Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011

Er sæstrengur til Evrópu það sem er best fyrir íslenskt samfélag?

Bloomberg fréttaveitan er með frétt um hugsanlegan útflutning á raforku um sæstreng til Skotlands.  Hugmyndin er ekki ný á nálunum, kom líklegast fyrst fram fyrir hátt í 30 árum, a.m.k. tók ég hana til skoðunar við gerð lokaverkefnis míns við Stanford háskóla veturinn 1987 - 88.

Við skulum hafa í huga, að Ísland er þegar einn stærsti útflytjandi raforku þegar.  Það er sú raforka sem notuð er við fiskvinnslu, álframleiðslu og aðra raforkufreka framleiðslu á útflutningsafurðum.  Þessi notkun raforku er undirstaðan þeirrar efnahagsuppbyggingar sem hér hefur átt sér stað undanfarna áratugi.  Önnur hlið á þessu máli er gríðarleg skuldasöfnun þjóðarinnar og gengið hefur verið fulllangt á ýmis náttúrugæði.

Á sínum tíma bar ég hugmyndina um útflutning á raforku um sæstreng undir leiðbeinanda minn, Allan Mann, en hann var á þeim tíma ein helsti sérfræðingur í heiminum varðandi uppbyggingu vatnsaflsraforkuvera.  Viðbrögð hans voru heldur snubbótt en þó skýr:  Notið raforkuna á Íslandi til að framleiða útflutningsafurðir.  Á þeim tíma sem liðinn er hefur ekkert gerst sem sannfærir mig um hið gagnstæða.  Ég bý vissulega ekki lengur yfir sambærilegri sérþekkingu á þessum málum, eins og haustið 1988, en hef reynt eftir bestu getu að fylgjast með.

Samkvæmt frétt Bloomberg er verið að skoða að flytja 18 teravattsstundir af raforku árlega til Skotlands.  (Landsvirkjun hefur borið þetta til baka og þar segjast menn vera að skoða 4 - 6 TWst, þannig að framleiðslan verði alls 18 TWst.)  Samkvæmt vef Landsvirkjunar var ársvinnsla fyrirtækisins 12,2 Twst árið 2009 í 12 orkuverum, þ.e.

6 Twst er um 50% aukning og ætli Landsvirkjun ekki að segja upp núverandi raforkusölusamningum til stóriðju og loka á sölu til almennings, þá þarf að byggja ný orkuver, endurnýja þau sem eru fyrir og/eða kaupa raforku af öðrum framleiðendum.  Nú veit ég ekki hvað mun kosta að byggja þær virkjanir sem þarf til að framleiða 4-6 TWst á ári.  Haft er eftir Rögnu Söru Jónsdóttur, fjölmiðlafulltrúa LV, að kostnaðurinn við hverja TWst liggi á bilinu USD 300 - 400 milljónir.  Ég geri ráð fyrir að hér hafi eitthvað skolast til og átt sé við kostnað við uppsett afl til að framleiða teravattstundirnar 4-6.  Ef svo er, þá er stofnkostnaðurinn á bilinu 140 - 280 milljarðar kr. (1,2 - 2,4 milljarðar USD).  Bætum við þetta kostnaðinum við sæstrenginn upp á USD 2,1 milljarðar og fáum heildarkostnað á bilinu 3,3 - 4,5 milljarðar USD (380 - 522 ma.kr.).   Bloomberg bendir á að miðað við núverandi markaðsaðstæður fáist 0,3-0,45 milljarðar USD (34-52 ma.kr.) fyrir 4-6 TWst í Bretlandi eða 74 m.USD (8,6 ma.kr.) fyrir hverja TWst.  Nú veit ég ekki hvort Ragna Sara tók inn í sína tölu kostnað við flutning á raforkunni frá aflstöð að sæstreng.  Líklega yrðu strengirnir margir og færu í hafið á mismunandi stöðum.  Þegar verið er að tala um svona stórt verkefni verða örugglega gerðar mun ríkari kröfur um að taka tillit til náttúrunnar.  34-52 m.kr. tekjur af raforkusölu mega ekki verða á kostnað annarra tekna, svo sem af ferðaþjónustu.

Ég reikna með því að svona verkefni verði ekki unnið nema á mjög löngum tíma, líklegast 10-20 árum.  Skuldsetning þjóðfélagsins, sem er út úr kortinu núna, verður orðin ein sú hæsta í heimi miðað við landsframleiðslu.  Landsframleiðslan eykst vissulega um einhver prósent miðað við núverandi stöðu.  Framkvæmdirnar munu valda umtalsverðri þenslu á framkvæmdatímanum, en verði haldið rétt á spilunum, þá verður hún minni en varð af Kárahnjúkavirkjum.  Að framkvæmdum loknum er ekki þörf fyrir mikinn mannafla til að reka kerfið.

Gott og vel, eftir 20 - 30 ár verður hugsanlega búið að reisa hér raforkuver um allt land til þess að anna þörf raforkuþyrstra Breta.  Spurningin sem við þurfum að svara:  Er þetta það sem við viljum?  Viljum við verða að raforkuforðabúi fyrir Bretland um ófyrirséða framtíð án þess að það leiði til atvinnusköpunar svo nokkru nemur hér á landi?  Um þessar mundir vinna innan við 250 manns hjá LV.  Gefum okkur að 50% stækkun á raforkuöflunarkerfinu fjölgi starfsmönnum í sama hlutfalli, þ.e. úr 250 í 375 manns.  Gefum okkur síðan að hjá Landsneti (sem sér um flutningskerfið) fjölgi líka um 50%, þ.e. úr 93 í 140 manns og loks að við sæstrenginn starfi um 50 manns.  Þá hafa framkvæmdir upp á um 500 milljarða kr. skapað 225 varanleg störf.  Það sem meira er:  Búið verður að nýta stóran hluta fýsilegra virkjunarkosta og fátt verður um góða staði til að virkja fyrir aðra íslenska atvinnuuppbyggingu.  Allt þetta til að fá tekjur upp á kannski 50 ma.kr. á ári.  Ég spyr aftur:  Er þetta það sem við viljum?

Framtíðarsýn til nýtingu raforku verður að fara saman við framtíðarsýn okkar til atvinnuuppbyggingar.  Á hverju ári bætast nokkur þúsund manns á atvinnumarkað.  Nýting innlendrar orku er forsenda þess að hægt sé að byggja hér upp nægilega mörg störf.  Innlend verðmætasköpun er forsenda hagvaxtar.

Annars er margt svo vitlaust í Bloomberg-fréttinni, að maður veltir því fyrir sér hver tilgangurinn er.  T.d. er ekki gerður neinn greinarmunur á raforkuframleiðslu og annarri nýtingu innlendra orkugjafa.  Það er líklegast satt, að verið sé að nýta um 18 TWst af innlendri orku, en hátt í þriðjungur fer til húshitunar og sú orka verður ekki nýtt til útflutnings.  Síðan hefur Landsvirkjun leiðrétt umfangið og segir það vera 4-6 TWst í stað 18, en viðmælendurnir annað hvort skilja ekki tölurnar eða eru að tala í kross við fréttamann Bloomberg.

Mín skoðun er að ljúka eigi við rammaáætlun um nýtingu orkuauðlinda áður en nokkur ákvörðun um framhaldið er tekin.  Gerum hlutina einu sinni rétt.

 


Séu einstök fyrirtæki of stór, þarf að takmarka stærð þeirra

Hugmyndir um hækkun innstæðutrygginga voru settar fram af ESB sl. sumar.  Í því tilefni birtist frétta á mbl.is 12. júlí undir fyrirsögninni "Innistæðutrygging hækkuð?"  Við þessa frétt hengdi ég bloggfærslu sem ég vil endurbirta hérna fyrir neðan.  Einnig skrifaði ég færslu um þessa hluti 19. janúar sl. Kolvitlaust að sameina bankana - Þeir eru þegar of stórir fyrir tryggingasjóðinn.  Í báðum þessum færslum bendi ég á að innstæðutryggingar sem tryggja eiga íslenskt fjármálakerfi ganga ekki með þá stærð af bönkum sem er hér á landi.  Hver banki um sig er einfaldlega of stór fyrir þetta kerfi og tryggingasjóður mun aldrei standa undir því að einn stóru bankanna félli á nefið. En hér er færslan:

Verði þetta að veruleika, þarf að setja tímabundið þak á innlánasöfnun bankanna

Fyrir Alþingi liggur frumvarp, þar sem lagt er til að innstæður verði varðar upp að EUR 100.000.  Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að greiðslur fari fram að hámarki 20 dögum eftir að Fjármálaeftirlitið hefur úrskurðað að innlánsstofnun hafi verið tekin til slitameðferðar.

Ég veit ekki alveg hvað íslenskum stjórnvöldum gengur til að leggja fram þetta frumvarp.  Ekki sé ég að það sé fræðilegur möguleiki á því að ríkissjóður, hvað þá tryggingasjóðurinn hafi fjárhagslegt bolmagn næstu 10 - 15 árin til að standa undir þeim fjárútlátum, sem fall, þó væri ekki nema, eins af stóru bönkunum hefði í för með sér.  Vissulega eru sett mikil takmörk á það í frumvarpinu hverjir njóta trygginganna.  Þannig eru eftirfarandi innstæður ekki tryggðar

  • innstæður í eigu fjármálafyrirtækja, 
  • innstæður sem tengjast málum þar sem sakfellt hefur verið fyrir peningaþvætti,
  • innstæður fyrirtækja sem fjármálafyrirtæki fara með virkan eignahlut í,
  • innstæður ríkis, sveitarfélaga, stofnanna þeirra og fyrirtækja að meiri hluta í eigu opinberra aðila,
  • innstæður rekstrarfélags verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu,
  • innstæður annarra félaga í sömu samsteypu,
  • innstæður sem ekki eru skráðar á nafn.

Þrátt fyrir þetta er líklegt að fall eins banka myndi setja ríkissjóð í nær ómögulega stöðu.

Gróft séð má skipta innstæðum í fjóra nokkuð jafna parta, þ.e. bankarnir þrír og síðan aðrir.  Falli einhver innlánsstofnun úr hópi hinna minni, þá verður höggið líklegast ekki svo mikið að ríkissjóður geti ekki hlaupið undir bagga.  Vandinn verðu mun meiri ef einhver af bönkunum þremur riðar til falls.  Þó það gerist er ekki víst að reyni á tryggingasjóðinn, þar sem við hrunið í október 2008 kom í ljós að Íslandsbanki og Kaupþing gátu greitt út sínar innstæður.  Landsbankinn hefur ekki ennþá getað gert það gagnvart Icesave-innstæðueigendum.

Um síðustu áramót voru innlán í íslenskum innlánsstofnunum um 1.660 milljarðar, samanborið við rúmlega 3.120 milljarða 30.9.2008.  Samkvæmt útreikningi Talnakönnunar fyrir efnahags- og viðskiptaráðuneytið var gert ráð fyrir að um 530 milljarðar væru tryggðir miðað við 50.000 evru tryggingu (prentvilla í athugasemd með frumvarpinu, en þar segir 100.000 evrur).  Hækkum upphæðina í 100 þ.EUR og gengi evru upp á 150, þá má gera ráð fyrir að tryggðar innstæður gætu verið allt að 650 milljarðar, þó sú tala sé líklegast í hærri kantinn.  (Höfum í huga að eingöngu 1% innstæðureikninga einstaklinga og 4% hjá fyrirtækjum voru með hærri innstæðu en 10 m.kr. annars vegar í lok september 2008 og hins vegar árslok 2008, samkvæmt útreikningum Talnakönnunar.)

Gerum nú ráð fyrir að einn stóru bankanna falli, en hann eigi fyrir 70% af innlánum.  Þá standa eftir um 50-60 milljarðar.  Reynslan sýnir okkur aftur, að falli einn banki, þá eru miklar líkur á því að hinir fylgi með.  Við erum því hugsanlega að tala um að tryggingasjóðurinn þurfi að reiða fram 150-180 milljarða innan viku frá því að bankarnir hrynja.  Þið verðið bara að afsaka, en ég sé það ekki gerast.  Ekki má gleyma því að áhætta eykst eftir því sem bankarnir stækka og ekki er það markmið þeirra að minnka.

Ef ég á að segja eins og er, þá er eina leiðin til þess að Ísland geti uppfyllt væntanlega tilskipun ESB og þau lög sem liggja í frumvarpi fyrir Alþingi, að setja hömlur á vöxt innlána hjá bönkunum þremur þar til að hér hefur verið komið á betra eftirliti með fjármálafyrirtækjum, regluverk fyrir fjármálakerfið hefur verið stórlega eflt og hér eru framkvæmd alvöru álagspróf.   Framtíðarsýnin sem fellst í nýju tryggingakerfi er þess eðlis, að það þarf margar hæfilega stórar einingar í stað þriggja risastórra.  ESB er ekki að gera þannig breytingar (samkvæmt fréttum) á tryggingakerfinu, að það henti íslenskum aðstæðum.  Hærri tryggingafjárhæð gerir ástandið bara erfiðara í litlum hagkerfum.  Telji menn þetta svartsýnistal hjá mér, þá segir reynsla sögunnar okkur annað.  


mbl.is Ríkið verði að hlaupa undir bagga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dæmt að Arion banki eigi ekki aðild að hluta máls - Skaut bankinn sig í fótinn?

Í gær féll ótrúlega furðulegur dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Sjómannafélagi Íslands gegn Arion banka.  Sjómannafélagið krafði Arion banka um endurgreiðslu á ofgreiðslu sem innt var af hendi frá lántökudegi.  Upphaflega var lánið 15 m.kr. til 20 ára, en Sjómannafélagið greiddi það upp á 3 árum, alls 37 m.kr.  Krafði Sjómannafélagið Arion banka um tæpar 20 m.kr. í ofgreiðslur miðað við að lánið félli undir fordæmisgildi dóma Hæstaréttar í málum nr. 92/2010, 153/2010 og 471/2010.  Héraðsdómari féllst á þá kröfu Sjómannafélagsins að framangreindir dómar væru fordæmisgefandi fyrir umrætt lán, þ.e. lánið væri með ólöglega verðtryggingu í formi gengistryggingar.  En núna kemur að hinum ótrúlega þætti í málinu:

Dómarinn ákvað að ábyrgð Arion banka á láninu næði bara aftur til þess dags, þegar lánið var formlega tekið yfir af bankanum, þ.e. 8. janúar 2010.  

Dómarinn ákvað sem sagt að rök Arion banka ættu að gilda, en um það segir í dómnum:

Stefndi segir að skuldabréf stefnanda hafi ekki verið á meðal þeirra eigna sem framseldar voru frá Kaupþingi banka til Nýja Kaupþings banka 21. október 2008.  Skuldabréfið hafi ekki verið framselt stefnda fyrr en 8. janúar 2010.  Hann hafi því aðeins tekið við síðustu greiðslunni af bréfinu, 5.901.515 krónum, sem innt var af hendi 13. janúar 2010.  Fram til þess tíma hafi stefndi tekið við greiðslum í umboði annars aðila, fyrst Kaupþings banka og síðar Seðlabanka Íslands.

Eins og ég segi, þá veit ég ekki hvort ég eigi að hlæja eða gráta.  Fáránleikinn í þessu máli er að Arion banki og áður Nýja Kaupþing sáu um innheimtu á lánum sem voru í eigu þriðja aðila, í þessu tilfelli Kaupþings banka og síðar Seðlabanka Íslands.  Ég hef ekki hugmynd um hvort skuldarinn hafi vitað um það, að Arion banki/Nýja Kaupþing hafi eingöngu staðið í innheimtu fyrir raunverulegan eiganda eða ekki. 

Það virðist ekki koma málinu við að þegar Nýja Kaupþing var stofnað var gegnið út frá því að bankinn tæki yfir réttindi og skyldur gamla bankans.  Sjómannafélagið hefði því mátt ganga út frá því að svo hafi einnig verið þegar þetta lán var yfirtekið.  Niðurstaða héraðsdóms er samt sú að Sjómannafélagið þarf að fara í mál við Seðlabanka Íslands til að fá endurgreitt það sem ofgreitt var meðan lánið var í eigum bankans og síðan virðist mér sem best fyrir félagið að láta þar við sitja.  Með þessu fær félagið endurgreitt kr. 5.901.515 frá Arion banka og kr. 11.782.549 frá Seðlabankanum eða alls kr. 17.684.064 vegna ofgreiðslna á tímabilinu frá 1.1.2009 til 13.1.2010.  Það kemur síðan í hlut slitastjórna eða skiptastjórnar Kaupþings banka að krefja Sjómannafélagið um "vangreiðslurnar" fyrir tímabilið frá lántökudegi og þar til Seðlabankinn eignaðist lánið.  Sé ég nú ekki fyrir mér að slitastjórn/skiptastjórn leggist með miklum þunga í þá innheimtu, þar sem þá verða starfshættir Kaupþings banka dregnir inn í máið.

Skaut Arion banki sig í fótinn?

Ég get ekki annað en velt fyrir mér afleiðingum þessa dóms.  Nú eru fjármálafyrirtækin á fullu eða endurreikna fyrrum gengistryggð lán, mörg hver allt að 10 ár aftur í tímann.  Getur verið að þau hafi ekki heimild til þess vegna aðildarskorts.  Getur verið að NBI ehf. sé ekki aðili að lánum sem tekin voru hjá Landsbanka Íslands fyrr en eftir yfirtöku þeirra?  Gildir það sama um Íslandsbanka?  Er Arion banka ekki heimilt að endurreikna lánin sem hann tók yfir 8. janúar 2010 nema frá þeim degi?  Í því fólust rök Arion banka.

Réttindi og skyldur er snúið par.  Hafi Arion banki ekki skyldur gagnvart láni Sjómannafélags Íslands nema eftir 8. janúar 2010, þá hefur bankinn ekki heldur réttindi gagnvart láninu nema frá þeim tíma.  Þrautavarakrafa Arion banka er, t.d., að bankinn endurgreiði ekki ofgreiðslur sem áttu sér stað áður en bankinn var stofnaður í október 2008.  Aftur, hafi bankinn ekki átt skyldur fyrir þann tíma, þá átti hann ekki heldur réttindi.  Hver á þá slík réttindi og skyldur? Jú, Kaupþing banki.  Hvaða réttindi og skyldur eru það?  Að gera upp lán í samræmi við dóma Hæstaréttar frá 16. júní og 16. september 2010.  Dettur nokkrum heilvita manni í hug, að Kaupþing banki láti reyni á vangreiðslur nokkur ár aftur í tímann?  Samkvæmt tölum í dómi héraðsdóms eru vangreiðslur frá lántöludegi til og með 1.10.2008 kr. 949.511 ef miðað er við óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands.  Rökstuðningur Arion banka gengur út á, að ekki sé hægt að krefja bankann um endurgreiðslu á ofgreiðslu sem átti sér stað áður en "stefndi var stofnaður", eins og segir í dómnum.

Þetta er einmitt atriðið þar sem mér finnst Arion banki skjóta sig og keppninauta sína í fótinn:  Sé ekki hægt að sækja ofgreiðslur til Arion banka sem áttu sér stað áður en Nýja Kaupþing var stofnað vegna aðildarskorts (miðað við málflutninga annars staðar), þá getur Arion banki ekki heldur krafið lántaka um vangreiðslur vegna gjalddaga áður en bankinn var stofnaður.  Réttindi og skyldur Arion banka hljóta að gilda frá sömu dagsetningu.  Nú verður Arion banki að ákveða sig frá hvaða dagsetningu þessi réttindi og skyldur bankans eiga að gilda.  Þangað til bankinn hefur ákveðið sig, þá er það mín skoðun að enginn lántaki eigi að samþykkja kröfur bankans um vangreiðslur vegna gjalddaga fyrir 8. október 2008 Þessu til viðbótar eiga lántakar að krefjast upplýsinga um það hvenær bankinn tók yfir lán frá Kaupþing banka eða Seðlabanka Íslands og hafna öllum kröfum Arion banka um vangreiðslur fram að þeim tíma.  Lántakar eiga aftur á móti að standa fastir á því að höfuðstóll lána þeirra verði leiðréttur, harðneita að ofan á höfuðstólinn verði bætt vangreiddum vöxtum fyrri ára.  Eins og Arion banki segir sjálfur í vörn sinni fyrir héraðsdómi, þá er bankinn ekki aðili að þeim hluta kröfunnar.

Er afturvirkni vaxta þar með í reynd úr sögunni?

Ég get ekki annað en valt því fyrir mér hvort með þessu sé afturvirkni vaxtanna úr sögunni, a.m.k. í því tilfelli þar sem krafan/lánið hefur flust á milli kennitalna.  "Vangreiddir" vextir ná í öllum tilfellum til gjalddaga áður en þríburarnir féllu.  Krafan vegna vangreiðslu ætti því að eiga uppruna sinn hjá þeirri fjármálastofnun sem var handhafi skuldabréfsins á þeim tíma sem "vangreiðslan" átti sér stað.  Þær fjármálastofnanir eru nær allar með tölu farnar á hausinn.  Því til viðbótar tóku mörg þessara fjármálafyrirtækja og eigendur þeirra á grófan hátt stöðu gegn viðskiptavinum sínum, bæði með markaðsmisnotkun varðandi verð hlutabréfa og ekki síður í stöðutöku gegn krónunni í þeim, að því virðist, eina tilgangi að fella krónuna og græða sem mest á falli hennar.

Ég hlakka til að hlusta á málflutning Kaupþings banka, þegar reynt verður að innheimta vangreidda vexti.  Þó svo að slitastjórn/skiptastjórn hafi ekki verið þátttakendur í svikunum, lögbrotunum og prettunum, þá þyrftu þessir aðilar að verja hátterni stjórnenda og eigenda bankans.  Sé ég það ekki fyrir mér gerast.


Ef við tökum Björgólf út úr jöfnunni, þá er Ísland í lagi - Hvern er verið að blekkja?

Seðlabanki Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu að með því að taka tvö af fyrirtækjum Björgólfs Thors Björgólfssonar út úr mælingum á hagstærðum (þ.e. Actavis og Landsbanka Íslands), þá er staða Íslands bara fín.  Þetta kemur m.a. fram í skýrslu Seðlabankans um skuldastöðu þjóðarbúsins, sem kom út í gær.  Greining Arion banka fjallar um þetta í Morgunpunktum sínum.

Þetta er merkileg aðferð hjá SÍ til að koma stöðu þjóðarbúsins á réttan kjöl.  Ég skil bara ekkert í þeim að hafa ekki fattað þetta fyrr.  T.d. væri hægt að flytja Landsvirkjun úr landi og þá hyrfi góður hluti af skuldum þjóðarbúsins, látum Orkuveitu Reykjavíkur fljóta með og sjávarútveginn og þá værum við bara skuldlaus við útlönd fyrir utan skuldir ríkisins.

Þessi talnaleikfimi SÍ er að mínu mati ekki sniðug.  Við reiknum okkur ekki úr mínus í plús.  Actavis er starfandi á Íslandi og hefur mér vitanlega ekki verið afskráð sem íslenskt félag.  Skuldir þess eru því íslenskar, þar til það gerist að það verður hlutdeildarfélag í Deutshe Bank sem er ekki orðið.

En skoðum það sem visir.is hefur upp úr Morgunpunktum Greiningar Arion banka:

Án banka í slitameðferð var viðskiptajöfnuður neikvæður um 3,7% af VLF árið 2010.

Þegar búið er að gera ráð fyrir hlut erlendra kröfuhafa í gömlu bönkunum var viðskiptajöfnuðurinn hinsvegar jákvæður um 6,4% af VLF.

Þegar ennfremur er búið að taka Actavis út úr sviðsmyndinni er viðskiptaafgangurinn hvorki meira né minna en 13% af VLF sem gera um 200 milljarða kr. á ári

Ef matið í skýrslunni stenst er ljóst að afgangur á vöru- og þjónustuviðskiptum mun duga til að standa undir vaxta- og arðgreiðslum til erlendra aðila ásamt því að töluvert svigrúm verður til að greiða niður skuldir þjóðarbúsins.

Mér finnst þessar ályktanir Greiningar Arion banka stórhættulegar og jafnvel að eitthvað vanti upp á að menn hafi lesið skýrslu SÍ.  Þó svo að bankar í slitameðferð og hlutur erlendra kröfuhafa í gömlu bönkunum sé tekin út úr jöfnunni, þá þarf á einhverjum tíma að færa þessar eignir úr landi.  Í skýrslunni kemur t.d. fram í töflu III-2 á bls. 17 að innlendar eignir föllnu bankanna 30. júní 2010 hafi numið 1.110 milljörðum kr.  Þessa peninga þarf að flytja úr landi á einhverjum tíma til að gera upp við erlenda kröfuhafa.  Af þessum 1.110 milljörðum kr. eru 275 milljarðar kr. í innstæðum í erlendum gjaldeyri, en annað er eignir í íslenskum krónum.  Í heildina er þessi tala 5,5 sinnum útreiknaður jákvæður viðskiptajöfnuður, en fyrir utan innstæður í erlendum gjaldeyri er talan ríflega 4-faldur útreiknaður jákvæður viðskiptajöfnuður.  (Raunar tel ég að innstæður í erlendum gjaldeyri séu ekki varðveittar í erlendum gjaldeyri, heldur bara sem rafræn færsla, þannig að útvega þarf 1.110 milljarða í erlendum gjaldeyri.)  Að reikna þessa 1.110 milljarða út úr gjaldeyrisþörf er að mínu einstaklega barnaleg tilraun til blekkingar.

Icesave er ábyrgð Alþingis er ekki inni í þessari tölu SÍ.  Enginn veit hve há hún verður.  Gerum ráð fyrir að hún verði 200 milljarðar, þá vantar sem sagt 1.310 milljarða við útflæði gjaldeyris frá landinu.  Þessi tala er um 87% af vergri landsframleiðslu!

Ég tel það vera ákaflega blekkjandi að nota hreinar þjóðarskuldir sem viðmið um getu þjóðarbúsins til ráða við eftirspurn eftir gjaldeyri. Svo er bara alls ekki.  Viðskiptajöfnuður er líka villandi viðmiðun, þar sem hluti hans er ekki hreint innstreymi gjaldeyris.  Hækkun á verð erlendra eigna þjóðarbúsins veldur t.d. hækkun á viðskiptajöfnuði, en enginn gjaldeyrir kemur inn í landið.  Þó svo að lífeyrissjóðirnir, svo dæmi sé tekið, selji erlendar eignir með hagnaði, þá er ekkert sem segir að þeir muni flytja gjaldeyrinn til landsins.  Eina viðmiðið sem hér er marktækt er hreint innflæði gjaldeyris vegna vöru- og þjónustuliða og hvort það sé nægjanlegt til að standa undir hreinu útstreymi gjaldeyris vegna annarra þátta.  Ég þigg öll rök sem mæla til annars.


mbl.is Umtalsvert svigrúm til gjaldeyriskaupa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert ferli stoppar ásetning til illra verka - Málið er að uppgötva illvirkin í tæka tíð

Ég var beðinn um að fara yfir ferlið við skráningu nafns og kennitölu þeirra sem eru fylgjandi því að Icesave-lögin hin þriðju fari í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Leituðu aðstandendur undirskriftarsöfnunarinnar til mín, þar sem upplýsingaöryggi og persónuvernd er það sem ég fæst við í mínu starfi.  Eftir skoðun á ferlinu, þá kom ég með fjölmargar spurningar, sem aðstandendur söfnunarinnar svöruðu af kostgæfni.  Ein sneri að möguleika fólk til að skrá inn bull nöfn og kennitölur.  Til að hafa ferlið eins einfalt og hægt er, þá er samanburður á nöfnum og kennitölum gerður þegar lokað hefur verið fyrir söfnunina.  Kjánaprik, prakkarar og skemmdarvargar geta því eytt tíma sínum í að skrá inn Bart Simpson eða Kaptein Kirk hafi þeir einhverja friðþægingu út úr því, en þessum skráningum er öllum eytt í yfirferð skráninga.  Þá óskaði ég eftir því að skoðaðar væru margfaldar skráningar frá sömu IP-tölu til að koma í veg fyrir að einhver sæi sér leik í því að hrúga inn undirskriftum án þess að hafa til þess heimild viðkomandi aðila.

Vegna skamms undirbúningstíma fyrir þessa söfnun var ákveðið að fara ofangreinda leið.  Hefur hún ekki hingað til þótt orka tvímælist og margoft viðgengist.  Spurningar sem má spyrja sig, eru hvers konar ferli hefði verið æskilegt og hvers konar ferli hefði komið í veg fyrir skemmdarverk illa þenkjandi aðila á svona framtaki.

Svo ég svari síðari spurningunni fyrst, þá hefði ekkert ferli komið í veg fyrir tilraunir til skemmdarverka.  Sumir eru bara ekki stærri persónur en svo, að þeir hafa þörfina til að skemma fyrir öðrum.  Þeir verða að eiga það við sína siðgæðisvitund.  Ekkert ferli stoppar einstakling í þeim eindregna ástendingi sínu að koma fram illum vilja.  Hlutverk öryggisráðstafana í þessu tilfelli er ekki að koma í veg fyrir bullskráningar, heldur að uppgötva þær áður en listinn er sendur forseta Íslands.

Hvernig er æskilegt ferli?  Í fyrsta lagi, þá er ekki til neitt fullkomlega öruggt ferli.  Jú, það hefði verið gott að láta viðkomandi staðfesta skráninguna.  Sá háttur hefur kosti og galla.  Kostirnir eru að meiri líkur væru á því að staðið væri heiðarlega að öllum skráningum (gert er ráð fyrir að stærsti hluti skráninga sé í lagi frá upphafi) og hægt væri að koma upp um falsaðar skráningar.  Ókostirnir eru að ekki eru allir með tölvupóst eða netbankaaðgang til að fá slík staðfestingarboð, flækjustig skráningarinnar eykst og meiri líkur eru á villum við innslátt.  Næst þá hefði verið gott að gefa fólki kost á að sjá hvaða aðilar hefðu skráð sig, svo einstaklingar sem hafa verið skráðir ranglega gætu krafist leiðréttingar.  Slíkt ferli kallar líka á misbeitingu, þ.e. óprúttnir aðilar gætu sagst vera réttilega skráður aðili og krafist þess að nafnið væri fjarlægt, meiri umgjörð hefði þurft til að sannreyna strax að nafn og kennitala væri til í þjóðskrá og það sem mestu máli skiptir, fleiri hefðu haft aðgang að gögnum sem þar með hefði leitt af sér ríkari kröfur um röklægt öryggi.

Næst má spyrja hvort núverandi fyrirkomulag sé fullnægjandi.  Það er mín skoðun að núverandi fyrirkomulag uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til undirskriftar á borð við þessa.  Aðstandendur söfnunarinnar munu láta framkvæma skoðun á skráningum með það í huga að finna dæmi um þar sem nöfn og/eða kennitölur eru a) ekki til í þjóðskrá, b) eiga ekki saman.  Eftir munu standa einhver dæmi um nöfn og kennitölur sem til eru í þjóðskrá, en voru misnotuð af óheiðarlegum aðilum.  Ómögulegt er að segja til um hve stór hluti skráninga falla undir þennan hóp.  1% er um 389 skráningar og 10% um 3.886 skráningar.  Ég er viss um að fjöldinn er vel undir 10% mörkunum og mjög líklega vel undir 5%.  Ég held nefnilega að Íslendingar séu upp til hópa heiðarlegir og það séu nær eingöngu þeir sem vilja skemma sem búa yfir þeim óheiðarleika að skrá inn rangar upplýsingar.

Er söfnunin marklaus, ef allt að 10% skráninga er skemmdarverk?  Nei, alveg afdráttarlaust ekki.  Þó svo að 20% skráninga væri skemmdarverk, þá er söfnunin ekki marklaus.  Hin 80-90% eru þó a.m.k. heiðarlegar skráningar.  Ekki skiptir meginmáli hvort heiðarlegar skráningar eru 30.000, 34.500 eða 39.000.  Komið hefur fram eindreginn vilji umtalsverðs hluta kjósenda að málið fari í þjóðaratkvæði.  Sé aftur 40 - 50% skráninga óheiðarlegar, þá tel ég kröfuna um þjóðaratkvæði ekki njóta nægilegs stuðnings og söfnuna ómarktæka.

Sorglegast finnst mér í þessu, að ekki sé hægt að treysta á heiðarleika manna.  Ítrekað gerist það, að andstæðingar einhverrar hugmyndar reyna að skemma fyrir fylgjendum hennar. Ekki með því að koma með sannfærandi rök fyrir ágæti sinnar skoðunar.  Nei, með skemmdarverkum.

Svo vill til að söfnun, eins og sú sem hér um ræðir, nýtur verndar fjarskiptalaga og raunar líka laga um persónuvernd.  Rangar skráningar eru því brot á þessum tvennum lögum.  Hafa skal í huga, að kjosum.is er ekki sá sem skráir upplýsingarnar, heldur tekur við skráningum.  Sá sem skráir upplýsingar ranglega er skyldugur samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga að sjá til þess að rangar upplýsingar séu leiðréttar.  Aðstandendur kjosum.is eiga að gera það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að skráðar upplýsingar séu réttar og fjarlægja þær sem ekki standast skoðun.  Með því eru þeir að uppfylla skyldur sem persónuverndarlögin setja þeim.  Það er aldrei hlutverk aðstandenda kjosum.is að tryggja heiðarleika við skráningu. Slíkt verður hver og einn að eiga við sig.


mbl.is Telur söfnunina marklausa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni Páll fer með fleipur - Úrskurður Hæstaréttar nær til lán óháð tilgangi og veði

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, er stundum fljótur á gikknum.  Visir.is hefur eftir ráðherra:

Hann staðfestir að það sem löggjafinn gerði fyrir jól var hárétt. Það er að segja að það sama gildi í grundvallaratriðum um gengistryggð íbúðalán og gengistryggð bílalán

og síðan að það

geti reynst erfitt að finna fordæmisgildi gagnvart öðrum fyrirtækjalánum

í úrskurði Hæstaréttar í máli Tölvupóstsins (mál nr. 603/2010) sem kveðinn var upp í gær.  Ég ætla því að hjálpa ráðherranum aðeins við lesturinn.  Í úrskurðinum segir nefnilega:

Að framan var gerð grein fyrir lánssamningi aðilanna, en þar skiptir mestu það efni hans að lánsfjárhæð var ákveðin í íslenskum krónum og hana bar að endurgreiða í sama gjaldmiðli. Þá var lánið bundið sölugengi Seðlabanka Íslands á tilteknum erlendum gjaldmiðlum eins og áður er lýst, sem einnig bendir ótvírætt til að það sé í íslenskum krónum, enda engin þörf á að kveða á um gengistryggingu ef lán væri í raun í erlendri mynt, svo sem varnaraðili heldur fram að samningurinn kveði á um. Slík verðtrygging skuldbindinga í íslenskum krónum er ólögmæt samkvæmt áðurnefndum ákvæðum laga nr. 38/2001. Að þessu virtu skiptir hvorki máli þótt staðhæfing um erlent lán komi fram í fyrirsögn lánssamnings né yfirlýsing sóknaraðila um að skulda í erlendum gjaldmiðlum „jafnvirði“ tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum. Aðrar fram bornar málsástæður varnaraðila fá heldur ekki hnekkt því að lánið var ákveðið í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla. 

Og síðar segir um vextina:

Ekki verður fallist á að lengd lánstíma, ólík veð eða heimild til að breyta vöxtum skipti máli um það hvaða vextir skuli gilda við þær aðstæður, sem hér reynir á. (Leturbreyting mín)

Ég fæ ekki betur séð en að Hæstiréttur skýri þetta alveg ágætlega út.  Hvergi er vikið að því að máli skiptir til hvers lánið var tekið og alveg sérstaklega er tekið fram að tegund veðs skiptir ekki máli.  Hæstiréttur ýjar einnig að því, að ekki megi krefjast hærra vaxta afturvirkt, þó það sé ekki óyggjandi.

Að mínu áliti, þá ganga úrskurðir Hæstaréttar mun lengra en lög nr. 151/2010 að sumu leiti, þ.e. úrskurðirnir ná til fleiri lána en lögin.  Í annan stað ganga lögin lengra, þar sem fjármálafyrirtækjunum er bannað að taka dráttarvexti eða vanskilakostnað inn í uppgjör sín.  Nú er bara að bíða og sjá hvað EFTA-dómstóllinn segir eða Eftirlitsstofnun EFTA, þar sem þessi mál munu alveg örugglega rata þangað.


mbl.is Endurreiknar öll „gengistryggð" lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafnar Hæstiréttur afturvirkum vaxtaútreikningi? - Eðli veðs eða lengd lánstíma breytir ekki vöxtum

Hæstiréttur kvað upp tvo úrskurði í gær.  Segja má að þeir séu Salómonsdómar fyrir lántaka gengistryggðra lána, en eins og oft áður lýkur rétturinn ekki málinu.  Úrskurðirnir sem um ræðir eru:

  • 604/2010 Sigurður Hreinn Sigurðsson og Maria Elvira Mendez Pinedo (Ragnar Halldór Hall hrl.) gegn Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. (Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl. Hlynur Jónsson hdl.) og gagnkæra
  • 603/2010 Tölvupósturinn ehf. (Björn Þorri Viktorsson hrl. Guðrún Björg Birgisdóttir hdl.) gegn Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. (Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl. Jóhann Pétursson hdl.) og gagnkæra

Þrennt virðist skipta miklu máli í úrskurðarorðum Hæstaréttar. Fyrsta er að lán lögaðila falla einnig undir fordæmi dóma Hæstaréttar nr. 92/2010 og 153/2010 frá 16. júní 2010.

Annað er að fordæmi dóms réttarins frá 16. september í máli nr. 471/2010 er sagður vera afdráttarlaus, þ.e.

Hæstiréttur taldi að lengd lánstíma, ólík veð eða heimild til að breyta vöxtum hefðu ekki þýðingu í þessum efnum.

Þetta þýðir einfaldlega að ekki skiptir máli hvort lánið er með veði í húsnæði, bifreið, vélsleða, hlutabréfum eða málverki, hafi lánið verið gengistryggt þá skal það taka sömu vexti í samræmi við 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  Greinilegt er að lántakar sækja ekki meira til réttarins hvað þetta varðar.

Þriðja atriðið snýr að ógreiddum vöxtum, þar sem ákvæði 4. gr. laga nr. 38/2001 leiðir almennt til þess að gjalddagagreiðslur hafi verið ófullnægjandi sé tekið tillit tilnýs vaxtaákvæðis.  Í báðum málum vísar Hæstiréttur til þess að ekki hafi kærður til réttarins sá þáttur sem snýr að afturvirkum vöxtum.  Fyrir Hæstarétti liggi því ekki ágreiningur um hvort heimilt sé að breyta vöxtunum afturvirk og rétturinn tekur því ekki afstöðu til slíks.

Í lok þessarar umfjöllunar um úrskurði Hæstaréttar, þá er rétt að benda á, að meirihluti Hæstaréttar hafnar þeirri ósk sóknaraðila í máli nr. 604/2010 að leita álits EFTA-dómstólsins.  Einn dómari, Ólafur Börkur Þorvaldsson, vildi fara þá leið.  Er sorglegt að Hæstiréttur hafi ekki nýtt þetta tækifæri til að eyða allri óvissu um túlkun neytendaverndartilskipunar ESB.

Hvað þýða úrskurðir Hæstaréttar?

Eins og ég bendi á að ofan, þá þýða úrskurðirnir að lögaðilar eigi sama rétt og einstaklingar þegar kemur að því að túlka hvenær lán eru gengistryggð og hvenær ekki.  Fordæmi dóma nr. 92/2010 og 153/2010 er ótvírætt án tillits til þess hver lántakinn er.  Þá þýðir þetta einnig að fordæmi dóms nr. 471/2010 gildir um öll lán óháð tegund veðs eða lengd lánstíma.  Hvorutveggja er í samræmi við það sem búast mátti við og er í samræmi við hina stífu lagatúlkun Hæstaréttar sem komið hefur fram í fjölmörgum málum á undanförnum mánuðum.  Raunveruleikinn kemur Hæstarétti ekkert við.

Hér eru enn komnir dómar/úrskurðir frá Hæstarétti án þess að ljúka málinu svo óyggjandi sé.  Er það að verða gjörsamlega óþolandi staða.  Nú þarf að höfða eitt mál í viðbót til að fá úr því skorið hvort breyta megi vöxtum afturvirkt. Hafa skal samt í huga, að Hæstiréttur staðfesti í báðum málum dóma héraðsdóms.  Í máli nr. 604/2010 segir héraðsdómari að vextir lánanna sem um ræðir skuli:

á hverjum tíma vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum, og birtir eru samkvæmt 10. gr. sömu laga

Ekkert bendir til þess að héraðsdómur sé að ákveða vextina aftur í tímann, heldur bara fram í tímann.  Hæstiréttur segir svo í máli nr. 603/2010:

Er þegar af þessum ástæðum ekkert í kröfugerð málsaðila sem lýtur að viðurkenningu á ætluðum rétti varnaraðila til greiðslu úr hendi sóknaraðila vegna liðins tíma.

Erfitt er að ákvarða nákvæmlega hvað þetta þýðir, þar sem Hæstiréttur getur ekki tekið á kröfu sem gerð fyrir réttinum.  Varnaraðili (FF) gerir ekki kröfu um "vangreidda" vexti og því má spyrja hvort hann telji vextina ekki vera vangreidda.  Á móti kemur að í máli nr. 604/2010 segir Hæstiréttur:

Fyrir Hæstarétti krefst varnaraðili nú einungis staðfestingar á að hafnað verði öllum kröfum sóknaraðila, en féll við munnlegan flutning málsins frá síðarnefndu kröfunni. Þar með er ekkert í kröfugerð hans sem lýtur að viðurkenningu á rétti til greiðslu úr hendi sóknaraðila vegna liðins tíma.

Hvers vegna gerir varnaraðili ekki kröfu um vexti aftur í tímann?  Hvers vegna vísar Hæstiréttur ekki til laga nr. 151/2010 um breytingu á lögum nr. 38/2010?  Nei, nú verða lögspekingar að leggjast í túlkun á þögn Hæstaréttar og síðan að fara í mál.

Furðuleg röksemd FF

Ég get ekki annað en furðað mig á einu atriði sem kemur fram í úrskurði Hæstaréttar. Er það í III. kafla úrskurðarins, þar sem segir:

Um þetta og annað hafi sérhæfðir starfsmenn varnaraðila leiðbeint eigendum sóknaraðila. Þá hafi þeim [sóknaraðila] verið fullljóst að varnaraðili væri að endurlána fé, sem hann hafi fengið frá erlendum lánastofnunum og bæri áhættu af í samræmi við það.

Þessi tilvísun er tekin úr reifun FF á málinu. Ég skil ekki hvernig FF getur sagt að FF "væri að endurlána fé, sem hann hafi fengið frá erlendum lánastofnunum".  Það þarf ekki annað en að skoða kröfuhafaskrá  til að sjá, að SPRON var stærsti lánveitandi FF og erlendar lánastofnanir komast þar ekki á blað svo neinu nemur.  Ekki að þetta hafi breytt framhaldinu, en það hlýtur að teljast grafalvarlegur hlutur að annar málsaðili ljúgi svona upp í opið geðið á Hæstarétti, þegar opinber gögn segja allt annað.


mbl.is Segja lög um gengistryggð lán gagnslaus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virðisaukaskattssvik fjármögnunarleiga? - Stóru fiskarnir sleppa en þeir litlu eru gripnir

Þórdís B. Sigurþórsdóttir er hluti af stórum hópi fólks sem barist hefur ötullega gegn spillingu í þjóðfélaginu.  Mest hefur barátta hennar beinst gegn, vægt til orða tekið, einkennilegra viðskiptahátta þeirra fyrirtækja sem lánuðu ógrynni fjár til viðskipta með bifreiðar, þ.e. hin svo kölluðu fjármögnunarfyrirtæki eða fjármögnunarleigur.  Þessi veg ferð hennar hefur leitt hana um sífellt furðulegri slóðir gjörninga sem ekki er hægt að kalla neitt annað en stórfelld undanskot frá skatti og sinnuleysi opinberra aðila til að rannsaka þessa háttsemi.

Í nýjasta pistli sínum fer hún mjög ítarlega yfir þá háttsemi sem átti sér stað hjá líklegast öllum fjármögnunarleigunum.  Ferlið var í flestum tilfellum eins og hér segir:

  1. Áhugasamur kaupandi finnur bíl hjá bílasala sem honum líst á.
  2. Gengið er frá kaupunum með láni frá fjármögnunarleigu, sem greiðir fyrir bifreiðina.
  3. Gefið er út skuldabréf á kaupandann, sem verður samt ekki eigandi bifreiðarinnar, heldur er það fjármögnunarfyrirtækið.
  4. Bílasalinn gefur út reikning á fjármögnunarfyrirtækið og í samræmi við íslensk lög er gefinn upp virðisaukaskattur á reikningnum.  Fjármögnunarfyrirtækið færir greiddan virðisaukaskatt sem innskatt í bókhaldinu sínu og notar til frádráttar útskatt sem það krafði aðra um fyrir viðkomandi uppgjörstímabil.
  5. Þrátt fyrir ákvæði lánasamnings gefur fjármögnunarfyrirtækið ekki út reikning á kaupandann og því verður ekki til útskattur hjá fjármögnunarfyrirtækinu.  Á einhvern stórfurðulegan hátt hverfur virðisaukaskatturinn af bifreiðinni við sölu hennar til lántakans.
  6. Við uppgjör á virðisaukaskatti, þá tiltekur fjármögnunarfyrirtækið innskattinn vegna bifreiðakaupa á virðisaukaskattsskýrslunni sinni, en gerir EKKI grein fyrir útskattinum sem varð við sölu bifreiðarinnar til lántakans.

Velta má því fyrir sér hvernig stendur á því að fjármögnunarfyrirtækin hafi ekki gefið upp á virðisaukaskattsskýrslum sínum útskatt vegna þeirra bifreiða sem fyrirtækin höfðu milligöngu um sölu á.  Kannski var það, að þessi viðskipti byrjuðu öll í upphafi sem rekstrarleiga á bifreiðum og tækjum, þ.e. bifreiðar og tæki voru leigð til fyrst fyrirtækja og síðar einstaklinga.  Virðisaukaskatturinn var því rukkaður af leigugreiðslunni, enda átti fjármögnunarfyrirtækið ennþá bifreiðina/tækið.  Síðan breyttist það, að eingöngu var um fjármögnun á kaupum, en verkferlið hélst óbreytt.

Fyrir nokkrum dögum var stjórnarformaður fyrirtækis dæmdur í 12 mánaða fangelsi, þar af 3 óskilorðsbundið, fyrir að standa ekki skil á vörslusköttum að fullu.  Upphæðin sem hann hafði ekki staðið skil á var um 12 m.kr. (ef ég man rétt) sem gerði alls 48 m.kr. með öllu (að mig minnir).  Ef jafnræði ríkir í þjóðfélaginu (sem ég efast stórlega um), ættum við að sjá á næstu mánuðum ákærur á hendur stjórnarformönnum allra fjármögnunarfyrirtækjanna og framkvæmdastjórum vegna skattalagabrota.  Samkvæmt útreikningum Þórdísar gæti umfang þessara brota num hátt í 9 milljörðum króna á því tímabili sem hún tiltekur.  Bætum tvöfaldri sekt ofan á (eins og lög heimila), þá gerir þetta ríflega 25 milljörðum kr.  Deilum þessu í fjóra hluta og þá fáum við ríflega 6 milljarða á hvert fyrirtæki.  Hafi 48 m.kr. gefið 12 mánuði, þá ættu 6 milljarðar að gefa eitthvað lengri tíma.

Það er svo sem ekkert markmið, að menn fái fangelsisdóma fyrir afbrot sín.  Mestu máli skiptir að almenningur sér látinn líða fyrir hugsanleg skattalagabrot fjármögnunarfyrirtækjanna. Tæpir 9 milljarðar er allur niðurskurður í velferðarkerfinu á þessu ári og hinu síðasta.  Þetta jafngildir vaxtabótum ársins og er þriðjungur af áætluðum vöxtum vegna Icesave á þessu ári.  Ekki það að ég haldi að þessi fjárhæð verði nokkru sinni innheimt.  Í fyrsta lagi skortir allan vilja hjá opinberum aðilum að skoða þessi brot.  Eftirlitsaðilar kasta þessu á milli sín eins og heitum bolta.  FME virðist t.d. vita gagnslaust þegar kemur að lögbrotum fjármálafyrirtækja á öðrum lögum en sérlögum um rekstur þeirra (og þar gengur jafnvel illa).  Hlutverk FME er m.a. að tryggja að fjármálafyrirtæki fari að lögum.  Í öðru lagi, þá eru tvö fyrirtækjanna, sem stóðu í þessari lánastarfsemi, farin á hausinn, þ.e. Glitnir og Avant.  Í þriðja lagi, þá er ljóst að þó svo að einhver vilji væri fyrir því að sækja þessi mál, þá er geta kerfisins til að sækja að stóru fiskunum nánast engin.  Kerfið er hannað til að fanga litlu fiskana, en láta þá stóru sleppa.  Þetta sést vel í fjölda mála, þar sem kerfið hefur ráðist gegn fjárvana einstaklingum og dregið mál þeirra fyrir dómstóla meðan stóru fyrirtæki virðast ósnertanleg.

Athugasemd sett inn 21.2.2011 kl. 18:30

Mér barst eftirfarandi ábending/athugasemd/leiðrétting frá Kjartani Georgi Gunnarssyni, framkvæmdastjóra SP-fjármögnunar.  Set ég hana óbreytta inn, eins og samdist um okkar á milli:

Sæll Marinó

Í pistli í bloggi þínu tekur þú ansi stórt upp í þig um fjármögnunarfyrirtæki og talar um að Þórdís Björk Sigurþórsdóttir hafi barist ötullega gegn spillingu í þjóðfélaginu.  Þú kemst að þeirri niðurstöðu að „þessi vegferð hennar hefur leitt hana um sífellt furðulegri slóðir gjörninga sem ekki er hægt að kalla neitt annað en stórkostleg undanskot frá skatti....“  Þetta eru stór orð og grafalvarleg.  Þarna ert þú ekki að setja þetta fram í spurningaformi, heldur ert þú að staðhæfa að fjármögnunarfyrirtæki stundi „stórkostleg undanskot frá skatti“.  Eins og ég sagði við þig þegar ég rakst á þig í lobbýinu á Grand Hotel fyrir fund Landsbankans ættir þú að kynna þér á hvern hátt bílalánaviðskipti ganga fyrir sig áður en þú ferða að skýra það út fyrir alþjóð.  Það er rétt sem þú segir í lið 1. „Áhugasamur kaupandi finnur bíl hjá bílasala sem honum líst vel á“.  Það er augljóslega ekki hægt að finna neitt að þeirri fullyrðingu.  Síðan heldur þú áfram í lið 2. „Gengið er frá kaupunum með láni frá fjármögnunarleigu , sem greiðir fyrir bifreiðina“.  Þarna er strax komin ónákvæmni þar sem þessi ályktun stemmir ekki við það sem fram kemur í lið 3. „Gefið er út skuldabréf á kaupandann, sem verður samt ekki eigandi bifreiðarinnar, heldur er það fjármögnunarfyrirtækið.“  Ef kaupandi gefur út skuldabréf verður hann eigandi bifreiðarinnar.  Þá er enginn reikningur gefinn út á fjármögnunarfyrirtækið heldur er afsal gefið út á kaupandann.  Ef hins vegar er um bílasamning að ræða gera aðilar, þ.e. fjármögnunarfyrirtækið og leigutakinn („kaupandinn“) með sér kaupleigusamning þar sem fjármögnunarfyrirtækið kaupir bílinn og leigir til leigutaka.  Þá er reikningur stílaður á fjármögnunarfyrirtækið sem verður eigandi bílsins enda greiðir það kaupverðið.  Þarna ferð þú að fabúlera með að “í samræmi við íslensk lög er gefinn upp virðisaukaskattur á reikningnum”.  Ef þú hefðir fyrir því að kynna þér íslensk lög áður en þú ferð að básúna fyrir alþjóð hvernig þessi viðskipti ganga fyrir sig myndir þú vita að viðskipti með notaða bíla bera að jafnaði ekki virðisaukaskatt.  Sölureikningur sem fjármögnunarfyrirtæki gefur út með kaupleigusamningum um notaða bíla ber engan virðisaukaskatt og því er ekki um neinn útskatt að ræða.  “Þú vílar hins vegar ekki fyrir þér að tala um “að á einhvern stórfurðulegan hátt hverfi virðisaukaskatturinn af bifreiðinni við sölu hennar til lántakans.”  Allt tal um “stórkostleg undanskot frá skatti” eru í besta falli sögð af vanþekkingu. Þótt þú hafir sagt af þér sem stjórnarmaður í Hagsmunasamtökum heimilanna eru margir sem hlusta á skoðanir þínar og því myndi ég í þínum sporum temja mér að gæta hófs í umfjöllun um málefni og forðast sleggjudóma.  Höfum hugfast að orðum fylgir ábyrgð.

Ég treysti því að þú komir leiðréttingu um þetta á framfæri í bloggi þínu, þar sem ég dreg það ekki í efa að þú viljir hafa það er sannara reynist.

 

Bestu kveðjur

Kjartan


 


Hvaða framfærsluviðmið eiga við?

Í Morgunblaðinu í dag er stutt viðtal við mig vegna neysluviðmiða sem koma fram í skýrslu frá velferðarráðuneytinu.  Hafi fólk ekki vaknað nógu snemma í morgun, þá hefur það misst af tengli á viðtalið á forsíðu mbl.is og vil ég því benda því á tengilinn, en ekki síður skjal sem ég tók saman að beiðni blaðamanns og fylgir fréttinni á mbl.is.

Eins og einhverjir muna eftir, þá var ég beðinn um að taka þátt í vinnu "sérfræðingahóps" á vegum forsætisráðuneytisins um skuldamál heimilanna.  Ég hélt í einfeldni minni, að hópurinn ætti að skoða raunhæfar leiðir til lausnar vandanum, en svo reyndist ekki vera.  Sendi ég því inn sérálit, þar sem ég gerði grein fyrir minni skoðun.  Eitt atriði gerði ég þó meiri ágreining um en annað.  Það var neysluviðmiðið sem stuðst var við í útreikningum hópsins.  Taldi ég það allt of lágt.

Skýrsla velferðarráðuneytisins um neysluviðmið staðfestir svo ekki verður um villst, að mat mitt á raunveruleikanum var betra en fulltrúa hins opinbera í "sérfræðingahópnum".  Ef eitthvað var, þá var ég of íhaldssamur á neysluna, þ.e. taldi hana lægri en raunin er, a.m.k. samkvæmt tölum í skýrslu ráðuneytisins.

Samanburður erfiður

Gallinn við tölur frá mismunandi aðilum er samanburðarhæfnin.  Jafnvel eru vandræði með að bera saman tölur frá einum og sama aðilanum og á það við um tölur ráðuneytisins.

En hvernig er best að skoða þessar neyslutölur?  Umboðsmaður skuldara og áður Ráðgjafastofa um fjármál heimilanna skiptu útgjöldum heimilanna upp í fjóra útgjaldaflokka.  Fyrsti flokkurinn er það sem mætti kalla stöðluð neysla, þ.e. neysla sem virðist vera svipuð milli heimila af sömu heimilisgerð.  Annar flokkurinn er almenn neysla og útgjöld sem eru breytileg milli heimila, svo sem tryggingar, sími og net, fasteignagjöld, hiti, rafmagn skólakostnaður og afborganir neyslulána.  Þriðji flokkurinn er bifreið og bleyjur, þ.e. séu útgjöld vegna þessara liða, þá er þeim bætt ofan á útgjöld heimilisins.  Fjórði og síðasti flokkurinn er húsnæðislán eða leiga.  Faghópur velferðarráðuneytisins notast við fimm útgjaldaflokka:  neysluvörur, þjónusta, tómstundir, samgöngur og húsnæðiskostnaður.  Er hægt að bera saman tölur umboðsmanns skuldara og velferðarráðuneytisins eða eru þær of ólíkar?

Í skjalinu sem fylgir frétt Morgunblaðsins geri ég tilraun til þess að bera saman eftirfarandi gildi:

  • Neysluviðmið umboðsmanns skuldara í fyrsta flokki
  • Neysluviðmið sem "sérfræðingahópurinn" notaði í sinni skýrslu
  • Neysluviðmið sem ég taldi rétt að nota í vinnu "sérfræðingahópsins"
  • Skammtímaviðmið í skýrslu velferðarráðuneytisins
  • Grunnviðmið í skýrslu velferðarráðuneytisins
  • Dæmigert viðmið í skýrslu velferðarráðuneytisins

Ber ég þessi gildi saman í fyrsta lagi án bifreiðar og húsnæðis, í öðru lagi með bifreið en án húsnæðis og í þriðja lagi með bifreið og húsnæði.  Skýri ég í skjalinu nálgun mína til að samræma tölur eins og best verður kosið miðað við þann aðgang sem ég hef að talnagögnum.

Niðurstaðan samanburðar míns er að neysluviðmið "sérfræðingahópsins" hafi verið allt of lág og endurspegli í aðeins einu tilfelli það sem flokka mætti undir rétta neyslu, þ.e. útgjöld einstaklings án bifreiðar og húsnæðis.  Í öllum öðrum tilfellum reynist viðmið meirihluta "sérfræðingahópsins" umtalsvert frá því sem velferðarráðuneytið telur vera grunnviðmið.

Vissulega er neysla engra tveggja heimila nákvæmlega eins, þó oft sé hún keimlík.  Viðmið eru meðaltalsútreikningur fyrir ákveðinn hóp neytenda.  Dæmigert viðmið faghóps ráðuneytisins er ætlað að vera meðaltal "eðlilegrar" neyslu.  Í grunnviðmiðinu er búið að skerða nokkra útgjaldaflokka verulega og því er ekki hægt að ætlast til þess að heimilin búi við slíkt ástand í langan tíma.  Þannig hafa eftirfarandi útgjaldaliðir, sem teljast til dæmigerðrar neyslu, verið feldir út úr útgjaldaflokknum tómstundir og afþreying:

  • Tómstundir, stærri tæki
  • Viðgerðir á stærri tækjum til tómstunda
  • Happdrætti, getraunir o.fl.
  • Fréttablöð og tímarit
  • Ýmislegt prentmál (líklegast bækur)
  • Pakkaferðir innanlands
  • Pakkaferðir til útlanda
  • Þjónusta hótela og gistiheimila
  • Gisting á tjaldstæði
  • Aðrir gististaðir
  • Önnur gisting innanlands
  • Áfengi
  • Tóbak

Sumt af þessu er ekkert tiltökumál, en grunnviðmiðið gerir ekki ráð fyrir að fólk fari í sumarleyfi utan heimabyggðar.  Skemmtileg skilaboð sem fólk fær frá faghópnum.

Þessu til viðbótar gerir grunnviðmið ráð fyrir lægri kostnaði við föt og skó, síma og fjarskipti, aðra þjónustu fyrir heimili, heimilisbúnað, raftæki og viðhald raftækja og loks er hvorki gert ráð fyrir kostnaði við bifreið né húsnæði!  Ef bara er horft til útgjaldaflokka án samgangna og húsnæðis, þá eru grunnviðmiðin (fyrir hjón með 2 börn á höfuðborgarsvæðinu) um 68% af dæmigerðu viðmiði, þ.e. sá sem lifa þarf samkvæmt grunnviðmiðunum, þarf að draga útgjöld sín saman um 32% samanborið við þann sem fylgir dæmigerðu viðmiði.  Sultarólin herðist enn frekar sé skammtímaviðmiðið notað, þar sem ætlast er til að útgjöld þar séu aðeins 58% af dæmigerðu viðmiði.

Vissulega er reiknað með atriðum í dæmigerðri neyslu sem ekki allir leyfa sér eða hafa áhuga á.  T.d. fer tóbaksnotkun minnkandi og mörg heimili eru algjörlega án slíks kostnaðar.  Sama á við um áfengi, stærri tómstundatæki, happdrætti og getraunir svo fátt eitt sé nefnt.  Að sleppa þessum liðum er því engin "skerðing" á neyslu.

Neysluviðmið er bara viðmið.  Þetta er tilraun til að endurspegla raunverulega neyslu heimila og gefa henni nafn í útgjaldaflokkum.  Útreikningur faghóps velferðarráðuneytisins er ekki hafinn yfir gagnrýni, en ég tel hann vera áreiðanlegri og vandaðri en þau viðmið sem notuð hafa verið hingað til.  Viðmiðin þrjú eru því þarf innlegg í umræðuna um skuldabyrði og greiðslugetu heimilanna.


mbl.is Forsætisráðuneytið vildi ekki viðmið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dómsorð að friðhelgiákvæði sé leyfilegar skorður á tjáningafrelsi

Greinilegt er að dómur héraðsdóms í gær var mikið áfall fyrir suma fjölmiðlamenn.  Dómarinn vogaði sér að setja fjölmiðlum þau skilyrði að þeir virði stjórnarskrárvarinn rétt einstaklinga til friðhelgi einkalífs.  Fjölmiðlum er ekki sett í sjálfsvald að ákveða hvað telst leyfilegt heldur sé það ákveðið í lögum, í þessu tilfelli sjálfri stjórnarskrá lýðveldisins.

Umfjöllun DV um fjármál Eiðs Smára og skuldastöðu mína eru hvorutveggja dæmi um hvernig blaðið ákvað að tjáningarfrelsisákvæðið væri friðhelgisákvæðinu ofar.  Nú segir sérstaklega í tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar að hverjum manni sé frjálst að setja skoðanir sínar fram, en "ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi" (sjá 73. gr. laga 33/1994) og á þetta reyndi fyrir héraðsdómi.  Að viðkomandi verði að geta ábyrgst skoðanir sínar fyrir dómi, segir að tjáningarfrelsinu megi setja skorður sem getið er í lögum.  Annars væri ekki vísu í dómstóla.  Það er jú hlutverk dómstóla að kveða úr um hvort lög hafi verið brotin.  Fjölmiðlum er ekki bannað að fjalla um málefni, en telji einstaklingur að á rétti sínum hafi verið brotið, þá ábyrgist viðkomandi fjölmiðill umfjöllun sína fyrir dómi.

Í 73. gr. stjórnarskrárinnar segir einnig:

Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.

Hér segir að takmarka megi tjáningarfrelsið á almennan hátt, þ.e. lögum sem gilda fyrir alla á sama hátt.  Friðhelgisákvæði 71. gr. stjórnarskrárinnar er dæmi slíka um allsherjarreglu og þar sem friðhelgi einkalífs telst til mannréttinda, þá telst hún jafnframt nauðsynleg og samrýmast lýðræðishefðum.  Hún byrjar á einföldum orðum:

Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.

Þetta er dæmigerð allsherjarregla, þ.e. "allir" ekki "sumir" skulu njóta réttindanna.  Friðhelgisákvæðið uppfyllir því það að vera allsherjarregla og samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar má setja tjáningarfrelsinu skorður með friðhelgisákvæðinu.

Líkt og með ákvæðið um tjáningarfrelsið, þá eru settar takmarkanir á friðhelgina: 

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.

Það má sem sagt takmarka friðhelgi einkalífs að settum tveimur skilyrðum.  Annað er að það sé gert "með sérstakri lagaheimild" og hitt er að "nauðsyn ber til vegna réttinda annarra".  Nú fer ekkert á milli mála að umfjöllun um upphæð fjárskuldbinding Eiðs Smára, svo dæmi sé tekið, snerti ekki "réttindi annarra".  (Ég tel málið fyrst og fremst snúast um upphæðir en ekki viðskiptin sem Eiður Smári tók þátt í.)

Samkvæmt ákvæðum 71. og 73. gr. stjórnarskrárinnar, þá má annars vegar takmarka rétt manna til friðhelgi einkalífs og setja tjáningarfrelsi manna skorður.  Í fyrra tilfellinu þarf sérstaka lagaheimild, en í síðara tilfellinu skal það eingöngu gert með allsherjarreglu.  Málið er að þessi sérstaka lagaheimild sem gefur fjölmiðlum leyfi til að brjóta á friðhelgi einkalífs er ekki til.  Á hinn bóginn, þá hafa verið festar í lög fleiri en ein allsherjarregla um skorður á tjáningarfrelsi.  Ein þeirra er 71. gr. stjórnarskrárinnar.

Nú veit ég ekkert hvort Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms.  Niðurstaða héraðsdóms er þó alveg ótvíræð.  Fjölmiðlar verða eins og aðrir landsmenn að virða lög landsins um friðhelgi einkalífs og  tjáningarfrelsi þeirra takmarkast við allsherjarreglur í lögum.


mbl.is Vill bætur eins og Eiður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.9.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 1679457

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband