Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2014

Er óréttlæti í lagi vegna þess að ég lifði það af?

Á Íslandi er víða grasserandi brjálæðislegt óréttlæti.  Misskipting er víða byggð á furðulegum rökum. Fólk hefur látið ótrúlegustu hluti yfir sig ganga og svipugöngurnar verið margar.  Ár eftir ár, kynslóð eftir kynslóð, bítur fólk á jaxlinn og mokar skaflinn sem óréttlætið hleður sífellt fyrir utan dyrnar hjá því.  "Ég ætla ekki að láta þennan andsk.. buga mig", sagði maðurinn stuttu áður en hann hné örendur til jarðar.

Það er margur góður maðurinn (konur meðtaldar) sem fallið hefur í valinn í þessari baráttu þrjóskunnar við óréttlætið án þess að óréttlætið hafi látið undan síga.  Baráttan virðist álíka vonlaus og glíma Þórs við Elli kerlingu eða þegar hann reyndi að drekka hafið úr horni Útgarða-Loka.

Undanfarin ár hef ég oft fengið að heyra það, að hinir og þessir hafi tapað öllu sínu í verðbólgubálinu á 8. og 9. áratugnum og við séum bara ekkert of góð að borga okkar skuldir.  Vegna þess að þessir einstaklingar hafi mátt skerða lífskjör sín í fleiri ár eða áratugi, þá sé alveg réttlætanlegt að börnin þeirra, barnabörn og við hin tökum líka svipugönguna.  Mikil göfgi í þessu eða hitt þó heldur.  Maður hefði frekar haldið, að þetta fólk skildi manna best mikilvægi baráttunnar.  Að koma í veg fyrir að fleiri gengu í gegn um það sama og það.  Nei, því miður, þá hefur biturðin orðið of oft ofan á.  Biturðin gagnvart því að öðrum verði bjargað, þegar þeim var ekki bjargað á sínum tíma.

Unglæknar hafa í áratugi mátt sætta sig við óásættanleg starfsskilyrði.  Um leið og þeir eru hættir að vera unglæknar, þá gera þeir lítið til að styðja unglækna í baráttunni fyrir réttlæti.  Mér heyrist ástæðan oftast vera.  "Við lifðum þetta af, þannig að þið munuð lifa þetta af."

Já, hann er merkilegur samstöðuandi þjóðarinnar.  Um leið og einhverjum hefur með hörkunni og herkjum tekist að þreyja Þorrann og Góuna, þá gleymir viðkomandi gjörsamlega allri hugsun um réttlæti. Vegna þess að viðkomandi lifði óréttlætið af, þá er bara sanngjarnt að aðrir, sem á eftir koma, þurfi að upplifa sama óréttlæti.

Óréttlætið er mannanna verk.  Taka má á þeim þáttum í þjóðfélaginu þar sem óréttlæti ríkir og gera breytingar.  Alveg eins og bruni innlána og útlána var mikið óréttlæti á 8. áratugnum, þá er áhættuleysi fjármálafyrirtækja með verðtryggingunni óréttlátt í dag.  Alveg eins og hægt var að píska verkafólki út fyrir innleiðingu vökulaganna, þá er vinnuálag unglækna mikið óréttlæti í dag.

Líklegast er ástæðan fyrir því hve sterk ítök óréttlætið hefur í þjóðfélaginu, að við höfum ekki ákveðið hvers konar réttlæti við viljum sem þjóð.  Engin framtíðarstefnumótun hefur átt sér stað sem stendur af sér einar þingkosningar.  Við höfum látið hagsmunasamtök fyrirtækja ákveða allt of margt fyrir okkur.  Við höfum látið misvitra framapotara í stjórnmálum ákveða allt of margt fyrir okkur.  Við höfum ekki verið virk í því að taka þátt í því að skilgreina í hvernig þjóðfélagi við viljum lifa.  Almenningur er nánast alltaf hafður til hliðar í mikilvægum ákvörðunum.  Álit og ályktanir hópa einstaklinga mega sín lítils gagnvart rödd stórfyrirtækja og misvitra stjórnmálamanna.

En hvað viljum við sem þjóð?  Hvernig þjóðfélag viljum við?  Hvernig getum við komið böndum á óréttlætið?  Það hefur verið nokkuð gott að brjóta af sér fjötrana hingað til, því það eru alltaf einhverjir sem sjá sér hag í að veita því liðsinni.  Sérstaklega, ef stuðningur við óréttlætið gæti komið höggi á pólitískan andstæðing. 

Nú er þjóðin búin að vakna til vitundar um að samtakamáttur getur breytt hlutunum.  Sameinaðar raddir heyrast betur en hver úr sínu horni.  Þó þinginu hafi ekki borið gæfa til að ljúka nýrri stjórnarskrá, þá er ekki þar með sagt að sú vinna hafi verið til einskis.  Að þessi leið hafi ekki skilað okkur á leiðarenda, þýðir ekki að við náum ekki þangað, bara að við þurfum að prófa einhverja aðra.  Bara með því að hætta aldrei að reyna, sendum við þau skilaboð að óréttlætið verður ekki liðið.  Spurningin er eingöngu hvenær það víkur fyrir réttlætinu!


Áskorun vegna leiðréttingarinnar

Við hjónin fengum, eins og margir aðrir landsmenn, tilkynningu í vikunni að við ættum rétt á leiðréttingu vegna þeirra verðtryggðu fasteignalána sem við vorum með á árunum 2008 og 2009.  Við reiknuðum aldrei með að upphæðin yrði há, en sóttum samt um.  Vegna breyttra aðstæðan, þá teljum við hins vegar heiðarlegast af okkur að nýta okkur ekki leiðréttinguna.

Það er svo sem úr okkar höndum hvernig þessum peningum verður ráðstafað, fyrst við munum ekki þiggja þá.  Okkur langar þó að skjóta þeirri hugmynd að ríkisstjórninni, að þeir peningar sem svona falla til, lágar upphæðir eða háar, fari í sjóð sem hafi það þjóðþrifaverkefni að byggja upp heilbrigðiskerfið í landinu og bæta stöðu öryrkja og aldraðra.  Þannig að, Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, við biðjum ykkar að leggja við hlustir og sjá til þess að þetta verði gert mögulegt.

Áskorun

Þessu til viðbótar viljum við hjónin skora á alla sem sóttu um og geta fengið leiðréttingu, en telja sig ekki þurfa á henni að halda, telja upphæðina svo litla að hún skipti ekki máli, telja sig fá óbragð í munninn við að þiggja hana, telja leiðréttinguna vera illa meðferð á almannafé eða hafa talað gegn leiðréttingunni af hvaða ástæðu sem er, að þiggja ekki leiðréttinguna með ósk um að sú upphæð, sem þeim var úthlutað, fari í sjóð til uppbyggingar á heilbrigðiskerfinu og til málefna öryrkja og aldraðra.  Sérstaklega skorum við á formenn  stjórnmálaflokka á þingi, sem sóttu um og geta fengið leiðréttingu sinna lána, að gera slíkt hið sama.

Einnig viljum við skora á öll fyrirtæki í landinu að greiða litlar eða stórar fjárhæðir til slíks sjóðs.

12. nóvember, 2014

Harpa Karlsdóttir   Marinó G. Njálsson


Viðbragðsáætlanir og stjórnun rekstrarsamfellu

Í rúmlega tvo og hálfan hafa verið í gangi umbrot undir og kringum Bárðarbungu.  Þarf ég líklegast lítið að fræða fólk um það.  Allan þann tíma hafa menn séð fyrir sér ýmsa möguleika á því hvernig umbrotin geti þróast.  Tveir slíkir möguleikar eru risastór jökulhlaup, annað í norður eftir farvegi Jökulsár á Fjöllum (eða Skjálfandafljóts), hitt í suðvestur um Köldukvísl og inn á virkjanasvæði á Þjórsár-/Tungnaársvæðisins.  Afleiðingar slíkra flóða gætu orðið geigvænleg, sérstaklega fyrir raforkuframleiðslu og -flutningskerfi landsins.  Í sinni verstu mynd gætu virkjanir á síðarnefnda svæðinu orðið óstarfhæfar í marga mánuði, ef ekki lengur.  Ástæðurnar gætu verið skemmdir á stöðvarhúsum, inntaksmannvirkjum, stíflum og/eða raflínum frá virkjunum, mikill aurburður gæti breytt rennsli áa og flóðið gæti líka rofið árbakka það mikið, að farvegir gætu gjörbreyst. Í mildari sviðsmynd sjá menn fyrir sér að "eingöngu" raflínur á svæðinu rofni.

Þegar menn standa frammi fyrir svona ógnum, þá vill oft verða, að menn átti sig á því, að þeir hafa engar áætlanir til að bregðast við þeim.  Flestir hugsa líklegast "þetta kemur ekki fyrir mig" og gera því ekkert.  Fyrst er rétt að benda á, að reynslan hefur sýnt að yfir 90% fyrirtækja sem verða fyrir alvarlegu rekstraráfalli og hafa ekki innleitt eða undirbúið einhverjar ráðstafanir til að bregðast við slíku áfalli, leggja upp laupana innan 5 ára.  Þar af hætta 40 af hundraði rekstri strax eða fljótlega eftir áfallið og önnur 40% deyja innan 18 mánaða. Þetta eru vissulega gamlar niðurstöður, en hin hliðin á þessum rannsóknum sýnir að stærsti hluti þeirra fyrirtækja sem voru undirbúin, lifði áfallið af.

Stjórnun rekstrarsamfellu

Undanfarin rúm 22 ár hef ég verið viðloðandi öryggisstjórnun í einni eða annarri mynd.  Meðal þess sem ég hef fengist við er ráðgjöf á svið stjórnunar rekstrarsamfellu og áhættustjórnunar.  Frá aldamótum hef ég kynnt þá aðferðafræði sem ég nota bæði á námskeiðum og fundum.  Einnig hef ég veitt fjölmörgum fyrirtækjum ráðgjöf og aðstoð við innleiðingu slíkra stjórnkerfa og gerð nauðsynlegra viðbragðs-, neyðar- og endurreisnaráætlana.  Sem betur fer hefur ekki oft þurft að grípa til þeirra skjala sem gerð voru, en eitt þeirra kom að góðum notum 8. og 9. október 2008, þegar allt stefndi í lokun allra greiðslukorta í landinu.  Ætla svo sem ekkert að fullyrða að þeim hefði verið lokað án áætlunarinnar, en hún var til staðar, henni var fylgt og niðurstaðan var að greiðslukortunum var ekki lokað.

Fyrir þá sem ekki þekkja til, er rétt að skoða áður en lengra er haldið hvað felst í stjórnun rekstrarsamfellu.  Það er markmið stjórnunar rekstrarsamfellu að tryggja samfelldan rekstur þeirrar starfsemi sem stjórnkerfið nær til.  Þetta þýðir í stuttu máli að greina fyrirfram hugsanleg áhrif af margvíslegum atvikum sem dregið geta úr hæfi fyrirtækis til að starfa á eðlilegan hátt og þar með auka getu fyrirtækisins til að þola að hluti starfsemi þess falli niður.  Bestur árangur við stjórnun rekstrarsamfellu næst, ef stjórnkerfið er drifið áfram af rekstrarlegum/viðskiptalegum sjónarmiðum, þannig að úrræði eru miðuð við að viðskiptavinurinn verði sem minnst var við áföll.

Í hverju felst verkferli við innleiðingu aðferða við stjórnun rekstrarsamfellu?  Það má segja að við þessu er bæði einfalt og flókið svar.  Þar sem ekki er pláss fyrir flókna svarið í svona pistli, þá læt ég það einfalda duga.

1    Hvað felst í stjórnun rekstarsamfellu?

Stjórnun rekstrarsamfellu er viðvarandi ferli áhættumats og -stjórnunar í þeim tilgangi að tryggja að rekstur haldist samfelldur þó áhætta raungerist.  Þessi áhætti gæti verið frá ytra umhverfi (sem fyrirtækið hefur enga stjórn á, svo sem rafmagnsbilun) eða innan fyrirtækisins, svo sem vísvitandi eða óviljandi skemmdir á kerfum.  Stjórnun rekstarsamfellu er ekki bara um endurreisn eftir áfall, áhættumat eða endurheimt vegna bilunar í tækjum.  Stjórnun rekstrarsamfellu er góð aðferð fyrir fyrirtækið til að endurskoða og, þar sem við á, endurhanna þær leiðir sem fyrirtækið notar við afhenda vörur og þjónustu á sama tíma og það eykur þol sitt fyrir röskun, truflunum eða tapi.  Þá telst það til góðra viðskiptahátt og vera hluti af stjórnháttum fyrirtækja að tryggja samfelldan rekstur.

2    Hverjir koma að máli?

Heildarábyrgð á ferlinu á fela stjórnarmanni eða háttsettum stjórnanda.  Með þessu er ferlinu gert jafn hátt undir höfði innan fyrirtækisins og mikilvægi þess segir til um og líkurnar aukast á skilvirkri innleiðingu.  Úthlutun ábyrgðar á þessu stigi ætti líka að tryggja að atriði tengt samfelldum rekstri eru skoðuð við gerð viðskiptaáætlana.  Staðbundin ábyrgð deilist síðan á einstaka stjórnendur.

Aðili, sem sér um að samræma stjórnun rekstrarsamfellu innan fyrirtækisins, ætti að heyra beint undir stjórn eða þann háttsetta stjórnanda sem fer með þessi mál.  Í það hlutverk ætti helst að velja einstakling sem hefur góðan skilning á rekstrinum og mannlegum samskiptum, en einnig getur verið þörf á góðri verkefnisstjórn og góðum hópstjóra. Stjórnandi rekstrarsamfellu þarf síðan að fá stuðning frá lægri lögum fyrirtækisins, staðbundnum starfsmönnum, hópum og stjórnendum.

3    Grunnvallaratriði stjórnunar rekstrarsamfellu

Stjórnun rekstrarsamfellu snýst um að skilja reksturinn og koma á þeim ferlum sem nauðsynelgir eru til að fyrirtækið lifi af.  Til staðar þarf að vera stefna og markmið sem sýnir að hverju fyrirtækið einbeitir sér í rekstrinum, en það verður jafnframt það sama og stjórnun rekstrarsamfellur beinir sjónum að.  Í rekstri fyrirtækis eru margir áhrifaþættir, svo sem þjónustuveitendur, viðskiptavinir, kerfi og búnaður, sem styðja við mikilvæg verkferli.  Nauðsynlegt er að virkja fulltrúa þessara lykiláhrifaþátta til þess að neyðaráætlunin, sem kemur út úr þessu ferli, sé marktæk.

Lítið gagn er að stjórnun rekstrarsamfellu nema hún sé meðtekin.  Af þeirri ástæðu er nauðsynlegt að halda úti fræðslu og auka vitund starfsmanna til að tryggja skilning um allt fyrirtækið og að áætlunin verði meðtekin jafnt inn á við sem út á við.

4    Lykil atriði stjórnunar rekstrarsamfellu

Lykil atriði í stjórnun rekstrarsamfellu eru m.a. að:

  • Skilja samhengi þess rekstrar sem fyrirtækið og/eða einingar þess starfa við.
  • Framkvæma áhættumat og áhrifagreiningu, en í því felst:
    • Auðkenna og forgangsraða mikilvægum rekstrar-/viðskiptaferlum innan þess samhengis
    • Auðkenna allar eignir og auðlindir sem tengjast þessum mikilvægu ferlum
    • Auðkenna og skilja áhættur sem fyrirtækið stendur andspænis og geta leitt til truflunar á rekstrinum.
    • Skilgreina áhrif og afleiðingar hugsanlegra atvika og hámarks ásættanlegt þjónusturof.
    • Ákvarða mótvægisaðgerðir til að mæta þeirri áhættu sem staðið er frammi fyrir.
  • Ákvarða hámarkstíma vegna endurreisnar.
  • Tryggja að fyrirtækið hafi viðeigandi tryggingar.
  • Koma á skilgreindum ábyrgðum, aðgerðum og ferlum vegna endurreisnar rekstrar-/viðskiptaferla ef til óvæntrar og óskipulagðrar truflunar kemur og vita hvað líklegt er að slíkar aðgerðir eða ferli leiði af sér.
  • Setja fram, skjalfesta og innleiða eftir þörfum neyðaráætlun (áætlun um samfelldan rekstur) fyrir fyrirtækið í heild og einstök mikilvæg rekstrar-/viðskiptaferli í samræmi við stefnu fyrirtækisins.
  • Skilgreina ástæður eða aðstæður sem valda því að gripið er til neyðarviðbragða og endurreisnarferla.
  • Tryggja að allir starfsmenn skilji hlutverk sitt og ábyrgðir ef neyðarástand skapast.
  • Skapa einingu og skuldbindingu um innleiðingu, þátttöku í og þjálfun vegna rekstrarsamfellu.
  • Viðhafa reglubundna og viðeignandi prófanir og uppfærslu á áætluninni og ferlum.
  • Tryggja að stjórnun rekstrarsamfellunnar sé hluti af verkferlum og skipulagi fyrirtækisins.
  • Úthluta til aðila með viðeignandi stöðu innan fyrirtækisins ábyrgð við að samræma ráðstafanir vegna rekstrarsamfellu og endurreisnar.

5    Ferlið vegna stjórnunar rekstrarsamfellu

Ferlið vegna stjórnunar á samfelldum rekstri skiptist í 6 þrep.  Þessi þrep þarf, þar sem við á, að fara ítrekað í gegnum, t.d. getur prófun leitt í ljós veikleika í hluta af skipulagi sem þarf að taka á og síðan prófa aftur.  Þrepin eru:

  • Verkefnisstjórn
  • Skilja reksturinn
  • Setja fram stefnumörkun og úrræði um samfelldan rekstur
  • Áhættumat og áhrifagreining
  • Þróa og innleiða viðbrögð
  • Fella stjórnun rekstrarsamfellu inn í vinnuumhverfið
  • Prófa, viðhalda, taka út og endurskoða stjórnun rekstrarsamfellu

Heildarferlið vegna stjórnunar rekstrarsamfellu felur skilyrðislaust í sér viðvarandi ferli endurskoðunar, læra af reynslu og að nýta sér þessa þekkingu til að uppfæra stefnumörkunina og úrræðin.

6    Niðurstaða skilvirkra aðferða við stjórnun rekstrarsamfellu

Niðurstöður skilvirkra aðferða við stjórnun rekstrarsamfellu eru:

  1. Mikilvægir starfsþættir eru auðkennir og varðir, þannig að samfeldni þeirra er tryggð
  2. Virkjuð er geta fyrirtækisins til að stjórna atvikum og koma þannig í veg fyrir að atvik verði að kreppu
  3. Mótaður er og skjalfestur betri skilningur fyrirtækisins á sjálfum sér og samskiptum við önnur fyrirtæki, opinbera eftirlitsaðila eða ríkisstofnanir, stjórnvöld á hverjum stað og neyðarviðbragsaðila
  4. Starfsmenn fá þjálfun í réttum viðbrögðum við atviki eða rekstrartruflun.
  5. Starfsmenn fá viðeigandi stuðning og upplýsingar ef til rekstrartruflunar kemur.
  6. Kröfur þeirra sem eiga hagsmuna að gæta njóta skilnings og eru uppfylltar með því að ofangreindar niðurstöður eru fengnar.
  7. Orðspor fyrirtækisins er verndað; og
  8. Rekstur fyrirtækisins er í samræmi við lög og reglur.

Ofangreindur texti er tekinn úr skjali sem ég hef samið og heitir Rammi um stjórnun rekstrarsamfellu.  Ef einhver óskar eftir nánari upplýsingum um þetta efni getur viðkomandi haft samband með því að senda póst á oryggi@internet.is og ég mun reyna að verða að eins miklu liði og ég get miðað við að ég starfa í Danmörku og bý þar u.þ.b. þrjár vikur af hverjum fjórum.

Það skal tekið fram að það ferli sem farið er í gegnum við mótun og innleiðingu stjórnkerfis rekstrarsamfellu er mjög öflugt tæki til að endurhanna vinnuferla og öðlast skilning á eðli einstakra rekstrarþátta.  Þetta ferli leiðir sjálfkrafa af sér betri stjórnhætti sem nær undantekningarlaust leiðir af sér betri rekstur og betri afkomu.  Betri afkoma leiðir svo af sér að verðmæti fyrirtækisins eykst og þar með eign hluthafa.


Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 1676995

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband