrir.  Í þriðja lagi að greiðslan sé gallalaus, þ.e. að raunverulegum eiginleikum hennar sé ekki áfátt.

Það hefði svo sem verið nóg, að vera bara með fyrstu tilvitnunina, en gaman er að vitna í fleiri til að sýna hversu sterkur réttur minn er samkvæmt kröfurétti.  Ég vil hafa það á hreinu að ég tel að kröfur á mig vegna þess tíma sem kröfurnar voru í höndum Landsbanka Íslands hf. hafi verið að fullu efndar.  Við framsal "öðlast nýi kröfuhafinn (framsalshafi) allan þann rétt sem fyrri kröfuhafi (framseljandi) átti á hendur skuldara og að jafnaði öðlast hann ekki annan rétt gegn skuldara en framseljandi átti" eins og segir að ofan.  Landsbankinn hf. á því engar kröfur á mig sem Landsbanki Íslands hf. átti ekki við framsal kröfunnar.  Landsbankinn hf. (Nýi Landsbankinn hf./NBI hf.) lét þinglýsa í skilmálabreytingu í október 2008 að ég fengi þá skilmálabreytingu vegna þess að ég var í skilum.  Er mér ómögulegt að skilja hvernig Landsbankinn hf. geti átt ríkari rétt á mig núna í nóvember 2011 en hann átti í október 2008.  Ég hef því alltaf mótmælt rétti ykkar til að reikna lánin eins og þið gerið.  Þess vegna neita ég því að um vanskil hafi verið að ræða, þar sem ég fékk aldrei í hendur rétta greiðslukröfu.

Ég mun því gera fyrirvara á bæði skuldabréf og geri hér fyrirvara við útreikninga ykkar á meintum vanskilum, enda tel ég ekkert af þessu standast íslenskan kröfurétt.

Dómstólar eiga bara einn kost

Svo mörg voru þau orð.  Það er mín skoðun og allra lögfræðinga sem ég hef rætt við, að dómstólar eigi bara einn kost í stöðunni, þegar reynir á endurútreikninga fyrir dómi.  Þ.e. að hafna endurútreikningi á þegar greiddum gjalddögum.  Jón Finnbjörnsson við Héraðsdóm Reykjavíkur gerði það raunar í máli nr. X-77/2010 Arion banki gegn Agli ehf. þar sem hann segir:

Þá er ekki heimilt að reikna á ný afborgun af vöxtum og höfuðstól, ef hún hefur verið greidd að fullu á réttum gjalddaga eins og krafist var.

Því miður hefur Hæstiréttur dregið lappirnar með að taka á þessu atriði, þó hann hafi fengið til þess mörg tækifæri.  Rétturinn hunsar með því fjölmarga úrskurði Evrópudómstólsins um að honum beri að hafa í huga betri rétt neytenda, þrátt fyrir að hann hafi ekki verið reifaður fyrir dómi.

Nú tek ég það fram, að ég er ekki löglærður og þekki því ekki alla króka og kima lögfræðinnnar.  Einnig fékk ég Viðskiptabréf Páls Hreinssonar bara í hendur á laugardag og keypti hina tvær síðdegis í gær.  Ég er því ekki  búinn að lesa þær spjaldanna á milli og gæti því hafa yfirsést eitthvað sem vinnur gegn mér og öðrum lántökum í þessu máli.  Þætti mér vænt um að fá ábendingar um slíkt, því hafa skal það sem sannara reynist.

 


Erlendar skuldir þjóðarbúsins - Þrjár snjóhengjur upp á 3.600 - 4.400 milljarða

Umræðan um erlendar skuldir þjóðarbúsins skutu enn og aftur upp kollinum í liðinni viku.  Greiningardeild Arion banka fór þá yfir stöðu mála og sérstaklega skuldabókhald Seðlabankans í greiningu sinni "Skuldum við meira en við höldum?".  Ég veit ekki hvort sérfræðingar í greiningardeild Arion banka eru reglulegir lesendur bloggfærslna minna, en ég hef ítrekað fjallað um flest það sem fram kom í Markaðspunktunum frá sl. fimmtudegi, m.a. í athugasemdakerfi Eyjunnar og á facebook nokkrum dögum áður en þeir birtu greiningu sína.

Hverjar eru erlendar skuldir þjóðarbúsins?

Ég hef nokkrum sinnum reynt að skilgreina hverjar þessar skuldir þjóðarbúsins eru (sjá greinar sem vitnað er í neðst í pistlinum).  Hef ég þar í grunninn stuðst við skilgreiningar Seðlabanka Íslands, en alltaf verið gagnrýninn á hve íhaldssamur Seðlabankinn hefur verið í skilgreiningum sínum.  Sem betur fer er Seðlabankinn að gefa eftir í íhaldssemi sinni og viðurkennir í dag ýmsar skuldir, sem haldið var utan skulda þjóðarbúsins til að byrja með.  Mér finnst þó enn vanta upp á að hann dragi fram alvarleika stöðunnar.

Seðlabankinn flokkar eignir og skuldir þjóðarbúsins í grófum dráttum sem hér segir.

  • Beinar fjárfestingar, þ.e. eigið fjármagn og lán frá tengdum félögum, á Íslandi fyrir skuldir en erlendis fyrir eignir;
  • Markaðsbréf, þ.e. hlutabréf, skuldabréf og peningabréf - innlend á skuldahliðinni en erlend á eignahliðinni;
  • Afleiður (sem mælast ekki);
  • Aðrar eignir/skuldir, sem skiptast í:
    • Langtímalán
    • Skammtímalán, mest viðskiptaskuldir/-kröfur, stutt lán og innstæður
  • Gjaldeyrisforði (á eignahliðinni)

Út frá þessari flokkun reiknar Seðlabankinn að erlendar skuldir þjóðarbúsins séu 13.505 milljarðar, en erlendar eignir 4.215 milljarðar, þ.e. mismunur upp á 9.290 milljarða króna.  Hluti þessara skulda er vegna innlánsstofnana í slitameðferð, eins og Seðlabankinn nefnir það, en það á líka við um eignirnar.  Skráning Seðlabankans nær hins vegar bara til erlendra eigna þessara stofnana og síðan innlendra skuldaskjala, en ekki er gerð tilraun til að greina hverjir eru aðrir fjárhagslegir hagsmunir þeirra innanlands.  Þessir hagsmunir eru að mínu mati það mikilvægir, að þá verður að taka með, þegar kemur að því að greina áhrif raunverulegrar skuldastöðu á gjaldeyrisforða þjóðarinnar.

Staðan samkvæmt Seðlabanka Íslands

Skoðum því næst hvaða tölur Seðlabankinn er með á hverjum stað og hvernig þær skiptast á milli annars vegar þrotabúanna og hins vegar annarra.  (Tölur eru miðaðar við stöðuna í lok 2. ársfjórðungs 2012.) 

Liður

2012 Q2 Alls

Þrotabú

Aðrir

Erlendar eignir, alls

4.214.608

1.631.739

2.582.869

 Bein fjárfesting erlendis

1.526.728

726.013

800.715

   Eigið fjármagn

748.853

 

 

   Lán til tengdra félaga

777.875

 

 

 Erlend markaðsverðbréf

859.349

248.749

610.600

   Hlutafé

568.237

21.994

546.243

   Skuldaskjöl

291.112

226.755

64.357

     Skuldabréf

102.740

 

 

     Peningabréf

188.372

 

 

 Afleiður

0

 

0

 Aðrar fjáreignir en forði

976.911

656.977

319.934

   Viðskiptakröfur

22.442

 

22.442

   Lán

550.239

438.511

111.728

   Seðlar og innstæður

404.230

218.466

185.764

   Aðrar eignir ó.t.a.

0

 

0

 Gjaldeyrisforði

851.620

 

851.620

Erlendar skuldir, alls

13.504.665

9.865.618

3.639.047

 Bein fjárfesting á Íslandi

1.623.984

 

1.623.984

   Eigið fjármagn

226.971

 

226.971

   Lán frá tengdum félögum

1.397.013

 

1.397.013

 Innlend markaðsverðbréf

2.259.951

1.459.908

800.043

   Hlutafé

38.413

 

38.413

   Skuldaskjöl

2.221.538

1.459.908

761.630

     Skuldabréf

2.189.697

 

 

     Peningabréf

31.841

 

 

 Afleiður

0

 

0

 Aðrar erlendar skuldir

9.620.730

8.405.710

1.215.020

   Langtímalán

1.215.981

247.670

968.311

   Skammtímaskuldir

8.404.749

8.158.040

246.709

     Viðskiptaskuldir

45.028

 

45.028

     Stutt lán

2.148.209

2.140.515

7.694

     Innstæður/Skuldir vegna innlána

1.266.046

1.097.806

168.240

     Aðrar skuldir ó.t.a.

4.945.466

4.919.719

25.747

Hrein staða við útlönd

-9.290.057

-8.233.879

-1.056.178

 Áhættufjármagn, nettó

432.568

748.007

-315.439

 Skuldabréf, lán o.fl. nettó

-9.722.625

-8.981.886

-740.739

   Seðlabankinn

632.435

 

632.435

   Hið opinbera

-759.040

 

-759.040

   Innlánsstofnanir

154.380

 

154.380

   Aðrir geirar

-9.750.400

-8.981.886

-768.514

Þetta er langur listi, en hann er nauðsynlegt að skoða til að skilja hvað af skuldum þjóðarbúsins skipta máli fyrir gjaldeyrisforða landsins til skamms tíma. 

Áhrif erlendra eigna á gjaldeyrisforðann

Stór hluti erlendra eigna hefur óveruleg áhrif á gjaldeyrisforðann til skamms tíma og jafnvel lengri tíma.  Seðlabankinn getur, miðað við núverandi löggjöf, ekki þvingað eigendur þeirra til að selja þær og koma með gjaldeyrinn til landsins.  Auk þess er eigendum erlendra eigna heimilt að færa eignir sínar til án þess að skila inn gjaldeyrinum milli sölu á núverandi eign og kaupa á nýrri.  (Er minn skilningur á gjaldeyrishöftunum.) Mér sýnist þetta eiga við um 1.415 - 1.600 milljarða af þeim 2.583 milljörðum af erlendum eignum sem eru í eigu annarra en þrotabúa innlánsstofnana í slitameðferð.    Vissulega þarf að skila vaxtagreiðslum og arðgreiðslum samkvæmt lögum um gjaldeyishöftin, en það eru smápeningar. 

Af þeim 985-1170 milljörðum sem eftir eru, taldi gjaldeyrisforðinn 850 milljarða í lok 2. ársfjórðungs, þannig að aðeins 135-320 milljarðar af erlendum eignum þjóðarbúsins eru peningar  sem við gætum kallað handfært fé í erlendri mynt, auk gjaldeyrisforðans sjálfs.  (Þar af eru 185 erlendar innstæður sem óljóst er hvernig er hægt að nota.) Nú erlendar eignir þrotabúanna upp á 1.632 milljarða hafa engin eða óveruleg áhrif á gjaldeyrisforðann, þar sem þær ganga upp á móti erlendum skuldum sem eru margfalt hærri og koma því aldrei til landsins.

Erlendar skuldir 

Ekki þurfum við að hafa áhyggjur af öllum erlendum skuldum, en við þurfum samt að hafa áhyggjur af hærri upphæð en Seðlabankinn lætur í veður vaka.

Það er rangt að draga línuna þannig að áhyggjurnar þurfi eingöngu að snúast um hreina stöðu þjóðarbúsins við útlönd án innlánsstofnana í slitameðferð, þ.e. 1.056 milljarða.  Ástæðan er sú að þrotabúin eiga miklar innlendar eignir sem þurfa að ganga til kröfuhafa, en þeir eru að stórum hluta erlendir.  Vegna þess að þrotabúin eru taldir innlendir aðilar, þá eru ekki allar þessar eignir taldar upp þar sem þær ættu líklegast að vera. 

Vissulega telur Seðlabankinn skuldaskjöl (innlend markaðsverðbréf) að verðmæti 1.460 milljarða kr. til skulda þjóðarbúsins, en miðað við þá skilgreiningu að skuldaskjöl séu skuldabréf og peningabréf, þá er greinilegt að stórar upphæðir vantar.  Stærstar eru eignarhlutur þrotabúanna í nýju bönkunum, líklegar (uppsafnaðar) framtíðararðgreiðslur frá nýju bönkunum og síðast en ekki síst hluti þrotabúanna í betri heimtum af lánum, en gengið var út frá í uppgjöri.  Svo er spurning hvort skuldabréf Landsbankans til Landsbanka Íslands sé inni í skuldaskjölunum hjá SÍ.  Fljótt á litið gætu þessar ótöldu innlendu eignir numið á bilinu 1.200 - 2.000 milljarðar.  Hvort að allt þetta fari úr landi án þess að komi gjaldeyrir fyrir, er óljóst á þessari stundu (t.d. gætu erlendir aðilar keypt nýju bankana), en þetta eru samt upphæðir sem fyrr en síðar vilja að stórum hluta fara úr landi.  Þegar við bætum þessari upphæð við fjárhæð skuldaskjalanna, þá gerir þetta á bilinu 2.660 til 3.460 milljarðar króna að frádregnu svo því sem rennur til innlendra kröfuhafa þrotabúanna.

Af öðrum erlendum skuldum en innlánsstofnana í slitameðferð, þá reiknast mér til að langtímalán og þolinmótt fjármagn sé um 2.600 milljarðar af þeim 3.640 milljörðum sem þær telja. Eftir standa þá um 1.000 milljarðar, auk afborgana og vaxta af langtímalánunum, sem vilja fara úr landi þegar til skamms tíma er litið.  Þetta er að stærstum hluta snjóhengjan, svo kallaða, auk óverulegra viðskiptaskulda og styttri lána. 

Snjóhengjurnar eru þrjár

Mönnum hefur verið tíðrætt um snjóhengjuna, þ.e. fjármagn í eigu erlendra aðila sem er fast hér á landi.  Þetta voru í upphafi aðilar sem tóku m.a. í þátt í vaxtaskiptasamningum eða ætluðu að hagnast á háu vaxtastigi hér á landi.  Þessi snjóhengja hefur verið metin á bilinu 600 - 1.000 milljarðar eftir því hver hefur verið að reikna.  Ég met hana út frá tölu Seðlabanka Íslands vera um 970 milljarða (30/6/2012).

En það eru tvær aðrar snjóhengjur og er hvor um sig stærri en sú sem mesta athygli hefur fengið.  Þetta eru annars vegar skuldaskjöl þrotabúanna sem eiga að renna til kröfuhafa þeirra, þegar uppgjör fer fram og hins vegar eignir þrotabúanna í nýju bönkunum og greiðslur sem þaðan eiga eftir að berast.  Fyrri upphæðin er 1.460 milljarðar króna, eins og áður er getið, og hin á bilinu 1.200 - 2.000 milljarðar eftir því hve arðgreiðslur munu verða miklar á komandi árum. Fyrri upphæðin þarf að komast úr landi fljótlega, en síðari upphæðin gæti dreifst á nokkuð mörg ár.

Allar hanga þessar snjóhengjur yfir þjóðarbúinu.  Allar gera þær ekkert annað en að stækka, þar sem eignirnar að baki þeim bera vexti, verðbætur og safna arði.  Til að greiða þær höfum við til ráðstöfunar það sem ég kallaði að ofan handbært fé.  Gjaldeyrisforðinn sjálfur er allur tekinn að láni og því er ekki hægt að nota hann í þetta.  Því miður.  Hann þarf að nota í að greiða skuldir vegna hans sjálfs!  Þá er eftir að nefna viðskiptajöfnuð við útlönd, a.m.k. í þau skipti sem hann er jákvæður.  Handbæra féð er bara notað einu sinni og því þurfum við að treysta á árlegan gjaldeyrisjöfnuð og sagan segir okkur að hann er frekar neikvæður en jákvæður.

Vandinn er gríðarlegur

Samkvæmt mínum útreikningum vilja allt að 4.400 milljarðar króna af óþolinmóðu fé fara úr landi.  Þá er ég að tala um fé sem lokaðist inni í landinu vegna hruns bankakerfisins eða er ætlað að greiða erlendar skuldir þrotabúanna.  Auk þess þarf að greiða skammtímaskuldir og vexti og afborganir af langtímalánum sem að stærstum hluta eru lán ríkissjóðs hjá AGS og ýmsum þjóðum sem mala gull á lánveitingunni.

Hafi einhver verið í vafa um að vandinn væri stór, þá held ég að útreikningar mínir ættu að eyða þeim vafa.  Hvort heldur sem fjárhæðin í snjóhengjunum er 3.600 milljarðar eða 4.400 milljarðar skiptir ekki máli.  Þó hún væri "bara" 1.500 milljarðar, þá væri vandinn samt gríðarlegur. Upphæðin í erlendum gjaldeyri sem við öflum á ári til að greiða þetta er svo lítil að hún dugar ekki til að greiða vextina, hvað þá eitthvað meira.  (Þá er ég að tala um afgang af utanríkisviðskiptum, árlegan gjaldeyrisjöfnuð.)

Vandinn er svo stór að engar töfralausnir eru til.  A.m.k. eru engar lausnir sem munu láta erlenda kröfuhafa Íslands ganga brosandi frá borðinu.  Menn hafa fleygt ýmsu fram, en flest það sem nefnt er, líkist fremur smáskammtalækningum, þar sem hluti vandans er meðhöndlaður en að tekið á öllum vandanum.  Útgönguskattur sem endurspeglar í raun að eigendur fjármagnsins afsala sér hluta eigna sinna, skiptigengi með sömu áhrifum, skipti á gjaldmiðli, eignarnám á kröfum í þrotabúin og sitthvað fleira.  Allt hefur þetta verið nefnt, en stjórnvöld halda bara að vandinn leysist af sjálfu sér.  Eitt er alveg víst, að hann leysist ekki með frekari lántökum og hann leysist ekki með því að bjóða þeim, sem hér eiga peninga bundna, betri ávöxtun eða hærri arð í þeim tilgangi að þeir geymi peningana sína lengur.  Allt sem hækkar skuldina eykur á vandann.

Í næsta pistli mun ég velta fyrir mér betur hvað væri hægt að gera.

Eldri skrif um sama efni

Bara til upprifjunar, þá eru hér nokkrar af þeim færslum sem ég hef ritað um efnið:

28.4.2009: Fundur um skuldastöðu þjóðarbúsins hjá FVH

22.5.2009: Staða bankakerfisins 30. september 2008 segir annað

13.7.2009: Icesave er slæmt, en ekki stærsta vandamálið

14.7.2009: 31. mars voru heildarskuldir 4.483 milljarðar

15.7.2009: Tölur Seðlabankans geta ekki staðist

6.8.2009: Ókleifur hamar framundan

4.12.2009: Erlendar skuldir og staða krónunnar

2.5.2011: Stórhættuleg hugsanaskekkja varðandi erlendar skuldir - Ekki er hægt að treysta á erlendar eignir til að greiða erlendar skuldir

4.6.2011:  Gott að Seðlabankinn nær áttum - Hærri endurheimtur lána hækka skuldir enn meira

Verð að viðurkenna að ég gerði bara einfalda google leit og því er þetta líklegast ekki tæmandi listi.


4 ár

Já, það eru fjögur ár síðan Geir H. Haarde bað guð að blessa Ísland.  Ég er ekki viss um að honum hafi orðið að ósk sinni.  Aftur á móti virðist blessunin hafa náð til hluta ofurríkra fjármagnseigenda og fjármálafyrirtækja sem reist voru á rústum fjármálafyrirtækja sem höfðu samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu á sér yfirbragð skipulagðrar glæpastarfsemi.

Allir aðrir voru meira og minni hengdir út til þerris, ef þeim var ekki bara hent beint á eldinn.  Stór hluti almennings og fyrirtækja landsins voru bara talinn til eðlilegra affalla í stríði.  Ekki bara það, þeir sem lifðu af eiga að greiða stríðsskaðabætur til þeirra sem settu allt á hliðina.  Þetta er hundalógík, sem ég skil ekki og hef aldrei skilið.

Margir tóku til varnar

Sem betur fer misbauð mörgum það mikið, að þeir ákváðu að gera meira en að tala um það á Barnalandi, í heita pottinum eða í saumaklúbbum.  Ég held að öllum hafi misboðið, en hvaða gagn er af því að vera misboðið, ef maður býður bara hina kinnina eða kyssir hönd kvalarans?  Því miður, þá tóku fjölmiðlar landsins þá afstöðu almennt að taka málstað kvalaranna.  Því miður, þá tóku stjórnvöld þessa lands, þá afstöðu að taka málstað kvalaranna.  Hingað kom Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og viti menn.  Hann tók sér stöðu með kvölurunum.  Almenningur átti að borga stríðskaðabætur til fjármagnseigenda hér á landi og í útlöndum, því þessir aðilar voru svo fjandi mikilvægir að þeim varð að bjarga.

En eins og áður segir, þá misbauð mörgum það mikið að þeir tóku til varna.  Indefense hópurinn tók til varna í Icesave málinu vegna þess að ríkisstjórn Geirs H. Haarde taldi mikilvægara að halda andlitinu og sýnast grand út á við, en að verja þegna þessa lands fyrir ósanngjörnum kröfum.  Hagsmunasamtök heimilanna og Samtök lánþega tóku til varna í lánamálum heimilanna, vegna þess að stjórnvöldum þessa lands, hvort heldur ríkisstjórn Geirs H. Haarde eða ríkisstjórnir Jóhönnu og Steingríms, fannst það vera rétt að heimilin borguðu stökkbreytta höfuðstóla lána sinna.

Kröfur á heimilin lækkað um 300 milljarða þegar

Þrátt fyrir að fjármálafyrirtæki hafi ekki gengið að kröfum HH og SL í orði, þá eru þau langt komin með að gera það á borði.  M.a. með hjálp dómstóla, þá er búið að lækka stökkbreyttar kröfur lánastofnana á almenning um hátt í 300 milljarða.  Kröfur sem m.a. kröfuhafar hrunbankannahöfðu þegar gefið eftir, en snillingarnir í nýju bönkunum töldu sjálfsagt að halda til streitu.  Merkilegt að maður fái eitthvað á allt að 50% afslætti, en ætli samt að krefja fullt verð fyrir!  Slíkt á ekkert skylt við eðlilega og hvað þá heiðarlega viðskiptahætti.  Svo sem ekki við því að búast í þjóðfélagi sem er gegnsýrt af klíkuskap, leynimakki, vinargreiðum og endalausu vanhæfi þar sem mönnum finnst allt í lagi að sitja við allar hliðar samningaborðsins til að tryggja að einkavinirnir og klíkurnar fái alltaf sinn skerf af kökunni, en almenningur (við sem ekki erum í klíkunni) borgum alltaf það sem sett er upp.

Margt aflaga farið

Langt mál væri að tala um allt það sem aflaga hefur farið í endurreisninni síðustu 4 ár.  Ég ætla ekki að neita því að margt hefur verið gert, en það hefur í 9 tilfellum af hverjum 10 snúist um að þóknast fjármagnseigendum og varðhundi erlendra kröfuhafa, þ.e. AGS.  Niðurskurður í heilbrigðiskerfinu er orðinn slíkur að á það vantar báða fætur og annan handlegg.  Í menntakerfinu hefur svo sorfið að mörgum skólum, að þeir eru vart starfhæfir.  Í velferðarkerfinu sitja öryrkjar og ellilífeyrisþegar eftir með tekjur sem eru langt undir naumhyggjuframfærslu.  Atvinnuleysi hefur verið fært inn í skóla og í stað atvinnuleysisbóta, þá eru stórir hópar fólks komir á námslán.  Einu útgjöldin sem hafa hækkað um tugi milljarða eru vaxtagreiðslur til AGS og "vinaþjóða" til að halda uppi þeirri blekkingu að við eigum gjaldeyrisforða.  Hvernig getur verið að við eigu gjaldeyrisforða, ef hann er allur tekinn að láni?  Og hvaða skynsemi er að taka gjaldeyrisforða að láni, ef það kostar okkur 70, 80 eða 90 milljarða á ári að vera með gjaldyeyrisforðann að láni?  Kannski fatta menn það einhvern tímann, að það skaðar gjaldeyrisstöðu þjóðarinnar, að vera með gjaldeyrisforðann  í formi erlendra lána!

Aumingja erlendu kröfuhafarnir

Hvers vegna eigum við að hafa áhyggjur af eignum erlendra aðila hér á landi?  Hvað koma jöklabréf okkur við?  Hvers vegna eru menn að horfa á hina svo kölluðu snjóhengju sem okkar vandamál, þegar hún er vandamál þeirra sem eiga peninga í snjóhengjunni.

Ég neita að bera ábyrgð á mistökum í áhættustýringu þeirra sem lánuðu peninga hingað til lands.  Ég neita að bera ábyrgð á mistökum í áhættustýringu þeirra sem fjárfestu hér í skuldabréfum sem höfðu skrifað stórum stöfum utan á sér að fælu í sér meiri áhættu en ásættanleg væri nema fyrir þá sem þyldu að tapa þeim peningum sem í þetta væri lagt.  Shit happens, er sagt og þannig var það með þessa peninga.  Þeir eiga einfaldlega að fara aftast í kröfuröðina og verðum við einhvern tímann aflögufær, þá geta eigendur þessara krafna kannski fengið eitthvað upp í kröfur sínar.

Lífeyrissjóðirnir - stærsta óleysta vandamálið

Almenningur varð víða fyrir búsifjum á árunum kringum hrun, en líklegast hvergi eins miklum og hvað varðar lögbundinn lífeyrissparnað.  Inni í lífeyriskerfinu er risastór hola.  Hún var svo sem orðin stór löngu fyrir hrun, en þá var hún viðráðanleg.  Höggið sem hrunið gaf lífeyriskerfinu, var hins vegar gríðarlega þungt og er nánast hægt að segja að um tæknilegt rothögg hafi verið að ræða.   Snillingarnir sem telja sig einráða um kerfið, vilja að komandi kynslóðir bjargi lífeyrinum þeirra.  Þeir vilja fá sinn lífeyri óskertan á kostnað réttingaávinnings þeirra sem greiða til sjóðanna í framtíðinni.  Göfugmannlegt af þeim eða hitt þá heldur.  Ef forseti ASÍ væri í raun að berjast fyrir réttindum launafólks, þá væri það forgangskrafa hjá sambandinu að loka núverandi kerfi og láta greiðendur framtíðarinnar greiða inn í nýja deild í sjóðunum sínum.  Nei, það er ekki gert, vegna þess að forseti ASÍ vill að börnin hans greiði honum lífeyri í framtíðinni, í staðinn að vera maður til að taka á sig þá skerðingu sem óhjákvæmileg er samkvæmt núverandi eignastöðu sjóðanna.  Stjórnvöld og Alþingi eru síðan svottan bleiður að taka ekki hreinlega fram fyrir hendur "snillingunum" og ákveða svona breytingu sjálf.

Endurreisn trúverðugleika

Menn segja að trúverðugleiki Íslands sé að veði.  Bull.  Trúverðugleiki Íslands fauk út um gluggann 2008 og hann verður ekki endurreistur með því að lof mönnum einhverju sem ekki verður hægt að standa við.  Trúverðugleikinn verður aðeins endurreistur með því að segja sannleikann, lofa engu og reyna síðan að gera betur.

Hluti af þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir varðandi trúverðugleikann, er að ekki hafa orðið nægjanlegar breytingar í lykilstöðum í þjóðfélaginu.  Þó svo að Höskuldur og Steinþór hafi ekki verið í gömlu bönkunum fyrir hrun, þá á það við nær alla, ef ekki alla, sem þar vinna.  Sama á við um margar lykilstofnanir.  Nokkrir ráðherrar voru í þeirri ríkisstjórn sem fór með völd hér meðan hallaði undan fæti.  Ríkisstjórn sem var upptekin af því að afneita öllum hættumerkjum og skjóta sendiboðana.  Ríkisstjórn sem tók þátt í hrunadansinum með fjármálageiranum.  Ekki tekur betra við, þegar horft er til þingflokks Sjálfstæðisflokksins.  Þó Geir og Árni hafi farið út af þingi, þá eru allt of margir aðrir þingmenn flokksins annað hvort þeir sömu og sátu á þing meðan allt hrundi eða tóku þátt í sukkinu.  Og einhverra hluta vegna, þá stefnir allt í að þetta fólk fái glimrandi kosningu í næstu þingkosningum sækist það á annað borð eftir áframhaldandi þingsetu.  Er þetta leið til að endurreisa trúverðugleika eða er þetta leið til að verja klíkurnar?

Erfitt hlutverk ríkisstjórna Jóhönnu og Steingríms

Þrátt fyrir það sem að ofan er skrifað, þá viðurkenni ég fúslega að hlutverk ríkisstjórna Jóhönnu og Steingríms var ekki öfundsvert.  Þau tóku við brunarústum, þar sem ennþá loguðu eldar á víð og dreif.  Það sem meira var, að eina byggingarefnið var það sem fannst heillegt í rústunum.  Þau gerðu sér hins vegar endurreisnina erfiðari með því að taka til hliðar það sem best leit út til að láta það í hendur erlendra kröfuhafa.

Dæmigert mun vera fyrir brennuvarga, að þeir sniglast í kringum brunastað til að fylgjast með hvernig til tókst.  Í þessu tilfellu gengu þeir lengra og þvældust sífellt fyrir í slökkvistarfinu og kveiktu nýja elda við öll tækifæri.  Ekki það, að mér finnst ríkisstjórnirnir Jóhönnu og Steingríms einblínt of mikið á upprunalega eldinn, en að mestu látið brennuvargana um að slökkva eldana sem kviknuðu út frá honum.  Þetta er eins og láta árásarmann gera að sárum fórnarlambsins!

Ríkisstjórnir Jóhönnu og Steingríms tóku þá kolröngu ákvörðun að setja endurreisn heimila og fyrirtækja í hendur þess fólks sem orsakaði hrunið.  Það átti aldrei að gera.  Alþingi átti að ákveða leikreglurnar og setja skýr lög um þær.  Síðan átti hlutlaus aðili að sjá um framkvæmdina.  Að setja fjármálafyrirtækin í dómarasæti, þar sem þau eru annar málsaðili, gengur gegn heilbrigðri skynsemi og er helsta ástæðan fyrir því að ekki hefur gengið betur.  Þetta er eins og leikmenn annars liðs í kappleik sjái um dómgæsluna í leiknum.  Geta menn rétt ímyndað sér hversu einhliða sú dómgæsla myndi verða.  Þetta var nú samt gert, vegna þess að Alþingi virðist vera í heljargreipum fjármálafyrirtækjanna og klíkanna.  Raunar er mín upplifun af Alþingi, að sjálfstæði þess sé í nánast ekkert og það fari bara eftir því sem valdaöflin í þjóðfélaginu segja.  (Þá er ég að tala um meirihluta þingmanna, því þar er líka hópur, því miður ekki stór, sem hefur sjálfstæðan vilja ekki bara í orði heldur líka á borði.) Þessi valdaöfl hafa bara áhuga á að skara óhóflegan eld að sinni köku á kostnað almennings.  Þess vegna erum við 4 árum eftir hrun bankanna, enn að horfa upp á gríðarleg vandamál hjá almenningi og fyrirtækjum (þ.e. þeim sem er ekki eru í klíkunni) meðan fjármagnseigendur hafa náð að safna vopnum sínum.

Að lokum

Eins og lesendur pistla minna hafa orðið varir við, þá hefur lengst nokkuð á milli þeirra og þeim fækkað.   Ástæðan er góð og gild, en ég tók hinn 1. september við nýju starfi sem gefur mér færri tækifæri til að standa í þessum skrifum.  Ég mun þó halda áfram að berja lyklaborðið sem þurfa þykir, en eingöngu þegar málin eru stór. 

Ég tel mig eiga stóran hlut í þeim 300 milljörðum sem fjármálafyrirtækin þegar lækkað stökkbreyttar kröfur.  Ég vonast síðan til að ekki undir 150 milljörðum eigi eftir að bætast við og jafnvel allt að 400 milljörðum, þegar dómar verða gengnir í gengislánamálum og þegar Alþingi sýnir loksins þann kjark og þor að samþykkja frumvarp Hreyfingarinnar um björgunarsjóð vegna verðtryggðra lána.  Að frumvarpið hafi ekki þegar verið samþykkt tel ég vera ljótan blett á störf Alþingis.  Fjármunum ofurríkra fjármagnseigenda sem nemur um hærri upphæð var bjargað með einu pennastriki, en þegar kemur að hinum almenna borgara, þá má hann éta það sem úti frýs. Segja má að þetta sé það sem best lýsir hinni meintu endurreisn.  Ég vona að ekki líði önnur 4 ár áður en raunverulegri endurreisn lýkur.


Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband