Leita í fréttum mbl.is

Játning Davíðs

Eftir að hafa lesið þessa frétt Morgunblaðsins, þá eru nokkrir punktar sem vekja athygli mína:

1.  Fjölmiðlum kennt um:

Spurði Davíð að því hvort það hefði verið öðruvísi ef fjölmiðlar hefðu ekki verið í þeim heljargreipum sem þeir voru í.

Um þetta er ekki annað að segja, að fjölmiðlar eiga að flytja fréttir ekki leysa vanda.  Vandamál hverfa ekki þó ekki sé fjallað um þau.

2.  Árangurslausar viðvaranir Davíðs:

Að sögn Davíðs varaði hann ítrekað við útrásinni og fylgifiskum hennar...Vísaði Davíð þar til orða sinna á fundi Viðskiptaráðs fyrir ári þar sem þetta kom allt fram. Á þeim fundi varaði Davíð stórlega við útrásinni og öllu því sem henni fylgdi, svo sem skuldasöfnunin og hvað lítið þurfi til þess að loftið fari allt úr útrásinni með skelfilegum afleiðingum. Jafnframt vísaði Davíð til ræðu sinnar á ársfundi Seðlabankans frá því í mars þar sem hann varaði einnig við því sem gæti gerst.

Orð eru til alls vís, en ef engar aðgerðir fylgja þeim, þá gagnast þau ekkert.

3. Skýrsla eftir fund með matsfyrirtækjum:

Davíð vísaði til fundar sem bankastjórnin átti í Lundúnum  í febrúar með matsfyrirtækjum og háttsettum bankamönnum þar í landi. Segir hann að þó seðlabankamenn hafi haft áhyggjur af ástandi mála fyrir fundinn þá hafi þeim verið brugðið eftir fundinn..Þar hafi verið lesin skýrsla, sem var til eftir fundinn í Lundúnum. Í skýrslunni kom fram að áhyggjur af Íslandi lutu eingöngu að íslensku bönkunum og stöðu þeirra. Ef þeim yrði hált á svellinu þá myndu fleiri falla með.

Davíð sagði, að af skýrslunni megi draga þá niðurstöðu, að íslenska bankakerfið hefði verið í verulega hættu á þeim tíma sem skýrslan var kynnt, það er í febrúar. Þar kom fram að markaðir verði almennt lokaðir íslensku bönkunum sem og öðrum bönkum næstu mánuði og í allt að tvö ár.

Í skýrslunni kemur einnig fram, að skortstaða hafi verið tekin á íslensku bankana í trausti þess að markaðir yrðu þeim lokaðir til langs tíma og ekki væri hægt að bjarga þeim frá falli af Seðlabanka. Niðurstaða skýrslunnar er sú, að ljóst sé að íslensku bankarnir hafi stefnt sér og íslensku fjármálalífi í stórhættu með framgöngu sinni undanfarin ár. Nauðsynlegt sé að vinda strax ofan af stöðunni.

Ok, hér er Seðlabankinn með mikið efni að vinna úr, en hver voru viðbrögð hans.  Erindi á ársfundi bankans.

Hér tiltek ég þrjú atriði úr erindi Davíðs, eins og þau koma fyrir í frétt mbl.is.  Í fyrsta kennir hann fjölmiðlum um, í öðru útrásarmönnum og í hinu þriðja bönkunum.  Hann aftur nefnir hvergi til hvaða aðgerða Seðlabankinn greip til að sporna við þróuninni.  Hann viðurkennir meira að segja að Seðlabankinn hafi ekki áttað sig á því fyrir fundinn með matsfyrirtækjunum í febrúar hve staðan hefði verið alvarleg.  En fyrst að staðan var orðin svona alvarleg:

1.  Af hverju jók Seðlabankinn ekki strax við gjaldeyrisvaraforðann sinn í nóvember á síðasta ári í kjölfar ræðu Davíðs á fundi Viðskiptaráðs?

2.  Af hverju lagðist Seðlabankinn gegn því að Kaupþing gerði upp í evrum?

3.  Af hverju var beðið með það fram í maí að fá heimild hjá Alþingi fyrir stóra láninu, ef Seðlabankinn vissi í febrúar að þörf var á því?

4.  Af hverju gerði Seðlabankinn ekki tillögu að því að leita til IMF strax í febrúar, þegar hann hafði þá skoðun matsfyrirtækjanna að lokað væri fyrir lánsfé til íslensku bankanna og slík lokun gæti staðaið yfir í 12 - 24 mánuði?

5.  Af hverju hafnaði Seðlabankinn þeirri leið í sumar (sbr. orð Davíðs í Kastljósþættinum fræga) að leita til IMF á þeim tíma?

6.  Hvað með að beita einhverjum öðrum stjórntækjum, en bara stýrivöxtum?

Það er nákvæmlega ekkert gagn af Seðlabankanum, ef bankinn bara horfir á og fylgist með, en aðhefst ekkert.   Ég hélt að það væri hlutverk Seðlabankans að koma á stöðugleika, að vera bakhjarl bankanna.  Seðlabankinn er búinn að viðurkenna fyrir sér í febrúar, að hann geti ekki bjargað bönkunum!

Í skýrslunni kemur einnig fram, að skortstaða hafi verið tekin á íslensku bankana í trausti þess að markaðir yrðu þeim lokaðir til langs tíma og ekki væri hægt að bjarga þeim frá falli af Seðlabanka.

Það er því ljóst að aðgerðirnar sem gripið var til gegn Glitni í lok september höfðu verið undirbúnar fyrir löngu.  Seðlabankinn var búinn að ákveða það fyrir löngu að hann gæti ekki staðið við þá skuldbindingu sína að vera lánveitandi til þrautarvara. Þannig í staðinn fyrir að auka við sjóði Seðlabankans, þá fóru menn að útbúa áætlun um yfirtöku bankanna.

Eitt í viðbót.  Þetta heyrði ég í hádegisfréttunum:  Davíð skammaði sjálfan sig í ræðu sinni, þegar hann gagnrýnir að FME hafi verið fært undan Seðlabankann með lögum árið 1998.  Hver skyldi nú hafa verið forsætisráðherra þá?

 


mbl.is Fjölmiðlar í heljargreipum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Jahá, að þessu síðasta - og fleiru - spurði ég einmitt sjálfa mig í morgun þegar ég hlustaði á ræðuna, eins og þú sérð ef þú kíkir á bloggið mitt!

Þessi ræða var endalaus samsuða af "sannleikskornum" sem hafði verið hagrætt flytjanda í vil - og öllu því "óþægilega" sópað undir teppið!

Greta Björg Úlfsdóttir, 18.11.2008 kl. 16:27

2 identicon

"Seðlabankinn var búinn að ákveða það fyrir löngu að hann gæti ekki staðið við þá skuldbindingu sína að vera lánveitandi til þrautarvara. Þannig í staðinn fyrir að auka við sjóði Seðlabankans, þá fóru menn að útbúa áætlun um yfirtöku bankanna."

Það er einmitt málið, það var ekki hægt að bjarga þeim. Upphæðirnar sem hefði þurft til þess voru margfalt hærri en IMF lánið og Icesave til samans. Að reyna að bjarga bönkunum hefði heldur ekki getað gerst í einu vetfangi vegna þess að sú kreppa sem nú er hafin mun standa árum saman.

Það að bjarga bönkunum hefði leitt til miklu þyngri skuldabyrðar en þeirrar sem við horfumst nú í augu við, þó hún sé samt sem áður allsvakaleg. Ef ég man rétt þá var efnahagsreikningur bankanna eitthvað nálægt tífaldri þjóðarframleiðslu Íslands. Það hefði þurft mörg þúsund milljarða bara til þess eins að halda þeim á floti og þá eru undanskilin lán á borð við það sem verið er að reyna að fá frá IMF til þess að geta stutt krónuna.

Burt séð frá því hvort mönnum líkar vel við Davíð eða ekki þá var ekki nokkur leið að bjarga bönkunum, ENGIN. Það þýðir ekki að ætla að vitna í Sigurjón digra eða nokkra aðra af hans sauðahúsi til þess að afsanna það.

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 18.11.2008 kl. 17:26

3 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

það er alveg merkilegt hvað þessi maður (DO) getur talið sér trú um að hann komist upp með. Hann hefur sennilega getað gert það einhverntíman, en núna eru allir að hlusta, horfa og fylgjst með. Verð er að grafa í ýmsum gömlum haugum, þó ekki sé enn farið að sýna afraksturinn að neinu marki.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 18.11.2008 kl. 17:49

4 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Úff, munið bara eftir að setja á ykkur gasgrímurnar, Hólmfríður!

Greta Björg Úlfsdóttir, 18.11.2008 kl. 17:55

5 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Mjög athyglisverð samantekt og spurningar.

Helgi Jóhann Hauksson, 18.11.2008 kl. 20:35

6 identicon

Er ástandið ekki farið að minna aðeins á fjörbrot ríkis, embættismanna og þjóðskipulags rétt fyrir hrun. Þegar hver bendir á annan og segir "þér að kenna" er þá ekki stutt í endalokin. Paník er rétt lýsing á því sem við erum að horfa uppá. Hvað gerist á morgun þegar og ef IMf neitar að lána nema..................

Arinbjörn Kúld (IP-tala skráð) 18.11.2008 kl. 20:35

7 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Endurnýjun ríkja er svo sem ekkert nýtt í mannkynssögunni.

Því ekki hér?

Stofnum lýðveldið upp á nýtt - stjórnarskráin var hvort sem er bara til bráðabirgða, í 64 ár!

Greta Björg Úlfsdóttir, 18.11.2008 kl. 20:45

8 identicon

Sæll Marínó.

Það sem kemur fram í ræðu Seðlabankastjóra er að ástand bankanna var mikið alvarlega og að ráðamenn hafi gert sér grein fyrir því eða ættu að hafa gert sér grein fyrir því, mikið mikið fyrr en þeir hafi gefið í skyn. Það virðist hafa skort á markvissar aðgerðir enda hafi verið farið með þetta eins og mannsmorð.

Grundvallarskilyrði fyrir uppbyggingu Íslands er að undirstöðurnar eru ekki rotnar en þær virðast það. Tek ég undir það sem DO segir sem saknar rannsóknar og frumskilyrði er það að hún sé gerð af erlendum og óflokkspólítískum aðilum en menn virðast ekkert ræða mikið um það mál enda núna 6 vikum eftir hrunið er ekkert að gerast.

Þessi einfalda söguskýring um að allt hafi verið í lagi þangað til Glitnir hafi verið yfirtekinn og viðtal við Davíð í Kastljósi hafi verið orsök deilunar við Breta eru skýring sem undirritaður hefur aldrei gleypt þetta hafi sumir þegar kokgleypt og túlki atburði síðustu vikna í sambandi við það. Þessi söguskýring er alla vega endanlega brostin.

Það virðist betur og betur koma í ljós að skúrkarnir í þessu máli voru bankarnir og margir stærstu hluthafar þeirra en ríkisstjórn, Seðlabanki, Bankaeftirlit, alþingi, fjölmiðlar og fólkið í landinu sofið á verðinum eða ekki haft þor, samstöðu eða vilja til að beita þeim aðgerðum sem þurftu. Hver var ástæða þess væri gaman að fá upp á yfirborðið.

Annað mál er að ýmislegt sem DO hefur komið fram með hefur reynst rétt. Að það var IMF sem ákvað stýrivaxtahækkun upp á 18% meðan Samfylkingin þóttist ekkert vita og benti á DO. Núna kemur það fram að Ingibjörg Sólrún var á fundum með DO margoft þar sem rædd eru mál bankanna og Björgvin viðskiptaráðherra þykist ekkert vita. Hvað er satt hér? og hvar eru nú þessir fjölmiðlar? Þeir brugðust þá og bregðast núna aftur?

Tek enn undir það sem Stormsker sagði "að skíturinn flýtur alltaf upp á yfirborðið".

Það væri ágætt að DO segði af sér frá SÍ og gæti komið fram með allar upplýsingar og sína hlið í málinu. Það er komið svo illa fyrir okkur að ég held ekki að það geri hlutina neitt verri fyrir okkur að sannleikurinn ósmínkaður komi fram. Hvað klikkaði? og hver klikkaði? Hver beri ábyrgð?

Gunn (IP-tala skráð) 18.11.2008 kl. 22:28

9 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sammála Þorgeir það hefði verið bilun að bjarga bönkunum , þeim var og er ekki viðbjargandi og ég er líka sammála góðri athugasemd frá Gunn nema að ég tel að fjölmiðlarnir hafi ekki verið sofandi heldur haft það hlutverk að halda almenningi í landinu sofandi gagnvart þessari stöðu sem uppi var, enda í eigu hagsmunaaðila. Seðlabankinn gerði það eina sem hægt var að gera en það var að halda uppi stýrivöxtum.  Forsætisráðherra og ríkisstjórnin átti að bregðast við til aðgerða en ég spyr mig hvað þeir hefðu svosem getað gert. Mér finnst það ekki borðleggjandi og er frekar ósátt við þessa neyðaraðgerð sem IMF beitir okkur. Fjármálaeftirlit hefur brugðist  og aðvaranir Seðlabankans komu allt of seint til að hægt væri að gera eitthvað í stöðunni.Ég held að skýring  sé að koma fram á margra ára illdeilum DO og Jóns Ásgeirs . kveðja Kolbrún.

Kolbrún Stefánsdóttir, 18.11.2008 kl. 22:49

10 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Gunn,

Skarpleg og vel skrifuð grein (athugasemd) hjá þér.

En,

"...að Davíð gæti komið fram með allar upplýsingar..."

Láttu þig dreyma...

Fyrr frýs í helvíti.

Þó hann hafi ymprað á því í ræðunni að hann vissi svona eitt og annað sem ekki væri á margra vitorði...ætli hann kæmi með nema það sem honum hentaði, sína hlið á málinu, auðvitað, eins og þú segir...og hana eingöngu.

Greta Björg Úlfsdóttir, 18.11.2008 kl. 22:50

11 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Kolbrún, skýringin er...?

Var ekki deila Davíðs og Jóns Ásgeirs hafin fyrir söluna á bönkunum?

Það er ljóst að forsetinn hefði betur brugðið sér af bæ með Dorrit sinni og setið brúðkaupsveislu danska krónprinsins hér um árið. Þá hefðu sumir og margir ekki komist upp með eins mikið gagnvart almenningi.

Greta Björg Úlfsdóttir, 18.11.2008 kl. 22:56

12 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Gunn, eins og þú veist hef ég skilgreint vandamálið með öðru en bara Davíð.  Bara til að vitna í sjálfan mig:

Ég held að það sé öllum ljóst að rekja má bankakreppunnar hér á landi til bæði innlendra og erlendar þátta.  Sumir af þessum erlendu þáttum voru atriði sem við réðum ekkert við, en annað er hægt að rekja til aðgerða eða aðgerðaleysis ríkisstjórnar, Seðlabanka, FME, bankanna og útrásarmanna.  Nú er ég ekki að pikka einhvern einn út og segja að meginsökin liggi hjá einum aðila umfram aðra og er alls ekki að persónugera mistökin í einstaklingum.  En atriði sem mér finnst hafa vegið þyngst eru eftirfarandi:

  1. Regluverk fjármálakerfisins á Íslandi
  2. Framkvæmd peningamálastefnu Seðlabanka Íslands
  3. Afmörkun og framkvæmd eftirlits FME með fjármálafyrirtækjum
  4. Framkvæmd áhættustjórnunar hjá íslenskum bönkum
  5. Framkvæmd áhættustjórnunar hjá erlendum bönkum
  6. Ótrúleg afglöp matsfyrirtækjanna við mat á fjármálavafningum með undirmálslánum - sem síðar kom lausafjárkreppunni af stað
  7. Of skammur aðlögunartími fyrir Basel II regluverk Bank of International Settlements (Alþjóðagreiðslubankinn, BIS) eða að bankar og matsfyrirtæki hófu undirbúning of seint
  8. Í senn bíræfni, bjartsýni og áræðni íslensku útrásarinnar.  Útrásarmenn tróðu líklegast of mörgum um tær á vegferð sinni og sköpuðu sér þannig óvinsældir og láðist að ávinna sér traust nema í þröngum hópi.

(Svo mætti líklegast bæta við takmarkalausri minnimáttarkennd þjóðarinnar sem gerir það að verkum að við þurfum alltaf að vera að sanna okkur.)

Mér finnst það sorglegt að enginn vill koma fram og segja hreint út:  "Ég gerði mistök með því að ... "  Af hverju hefur enginn gert nein mistök, þegar það er alveg á hreinu að menn gerðu mistök.  Það er enginn að ætlast til þess að einhver einn taki á sig öll mistökin.  Það er af og frá.

Annað.  Ég var spurður eftir öðrum leiðum af hverju það að leyfa Kaupþingi að gera upp í evru hefði breytt einhverju.  Eins og ég sé það, þá hefði það verið fyrsta skrefið í því að færa Kaupþing úr landi og því hugsanlega fjölgað lánalínum bankans.

Marinó G. Njálsson, 18.11.2008 kl. 22:58

13 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Kolbrún, ég neita að trúa því, að það hafi ekki verið hægt að bjarga íslenska bankakerfinu.  Það var kannski um seinan á einhverjum tímapunkti í sumar eða haust, en að fullyrða að staðan í febrúar hefði verið orðin of slæm til að bjarga því lýsir úrræðaleysi og uppgjöf.  Síðan má spyrja sig:  Af hverju er íslenska bankakerfinu lýst sem traustu í skýrslu Seðlabankans um fjármálalegan stöðuleika sem gefin var út í maí?  Ég neita að trúa því, að það sé ódýrari aðgerð að fara í gegnum það sem við erum að fara í gegnum núna, en að þiggja aðstoð frá IMF í sumar, eins og Seðlabankanum og ríkisstjórn var bent á af nágrannaþjóðum okkar.  Vinur er sá sem til vamms segir, en Seðlabanki og ríkisstjórn kusu að líta á það, að vinarþjóðir hefðu brugðist okkur.

Marinó G. Njálsson, 18.11.2008 kl. 23:05

14 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Framkoma Davíðs hefur litast af heilindum frá mínum sjónarhóli séð en í seinni tíð er ég líka farin að efast um andlega heilbrigði hans. Þessu er ekki slett hérna fram sem sleggjudómum heldur byggir þetta á orðum hans og framkomu að undanförnu. Davíð er og hefur alltaf verið hrokafullur en það sem ég hef heyrt og séð til hans í haust verður ekki bara skýrt með hroka.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 19.11.2008 kl. 01:02

15 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Úpps... Í fyrstu setninguna í athugasemdinni hér að ofan vantar EKKI Þar átti sem sagt að standa: Mér hefur aldrei fundist framkoma Davíðs litast af heilindum...

Rakel Sigurgeirsdóttir, 19.11.2008 kl. 01:15

16 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Rakel, þetta tala fleiri um.

Neró skýst upp í hugann. Og fleiri gallagripir.

Greta Björg Úlfsdóttir, 19.11.2008 kl. 01:57

17 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Greta: Þetta er auðvitað skelfilegt. Í mínum augum er það staðreynd að það er eitthvað mikið, mikið að en ég var farin að halda að þetta horfði bara svona við mér. Hins vegar treysti ég innsæi mínu í þessu efni nokkuð vel. Þess vegna leyfi ég mér að segja eftirfarandi, þó það komi illa út: Mér finnst gott að heyra að það taka fleiri eftir þessu. Það sem er skelfilegast í þessu öllu saman er staða hans í samfélaginu. Í því ljósi er þó eðlilegt að Neró o.fl. í hans flokki komi upp í hugann

Rakel Sigurgeirsdóttir, 19.11.2008 kl. 02:21

18 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Ath. sama athugasemd en með læsilegri uppsetningu.

1. - Ef fjölmiðlar flytja rangar fréttir geta hvorki stjórnmálamenn eða almenningur myndað sér skynsamlega skoðun.

Dæmi: fjölmiðlar sögðu okkur eftir bönkunum að þeir væru með trygga fjármögnun langt fram á næsta ár. Nú er ljóst að það var tóm della. Okkur var líka sagt að eignasafn bankanna væri traust. Fjölmiðlar sem éta upp svona bull eru verri en ekki neitt.

Annað dæmi: okkur var sagt að útrásarmenn hefðu efnast vel á viðskiptum sínum. Nú er komið í ljós að þetta var skammtímahagnaður byggður á glórulausri skuldsetningu sem gat engan vegin staðist til lengdar. Þar sem fjölmiðlarnir voru flestallir í eigu útrásarmanna var nánast ekkert fjallað um skuldsetningu tengda útrásinni. RÚV var síðan meðvirkt í bullinu.

2-3. - Man einhver eftir fjölmiðlaumfjöllun um orð Davíðs í fyrra? Nei að sjálfsögðu ekki vegna þess að það hefði ekki hentað eigendum þeirra.
Nú hefur reyndar verið rifjað upp að Guðmundur Ólafsson hagfræðingur, einn vinsælasti álitsgjafi í hópi hagfræðinga á Íslandi hæddist að Davíð fyrir óþarfa áhyggjur að mikilli skuldsetningu bankanna.

Öllum var ljóst að Seðlabankinn hefði enga burði til að bjarga bönkunum ef þeir lentu í vandræðum. Það hefði kostað Seðlabankann gríðarlegar og kostnaðarsamar lántökur að byggja upp slíkan gjaldeyrisforða. Ekki er víst að slík lán hefðu yfirleitt staðið til boða. Áttu skattgreiðendur að borga vexti af slíku láni?

Gagnrýna má stjórnvöld og Seðlabanka fyrir að hafa ekki gripið til ráðstafana fyrir 3-4 árum áður en misræmið milli stærðar bankanna og þjóðarframleiðslu varð algjört.

Víst er að margir bera ábyrgð á því hvernig komið er. Stjórnvöld, Fjármálaeftirlit og Seðlabanki en ekki síst fjölmiðlar sem voru miskunnarlaust notaðir til að þjóna hagsmunum eigenda.

Stærstu eigendur og stjórnendur bankanna bera að sjálfsögðu mesta ábyrgð vegna þess að þeir höfðu mest um það að segja hvernig hlutirnir gerðust.

Hannes Hólmsteinn o.fl. hafa nefnt það að ef stjórnvöld hefðu gripið í taumana fyrr til að reyna að stöðva ruglið hefðu fjölmiðlar í eigu auðmanna brugðist mjög hart við og jafnvel náð að fella ríkisstjórnina. Þetta kann að vera rétt sbr. reynsluna af fjölmiðlafrumvarpi Davíðs.

En málið er að við erum ekki að kjósa stjórnmálamenn til að sigla lygnan sjó. Við kjósum stjórnmálamenn til að taka slaginn ef þjóðarhagsmunir eru í húfi. Ekki stjórnmálamenn sem taka stundarhagsmuni framyfir. Þess vegna hafa núverandi stjórnvöld fallið á prófinu.

Eina leiðin til trúverðugleika fyrir þá stjórnmálaflokka sem hafa ráðið ferðinni undanfarin ár er að endurnýja forystuna. Framsóknarmenn virðast vera byrjaðir að átta sig á þessu.

Finnur Hrafn Jónsson, 19.11.2008 kl. 02:24

19 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Finnur, allir lánasamningar eru með ákvæðum sem gera lánveitanda kleift að rifta samningi, ef forsendur bresta.  Mjög oft er stuðst við lánshæfiseinkunn viðkomandi lántaka hjá matsfyrirtæki.  Fyrir þessu er ein einföld ástæða, en hún er að eiginfjárkrafa lánveitandans er reiknuð út frá gæðum lánasafnsins.  Lánshæfiseinkunnir bankanna og ríkissjóðs hafa verið að lækka til skiptis frá því í mars, þar til að þessar einkunnir fóru niður í BBB og þaðan af lægra um mánaðarmótin september-október.  Við það lokuðust lánalínur, þar sem skilyrði fyrir lánunum voru ekki lengur uppfyllt.  Annað sem gerðist var (skv. upplýsingum frá Glitni) að lánalína sem Glitnir hafði, lokaðist þar sem Seðlabankinn fékk lán hjá sama banka.  Þar með fylltist "Íslandskvóti" viðkomandi banka og Glitnir varð að greiða upp lánið.

Það er rétt að Seðlabankinn hafði enga burði í mars til að bjarga bönkunum.  Ástæðan er að hann svaf á verðinum.  Bankinn hafði nokkur úrræði.  Hann gat byggt upp gjaldeyrisvarasjóð á árunum á undan.  Það er tómt mál að tala um að byrja í mars.  Að Davíð skuli detta í hug, að það sé einhver afsökun fyrir Seðlabankann að bankinn hafi uppgötvað í febrúar að ekki væri hægt að bjarga bönkunum og því haldslaust að gera eitthvað.  Þetta er eins og ökumaður, sem finnur að það er of lítið loft í dekki, en ákveður að gera ekkert í málinu fyrr en dekkið er orðið ónýtt.  Þá kennir hann dekkinu um, að hann þurfi að henda þvi og kaupa nýtt.  Ef Seðlabankinn hefði gert ráðstafanir frá upphafi einkavæðingar bankanna og þó ekki væri nema frá þeim tíma þegar bankarnir hófu sína útrás, til að hemja vöxt bankanna með notkun bindiskyldu eða lausafjárkröfu eða ef bankinn hefði byggt upp gjaldeyrisvarasjóðinn, eins og fjölmargir hagfræðingar hafa bent á, þá hefði bankinn verið betur í stakk búinn til að koma bönkunum til bjargar.  Að koma fram og segja að staðan í febrúar hafi verið orðin Seðlabankanum ofviða er viðurkenning á því að Seðlabankinn hafi sofið á verðinum.  Að kenna síðan FME og ríkisstjórninni um, er lítilmannlegt.

Ég er alveg sammála þér, Finnur, að eina leiðin til að endurreisa trúverðugleika stjórnmálaflokkanna er að hreinsað sé til í forystusveitum þeirra og hugsanlega alla sem setið hafa á þingi undanfarinn áratug eða svo. Síðan þarf að breyta starfsháttum Alþingis, þannig að smíði frumvarpa sé almennt undir umsjón og eftirliti þess, en ekki stjórnvalda.  Þurfi stjórnvöld að koma frumvarpi í gegnum þingið, þá fari það fyrst í gegnum nokkurs konar laganefnd þingsins sem þurfi að kynna sér til hlítar innihald þess og áhrif.

Eitt að lokum.  Það er venja á sumum að hnýta í fjölmiðla og segja þá ganga hagsmuna eigenda sinna.  Ég spyr bara, ef Seðlabankinn, FME, ríkisstjórn og bankarnir sjálfir með alla sína sérfræðinga gátu ekki séð fyrir hvert stefndi fyrr en í óefni var komið, hvernig áttu fjölmiðlar með einstaklinga sem hafa litla þekkingu á málunum og takmarkaðan aðgang að hlutlausum sérfræðingum (hinir voru allir á mála hjá Seðlabanka, FME, ríkisstjórn eða bönkunum), að geta flett ofan af hinni miklu hættu?  Mér finnst trú manna á fjölmiðlum vera meiri en raunhæft er að ætlast til.

Marinó G. Njálsson, 19.11.2008 kl. 09:31

20 identicon

Það hefur verið svolítið bent aftur til fjölmiðlafrumvarpsins fræga hér í bloggheimum á síðustu vikum og margir hverjir séð það sem mistök að það skyldi ekki hafa farið í gegn. Ef ég man rétt (og ég gæti haft algerlega rangt fyrir mér) þá var það ekki bara frumvarpið sem frumvarp í sjálfu sér sem fólk var svo mikið á móti á þessum tíma heldur var það líka bara svolítið dropinn sem fyllti mælinn. Davíð og Halldór höfðu þarna tekið nokkrar mjög óvinsælar og umdeildar ákvarðanir sbr. Kárahnjúka, stuðning við innrásina í Írak (þó svo 87 % landsmanna hefðu verið á móti henni) og það að Halldór sem sat í einum af óvinsælustu flokkum landsins (með varla 10 % fylgi) ætti að fara að taka við sem forsætisráðherra út af einhverjum samningi milli hans og Davíðs. Þegar Davíð kom svo með þetta frumvarp þraut þolinmæði fólksins og viðbrögðin urðu hugsanlega (?) ýktari en eðlilegt hefði verið. Ég er hvorki að segja að þetta frumvarp hafi verið ömurlegt né frábært en það virtist bara líka hafa staðið fyrir svo miklu meiru en "bara" frumvarpi á þessum tíma.

Alda (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 20:44

21 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Greta thú spyrd eins og allt hafi byrjad vid bankasoluna en eg er ekki á thví. Bankasalan er bara einn gírinn (frígírinn:) )

Skýringin á eftir ad koma í ljós thegar Davíd kemur med nafnid á theim sem fékk 1000 m ad láni og tók thjódina í ra....

Davíd er sá eini sem thorir ad segja sannleikann en hann segir hann ekki allan og flestu er snúid í kokinu á honum samanber thjódstjórnarhugmyndina. kvedja Kolla

Kolbrún Stefánsdóttir, 22.11.2008 kl. 08:09

22 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Kolbrún, ég veit að ekki hófst allt við upphaf bankasölunnar, það var einmitt punkturinn í spurningu minni, þegar ég spurði hvort deilur Davíðs og Jóns Ásgeirs hefðu ekki hafist fyrir hana.

Greta Björg Úlfsdóttir, 22.11.2008 kl. 08:38

23 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Nú fyrirgefdu Gréta thad eru svo margir sem tala eins og thad hafi einmitt allt byrjad vid thad. Thá erum vid sammála  med thad ad minnsta kosti.

Kolbrún Stefánsdóttir, 22.11.2008 kl. 08:58

24 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Marino. Thér er óhaett ad trúa mér. Thad var allt of seint thá. Ég var í Florida í febrúar og tha var thad raett í fullri alvoru ad thetta myndi fara svona í byrjun okt (5) og ad vid aettum ad selja hlutabréfin okkar og taka sparifé út í evrum. Thetta var logmadur hja einum bankanna ad tala um thá sem stadreynd. Thví midur erum vid treg til ad trúa slaemum spádómum en hlaupum hratt á eftir hinum th.e. um gull og graena skóga. Thad er talad um thad hérna úti í Evropu af bankamonnum ad morg lond séu í somu sporum og Island en leyni thví hvad theyr hafi tapad miklu.

Annad Marinó vadandi fjolmidlana. Ég hef ekki mikla trú á theim en ég held ad their séu ekki svo fáfródir ad their gaetu ekki gert betur. Theim er bara sigad á ákvedna menn og sídan fréttin búin til. Thad má benda á hvernig látid var vid Ólaf F í Kastljósinu. Thá vildi fréttamadurinn bara fá ákvedid svar til ad geta fjallad um málid frá sinni hlid. Eins hvernig their hafa látid vid Geir H og ég tala nú ekki um fjármálarádherrann. Ég bakka ekki med thad ad fjolmidlar bera mjog mikla ábyrgd. Sá eini sem mér finnst vera ad standa sig thokkalega er Egill Helgason án thess ad ég sé sérstakur addándi hans. Mér finnst their margir sjálfhverfir og t.d. á stod 2 eins og madur sé á glugganum hja fjolskyldu med vinabod í gangi. Já forsetinn ber líklega ábyrgd á ad fjolmidlafrumvarpid for ekki í gegn og allir vita hvernig fjolmidlar keyrdu tha umraedu upp. kvedja Kolla

Kolbrún Stefánsdóttir, 22.11.2008 kl. 09:22

25 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Í fyrrahaust ræddi ég við bankakonu sem hafði mest traust á svissneskum franka eða japönsku yeni sem gjaldmiðli. Hún var ekki sérlega hrifin af evru. Ætli þetta passi ekki ennþá?

Greta Björg Úlfsdóttir, 22.11.2008 kl. 09:38

26 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Gréta sorry med skriftina en ég er í útlondum og tolvan eldri en ég en ég veit bara ekki hvad er best eins og stadan er núna, thví allt virdist vera ad falla samanber fréttir á CNN um hrun í USA ofl. ríkjum. kvedja og takk fyrir tjáskiptin Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 22.11.2008 kl. 09:49

27 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Já, það satt, þetta virðist allt vera við það að springa á limminu. Erfitt að sjá hvað muni taka við. Heimsendaspár virðast við það að rætast hvað varðar efnahagskerfi heimsins.

Þakka einnig samskiptin.

Greta Björg Úlfsdóttir, 22.11.2008 kl. 10:03

28 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Kolbrún, það var örugglega ekki of seint að gera eitthvað í febrúar, en staðan var greinilega orðin slæm þá og hún krafðist þess að tekið væri á henni af festu. SÍ bauðst t.d. risalán frá JP Morgan Chase.  Slíkt lán hefði örugglega hjálpað til við að rétta bönkunum hjálparhönd.  Það hefði t.d. örugglega leitt sjálfkrafa af sér hækkun lánshæfismats.

Hún er alhyglisverð sagan þín um lögmanninn, en segir þetta ekki bara okkur að bankarnir hefðu átt að kasta inn handklæðinu strax í mars.

En varðandi Seðlabankann.  Hafi upplýsingarnar sem SÍ fékk í febrúar um slæma stöðu bankanna, komið SÍ á óvart, þá þýðir það bara eitt.  SÍ og FME voru ekki að fylgjast nægilega vel með.  Mat þeirra á stöðu bankanna var rangt.

Marinó G. Njálsson, 22.11.2008 kl. 16:57

29 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Saell Marinó. Thad hefdi audvitad munad verulega um thad hefdi verid gripid til adgerda í febrúar, en ef ég man rétt thá fannst theim í SI alltof háir vextir á thví láni. Thad hefdi verid ásaettanlegt ef stadan í dag hefdi verid fyristjáanleg. Thessi fjársofnun (Icesave) sem fór í gang 2006 af Landsbankanum ( hugmynd Halldór K) sýnir ad thad var farid ad saekja á brattan thá thegar. SI átti líklega von á thví ad fá ad vera med thegar allir ( nema vid) voru ad endursemja um lánalínur vid Althjódabankann en thad vard ekki. Vid fengum hlutverk kanarifuglsins og eins og allir vita sem unnid hafa í kolanámum  thá er hann fyrstur til ad deyja ef súrefnid thrýtur og er advorun fyrir hina. 

Jú their áttu ad skila inn handklaedinu í sídasta lagi thá og thó SI og FME hafi verid adskilin ( í stjórnartíd Davíds) thá eru thetta mikid somu adilarnir sem eiga ad vinna á bádum stodum. FME hefur alveg brugdist.

Matid á bonkunum vard rangt thegar ekki var haegt ad endursemja um lánalínurnar. Thad áttu their allir ad sjá.

En their ( Eins og sumir ) neitudu ad thrúa odru en kraftaverk gerdist sem vard svo ekki..

Annad : Ég frétti af heljarmótmaelafundi í Reykjavík í dag..vonandi skilar hann einhverju til stjórnmálamanna ..kvedja frá Vín Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 22.11.2008 kl. 20:33

30 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Kolbrún, Landsbankinn fór út í Icesave vegna gagnrýni á fjármögnun bankans.  Hugmyndin að icesave var í flesta staði mjög góð og í anda þess sem þeim var ráðlagt af matsfyrirtækjunum.  Það eina sem Landsbankinn gerði rangt var að setja icesave ekki í sérstök dótturfélög, hvert í sínu landi.  Ef það hefði verið gert, hefði þetta vandamál ekki komið upp.  Það á eftir að koma í ljós hvort þessi mistök eigi eftir að kosta okkur skattborgara þessa lands háar upphæðir eða ekki.  Varðandi það að icesave hafi verið boðið í Hollandi í sumar án þess að stofna útibúi þar er ekkert annað en flónska miðað við það sem var á undangengið í Bretlandi.

Marinó G. Njálsson, 22.11.2008 kl. 21:13

31 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Fundurinn var góður til að byrja með.  Það kom fram á sjónarsviðið Katrín Oddsdóttir og hélt hún alveg magnaða ræðu.  Hún er búin að stimpla sig inn í þessa baráttu og örugglega eftir að sjást og heyrast oftar.  Ég sá á Silfrinu hjá Agli að einhverjir voru að væla út af henni og námsmenn eigi bara halda sig í háskólanum.  Ég býst við að það séu annað hvort samfylkingarmenn eða sjálfstæðismenn sem þoli ekki sannleikann.  Mér fannst hún frábær.

Marinó G. Njálsson, 22.11.2008 kl. 21:22

32 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Hvada gagnrýni ertu ad tala um? Thá vantadi fé til ad haldi úti háum voxtum, fengu ekki lánsfé og thetta var leidin til ad ná inn fjármagni til ad endurfjármagna sig. Halldór sagdi frá thessu í vidtali fyrir orstuttu. En erum vid ekki ad vidurkenna ad thetta sé okkar pakki med thví ad taka lánid hja IMF. Nú veit ég ad verid er ad kanna horfur á málshofdun á Bretana og vonandi gengur thad upp thví ég er alveg brjálud út thá. Icesave hugmyndin er arfavitlaus . Thad var einu sinni útibússtjóri úti á landi sem sagdi vid fólkid " ég bíd thér haerri ávoxtun en hinir bankarnir hvad sem their bjóda. Hann fór yfir útlánsvexti thví hinir budu hann upp og hann var audvitad rekinn. Hann var alveg viss um ad hann vaeri ad gera goda hluti med thví ad ná inn fé grey karlinn( audvitad var thetta karl )  Adferdafraedin í Hollandi er okkur bara til skammar ef satt er thad sem sagt hefur verid um thad mál. Thad átti audvitad ad stofna dótturfyrirtaeki fyrst en gródathorfin er svo sterk ad thad var ekki haegt ad bída. kvedja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 22.11.2008 kl. 21:42

33 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Kolbrún, þú hlítur að hafa fylgst með umræðunni undanfarin ár.  Íslensku bankarnir voru gagnrýndir fyrir að treysta of mikið á lánsfé, en of lítið á innlán.  Íslenski markaðurinn bar ekki meiri innlán, þannig að lausnin var að leita út fyrir landsteinana.  Hugmyndin að icesave var brilliant, það var útfærslan sem reyndist gölluð.  Þeir hefðu sloppið með þetta, ef ekki hefði komið til þess að bankinn fór í þrot.  En við skulum hafa í huga að enn sem komið er bendir allt til þess að Landsbankinn eigi eignir til að greiða icesave skuldina.  Þar til annað kemur í ljós skulum við reikna með því.

Varðandi lánið frá IMF og öllum hinum, þá vitum við ekki hvað þarf að nota mikið af þessu.  Þá munum við nota peningana, þegar gengi krónunnar er lágt og greiða það til baka þegar gengið hefur styrkst.  Hugsanlega mun Seðlabankinn geta fengið myndarlegan gengishagnað út úr þessu.  USD 5 milljarðar eru 715 milljarðar í dag, en gætu verið undir 500 milljörðum, þegar lánin verða greidd.  Auðvitað gæti þetta farið í hina áttina líka, en það er ólíklegt.

Marinó G. Njálsson, 22.11.2008 kl. 22:15

34 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Já Marinó thad hlýt eg ad hafa gert. Ég kannast ekki vid ad thad hafi vantad innlánsfé í amk. Landsbankann thar sem ég vann í 25 ár. Ég hélt ad thú vaerir ad tala um eitthvad sérstakt tilfelli og kannast ekki vid gagnrýni á thá fyrir lántokur adrar en innlán. Thad voru hinsvegar innlán eins og krónubréf og Joklabréf sem their voru gangrýndir fyrir. Thegar ég haetti í Lansanum var hann fullur af innlánsfé og ad taka yfir fasteignalánamarkadinn og borgadi med sér til ad ná í thaer skuldir. Sbr vidtal vid Sigurjón bankastjóra í sjónvarpi.Thetta breyttist  ekki fyrr en  á thessu ári med innanlandsmarkadinn.  Vid starfsfólkid vorum á hlaupum á eftir fólki til ad taka lán og thá fannst mér vera komid gott. Nei, thá vantadi bara ad hafa staerri hring ad snúa til ad hirda mismuninn og greada meira. Allt gert til ad halda uppi genginu á hlutabréfunum ekki satt. kvedja Kolla.

Audvitad var thad brilljant ef thad hefdi gengid upp. Thad vita allir ad innlánsfé er ódýrara en útlánsfé og thetta var sannkollud útrás sem endadi sem hrydjuverkaárás.   Já vid skulum nú vera snidug í restina. Lánid mitt hefur haekkad úr 1500 -í 2 ,2 m aetli ég borgi thad ekki bara seinna thegar góda vedrid kemur  kvedja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 22.11.2008 kl. 22:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 21
  • Sl. sólarhring: 122
  • Sl. viku: 584
  • Frá upphafi: 1677601

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 52
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband