Leita í fréttum mbl.is

Hinn almenni borgari á að blæða

Það er gjörsamlega fáránlegt að leggja til svo eignaupptöku.  Við skulum hafa í huga, að hinn almenni borgari gerði í fæstum tilfellum nokkuð rangt.  Vissulega tóku ýmsir 90 - 100% lán og þau hafa hækkað, en í langflestum tilfellum hefur það eitt gerst að greiðslubyrði lána hefur vaxið fólki yfir höfuð vegna þess að ríkisstjórn og Seðlabanka mistókst að viðhalda efnahagslegum stöðugleika.  Í verðtryggingarkerfi eins og hér á landi, þá hækka lánin og koma ekki niður aftur.  Það þarf að leysa, ekki með því að taka eignina af fólki, heldur með því að færa greiðslubyrði hvers einstaklings niður á það stig að hann ráði við það á sama hátt og hann réð við það áður.

Fyrirtæki geta fært starfsemi sína yfir á nýja kennitölu.  Það geta einstaklingar ekki.  Ég væri alveg til í að stofna ehf um húseignina mína og kaupa hana svo aftur af ehf-inu á lægra verði.  Ég get það ekki (a.m.k. eftir því sem ég best veit).  Að Íbúðalánasjóður eða lífeyrissjóðirnir eigi að eignast hluta af húsnæði á móti fyrri eiganda er gjörsamlega út í hött.  Ég hef lagt til aðferð, sem ég tel margfalt betri og sanngjarnari gagnvart almenningi.  Ég birti hana í færslu hér í síðasta mánuði og vil birta hana hér aftur:

  1. Íbúðalánasjóður yfirtekur lán að fullu hjá banka, sparisjóði eða lífeyrissjóði samkvæmt nánari ákvörðun ríkisstjórnar.
  2. Fundið er viðmiðunargengi/vísitala, sem láni er stillt í, fyrir lántakanda að greiða.
  3. Upphæð sem verður afgangs er sett til hliðar og geymd.
  4. Lántakandi greiðir af sínum hluta lánsins eins og áður og tekur þaðan í frá á sig vísitölu- eða gengishækkanir eða nýtur vísitölu- eða gengislækkana.
  5. Verði annað hvort mjög mikil styrking á krónunni/verðhjöðnun eða mikil kaupmáttaraukning, þá tekur lántakandi á sig stærri hluta lánsins.
  6. Stofnaður verði sjóður sem renna í einhverjir X milljarðar á ári, t.d. af fjármagnstekjuskatti eða söluandvirði bankanna þegar þeir verða seldir, og hann notaður til að afskrifa þann hluta lánanna sem er geymdur.

Auðvitað er þetta ekkert annað en niðurfærsla höfuðstóls, en þó með þeim formerkjum að ekki er um endanlega niðurfærslu að ræða.  Hugmyndin var fyrst sett fram, þegar talið var að Landsbankinn og Kaupþing myndu standa storminn af sér, þannig að á þeim tímapunkti var gert ráð fyrir að bankar myndu greiða í sjóðinn.  Þar sem ekki er einu sinni vitað hverjir standa þennan storm af sér, þá er einfaldara að nota fjármagnstekjuskatt í þetta eða söluandvirði bankanna.

Til að skýra betur hvað er átt við:

Verðtryggðalán eru stillt af þannig að höfuðstóllinn þeirra er færður í það horf sem hann var þegar vísitalaneysluverðs var 281,8, sem er vísitalan um síðustu áramót.  Þessum höfuðstól er haldið óbreyttum þar til verðbólga milli mánaða er komin niður fyrir efri vikmörk Seðlabankans, en við það hefst aftur tenging höfuðstólsins við vísitöluna. 

Gengistryggð lán eru stillt af þannig að höfuðstóll þeirra sé miðaður við gengi um síðustu áramót.  Það má annað hvort gera með því að færa lánið yfir í íslenska mynt á þessu gengi og láta lánið eftir það breytast eins og um innlent lán sé að ræða eða með því að færa niður höfuðstól lánsins sem því nemur.  Verði farin sú leið að færa lánið yfir í íslenskar krónur, þá byrjar lánið strax að breytast í samræmi við skilmála nýs láns.  Verði farin sú leið að halda gengistengingunni, þá helst lánið í áramótagenginu, þar til nýtt ásættanlegt og fyrirfram ákveðið jafnvægi er komið á krónuna.  Þar sem algjörlega er óvíst hvert jafnvægisgengi krónunnar er, þá gæti þurft að endurskoða endanlega stöðu höfuðstóls þegar því jafnvægi er náð.

Sá hluti höfuðsstólsins, sem settur var til hliðar vegna þessa, er settur á sérstakan "afskriftarreikning".  Þessi reikningur getur lækkað með þrennu móti: 1. a) Verðtryggt lán: Ef breyting á vísitölu neysluverð fer niður fyrir verðbólguviðmið Seðlabankans, þá greiðir skuldarinn hærra hlutfall af skuldinni.  1. b) Gengistryggt lán: Ef gengisvísitala fer niður fyrir ákveðið gildi, þá lækkar höfuðstólsgreiðslan ekki, en skuldarinn greiðir í staðinn hærri hluta skuldarinnar.  2. Stofnaður er sérstakur afskriftarsjóður sem greiðir árlega niður lán á "afskriftarreikninginum".  Afskriftarsjóður hefur tekjur sínar af hagnaði ríkisbankanna, fjármagnstekjuskatti lögaðila og söluandvirði eins eða fleiri af ríkisbönkunum, þegar bankarnir verða seldir aftur.  3.  Við fyrstu sölu eignar rennur ákveðinn hluti andvirðis húsnæðisins í afskriftarsjóðinn.

Auðvitað þarfnast þetta allt nánari útfærslu, en markmiðið er að vera með sanngjarnar reglur.

Mönnum finnst þetta kannski dýr lausn, en málið er að hún kostar nákvæmlega það sama og leið Gylfa og Jóns.  Eignist Íbúðalánasjóður eða lífeyrissjóðirnir hluta af húsnæði einstaklinga, þá er það hvort eð er bara talnaleikur.  Skiptir einhverju máli hvort þessir aðilar eiga kröfu á afskriftarsjóðinn eða eignarhlut í húsnæði, sem þeir hugsanlega fá ekki greiddan fyrr en eftir dúk og disk, auk þess sem eigandi húsnæðisins er settur í nokkurs konar átthagafjötra, þar sem hann veit að um leið og hann seldur, þá hirðir einhver annar af honum stóran hluta af söluverðinu.


mbl.is Skoðað hvort leyft verður að selja hluta húsa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Nikulásson

Hefur þér dottið í hug að hægt sé að krefjast þess hreint og klárt að skuldir séu bara færðar niður?

Rökin fyrir því eru þau að nýju bankarnir ætla ekki að standa skil á erlendu lántökunum sem voru grunnurinn að ruglinu.

Af hverju finnst fólki þá eðlilegt að það standi skil á skuldum til bankanna sem eru að stærstum hluta bara þýfi?

Haukur Nikulásson, 4.11.2008 kl. 10:34

2 identicon

Já Marínó, hver segir að það sé réttlæti í heimunum?  Það er væntanlega fólki sjálfu að kenna að það kom sér í skuldir.  Einhver á væntanlega að greiða þetta.  Varla er það ríkið. Eiga þeir sem ekki keyptu hús og ekki komu sér í skuldir að gera það með hærri sköttum? Flýja þeir þá ekki bara land og skilja hina eftir í dýru húsunum með skuldaklafanna? 

Bankinn á þá húseignir ef fólk greiðir ekki af lánum.  Það voru dæmi um það að bankinn yfirtók húseignir á Norðurlöndum þegar bankakreppan varð og "íbúðareigendur" breyttust í "leigjendur" og þurftu síðan að slíta með restlánið og eru sumir núna ennþá eru að borga af því 20 árum seinna.
Það er ekki hægt að flýja skuldir til Evrópu þær fylgja þér og ef fólk er gert gjaldþrota á það enga von á láni næstu áratugina á Norðurlöndum. Þar er tekið á gjaldþrota fólki í bankakerfinu með töngum. Það fær enga lánafyrirgreiðslu og þarf að byggja upp kreditt frá grunni, eins og allt íslenska þjóðfélagið þarf núna.

Gunn (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 12:21

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Haukur, já mér hefur dottið það í hug, en fannst ólíklegt að það fengist í gegn.  Þess vegna vildi ég finna leið, þar sem sanngjörnum byrðum væri velt á skuldarann, en þó ekki of þungum.

Gunn, ég skil alveg hvað þú ert að fara.  Málið er að þegar maður tekur lán, þá á maður að geta treyst ákveðnum forsendum varðandi efnahagsumhverfið.  Maður verður síðan líka að geta treyst því að stjórnvöld hverju sinni valdi því hlutverki sínu að halda jafnvægi í hagkerfinu.  Þegar það gengur ekki upp, þá þurfa allir að koma að því að taka á sig byrðarnar, en ekki bara sá sem hefur engin áhrif á breytinguna.

Marinó G. Njálsson, 4.11.2008 kl. 12:49

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég gleymdi einu, þegar ég var að bera saman leiðina sem ég er að leggja til og leið þeirra Gylfa og Jóns.  Ef bankinn, Íbúðalánasjóður eða lífeyrissjóður eignast hluta húsnæðis á móti íbúunum, þá á eftir að leysa alls konar atriði, eins og fasteignagjöld, tryggingar, viðhald o.s.frv.  Ég er ekkert viss um að hinn "ytri" eigandi vilji þurfa að velta þessu öllu fyrir sér.

Marinó G. Njálsson, 4.11.2008 kl. 12:53

5 Smámynd: Friðrik Óttar Friðriksson

Þetta er athyglisverð hugmynd Marinó, amk þarf að grípa til ráða til að forða því að heimilin í landinu lendi í þroti.  Danir eru líka með módel með fljótandi vöxtum en vaxtaþaki, þannig að bankarnir eru gerðir ábyrgir fyrir verðbólgunni að hluta.  Hér hafa þeir haft lausan tauminn og beinan hag af því að keyra hér verðbólgu upp úr öllu valdi.  Það er sorglegt að sjá að ríkisstjórnin hamast eingöngu við að útbúa bráðamóttökuna, til að taka á móti fólki þegar svo langt er komið.  Það eru mjög slæm skilaboð.  Það er bráðnauðsynlegt að verja heimilin og að því þurfa bankar og ríkið að koma.  Ef heimilin eru sett á hliðina er hluta vandans ýtt yfir á sveitarfélögin og ekki eru þau sérlega burðug með sína skuldastöðu.

Mér finnst líka ótæk hugmynd og mjög óábyrgt að boða að það sé í fína lagi að gera fólk upp í flokkum, til að afskrifa skuldir og rýmka svo heimildir til fjárfestinga eftir slíkan gjörning.  Það leiðir einungis af sér mikið ábyrgðarleysi.  Væri það kannski til bóta að hugsa að þar sem allt væri hvort sem er að fara fjandans til þá væri best að láta það bara gerast með stæl?  Það leiðir einungis af sér að fólk skilur eftir sig sviðna jörð um allar tryssur, sem veikir enn grundvöll þeirra sem eftir standa.  Eina leiðin er að verja heimilin, verja sem allra flesta og aðstoða þá sem ekki eiga annarra kosta völ.  Það stórvantar því í aðgerðapakkann hjá ríkisstjórninni.  Ég mæli með að þeir skoði hugmynd þína af alvöru. 

Friðrik Óttar Friðriksson, 4.11.2008 kl. 12:57

6 Smámynd: Sveinn Valdimar Ólafsson

Hugmyndin hjá Marinó er ágætt og leggur skynsamlegan grunn að því að reyna að taka á erfiðum aðstæðum.  Einhvern veginn sér maður það alveg í hendi sér að verðtryggingin mun ekki vernda lánadrottna við þær aðstæður sem nú eru komnar upp.   Verkefnið hlýtur að vera að semja um niðurfellingu skulda (já segjum það berum orðum) til að tryggja að sem mest innheimtist.  Ella verða fjöldagjaldþrot og þá er verðtryggingin ekki að hjálpa lánadrottnum mikið.  Staðan er mjög erfið og allt önnur en við höfum áður horft fram á í þjóðfélaginu. 

Marinó er því með ágæta útfærslu á þessu.  Þetta er náttúrulega háð því hvað lánadrottnar vilja gera en verði þeim að góðu ef þeir ætla að þvinga fram fjöldagjaldþrot við þessar aðstæður.  Hvað græða Lífeyrissjóðir á því eða íbúðalánasjóður?

Kær kveðja Sveinn

Sveinn Valdimar Ólafsson, 4.11.2008 kl. 13:53

7 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þessar tillögur þínar eru mjög vel skoðunar verðar og eru að mínu mati góður útgangspuntur til að byrja á. Mér finnst að þín leið sé mun meira sniðin að þörfum fólksins, heldur en tillögur Jóns en þar er viss tilhneiging til mæta þörfum bankanna.

Mér finnst að skoða mætti að setja inn sem valkost að fólk fengi að breyta innlendum verðtryggðum lánum í erlend myntkörfulán, að hluta eða öllu leyti. Það er í það minnsta eitthvað sem gæti bætt stöðuna eins og er.

Svo er annað, ef við förum í ESB og verðtrygging fer af og lánakjör breytast. Þarf ekki að gera ráð fyrir slíkum möguleika.

Afskriftaleiðin er mun eðlilegri en að hluti eigna verði í eigu banka, samanber rekstrarkostnað eignarinnar og þess háttar svo ekki sé talað um átthagafjötrana.

Varðandi liði 4 og 5 tel ég að þar verði að skoða einhverskonar þak á hækkun/lækkun lánshlutfalls svo áhættan sé ekki alfarið lántakanda megin.

Það er mun hollara fyrir sálina að velta fyrir sér lausnum og úrræðum, en að kútveltast í reiðiforinni fram og aftur.

Höldum áfram að velta vöngum yfir þessum tillögum og það hefur verið haldið Málþing af minna tilefni.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 4.11.2008 kl. 14:32

8 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

þú ert brilljant Marinó, og án öfga.  Takk fyrir að upplýsa okkur

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 4.11.2008 kl. 15:21

9 identicon

Sæll Marínó!

Hef fylgst reglulega með blogginu þínu eftir að við sátum saman í hljóðveri útvarps í sumar og oft kemurðu með góða punkta. Þetta er einn þeirra. Þetta er hins vegar mjög flókið í framkvæmd.

Eins og ég nefndi í þessu spjalli sem við áttum við Frey Eyjólfsson þarf að gera allt til þess að komast hjá því að hinn almenni borgari verði gjaldþrota og mín hugmynd, sem ég hef svo sem ekki borið á torg enn - enda bara doktorsnemi en ekki doktor í hagfræði - er að öll lán verði fryst í eitt ár. Á meðan verði tekinn upp skyldusparnaður á nýjan leik, t.d.30%, en afganginum geti fólk ráðstafað að vild. Með þessu er hægt að gefa hagkerfinu það start sem nauðsynlegt er, samhliða því sem byggður er upp sparnaður sem síðan má nota til fjárfestinga.

Þessi aðferð væri að sjálfsögðu einnig mjög flókin í framkvæmd en það eru heldur ekki til neinar einfaldar lausnir á þeim vanda sem Aliber varaði við.

Sverrir Þór (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 18:14

10 identicon

Þetta er mjög áhugaverð tillaga. Takk fyrir mjög upplýsandi og góð skrif en það er greinilegt að þú leggur mikla vinnu í þetta. Nú er bara svo mikið í húfi að það er nauðsynlegt að við leggjumst öll á eitt að finna lausnir. Hefur þú heyrt eitthvað af nefndinni eða stýrihópnum sem Jóhanna skipaði til að koma með tillögur.

Viðar Jensson (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 19:00

11 identicon

Þakka þér þetta og önnur skrif þín, Marinó. Það er eins og að koma inn í þægilega loftkælt herbergi á ofsaheitum degi í Róm að lesa pistlana þína miðað við flest annað af því sem er skráð í bloggheimum.

Ellismellur (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 20:38

12 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Viðar, ég hef bara heyrt á hana í fjölmiðlum og síðan í gegnum talsmann neytenda.  Ég vona bara að hún leiti að lausnum með almenning í huga.

Ellismellur, takk fyrir þetta.

Sverrir Þór, það var einhvern tímann sagt um bandarísk skattalög, en þau eru nokkrar tommur að þykkt, að sanngjörn lög væru aldrei einföld.  Ég held að þessi hugmynd sé ekkert endilega flókin og grunnútfærsla hennar komist fyrir á einni A4 síðu í venjulegu letri.  Spurningin er bara hvort við viljum ekki frekar hafa hana ítarlega, að hún taki á öllum tilfellum og höfum hana aðeins lengri.

Marinó G. Njálsson, 4.11.2008 kl. 21:36

13 identicon

Góður pistill, en ein spurning. Ég hef heyrt nokkuð marga halda því fram - eins og þú gerir - að í verðtryggingakerfi "hækki lánin, en komi svo ekki niður aftur". Er þetta virkilega raunin? Ég fæ ekki skilið mína greiðsluseðla betur en svo að höfuðstóllinn sé miðaður við ákveðna vísitölu neysluverðs við lántöku og svo uppreiknaður miðað við breytingar á henni.

Ergo: Ef vísitala neysluverðs lækkar, þá lækkar uppreiknaður höfuðstól lánsins líka. Í verðhjöðnun munu því lánin lækka.

Það eru allar líkur á að þegar krónunni verði fleytt aftur fáum við harkalegt verðbólguskot til viðbótar við það sem orðið er og svo förum við inn í tímabil verðhjöðnunar (sjá rökstuðning í þessari færslu - auk sorglegra staðreynda um aukið atvinnuleysi og launalækkanir). Þá ættu lánin að koma að einhverju leiti til baka, nema ég sé að misskilja eitthvað varðandi lánaútreikningana, sem skýri að þá "hækka lánin og koma ekki niður aftur".

Endilega skýrið, ef þið þekkið til þessarra mála.

Hjálmar Gíslason (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 22:12

14 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ég veit ekki hvað maður á að segja í svona snarbrjáluðu þjóðfélagi með 20% verðbólgu og 50% gengisfalli.

Er ekki bara bylting skammt undan!

Í stað þess að segja: öreigar allra landa sameinist!

Segi ég: hægri-, vinstri- og miðju- menn sameinist!

Er hægt að bjóða okkur lengur upp á svona rugl?

Þýskur vinur minn hringdi í mig um daginn, en ég bjó í Þýskalandi í 12 ár og hann hafði áhyggjur af mér.

Verðtrygging: Reyndi að útskýra þetta þetta fyrir þýskum vini mínum um daginn og gafst upp!

Gengisfelling um 50%: Þjóðverjinn vissi ekki, hvert hann ætti að fara!

Myntkörfulán: Ég gerði nokkrar tilraunir til að útskýra þetta og gafst svo upp!

Ég væri til í mótmæla, bara ekki með Kolfinnu Jóns Baldvinsdóttir eða Herði Torfasyni.

Kolfinnu langar á þing eins og allri fjölskyldunni. Hún er sæt, en enginn Jón Baldvin - sorry! Þessi fjölskylda er eins og Engeyjarættin -bara kratar!

Hörður Torfason er einhver, sem mótmælir öllu og öllum. Heldur að allur heimurinn sé á móti honum af því að hann er hommi.

Hörður: Það er öllum skítsama, hvort einhver er hommi eða lesbía eða svartur!

Forseti Bandaríkjanna gæti í dag orðið svartur hommi og ég yrði mjög ánægður, þ.e.a.s. ef viðkomanid væri frambærilegur maður!

Fordómar af þessu tagi eru steindauðir, en þú fattar það ekki einu sinni!

Er ekki Sturla vörubílstjóri örugglega í þessum mótmælagöngum og Helgi Hóseasson?

Hvernig heldur þetta fólk, að venjulegir borgarar á borð við mig láti sjá sig þarna?

Hversvegna spyr þetta fólk sig ekki að því, hversvegna aðeins 500-1000 manns séu þarna, þegar 310.000 Íslendingar eru bandbrjálaðir og vildu helst gera uppreisn?

Við þurfum hugsanlega eitthvað annað, t.d. venjulegt fólk til að skipuleggja mótmælin en ekki einhverja "Wannabe" þingmenn!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 4.11.2008 kl. 22:28

15 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Hjálmar, það er svo sem alveg rétt að ef vísitalan lækkar á milli mánaða, þá lækkar höfuðstóllinn.  Málið er bara að það gerist svo sjaldan að vísitalan lækki á milli mánaða.  Síðustu 243 mánuði hefur vísitalan hækkað 203 skipti um alls 123% (samlagning hækkana hvers mánaðar), þ.e. meira en 0,5% á mánuði, en lækkað 40 sinnum um alls 9%, þ.e. 0,2% á mánuði.  Þannig það er ekki bara sjaldnar sem verðhjöðnun á sér stað, heldur er hún almennt lítil þegar sú staða kemur upp.  Þess vegna gera menn ekki ráð fyrir að verðhjöðnun komi til með að hafa nokkur áhrif að viti á höfuðstól verðtryggðra lána.  Almennt er eina leiðin til þess að höfuðstóll verðtryggðra lána lækki, að afborgun höfuðstóls sé hærri en hækkun hans vegna verðtryggingarinnar frá síðustu afborgun.

Marinó G. Njálsson, 4.11.2008 kl. 22:30

16 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Guðbjörn, ég er alveg sammála þér, en þá verður það fólk að stíga fram.  Vandamálið er að það hefur ekki gert það meðan Kolfinna, Hörður og Sturla hafa sýnt frumkvæði.

Marinó G. Njálsson, 4.11.2008 kl. 22:34

17 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Marinó, getum við hér við götu í Kópavoginum stofnað Eignarhaldsfélag (með nýrri kennitölu) um fasteignir okkar áður en fasteignamat fellur um áramót?...getum við tekið veð í mismuninum þanngað til og verið "stikkfrí" sjálf ef fasteignaverð fellur? ...þ.e að "eignarhaldsfélagið" um götuna verður gjaldþrota en við (eigendur húsanna og íbúðanna) erum EKKI GJALDÞROTA?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 4.11.2008 kl. 22:35

18 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Það er ekki nema von að venjulegum Íslendingi detti ekki í hug að lánskjaravísitalan lækki, en það hefur þó gerst ég man ekki hvenær og það var svo lítið að það skipti nánast ekki máli.

Ég held að það sé sama hvaða kerfi verði notað til að lækka lánin, það verður flókið.

Það er ekki einfalt mál að vinda ofan af þeirri gríðarlegu óreiðu sem er í samfélaginu. Það þýðir samt ekki að slíkt sé ekki hægt, en það tekur tíma að smíða reglurnar og það verður að hefjast handa sem allra fyrst.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 4.11.2008 kl. 22:54

19 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Anna, ég býst við að þetta sé alveg hægt.  Ekki búast þó við að ehf-ið fái að taka yfir áhvílandi lán.  Íbúðalánasjóður má bara lána slíkum aðilum í skamman tíma.  Og þið þurfið að greiða ehf-unum nægilega háa leigu til að standa undir öllum kostnaði.  Svo kostar pening að stofna ehf-ið.  Nú ný lán þurfa hugsanlega persónulegar ábyrgðir.  Annars er betra að snúa sér til endurskoðanda eða lögfræðings um þessi mál.  Eina ástæðan fyrir því að ég veit þetta, er að ég er með tvær eignir, aðra í byggingu og hin selst ekki, og hef verið að skoða ýmsa möguleika varðandi það.

Marinó G. Njálsson, 4.11.2008 kl. 22:58

20 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

tAKK Marinó, nú þegar leiga og fasteignir lækka og lækka er þetta virkilega umhugsunarvert!!!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 4.11.2008 kl. 23:24

21 Smámynd: Karl Ólafsson

Mér hugnast þessar tillögur þínar mjög vel Marinó, að öllu öðru leyti en því að ég vil að við tökum alvarlega og ítarlega umræðu um það hvort ekki væri rétt á sama tíma að afnema verðtrygginguna. Til þess höfum við tækifæri núna, ef viljinn er fyrir hendi. Því mður eru það helst lífeyrissjóðirnir, sjóðir okkar landsmanna, auk bankanna sem helst standa í vegi fyrir heilbrigðri umræðu um afnám verðtryggingar. Stjórnmálamenn skjóta sér ítrekað í skjól á bak við lífeyrissjóðina þegar þeir segja að 'þeim sé sagt að það sé erfitt og óæskilegt á þessu stigi að afnema verðtrygginguna' og málið þar með afgreitt.

Ég hef verið að reyna að safna saman rökum með og á móti verðtryggingu á blogginu mínu, en á mikið verk óunnið sem mér eflaust vinnst ekki tími til að klára. Vissulega er mín umfjöllun ekki hlutlaus, því ég er alfarið á móti því að börn mín og barnabörn eigi að þurfa að búa við verðtryggingu ofan á vaxtastig sem þegar er með hærra móti. Þegar menn segja að ef verðtryggingar nyti við verði vaxtastig og greiðslubyrði afar íþyngjandi gleymist að reikna með því að a) við eigum ekkert að líða það til langframa að vaxtastig hér sé 10-25%! og b) greiðslubyrðin lækkar hratt eftir því sem lánið greiðist pp og að endingu c) markaðurinn óbrigðuli hlýtur þá að sjá til þess að menn geti ekki tekið hærri lán en þeir ráða við og þar með sér framboð og eftirspurn um að halda verðlagi fjárfestinga eins og íbúða í ákveðnum skorðum.

Eins og alltaf ef maður ætlar rétt aðeins að beita 'auk þess legg ég til ...' aðferðinni á verðtryggingarumræðu verður úr heil ritgerð og biðst ég afsökunar á því. En ég fer ekkert ofan af því að við eigum að taka þessa umræðu núna og ekki síðar og við eigum ekki að láta lífeyrissjóðina segja okkur að við getum ekki afnumið verðtrygginguna. Skoðum málin betur heildrænt eins og þú hefur gert hér Marinó því það er lítið gagn í verðtryggingu skulda sem ekki lengur hafa á bak við sig fulla tryggingu þar sem húsnæðisverð hefur sunkað niður fyrir höfuðstól áhvílandi veðlána á gríðarlegum fjölda fasteigna.

Karl Ólafsson, 4.11.2008 kl. 23:59

22 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Karl, ég er alveg sammála þér að afnema þarf verðtrygginguna eða a.m.k. gelda hana að einhverju leiti.  Friðrik Ó. Friðriksson bendir á hvernig þetta er í Danmörku í athugasemd að ofan þar sem hann segir:

Danir eru líka með módel með fljótandi vöxtum en vaxtaþaki, þannig að bankarnir eru gerðir ábyrgir fyrir verðbólgunni að hluta.

Kannski er þetta leiðin varðandi verðtrygginguna.  Það má einfaldlega ekki verðbæta höfuðstól lána umfram tiltekin mörk, segjum 5%.  Allt umfram það hverfur.  Það má búast við að þetta þýði hærri vexti, en það þarf ekki að vera.

Marinó G. Njálsson, 5.11.2008 kl. 00:15

23 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Ég keypti hús í DK 1997 á 6,5% vöxtum (án verðtryggingar). Seldi svo og flutti mismuninn til Kopavogs (fékk engan afslátt eins og Björgulfsfeðgar fyrir að flytja fjármagn TIL LANDSINS).

En þegar maður veit núna að bankar Íslands tóku afstöðu GEGN KRÓNUNNI í mars þá er ekki vitlaust að bankar taki þátt í verðtryggingu lána!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 5.11.2008 kl. 00:27

24 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Einsog fram kemur hér er verðtryggingin gagnslaus í þessu ástandi. Hefur adrei verið til gagns. Þetta er bara einföld aðferð fyrir þa sem kunna ekki að ávaxta peninga að fá uppfærðan höfuðstólinn reglulega á sanngjörnum vöxtum. Þetta er hugmyndafræði sem er ekki kapítalismi ef þið haldið það. Þetta er nær því að vera sósíalismi. Verðbólga er vandamálið og að halda það að hægt sé að "tryggja" fé í þessu ástandi er bara bilun. Hvernig á að tryggja höfuðstól í krónum þegar krónan hefur bara ca ekkert verðgildi í dag. Amk verðgildi sem nálgast núll mjög hratt á alþjóðlegum staðli. Innan Íslands er hægt að halda úti þessari skiftimynt svo við höfum eittthvað milli handanna þegar við borgum í stöðumælinn. Ég er ekkert á móti krónunni en það er ekki lengur hægt að verðleggja neitt með henni sem mark er á takandi. Sé heldur ekki fram á þær breytingar séu framundan að hún styrkist í bráð. Það er því alveg hægt að afnema verðtryggingu í x mánuði þangað til eitthvað vitrænt fer að gerast. Að hella þessu yfir á almenning er ávísun á eignaupptöku sem er enn einn glæpurinn eða svindlið sem virðist engan enda eiga að taka. Við ráðum ekki við þetta með verkfærum gærdagsins.

Gísli Ingvarsson, 5.11.2008 kl. 11:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband