Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Landafræðin í hnút?

Það er nú talsvert langt á milli Kárahnjúka og Fljótsdals. Að segja að þetta hörmulega slys hafi orðið á Kárahnjúkum, er svipað og að segja að átökin í Hjaltabakka í Reykjavík um helgina hafi verið á Selfossi.
mbl.is Banaslys á Kárahnjúkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Farsímaveirur

Farsímaveirur eru langt frá því að vera nýtt fyrirbrigði.  Fyrstu veirurnar voru upprunar í Suð-austur Asíu og dreifðust þar í frekar takmörkuðu mæli til að byrja með.  Talið er að finnskur símnotandi hafi komið með fyrstu veiruna til Evrópu.

Farsímaveirur dreifast mjög oft með Bluetooth, þegar sýktur sími kemst í samband við aðra síma sem eru með Bluetooth tengið opið.  Það, sem gerist, er að veiran leitar að öðrum Bluetooth símum og sendir þeim boð.  Þessi boð eru oftast þannig að það er ekki hægt að hafna þeim, þannig að þó maður neiti tengingunni, þá heldur veiran áfram að senda boð um tenginguna.   Þegar slík boð berast, þá er aðeins um tvennt að ræða.  Annars vegar að færa sig, því drægi Bluetooth-tengisins er rétt um 20 metrar.  Þegar komið er út fyrir áhrifasvið hins sýkta síma, er hægt að neita móttöku sendingarinnar.  Hitt er að slökkva á símanum, sem mögulega þarf að gera með því að taka rafhlöðuna úr símanum, og síðan færa sig á öruggan stað.  Helsta ástæða fyrir því að símar sýkjast, er að notandi ósýkta símans fær símtal á meðan veiran er að hamast á símanum.  Þar sem ómögulegt er að svara meðan veiran er að reyna að ná sambandi, þá enda notendur yfirleitt á því að samþykja móttöku veirusendingarinnar.

Besta vörnin gegn farsímaveirum er að hafa Bluetooth tengið lokað fyrir óskilgreindum utanaðkomandi tengibeiðnum.


mbl.is Grunaður um að dreifa farsímaveiru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúarbragðafordómar í fréttaflutningi

Í tæp sex ár hefur mátt heyra á nær hverju degi að hinir og þessir hópar múslima hafi framið hin og þessi voðaverk út um allan heim, en þó aðallega í Miðausturlöndum.  Þessi tilvísun í trúarbrögð, ef gerendur eru múslimir (eða hindúar), hefur verið mjög áberandi í innlendum fjölmiðlum, þó svo að nákvæmlega sama frétt á BBC eða Sky er ekki með neina tilvísun í trúarbrögð viðkomandi.  Nú, ef viðkomandi er ekki múslimi, þá er ekki minnst á að hann sé gyðingur eða kristinn.  Ég t.d. tók ekki eftir því þegar Ísraelar réðust af mikilli heift á Líbanon fyrir 2 árum, að þar færu gyðingar.  Eða þegar hersveitir NATO felldu í misgripum 25 almenna borgara í Afganistan, að þar færu kristnar sveitir.  Eða í mótmælum græningja og umhverfisverndarsinna víða um heim að þeir séu kristnir, gyðingar eða múslimir.

Vil ég skora á blaða- og fréttamenn að hætta þessum tilvísunum í trú herskárra manna.  Það getur verið að í sumum tilfellum geri trúin menn öfgafulla, en ég held að það séu fyrst og fremst aðstæður þeirra sem gera það.  Svo kallaðir Íslamistar í Líbanon hafa mátt dúsa í flóttamannabúðum í þrjá og upp í fimm áratugi.  Mér þykir það bara gott, að þeir hafi ekki gripið til vopna fyrr.  En þeir gera það ekki trúar sinnar vegna, heldur vegna þess að þeim er gert ómögulegt að lifa eðlilegu lífi og fá ekki að snúa aftur til heimalands síns.

Vissulega vandast málin þegar gera á upp á milli trúarhópa í Írak, en má ekki bara sleppa því að segja að viðkomandi sé síhji eða súníti.  Og ef það er ekki hægt, er ekki a.m.k. hægt að sleppa því að tala um öfga og trú í sömu setningunni.  Af hverju eru menn öfgamenn af því að þeir eru að berjast gegn því sem þeir líta á að séu innrásaraðilar.  (Ég er ekki að taka afstöðu, heldur sýna skilning á afstöðu þeirra.)  Voru krossfararnir þá öfgafullir kristnir menn, af því að þeir fóru í herför til að ,,frelsa" ,,landið helga".  Eða eru það bara þeir sem eru af hinum trúarbrögðunum sem eru öfgamenn.  Ég man t.d. ekki eftir því að í deilunni á Norður-Írlandi hafi mikið verið að tala um öfgafulla kaþólikka eða mótmælendur.  Nei, þeir voru nefndir herskáir kaþólikkar eða mótmælendur. 

Mennirnir, sem flest bendir til að hafi staðið að baki hryðjuverkunum 11. september 2001, voru vissulega allir (að því ég best veit) Íslamstrúar, en þeir voru fyrst og fremst frá tilteknum löndum eða heimshluta.  Nokkrir þeirra höfðu meira að segja búið í Þýskalandi í nokkur ár.  Ég hef hvergi séð í heimildum/heimildarmyndum að þeir hafi framið glæpi sína vegna trúar sinnar.  Þeir gerðu það, miðað við flestar heimildir, vegna þess að þeir töldu Bandaríkin bera ábyrgð á gerðum Serba í Bosníustríðinu og sinnuleysi Bandaríkjanna í málefnum Palestínu eða eigum við að segja einhliða stuðningi Bandaríkjamanna við Ísraela.  Þeir gerðu það af því að hugsjónir þeirra buðu þeim að gera það, vegna þess að þeir voru haldnir siðblindu og mannfyrirlitningu.  Vissulega sóttu þeir styrk í trú sína, en það gera líka Bandarískir hermann í Írak.  Við megum heldur ekki gleyma því að meðal látinna 11/9 var fólk af öllum trúarbrögðum, enda var árásinni ekki beint að andlegum trúarbrögðum heldur veraldlegu tákni kapitalismans.  Afleiðing siðblindu og mannfyrirlitningu þessara einstaklinga leiddi af sér ennþá verri siðblindu og mannfyrirlitningu tveggja þjóða/þjóðarleiðtoga sem létu sært stoltið leiða sig út í tvö ákaflega heimskuleg stríð.  Og takið nú vel eftir, það hefur hvergi verið minnst á, í þessu samhengi, að þessir menn eru kristnir.


Stóra loftlagssvindlið - sjónarhorn leikmanns

Mér finnst þessi umræða um hvort er meiri sökudólgur náttúruleg hitnun Jarðar eða hitnun Jarðar af mannavöldum, vera á vissum villugötum.  Ég held að báðir aðilar hafi eitthvað til síns máls og umræðan eigi ekki að fjalla um að halda með öðrum og þar með sjá hinum allt til foráttu.

Það eru tvær veigamiklar staðreyndir í þessu máli: 

1.  Hitastig Jarðar er breytilegt og þessar hitasveiflur geta valdið mikilli röskun á lífsskilyrðum á stórum svæðum og þróun lífs. 

2.  Maðurinn mengar andrúmsloftið eins og það sé einhver ruslafata og er með því að breyta lífsskilyrðum á afmörkuðum, en stórum, svæðum og hefur einhver áhrif á þróun lífs.

Bara á síðustu 100 árum höfum við upplifað talsverðar hitasveiflur, sem eru af báðum þessu ástæðum.  Spurningarnar sem við verðum að leita svara við eru:

1.  Hvað hefur hvor þáttur um sig lagt mikið til þessara sveiflna og hvert verður vægi þeirra á komandi árum og árhundruðum?

2.  Verða hitabreytingar af völdum mannkyns það miklar að þær hafi sjálfstætt veruleg áhrif á lífsskilyrði á Jörðunni?

3.  Hvað er það sem við getum gert til að sporna við óæskilegum áhrifum hitabreytinga af völdum mannkyns?

Það er mín skoðun, að hitabreytingar vegna mannkyns verða aldrei eins miklar og alvarlegar eins og náttúrulegar hitabreytingar.  Þetta sjáum við á hita- og kuldaskeiðum undanfarinna árþúsunda.  Raunar þarf ekki að fara lengra aftur en til um 1680 til að finna kuldaskeið, sem hefði fengið okkur í dag til að halda að ísöld væri að skella á.  Förum svo aftur til 1000 eða svo og við værum viss um að gróðurhúsaáhrifin væru í fullri virkni. 

Ég hef sagt að hitabreytingarnar séu ekki vandamálið heldur er það mengunin.  Við þurfum að leita leiða til að auka náttúrulega ljóstillífun, þ.e. náttúrulega bindingu kolefna og framleiðslu súrefnis.  Við þurfum að breyta framleiðsluferlum, þannig að þau mengi helst ekki neitt.  Við þurfum að breyta vélum bifreiða, þannig að þær spúi ekki út úr sér CO2 heldur bindi kolefnið í staðinn í fast efnasamband sem síðan er hægt að annað hvort farga á öruggan hátt eða endurnýta.  Nú önnur leið er að nota hreinni orkugjafa. 

Það er eitt sem við getum ekki gert:  Við getum ekki heft efnahagsþróun í Afríku, vegna þess að efnaðri þjóðirnar eru búnar að menga svo mikið.  Við verðum að leyfa þessum þjóðum að nota sömu tækni og við erum að nota, fá sömu tækifæri og við höfum.  Við getum ekki fárast út í fátækt þeirra og efnahagserfiðleikum, ef við ætlum að banna þeim að nota efnahagslega hagkvæmar leiðir til að koma sér út úr vanda sínum.  Ef við á Vesturlöndum viljum að þessar þjóðir noti ,,hreinni" aðferðir þá verðum við að ganga á undan og taka upp þessar ,,hreinni" aðferðir sjálf í jafn ríku mæli og við ætlumst til að aðrir noti þær.


Einkennilegt skor í sumum liðum

Hér er kominn enn einn indexinn sem lýsir að staða Íslands meðal þjóða heims verður vart betri. 

Eftir að hafa skoðað tölurnar fyrir Ísland, þá skil ég ekki hvernig hægt er að gefa okkur 2,5 í lið 12 þar sem talað er um afskipti annarra landa eða ytri pólitísk áhrif.  Ég hefði haldið að okkar staða væri ekki lakari en Noregs.  Einnig furða ég mig á lið 4 upp á 3,2, en sá liður er m.a. um kúgun menntafólk, sjálfviljugan fólksflótta millistétta úr landi og stækkandi hóp útlagasamfélaga.  Ekkert af þessu á við Ísland, þannig að skor upp á 1,0 á betur við en 3,2.  Loks er það liður 6 sem er um efnahagslega hnignun og skor upp á 3,5 átti kannski við á fyrri hluta síðasta árs, en núna hefur heldur betur orðið viðsnúningur.  Mér sýnist sem við séum bara best Grin


mbl.is Súdan og Írak misheppnuðustu ríki í heimi - Ísland það sjöunda besta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru upplýsingatækniinnviðir Íslands nógu sterkir?

Seinni hluta apríl varð Eistland fyrir árás tölvuþrjóta sem tókst að valda verulegri truflun á netsambandi innan landsins.  Þetta varð til þess að afhending ýmissa mikilvægra þjónustuþátta truflaðist.  Eftir að þetta gerðist, hafa öryggissérfræðingar víða um heim verið að velta fyrir sér hversu traustir upplýsingatækniinnviðir einstakra ríkja eru.  Er mögulegt að einstaklingar, hópar einstaklinga eða jafnvel opinberir aðilar (leyniþjónustur eða hernaðaryfirvöld) í einstökum ríkjum geti staðið fyrir svo áhrifamiklum árásum á netkerfi heillar þjóðar, að fjármálamarkaðir virki ekki, að afhending raforku fari úr skorðum eða flugsamgöngur lamist?

Okkar vandamál felst kannski mest í því, að með umfangsmikilli árás á fjarskiptarásir Internetsins til og frá landinu, væri hægt að teppa þessar rásir.  (Eða er kannski nóg að hleypa rottum að lögnunum?)  Sem stendur eru þrjár leiðir inn og út úr landinu:  1.  Um gervihnött, 2 Um CANTAT og 3. Um FARICE.  Fjölgun leiða breytir í sjálfu sér ekki því vandamáli að hægt er að gera Denial of Service árásir á okkar litla kerfi og teppa verulega leiðir inn og út úr landinu.  Spurningin er hvort hægt er að setja aðgang að þessum leiðum (eða einhverjum hluta þeirra) þannig upp, að þær séu lokaðar fyrir aðgangi annarra en þeirra sem sérstaklega hafa keypt sér aðgang að þeim og þannig tryggt að mikilvægir þjónustuþættir haldist opnir þrátt fyrir slíkar árásir.

Fjölgun strengja til og frá landinu mun að sjálfsögðu auka öryggi, en fyrst og fremst draga úr líkum á því að samband rofni vegna bilana í þeim strengjum sem fyrir eru. Tölvuþrjóta munar ekkert um að blokka einn streng í viðbót.  Svo má ekki gleyma því að fáar leiðir hafa þann kost, að það auðveldar síun umferðar eða þess vegna að komið sé á tímabundinni lokun.


Mislæg gatnamót skilja eftir marga lausa enda

Ennþá einu sinni hefst þessi umræða um mislægu gatnamótin á mótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.  Og ennþá einu sinni virðist vera sem skipulagsyfirvöld í Reykjavík átti sig ekki á því að þessi gatnamót verði ekki gerð mislæg nema með umfangsmiklum aðgerðum á aðliggjandi gatnamótum.  Það er ekki nóg að leysa vandamálin við Lönguhlíð heldur þarf líka að horfa til Háaleitisbrautar (á tveimur stöðum), Grensásvegar, Laugavegar/Suðurlandsbrautar, Listabrautar og Hamrahlíðar.

Fyrir tæpum þremur árum birti Morgunblaðið grein eftir mig um þetta mál, þar sem ég kom með rök með og á móti mislægum gatnamótum.  Þar gerði ég tilraun til að bera saman tvo kosti, þ.e. mislæg gatnamót og ljósastýrð gatnamót með það sem heitir fjögurra fasa umferðaljósum.  Niðurstaða mín var að fjögurra fasa lausnin væri umtalsvert betri lausn.  (Greinina er hægt að finna á vef Betri ákvörðunar eða með því að smella hér Mislæg gatnamót - ekki eina lausnin.)

Nú hefur verið lögð talsverð vinna í að setja upp betri ljósastýringu á öll ljósastýrð gatnamót á megin umferðaræðum.  Við, sem ökum þessa leið daglega eða a.m.k. oft í viku, höfum fundið fyrir því að umferð gengur nú mun greiðar en undanfarin ár.  Vissulega á umferðarþunginn eftir að þyngjast, en ég held að lausnin felist ekki í því að reisa mikið mannvirki á þessum stað.  Í mínum huga er skynsamlegra að leita leiða til að létta umferðinni af þessum gatnamótum.  Það er hægt að gera með því að grafa Öskjuhlíðargöngin og fara í Sundabraut.  Þetta eru hvort tveggja framkvæmdir sem verður farið í á einhverjum tímapunkti og báðar verða til þess að beina umferð frá gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.

Það má heldur ekki gleyma því að það eru til fleiri lausnir, ef menn leyfa sér að hugsa út fyrir kassann.  Ein er að skipuleggja atvinnusvæði þannig að þau dreifist meira um höfuðborgarsvæðið.  Vandamál umferðarinnar í Reykjavík er að mjög miklu leiti sjálfskaparvíti.  Loksins þegar gafst t.d. tækifæri til að flytja einn stærsta vinnustað miðbæjarins, þ.e. Landspítalann - háskólasjúkrahús, þá er tekin ákvörðun um að stækka vinnustaðinn og beina ennþá fleira fólki um umferðaræðar sem eiga í erfiðleikum við að ráða við þá umferð sem fer þar um í dag, hvað þá umtalsverða viðbót.  Á sama hátt er hreinlega heimskulegt að ætla að setja Háskólann í Reykjavík út í Nauthólsvík með tilheyrandi umferð.  Vissulega mun fólk fyrst og fremst velja sér heimili, þar sem það vill búa, en ekki með tilliti til fjarlægðar til vinnustaðar.  En með því að bjóða upp á fleiri kosti varðandi atvinnusvæði, þá mun dreifast meira úr umferðinni.  Ef atvinnuuppbygging á að einskorðast við 101 Reykjavík, þá er nauðsynlegt að fjölga búsetukostum á því svæði líka.  Og öfugt, ef byggðin á að dreifast um höfuðborgarsvæðið, þá verða atvinnutækifærin að dreifast að sama skapi.


mbl.is Öskjuhlíðagöng í stað mislægra gatnamóta?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gerum radarvara gagnslausa

Ég er nú alveg viss um að fljótlega verða komnir radarvarar sem vara við nýja tækinu þeirra þarna á Blönduósi.  Fyrir utan að vararnir geta ennþá varað við hraðaeftirliti þar sem gömlu hraðamælingatækin eru notuð.

Fyrir nokkrum árum var ég farþegi í jeppabifreið sem ekið var um götur Reykjavíkur (Miklubraut austan Grensásvegar, Ártúnsbrekku og Vesturlandsveg) um miðjan dag á um 140 km hraða.  Bílstjórinn var karlmaður á sextugs aldri, sem var að fá útrás fyrir karlmennsku sína og að mínu mati ótrúlega heimsku.  Hann taldi sig geta ekið á þessum hraða, þar sem hann var með radarvara í bifreið sinni.  Í framhaldi af því sendi ég tillögu til Umferðaráðs um að eina leiðin til að gera radarvara gagnslausa, væri að setja upp radarvita með jöfnu millibili á götum/vegum þar sem búast má við svona hraðakstri.  Þessir radarvitar myndu senda út sams konar merki og hraðaradarar og því væru radarvarar sífellt að fá inn á sig radarmerki.  Þar sem þeir gætu ekki greint á milli radarvita og hraðaradara, þá yrðu radarvararnir gagnslausir eða til þess að menn hættu að taka þessa sjensa.  Svona radarvitar þyrftu ekki að vera dýrir og gætu gengið fyrir sólarorku sem jafnframt sæi um að hlaða rafgeymi.  Radarvitana mætti hengja á vegstikur, tré, kletta, símastaura eða rafmagnsstaura.  Vitanlega yrðu einhverjir fórnalömb skemmdarverka, en það færi eftir staðsetningu þeirra.  Þá yrði að staðsetja þar sem líklegt væri að lögregla væri að sinna hraðamælingum til þess að gera merkin frá þeim trúverðug.

Ég legg til að Sjóvá og VÍS leggi lögreglunni lið við að koma svona radarvitum upp um allt land. 


mbl.is Vildi gefa lögreglunni radarvarann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinsælir, en eru þeir bestir?

Mig langar að spyrja:  Hvaða skóli er bestur:

a)  Sá sem tekur við nemendum með meðaleinkunn upp á segjum 8,5 og skilar þeim út með meðaleinkunn upp á 7,25

b)  Sá sem tekur við nemendum með meðaleinkunn upp á segjum 7,0 og skilar þeim út með meðaleinkunn upp á 7,25

c)  Sá sem tekur við nemendum með meðaleinkunn upp á segjum 5,5 og skilar þeim út með meðaleinkunn upp á 7,00 

 Skólar sem falla undir a) eru t.d. MR, Versló, MH og Kvennó, undir b) falla t.d. MS, FÁ, Borgarholt og FB og undir c) falla m.a. IR og IH. 

Í mínum huga eru það þeir skólar sem ná mestri getuaukningu út úr nemendunum sem eru bestir.

Ég var í mörg ár kennari og aðstoðarstjórnandi við Iðnskólann í Reykjavík.  Þangað inn komu mjög margir nemendur sem höfðu misstigið sig á samræmdum prófum og áttu því ekki möguleika á að komast inn í ,,góðu" skólana.  Þrátt fyrir skýr lagafyrirmæli höfnuðu ,,góðu" skólarnir þessum nemendum, þannig að þeir höfðu ekki í önnur hús að venda.  Sumir stoppuðu bara við rétt á meðan þeir voru að rétta sig af og fóru síðan í MH um áramót.  Aðrir ílengdust og tóku miklum framförum.

Ég man sérstaklega eftir einum nemanda.  Hann var í húsasmíði, frekar en húsgagnasmíði.  Hann var einn af þessum sem hafði lent í ógöngum í grunnskóla og kom til okkar með fall í öllum áföngum á samræmdu prófi.  Hann útskrifaðist með 9 og 10 í öllum áföngum á síðasta skólaárinu.  Framför hans í námi var ótrúleg.  Að byrja í fjórum núll-áföngum og fá síðan verðlaun skólans fyrir frábæran námsárangur er að sjálfsögðu meira en að segja það. 

Þetta kalla ég góðan nemanda. 

Þetta kalla ég góða kennslu. 

Og þetta kalla ég góðan skóla.

Svo langar mig að benda þeim á sem ætla að fara í rafmagnsverkfræði, að það er ekki til betri undirbúningur en að fara í rafeindavirkjun eða rafvirkjun og ljúka svo stúdentsprófi samhliða því.  Og fyrir þá sem ætla í tölvunarfræði, þá er tölvunám við Iðnskólann í Reykjavík sem lokið er með stúdentsprófi besti undirbúningur sem hægt er að hugsa sér. 


mbl.is Vinsælustu framhaldsskólarnir þurfa að vísa 400 nemendum frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framlög til einkarekinna grunnskóla

Á visir.is er að finna eftirfarandi frétt:

Nýr meirihluti gerir vel við einkaskólana

Skólastjórar Ísaksskóla og Landakotsskóla segja viðmót borgaryfirvalda í garð einkarekinna grunnskóla hafa breyst til hins betra eftir að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók við völdum fyrir rúmu ári.

„Við sjáum það núna, bæði í orðum og athöfnum ráðandi borgar­meirihluta, að viðhorfið er annað," segir Edda Huld Sigurðar­dóttir, skólastjóri Ísaksskóla.

„Waldorfskólinn er til dæmis búinn að fá lóðir í Sóltúni til að byggja á og við erum að bæta við okkur heilli bekkjardeild fyrir níu ára börn. Það eru aðgerðir sem við hefðum aldrei getað farið út í fyrir tveimur árum. Rekstrarskilyrðin voru svo þröng að það var ekki inni í myndinni."

Meginástæðu breytinganna segir hún vera fimmtán prósenta hækkun fjárframlaga á hvern nemanda einkarekinna grunnskóla, sem gekk í gegn fyrr í vetur. Þá ákvað borgarráð að hækka framlögin. Það hefði þó ekki þurft að gera fyrr en í ágúst. Þá skilar Hagstofan af sér upplýsingum um meðalkostnað við hvern nemanda í opinberum skólum landsins. Framlag á nemendur í einkareknum skólum reiknast svo sem 75 prósent af þeirri upphæð. Borgaryfirvöld gerðu hins vegar ráð fyrir að ákveðin lágmarkshækkun yrði að veruleika og hækkuðu framlögin strax.
„Það er bara hið besta mál að þeir skyldu snara sér í þessa hækkun strax og sýnir vott um jákvæða afstöðu þeirra gagnvart sjálfstæðu skólunum," segir Edda.

Fríða Regína Höskuldsdóttir, skólastjóri Landakotsskóla, tekur í sama streng. „Það hefur gjörbreytt rekstrarstöðunni hjá okkur að borgaryfirvöld hafi hækkað fjárframlögin. Borgin tók mjög vel við sér og hækkaði framlagið fyrr en þurfti. Mér finnst nýr meirihluti hafa staðið sig afskaplega vel það sem af er. Við gátum lækkað skólagjöldin okkar töluvert."

Fríða segist vona að enn betur verði gert við einkareknu skólana í tíð meirihlutans. „Við fáum núna 75 prósent af framlagi til opinberra skóla, en við erum að vonast til að það fari í níutíu prósent. Það er stefna Samtaka sjálfstæðra skóla að ná framlaginu að því marki."

Ég vil byrja á því að fagna því að Reykjavíkurborg er hætt þeirri atlögu sinni að Ísaksskóla og Landakotsskóla sem átti sér stað meðan Samfylkingin í nafni Reykjavíkurlistans stjórnaði málefni grunnskólanna í Reykjavík.  Einnig vil ég fagna því að Reykjavíkurborg hafi ákveðið að hækka framlög borgarinnar til skólanna og verður það vonandi til þess að önnur bæjarfélög (sem m.a. er svo gott að búa í) í nágrenni Reykjavíkur fylgi fordæmi borgarinnar (og efni kosningaloforð) með því að greiða sambærilega upphæð með nemendum úr þessum bæjarfélögum.  Sum hafa gert vel, eins og Garðabær, en önnur hafa verið eins nísk og þau hafa komist upp með, þ.e. horft til 75% tölunnar sem Hagstofan reiknar út.

Ég skil ekki af hverju sveitarfélag á að greiða minna með barni sem sækir einkarekinn grunnskóla, en í grunnskóla sem rekinn er af bæjarfélaginu.  Ég skil ekki af hverju 33% af kostnaði við skólagöngu barnsins eigi að fara í að greiða niður kostnað annarra, því að það er nákvæmlega það sem gerist.  (Ég veit ekki til þess að skattarnir breytist neitt við það að barnið sæki grunnskóla annað.)  Ég skil ekki að það eigi að verða óbeinn tekjustofn fyrir sveitarfélag að foreldrar barns kjósi að nýta þjónustu einkarekins skóla í staðinn fyrir að senda barnið í grunnskóla í bæjarfélaginu.  Ég raunar efast um að það sé lagastoð fyrir því að sveitarfélag mismuni þegnum sínum á þennan hátt.

Garðabær hefur farið þá leið (eða það er minn skilningur) að peningarnir fylgi barninu.  Það þýðir að Garðbæingar hafa fundið út meðalkostnað af árlegri skólagöngu barnsins miðað við að það sæki grunnskóla á vegum sveitarfélagsins.  Þessi upphæð fylgir síðan barninu, sama hvert það sækir skóla.  Það getur verið, svo dæmi séu tekin, grunnskóli í Hafnarfirði, Kópavogi, á Álftanesi eða í Reykjavík, og skiptir rekstrarformið ekki máli.  Nokkur af ríkustu sveitarfélögum landsins tíma aftur á móti ekki að greiða sanngjarnt gjald með börnum sem sækja einkarekna skóla.  Kópavogur sparar sér með þessu kannski 2 - 3 milljónir á ári, Seltjarnarnes kannski helminginn af þessari tölu og Hafnarfjörður eitthvað svipað og Seltjarnarnes.  Mér þykir hún vera lítilla sanda, lítilla sæva framkoma stjórnenda þessara sveitarfélaga í garð barnanna.

(Bara svo það fari ekkert á milli mála, þá ganga börnin mín í Ísaksskóla fyrstu ár skólagöngunnar.  Barn númer fjögur er að hefja nám þar í haust og barn númer þrjú á eitt ár eftir.  Sjálfur er ég búsettur í ,,það er gott að búa í"-Kópavogi.) 

 


Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2023
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband