Leita í fréttum mbl.is

Er hægt að ógilda verðtryggða og gengistryggða lánasamninga?

Hækkun höfuðstóls verðtryggðra og gengistryggðra lána á undanförnum mánuðum vekur upp spurningar um réttmæti slíkra samninga.  Mjög margir skuldarar standa frammi fyrir því að eigið fé húseigna þeirra hefur ekki bara gufað upp, heldur er andvirði verð- eða gengistryggðs höfuðstóls orðið umtalsvert hærra en markaðsverðmæti húseignarinnar.  Aðrir standa í þeim sporum að hafa tekið yfirdráttarlán hjá banka, meðan yfirdráttarvextir voru hóflegir (um 12%), en sitja nú uppi með það að greiða 25-27,5% yfirdráttarvextir.  Í flestum tilfellum hefur skuldarinn það eitt til sakar unnið að skulda.  Hann er hvorki í vanskilum né stendur í bruðli.  Hann gerði raunhæfa greiðsluáætlun í samræmi við ástand efnahagsmála og greiðslugetu sína fyrir 12 - 24 mánuðum.  Það er því ekkert hægt að klaga sérstaklega upp á lántakandann annað en að viðkomandi er með lán sem þarf að greiða.

Nú vill svo til að í nokkrum lögum eru ákvæði um ógildingu samninga. Spurningin er hvort hægt sé að beita slíkum ákvæðum í tilfelli sem þessu. Hér eru tvö dæmi sem gætu átt við:

1.  Lög um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936 með síðari breytingum:  Í 36 gr. laganna segir:

36. gr. [Samningi má víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig, [sbr. þó 36. gr. c].1) Hið sama á við um aðra löggerninga.
Við mat skv. 1. mgr. skal líta til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til.]2)
   1)L. 14/1995, 1. gr. 2)L. 11/1986, 6. gr.
[36. gr. a. Ákvæði 36. gr. a–d gilda um samninga, m.a. samningsskilmála, sem ekki hefur verið samið um sérstaklega enda séu samningarnir liður í starfsemi annars aðilans, atvinnurekanda, en í meginatriðum ekki liður í starfsemi hins aðilans, neytanda, sbr. þó 36. gr. d. Ákvæðin gilda einnig um samninga milli neytenda sem atvinnurekandi stendur að fyrir annan aðilanna.
Á atvinnurekandanum hvílir sönnunarbyrðin fyrir því að samið hafi verið sérstaklega um samning og hann falli ekki undir 1. mgr.]1)
   1)L. 14/1995, 2. gr.

[36. gr. c. Ákvæði 36. gr. gilda um samninga skv. 1. mgr. 36. gr. a, þó með þeim breytingum sem leiðir af 2. og 3. mgr.
Við mat á því hvort samningur skv. 1. mgr. sé ósanngjarn skal líta til atriða og atvika sem nefnd eru í 2. mgr. 36. gr., m.a. skilmála í öðrum samningi sem hann tengist. Þó skal eigi taka tillit til atvika sem síðar komu til, neytanda í óhag.
Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Ef slíkum skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans.]1)
   1)L. 14/1995, 4. gr. 

2.  Lög um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir nr. 46/2005 segir í grein 9:

9. gr. Góðir viðskiptahættir.
Ákvæði í samningi um fjárhagslega tryggingarráðstöfun er varðar verðmat fjárhagslegrar tryggingar, verðmat fjárskuldbindinga og fullnustu fjárskuldbindinga má víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera ákvæðið fyrir sig, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

Hér togast á nokkur sjónarmið, en það sem skiptir máli, er að neytandinn (lántakandinn í því tilfelli sem hér um ræðir) skal ekki þurfa að uppfylla skyldur í samningi sem er ekki í samræmi við væntingar hans og lánveitanda í upphafi.  Því miður eru þessar væntingar sjaldnast skjalfestar, en greiningadeildir bankanna voru mjög duglegar að koma með efnahagsspár, einnig birtust slíkar spár frá fjármálaráðuneytinu og jafnvel Seðlabanka Íslands.  Allir þessir aðilar settu fram væntingar um stöðugleika, þannig að lántakendur gátu búist við því að greiðsluáætlanir þeirra myndu standast með takmörkuðum frávikum. Lánveitendur gengu líka út frá vissum forsendum um upphæð þeirra greiðslna, sem þeir gátu vænst af lánunum, og breytingar á höfuðstól lánanna.  Ég efast um að það hafi verið ætlun stóru bankanna, að stefna öllu í voða hérna, en þeir gerðu það.  Það sem meira er, hægt er að færa góð og gild rök fyrir því að þeirra eina von til að lifa af lausafjárkreppuna, hafi verið að fella krónuna.  Með því vannst tvennt:  höfuðstóll og afborganir gengistryggðra lána hækkuðu mikið og verðbætur lána jukust mikið vegna þeirrar verðbólgu sem kom í kjölfar gengislækkunarinnar.  Annar aðili lánasamningsins var því í ósanngjarnri stöðu til að hafa áhrif á greiðslubyrði lánasamningsins.  Ég gæti alveg séð fyrir mér, að þetta væri fullnægjandi ástæða til að fá felld úr gildi ákvæði samningsins um verð- og gengistryggingar.

Nú væri fróðlegt að fá álit lögfræðinga á þessari pælingu minni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Marinó

Framangreindar pælingar þínar um brostnar forsendur lánaskuldbininga gengis,- og verðtryggðra lána eru ákaflega athygliverðar þó ekki sé meira sagt og er án efa bráðnauðsynlegt að láta lögspekinga skoða og gefa álit. Að því gefnu að niðurstaða álits gefi tilefni til þá strax að höfða prófmál þar sem ekkert yrði til sparað við undirbúning málshöfðunar.

 Ég hvet þig áfram í þessu en er því miður ekki lögfræðingur en skora á þig að senda  Agli Helga þessa pælingu til að fá álit sem flestra.

Kveðja,

Árni Jensson

Árni Jensson (IP-tala skráð) 13.2.2009 kl. 22:51

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Svo má bæta við þetta eftirfarandi úr lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu:

VI. kafli. Verðtrygging sparifjár og lánsfjár.
13. gr. Ákvæði þessa kafla gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar. Með verðtryggingu er í þessum kafla átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu. Um heimildir til verðtryggingar fer skv. 14. gr. nema lög kveði á um annað.
Afleiðusamningar falla ekki undir ákvæði þessa kafla.
14. gr. Heimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. [Vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildir um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár frá fyrsta degi þar næsta mánaðar.]1)
Í lánssamningi er þó heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi.

Mér sýnist hugsanlega verið að segja þarna að verðtrygging við gengisvísitölu, sé hreinlega ekki heimil.  Það er heimilt að miða við hlutabréfavísitölu eða safn slíkra vísitalan en ekki viðmið við gengi gjaldmiðla.   Ég finn hvergi lagatilvísun í gengistryggð lán, þannig að spurningin er hvort allt sé leyft sem ekki er sérstaklega bannað eða allt bannað sem er ekki sérstaklega leyft.

Marinó G. Njálsson, 13.2.2009 kl. 23:22

3 identicon

Ég er nú ekki löglærð en metið með heilbrigðri skynsemi og sæmilegri réttlætistilfinningu finnst mér þú vera "on to something" þarna.

Lykilatriðið er einmitt það sem þú bendir á að lántakendur tóku lánin í umhverfi þar sem greiningardeildir bankanna, Seðlabankinn og yfirvöld öll, bergmáluðu hvert annað um að allt væri í standi. Það voru forsendurnar -og þær eru svo sannarlega brostnar.

Enn alvarlega er svo sú staðreynd, að því er virðist, að þessir sömu aðilar, klappstýrur bankanna, hafi vitað betur. Ef það sannast svo ekki verður um villst, hlýtur amk að vera um forsendubrest að ræða.

Erla Vilhjálms (IP-tala skráð) 13.2.2009 kl. 23:24

4 Smámynd: Baldvin Jónsson

Fékk í dag áminningu frá Intrum vegna skuldar sem ég á gagnvart gamla Landsbankanum en er núna skyndilega orðin eign nýs banka.

Var að velta því fyrir mér hvort væri ekki skemmtileg hugmynd að senda þeim bréf þar sem að ég debonera skuldinni minni á móti þessum ca. 20 milljónum sem að mér er ætlað að greiða vegna Icesave.

Væri gaman að sjá hvernig viðbrögð kæmu við því? :)

Baldvin Jónsson, 14.2.2009 kl. 00:06

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Baldvin, viltu ekki heldur skuldajafna?  Debonering er þegar þú greiðir jafngildi skuldarinnar inn á reikning til vörslu, þar til búið er að gera út um ágreining.

Marinó G. Njálsson, 14.2.2009 kl. 00:12

6 identicon

Marinó,

Orð í tíma töluð. Lánasmaningar almmenings fyrir húsnæði eru almennt sagt einhliða ósangjarnir okursamningar. Öll ábyrðin er skuldarans og lánadrottinn tekur enga áhættu, hann ætlar sér að fá allt til baka alveg upp í topp sama þó efnahagskerfið brotledi, og jafnvel þótt hann ( lánadrottinn bankarnir) eigi sök á brotlendingunni. Bankarnir græða meir að segja á hruni krónnunnar að þessu leiti, þeir geta hirt ennþá fleiri krónur af skuldurunum vegna vísitölutryggingar.

Riftun núverandi samninga er réttlætismál. Og stoðir eru fyrir því lögum eins og hér hefur komið fram. Krafan er sú að endursamið sé um að skuldabyrði sé færð niður á réttláttan grungvöll.

Hvernig er best að framkvæma þetta? Einhverskonar hópmálsókn almennigs (skuldara) á hendur stjórnvöldum? er það hægt? 

Bjarni Hafsteinsson (IP-tala skráð) 14.2.2009 kl. 14:10

7 Smámynd: Tómas Þráinsson

Þessar pælingar gefa manni endalausar hugmyndir um það hvernig maður getur látið skuldajafna hjá sér alls konar gömlum syndum. Tala nú ekki um eitthvað af Ice Save skuldinni, eins og Baldvin kom inn á hér að ofan.

Ég skulda bílalán, sem var tekið á myntkörfuláni haustið 2007. Upphafleg upphæð var 890þúsund en núna stendur lánið í meira en 1750þúsund, þrátt fyrir að ég hafi borgað af því án vandkvæða þar til í Nóvember, þegar ég fór fram á frystingu lánsins. Ég er ekki að segja að ég vilji ekki borga af láninu, ég er hinsvegar alveg hundóánægður með að andvirði bíltíkurinnar standi ekki einu sinni nálægt stöðu lánsins.

Tómas Þráinsson, 14.2.2009 kl. 15:26

8 identicon

Ég er ekki lögfræðingur en ég held að þú sért með hárrétt sjónarhorn á þessi mál.  Ég minnist þess að einu sinni var til vísitala sem hét Lánskjaravísitala og henni var síðan skipt út fyrir núverandi Neysluvöruvísitölu.  Ég man ekki eftir því að það hafi verið neitt óyfirstíganlegt vandamál, heldur var því bara breytt sisi svona.  Hvers vegna má ekki ákveða nýtt vísitöluviðmið t.d. miða fasteignaveðlán við vísitölu fasteignaverðs sem Fasteignamat ríkisins gæti auðveldlega reiknað út?  Eða bara launavísitölu?  Ég óttast hins vegar að yfirvöld bæði fyrrverandi og núverandi ætli ekki að leiðrétta neitt heldur demba þessu á skuldara með öllum þeim afleiðingum sem því fylgir.  Alla vega ef núverandi ríkisstjórn breytir þessu ekki fyrir kosningar þá munu þeir flokkar ekkert gera eftir kosningar til að bjarga fólki.

Gísli Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 14.2.2009 kl. 15:43

9 identicon

Ég las þessi lög sem þú vísar í fyrir tæpu 1 + 1/2 ári síðan þegar ég hóf baráttu gegn villandi gengisláni sem ég hafði skrifað undir í júní, 07.  Ég fann ýmiss lög sem gætu verndað neytendur slíkra okurlána þar sem lánandi villti um fyrir undirskrifanda samningsins beint eða óbeint: Með því að gefa rangar og villandi upplýsingar og með því að þegja um eðli gengislána og samningsins og þegja um að gengi ísl. kr. væri falskt og alltof hátt skráð og hlyti að fara að lækka.  Bankar og lánafyrirtæki voru þannig vopnaðir upplýsingum sem almenningur gat ekki vitað.  Það vantar lög sem hjálpa fólki að fara í hópmál gegn slíkum svikum þar sem það er of dýrt og of erfitt að gera það einn. 

EE elle 

EE (IP-tala skráð) 14.2.2009 kl. 16:59

10 identicon

Tómas: Mitt bíllán (gengislán) var upphaflega 1,570 þúsund í júní, 07 og er núna 3,500 þúsund.

EE elle 

EE (IP-tala skráð) 14.2.2009 kl. 17:27

11 Smámynd: Hlédís

Kæri Marínó!     Labbaðu niður að Stjórnarráði er til stendur fundur og réttu ÖLLUM í ríkisstjórninni persónulega afrit af því sem skrifar hér! Þetta er mikilvægt!

Ég held því fram að annað hvort viti nýja stjórnin ekki hve alvarlegt ástandið er, kunni ekki að reikna! - eða að glæpalýðurinn hafi nú þegar haustak á henni!

Og Viðlagið:

 "Auk þess legg ég til að verðtryggingar-gálginn verði höggvinn niður!"

Hlédís, 14.2.2009 kl. 17:43

12 Smámynd: Gísli Foster Hjartarson

Athyglisverðarpælingar Marínó - geturðu ekki komið þessu lengra og reynt að vekja frekari máls á þessu. Einhvern nefndi Egil Helga, já eða blöðin? Ísland í dag og Kastljós - bara ýta þessu úr vör - það er verið að berja á okkur öllum.

Gísli Foster Hjartarson, 14.2.2009 kl. 18:28

13 Smámynd: Marinó G. Njálsson

EE elle, það væri fróðlegt að fá að vita hvaða lög það voru sem þú fannst.  Ef þú villt ekki setja það á hér, þá væri gott ef þú gætir sent póst á heimilin@heimilin.is eða á mig mgn@islandia.is

Marinó G. Njálsson, 14.2.2009 kl. 18:31

14 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Gísli, við Egill erum í samskiptum.  Það er aldrei að vita hvað gerist.  Þó ekki á morgun.

Marinó G. Njálsson, 14.2.2009 kl. 18:32

15 identicon

Marino, ég skal gera það og vil alveg gera það hér og þannig hafa allir tækifæri til að skoða það, líka þeir lögfróðu og geta þá metið hvort það er ekki nothæft í þessu sambandi.  Ég bara nenni ekki að skrifa það niður núna í svipinn. 

EE  

EE (IP-tala skráð) 14.2.2009 kl. 20:49

16 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Takk fyrir það, EE.  Málið hverfur ekkert á næstu dögum, en mér sýnist geta verið komin grundvöllur fyrir því að fara með þetta lengar.  Það er raunar þegar aðili búinn að bjóða sig fram til að fara í prófmál, ef okkur tekst að byggja upp traust mál.

Marinó G. Njálsson, 14.2.2009 kl. 21:59

17 identicon

Gerði þarna mistök, þeir lögfróðu þurfa ekki að meta það, þeir vita þetta.  Læt þig hafa þetta fyrir mánudag.

EE (IP-tala skráð) 14.2.2009 kl. 22:04

18 identicon

Sæll Marinó,

Og talandi um fáránleika þá er ekki lengur hægt að skipta um samsetningu á körfunni þótt talað sé um að slíkt sé heimilt í lánasamningi. Sýnir fáranleikann á Íslandi. Hver eru svör bankans ! Þú verður að tala við skilanefndina, það er gamli bankinn.

Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 15.2.2009 kl. 06:46

19 identicon

Marinó, það er frábært að þið getið kannski farið í prófmál.  Fólk sem tók gengislán í júní/júlí, 07 hefur væntanlega farið langverst út úr gengislánunum þar sem ísl. kr. var fölskust/sterkust þá og hækkanirnar þ.a.l. hrikalegastar.

Önnur lög sem ég fann.  Skrifa ekki upp öll orðin, heldur heitin og númerin.  Þið finnið það.

Lög um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins:

 11. kafli. 5. + 6. gr.

 111. kafli. 9. gr. 

Lög um fjármálafyrirtæki:

 111. kafli. 19. gr.

Lög um neytendakaup:

 1V. kafli. 15. gr. liður b + 16. gr. liðir a og b.

Lög um neytendalán:

 11. kafli.  5., 6. og 15. gr.

 111. kafli. 16. gr.

Lög um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga:

 111. kafli. 30. og 31. gr.

 1V. kafli. 38. gr.

Og vonandi skrifaði ég ekkert vitlaust þarna.

EE elle

EE (IP-tala skráð) 15.2.2009 kl. 17:06

20 Smámynd: Hlédís

Vona svo sannarlega að gangi vel í þessarri Glímu!

Hlédís, 15.2.2009 kl. 17:14

21 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Takk fyrir þetta, EE elle.  Nú er bara að láta hendur standa fram úr ermum.

Marinó G. Njálsson, 15.2.2009 kl. 19:25

22 identicon

Fáum við almenningur að vita um útkomu prófmálsins ef það verður Marinó?

EE elle

EE (IP-tala skráð) 17.2.2009 kl. 09:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband