Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2012
26.2.2012 | 23:20
Námskeið um áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu
Betri ákvörðun, ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar, mun halda námskeið um áhættustjórnun þriðjudaginn 6. mars og stjórnun rekstrarsamfellu miðvikudaginn 7. maí. Markmið námskeiðanna er að kynna aðferðafræði við áhættumat og samspil áhættumats og stjórnunar rekstrarsamfellu. Hægt er að sækja annað námskeiðið eða bæði. Að hámarki eru 15 sæti í boði á hvoru námskeiði.
Tekið skal fram að ekki er fjallað um áhættustjórnun fjárstýringa.
Dagskrá námskeiðanna verður sem hér segir:
Áhættustjórnun
Þriðjudagur 6. mars
Kl. 08.45 - 09.00 Skráning
Kl. 09.00 - 09.55 Kynning. Inngangur.
Kl. 09.55 - 10.10 Kaffihlé
Kl. 10.10 - 11.50 Áhættumat og áhættustjórnun - aðferðir, staðlar, hugmyndafræði fyrri hluti
Kl. 11.50 - 12.40 Hádegismatur
Kl. 12.40 - 13.30 Áhættumat og áhættustjórnun - aðferðir, staðlar, hugmyndafræði seinni hluti
Kl. 13.30 - 14.40 Framkvæmd áhættumats - aðferðir, leiðbeiningar, form, skjalamát
Kl. 14.40 - 15.00 Kaffihlé
Kl. 15.00 - 15.30 Verkefni: Áhættumat
Kl. 15.30 - 16.40 Kynning á niðurstöðu verkefna og umræður
Kl. 16.40 Námskeiði lokið
Stjórnun rekstrarsamfellu
Miðvikudagur 7. mars
Kl. 08.45 - 09.00 Skráning
Kl. 09.00 - 09.55 Stjórnun rekstrarsamfellu - markmið, tilgangur
Kl. 09.55 - 10.10 Kaffihlé
Kl. 10.10 - 10.50 Stjórnun rekstrarsamfellu - aðferðir, staðlar, hugmyndafræði
Kl. 10.50 - 11.50 Áhrifagreining - aðferðir, leiðbeiningar, form, skjalamát
Kl. 11.50 - 12.40 Hádegismatur
Kl. 12.40 - 13.30 Stutt verkefni unnið saman
Kl. 13.30 - 14.40 Neyðarstjórnun - neyðarhandbók
Kl. 14.40 - 15.00 Kaffihlé
Kl. 15.00 - 15.40 Viðbragðsáætlun - endurreisnaráætlun
Kl. 15.40 - 16.40 Viðbragðsáætlun útbúin
Kl. 16.40 Námskeiði lokið
Meðal þeirra staðla og aðferða sem stuðst er við á námskeiðinu má nefna ISO 27001, ISO 27002, ISO 27005, BS 25999, BS 31100 og CobiT (Control Objectives for Information and Related Technology).
Leiðbeinandi á námskeiðinu er Marinó G. Njálsson, CISA, CRISC, sérfræðingur í stjórnun upplýsingaöryggis, M Sc og Engineer Degree Operations Research, Stanford University.
Verð fyrir hvort námskeið er kr. 40.000, en ef bæði eru sótt, þá kostar þau kr. 70.000. Innifalið er námskeiðsgögn, léttar veitingar og hádegisverður. Veittur er 10% afsláttur ef tveir eða fleiri koma frá sama aðila.
Skráning á námskeiðið er hafin og fer hún fram með því að senda tölvupóst á oryggi@internet.is. Þar eru einnig veittar nánari upplýsingar, ef óskað er.
Námskeiðið verður haldið miðsvæðis á Reykjavíkursvæðinu og verður staðsetning auglýst síðar.
Áhættustjórnun | Breytt 6.12.2013 kl. 00:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2012 | 23:17
Hæstiréttur: Eingöngu má leiðrétta rangan lagaskilning til framtíðar
Mikið er ég orðinn þreyttur á þeim óheiðarleika sem skín í gegn hjá fjármálafyrirtækjunum og þeim lögfræðingum sem fengnir hafa verið til að fjalla um dóm Hæstaréttar fyrir þeirra hönd. Fjölmiðlar hafa einhverra hluta vegna ákveðið að hoppa á vagninn og gera túlkun fjármálafyrirtækjanna hátt undir höfði en hunsa málflutning hinna sem leita ekki upp rök fyrir fjármálafyrirtækin.
Í þessum pistli langar mig til að greina þau atriði sem mér finnst mestu máli skipta í dómsorðum Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 frá 15. febrúar sl.
Úr hverju ætlaði Hæstiréttur að leysa?
Gott er að byrja að skilja hvers Hæstiréttur spyr sig í málinu. Rétturinn hefur inngang að spurningu sinni, en segir svo:
Samkvæmt framansögðu verður að taka afstöðu til þess hvort sóknaraðilar teljist í ljósi atvika málsins hafa fengið réttmæta ástæðu til að ætla að ekki gæti komið til frekari vaxtakröfu varnaraðila síðar.
Já, Hæstiréttur veltir því fyrir sér hvort Sigurður og Elvira hafi getað gert ráð fyrir frekari vaxtarkröfu síðar eftir að hafa greitt allar sínar gjalddagagreiðslur í samræmi við heimsendar tilkynningar Frjálsa fjárfestingabankans. Höfum í huga að þetta er spurningin og henni var svarað.
Niðurstaða Hæstaréttar
Gera verður skýran greinarmun á niðurstöðu Hæstaréttar og síðan rökleiðslu réttarins. Rökleiðsla er leið réttarins að niðurstöðu, en hvorki niðurstaða né er hægt að draga víðtækar ályktanir á rökleiðslunni.
Niðurstaða réttarins er tvíþætt. Sú fyrri er víðtæk:
Er því fallist á með sóknaraðilum, að sá rangi lagaskilningur sem samkvæmt framansögðu lá til grundvallar lögskiptum aðila í upphafi og þar til dómur Hæstaréttar gekk 14. febrúar 2011 verði í uppgjöri aðila einungis leiðréttur til framtíðar. (Leturbreyting MGN)
Hinn rangi lagaskilningur er sá sem greitt var úr í máli nr. 604/2010 frá 14. febrúar 2011, þ.e. hvort gengistryggingarákvæði lánssamninganna væri gilt eða ekki og síðan ef það reyndist ekki gilt hvort vaxtaákvæði samningsins stæði. Niðurstaðan í máli nr. 604/2010 var að gengistryggingarákvæðið væri brot á 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 og að "um [vextina] skyldi farið eftir 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001". Þetta er hinn rangi lagaskilningur sem Hæstiréttur segir núna að "verði í uppgjöri aðila einungis leiðréttur til framtíðar".
Ekkert bendir til þess að þessi niðurstaða sé á nokkurn hátt takmörkuð í gildi sínu. Hæstiréttur segir að ekki verið hægt að leiðrétta vexti lánsins afturvirkt heldur einungis til framtíðar frá þeim degi þegar hinn rangi lagaskilningur hafði verið leiðréttur, þ.e. 14. febrúar 2011. Þessi rangi lagaskilningur var ekki bara leiðréttur með dómi nr. 604/2010 vegna þess láns sem þar var deilt um heldur allra lána sem voru með gengistryggingu.
Síðari niðurstaða Hæstaréttar er sértæk:
Af því leiðir að varnaraðili getur ekki krafið sóknaraðila um viðbótargreiðslur vegna þegar greiddra vaxta aftur í tímann, en á því var yfirlýsing hans um skuldajöfnuð byggð.
Ágreiningurinn sneri líka um hvort Frjálsi gæti notað málskostnað sem fyrirtækið var dæmt til að greiða í máli nr. 604/2010 til að skuldajafna gegn vangreiddum vöxtum. Þar sem einungis má leiðrétta rangan lagaskilning til framtíðar, þá var ekki neina slíka vangreidda vexti að ræða.
Rökleiðsla Hæstaréttar
Því miður hafa birst lögfræðiálit sem hunsa algjörlega ofangreindar niðurstöður, eins og þær komi málinu ekki við. Í staðinn hafa álitin (og umsagnirnar) elt uppi atriði í rökleiðslu réttarins og stillt þeim upp sem niðurstöðum.
Mér finnst það hálf neyðarlegt að lesa slíkt frá jafnvel hæstaréttarlögmönnum. En hver eru þessi atriði sem Hæstiréttur nefnir:
Meginregla kröfuréttar: "Að fullnaðarkvittun kröfuhafa geti að vissum skilyrðum fullnægðum valdið því að hann glati frekari kröfu."
Út frá þessu kemst dómurinn að því að "[í] þessu máli verður lagt til grundvallar að greiðslutilkynningar, sem varnaraðili sendi um væntanlega gjalddaga lánsins með útreikningum á fjárhæðinni sem greiða skyldi og síðan fyrirvaralaus móttaka hans á greiðslum í samræmi við tilkynningarnar, hafi jafngilt fullnaðarkvittun um greiðslu á því sem gjaldféll hverju sinni."
Dómafordæmi: Dómur Hæstaréttar 10. september 1998, bls. 2735 í dómasafni réttarins það ár. "[S]kuldari hafi við móttöku kvittunar fengið í hendur yfirlýsingu kröfuhafa um að greiðslu væri lokið."
Öryggi í viðskiptum: Hæstiréttur telur að dómafordæmið að ofan snúist um öryggi í viðskiptum, þ.e. að það geti "haft í för með sér mikla röskun á fjárhagslegum hagsmunum skuldara, sem um lengri tíma hefur hagað sér í samræmi við tilmæli kröfuhafa, ef kröfuréttarsambandið er tekið upp hvað fortíðina varðar og honum í framhaldinu gert að standa kröfuhafa skil á umtalsverðum viðbótargreiðslum fyrir liðna tíð, þvert á væntingar sínar um hið gagnstæða."
Hæstiréttur veltir því næst fyrir sér hvort ofangreind þrjú atriði geti átt við. (Og enn erum við í rökleiðslu réttarins, en ekki niðurstöðu.) Hann skiptir rökleiðslunni í þrennt:
1. Báðir aðilar gengu út frá því að útreikningar Frjálsa á fjáhæð afborgana og vaxta tæki mið af því að ákvæði skuldabréfsins um gengistryggingu höfuðstólsins væru gild. Sóknaraðilar (Sigurður og Elvira) voru því "í góðri trú um lögmæti þeirrar skuldbindingar sem þau höfðu gengist undir gagnvart varnaraðilanum [(Frjálsa)] og þar með í góðri trú um að fyrrnefndar greiðslur þeirra fælu í sér fullar og réttar efndir af þeirra hálfu." Tökum eftir að Hæstiréttur greinir á milli góðrar trúar um skuldbindinguna sem þau gangast undir og góðrar trúar um fullar efndir með greiðslunni. "Misskilningur aðila í þessum efnum, sem byggði á röngum lagaskilningi og staðfestur var með áðurgreindum dómi Hæstaréttar 14. febrúar 2011, var sóknaraðila því að öllu leyti afsakanlegur."
2. Samningurinn er til langs tíma og viðbótarkröfur um vexti fyrir liðna tíð er umtalsverð þegar litið er til upphaflegrar samningsfjárhæðar.
3. Varnaraðili, þ.e. Frjálsi, er fjármálafyrirtæki sem bauð viðskiptavinum sínum lán með ólögmætri gengistryggingu og einhliða ákvörðuðum, stöðluðum skilmálum.
Af rökleiðslu dregur Hæstiréttur eftirfarandi ályktun:
Þegar öll framangreind atriði eru virt heildstætt og það lagt til grundvallar sem áður greinir, að greiðslutilkynningar varnaraðila og fyrirvaralaus móttaka hans á greiðslum í samræmi við þær tilkynningar hafi jafngilt fullnaðarkvittunum, þykir það standa varnaraðila nær en sóknaraðilum að bera þann vaxtamun sem af hinni ólögmætu gengistryggingu hlaust og um er deilt í málinu.
Í framhaldi af þessum texta kemur síðan niðurstaðan sem ég vísa til að ofan, þ.e.
Er því fallist á með sóknaraðilum, að sá rangi lagaskilningur sem samkvæmt framansögðu lá til grundvallar lögskiptum aðila í upphafi og þar til dómur Hæstaréttar gekk 14. febrúar 2011 verði í uppgjöri aðila einungis leiðréttur til framtíðar.
Lög nr. 151/2010
Vissulega má færa fyrir því rök að umfjöllun Hæstaréttar um lög nr. 151/2010 sé ein af lykilniðurstöðum málsins. Þau lög komu fyrir í málflutningi málsaðila, en voru ekki hluti af kröfugerð. Hæstiréttur tekur þó á sig krók og hnýtir í Alþingi með eftirfarandi orðum:
Með almennum lögum er ekki unnt, með svo íþyngjandi hætti sem á reynir í málinu, að hrófla með afturvirkum hætti við réttarreglum um efni skuldbindinga og greiðslur skulda frá því sem gilti þegar til þeirra var stofnað og af þeim greitt. Færi slíkt í bága við þá vernd eignarréttinda sem leiðir af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Af þessum sökum fá nefnd lög ekki haggað þeirri niðurstöðu sem komist er að í kafla IV hér að framan.
Þeim ákvæðum laganna, þar sem vísað er til afturvirks útreiknings vaxta er því hafnað og teljast þau ákvæði því ekki gild lengur.
Lánamál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.2.2012 | 21:50
Erindið um vaxtadóma Hæstaréttar í Grasrótarmiðstöðinni
Í dag hélt ég erindi um vaxtadóma Hæstaréttar í Grasrótarmiðstöðinni. Fjölmiðlar sýndu þessu engan áhuga og er það furðulegt.
Meginniðurstöður mínar eru:
- Dómur nr. 471/2010, fyrsti vaxtadómur Hæstaréttar, stenst enga skoðun.
- Málið: Rétturinn var blekktur á margan hátt til að komast að þeirri niðurstöðu sem hann komst. Höfum í huga að Lýsing valdi málið, Lýsing ákvað að málið væri gott fordæmi, Lýsing valdi verjandann, færa má rök fyrir því að Lýsing hafi valið dómarann í héraðsdómi og Lýsing ákvað dómskröfur. Málið hafði nákvæmlega EKKERT fordæmisgildi fyrir yfir 95% allra gengistryggðra lánasamninga.
- Dómskröfur: Þær voru mjög ófullkomnar og þeim beinlínis ætlað að leiða Hæstarétt að þeirri niðurstöðu sem hann komst að. Gríðarlegt gap er á milli síðustu þrautavarakröfu Lýsingar og kröfu varnaraðila. Nú er t.d. búið að koma í ljós að þetta gap var í andstöðu við kröfurétt. Eftir er að fá úr því skorið hvort það sé einnig í andstöðu við neytendarétt.
- Rökstuðningur Hæstaréttar: Hvernig komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að 3. og 4. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 ættu að gilda um þetta mál? Það er mér gjörsamlega ómögulegt að skilja. Höfum í huga að þessar greinar eru í II. kafla laganna og efni hans er frávíkjanlegt ásamt efni IV. kafla. Um þessa tvo kafla segir í 2. gr.: "Ákvæði II. og IV. kafla laga þessara gilda því aðeins að ekki leiði annað af samningum, venju eða lögum. Einnig verður vikið frá öðrum ákvæðum laganna að því marki sem þar er kveðið á um. Þó er ávallt heimilt að víkja frá ákvæðum laganna til hagsbóta fyrir skuldara." Já, 3. og 4. gr. vaxtalaga gilda því aðeins að ekki leiði annað af samningum, venju eða lögum. Samt ákvað Hæstiréttur að láta innihald ófrávíkjanlegrar greinar laganna, þ.e. 2. gr., víkja fyrir innihaldi greinar sem skýrt er sagt til um að séu ekki bara frávíkjanlegar, heldur eru sett mjög ströng skilyrði um hvenær megi nota, þ.e. 3. og 4. gr. Dómur Hæstaréttar er því beinlínis rangur út frá lögunum, þar sem samningarnir eru til staðar, þ.e. lánssamningarnir, venjurnar eru til staðar, þ.e. kröfuréttur, og lögin eru til staðar, þ.e. nr. 7/1936 "samningalög" og nr. 121/1994 um neytendalán.
- Hæstiréttur átti að vísa málinu frá eða að minnsta kosti draga fram atriði er varða neytendavernd sem ekki voru höfð uppi: Samkvæmt niðurstöðu Evrópudómstólsins í málum C-240/98 til C-244/98, almennt vísað til sem Océano, kemst dómstóllinn að því að brotinn hafi verið réttur á neytandanum, þegar málið var sótt í Barcelona en ekki þar sem varnarþing neytandans var. Þessi niðurstaða kemur einnig fram í máli C-473/00 Cofidis. (Varnarþing lántakans í máli nr. 471/2010 var á Akureyri.) Í máli Océano segir Evrópudómstóllinn auk þess í 26. mgr. úrskurðarins (fengið úr BS ritgerð Aðalsteins Sigurðssonar) "að markmiði 6. gr. tilskipunar 93/13, að tryggja að óréttmætir skilmálar í neytendasamningum séu ekki bindandi fyrir neytendur, verði ekki náð ef neytandinn sjálfur er gerður ábyrgur fyrir því að vekja athygli dómstóls á óréttmæti samningsákvæða" og síðan segir Aðalsteinn: "Það sé því tilhlýðileg aðferð til að ná markmiðum 6. gr. tilskipunarinnar og 7. gr. hennar að dómstólar meti að eigin frumkvæði réttmæti skilmála neytendasamningum. (28. mgr. úrskurðarins) Siðan má velta fyrir sér áhrifum Luganosamningsins og fordæmisgildi úrskurða Evrópudómstólsins hér á landi. (Ég fjallaði ekki um innihaldi þessa liðar í erindinu í dag.)
- Dómur nr. 600/2011 frá 15. febrúar 2012 kveður úr um "að sá rangi lagaskilningur sem samkvæmt framansögðu lá til grundvallar lögskiptum aðila í upphafi og þar til dómur Hæstaréttar gekk 14. febrúar 2011 verði í uppgjöri aðila einungis leiðréttur til framtíðar." Er hægt að hafa þetta skýrar? Eingöngu má leiðrétta rangan lagaskilning til framtíðar. Þetta er að mínu mati niðurstaða Hæstaréttar. Allt tal um fullnaðarkvittanir, greiðslur, gjalddagatilkynningar, að lántaki sé í skilum og allt það, er hluti af rökleiðslu dómsins, en niðurstaðan er að eingöngu má leiðrétta rangan lagaskilning til framtíðar. Vakti ég athygli á því að hvorki LEX lögmannsstofa né Sigurjón Högnason (sem hélt erindi hjá KPMG í gær, vísað til umfjöllunar á mbl.is) vöktu athygli á þessu atriði, en eyddu löngu máli í rökleiðslu Hæstaréttar.
Erindið var með spurningum nærri því tvær og hálf klukkustund. Spunnust oft góðar umræður og vona ég að allir hafi skemmt sér vel.
Glærurnar sem ég notaði í dag hanga við þessa færslu.
Lánamál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
24.2.2012 | 21:52
Mjök erum tregt tungu at hræra
- Mjök erum tregt
- tungu at hræra
- eða loptvætt
- ljóðpundara;
- esa nú vænligt
- of Viðurs þýfi
- né hógdrægt
- ór hugar fylgsni.
Svo hefur Egill Skallagrímsson Sonatorrek sitt. Ekki þarf ég líkt og Egill að syrgja syni mína, en mjög er mér samt tregt tungu að hræra og orð mín eru ekki hógdræg úr hugarfylgsni.
Í gærdag skrifaði kona athugasemd inn á færslu hjá mér. Hún kallar sig Hönnu. Vil ég vekja athygli á skrifum hennar vegna þess að þetta er enn ein sendingin sem ég mér berst, þar sem fólk sér ekki aðra leið út úr vandræðum sínum en að taka líf sitt.
Hanna setti inn tvær athugsemdir. Sú fyrri hljómar svona:
Blessaður
ég er 60 ára fráskilin með 4 uppkomin börn og keypti mér íbúð við skilnaðinn 2005, sem ég átti tæp 50% í. Greiðslur á mánuði áttu að vera um 40 þúsund krónur. Lánið var tekið hjá spron með föstum 4,15% vöxtum í 40 ár. Upphæðin var 10 milljónir. Í dag þarf ég að borga rétt rúmlega 80 þúsund og lánið er komið í 18 milljónir. Ég missti vinnuna 2010 og nú get ég bara ekki meir. Drómi leyfði mér að frysta lánið í heilt ár en afborganir hafa nú lagst á mig að fullum þunga.
Ég sé fram á að eina atvinnan sem ég fæ sökum aldurs er væntanlega skúringar eða sjoppuvinna. Launin fyrir það munu aldrei duga fyrir öllum nauðsynlegum útgöldum, hvað þá að reka bíl eða fara í frí. Nú nenni ég ekki meiru. Búin að vinna alla mína hundstíð og algerlega fyrirsjánlegt að tíminn sem ég á ólifað fer í peningaáhyggjur og skrimmt. Ég þarf nauðsynlega að komast til tannlæknis en kostnaðarmat hans er um 800 þúsund. Aldrei skal ég leggjast uppá börnin mín enda hafa þau sko meir en nóg með sitt.
Enda kannski fer best á því í þessu "jafnaðar þjóðfélagi" hennar Jóhönnu að maður klári þetta bara sjálfur frekar en að fara í biðröð á elliheimili eða líknadeild þegar þar að kemur.
Og síðari færslan er:
Ég þakka hughreystingarorð en hvað von hef ég er mér spurn? Lottovinning? held ekki. Allt sem ég hef nurlað saman á langri æfi hefur verið tekið af mér og satt best að segja má ég bara þakka fyrir að þurfa ekki á heilbrigðiskerfinu að halda. Tennurnar missi ég eflaust og eftir að hafa verið í þokkaleg vel launuðum störfum allt mitt líf og aldrei skuldað neinum neitt er ég bara búin að fá nóg. Ég skulda ekki bíl, yfirdrátt, vísa eða neitt. Fallast hreinlega hendur við ellinni og sé ekki fram á neitt gleðilegt. Auðvitað á ég yndisleg börn og barnabörn en sé bara fram á að verða baggi á þeim og ég veit nú þegar hafa þau áhyggjur af mér. Ég hef akkúrat ekki ráð á neinu. Ég hef stolt og mér finnst það bara hreinlega alveg óbærileg hugsun að geta ekki tekið þátt í lífun vegna fátæktar. Ég er nú þegar einangruð vegna féleysis og skammar yfir að vera atvinnulaus svona lengi.
Nú þarf ég bara að safna kjarki til að ganga þannig frá málum að það valdi sem minnstri sorg meðal minna nánustu og að það sé borin virðing fyrir ákvörðun minni.
Fyrirgefðu mér, Hanna, ég sá ekki skrifin þín fyrr en lögreglan hringdi í mig í morgun. Já, þeir góðu menn hjá Lögreglu höfðuborgarsvæðisins hringdu í mig til að fá upplýsingar um þig. Eftir að hafa lesið færsluna, sem ég vegna annríkis hafði ekki lesið, þá gaf ég þeim þær upplýsingar sem ég hafði. Ég gerði það vegna þess að þeir báðu um það. Ég vona að þeir hafi fundið þig og taktu þeim sem verndarenglum. Það er a.m.k. einhver sem vakir yfir þér.
Í allan dag er ég búinn að vera að velta fyrir mér hvernig ég ætti að bregðast við þessu. Skrif mín hafa ekki verið hógdræg úr hugarfylgsni. Ég sendi þér fyrst kveðju í morgun og vona ég að þú hafir séð hana. Ef ekki þá birti ég hana til vonar og vara:
Hanna, ég er búinn að vera á kafi og sá ekki færsluna fyrr en vakinn var athygli mín á henni.
Ég hvet þig til að leita aðstoðar fagfólks. Hringdu í Rauðkross línuna og talaðu við fólk þar. Talaðu við börnin þín og barnabörn. Fagnaðu því fallega í lífinu og reyndu að gleyma því slæma. Stígðu frekar fram og fjallaðu um mál þitt svo hægt sé að nota þína reynslu til að bæta kerfið. Svo hægt sé að minnsta kosti fækka þeim sem eru í þínum sporum. Skömmin er ekki þín. Mundu það. Skömmin er kerfisins sem kom þér í þessa stöðu.
Safnaðu kjarki til að tala um mál þitt við alla í kringum þig, til að vinna þig út úr stöðunni. Börnin þín og barnabörn munu lifa við það um aldur og ævi að hafa ekki getað hjálpað mömmu og ömmu. Ekki missa trúna á að þau geti það. Aldrei missa trúna á hið góða í manninum. Mundu að ekki þarf nema eina eldspýtu til að lýsa upp myrkrið í kringum þig og meðan eldspýtan logar hefur myrkrið engin ráð. Notaðu eldspýtuna til að kveikja á kerti og fyrsta kertið til að kveikja á öðru og því þriðja og fjórða o.s.frv.
Fyrst og fremst mundu að skömmin er ekki þín.
--
Ég veit ekki hvað þær eru orðnar margar svona sendingarnar sem ég hef fengið. Fyrsta barst í febrúar 2009. Sú kona er enn á lífi, en baráttan við bankann sinn hefur hún háð þindarlaust þessi þrjú ár. Er þetta eitthvað líf? Eru peningar fjármálafyrirtækjum svo mikils virði, að þau gleyma að viðskiptavinirnir eru af holdi og blóði.
Nú skora ég á Dróma (þar sem Hanna segist í viðskiptum við fyrirtækið) að fara í gegn um bækur sínar og finna hana Hönnu sem tók lán hjá SPRON árið 2005 og koma til móts við hana. Aldrei ætla ég að voga mér að segja fjármálafyrirtækin bera ábyrgð þegar fólk tekur líf sitt, en þau eru hluti af því umhverfi sem margt örvæntingarfullt fólk er í. Ekki bara það, viðbrögð fjármálafyrirtækjanna eykur oft á örvæntingu fólks.
Til allra fjármálafyrirtækja: Sýnið manngæsku, sýnið skilning, sýnið auðmýkt! Þið munið hagnast á þessu þegar fram líða stundir.
Af allri þeirri auðmýkt sem ég á og virðingu.
Marinó G. Njálsson
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
24.2.2012 | 14:11
Dæmigerð útsölulokahækkun vísitölu
Sú hækkun vísitöluneysluverðs er dæmigerð útsölulokahækkun. Á síðasta ári varð hækkunin 1,2% og 1,15% árið áður. Nokkrar fleiri slíkar mælingar má finna, en hafa verður í huga að áður endurspeglaði verðbólga í mars þá verðbreytingu sem núna mælist í febrúar. Helgast það af því að mæling vísitölunnar var færð til. Í staðinn fyrir að vera á fáeinum dögum í byrjun mánaðar, þá er hún núna framkvæmd á lengri tíma um miðjan mánuð. Verður þetta til þess að útsölulok jólaútsalna koma inn í febrúarvísitölumælinguna núna, en kom inn í mælinguna í mars áður. Á sama hátt mælist upphaf jólaútsalna í janúar, en ekki febrúar eins og áður.
Spurningin er hver þróunin verður. Ef sama munstur helst, þá má búast við allt að helmingi minni hækkun milli febrúar og mars og aftur helmingun milli mars og apríl. Þrátt fyrir það mun verðbólgan vera í 5,3% í lok apríl og haldast vel yfir 4% fram á mitt sumar en taki þá að lækka rólega eftir það, þ.e. komi ekkert óvænt upp á. Lengra ná ekki pælingar mínar, sem byggja eingöngu að samanburði við fortíðina.
Verðbólgan 6,3% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Efnahagsmál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.2.2012 | 15:08
Fordæmisgildi Hæstaréttardóms víðtækt
Mbl.is birtir frétt um fund sem KPMG hélt um nýgenginn Hæstaréttar dóm um vexti áður gengisbundinna lána. Vitað er í erindi Sigurjóns Högnasonar, lögfræðings. Ekki kann ég nein deili á Sigurjóni önnur en þau, að samkvæmt fundargerð efnahags- og viðskiptanefndar frá 9. desember 2011, þá mætir hann fyrir nefndina og er sagður fulltrúi Samtaka fjármálafyrirtækja. Hvort hann vinni enn fyrir SFF eða sé kominn eitthvað annað veit ég ekki.
Fyrirsögn fréttar mbl.is er "Óvíst um fordæmisgildi". Miðhluti fréttarinnar er um greiningu Sigurjóns á dómnum, en ráða má af fyrirsögninni og því sem kemur á undan miðkaflanum að það sem þar segir gefi tilefni til að efast um fordæmisgildi dómsins. Þessu er ég algjörlega ósammála og þessu sé frekar öfugt snúið. Orð Sigurjóns bendi einmitt til víðtæks og sterks fordæmisgildi dómsins.
En skoðum hvað haft er eftir Sigurjóni, athugasemdir mínar og að hvaða niðurstöðu ég kemst.
Sigurjón:
Í þessu tilviki hafi verið um að ræða að ákveðinn aðstöðumunur hafi verið á fjármálafyrirtækinu og skuldaranum.
Þetta atriði á við um ALLA neytendur sem taka lán hjá fjármálafyrirtæki og ítrekað hefur komið fram í dómum, m.a. Hæstaréttar, að gagnvart fyrirtækjum væri slíkur aðstöðumunur viðurkenndum.
Niðurstaða: Aðstöðumunur leiðir til víðtæks fordæmis.
Sigurjón:
Skuldbinding skuldara hafi verið til langs tíma, þ.e. 30 ára og skuldararnir hafi í langan tíma, 5 ár, greitt til samræmis við tilmæli kröfuhafans.
Nú eru um fjögur ár frá því að síðustu gengistryggðu lánin voru veitt neytendum. Stór hluti lántaka hafði greitt af lánum sínum í álíka langan tíma og Elvira og Sigurður, sumir jafnvel lengur. Á Íslandi teljast lán til innan við 2 ára almennt vera skammtímalán, en séu þau til lengri tíma eru þau langtímalán. Þetta má m.a. sjá í efnahagsreikningum fyrirtækja.
Niðurstaða: Þetta atriði rýrir á engan hátt fordæmisgildi dómsins.
Sigurjón:
Skuldararnir hafi greitt í góðri trú, talið um fullnaðargreiðslur að ræða og haft réttmætar væntingar um að þeir yrðu ekki krafðir um frekari greiðslur.
Ég veit ekki um neinn sem ekki greiddi í þeirri góðu trú að ekki yrði um frekari greiðslu að ræða efir að hafa greitt það sem fjármálafyrirtækið rukkaði.
Niðurstaða: Þetta atriði styrkir fordæmisgildi dómsins.
Sigurjón:
Endurreikningur vaxta, til samræmis við seðlabankavexti hafi falið í sér umtalsverða viðbótargreiðslu eða um 6,5 milljónir af 19,2 milljóna króna höfuðstól láns.
Aftur veit ég ekki um neinn sem ekki er að lenda í þessu. Mínir útreikningar sýna að eingöngu hvað snýr að heimilunum hafi vaxtabyrði lánanna frá lántökudegi til þess er dómur gekk hækkað úr á bilinu 147 - 207 ma.kr. í 496 ma.kr. og vextirnir því í mörgum tilfellum orðnir hærri en höfuðstóll lánanna.
Niðurstaða: Þetta atriði styrkir fordæmisgildi dómsins.
Sigurjón:
Auk þess hafi komið fram að tekið var tillit til röskunar á fjárhagslegum hagsmunum skuldara.
Ég held ég megi segja að allir sem tóku gengistryggð lán hafi orðið fyrir röskun á fjárhagslegum hagsmunum.
Niðurstaða: Þetta atriði styrkir fordæmisgildi dómsins.
Sigurjón:
Það geti vakið upp spurningar um hvaða áhrif það hefur á þá einstaklinga sem hafa mjög sterka fjárhagslega stöðu.
Hér ruglar lögmaðurinn saman röskun á fjárhagslegum hagsmunum og getu viðkomandi til að mæta þeirri röskun. Þyrstur maður getur átt næga peninga til að kaupa vatn, en það breytir því ekki að hann er þyrstur. Hann gæti meira að segja átt átöppunarverksmiðju fyrir vatn, en það breytir þorsta hans ekkert.
Niðurstaða: Þetta atriði rýrir á engan hátt fordæmisgildi dómsins.
Nú veit ég ekkert hvort Sigurjón Högnason talaði eitthvað um að ofangreind atriði skapi óvissu umfordæmisgildi dómsins. Kannski er það bara túlkun blaðamanns eða hver það var sem skráði frétt mbl.is.
Tekið skal fram að önnur atriði sem vísað er til, m.a. um skattaleg efni, skipta ekki máli þegar kemur að því að meta fordæmisgildi dóms Hæstaréttar í máli nr. 600/2011.
Óvíst um fordæmisgildi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lánamál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Sú sótt sem lagst hefur á okkur Íslendinga er farin að dreifa sér víða. Hjá okkur kom hluti höggsins strax vegna gengistryggingarinnar. Fólkið með verðtryggðu lánin eru farin að finna fyrir hitanum og þar mun bara hitna undir pottinum.
Grikkir og Spánverjar eru líka farnir að taka sóttina ógurlegu, þar sem illa rekið fjármálakerfi ber enga ábyrgð. Nei, það er almúginn sem tekur skellinn. Spánverjar eru greinilega að átta sig á því að við svo verður ekki búið. 90 þúsund fjölskyldur hafa verið bornar út á rétt innan við tveimur árum. Það samsvarar 450 íslenskum! Ég veit ekki hver talan er hér á landi. Kannski er hún hærri og kannski er hún lægri. Þar á að innleiða lyklafrumvarpið, en hér heykjast menn endalaust við það.
Hættum að finna fyrir meðaumkun með fjármálafyrirtækjum sem ekki kunnu fótum sínum fjörráð. Tökum manngildi ofar auðgildum. Án viðskiptavina verða engin fjármálafyrirtæki.
Ég tilheyri stórum hópi fólks sem hefur í hátt í fjögur ár barist fyrir réttindum venjulegra fjölskyldna. Til að byrja með vorum við kölluð óráðsíufólk og enn þann dag í dag koma fram siðapostular sem kalla okkar fjárglæfrafólk. Margir þeirra átta sig ekki á því að sóttin sem herjað hefur á stóran hluta landsmanna getur náð til allra áður en yfir lýkur, ef ekki er ráðist gegn henni. Ávinningurinn er mun meiri en kostnaðurinn þegar til lengri tíma er litið. Kostnaður núna verður alltaf minni en kostnaðurinn í framtíðinni, ef sóttin fær að gerjast.
Stemmum stigum við henni áður en hún verður orðin svo skæð að við hana verður ekki ráðið. Hún er þegar búin að leggja fólk, fjölskyldur og fyrirtæki að velli. Þeir veikustu féllu fyrst. Og með hverju fórnarlambi vex henni ásmegin, þannig að fleiri sogast í fang hennar þaðan sem fáir losna. Hvert sem litið er, sér maður fólk, fjölskyldur og fyrirtæki sem eru helsjúk vegna þess að fjármálastarfsemi þarf eingöngu að taka ábyrgð að því marki sem það hentar fjármálafyrirtækjunum. Skilja þau ekki að þau eru þegar smituð af sóttinni og haldi þau sínu striki verður önnur kollsteypa. Sú næsta, Guð forði okkur frá henni, verður helmingi verri en sú síðasta.
Reynt að forða útburði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Skuldamál heimilanna | Breytt 6.12.2013 kl. 00:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.2.2012 | 00:57
Vaxtadómar og Árna Páls-lög - hluti 2 - Bláeygur Hæstiréttur?
Óhætt er að segja að Hæstiréttur hafi hrist vel upp í þjóðfélaginu sl. miðvikudag. Í mínum huga kom niðurstaðan ekki á óvart og var gjörsamlega fyrirséð út frá kröfurétti og neytendarétti. Ég verð þó að segja að ég er ekki sáttur við allan rökstuðning réttarins, frekar en ég var sáttur við rökstuðning hans í september 2010, rökstuðning FME og Seðlabanka Íslands í júní 2010 og efnahags- og viðskiptaráðuneytisins þegar Árna Páls-lögin voru til umfjöllunar hjá efnahags- og viðskiptanefnd í nóvember og desember 2010.
Ég veit eiginlega ekki hvar á að byrja þessa umræðu, því ruglið sem hefur viðgengist er svo mikið. Eða á ég að segja rökleysan. Skoðum nokkra punkta:
- Að tengsl gengistryggingar og vaxta sé slíkt að gengistrygging sé forsenda vaxtanna
- Að nota mál 471/2010 sem fordæmi fyrir húsnæðislánamál og bara yfir höfuð lán sem tekin voru áður en lánið í máli 471/2010 var tekið
- Að efnahags- og viðskiptaráðuneytið hafi haldið uppi vörnum fyrir fjármálafyrirtækin í meðferð frumvarps Árna Páls
- Að fordæmi dómanna á miðvikudaginn sé takmarkað
- Að Árni Páll hafi verið að verja hagsmuni lántaka með lögum nr. 151/2010
Í nokkrum færslum ætla ég á næstu dögum að fjalla um þessi atriði. Raunar má segja að ég hafi byrjað þessa uppfjöllun með færslunni um Leiðbeiningar FME/SÍ og Árna Páls lög hækkuðu vexti um allt að 357 ma.kr. á lánum heimilanna, þar sem ég bendi á hvernig lög nr. 151/2010 færðu stórar fjárhæðir frá almenningi til fjármálafyrirtækja. Í þessari mun ég skoða meint tjón fjármálafyrirtækja vegna dómanna 16. júní 2010 og hvernig Hæstiréttur var blekktur til að halda að "tjón" Lýsingar væri dæmigert fyrir aðra.
Hæstiréttur látið blekkjast aftur og aftur
Byrjum á þessu með tengsl gengistryggingar og vaxta. Þar hefur Hæstiréttur látið blekkjast. Svo einfalt er það. Þær eru nokkrar gildrurnar sem Hæstiréttur fellur í og leiðir hann af leið í rökleiðingu sinni. Þær sem mér finnst skipta mestu máli eru:
- Að fjármálafyrirtækin séu að fjármagna sig á sama hátt núna og áður
- Að öll fjármálafyrirtækin væru að fjármagna sig eins
- Að fjármálafyrirtæki hafi yfirhöfuð verið að fjármagna sig eins og þau sögðust hafa gert
- Að fjármögnun fjármálafyrirtækjanna komi neytendum við
- Að bæta þurfi fjármálafyrirtækjum upp tjón á ákveðnum tímabilum með því að endurreikna allan tímann
- Að lánþegum hefðu ekki staðið til boða önnur hagstæð lán, ef gengistryggð lán hefðu ekki staðið til boða
- Að lánið sem dæmt var um í september 2010 hafi verið dæmigert fyrir svona lán
- Rétturinn áttaði sig ekki á því að um handvalið lán var að ræða
Gott er að skoða fimm fyrstu atriðin saman.
Grunnvillur í rökleiðslu Hæstaréttar
Stærstu villurnar, grunnvillurnar, í rökleiðslu Hæstaréttar eru tvær:
A. Að öll fjármálafyrirtæki þurfi að fjármagna sig með lántöku í hvert sinn sem þau veita nýtt lán.
Almennt er talað um að hafi fjármálafyrirtæki 1.000 kr. til aflögu í útlán, þá geti það lánað úr 10.000 kr. eða því sem næst. Þetta er vegna áhrifa hins svo kallaða peningamargfaldara sem byggir á því að um leið og lán er veitt er það lagt inn á reikning viðkomandi í sama banka. Peningur fer út sem útlán og inn sem innlán. En þetta er snúnara þegar kemur að gengistryggðu lánunum.
Vel getur verið að Landsbanki Íslands (svo dæmi sé tekið) hafi á einhverjum tíma fengið 1 m. japanskra jena lánuð og síðan veitt lán upp á 1 m. JPY. Málið er að í lang flestum tilfellum fékk lántakinn aldrei jenin í hendur heldur íslenskar krónum. Jenin fóru aldrei út úr bankanum og raunar er miklu meira en hugsanlegt, að þau hafi aldrei verið til í bankanum. Landsbanki Íslands gat því lánað þessi jen, eða voru það svissneskir frankar, evru eða bandarískir dalir, margoft án þess að eiga þau nokkru sinni til meðan lántakinn vildi ekki fá myntina í hendur. Það sem meira er, að í hvert sinn sem Landsbanki Íslands stóð í þessu sýndargjaldeyrisviðskiptum, þá tók hann þóknun fyrir.
Fjármögnunarkostnaður bankans fólst ekki í því hvað hann greiddi fyrir jenin heldur hvað hann greiddi fyrir krónurnar sem hann í raun og veru afhenti. Sumar af þessum krónum greiddi hann fyrir dýru verði, en aðrar fjármagnaði hann með ódýrum innlánum.
B. Að LIBOR-vextirnir séu stóra viðmiðið í málinu.
Mikilvægt er að skilja hvað fjármálafyrirtækið greiddi fyrir peningana sem runnu út til lántaka, hvort og þá hvernig það breyttist með breyttu gengi. Fyrst skulum við átta okkur á því, að fjármálafyrirtækið ákvað að nóg væri fyrir það að fá tiltekið vaxtaálag ofan á þá vexti sem það fjármagnaði sig á. Þetta vissu bæði lántakar og lánveitendur. Að breyta þessari forsendu, eins og Hæstiréttur gerir ítrekað í dómum sínum, er grunnurinn af þeim ógöngum sem Hæstiréttur hefur í reynd komið sér í. LIBOR vextir voru ekki stóra viðmiðið, heldur vaxtamunurinn sem fyrirtækin voru að sækjast eftir. Skýrasta dæmið um þetta er að minnst tvö fjármálafyrirtæki notuðu ekki einu sinni LIBOR viðmiðun í sínum vöxtum. Nei, stóra viðmiðið var álag ofan á þá vexti sem fjármálafyrirtækin sjálf sögðust greiða. Ég segi "sögðust greiða" þar sem fátt bendir til þess að þau hafi fjármagnað sig í reynd með því að taka lán í erlendum gjaldmiðlum.
Í máli nr. 471/2010 var því haldið fram að fjármálafyrirtækið fjármagnaði sig á ákveðinn hátt. Ef reikningar þess fyrirtækis eru skoðaðir og starfsheimildir, þá kemur ekkert fram sem bendir til, hvað þá sannar, að þessi háttur hafi verið hafður á. Flest bendir til þess, að það hafi fjármagnað sig á innlendum markaði, m.a. í gegn um eigendur sína, en einnig önnur fjármálafyrirtæki.
Gott og vel. Göngum samt út frá því að það hefði fjármagnað sig eins og það bar við. Þá var það fyrir 1.3.2008 að greiða af lánum sínum á sama gengi og lántaki greiddi af lánum sínum til fyrirtækisins. Eini munurinn var að vextir lánanna voru ekki þeir sömu, þ.e. fyrirtækið fjármagnaði sig á millibankamarkaði á LIBOR-vöxtum með álagi sem var lægra en það álag sem lántaki greiddi. Fyrirtækið varð því fyrir óverulegum, ef nokkrum, "forsendubresti" fram til þess dags, þó svo að gengistryggingin væri tekin úr sambandi. Fjármögnun fyrirtækisins breyttist ekkert eftir 1.3.2008 og hefur raunar verið sú sama allan tímann. En þetta átti BARA við um Lýsingu. Ekkert annað fjármálafyrirtæki er í þessum sömu sporum og þar liggur hundurinn grafinn.
Hafa skal í huga að lánið í máli nr. 471/2010 var tekið í nóvember 2007 og nánast var sama hvernig tölur í því máli voru skoðaðar og þar með dómskröfur, lántaki kom alltaf betur út en ef gengistryggingin og samningsvextir voru látnir halda sér. Ástæðan er einföld:
Lánið var handvalið til að draga fram þá niðurstöðu sem fékkst.
Um það verður fjallað betur síðar.
Fjármögnun og "tjón" annarra fjármálafyrirtækja en Lýsingar
Til að sýna fram á hversu lélegt fordæmi málið var og þar með rökstuðningur Hæstaréttar í þeim dómum sem á eftir fylgdu og með Árna Páls-lögunum, þá er nauðsynlegt að skoða hvernig stærsti hluti gengistryggðra lána var fjármagnaður frá upphafi lánstíma til dagsins í dag.
Best er að skýra þetta út með því að skipta tímabilinu í þrennt, þ.e. frá lántökudegi til 1.1.2008, frá 1.1.2008 til falls fjármálafyrirtækis og loks eftir fall fjármálafyrirtækis. (Hafa skal í huga að ekki féllu öll fjármálafyrirtæki í október 2008. SPRON samsteypan féll í mars 2009.)
Frá lántökudegi til 1.1.2008
Fyrst er rétt að taka fram, að gengið er út frá því að fjármálafyrirtækin hafi í raun og veru fjármagnað sig með erlendum lánum (þó ég hafi séð mörg rök fyrir að svo hafi ekki verið og í besta falli hafi sami gjaldeyririnn verið láta velta oft í gegn, lánveitingu eftir lánveitingu). Frá lántökudegi til 1.1.2008 greiddu allir af lánum sínum á sama hátt, þ.e. á gengi dagsins að viðbættum vöxtum. Vextir fjármálafyrirtækjanna voru eitthvað lægri en útlánsvextirnir. Með því að afnema gengistrygginguna, þá detta allar gengissveiflur út úr útreikningunum hjá lántökum, en fjármálafyrirtækin halda áfram að vera með gengissveiflur. Hvort fjármálafyrirtækið tapar eða hagnast á því veltur á tvennu: A. Sveiflum á gengi frá lántökudegi til 1.1.2008 og hvernig það hefur áhrif á greiðslur lántaka; B. Hvenær og á hvaða gengi fjármálafyrirtækið greiðir lánadrottni sínum.
Samkvæmt hagtölum Seðlabanka Íslands var staða gengistryggðra skulda við fjármálakerfið 165,8 ma.kr. í lok árs 2007. Til að reyna að átta mig á því hver talan væri, ef lánin hefðu verið í íslenskum krónum, þá sýnist mér að sú tala hefði verið 166,4 ma.kr. Sem sagt nánast sama tala. Þetta segir okkur að engu hefði skipt fyrir fjármálafyrirtækin hvort lánin voru í gengistryggð eða ekki upp á höfuðstólsstöðu í árslok 2007. En þá eru það vextirnir. Ég sló líka á þá. Niðurstaðan var að vextir af gengistryggðum höfuðstóli voru 39,3 ma.kr. frá 1.1.2004 til 31.12.2007, en ef sömu vextir hefðu verið á höfuðstóli í íslenskum krónum þá hefðu vextir orðið 40,1 ma.kr.! Fjármálafyrirtækin höfðu ekki orðið fyrir neinu tjóni, raunar hagnast, ef samningsvextir hefðu gilt á íslenskan höfuðstól fram til 31.12.2007.
Vissulega hefur þetta mismunandi áhrif á mismunandi lán og þannig gæti eitt lán komið út í plús meðan annað verður í mínus.
Frá 1.1.2008 fram að falli fjármálafyrirtækja
Ekki fer á milli mála að á tímabilinu frá 1.1.2008 fram að falli fjármálafyrirtækjanna er afnám gengistryggingarinnar lántaka í hag, þ.e. upphæð höfuðstóls, afborgana og vaxta lækkar ef gengisþátturinn er tekinn út. En hvort fjármálafyrirtækin verði fyrir fjárútlátum vegna þessa veltur allt á því hvernig það fjármagnar sig og greiðir af sínum lánum. Sé það að greiða jafnóðum af lánum sínum, þá endurgreiddi það greinilega háar upphæðir umfram það sem lántaki greiðir miðað við að lánið sé ekki gengistryggt. Málið er að fjármálafyrirtæki fjármagna sig almennt ekki að þau greiði sín lán niður sem mánaðarlegum afborgunum. Þau fjármagna sig með kúlulánum, þ.e. einn gjalddagi eftir svo og svo marga mánuði eða ár. Vaxtagreiðslur er aftur mismunandi eftir lánum, þ.e. stundum eru vextir greiddir reglulega á lánstímanum, en í öðrum tilfellum um leið og lánið er gert upp. Það eru því verulegar líkur á því, að fjármálafyrirtækin hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni í formi meiri fjárútláta en það sem kom í kassann við afnám gengisbindingar lánanna. Hafi slíkt ekki verið í gangi, þá er tap þess óverulegt.
Hvernig kemst ég að því að tapið hafi verið óverulegt? Eins og áður segir var staða gengistryggðra höfuðstóla lána og höfuðstólsins án gengistryggingar nánast sú sama í ársbyrjun 2008, þ.e. um 165 ma.kr. Miðað við að um 20 ára lán (að jafnaði) hafi verið að ræða, þá telst mér til að afborganir fyrstu 9 mánuðum ársins hafi verið annars vegar 8,4 ma.kr. og hins vegar 7,1 ma.kr., lægri talan íslenskur höfuðstóll. Vextirnir sem fjármálafyrirtækin greiddu af heildarlánsfjárhæðinni voru aftur (miðað við 1% álag umfram LIBOR) 20,6 ma.kr. Vaxtatekjur af lánunum námu hins vegar 28,6 ma.kr. ef miðað er við íslenskan höfuðstól, en 34,1 ma.kr. miðað við gengistryggðan. "Tjónið" byggist því á því hvort vaxtamunurinn hafi verið 8 ma.kr. eða 13,5 ma.kr. og þessum 1,3 ma.kr. sem fjármálafyrirtækin hefðu fengið til viðbótar í afborganir.
Tíminn frá falli
Nú er nauðsynlegt að greina á milli nýrra fjármálafyrirtæka og þeirra sem eru í slitameðferð.
Lýsing er eiginlega alveg kapítuli út af fyrir sig. Fyrirtækið er eyland í þeim skilningi að það er ekki banki eða í eigu banka. Útlán þess eru því mun tengdari upprunalegri fjármögnun lánanna og hver króna sem fyrirtækið nær ekki að innheimta kemur beint við greiðsluhæfi þess. Þess vegna var niðurstaða í máli nr. 471/2010 á margan hátt rökrétt niðurstaða, en samt ekki. Rökréttasta niðurstaðan hefði verið, ef ein af kröfum aðila (mér er sama hvor það var, þar sem málið var handvalið og því gjörsamlega ótækt sem prófmál) hefði verið að vísa til 2. gr. laga nr. 38/2001, þar sem segir:
Þó er ávallt heimilt að víkja frá ákvæðum laganna til hagsbóta fyrir skuldara.
Með því að nýta þetta ákvæði, þá hefði verið hægt að fara millileið, þannig að Lýsing hefði fengið þá vexti sem fyrirtækið þurfti án þess að setja snöru um hálsinn á öllum lántökum.
Þá eru það fyrirtækim í slitameðferð, þ.e. þau sem hrundu í október 2008. Tjón þeirra er augljóslega mikið, en um það var samið við kröfuhafa. Tjónið felst í því að veita nýju bönkunum afslætti sem kröfuhafar tóku á sig. Sem sagt tjónið var afskrifað hjá hrunbönkunum og þó svo að kröfuhafar þeirra hafi gert sér vonir um að fá eitthvað af þessu til baka, þá var það aldrei fast í hendi.
Hæstiréttur hefur ekkert með það að gera hvort og þá hvaða vexti slík fyrirtæki eiga að bera, þar sem þau greiða ekkert meira til kröfuhafa en þau hafa efni á. Auk þess hafi allar slitastjórnir hrunbankanna gefið nýju bönkunum ríkulegan afslátt af gengisbundnum lánum við flutning þeirra til nýja bankanna. Í mínum huga eru því slitastjórnir hrunbankanna og hrunbankarnir sjálfir ekki að taka á sig neitt tjón vegna ólögmætis gengisbindingarinnar umfram það sem þessir aðilar hafa sjálfir samþykkt. Aftur á móti eru kröfuhafar þeirra að taka á högg, en það er ekki íslenska réttarkerfisins að rétta þeirra hlut óumbeðið.
Undantekning á fyrirtækjum í slitameðferð er vissulega SPRON-samsteypan. Vandinn þar er að samkvæmt gjaldþrotalögum þá ber slitastjórn að hámarka eigur fyrirtækjanna, þ.e. fyrirtækin eiga að greiða kröfuhöfum sínum eins mikið og hægt er. Hæstiréttur afgreiddi þetta snyrtilega í dómnum á miðvikudaginn. Nýir vextir gilda frá dómsuppkvaðningu í máli nr. 604/2011 eða eins og Hæstiréttur segir:
Er því fallist á með sóknaraðilum, að sá rangi lagaskilningur sem samkvæmt framansögðu lá til grundvallar lögskiptum aðila i upphafi og þar til dómur Hæstaréttar gekk 14. febrúar 2011 verið í uppgjöri aðila einungis leiðréttur til framtíðar.
Niðurstaðan er eins hrein og skýr og hægt er. SPRON/FF/Drómi mega ekki gengistryggja lán né innheimta nýja vexti fyrr en eftir dómsuppkvaðningu 14. febrúar 2011. Dagsetningin er ekki þegar dómar 92/2010 og 153/2010 gengu, þegar dómur 471/2010 gekk eða við gildistöku laga nr. 151/2010. Nei, það er þegar dómur Hæstaréttar gekk í máli nr. 604/2010. Verður SPRON/FF/Drómi fyrir tjóni við þetta? Nei, tjónið lendir alfarið á kröfuhöfum. Eins og áður segir voru þeir ekki aðilar að dómsmálunum og því ekki í verkahring Hæstaréttar að taka tillit til hugsanlegra krafna sem þeir gera á SPRON/FF/Dróma. Kjánalegast í þessu máli er, að aðalkröfuhafi FF er SPRON og aðalkröfuhafi SPRON mun vera Seðlabanki Íslands (án þess að ég hafi það staðfest).
Þá eru það nýju bankarnir. Hvaða tjóni verða þeir fyrir við það að samningsvextir gildi á ógengistryggðum höfuðstóli áður gengistryggðra lána? Ég ætla ekki að fullyrða að tap þeirra sé ekkert. En að það hlaupi á einhverju háum tölum er gjörsamlega út í hött. Allt veltur á því hvort afslátturinn sem þeir fengu á áður gengistryggðum lánasöfnum sé meiri eða minni munurinn á höfuðstóli án gengisbreytinga og bókfærðu yfirfærsluviðriði lánanna. Sé bókfærða virðið lægra, þá verður ekkert tap, en sé það hærra, þá nemur tapið mismuninum. Aftur megum við ekki rugla saman tapi vegna yfirfærslunnar og að bankarnir fari á mis við hagnað í framtíðinni. Það er málinu óviðkomandi!
Þá er næst að spyrja hvort þeir verði fyrir tjóni vegna þess að samningsvextir gildi áfram. Svarið við því er stórt NEI. Raunar eru miklar líkur á því að vaxtamunur þeirra aukist miða við það sem hrunbankarnir voru að sækjast eftir.
Af hverju gerist það? Hæstiréttur rökstyður það að samningsvextir geti ekki gilt eftir að gengistryggingar ákvæði hafi verið numið úr gildi með því að "slík vaxtakjör af láninu gátu ekki komið til álita nema í tengslum við gengistryggingu þess". Hafa verður í huga, að ekki notuðu öll fjármálafyrirtæki tengingu við LIBOR vexti. Þannig var Kaupþing með eigin vexti, SP-fjármögnun með gengiseiningar og einhverjar fleiri útfærslur voru á þessu. Eins og ég hefur áður bent á voru þessi rök líklegast góð og gild gagnvart Lýsingu, en ekki öðrum.
Hvers vegna eru bankarnir ekki að fá minni vaxtamun? Ástæðan er hvernig nýju bankarnir fjármagna sig. Þeir gera það nefnilega á annan veg en hrunbankarnir gerðu. Nýju bankarnir fjármagna sig að stóru leiti með innlánum og það á mjög lágum vöxtum, alveg niður í 0,5% óverðtryggða vexti. Þannig að þegar Hæstiréttur lét plata sig í að tengja vexti lánanna við lægstu vexti Seðlabanka Íslands samkvæmt 10. gr. laga nr. 38/2001, þá var hann að gefa nýju bönkunum viðbótarvaxtamun upp á ríflega 13%! Tekið aftur fram að þetta var ekki gert í máli nr. 471/2010, heldur í þeim málum, þar sem Hæstiréttur leit svo á að dómur nr. 471/2010 væri fordæmisgefandi.
Hvert var þá "tjónið" af ógildingu gengistryggingarinnar?
Þegar allt kemur til alls, þá lendir "tjónið" af ógildingu gengistryggingarinnar miðað við að greiddir vextir gildi í öllum tilfellum nema einu á kröfuhöfum hinna föllnu fjármálafyrirtækja. Sama hefði orðið ef samningsvextir á íslenskan höfuðstól hefðu gilt. Eina undantekningin er Lýsing, sem þar sem lægri tekjur raska greiðsluhæfi fyrirtækisins. Lýsing er bert að baki í þeim skilningi að það hefur ekkert fallið fjármálafyrirtæki að baki sér. Gagnvart öðrum fyrirtækjum með starfsleyfi sem fjármálafyrirtæki, þá lýsir "tjónið" sér fyrst og fremst í glötuðu tækifæri til hagnaðar frá hruni til þess dags, þegar nýir vextir koma á lánin. Hvenær það gerist virðist óyggjandi, þar sem dómur Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 segir ákaflega skýrt og greinilega að kröfuhafi skuli bera byrðarnar af misskilningi aðila frá lántökudegi, þar til dómur gekk í máli nr. 604/2010 þann 14. febrúar 2011. Ég get ekki túlkað þau orð Hæstaréttar á annan hátt, en að það eigi við um öll lán sem ennþá var greitt af á þeim tíma þegar dómurinn gekk. Þá get ég ekki séð, að það skipti máli hvort lánin hafi verið í skilum eða ekki, þar sem útsendar tilkynningar fólu í sér upplýsingar um skuldbindingu sem gildir fyrir þann gjalddaga sem átti í hlut.Gæti lækkað lán fólks verulega | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lánamál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.2.2012 | 15:18
Líkleg staða lánþegar áður gengistryggðra lána eftir dóma Hæstaréttar
Margir hafa spurt mig hver sé staða sín eftir hinu fjölmörgu dóma Hæstaréttar um áður gengistryggð lán. Hér fyrir neðan er farið yfir grófar niðurstöður helstu dóma, hvað þeir þýða og loks sýnd einföld dæmi.
Tímamótadómar
Hér eru fyrst tímamótadómar sem gengið hafa:
- Í dómum nr. 92/2010 og 153/2010 voru niðurstöður Hæstaréttar sem hér segir:
- Leigusamningar eru lánasamningar
- Gengistrygging er ólögleg verðtrygging
- Lánið er í íslenskum krónum
- Engu öðru er breytt
- Í dómi nr. 471/2010 kemst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að lægstu vextir Seðlabanka Íslands skuli koma í staðsamningsvaxta
- Í dómum nr. 603/2010 og 604/2010 segir Hæstiréttur að fyrri dómar gildi einnig um húsnæðislán.
- Í dómum nr. 30/2011 og 31/2011 er staðfest að framangreindir 5 dómar eigi við um lán fyrirtækja.
- Í dómi nr. 155/2011, Mótormax-dómnum, er endanlega staðfest að fyrstu 5 dómarnir eigi líka við fyrirtæki.
- Í dómi 282/2011, Kraftvélar, er endanlega staðfest að leigusamningar fyrirtækja eru lánasamningar og fyrstu 2 dómarnir að ofan séu fordæmisgefandi.
- Í dómi nr. 600/2011 kveður Hæstiréttur úr um að greiddir vextir verði ekki hækkaðir og framvirk áhrif geti ekki orðið nema frá 14. febrúar 2011, þegar dómur gekk í máli nr. 604/2011.
Nauðsynlegt er síðan að taka lög nr. 151/2010 líka inn í þetta, þar sem þau taka til fleiri samninga en Hæstiréttur kveður á um, þ.e. bætt er inn í 2. gr. (bráðabirgðaákvæði X) lánasamningum sem voru sannanlega í erlendri mynt en falla undir ákvæði um vaxtabætur (þ.e. 68. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003). Einnig tilgreina lög nr. 151/2010 að allar vanskilagreiðslur, dráttavextirog kostnaður skuli teljast greiðslur inn á lán.
Hvað þýðir þetta?
Mér sýnist þetta segja eftirfarandi:
- Þeir eignaleigusamningar sem voru með ákvæði um að leigutaki eignaðist eða gæti eignast hinn leigðamun fyrir málamyndaverð, voru í reynd lánasamningar.
- Allir samningar, hvort heldur þeir sem kallaðir voru leigusamningar eða hreinir lánasamningar, sem voru með bindingu við dagsgengi erlendra gjaldmiðla og aðrir lánasamningar í erlendri mynt sem falla undir 68. gr. laga nr. 90/2003, skulu vera með höfuðstól í íslenskum krónum frá lántökudegi, afborganir miðaðar við íslenskan höfuðstól og eftirstöðvar tilgreindar í íslenskum krónum.
- Samningarnir skulu taka lægstu vexti Seðlabanka Íslands, skv. 10. gr. laga nr. 38/2001, frá lántökudegi (ákvæði sem er nánast ógilt í næstu töluliðum).
- Vaxtagreiðslur sem þegar hafa átt sér stað í samræmi við tilkynningar frá kröfuhafa skulu standa óhaggaðar og ekki verður krafist hærri vaxta.
- Nýir vextir taka eingöngu gildi framvirkt. Varðandi bílalán er ekki ljóst frá hvaða dagsetningu, en fyrir flest lán ætti það að vera frá því dómur gekk í málum nr. 603/2010 og 604/2010. Það gæti þó hafa gerst síðar.
- Allt sem lánþegi hefur greitt utan vaxta telst greiðsla inn á höfuðstól. Vextir sem bæst hafa á höfuðstól teljast greiddir vextir, en haldast þó á höfuðstólnum.
Áhrif á lán
Hér fyrir neðan eru nokkur tilbúin dæmi.
Dæmi 1
Lán upp á kr. 10 m er tekið árið 2005 og greitt hefur verið af því samviskusamlega allan tímann. Heildargreiðslur til dagsins í dag eru 6,5 m.kr. sem skiptast í vaxtagreiðslu samkvæmt samningsvöxtum upp á 2,5 m.kr., vaxtagreiðslu skv. seðlabankavöxtum upp á 0,5 m.kr. og aðrar greiðslur upp á 3,5 m.kr. Eftirstöðvar lánsins eru því 10 - 3,5 = 6,5 m.kr.
Dæmi 2
Sama lán, nema að lánið var sett í frystingu í heilt ár og vöxtum bætt á höfuðstól. Heildargreiðslur eru 6,0 m.kr. Vaxtagreiðslur skv. samningsvöxtum eru 2,2 m.kr., vextir sem bætast á höfuðstól eru 0,3 m.kr., vaxtagreiðslur skv. seðlabankavöxtum eru 0,5 m.kr. og aðrar greiðslur 3,0 m.kr. Eftirstöðvar lánsins eru því 10 - 3,0 + 0,3 = 7,3 m.kr.
Dæmi 3
Bílalán til 7 ára tekið 2006 að upphæð 2,0 m.kr. og greitt af því allan tímann. Heildargreiðslur eru 3,0 m.kr. þar af eru heildarvaxtagreiðslur 0,7 m.kr. og afborganir og aðrar greiðslur 2,3 m.kr. Eftirstöðvar eru því 2,0 - 2,3 = -0,3 m.kr., þ.e. inneign upp á 300 þús. kr.
Dæmi 4
Sama bílalán nema að lánið var sett í frystingu í heilt ár og vöxtum bætt á höfuðstólinn. Heildargreiðslur eru 2,5 m.kr. þar af eru heildarvaxtagreiðslur 0,5 m.kr., vextir sem bætast á höfuðstólinn 0,2 m.kr. og afborganir og aðrar greiðslur 1,8 m.kr. Eftirstöðvar eru því 2,0 - 1,8 + 0,2 = 0,4 m.kr.
Lykillinn hér er að vaxtagreiðslur samkvæmt útsendum greiðslutilkynningum sem ekki var á neinum tíma bætt á höfuðstólinn, skipta ekki máli, þegar eftirstöðvar eru fundnar út. Ógreiddir vextir sem bætt var á höfuðstólinn teljast líka greiddir vextir í þeim skilningi að þeir verða ekki rukkaðir aftur sem vextir, en í staðinn koma þeir til hækkunar á höfuðstólnum og þar með eftirstöðvum. Allar afborganir eða beinar innáborganir á lánin og allar aðrar greiðslur koma til lækkunar á höfuðstóli lánsi.
Vextir gætu lækkað
Í einhverjum tilfellum gæti verið að samningsvextir hafi verið hærri en seðlabankavextir. Í þeim tilfellum gilda seðlabankavextir, en ekki samningsvextir og skal þá dagvaxtareikna mismuninn til uppgjörsdags! Þetta á við um leigusamninga sem teknir voru áður en Seðlabankinn hækkaði stýrivexti upp úr öllu valdi.
--
Ég tek það fram, að ég hef undanfarin ár aðstoðað fólk og fyrirtæki við að fara yfir útreikninga lána. Vegna mikils tíma sem þetta var farið að taka, þá geri ég þetta gegn gjaldi. Hægt er að hafa samband við mig á netfangið oryggi@internet.is óski einstaklingar eða fyrirtæki eftir aðstoð og mun ég reyna að bregðast hratt og vel við.
Leiðbeinandi tilmæli skortir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lánamál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
18.2.2012 | 17:31
Leiðbeiningar FME/SÍ og Árna Páls lög hækkuðu vexti um allt að 357 ma.kr. á lánum heimilanna
Ég veit ekki af hverju ég hef ekki gert þetta áður, en í gær fór ég að velta fyrir mér hver hafi verið nákvæmlega áhrif leiðbeininga FME og Seðlabanka Íslands og síðar Árna Páls-laganna (nr. 151/2010) á heimilin í landinu. Hluti af ástæðunni var að upplýsingar vantaði og þær hafa verið að koma fram smátt og smátt. Hinn hlutinn var að hélt að þetta væri svo flókið.
Í dag lét ég sem sagt slag standa. Náði í allar tölur sem voru tiltækar um gengisbundin lán heimilanna, LIBOR-vexti, seðlabankavexti og gengisþróun. Reyndi að átta mig á hver var upprunaleg lánsfjárhæð á hverju þriggja mánaða tímabili, afborganir og gengisþróun. Vissulega eru niðurstöðurnar háðar einhverjum skekkjum í forsendum og útreikningum, en þær gefa samt grófa niðurstöðu eða eins og Kaninn segir "ball park figures".
Niðurstaðan er sláandi, eiginlega svo sláandi að hreinlega er hægt að tala um grófa tilraun til auðgunarbrots. Útreikningar mínir ná frá 1.1.2004 til nokkurn veginn dagsins í dag.
Munurinn á vaxtagreiðslu með seðlabankavöxtum og samningsvöxtum með stöðu lána fyrir ógildingu gengistryggingarinnar er um 290 milljarðar króna!!!
Ef tekið er tillit til ógildingar gengistryggingarinnar, þá hefðu Árna Páls-lögin fært fjármálafyrirtækjunum rúmlega 357 milljarða kr. í auknar vaxtatekjur!!!
Sagt og skrifað 350 ma.kr. frá 1.1.2004 til dagsins í dag. Og þetta eru bara lán heimilanna.
Á tímabilinu frá 1.1.2004 til 31.12.2007 er þessi tekjuauki fjármálafyrirtækjanna 88,7 ma.kr. og 82,5 ma.kr. Frá ársbyrjun 2008 til 30.9.2008 er tekjuaukinn 72,5 ma.kr. hvort viðmiðið sem er notað og loks frá hruni til dagsins í dag 143,4 ma.kr. gengistryggingin hefði haldist en 202,5 ma.kr. samkvæmt Árna Páls-lögum og tilmælu Fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands.
Taflan hér fyrir neðan sýnir hverjir vextir hefðu orðið miðað við mismunandi forsendur á þremur tímabilum.
milljónir kr. | Frá 1.1.04 til 31.12.07 | Frá 1.1.08 til 30.9.08 | Frá 1.10.2008 | Samtals |
Samningsvextir miðað við bókfært virði gengistryggðra lána hjá SÍ | 35.223 | 30.699 | 81.651 | 147.573 |
Samningsvextir miðað við "kröfuvirði" lán hjá bönkunum (enginn afsláttur) | 35.223 | 30.699 | 140.803 | 206.725 |
Samningsvextir án gengistryggingar | 35.993 | 25.757 | 77.484 | 139.234 |
Óverðtryggðir vextir SÍ án gengistryggingar | 118.432 | 98.252 | 279.996 | 496.680 |
(Nánari skýringar eru neðst í færslunni.)
Rán í skjóli laga, FME og Seðlabanka Íslands
Ofangreindar tölur sýna, ef rétt er reiknað, að Fjármálaeftirlit, Seðlabanki Íslands og tveir efnahags- og viðskiptaráðherrar stóðu fyrir ótrúlegri tilraun til að ræna heimili landsins (og fyrirtæki líka). Vissulega lækkuðu dómdar Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 153/2010 höfuðstóla lána með gengistryggingu lánin mikið, en hvers vegna þurfti að hækka vexti fyrir 1.1.2008 um 83,2 ma.kr. og aðra 67,6 ma.kr. til viðbótar til 30.9.2008? Þetta eru 151,8 ma.kr. umfram það sem lántakar höfðu greitt í samræmi við heimsendar tilkynningar. Hver var tilgangurinn? Að færa "erlendum" kröfuhöfum peninga á silfurfati?
Dómur Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 er gíðarlegt högg
Gunnar Þ. Andersen, (fyrrverandi) forstjóri FME, og Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, hafa komið fram í fjölmiðlum og sagt dóm Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 ekki vera mikið högg á fjármálafyrirtæki. Þetta sé innan viðráðanlegra marka. Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, segir að bankinn hafi nóg eigið fé til að ráða við dóminn. Ég trúi Höskuldi svo sem, þar sem Arion banki lánaði lítið út gengistryggt til heimila, en hinum trúi ég ekki. Landsbankinn er í djúpum skít, sama á við um Íslandsbanka, ég get ekki séð að Lýsing sé gjaldfært fyrirtæki eftir þessa niðurstöðu. SPRON/FF/Drómi er nánast ónæmt fyrir niðurstöðunni, þar sem það eina sem breyst hefur hjá þeim er að kröfuhafar fá minna í sinn hlut.
Hvernig sem á það er litið, þá er höggið gríðarlegt miðað við óverðtryggðu vextina. Sé miðað við samningsvexti og bókfært virði lánanna hjá bönkunum (áður gengistryggð lán voru "elt" eftir að þau voru færð yfir í íslenskar krónur), þá er munurinn um 350 ma.kr., sé gert ráð fyrir að "kröfuvirði" haldi sér, þ.e. gengistrygging hafi verið lögleg og samningsvextir haldi sér, er munurinn 290 ma.kr. og miðað við aðdómur Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 sé fordæmisgefandi fyrir öll áður gengistryggð lán, þá er munurinn 357,5 ma.kr.
Tæknilegar skýringar
Til að skýra nánar töfluna:
- Í fyrstu röð eru lánin höfð með gengistryggingu í samræmi við upplýsingar frá Seðlabanka Íslands, þ.e. notað er við bókfært virði lánanna hjá bönkunum eins og þeir senda til SÍ, en frá þriðja ársfjórðungi 2010 taka lánin breytingu eftir gengisþróun til að láta ekki færslu yfir í endurreiknuð lán í íslenskum krónum skekkja myndina.
- Í annarri röð fylgja lánin sömu þróun og lánin í fyrstu röð til 30.9.2008, að þau eru uppreiknuð í samræmi við gengisþróun.
- Þriðja röðin sýnir aftur lánin í íslenskum krónum frá lántökudegi og með samningsvöxtum.
- Loks sýnir fjórða röðin lánin í íslenskum krónum og seðlabankavöxtum.
Til að finna út hvert upphafleg lánsfjárhæð var, er staða í lok ársfjórðungs tekin og reiknuð ætluð afborgun næstu 3 mánuði miðað við að meðallánstími væri 20 ár. Sú upphæð var dregin frá eftirstöðvum. Ný lán á ársfjórðungi fékkst með því að draga stöðu í lok hvers ársfjórðungs frá eftirstöðvum síðasta ársfjórðungs eftir afborganir. Loks var mismunurinn leiðréttur með tilliti til gengisþróunar á ársfjórðungnum. Þannig fékkst tala sem ætla mætti að væru ný lán á hverjum ársfjórðungi í krónum talið. Staða í íslenskum krónum fékkst með því að nota tölu síðasta ársfjórðungs, draga frá ætlaðar afborganir og leggja við ný útlán.
Varðandi gengi annars vegar og samningsvexti hins vegar var gert ráð fyrir að 10% lána væru í USD, 35% í CHF, 35% í JPY og 20% í EUR. Ofan á LIBOR vexti var bætt 2,5% vaxtaálagi. 3,0% álag hækkar samtölu samningsvaxta um 20-30 ma.kr. Önnur samsetning á myntum gæfi vissulega aðra niðurstöðu, en þar um bitamun en ekki stærðarmun að ræða.
Lánamál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.9.): 6
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 42
- Frá upphafi: 1679457
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 25
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði