Bloggfærslur mánaðarins, október 2007
28.10.2007 | 19:53
Morgunblaðið á rafrænu sniði
Ég er áskrifandi að Morgunblaðinu á rafrænu sniði. Borga fyrir það 1.700 kr. á mánuði, sem er hið besta mál. Það sem er ekki hið besta mál, er að það er nær vonlaust að lesa blaðið, þar sem einhverra hluta vegna tekur óralangan tíma að hlaða blaðinu niður í vafrann, ef það á annað borð heppnast. Það er ekkert mál að hlaða blaðinu niður á harða diskinn og opna blaðið þaðan, en ég hef engan áhuga á að safna pdf-skrám með Morgunblaðinu eða standa í tiltekt á þeim, heldur vil ég bara geta opnað það í vafranum mínum og skoða það þar.
Ég tek að vísu eftir því að fyrir notendur Windows Vista, þá er þetta ekkert mál. Ég er með Windows XP og vil geta hlaðið blaðinu, sem ég borga fyrir, niður þegar mig langar að skoða það.
Það er svo merkilegt við það, að vilji ég skoða rafræna útgáfu af 24 stundum af sama vef, þá gengur hratt og vel að opna blaðið. En vilji ég opna Morgunblaðið, þá er það hending að ég nái að skoða allt blaðið, þó svo að vafrinn minn segist vera búinn að hlaða öllu blaðinu inn!
Áðan var ég að leita að auglýsingu, sem ég sá í síðustu viku, en ég kem því ómögulega fyrir mér hvar ég sá hana. Ég renndi í gegnum Fréttablöð síðustu viku á netinu á visir.is á um 5 mínútum. Ég þurfti ekki að skoða hverja síðu fyrir sig, heldur get ég forskoðað síðurnar í smámyndum af síðunum og síðan valið þá síðu sem ég vil skoða. Næst tók það mig um 10 mínútur að fletta í gegnum öll blöð 24 stunda sem komu út í síðustu viku. Hvert blað hlóðst niður án hökkts eða erfiðleika. Þessi blöð eru bæði ókeypis. Þá var það blaðið sem ég borga fyrir. Miðvikudagsblaðið varð fyrir valinu. Í fyrstu tilraun komst ég á blaðsíðu 4. Þá hætti vafrinn að hlaða niður. Þá ýtti ég á F5 takkann til að reyna aftur. Ekkert gerðist. Ég reyndi aftur og teljarinn fór í gang, en stoppaði í eitthvað um 3 MB. Svo stoppaði hann í 2,5 MB. Þá fraus vafrinn, þannig að ég drap Acrobatinn (í Windows Task Manager). Nokkrar tilraunir í viðbót og ég var ekki einu sinni kominn inn í mitt blað. Þá kom Acrobatinn með villumeldingu og sagðist ekki finna pdf-skjal.
Málið er að þetta er ekki að gerast í fyrsta sinn. Þetta er daglegt brauð. Það er raunar með ólíkindum að maður sé að greiða fyrir þessa þjónustu. Ég skora á Morgunblaðið að fara að gera eitthvað í þessu annað en að segja bara:
Ef þú átt í vandræðum með að opna blað dagsins prófaðu þá að hægri smella á myndina og velja "Save target as", vista blaðið á tölvuna og opna það þaðan.
Fyrst að hægt er að skoða Fréttablaðið og 24 stundir án vandræða, þá hlítur Morgunblaðið að ráða við það líka.
PS. Ef einhver er með aðra lausn, sem mér yfirsést, þá þigg ég ábendingar.
Tölvur og tækni | Breytt 14.12.2007 kl. 13:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
28.10.2007 | 16:21
Hverjum ætli heimsbyggðin trúi?
Engar vísbendingar um að Íranar séu að smíða kjarnorkuvopn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.12.2007 kl. 13:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.10.2007 | 10:11
Flugvöllur í Fljótavík
Hún er einkennileg fréttin á visir.is um flugvöll í Fljótavik í ljósi þess að þar hafa verið tvær flugbrautir í fjölda mörg ár. Það getur svo sem verið að gera eigi eitthvað meira en það sem sumarbústaðaeigendur í Fljótavík hafa þegar gert. Þegar ég var þar með gönguhóp, sem ég tilheyri, í rúma 2 daga í fyrrasumar voru a.m.k. daglegar flugsamgöngur þar og gátu menn valið um það að lenda á austur-vestur brautinni eða norður-suður brautinni.
Vilja flugvöll á Hornstrandir
Umhverfisráð Ísafjarðar hefur nú til skoðunar hugmynd um að gera flugvöll í Fljótavík á Hornströndum. Fram kom á fundi umhverfiráðs á miðvikudag að erindi hefði borist frá Hjalta J. Guðmundssyni forstöðumanni hjá Umhverfisstofnun sem vísaði í greinargerð varðandi flugöryggi í Fljótavík og hugsanlega lagningu flugbrautar. Sagði Hjalti að leita þyrfti leyfis Umhverfisstofnunar til framkvæmda í friðlandinu auk þess sem fyrir þyrfti að liggja samþykki sveitarfélags og landeigenda. Málinu var vísað til vinnuhóps aðalskipulags norðan Djúps. - gar
Ferðalög | Breytt 14.12.2007 kl. 13:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
20.10.2007 | 01:02
Andrési Magnússyni svarað og fleira
Andrés Magnússon langar óskaplega til að kenna mér eitthvað í stærðfræði og hlutabréfaviðskiptum. Hann sendir mér glósu á bloggi sem Elfur Logadóttir birti um daginn (sjá Og meira til maka manna sem stýrðu ríkinu). Andrés er þar að svara því að mér fannst sem Gísli Marteinn hefði eitthvað fipast útreikningurinn á meintum hagnaði nokkurra nafnkunnra framsóknarmanna sem gætu við sameiningu Geysir Green Energy og Reykjavik Energy Invest eignast um 0,35% í hinu sameinaða félagi. Gísli Marteinn taldi eins og alþjóð veit, að framsóknarmennirnir hefðu þegar hagnast um fleiri milljarða á tiltækinu. Ég bent á í minni athugasemd, að til að svo væri þyrfti verðmæti hins sameinaða félags að hafa tífaldast á 5 dögum og vildi með því vekja athygli á kommuskekkju í útreikningum borgarfulltrúa minnihlutans. Þessi villa hefur síðan verið endurtekin nokkuð oft (því sumir halda að ósannindi verði að sannleika ef þau eru endurtekin nógu oft) og nú vill Andrés færa Gísla Marteini rök og um leið skjóta á mig. Athugasemd Andrésar var eftirfarandi:
Andrés Magnússon, 16.10.2007 kl. 21:21
Mjög líklega á þetta að vera grín hjá Andrési, en ef haft er í huga það sem hann segir á blogginu sínu undir Svo skal böl bæta, þá er honum full alvara í útúrsnúningnum. Það er því nauðsynlegt að svara þessum útúrsnúningi.
Í fyrsta lagi, þá hefur enginn hluthafi GGE hagnast eitt eða neitt ennþá á fyrirhugaðri sameiningu GGE og REI. Ég segi fyrirhugaðri, þar sem hún fellur um sjálft sig, ef eigendafundurinn verður dæmdur ólöglegur, hvað svo sem verður samþykkt á nýjum eigendafundi.
Í öðru lagi sagði Gísli Marteinn að Björn Ingi hefði fært framsóknarmönnunum hagnað upp á fleiri milljarða þá þegar. Hann var ekki að tala um framtíðarhagnað.
Í þriðja lagi er framtíðarhagnaður ákaflega óviss tala og getur alveg eins endað í tapi. Ég vona samt innilega að árangur orkuútrásarinnar verði mikill og hagnaðurinn eftir því.
Í fjórða lagi, ef hagnaður hlutahafa með 0.35% hlut er orðinn fleiri milljarðar, þá væri Reykjavíkurborg búin að hagnast um fleiri hundruð milljarða og væri besta sönnunin fyrir því að hugmyndin um sameiningu GGE og REI var virkilega gott viðskiptamódel. Reykjavíkurborg gæti fjármagnað ansi margar góðar framkvæmdir með vöxtunum af þeirri upphæð einum.
Málið er bara að engum flokki á Íslandi þykir eins sárt að verða undir og Sjálfstæðisflokknum. Í hvert sinn sem það gerist, fer af stað ófrægingarherferð sem er ætlað að beina athyglinni frá Flokknum. Dæmi tala fyrir sig sjálf: Þórði Friðjónssyni datt í hug að gera athugasemd við rökstuðning fjármálaráðuneytisins/ríkisstjórnar. Hvað gerðist næst? Jú, Þjóðhagstofnun var lögð niður og umræðan fer frá gagnrýni stofnunarinnar í að fjalla um að hún skuli lögð niður. Hallgrímur Helgason talaði neikvætt um ríkisstjórn Davíð Oddssonar. Hvað gerðist næst? Davíð boðar Hallgrím á fund niður í Stjórnarráð og umræðan snýst frá því að fjalla um skrif Hallríms í að fjalla um fundinn. Baugur/Hagkaup gagnrýna stjórnvöld fyrir að skapa ekki umhverfi til að lækka matarverð um leið og fyrirtækið hrindir af stað átaki til lækkunar matarverðs (sem ég ætla ekkert að dæma um hér hvernig til tókst). Hvað gerist næst? Fyrirtækin eru sökuð af þáverandi forsætisráðherra um að hafa ætlað að bera á hann mútur og umræðan fer frá því að fjalla um getuleysi ríkisstjórnarinnar yfir í það að fjalla um hugsanlegar mútur. Geta menn ekki bara tekið kinnhestinum og skoðað hvað er hægt að læra af honum í staðinn fyrir að leita að sökudólgi annars staðar.
Davíð Oddsson viðurkenndi í viðtali við Evu Maríu að hann hefði viljandi beitt þeirri taktík að væri hann sakaður um eitthvað, þá svaraði hann með því að ásaka hina um eitthvað verra. Með því þyrfti hann ekki að verja sig vegna þess að fjölmiðlarnir eltu alltaf nýjasta hneykslið. Nú átti sem sagt að nota sömu aðferð einu sinni enn og einu sinni enn féllu fjölmiðlar í gildruna. Framsóknarmafían var að baki öllu, ekki minnst á sjálfstæðismenn, sem voru með tvo fulltrúa í stjórn OR. Nei, 5% maðurinn í borgarstjórn hann hafði séð um allt og var gjörspilltur að auki. 7 fulltrúaflokkurinn hafði látið 5% manninn plata sig. Sjáið, hann lét REI ráða kosningarstjóra Framsóknar, en við skulum ekki nefna að Villi lét þá ráða systurson sinn (sem var örugglega vel að starfinu kominn). Villi er grandvar og heiðarlegur maður sem lét hinn spillta Björn Inga plata sig. Þetta er farið að minna á slagorð Survivor-þáttanna - Outwit - Outplay - Outlast. Come on. Fólk sem lætur fara svona illa með sig á ekki að vera í borgarstjórn. Ef það getur ekki passað betur upp á það sem því var falið, þá á það að fara til annarra og ekki eins krefjandi starfa. Meirihlutasamstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sprakk vegna þess að Sjálfstæðismenn voru ekki með hugann við verkið. Þetta er ekki heimsmeistaramót í bridds, þar sem hægt er að brosa sig í gengum verkefnin. Þetta er heldur ekki leynifélag, þar sem hægt er að þagga niður í lýðræðislegri umræðu vegna þess að formaðurinn vill það (sbr. blogg Dofra Hermannssonar um menntaráð). Og svo að skotið sé á OR líka, þetta er ekki einkafyrirtæki þar sem hægt er að sniðganga þau vinnubrögð sem opinberum aðilum er skylt að fara eftir (sbr. spurningar Umboðsmanns Alþingis).
Ég vil taka það fram, að ég vonaði að fyrrverandi meirihluti myndi ná að ljúka mörgum af þeim góðu verkefnum sem hann stefndi að (það er kannski þess vegna sem þetta mál pirrar mig svona). Ég er þeirrar skoðunar að það sé holt fyrir öll sveitarfélög að skipta um meirihluta á 8 ára fresti, en ég held líka að 8 ár sé lágmarkstími, ef verkin eiga að ná að tala. R-listinn var búinn að vera of lengi við völd, nákvæmlega eins og D-listinn áður. Ekki það að R-listinn var búinn að gera margt gott, alveg eins og D-listinn áður. Það er samt öllu flokkum holt að setjast á hliðarlínuna öðru hvoru, þó ekki væri nema til að öðlast nýja sýn á verk sín og fyrirliggjandi viðfangsefni. Opinber stjórnsýsla snýst ekki um það hver kemst fyrstur yfir endalínuna eða getur stært sig af flottustu framkvæmdunum. Hún snýst um að halda hlutunum gangandi, sama hvað dynur á. Þess vegna er sorglegt til þess að hugsa, að það sem líklegast hefði orðið stærsta og flottasta minnismerki fyrrverandi meirihluta, varð honum að falli í einhverju stundarbrjálæði.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.12.2007 kl. 13:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
18.10.2007 | 14:50
Stóri dómur - Samræmd próf hjá 9 ára börnum
Í dag er stundin mikla runnin upp. Mæla á samræmt getu 9 ára barna í stærðfræði og íslensku. Það eru örugglega einhverjar rannsóknir að baki þeirri ákvörðun að 9 ára börn eigi að ganga í gegnum þá kvöl og pínu sem í þessum samræmdu prófum fylgir. Ég þekki ekki niðurstöður þeirra rannsókna, en hef verið að fylgjast með barninu mínu smátt og smátt stressast upp, fá magaverki, eiga erfiðara með að sofna og allt hitt sem fylgir með. Þetta er þrátt fyrir að skólinn sem það sækir, hafi reynt að gera prófin eins og kostur er hluta af venjulegum skóladegi.
Þetta er í þriðja sinn sem eitt af börnum mínum fer í gegnum þessa prófraun, þ.e. samræmd próf í 4. bekk. Í fyrsta skiptið vissum við ekki alveg við hverju var að búast, en erum sífellt að verða betur undirbúin. En það er sama hvernig ég lít á þetta, þá sé ég ekki tilganginn. Hvað er verið að mæla?
Stöðu barnsins? Barn sem fætt er í lok desember 1998 er nærri því ári yngra en barn sem fætt er í janúar sama ár. Þarna munar um 10% af aldri eldra barnsins, en ríflega 11% af aldri þess yngra. Það er út í hött að prófið gefi til kynna stöðu barnsins. Það er miklu nær að setja þau í þroskapróf.
Getu kennara? Árgangar eru misjafnir og kennarar líka. Kennari getur fengið bekk sem einstaklega vel undir það búinn að taka svona próf og því brillera á því og síðan getur sami kennari fengið bekk sem er hreinlega ekki hægt að örva eða í bekknum myndast neikvætt hugarástand. Fyrir utan það, að mjög miklar líkur eru á því að kennarinn hafi bara verið með börnin í innan við 2 mánuði og hann sé því að mestu að njóta frammistöðu annarra kennara.
Stöðu skólans? Hvernig getur mat á árangri 9 ára barna í samræmdu prófi sagt til um stöðu skólans?
Stöðu kennslunnar? Í mörgum grunnskólum er svo mikil velta á kennaraliði árlega, að það liggur við að skipt sé um alla kennara á tveggja ára fresti. Það er ekki hægt að gera samanburðarrannsóknir á kennslu milli ára vegna þess að til að samanburðurinn sé marktækur, þá þarf kennaraliðið að vera það sama.
Getu skólans til að halda í starfsfólk? Þetta hlýtur að vera ástæðan, því hinar ganga ekki upp.
Árangur 9 ára barns í samræmdu prófi sem tekið er um miðjan október er ekki nýtilegt í neinar alvöru rannsóknir. Það er heldur ekki nýtilegt til að ákvarða hvort barnið þurfi stuðning eða hvort skólinn þurfi að bæta sig eða hvort kennari sé að standa sig vel. Ef þetta próf væri í mars, væri hugsanlega hægt að nota niðurstöðurnar til að meta kennsluna.
Á tímum, þegar skólar eru í ríku mæli að taka upp einstaklingsmiðað nám og jafnvel einstaklingsmiðuð próf, þá eru samræmd próf tímaskekkja. Fyrir utan að það er hrein mannvonska að láta 9 ára gömul börn (raunar eru sum ennþá 8 ára) ganga í gegnum það ferli sem í prófunum felst. Það er alveg sama hvað gert er lítið úr mikilvægi prófsins, þá eru þau ekki það vitlaus að skilja ekki mikilvægið.
Ég skora á menntamálayfirvöld að leggja þessi próf af ekki seinna en í dag og koma þannig í veg fyrir að fleiri svona ung börn þurfi að ganga í gegnum þessa þolraun.
Menntun og skóli | Breytt 14.12.2007 kl. 13:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
17.10.2007 | 21:02
Ég segi enn og aftur: Aðeins eitt verk óunnið hjá Eyjólfi
Eftir rassskellingu gegn Svíum og jafnteflið við Liecthenstein í vor, þá sagðist Eyjólfur eiga margt eftir ógert með liðið. Þá bloggaði ég eftirfarandi:
(06.06.2007)
Aðeins eitt verk óunnið
Mér sýnist sem Eyjólfur Sverrisson eigi aðeins eitt verk óunnið varðandi íslenska landsliðið og það er að segja af sér. Það er með ólíkindum, að hann hafi ekki íhugað afsögn og að hann hafi fullan stuðning stjórnar KSÍ.
Eyjólfur, gerðu það sem er rétt í þessari stöðu og segðu af þér. Það eru 3 mánuðir í næstu leiki og því ætti að gefast góður tími að finna eftirmann.
Vissulega höfum við náð í 4 stig síðan, en að fá 7 mörk á sig á móti Lettlandi og Liechtenstein í tveimur leikjum er of mikið af því góða. Eyjólfur sjáðu sóma þinn í því að segja af þér og fáum nýjan þjálfara til að stjórna liðinu á móti Dönum. Við náðum í 1 stig á móti veikustu mótherjum okkar eða jafn mörg og á móti efstu tveimur liðunum. Með eðlilegum úrslitum (þ.e. tvöföldum sigrum gegn þessum veiku þjóðum) þá værum við í 3. sæti í riðlinum, en í staðinn getum við þakkað fyrir að vera ekki neðstir.
Til hamingju til Liechtenstein fyrir vel skipulagðan leik og góða baráttu. Þið áttuð þetta skilið.
Ljótur skellur Íslands í Liechtenstein | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt 14.12.2007 kl. 13:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.10.2007 | 15:00
Af stjúpum, fóstrum, stjúpbörnum, fósturbörnum og kjörbörnum
Einhverra hluta vegna er notkun fólks á tveimur forliðum, þ.e. stjúp- og fóstur-, farinn að ruglast þannig að maður er hættur að vita hvort átt er við stjúp- hitt eða þetta eða fóstur- hitt eða þetta.
Í Íslenskri orðabók Menningarsjóðs kemur fram að fósturbörn eru þau sem sett eru í fóstur til annars fólks, en stjúpbörn eru þau börn sem einstaklingur hefur á sameiginlegu heimili sínu og annars foreldris barnanna.
Ástæðan fyrir þessum pirringi mínum er að fréttamenn tala ítrekað um Borgar Þór Einarsson sem fósturson forsætisráðherra, en hið rétta er að Borgar er STJÚPSONUR Geirs, þar sem eiginkona Geirs, Inga Jóna Þórðardóttir, er móðir Borgars. Svo vitnað sé beint í Íslenska orðabók Menningarsjóðs, þá segir þar um stjúpbarn og stjúpfaðir svo dæmi séu tekin:
stjúpbarn: barn maka þess sem um er rætt og hann/hún gengur í föðurstað/móðurstað
stjúpfaðir: karl sem er kvæntur eða býr með móður þess sem um er rætt og kemur honum/henni í föðurstað, stjúpi
Skilgreining á fósturbarni verður að sækja í gegnum orðið fóstur:
fóstur (í merkingu að láta barn sitt í fóstur): uppeldi hjá öðrum en foreldrum
Loks er til orðið kjörbarn, en það á við um ættleitt barn.
Miðað við þessar skýringar, þá er Geir H. Haarde stjúpfaðir Borgars, sem er aftur stjúpsonur Geirs. Ættleiði Geir Borgar einhvern tímann, þá verður Borgar kjörsonur Geirs. En það er eitt sem er alveg á hreinu: Borgar hefur aldrei verði og verður aldrei fóstursonur Geirs.
Það getur vel verið, að það sé eitthvað viðkvæmt að tala um stjúpforeldra og stjúpbörn, en köllum hlutina réttum nöfnum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.10.2007 | 10:00
Einbýlishúsið orðið að 1,8 milljarði
Fyrir mjög mörgum árum, þá var stofnað fyrirtæki sem fékk nafnið HP á Íslandi. Að stofnun fyrirtækisins komu nokkrir ungir menn og síðan útibú HP tölvufyrirtækisins í Danmörku. Einn þessara ungu manna hafði um nokkurt skeið unnið hjá Kristjáni Ó Skagfjörð við sölu á tölvubúnaði, m.a. frá stórfyrirtækinu Digital Equipment Corporation. Þessi maður heitir Frosti Bergsson.
Rekstur HP á Íslandi gekk svona upp og ofan og svo kom að HP í Danmörku vildi draga sig út úr samstarfinu. Þá stóðu hinir eigendurnir frammi fyrir vanda, því á þeim tíma var aðgangurinn að fjármagni ekki eins góður og í dag. Frosti tók mikla áhættu og seldi einbýlishúsið sitt og keypti frekar íbúð í blokk til að geta keypt hlut HP í Danmörku í því íslenska. Þó svo að ýmislegt hafi gerst í millitíðinni, þá má segja að einbýlishúsið sé nú orðið að 1,8 milljarði króna. Ekki léleg fjárfesting það.
Til hamingju, Frosti, þú sannar það enn og einu sinni, að líkt og kötturinn, þá kemur þú alltaf niður standandi.
Viðskipti og fjármál | Breytt 14.12.2007 kl. 13:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.10.2007 | 14:45
Holur 9, 10 og 14 voru dýrkeyptar
Sviptingar hjá Birgi í Madrid | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt 14.12.2007 kl. 13:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.10.2007 | 17:04
Gátlisti sjálfstæðismanna fundinn
Hann er fundinn gátlistinn sem sjálfstæðismenn hafa notað undanfarna daga eftir að sameining REI og GGE var kynnt. Fyrir hvert atriði hefur verið krotuð inn athugasemd um það hvernig tókst til:
1. Reyna hallarbyltingu - Búið að reyna, gekk ekki
2. Klaga í Geir - Búið, breytti engu
3. Tala illa um Vilhjálm, en ekki koma fram undir nafni - Búið, gekk ekki
4. Taka Vilhjálm á beinið - Villi lofaði að vera þægur og skipta um skoðun
5. Segjast ekkert hafa vitað - Það trúði okkur enginn, samt setti Gísli Marteinn upp englasvipinn sinn. Við héldum að það myndi nú örugglega ganga.
6. Finna nýja lausn og kynna hana fyrir blaðamönnum - fundurinn gekk vel, en Björn Ingi segir þetta ekki vera tillögu meirihlutans - við hefðum kannski átt að tala við Björn Inga áður
7. Segja Birni Inga að samþykkja tillögur okkar - Búið, en Björn Ingi vill það ekki. Segir að þetta sé gott viðskiptamódel og við frjálshyggjufólkið ættum að skilja það.
8. Hringja í Svandísi og bjóða henni samstarf - Búið, en hún var efins
9. Hringja í Dag og bjóða honum samstarf - Búið, en hann var efins
10. Hringja í Ólaf og Margréti og bjóða þeim samstarf - Búið, en Ólafur er ennþá sár frá því í fyrra
11. Bjóða Birni Inga á fund - Fundurinn var haldinn, en Björn Ingi er ekki sammála okkur. Hann tók þó í höndina á Villa, þannig að þetta hlýtur að vera í lagi.
12. Fara á borgarstjórnarfund og gagnrýna samninginn - Búið, en það trúði okkur enginn. Fólk segir að við hlutum að hafa vitað eitthvað.
13. Þvertaka fyrir í fjölmiðlum að meirihlutinn sé ótraustur - Búið. Kjartan og Gísli Marteinn stóðu sig vel í viðtölum og fréttamenn virtust trúa okkur. Við vorum samt rosalega óviss sjálf, enda búnin að vera að tala við hina um að koma inn í meirihlutann í staðinn fyrir Björn Inga
14. Vera ofsalega hissa ef Björn Ingi slítur samstarfinu - Helvískur, hann tók af okkur glæpinn. Við skiljum ekkert í því að hinir vildu bara vera með Birni Inga. Hann hlýtur að boðið þeim mútur eða eitthvað svoleiðis. Já, hann er spilltur.
15. Kalla Björn Inga öllum illum nöfnum - Heyrðu fjölmiðlarnir virðast gleypa við þessu. Siggi Kári fékk að kalla Björn Inga siðlausan, spilltan, óheiðarlegan og allir fjölmiðlar birtu þetta. Og Bjössi Bjarna kallaði hann loddara á vefsíðunni sinni. Vá, hvað þetta gekk og fjölmiðlarnir hafa ekkert minnst á að Villi tók þátt í öllu þessu með honum og vita ekki að við vorum líka að tala við hina.
16. Kenna Birni Inga um allt, hann hefði bara geta samþykkt það sem við lögðum til - Búið, gekk ekki. Fjölmiðlarnir eru líka leiðinlegir við Hönnu Birnu eftir að hún mismælti sig. Þetta var alveg rétt hjá henni. Hann hefði bara geta fallist á það sem við sögðum.
17. Saka Björn Inga um eiginhagsmunagæslu - fjölmiðlarnir voru ekki eins trúaðir á þetta en þeir minnast samt ekkert ennþá á að Villi tók þátt í þessu með honum og það voru 2 sjálfstæðismenn með honum í stjórn.
18. Vera ofsalega svekkt og sár - Vá, sáuð þið myndina af okkur í Mogganum. Það er bara eins og Davíð hefði dáið. En Villi er búinn að berja okkur til hlýðni. Við erum búin að lofa að vera þæg og styðja hann.
19. Saka Björn Inga um að ganga erinda Framsóknarflokksins. - Fréttablaðið kokgleypti þetta og sló upp á forsíðu. Enda hefur það alltaf gengið að saka Framsókn um spillingu. Við verðum samt að passa okkur á því að segja ekki hvað það eru margir sjálfstæðismenn sem eiga hlut í GGE.
Nú er bara að bíða og sjá hvaða atriði til viðbótar voru á gátlistanum. Kannski einhverjir aðrir hafi fleiri atriði.
(Þetta er að sjálfsögðu allt til gamans gert.)
Dægurmál | Breytt 14.12.2007 kl. 13:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.9.): 6
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 42
- Frá upphafi: 1679457
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 25
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Mar[i]nó ætti að hlusta betur á Björn Inga Hrafnsson, sem taldi framtíðarvirðið sennilega nærri 400 milljörðum króna.