Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Hárrétt ákvörðun miðað við veðurspá kvöldsins

Ég var að skoða spána á belgingur.is og fæ ekki betur séð en að þetta sé hárrétt ákvörðun hjá lögreglunni:

 

Ég held að menn eigi bara að virða ákvörðunina, þar sem spáð er 20 - 25 m/s mest allt kvöldið. 


mbl.is Engar brennur í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Margrét Lára - til hamingju íþróttafréttamenn

Kjör íþróttamanns ársins er afstaðið og hafa íþróttafréttamenn rekið af sér þau slyðruorð að þeir geti ekki valið konu.  Vil ég óska íþróttafréttamönnum til hamingju með að hafa ekki bara valið Margréti Láru íþróttamann ársins, heldur ekki síður fyrir að hafa valið Rögnu Ingólfsdóttur í 3. sæti.

Að sjálfsögðu óska ég þeim Margréti Láru og Rögnu einnig til hamingju með vegtyllur sínar. 


mbl.is Margrét Lára íþróttamaður ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íþróttamaður ársins er kona

Ég vil bara vísa í blogg mitt frá því um daginn, þegar ég sagði að Margrét Lára eða Ásthildur Helgadóttir hefur verið fremstar meðal jafningja.  Nú sé ég að Ásthildur kemst ekki á blað, þrátt fyrir að vera ein besta konan í bestu kvenna deild í heimi.

Takist íþróttafréttamönnum að komast hjá því að kjósa konu sem íþróttamann ársins, þá er tími til kominn að skipta þessari útnefningu upp í íþróttakarl ársins og íþróttakonu ársins. 


mbl.is Einn verður útnefndur úr glæsilegum hópi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íþróttamaður ársins - tækifæri að kjósa konu

Ég hjó eftir því í íþróttafréttum Bylgjunnar kl. 8:30 í morgun, að formaður samtaka íþróttafréttamanna og Heimir Karlsson telja að kjör íþróttamanns ársins verði mjög vandasamt, þar sem enginn íþróttamaður hafi virkilega skarað fram úr í ár.  Ég verð að mótmæla þessari fullyrðingu þeirra félaga. 

Það getur vel verið að enginn fótbolta- eða handboltastrákur hafi skarað fram úr, en tvær fótboltastelpur stóðu sig frábærlega, þ.e. Margrét Lára Viðarsdóttir og Ásthildur Helgadóttir.  Margrét Lára bætti markamet í íslenskum fótbolta sem enginn taldi að hægt væri að bæta og stóð sig frábærlega bæði með liði Vals og íslenska landsliðinu.  Þó Ásthildur hafi meiðst í vor og síðan orðið að leggja skóna á hilluna, þá fer ekkert á milli mála að frammistaða hennar á fyrri helmingi ársins skipar henni í hóp bestu knattspyrnumanna landsins.  Hún var máttarstólpi eins besta liðsins í sterkustu deildarkeppni kvenna í heiminum, þar sem hún var iðulega borin saman við Mörtu frá Brasilíu sem í vikunni var kjörin knattspyrnukona ársins 2007 af fyrirliðum og þjálfurum kvennalandsliða.  Bæði Margrét Lára og Ásthildur hafa skarað fram úr í íþrótt sinni á árinu og hafa náð lengra en nokkur karlkyns "boltastrákur" hefur náð, hugsanlega að undanskyldum Eiði Smára, þegar Chelsea lék til undanúrslita í Meistaradeild Evrópu um árið.

Og ef litið er út fyrir þessar tvær boltaíþróttirnar, þá má nefna að Jón Arnór Stefánsson er að standa sig frábærlega í bæði ítölsku deildinni og meistaradeild Evrópu í körfubolta og hefur frammistaða hans þar sett hann aftur á radar forráðamanna liða í NBA keppninni í Bandaríkjunum.  Birgir Leifur Hafþórsson hefur náð virkilega góðum árangri í Evrópumótaröðinni í golfi, þó svo að honum hafi ekki tekist að forðast úrtökumótin.  Hann vann eitt slíkt mót með miklum yfirburðum.  Ég efast um að nema kannski í mesta lagi tveir af núverandi landsliðsmönnum Íslands í handbolta og fótbolta hafi náð lengra en Birgir Leifur í íþrótt sinni, þ.e. Eiður Smári og Ólafur Stefánsson.

Ef við horfum til fleiri kvenna, þá höfum við eignast nýja sunddrottningu, Ragnheiði Ragnarsdóttur, sem varla má stinga sér í laugina án þess að setja nýtt Íslandsmet.   Nú Ragna Ingólfsdóttir, badmintonkona, hefur unnið alþjóðleg badmintonmót og er sem stendur í Ólympíusæti.  Svo er það hún Fríða Rún Einarsdóttir, sem varð Norðurlandameistari í öllum áhöldum og í fjölþraut á Norðurlandamóti unglinga í fimleikum fyrst íslenskra fimleikamanna.  Það er kannski ekki venjan að taka unglingameistara í vali á íþróttamanni ársins, en í kvennafimleikum þá eru margar af bestu fimleikakonum heims um eða undir 20 ára.

Ég skora á íþróttafréttamenn að velja einhverja íþróttakonu úr föngulegum hópi afrekskvenna, í staðinn fyrir að velja skásta fótbolta- eða handboltastrákinn.  Nú er tækifæri að sýna þjóðinni að þið veljið ekki íþróttamann ársins út frá vinsældum heldur frammistöðu á árinu.  Vissulega gerðu fótbolta- og handboltastrákarnir sitt besta, en Margét Lára, Ásthildur Helgadóttir, Ragnheiður Ragnarsdóttir, Ragna Ingólfsdóttir og Fríða Rún Einarsdóttir sköruðu fram úr.


Evrópudómstóllinn styður fyrirtæki í notkun á ódýru erlendu vinnuafli

Ég nefndi það fyrr í dag, að samkvæmt frétt á BBC World hefði Evrópudómstóllinn (European Court of Justice) dæmt sænsku verkalýðshreyfingunni í óhag í mali gegn erlendu fyrirtæki, en að mig vantaði frekari upplýsingar.  Nú er ég búinn að finna þær og er óhætt að segja, að þessi dómur gæti kollvarpað íslenskum vinnumarkaði nema að löggjafinn grípi inn í.  Miðað við forsendur dómsin, þá sýnist mér sem samnings- og baráttustaða íslensku verkalýðshreyfingarinnar hafi versnað verulega og á sama hátt hafi réttur vinnuveitenda til að ráða ódýrt erlent vinnuafl styrkst til muna.  Það eina sem virðist geta komið í veg fyrir að laun lækki niður úr öllu valdi, er að sett verði lög um lágmarkslaun, en slík löggjöf mun í leiðinni kollvarpa öllu bótakerfi almannatrygginga.

Hér er hægt að sjá umfjöllun International Herald Tribune um málið.

Evrópudómstóllinn dæmir sænskum verkalýðsfélögum í óhag

Það var frétt á BBC World áðan þar sem fram kom að Evrópudómstóllinn hefði dæmt erlendu fyrirtæki með starfsemi í Svíþjóð í hag í máli sænskra verklýðsfélaga gegn fyrirtækinu.  Sænsku verkalýðsfélögin héldu því fram að sænskir kjarasamningar giltu fyrir starfsmenn fyrirtækisins, en fyrirtækið hélt því fram að þar sem engin lög um lágmarkslaun væru í Svíþjóð, þá væri ekki lagagrundvöllur fyrir því að sænskir samningar giltu fyrir fyrirtækið.  Dómstóllinn dæmdi því fyrirtækinu í hag og getur það því gert launasamninga við starfsfók, sem eru með lægri taxta en gildandi kjarasamningar.

Það verður fróðlegt að fá nákvæmari fréttir af þessum úrskurði, þar sem nokkuð öruggt er að hann hafi fordæmisgildi fyrir Ísland, ef skilningur minn á fréttinni er réttur. 


Sjaldan er ein báran stök

Þeim gengur eitthvað illa að haldast á persónuupplýsingunum í Bretlandi.  Nú eru það upplýsingar um ökupróf sem hafa týnst.  Í þetta sinn er þó talið að harði diskurinn með gögnunum hafi verð lagður á rangan stað innan tölvumiðstöðvar fyrirtækisins Pearson Driving Assessments Ltd. í Iowa borg í Bandaríkjunum.  Engar líkur eru taldar á að gögnin hafi komist í rangar hendur, þó aldrei sé hægt að útiloka slíkt.

Kaldhæðnin í þessu máli er, að það komst upp eftir að fyrirskipuð var rannsókn á öryggi persónuupplýsinga í framhaldi af því að geisladiskar með upplýsingum um bætur almannatrygginga glötuðust í sendingu.  Sama var upp á teningunum núna, þ.e. harður diskur með upplýsingunum hafði verið sendur frá tölvumiðstöð í Bloomington í Minnesota-fylki og er ekki vitað hvar hann endaði.  Þó er talið nokkuð öruggt að hann barst á leiðarenda og hafi týnst innandyra.  Það sem gerir þetta mál sérstakt, er að breskar persónuupplýsingar voru sendar til vinnslu í Bandaríkjunum til að týnast þar.  Tekið skal þó fram að gögnin sjálf hafa ekki glatast, heldur eingöngu það afrit sem var á harða diskinum.


mbl.is Bresk yfirvöld glata persónuupplýsingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta tölfræðilega marktækt?

Þetta er ákaflega góð niðurstaða, en ég vil nú samt spyrja:  Í hve mörgum tilfellum gerist það hjá Akureyrarbæ að bæði karl og kona eru í sambærilegum störfum, á sama starfssviði, á sama aldri og með sambærilegan starfsaldur?  Einnig væri gott að vita hvort menntun viðkomandi sé sambærileg.

Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim fjölda starfsmanna sem vinna hjá Akureyrarbæ, en það væri samt fróðlegt að vita hve margir starfsmenn töldist samanburðarhæfir, hver kynjaskiptingin innan hópsins var og hve hátt hlutfall af starfsmönnum bæjarins þessi hópur telst vera.


mbl.is Dagvinnulaun kvenna orðin hærri en karla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Arsenal - Góðir, betri, bestir

Magnþrungnum leik lokið á þann eina hátt sem þetta gat endað.  Chelsea fór varla af sínum vallarhelmingi í fyrri hálfleik og þó þeir hafi bitið aðeins frá sér í þeim seinni, þá var það sambland af heppni Chelsea og klaufaskap Arsenal sem gerði það að verkum að leikurinn endaði bara 1 - 0.  2 til 3 gegn engu hefði gefið betri mynd af gangi leiksins.

Það var gott að sjá Cesc, Hleb og van Persie aftur, en Flamini var án efa bestur í lið Arsenal.  Einnar snertingar boltinn var kominn aftur og skil ég ekki hvað Diarra er að kvarta yfir að komast ekki í liðið.  Hann getur kannski kvartað, þegar hann er búinn að læra að gefa boltann strax á næsta mann.

Þó að ManU hafið náð að hanga á þessu eina marki sem þeir skoruðu gegn gangi leiksins, þá var mikill munur á leik þeirra og Arsenal.  Eftir að United skoraði voru settir 10 menn fyrir aftan boltann og langtímum saman var enginn leikmaður United á vallarhelmingi Liverpool.  Ótrúlegt hjá liði sem telur sig vera bestir.  Eftir að Arsenal komst yfir, þá var pressan bara aukin.  Pressað var frá fremsta manni og skiptingar milli kanta hraðar og nákvæmar.  Það getur vel verið að United muni standa uppi sem meistarar í vor, en Arsenal spilar "Total Football" að hætti Johan Cryuff og félaga.  Þann besta og flottasta í dag.  Það eina sem mætti bæta við eru bombur á við þær sem komu frá Arie Haan í denn.


mbl.is Arsenal lagði Chelsea og er aftur efst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjum er að kenna?

Umræðan um hlýnun jarðar og ástæður fyrir henni voru nokkuð í umræðunni í vor og langar mig að birta aftur (lítilega breytt) tvö blogg sem ég skrifaði um málið þá.

Hlýnunin kannski ekki vandamálið, en mengunin er

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að hlýnunin ein og sér sé kannski ekki svo alvarlegur hlutur miðað við hitabreytingar á jörðu undanfarin 10 - 20 þúsund ár og þó svo að við litum á skemmra tímabil.  Við erum t.d. ekki einu sinni komin á það hitastig sem var um landnám.  Mér fannst líka merkileg fréttin um árið, þegar einhver skriðjökull á Suðausturlandi hafði hopað svo mikið að hann hafði skilað mannvistarleyfum sem hann gróf einhverjum 5 - 600 árum eftir Landnám.  Ég verð að viðurkenna að ég sá ekki hver fréttin var.  Að jökullinn var að hörfa eða að fá staðfestingu á því að hitastig jarðar sveiflast.

Það er viðurkennd staðreynd að á tímabilinu frá siðskiptum fram á nítjándu öld (og sérstaklega á sautjándu öld) var fremur kalt.  Raunar svo kalt að það hefur verið kallað mini ísöld.  Á þessum tíma var t.d. algengt að fólk gat farið á skauta á Thames í hjarta Lundúna.  Engum hefur dottið í hug að segja að sú hlýnun sem varð á nítjándu öld og fram á þá tuttugustu hefði verið vandamál.  Samt var sú hlýnun mun meiri en hefur átt sér stað á síðustu 50 ár, hvað þá síðustu 10 - 15 ár.  Hvert er þá vandamálið?  Líklegast að við fylgjumst meira með hitastigi á heimsvísu og sjáum hvaða áhrif (ég vil ekki tala um afleiðingar, þar sem það er neikvætt hugtak) breytingin hefur á umhverfi okkar.

Fyrir 300 árum var algengt að það snjóaði í London, nú þykja það fréttnæmt.  En vitum við hvað við þurfum að fara langt aftur í tímann til að finna sambærilegar aðstæður.  Hér á landi sjáum við í örnefnum að á Landnámsöld og fram á Sturlungaöld (ef við gefum okkur að megnið af eldri örnefnum hafi verið komið fram á þessu tímabili) að hér var mun hlýrra en jafnvel um þessar mundir.  Jarðvegsleifar og steingervingar víða um land vísa til þess að hér á landi hafi einu sinni verið mjög hlýtt.  Svona frekar í námunda við það sem er í Suður Evrópu eða þess vegna Karabískahafinu.  Hvert er þá vandamálið, þó örlítið hlýni?  Jökull í Noregi var að skila 3.000 ára gömlum skinnskó.  Þýðir það að það hafi verið hlýrra í Noregi fyrir 3.000 árum eða var eigandinn uppi á jökli þegar hann týndi skónum sínum.  Rannsóknir á ískjarna Grænlandsjökuls hafa leitt í ljós að hitasveiflur hafa verið miklar á stuttum tíma.  Þetta ber allt að sama brunni: Hitastig jarðar er óstöðugt. 

Það er aftur alvarlegt vandamál að við nútímamaðurinn eigum í miklum erfiðleikum með að vernda það umhverfi og þá náttúru sem við höfum til afnota á okkar æviskeiði.  Við mengum andrúmsloftið, úthöfin og landið eins og við höfum ekkert betra að gera.  Í því felst alvarleiki þess ástands sem er að skapast, ekki hlýnunin.  Hlýnunin er ennþá langt innan þeirra marka sem jörðin þolir og flest það líf sem á henni er.  Ég lít ekki einu sinni á það sem alvarlegan hlut að einhverjar dýrategundir þoli ekki þessar breytingar.  Það hefur gerst áður og mun endurtaka sig.  Geti einhver sýnt fram á að hlýnun af mannavöldum geti orðið það mikil, að hnötturinn verði ekki lífvænlegur, þá er um verið að tala um allt aðra hluti.  Málið er að engar slíkar heimsendaspár hafa komið.  Þær sem eru verstar gera í mesta lagi ráð fyrir að mannkynið eigi erfiðara líf fyrir höndum.  Og hvað með það?  Við erum hvort eð er bara maurar á þúfu sem heitir Jörð og þó svo að okkur þyki tilvera okkar merkileg, þá mun hún taka endi.  Spurningin er bara hvenær og hvort við fáum nokkru um það ráðið.

Stóra loftlagssvnindlið - sjónarhorn leikmanns

Mér finnst þessi umræða um hvort er meiri sökudólgur náttúruleg hitnun Jarðar eða hitnun Jarðar af mannavöldum, vera á vissum villugötum.  Ég held að báðir aðilar hafi eitthvað til síns máls og umræðan eigi ekki að fjalla um að halda með öðrum og þar með sjá hinum allt til foráttu.

Það eru tvær veigamiklar staðreyndir í þessu máli: 

1.  Hitastig Jarðar er breytilegt og þessar hitasveiflur geta valdið mikilli röskun á lífsskilyrðum á stórum svæðum og þróun lífs. 

2.  Maðurinn mengar andrúmsloftið eins og það sé einhver ruslafata og er með því að breyta lífsskilyrðum á afmörkuðum, en stórum, svæðum og hefur einhver áhrif á þróun lífs.

Bara á síðustu 100 árum höfum við upplifað talsverðar hitasveiflur, sem eru af báðum þessu ástæðum.  Spurningarnar sem við verðum að leita svara við eru:

1.  Hvað hefur hvor þáttur um sig lagt mikið til þessara sveiflna og hvert verður vægi þeirra á komandi árum og árhundruðum?

2.  Verða hitabreytingar af völdum mannkyns það miklar að þær hafi sjálfstætt veruleg áhrif á lífsskilyrði á Jörðunni?

3.  Hvað er það sem við getum gert til að sporna við óæskilegum áhrifum hitabreytinga af völdum mannkyns?

Það er mín trú, að hitabreytingar vegna mannkyns verða aldrei eins miklar og alvarlegar eins og náttúrulegar hitabreytingar.  Þetta sjáum við á hita- og kuldaskeiðum undanfarinna árþúsunda.  Raunar þarf ekki að fara lengra aftur en til um 1680 til að finna kuldaskeið, sem hefði fengið okkur í dag til að halda að ísöld væri að skella á.  Förum svo aftur til 1000 eða svo og við værum viss um að gróðurhúsaáhrifin væru í fullri virkni. 

Ég hef sagt að hitabreytingarnar séu ekki vandamálið heldur er það mengunin.  Við þurfum að leita leiða til að auka náttúrulega ljóstillífun, þ.e. náttúrulega bindingu kolefna og framleiðslu súrefnis.  Við þurfum að breyta framleiðsluferlum, þannig að þau mengi helst ekki neitt.  Við þurfum að breyta vélum bifreiða, þannig að þær spúi ekki út úr sér CO2 heldur bindi kolefnið í staðinn í fast efnasamband sem síðan er hægt að annað hvort farga á öruggan hátt eða endurnýta.  Nú önnur leið er að nota hreinni orkugjafa. 

Það er eitt sem við getum ekki gert:  Við getum ekki heft efnahagsþróun í Afríku, vegna þess að efnaðri þjóðirnar eru búnar að menga svo mikið.  Við verðum að leyfa þessum þjóðum að nota sömu tækni og við erum að nota, fá sömu tækifæri og við höfum.  Við getum ekki fárast út í fátækt þeirra og efnahagserfiðleikum, ef við ætlum að banna þeim að nota efnahagslega hagkvæmar leiðir til að koma sér út úr vanda sínum.  Ef við á Vesturlöndum viljum að þessar þjóðir noti ,,hreinni" aðferðir þá verðum við að ganga á undan og taka upp þessar ,,hreinni" aðferðir sjálf í jafn ríku mæli og við ætlumst til að aðrir noti þær.

 


mbl.is Hafna loftslagsbreytingum af mannavöldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband