Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Ákvörðun um greiðsluverkfall stendur óhögguð

Tilkynning frá Hagsmunasamtökum heimilanna

Í dag lagði félagsmálaráðherra fram tillögur að aðgerðum sem samkvæmt upplýsingum á vef Stjórnarráðsins "fela í sér umtalsverða leiðréttingu á greiðslubyrði af lánum og nýjar leiðir til að laga skuldir fólks að eignastöðu og greiðslugetu".  Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna hefur lengi beðið eftir að fram komi tillögur frá stjórnvöldum og telja að framlagðar tillögur séu mikilvæg viðurkenning á baráttu þeirra fyrir hagsmunum heimilanna.  Stjórnin mun nú leggjast yfir tillögurnar og fylgiefni og fyrst að þeirri yfirlegu lokinni munu samtökin koma með ítarleg viðbrögð við innihaldi þeirra.  Gera samtökin ráð fyrir að álit þeirra muni liggja fyrir fljótlega.  En við fyrstu sýn telja samtökin að tillögurnar séu ófullnægjandi.

Ákvörðun um greiðsluverkfall stendur því óhögguð.

mbl.is Þak sett á greiðslujöfnun lána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leið til að forðast auknar álögur á fólk og fyrirtæki

Ríkisstjórnin er að leita leiða til að loka fjárlagagatinu margfræga.  Í sumar kom ég með hugmynd, sem ekki fékk hljómgrunn og vil ég endurtaka hana núna.  Hún kallar á samstarf launþegar, atvinnurekenda og stjórnvalda.  Ég vil meina að hún sé sársaukalausasta skattahækkun sem hægt er að fara út í og það sem skiptir mestu máli, hún skilar sér ekki út í verðlagið og þar með í lánin okkar.

Tillagan er einföld:  Launþegar samþykkja að færa 3-4% af mótframlagi launagreiðenda í lífeyrissjóð tímabundið yfir í tryggingagjald, sem hækkar þá sem því nemur.  Þetta gildi í 3-4 ár og gangi til baka eftir það.  Áætlaðar tekjur ríkissjóðs af aðgerðinni yrði 22,5-30 milljarðar á ári.  Áhrif aðgerðarinnar á verðbólgu væri engin og þar með hefði þetta engin áhrif á verðbætur lána.  Áhrifin á ráðstöfunartekjur heimila og fyrirtækja væru engin.  Þetta hefði vissulega áhrif á innstreymi fjár í lífeyrissjóðina, sem næmi allt að þriðjungi af ársinngreiðslu iðgjalda.  Þetta hefði líka neikvæð áhrif á réttindaávinning sjóðfélaga, en þarf ekki að hafa neikvæð áhrif á útgreiddan lífeyri þeirra sem eru núna að greiða í lífeyrissjóði.  Verði áhrif neikvæð á áunnin réttindin, þegar kemur að útgreiðslu lífeyris, þá verða þau áhrif lítil eða á bilinu 2 - 4%.  Vissulega munar fólk um slíkar fjárhæðir, en líklegast mun markviss fjárfestingastefna og -stjórnun á næstu árum og áratugum vinna upp tapið.

Einn stór kostur er við þess tillögu umfram þá að skattleggja iðgjöld áður en þau fara inn í lífeyrissjóðina.  Skattlegging kallar á það, að stofna þarf nýja deild í hverjum og einum lífeyrissjóði og flækir utanumhald.  Mín leið leiðir ekkert slíkt af sér.  Iðgjöldin eru meðhöndluð á sama hátt og áður, það er bara lægri upphæð sem kemur inn.  Vissulega þyrfti að gera smávægilegar breytingar á upplýsingakerfum, en ég efast um að þær yrðu eins flóknar og þær sem þyrfti að gera ef farin er leið skattlagningar.

Ég geri mér grein fyrir að einhverjir verða viðkvæmir fyrir þessari hugmynd, en staðreyndin er að ríkið þarf að auka skatttekjur sínar.  Spurningin er bara hvaðan þær eiga að koma.  Á þetta að bitna á ráðstöfunartekjum almennings núna, sem hefur áhrif á neyslu og þar með lækkar neysluskatttekjur ríkisins, eða á þetta að bitna á ráðstöfunartekjum okkar í framtíðinni, auk þess sem óvíst er að nokkur skerðing verði. Ef ég hefði val, þá veit ég hvorn kostinn ég veldi.


Greiðsluverkfall til að þrýsta á réttláta lausn

Það hefur verið rætt um það og ritað síðustu daga hver tilgangurinn sé með boðuðu greiðsluverkfalli Hagsmunasamtaka heimilanna fyrst svo margar tillögur eru i farvatninu til lausnar á vanda heimilanna.  Ástæðan fyrir því er einföld.  Ennþá hefur ENGIN tillaga birst sem viðurkennir að fjármálafyrirtæki hafi farið ránshendi um eigur heimilanna og að heimilin eigi skýlausan rétt á að fá tjón sitt bætt.  Vissulega er félagsmálaráðherra ekki búinn að birta sínar tillögur og þar gæti komið eitthvað áhugavert, en þar til að vitað er hvað kemur upp úr hatti ráðherra, þá hefur ekkert breyst og forsendur greiðsluverkfallsins standa.  Komi síðan úr dúrnum að tillögur ráðherra eru ásættanlegar eða byggja megi á þeim til að leysa vandann, þá mun verkfallsstjórn greiðsluverkfallsins ákveða hvort verkfalli verður frestað til að skapa rými til viðræðna. Verkfalli verður ekki aflýst nema félagsfundur samtakanna taki ákvörðun um slíkt.

Væntanlegt greiðsluverkfall hefur greinilega hrist upp í stjórnvöldum og bönkunum.  Er það hið besta mál.  Það sýnir að samtakamáttur almennings getur áorkað miklu. Það er greinilegt að menn óttast greiðsluverkfallið og við þurfum því að láta þá skilja, að það sé full ástæða fyrir þeim ótta.

Stöndum saman og förum í greiðsluverkfall.


Koma verður böndum á verðbólgu og setja þak á verðbætur

Ríkisstjórninni er að misheppnast eitt helsta verkefni sitt, það er að koma böndum á verðbólguna.  0,78% hækkun milli mánaða er meiri hækkun en varð frá júní og fram í ágúst og er þriðja mesta hækkun ársins.  Aðeins maí og júní voru verri.  Þetta eru því hræðilegar fréttir, þrátt fyrir að Pollýanna blaðamannsins hefi komist að því að 10,8% ársverðbólga sé sú lægsta frá því í mars 2008.

Langtímaspár frá því fyrr á árinu voru allar búnar að gera ráð fyrir að verðbólgan yrði komin niður fyrir 10% núna.  En að hún sé að mælast 10,8% og að verðbólgu hraðinn hafi verið að aukast aftur er ekki góðs viti.  Hvað gerist þá um áramót þegar ríkisstjórnin eykur skattbyrðina á landsmönnum um tugi milljarða?

Til þess að sporna við því að aukin verðbólga stuðli að hækkun fjárskuldbindinga, þá sé ég ekki nema eitt ráð.  Setja þarf þak á verðbætur.  Hagsmunasamtök heimilanna hafa talað fyrir 4% þaki á verðbætur frá 1. janúar 2008 og held ég að stjórnvöld eigi að huga vandlega að þessum kosti.  Ef þau vilja ekki fara aftur til 1. janúar 2008, þá er a.m.k. nauðsynlegt að setja það frá og með áramótum.  Það gengur ekki að verðtryggðra skuldir hækki og hækki vegna þess að Seðlabankanum og ríkisstjórn mistekst það ætlunarverk sitt að koma á stöðugleika.  (Nema að þessir aðilar kalli stöðuga 10,85 verðbólgu stöðugleika.)  Ég skora á stjórnvöld að hugleiða þennan möguleika af alvöru.  Skuldastaða almennings er nógu alvarleg, þó að hún versni nú ekki frekar.


mbl.is Verðbólgan nú 10,8%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlæilegt tilboð Íslandsbanka

Höfuðstóll gengistryggðra lána hefur hækkað um 100% (50% lækkun krónunnar) og Íslandsbanki býður 25% lækkun, sem nemur því að taka helminginn af hækkuninni til baka.  10 milljón króna lán sem orðið var að 20 m.kr. fer niður í 15 m.kr.  Ef þeir hefðu boðið leiðréttingu í 11-12 m.kr., þá hefði mátt ræða málið.  Nei, þetta er eins og þjófurinn sem stal tveimur sjónvörpum ætli að skila öðru.

Íslandsbanki verður að bjóða betur, ef hann vill láta taka sig alvarlega.  Gleymir hann því að mikil vafi leikur á um lögmæti gengistryggðra lána?

Það eru aftur frábærar fréttir að ríkisskattstjóri telur leiðréttinguna ekki skattskylda.


mbl.is 25% lækkun höfuðstóls lánanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Greiðslubyrði færð aftur fyrir hrun

Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, lýsti því yfir á fundi Samfylkingarinnar í Garðabæ í dag, að fara eigi í aðgerðir fyrir heimilin.  Hvað er nákvæmlega átt við verður kynnt á næstu dögum.  Heimildir fréttastofu Stöðvar 2 eru að færa eigi greiðslubyrði verðtryggðra og gengisbundinna húsnæðis- og bílalána aftur fyrir hrun bankanna og krónunnar. 

Ég vil byrja á því að lýsa ánægju minni með að stjórnvöld hafa loksins tekið af skarið.  Ég hef að sjálfsögðu allan varann á.  Kálið er ekki sopið þó í ausuna sé komið.  Eins skiptir máli hver er dagsetning hrunsins, ef heimildir fréttastofu Stöðvar 2 eru réttar.

Sé dagsetning hrunsins 27. september 2008 eða síðar, þá eru boðaðar aðgerðir ekki nóg, þó vissulega sé margt vel gert.  Ég vil ekki hljóma vanþakklátur, en 27. september 2008 stóð gengisvísitalan í 178 stigum, þ.e. 58 stigum hærri en 1. janúar 2008 eða sem nemur 32% lækkun krónunnar.  Og ef við skoðum svissneska frankann og japanska jenið, þá erum við að tala um meira en 50% hækkun lána í þeim myntum.  Verðbólga var 27% frá ágúst 2007 til sama mánaðar 2009, en bara 10,9% frá ágúst 2008 til sama mánaðar 2009.  Skellur lántakenda yrði því talsverður eftir sem áður.  Sé dagsetningin 7. mars, þá er þetta frábært.  Þá stóð gengisvísitalan í 135 og verðbólgan frá ágúst 2007 til mars 2008 var eingöngu 6,3%. 

Ég vil samt fagna þessari ákvörðun stjórnvalda og þakka þeim fyrir að hafa loksins hlustað á málflutning Hagsmunasamtaka heimilanna.  Það var tími til kominn.  En eins og svo oft áður, þá ber dag að kvöldi lofa og mey að morgni. Nú bíð ég bara spenntur.


Hrunið - hluti 1: Peningamálastjórnun Seðlabanka Íslands og íslenska flotkrónan

Það var í marsmánuði 2001 að krónan var sett á flot.  Sett höfðu verið ný lög um Seðlabanka Íslands og samkvæmt þeim var hlutverk bankans að nokkru endurskilgreint. Meginmarkmið bankans varð nú að stuðla að stöðugu verðlagi.  Það var sem sagt þessi lagasetning frá Alþingi, sem hratt af stað atburðarrás sem við erum í dag að súpa seyðið af.

Krónan, sem var þá og er enn (að því ég best veit) minnsti sjálfstæði gjaldmiðill í heimi, átti að standa á eigin fótum innan um risagjaldmiðla landanna í kringum okkur.  Meðan flestar þjóðir voru að flýja með gjaldmiðla sína í skjól eða hreinlega gefa þá upp á bátinn, var traust ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar svo mikil á flothæfi krónunnar, að sett var í lög að henni ætti kastað út í djúpu laugina án tillits til aðstæðna.  Samhliða þessu voru tekin upp verðbólgumarkmið sem höfðu það að markmiði að tryggja stöðugleika í hagkerfinu.  Vissulega hafði Seðlabankinn einhver tæki til að hjálpa krónunni og tryggja stöðugleikann, en gallinn var, að þau voru þegar í notkun.

Ég veit ekki hvers vegna ákveðið var að fara þá leið sem var farin. Hafa skal í huga, að þegar verðbólgumarkmið voru tekin upp og krónan sett á flot, þá hafði verið talsverð verðbólga samanborið við árin á undan. Til að vinna gegn verðbólgunni hafði Seðlabankinn hækkað stýrivexti talsvert.  Ef við skoðum verðbólgu áranna 1995 - 1999, þá var verðbólgan nær allan tímann undir 2,5% og stóran hluta tímans undir 2%.  Stýrivextir höfðu því einnig verið hóflegir í sögulegu samhengi, þó raunstýrivexti væru almennt á bilinu 4,5 - 5,0%.  Þetta tímabil er líklegast lengsta tímabil minnar ævi sem við Íslendingar höfum búið við jafn lága verðbólgu.  Líklegast var það í því ljósi sem ráðamenn töldu tækifæri að setja krónuna á flot.  En þetta reyndist bara lognið á undan storminum.

Haustið 1999 fór að gefa á bátinn.  Verðbólga fór að aukast og var stýrivöxtum að hluta beitt til að sporna við því.  Það gekk eftir, þ.e. verðbólgan lækkaði, en stýrivöxtunum var haldið áfram háum.  Raunstýrivextir sem höfðu verið í kringum 5% fóru upp í allt að 7,9% í janúar 2001.  En það sem meira var, að í rúmt ár áður en krónan var sett á flot og verðbólgumarkmiðin tekin upp voru stýrivextir yfir 10%.  Fóru þeir hæst í 11,4%.  Með því fór það borð fyrir báru, sem þörf var á við fleytingu krónunnar.  Krónan hefði hugsanlega átt einhvern möguleika, ef stýrivextirnir hefðu hækkað úr 5% í 10% um leið og krónunni var fleytt.  En því miður var búið að nota þau hjálpartæki og því fór sem fór.

Ég er ekki hagfræðingur, en mér finnst vera nokkuð öfugsnúið að setja krónuna á flot í þessu ástandi.  Fyrst á annað borð menn voru einbeittir í að fleyta krónunni, þá hefði átt að bíða með það og að taka upp verðbólgumarkmið þar til hægt hafði um.  Menn setja ekki ósynt barnið út í öldulaug og segja því að synda.  Nei, menn finna grunna laug, barnalaug, og búa barnið með kút og kork.  Rétti tíminn til að setja krónuna á flot hefði verið í undir 2% verðbólgu og með stýrivexti undir 6%.  Ég skil vel áhuga manna á að gera Ísland að frjálsu og opnu hagkerfi, en þessi tilraun var dæmd til að mistakast, sem hún og gerði.  En það er mín skoðun, að aldrei átti að setja krónuna á flot án tengingar við aðra mynt.

Höfum í huga að helsta verkefni Seðlabankans var að sinna viðfangsefnum á sviði fjármálastöðugleika auk þess að halda verðlagi hér stöðugu. En svo vitnað sé í orð þáverandi Seðlabankastjóra, Birgis Ísleifs Gunnarssonar, á ráðstefnu evrópskra samtaka hagfræðinga 3. júní 2004:

Þegar verðbólgumarkmið var gert að kjölfestu peningastefn­unnar gætti mikils ójafnvægis í hagkerfinu. Mikið þensluskeið hófst á seinni hluta síðasta áratugar. Í upphafi einkenndist það af beinni erlendri fjárfestingu og útflutningi, og þá var þjóðarbúið í tiltölulega góðu jafn­vægi. Síðar breyttist þenslan í ofþenslu og mikinn vöxt einkaneyslu sem var drifinn áfram m.a. af hröðum vexti útlána á fjármálamarkaði þar sem frelsi til athafna hafði verið aukið til muna. Ójafnvægi myndaðist í þjóðarbúskapnum.

Með tímanum leiddi vaxandi ójafnvægi til þess að væntingar breyttust til hins verra, a.m.k. að hluta til vegna ört vaxandi viðskiptahalla við útlönd. Gengi krónunnar tók að lækka og lækkaði um þriðjung á einu og hálfu ári þar til síðla árs 2001. Þessi framvinda hafði áhrif á verð­bólgu þar sem hækkandi innflutningsverð kom fram í innlendu verð­lagi. Þegar verðbólgumarkmið var tekið upp var hækkun vísitölu neysluverðs síðustu tólf mánuði 4%. Gengi krónunnar hélt áfram að lækka um sinn, og verðbólga fór töluvert upp fyrir efri þolmörk verð­bólgumarkmiðsins. Seðlabankinn fylgdi aðhaldssamri peninga­stefnu og hækkaði stýrivexti sína jafnt og þétt í sögulegt hámark.

Vissulega rétti hagkerfið úr kútnum, en það var bara logið á undan öðrum stormi.

Í september 2004 hækkaði Seðlabankinn stýrivexti úr 6,25% í 6,75%.  Ef horft er á verðbólgutölur á þeim tíma er fátt sem réttlætir þessa hækkun.  Verðbólga hafði vissulega hækkað lítillega í maí, en hún var ennþá vel innan efri vikmarka sem voru 4%.  Seðlabankinn lét ekki þar við sitja og hækkaði stýrivexti aftur í nóvember 2004 og þá í 7,25%.  Á rúmlega hálfu ári höfðu stýrivextir hækkað um all 1,75% (úr 5,5% í maí) og meira átti eftir að fylgja.  Afleiðing af þessu var styrking krónunnar, líklegast vegna spákaupmennsku.  Frá september 2004 til janúar 2006 lækkaði gengisvísitalan um ríflega 20 punkta.  Á þeim tíma fór 1 evra úr kr. 87,62 (meðalgengi mánaðarins) í kr. 74,56 (fór reyndar lægst í kr. 72,96).  Þetta er um 15% styrking gengis án þess að nokkuð í hagkerfinu gæfi tilefni til þessarar styrkingar fyrir utan aðgerða Seðlabankans.  Bankinn lét nefnilega ekki staðar numið við 7,25% stýrivexti.  Nei, aldeilis ekki.  Stýrivextir voru hækkaðir skref fyrir skref upp í 10,50% og stóðu þar í janúar 2006.

Styrking krónunnar og hækkun stýrivaxta virkuðu eins og segulstál á erlent fjármagn og innflutning.  Gengið toppaði með gengisvísitölu í rétt rúmum 100 stigum.  Þar sem þetta gerðist samhliða innleiðingu Basel II regluverksins, hafði aðgangur að ódýru fjármagni aukist mjög hratt á sama tíma og fjármálafyrirtæki höfðu aukið svigrúm til bæði lánveitinga og lántöku.  En það sem var líklega verst við þetta allt, var að efnahagsreikningar íslensku bankanna þriggja höfðu styrkst í erlendri mynt út á það eitt að krónan hafði styrkst.  Það var ekkert í innviðum bankanna hélt uppi þessari styrkingu, eins og ýmsir erlendir aðilar bentu á.  Styrking efnahagsreikningsins gerði það að verkum að geta þeirra til að fá lán og veita lán jókst mjög mikið.  En þessu fylgdi hætta.  Þar sem efnahagsreikningur bankanna var í íslenskum krónum, þá voru þeir mjög viðkvæmir fyrir sveiflum á gengi krónunnar. 

Seðlabankinn átti aldrei að leyfa genginu að styrkjast jafn mikið og raun bar vitni á þessum tíma.  Í því fólust stóru mistökin.  Það er vel þekkt lögmál í hagfræði, að auka eigi framboð, ef aukning eftirspurnar er að leiða til ójafnvægis, og draga eigi úr framboði, ef samdráttur í eftirspurn leiðir til ójafnvægis.  Seðlabankinn hefði því átt að auka framboð á krónum um leið og gengið fór að styrkjast umfram jafnvægisgengi eða raungengi síðustu ára á undan.  Með því hefði bankinn bæði spornað við of mikilli styrkingu krónunnar og aukið gjaldeyrisforðann sinn.  Nú, hvaðan áttu krónurnar að koma?  Ekki gekk að prenta peninga, því það hefði valdið verðbólgu.  Nei, þetta varð að gera með útgáfu skuldabréfa sem seld voru á innlendum markaði, hækkun bindiskyldu bankanna og öðrum peningalegum aðgerðum sem bundið hefði innlent fjármagn í Seðlabankanum.  Með því hefði unnist tvennt:  Í fyrsta lagi hefði Seðlabankinn fengið krónur til að bjóða á gjaldeyrismarkaði og í öðru lagi hefði bankinn minnkað peningamagn í umferð.  Ok, eitthvað af þessum krónum hefðu bara farið hringferð, þ.e. bankarnir keypt skuldabréf af Seðlabankanum og síðan selt gjaldeyri, en með hverjum hringnum þá hefði lausafé bankanna minnkað, en eignir þeirra aukist.  En þetta var ekki það sem Seðlabankinn gerði og því fór sem fór.

Nú segir einhver að þetta sé eftiráspeki.  En svo er ekki.  Þetta eru allt algildar og viðurkenndar hagfræðikenningar.  Greiningardeild KB banka (eða hét það Kaupþing þá) varaði meira að segja við þróuninni vorið 2003.  (Já, ég veit að greiningardeildin þykir ekki merkilegur pappír í dag, en hún var það þá.) Í skýrslu deildarinnar er lýst nákvæmlega hvað gæti gerst, ef þáverandi peningamálastjórn yrði haldið áfram.  Það er sláandi að sjá hvað þeim rataðist rétt á.

Það er sama hvernig ég lít á peningamálastjórn Seðlabankans frá 2001 fram á haust 2008, hún fær falleinkunn.  Ég er ekki að segja að hún ein eigi sök á hruninu, en hún er mikilvægt stykki í heildarmyndinni. Höfum í huga að á þeim 104 mánuðum síðan verðbólgumarkmið voru tekin upp, hefur verðbólga aðeins 16 sinnum verið innan við 2,5% og önnur 20 skipti milli 2,5 og 4,0%.  Í 36 skipti af 104.  Það getur varla talist góður árangur.  Á þessu tímabili hefur verðbólgan verið alls 70,0% í staðinn fyrir 22,6%, ef 2,5% markinu hefði verið náð.  Munurinn er 47,4%!  Það samsvarar því að þriðjungur af verðbótum verðtryggðra fjárskuldbindinga á þessu tímabili væru þurrkaðar út.

Stærstu mistökin þessu tengt eru þó ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Að halda virkilega að íslenska örmyntin gæti flotið stöðug innan um stóru myntirnar.  Hverjum datt þetta eiginlega í hug?  Í því drambi felst fall okkar og allt annað er meira og minna afleiðing þess.  Danir sem eru með 20-30 falt stærri hagkerfi og öflugra myntkerfi treysta sér ekki til að vera í frjálsu floti.  Flestar þjóðir innan ESB tóku upp evru við fyrsta tækifæri (þó sumar sjái eftir því núna).  Staðreyndin er að íslenska krónan er of lítil og veikburða til að fljóta af eigin rammleika.  Seðlabanki Íslands var og er of fátækur til að styðja við krónuna.  Og ríkissjóður Íslands of fjárvana á alþjóðlegan mælikvarða til að styðja við Seðlabankann. Flotgengisstefnan fær því falleinkunn.

En það eru mörg önnur stór mistök sem voru gerð.  Meira um það síðar.

(Það skal tekið fram, að í þessum pistli og öðrum sem munu fylgja á næstu vikum, er ég að lýsa minni sýn á atburðina.  Ég er ekki að reyna að koma með neina fræðilega skýringu eða vangaveltur sem opinbera eiga eitthvað sem ekki hefur komið fram.)


Dagurinn sem öllu breytti

Í dag er eitt ár frá því formaður bankaráðs Glitnis fór á fund formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands.  Þessi skref, sem þá voru stigin, verða að teljast einhver örlagaríkustu skref Íslandssögunnar.  Ekki það, að það sem á eftir fylgdi hefði mátt forðast.  Að því munum við aldrei komast.  En þarna hófst atburðarrás sem engan óraði fyrir.

Ég hef nokkrum sinnum gert tilraun til að greina hvað varð til þess, að íslenskt fjármálakerfi lagðist á hliðina dagana 6. - 8. október 2008.  Langar mig að gera það enn og aftur í nokkrum færslum á næstu dögum.  Ég tel mig hafa að nokkru leiti aðra sýn á málin vegna starfa minna sem ráðgjafa á sviði áhættu- og öryggisstjórnunar og mun það marka greiningu mína.  Þetta er til gamans gert og ég er viss um að einhverjir verða ekki sammála mér.  Ef einhverjir hafa ábendingar eða upplýsingar sem þeir telja að gott væri að koma fyrir sjónir almennings, en vilja ekki gera það í eigin nafni, þá er viðkomandi velkomið að senda mér tölvupóst á mgn@islandia.is og ég mun sjá hvort ég geti fellt það inn í greiningu mína.

Þau atriði sem ég tel skipta máli og hafa orðið til þess að allt hrundi hér í október 2008 má skipta upp í eftirfarandi:

  1. Mistök í peningamálastjórnun Seðlabanka Íslands allt frá því áður en krónan var sett á flot í mars 2001.
  2. Mistök við einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands og Landsbanka Íslands.
  3. Meingallað regluverk fjármálakerfisins, þ.m.t. fyrirkomulag eftirlits með fjármálafyrirtækjum
  4. Basel II regluverkið um eiginfjárhlutfall og áhættustjórnun fjármálafyrirtækja, röng innleiðing þess og framkvæmd bæði hér á landi og erlendis
  5. Alvarlegar brotalamir í starfsemi matsfyrirtækjanna
  6. Mistök í áhættustjórnun erlendra fjármálafyrirtækja sem veittu íslensku bönkunum aðgang að lánsfé
  7. Mistök eða vanmat í áhættustjórnun íslensku fjármálafyrirtækjanna
  8. Vöntun á verklagi við stjórnun rekstrarsamfellu hjá fjármálafyrirtækjum, fyrir utan kannski hjá upplýsingatæknisviðum fyrirtækjanna.
  9. Djörfung og fífldirfska stjórnenda og eigenda (tengist 7 og 8)
  10. Hrein og klár fjársvik eigenda bankanna vegna þess að þeir voru jafnframt stærstu lántakendur
  11. Vanhæfni íslenskra stjórnmálamanna (og embættismanna, þ.m.t. SÍ og FME) til að takast á við og halda utan um sístækkandi bankakerfi
  12. Afneitun allra sem nefndir eru að ofan

Enn fjölgar í hópnum

Það er fagnaðarefni að sjá þessa yfirlýsingu frá Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar.  Nú vil ég sjá svona yfirlýsingu frá fleiri samtökum launafólks, vinnustaðasamtökum, félagasamtökum og prestum.  Ég trúi því ekki, að fólki komi þetta ekki við eða þetta snerti ekki stóran hluta landsmanna.  Það eru að koma brestir í þvermóðsku ríkisstjórnarinnar og berja þarf í þá af krafti.  Hagsmunasamtök heimilanna hvetja því alla sem vettlingnum geta valdið að leggjast á árarnar með okkur og sigla heimilunum í örugga höfn.  Það verður m.a. gert með því að sem flestir sendi frá sér yfirlýsingu á borð við þá sem kom frá Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar.  Dropinn holar steininn og fjölgi dropunum, þá gengur hraðar í gegnum steininn.


mbl.is Vilja að lánveitendur beri ábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seðlabankastjóri sér ljósið

Þeim fjölgar hér á landi, sem taka undir þann málflutning Hagsmunasamtaka heimilanna að leiðrétting á lánum (í þessu tilfelli gengisbundnum lánum) heimilanna og fyrirtækja er forsenda fyrir efnahagslegum bata.  Haft var eftir Má Guðmundssyni, Seðlabankastjóra, í hádegisfréttum Útvarpsins að

yrðu erlendrar skuldir heimilanna endurskipulagar myndi það auðvelda okkur að komast út úr þessari efnahagsklemmu sem við erum nú í

Viðtalið við Seðlabankastjóra má heyra með því að smella á þennan hlekk:  Hádegisfréttir 24. september 2009. (Það er strax eftir að yfirlit frétta hefur verið lesið upp.)

Nú er spurningin hvort stjórnmálamennirnir séu að hlusta.

Ég túlka orð Más þannig, að hægt verði að lækka (og jafnvel stórlækka) stýrivexti og (gjör)breyta vaxtastefnunni, ef bara væri farið í þá endurskipulagningu á skuldum heimilanna og fyrirtækjanna, sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa talað fyrir í rúma átta mánuði.  Við höfum ítrekað bent á efnahagsleg rök fyrir slíkri aðgerð án þess að tengja það við vexti eða vaxtastefnu Seðlabankans.  Orð Seðlabankastjóra eru því kærkomin viðbót í sarpinn, en þar eru fyrir lagaleg rök, viðskiptaleg rök, efnahagsleg rök, siðfræðileg rök, félagsleg rök og pólitísk rök, auk raka fyrir réttlæti, sanngirni og jafnræði.


Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 1676995

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband