Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Svíar að valta yfir Argentínu - Lokastaða 33:21

Svíar hafa mikla yfirburði í leik sínum gegn Argentínu og var staðan fyrir skömmu 21:12.  Leikurinn var i beinni á SVT2, en nú er búið að rjúfa þá útsendingu.  Það er því ljóst að Svíar vinna þann leik örugglega og verða ekkert verulega þreyttir eftir hann.

Staðan er orðin 26:13 þegar 12 mínútur eru eftir. 

Bæði lið bæta við marki - 27:14 og 11 mínútur eftir.

Argentína skorar tvö mörk í röð og minnkar muninn í 27:16, en það skiptir varla máli. 

Og rétt í þessu fylgdi það þriðja, en Svíar svara um hæl.  Svíþjóð 28 - Argentína 17, þegar 7 mínútur eru eftir. 

Það er formsatriði að ljúka leiknum, en það væri gott fyrir okkar stöðu að munurinn yrði ekki meiri en 9 mörk.

Þegar innan fjórar mínútur eru eftir er staðan 29:19 og Argentína með boltann. 

3:30 eftir þegar Argentína minnkar muninn í 29:20, en Svíar svara með tveimur mörkum á stuttum tima.  Svíþjóð 31 - Argentína 20.  

Og þegar ein mínúta er eftir skora Svíar enn.  Svíþjóð 32 - Argentína 20. 

Loks kemur mark frá Argentínu, en Svíar eiga síðasta orðið.  Svíþjóð 33 - Argentina 21.

Með þessum sigri koma Svíar sér í þægilega stöðu, þar sem þeir fara upp fyrir Ísland á markatölu, ef löndin verða jöfn á stigum. 

 

Íþróttafréttamenn sænska sjónvarpsins telja leikinn á morgun verða mjög erfiðan, þar sem íslenska liðið sé "veldig, veldig bra" (mjög, mjög gott), en búast samt við tveggja marka sigri! eftir hörkuleik.  Þeir klikktu síðan út með því að segja að íslenska liðið sé betra "en man skal tro".  Svíar líta á leikinn á morgun sem gríðarlega mikilvægan fyrir sænskan handbolta, en sá leikmaður sem rætt var við, hafði ekkert miklar áhyggjur.  Íþróttafréttamenn SVT ræða mikið um Ólaf og Guðjón Val og tala um að stoppa þurfi þá tvo, en einnig tala þeir um að Kim Anderson þurfi að komast í gang.  Við skulum vona að hann haldi bara áfram að vera rólegur (3 mörk í dag og ekkert í gær).

 


Þetta er stórfurðulegt og út í hött

Heimsmarkaðsverð á oliu hefur lækkað um nærri því 10 USD á tunnuna frá því að það náði hæsta gildi fyrir rúmri viku.  Bara í dag (samkvæmt BBC Market Data kl. 15:05 GMT) hefur West Texas Intermediate Crude Oil lækkað um USD 4,57 á tunnuna niður í USD 125,59 og Brent Crude Oil (Norðursjávarolía) lækkað um USD 3,82 á tunnuna í USD 126,16.  Verðið á tunnunni er núna nálægt því sem var á tímabilinu 10. til 20. maí.  Þannig að ekki er hækkunin þess vegna.

Og dollarinn:  Hann hefur lækkað gagnvart íslensku krónunni undanfarna daga, en staðið í stað síðan verðið á olíutunni náði hámarki í um USD 135/tunnu.  Nú ef við skoðum gengi USD á tímabilinu 10. til 20. maí, þá var meðalgildi 1 USD = 77,08 kr, sem er rúmlega 3 kr. hærra en gengið er í dag  Þannig að ekki er hækkunin út hækkun dollarsins.

Samkvæmt þessu eru engin rök fyrir þessari hækkuninni.  Og rökin verða sífellt veikar eftir því sem farið er lengra aftur í tímann.


mbl.is Eldsneytisverð hækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fá lið halda uppi meðaltalinu

Það er áhugavert að sjá töfluna yfir skiptinguna milli félagana (sem má t.d. nálgast á BBC sport, sjá hér og fyrir neðan), að það eru fimm félög sem halda uppi meðaltalinu, þ.e. Chelsea (132,8 m GPB), Manchester United (92,3 m. GBP), Arsenal (89,7 m. GBP), Liverpool (77,6 m. GBP) og Newcastle (62,5 m. GBP).  Öll önnur eru fyrir neðan meðaltalið upp á 48,5 m. GBP.

Annað sem er áhugavert að sjá, er að það er bull að Arsenal borgi ekki vel.  Það getur verið að félagið elti ekki önnur félög upp í hæstu launin, en að vera 2,6 m. GBP undir United getur varla flokkast undir að borga illa. 

Það má einnig ráða af þessum tölum að örfáar stjörnur skeri sig úr United, en aðrir leikmenn séu á "venjulegum" launum.  Ef teknir eru út úr tölunum hjá United leikmenn eins og Rio Ferdinand, Wayne Rooney, Ronaldo, Giggs og Scholes, en þessir leikmenn fá allir á bilinu 4  - 6m. GBP á ári, eru laun hinna um 68 m. GBP tímabilið 2006 til 2007, sem er, jú, talsvert lægra en hjá Arsenal, þar sem hæstu laun eru vel innan við 4 m. GBP á ári.

Þessi tafla sýnir öðru fremur að setja þarf strangari reglur um skuldasöfnun félaganna.  Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar um daginn var uppnefndur skuldaliðaleikurinn (debt club game), þar sem Chelsea og United eru tvö skuldsettustu lið enska boltans, miðað við skuldasöfnun vegna launa og leikmannakaupa.  Vissulega eru allar skuldir Chelsea við eiganda liðsins, en hvað gerist ef hann lenti í lánsfjárkreppu? 

 

THE PAYROLL: WHAT PREMIER LEAGUE CLUBS PAY STAFF

ClubWage rank 2006/07League position 2006/07 Total wages 2006/07 £mTotal wages 2005/06 £m% increase
Chelsea 1 2   132.8 114.0 17%
Manchester United 2 1   92.3 85.4 8%
Arsenal 3 4   89.7 83.0 8%
Liverpool 4 3   77.6 68.9 13%
Newcastle United 5 13   62.5 52.2 20%
Premier League average5.510.5 48.542.713%
West Ham United 6 15   44.2 31.2 41%
Tottenham Hotspur 7 5   43.8 40.7 8%
Aston Villa 8 11   43.2 38.3 13%
Everton 9 6   38.4 37.0 4%
Middlesbrough 10 12   38.3 n/a n/a
Portsmouth 11 9   36.9 24.8 49%
Blackburn Rovers 12 10   36.7 33.4 10%
Manchester City 13 14   36.4 34.3 6%
Fulham 14 16   35.2 30.1 17%
Charlton Athletic 15 19   34.3 34.2 0%
Bolton Wanderers 16 7   30.7 28.5 8%
Reading 17 8   29.8 14.2 109%
Wigan Athletic 18 17   27.5 20.6 34%
Sheffield United 19 18   22.4 15.2 48%
Watford 20 20   17.6 10.0 76%

 


mbl.is Mikil veltuaukning í fóboltanum í Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glitnir: Svartsýni fyrir þetta ár, en bjartsýni fyrir það næsta

Það er ekki mikil bjartsýni ríkjandi hjá greiningardeild Glitnis fyrir þetta ár. Meðaltalsgengi (gengisvísitala) upp á 142 á þessu ári og lokagengi um 135.  Þetta þýðir vissulega nær 10% styrkingu krónunnar það sem eftir er árs.  En skoða verður þessar tölur með það í huga, að þrátt fyrir mikið fall krónunnar í mars, þá stendur meðalgengi ársins í 139,3 stigum.  Til þess að meðalgengi ársins nái 142, þá má búast við að gengisvísitalan haldist um eða yfir 145 talsvert fram á haustið og síðan komi snörp styrking krónunnar.  Að öðrum kosti sé ég ekki að bæði náist meðalgengi upp á 142 og lokagengi upp á 135.  Mér virðist því Glitnir spá því að gengisvísitala á bilinu 143 til 147 verði það sem við stöndum frammi fyrir alveg til nóvemberloka og það verði ekki fyrr en í desember sem gengið takist að styrkjast svo heitið getur.  Annar möguleiki er að ástandið eigi eftir að versna aftur áður en það tekur að batna

Mér finnst bjartsýnin umtalsverð hjá Glitni fyrir þróun gengis á næsta ári og ég vona innilega að sú spá gangi eftir.  Með meðaltalsgengi upp á 128 og byrjunartöluna 135, þá verður gengisvísitalan að haldast undir 128 langtímum saman.

Þá er bara að draga andann djúpt og vona að raunveruleikinn fyrir þetta ár verði betri en Glitnir les úr spilunum. 


mbl.is Glitnir: gengishækkun í haust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Það er ekki kreppa"

Þetta sagði Kristján Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í umræðum kvöldsins á Alþingi.  Rök Kristjáns voru að það væri móðgun að kalla það ástand sem núna er kreppu, þar sem í kreppunni miklu hefði fólk farið svangt að sofa og þúsundir manna hefðu ekki haft atvinnu.  Jæja, þá skulum við ekki heldur kalla uppgang síðustu ára sem góðæri, vegna þess að það kemst ekki með tærnar þar sem góðæri stríðsáranna var með hælana.  Önnur rök Kristjáns voru að eitthvert barn lýsti því sem kreppu að ekki væri hægt að kaupa flatskjá.  Heldur er það lítilmannlegt að fara með orð barns í ræðustóli á Alþingi, þegar menn eru að reyna að fela getuleysi sitt til að varna þrengingunum og hafa eingöngu getu og dug til að bregðast við löngu eftir að það skaðinn er skeður.  Staðreyndin er að ríkisstjórnin var tekin í bólinu, þar sem beita átti davíðsku aðferðinni að bíða ástandið af sér og vona að tíminn læknaði öll sár.

Ég segi nú bara, sem betur fer er ástandið ekki eins slæmt og í kreppunni miklu, en þær þrengingar sem mörg íslensk heimili eru að ganga í gegnum um þessar mundir og það högg sem íslenskt efnahagslíf hefur orðið fyrir eru meiri en gengið hefur yfir íslenskt þjóðfélag í mjög langan tíma.  Verðbólgan 1983 var öðruvísi, þar sem hún var eingöngu bundin við Ísland.  Hvarf síldarinnar 1968 var líka öðruvísi, þar sem áhrif þess var staðbundið.  Það sem við stöndum frammi fyrir núna kann að verða byrjunin á miklu meira, en það getur líka verið að þetta skot sé gengið hjá.  Það kemur ekki í ljós fyrr en síðar.  Þar fyrir utan er það áfall sem fjármálakerfi heimsins hefur orðið fyrir, það versta sem riðið hefur yfir það frá því í kreppunni miklu. 

Fjármálaráðherra hélt því fram í dag, að ástæða vandans væri vandræðagangurinn með undirmálslánin í Bandaríkjunum.  Vá, þetta er eins og með apana þrjá:  Ég sé ekkert illt, ég heyri ekkert illt, ég mæli ekkert illt.  Árni, það hefur enginn annar gjaldmiðill í hinum vestræna heimi fallið eins illilega og íslenska krónan.  Það hefur ekkert land í hinum vestræna heimi fengið eins háðulega útreið hjá matsfyrirtækjum og Ísland.  Það hefur ekkert annað ríki veikt svo peningalegar undirstöður sínar eins heiftarlega og Ísland og boðið þannig upp á ótæpilega spákaupmennsku með gjaldmiðilinn og stærstu fyrirtæki þess.  Ekkert af þessu kemur undirmálslánunum nokkurn skapaðan hlut við.  Þetta var svo ámátlegt yfirklór hjá ráðherra að það lýsir best þeirri "ekki mér að kenna" afneitun sem ríkisstjórnin er í.  Það er greinilegt að ráðherrar hennar keppast við að sannfæra hver annan um að þetta sé allt útlendingum að kenna.  Vandinn er að mestu leiti heimatilbúinn og taka verður á honum heima fyrir með hagfræðilega viðurkenndum aðferðum.  Ríkisstjórnin græðir ekkert á því að stinga höfðinu í sandinn. 


Hugleiðingar í lok dags

Jæja, dagurinn á enda og gengið stóð nokkurn veginn í stað eftir að hafa hækkað lítillega framan af degi.  Hef ekki ennþá rekist á neinar hálærðar greiningar á verðbólgutölunum, en sé að menn úti í heimi eru sífellt að hafa meiri áhyggjur af verðbólgu þar.

Einhverjir eru að spá að olíuverð nái hámarki innan árs og fari þá hratt lækkandi.  Kannski er bjartari tíð og blóm í haga framundan.  Á hinn bóginn má lesa í erlendum miðlum að í Evrópu ætla menn að taka sér tíma til að kryfja ástæður lánakreppunnar (credit crunch) inn að beini, meðan Kanar ætla að takmarka frelsi fjármálafyrirtækja með meira regluverki.  (Eins og það sé ekki nógu mikið fyrir.)  Um leið og þetta er allt sagt, þá tilkynnir SEC (verðbréfaþingið þeirra í USA) að þeir ætla í heimsókn til Moody's 11. júní næst komandi.  Það væri þó aldrei að mergur málsins finnist þar.

Ég hef það á tilfinningunni, að skortur á þjóðlegu regluverki sé ekki vandamálið sem við erum að kljást við í dag, heldur séu að viðskipti og viðskiptasamráð yfir landamæri sem sé mest til trafala.  Það þarf ekki annað en að horfa á olíuverð til að sjá að það eru víðtækt markaðssamráð í gangi.  Það hefur nákvæmlega ekkert breyst á heimsvísu sem réttlætir að verð á tunnu sé komið í 133 USD.  Skýringarnar eru flóknari en mögnuðustu samsæriskenningar spennusagnahöfunda, en þegar þær eru skoðaðar nánar halda þær ekki vatni.  Málið er að spákaupmenn sáu sér leik á borði, líkt og með hrísgrjónin.  Þeir eru búnir að átta sig á því hvað menn eru gikkglaðir og taugaveiklaðir, þannig að minnsta gára á vatni er túlkuð sem viðvörun um fellibyl.  Ef hægt er að búa til regluverk, sem tekur á þessu, þá er eins gott fyrir menn að drífa sig, því að öðrum kosti höfum við bara séð toppinn á ísjakanum.

En aftur hingað til Íslands.  Í gamla daga var talað um handstýringu efnahagsmála hér á landi.  Þegar maður les að innlánsstofnanir séu hættar í útlánum til fasteignakaupa, þá hefur maður það óneitanlega á tilfinningunni að gamla góða handstýringin sé komin aftur upp á yfirborðið, en nú sé hún undir stjórn innlánsstofnana.  Illt skal með illu út reka.


mbl.is Krónan veiktist um 0,1%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hörmungar gera menn auðmjúka

Það er fróðlegt að lesa þessa frétt um breytt viðhorf kínverskra yfirvalda.  Hún sýnir svo ekki verður um villst að hinn opni fréttaflutningur af hörmungunum í Sichuan-héraði er farinn að hafa áhrif langt út fyrir það sem nokkrum manni hefði dottið í hug.  Ein af grundvallarstefnum kínverskra stjórnvalda er að víkja a.m.k. tímabundið, til að gefa þeim sem misst hafa börnin sín í illa byggðum skólum héraðsins, tækifæri á einhverri huggun.  Batnandi mönnum er best að lifa.

Ég tek það fram, að þó svo að einburastefnan sé á margan hátt harðneskjuleg, þá urðu kínversk stjórnvöld að gera eitthvað á sínum tíma.  Fjölmennið stefndi í þannig tölur að samfélagið gat ekki borið fjöldann.  Talað er um að með þessu hafi verið í komið í veg fyrir 400 milljónir fæðingar frá því að einburastefnan var tekin upp.  Það er samanlagður fjöldi íbúa Vestur-Evrópu og Pólland með (ég er nú ekki með nákvæmar tölur).  Þetta er eins og okkur Íslendingum hefði fjölgað um 100 þúsund til viðbótar á síðustu 30 árum.


mbl.is Vægar tekið á fæðingu barna í Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lægri verðbólga en efni stóðu til

Þrátt fyrir fyrirsögn fréttarinnar, þá eru þessar verðbólgutölur jákvæðar fréttir.  Verðbólga milli mars og apríl mældist 3,41% en 1,37% milli apríl og maí.  Það þýðir mun skarpari lækkun milli mánaða en venjulega hefur fylgt gengisfalli.  Þrátt fyrir þetta er útlit fyrir að verðbólgan haldist á milli 12 og 13 af hundraði fram í september.  Ástæðan er fyrst og fremst sú hvað hækkun vísitölu neysluverðs var mikil milli ágúst og september í fyrra.  Eftir það hefst lækkunarferli, sem ætti að skila okkur í um 10% verðbólgu um áramót og innan við 4% verðbólgu í apríl á næsta ári.  Þetta gæti þó gerst hraðar, ef lækkun fasteignaverðs verður mikil á næstu vikum eða mánuðum. 

Það verður fróðlegt að sjá hvort þessar verðbólgutölur, sem ég ítreka að eru að mínu mati jákvæðar, verði til þess að gengið styrkist og lánamarkaðir opnist.


mbl.is Mesta verðbólga í tæp 18 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvö aðskilin mál - stjórnskipan og fjárhagsstaða Lögreglustjórans á Suðurnesjum

Skýrsla Ríkisendurskoðunar virðist falla bæði dómsmálaráðherra og Samfylkingu í geð, en samt eru þessir aðilar á öndverðum meiði í þessu máli.  Annar aðilinn vill ganga strax í að skilja á milli lög-, toll- og öryggisgæslu á Suðurnesjum/Keflavíkurflugvelli, en hinn vill ekki gera það fyrr en eftir heildarendurskoðun.  Hvernig getur það verið að báðir eru sáttir?  Pólitík?  Líklegasta skýringin er að hvor aðili um sig leitaði að þeim atriðum sem honum féll í geð og heldur þeim á lofti.   

Ég hef áður skrifað um þetta mál og má sjá þá umfjöllun hér.   Tók ég þá undir það sjónarmið Björns að þessi þrír þættir eiga alla jafna ekki að vera á sömu hendi af þeirri einföldu ástæðu að þeir heyra undir þrjú mismunandi ráðuneyti.  En vandamál lögreglustjóraembættisins á Suðurnesjum var ekki stjórnskipulags eðlis.  Vandinn var fjárhagslegs eðlis, þar sem rekstrarkostnaður embættisins var mun meiri en framlög á fjárlögum og sértekjur stóðu undir. 

Ríkisendurskoðun rekur í skýrslu sinni hvernig stendur á þessum fjárhagsvanda. 

  1. Hann er vegna langvarandi umframkeyrslu Sýslumannsembættisins á Keflavíkurflugvelli, m.a. vegna þess að kostnaður við ýmis verkefni tengd NATO var meiri en nam tekjum vegna verkefnanna.
  2. Brottför varnarliðsins varð til þess að sértekjur lækkuðu án þess að kostnaður minnkaði til samræmis eða framlög á fjárlögum aukin.
  3. Yfirtaka á lögreglu- og tollastarfsemi frá sýslumanninum í Keflavík kostaði meira en nam viðbótartekjum vegna verkefnanna.
  4. Útlit er fyrir að sértekjur ársins í ár lækki um 100 m.kr. en rekstrarkostnaður lækki aðeins um 30 - 40 m.kr.
  5. Frestun á orlofstöku (sem líklegast má rekja til skorts á starfsmönnum) kostar 40 m.kr.
  6. Ekki er tekið tillit til þess í fjárveitingum að launakostnaður er hærri hjá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum vegna vakta- og vinnuskipulags, en t.d. hjá Lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins og Tollstjóranum í Reykjavík.

Fjárhagslegur vandi lög-, toll- og öryggisgæslu á Suðurnesjum/Keflavíkurflugvelli er ekki leystur með því að kljúfa embætti lögreglustjórans í þrjár einingar.  Hann er eingöngu leystur með því að skera niður þjónustuna eða auka við fjárframlög.  Það má auðveldlega færa fyrir því rök að fjárhagsvandinn aukist hjá löggæsluhlutanum frekar en hitt við svona aðskilnað, þar sem tekjur af öryggisgjaldi hafa verið notaðar til að greiða niður kostnað af löggæslu og tollgæslu.  Á árunum 2005 - 2007 fór 60% af öryggisgjaldi í annað en lög gera ráð fyrir.

Vissulega eiga þeir sem heyra undir fjárlög að haga starfsemi sinni í samræmi við ákvörðun löggjafans.  Það getur aftur verið erfitt, þegar ekki er tekið tillit til raunverulegra útgjalda við gerð fjárlaga.  Í því virðist vandi Lögreglustjórans á Suðurnesjum liggja.  Kostnaður embættisins vegna þeirra verkefna sem því er ætlað að sinna er meiri en fjárlög gera ráð fyrir.  Þetta er svo sem ekkert nýmæli og gerist ekki bara innan dómsmálaráðuneytisins að embættismenn skeri tillögur ráðuneyta við nögl. 

Ríkisendurskoðun bendir á það í skýrslu sinni að líklegasta skýringin á umframkeyrslunni sé að heildarlaunagreiðslur á stöðugildi hjá embættinu séu hærri en grunnur fjárlaga geri ráð fyrir.  Þá segir:

Nauðsynlegt er að kanna til hlítar skýringar á þeim mun sem er á kostnaði við stöðugildi eftir embættum. Komi í ljós að hann á sér eðlilegar skýringar vegna eðlis starfseminnar virðist rétt að viðurkenna hann í fjárveitingum. Að öðrum kosti þurfa forráðamenn embættisins með einhverjum hætti að grípa til sparnaðar í rekstri..

Loks segir Ríkisendurskoðun:

Við sameiningu allrar lög- og tollgæslu á Suðurnesjum og Keflavíkurflugvelli undir hatti Lögreglustjórans á Suðurnesjum er nauðsynlegt að endurmeta og hugsanlega skilgreina upp á nýtt áherslur í starfsemi hins nýja embættis. Við þá vinnu, sem dómsmálaráðuneytið í samvinnu við Ríkislögreglustjóra ætti að koma að með beinum hætti, þarf óhjákvæmilega að leggja mat á hversu mikinn mannafla þurfi að hafa tiltækan annars vegar vegna landamæraeftirlits og annarrar löggæslu á Keflavíkurflugvelli og hins vegar til að þjónusta byggðarlögin á Suðurnesjum með fullnægjandi hætti. Verði niðurstaðan slíkrar stefnumótunar sú að rétt sé að breyta áherslum í starfseminni þarf hugsanlega að breyta núverandi starfaskipulagi og vinnufyrirkomulagi hjá embættinu. Fyrirfram er þó ekki hægt að fullyrða að slíkt muni óhjákvæmilega leiða til lægri rekstrarkostnaðar þess.

Ákvörðun dómsmálaráðherra við að skipta embætti Lögreglustjórans á Suðurnesjum upp er rétt út frá boðleiðum íslenskrar stjórnskipunar, þ.e. að hver þáttur embættisins eigi að heyra beint undir það ráðuneyti sem fer með viðkomandi málaflokk.  En hún er ekki tekin út frá þeim forsendum.  Hún var tekin vegna þess að embættið treysti sér ekki til að vinna innan heimilda fjárlaga og dómsmálaráðherra vill að hin ráðuneytin axli ábyrgð á sínum kostnaðarhluta.  Svo einkennilega vill til, að þessi ákvörðun verður dómsmálaráðuneytinu líklega dýrust í framkvæmd, þar sem samgönguráðuneytið hefur í raun greitt niður löggæsluhlutann með of háu öryggisgjaldi.  Spurningin sem hlýtur að vakna núna er hvort dómsmálaráðuneytið mun tryggja löggæsluhlutanum þau fjárframlög sem þörf er á (sem kallar á verulega hækkun framlaga) og ef svo verður, hvers vegna dómsmálaráðuneytið var ráðuneytið þá ekki tilbúið til þess áður?

Í lokin varðandi verkaskiptinguna, þá bendir Ríkisendurskoðun á að einfalt sé að gera þjónustusamning á milli ráðuneytana um hana sem feli í sér að Lögreglan á Suðurnesjum sjái um verkefni fyrir hin ráðuneytin.  Hafa skal í huga að sýslumenn um allt land sinna verkefnum fyrir önnur ráðuneyti en ráðuneyti dómsmála.  Má þar nefna fjármálaráðuneyti og félagsmálaráðuneyti. 


mbl.is Björn: Fagna niðurstöðu Ríkisendurskoðunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vantar almenning og atvinnulíf lánveitanda til þrautavara?

Það er mikið nefnt um þessar mundir að viðskiptabankana, Seðlabankann og þess vegna ríkið vanti lánveitendur til þrautavara.  Þetta er talin ein helsta ástæða fyrir lækkandi lánshæfismati og hækkandi skuldatryggingaálagi (þó það hafi lækkað síðustu daga) bankanna og ríkisins.  En mig langar bara að benda á, að mjög er farið að þrengja að lánamöguleikum almennings og fyrirtækja í landinu.  Eins og ástandið er í þjóðfélaginu í dag, er eingöngu hægt að fá lán á slíkum ofurkjörum að ein lántakan kallar á aðra innan fárra vikna.  Mjög margir aðilar eru í þeim sporum, að þeim dugir ekkert að draga seglin saman eða þeir geta ekki dregið þau nema mjög takmarkað saman.

Fyrirtæki eru mörg í þeim sporum að þau þurfa að leggja út fyrir miklum kostnaði við þróun, framleiðslu, sölu, markaðssetningu og þjónustu, en fá síðan tekjurnar af þessu mörgum mánuðum síðar.  Skýrasta dæmið um þetta eru ferðaþjónustufyrirtæki á borð við bílaleigur.  Þær endurnýja bílaflota sinn á hverju vori og nú standa þeim til boða lán og lánfyrirgreiðsla sem verður einfaldlega til þess að þær munu fara yfir um í hrönnum á haustmánuðum.  Byggingarverktakar eru kannski hálfnaðir eða rúmlega það með stóra byggingu og þá kippir viðskiptabankinn að sér hendinni.  Verktakinn gæti ekki einu sinni selt íbúðir í byggingunni á hálfvirði, þar sem hann fær ekki fjármagn til að ljúka byggingunni.  Sama gildir um einstakling, sem stendur í byggingaframkvæmdum.  Eina sem býðst eru yfirdráttarlán á himin háum vöxtum.  Þó svo að fólk vildi losa sig við eignir, þá er það ekki hægt, þar sem kaupendum bjóðast ekki lán.  Og ekki dugir framkvæmdastopp, þar sem vextina þarf að greiða um hver mánaðarmót og þá ekki litla.

Það virðist því liggja beinast við að fyrirtæki og almenning bráðvanti lánveitendur til þrautavara.

Eins og fram kom í viðtali við mig á Rás 2 um daginn, þá þekki ég þessa stöðu mjög vel, þar sem við hjónin erum að byggja og með núverandi húsnæði á sölu.  Okkur vantar herslumuninn upp á að geta flutt inn í nýja húsnæðið, en þann herslumun gengur alveg bölvanlega að brúa.  Þar sem við erum með tvöföld lán í gangi, þá komum við illa út úr greiðslumati.  Fasteignamarkaðurinn er nálægt alkuli (um +2° Kelvin) og því sjáum við ekki fram á að núverandi húsnæði seljist fyrr en í haust eða jafnvel síðar.  Ég hef ekki áhyggjur af stöðunni eftir ár eða tvö, þar sem jafnvægi kemst örugglega á fljótlega í framhaldi af því að gengið styrkist og laun hækka.  Ég kýs að líta á núverandi ástand sem ansi bratta brekku í maraþonhlaupi.  Spurningin er bara hversu fljótt við komust upp brekkuna, hvaða fórnir þurfum við að færa til komast upp og hvað tekur við þegar upp er komið.  Draumurinn er náttúrulega að gengið styrkist verulega á næstu vikum, verðbólgan gangi hratt niður, húsið seljist fljótlega á því sem næst uppsettu verði og að lán fáist á hagstæðum kjörum svo við getum flutt inn.  Það sakar ekkert að láta sig dreyma Smile 


Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.9.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 1679456

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband