Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Ósanngjarnt eða hvað?

Mér finnst vera minnst þrjár hliðar á þessu máli með fylgishrun Framsóknarflokksins.  Fyrst má segja að þessi niðurstaða skoðanakannana sé mjög eðlileg vegna þess að Framsókn hefur verið dugleg að hrekja kjósendur frá sér.  Framsóknarflokkurinn hefur í ríkisstjórnarsamstarfinu verið einstaklega laginn við að vinna gegn þjóðarsálinni og hefur orðið holdgervingur stóriðjustefnu og eyðileggingar á náttúrunni meðan Sjálfstæðisflokkurinn hefur einu sinni sem oftar haft vit á því að ræða ekki þessi óþægilegu mál.  Framsókn hefur haldið utan um erfiðu málin meðan Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið  með frítt spil aðgerðarleysis í mjög mörgum málaflokkum, svo sem menntamálum, sjávarútvegsmálum og málefnum forsætisráðuneytisins og til að bæta gráu ofan á svart er fyrrverandi forsætisráðherra í herför gegn efnahagsumbótum með okurvaxtastefnu sinni.  Í öðru lagi er þetta með öllu óskiljanlegt, þar sem Framsókn hefur staðið að mestu framfaramálum seinni tíma, þ.e. opnun fjármagnsmarkaðarins sem hefur rutt leið íslenskra fyrirtækja til útrásar um allan heim.  Þessi breyting var studd mikilli breytingu á utanríkisþjónustunni sem í dag er meira í áttina að vera utanríkisviðskiptaþjónusta en gamaldags pólitísk þjónusta.  Það getur vel verið að bankarnir hafi farið á undirverði, en það gerði líka Útvegsbankinn á sínum tíma og að maður tali nú ekki um Síldarverksmiðjur ríkisins.  Hitt er alveg á hreinu að með því að losa bankana úr eigu ríkisins opnuðust tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki, þar með bankana sjálfa, til að fara í meiri uppbyggingu en nokkur dæmi eru um frá tímum Thorsara og Kveldúlfs.  Með þessu hafa skapast fleiri hátekjustörf og meiri auðlegð en nokkurn óraði fyrir 1999 hvað þá fyrr.  Nú í þriðja lagi, þá hefur þrengt um flokkinn á miðju íslenskra stjórnmála og þar með þarf hann að leggja meira á sig til að halda fylgi sínu og sækja nýtt.

Kannski er skýringanna á fylgishruni Framsóknar að leita í því að Jón Sigurðsson er jafn óaðlaðandi persóna og hann er eldklár.  Maðurinn er hreinlega fráhrindandi.  Hann myndi skána strax við að snyrta skeggið og svo verður hann að koma sér úr kennarahlutverkinu og setja sig í hlutverk leiðtoga. Það að Framsókn skyldi takast að finna leiðinlegri leiðtoga en Halldór var, er alveg með ólíkindum.

Kannski er skýringin á fylgishruni Framsóknarflokksins fólgin í því sem Davíð Oddsson benti á fyrir síðustu þingkosnignar, að flokkurinn er ekki nógu duglegur að berja sér á brjóst og hrósa sjálfum sér fyrir það sem vel hefur verið gert.

Ein líkleg skýringin á fylgishruninu er að kjósendur sjá ekki flokkinn fyrir sér standa á sínum málum. Framsóknarmönnum þykir greininlega of vænt um stólana sína til að vilja rugga bátnum.  Við sáum þetta í tengslum við fjölmiðlalögin og núna síðast auðlindaákvæðið.  Við höfum líka séð þetta í niðurskurði í heilbrigðiskerfinu og félagslega kerfinu.  Meðan Sturla fær allt sem hann vill til vegamála þurfti Jón Kristjánsson að svelta Landspítalann ár eftir ár og skera framlög til Tryggingastofnunar við nögl.  Þetta er að koma í bakið á Framsóknarmönnum.  Þjóðin lítur á flokkinn sem afllitla hækju fyrir Sjálfstæðisflokkinn og vitiði hvað, Sjálfstæðisflokkurinn er sama sinnis.

Það sem skiptir í mínum huga mestu máli, er að línurnar í íslenskum stjórnmálum hafa breyst.  Áður höfðum við hreinan hægri flokk (Sjálfstæðisflokkinn), félagshyggjuflokk á miðjunni (Framsókn), flokk sem langaði að vera jafnaðarmannaflokkur vinstra megin við miðju (Alþýðuflokkinn og síðar Samfylkinguna) og svo hreinan vinstri flokk (Alþýðubandalagið og síðar Vinstri - græn).  Framsókn hafði því nokkuð gott rými á miðjunni, þangað sem þeir sem voru næst miðjunni í hinum flokkunum leituðu þegar þeir urðu ósáttir við stefnu síns flokks.  Þetta kom glögglega í ljós í kosningunum 1995, þegar Framsókn fékk mjög góða kosningu, en þá leituðu líklega bæði óánægðir kratar og óánægðir Sjálfstæðismenn grimmt til Framsóknar.  Það sem gerðist í framhaldinu af þeim kosningum var að flokkarnir fóru að elta kjósendur í áttina að miðjunni og sem afleiðingu af því fóru líka fleiri kjósendur að sækja inn að miðjunni.  Bilið sem Framsókn hafði út af fyrir sig tók að dragast saman.  Samfylkingunni mistókst að sameina vinstri menn og þar var greinilega leitað í smiðju Tony Blair, en honum tókst á nokkrum mánuðum að breyta Verkamannaflokknum í Bretlandi frá því að vera vinstri jafnaðarmannaflokkur í að vera eiginlega hægri jafnaðarmannaflokkur eða ætti ég að segja miðju flokkur.  Sem sagt undanfarin ár hefur Samfylkingin reynt að elta kjósendur sína inn að miðjunni.  Það sama hefur gerst hægra megin við miðjuna.  Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að fjarlægjast frjálshyggjuna (nema örfáir kverúlantar á borð við Pétur Blöndal) og sækir í átt að miðjunni, þar sem félagshyggja í bland við jafnaðarmennsku er að búa til nýja póltíska sýn hér á landi.  Sjáum bara samþykktir Landsfundar Sjálfstæðisflokksins: bæta kjör aldraðra, hækka barnabætur, skóli fyrir alla, o.s.frv.  Þetta eru gömul slagorð jafnaðarmanna.  Og hjá Samfylkingunni: draga úr forræðishyggju, draga úr áhrifum ríkisvaldsins, o.s.frv.  Þetta er farið að minna á texta í Biblíunni:  "Í húsi föður míns eru margar vistaverur."  Það er rúm fyrir svo ólíkar skoðanir í þessum tveimur flokkum, að óánægjufylgið við Sjálfstæðisflokkin sem átti áður bara athvarf í Framsókn, það getur ýmist haldið sig í vinstri jaðri Sjálfstæðisflokksins, sótt í Framsókn, Íslandshreyfinguna eða Frjálslynda eða krossað yfir til miðju-/hægri hluta Samfylkingarinnar.  Og síðan öfugt hjá Samfylkingunni.  Þeir einu sem græða á þessu eru Vinstri - græn sem fitna eins og púkinn á fjósbitanum, því þangað leita vinstri kratar í hrönnum í hvert skiptið sem Ingibjörg Sólrún tekur Samfylkinguna nær miðjunni.  Eftir stendur að Framsókn hefur misst sérstöðu sína sem eini miðjuflokkurinn á landinu.  Bilið sem kjósendur flokksins komu úr hefur minnkað eða að fleiri eru farnir að fiska á sömu miðum.

Að lokum má ekki gleyma því, að það þykir sport að gera grín að Framsókn.  Kannski er það vegna þess að Guðni Ágústsson hefur svo gaman af því að tala, að hann þykist hafa skoðun á öllu.  Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa aftur á móti lært að betra er að stinga sér í gegnum ölduna og halda sér í kafi eins lengi og þörf er frekar en að koma fram í öllum fréttatímum ljósvakamiðla.  Framsóknarmenn þurfa að læra, að oft má satt kyrrt liggja.


mbl.is Guðni: Sjálfstæðisflokkurinn virðist stikkfrí í umræðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er tækifærið

Það er búið að vera hálf kómískt að hlusta á mæta menn tala um menningarverðmætin sem voru að glatast með eyðileggingunni á Austurstræti 22.  Í mínum huga glötuðust þessi verðmæti fyrir löngu, þegar leyft var að breyta húsinu m.a. í Karnabæ og síðan í ótal aðrar verslanir, útsölumarkaði og skemmtistaði.  Nú er tækifærið til að gera það sama við Austurstræti 22 og gert var við Torfuna á sínum tíma, þ.e. byggja húsið upp í upprunalegri mynd og setja þar inn starfsemi sem hentar húsinu.  Það getur verið skemmtistaður, en það getur líka verið margt annað. 

Það er kannski hart að segja, en húsið sem brann var frá síðustu öld, ef undan eru skilin tvær eða þrjár sperrur og eldstæði.  Líklegast bjargaðist eldstæðið og kannski er hægt að finna sperrurnar í brakinu.  Ef sperrurnar finnast, þá væri upplagt að setja þær utan á nýjar sperrur sem óhjákvæmilega verða reistar.

Gerum "Höll Hundadagakonungs" hátt undir höfði og byggjum húsið upp í upphaflegri mynd.  Það þýðir að hinar ýmsu síðari tíma tengibyggingar verða að víkja, s.s. gamli leigubílaskúrinn, sem undirþað síðasta hýsti Fröken Reykjavík, og byggingin í sundinu að Nýja bíó húsinu.


mbl.is "Höll Hundadagakonungs" varð æstum eldinum að bráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getur starfsemin staðið af sér áfall?

Þetta er spurning sem stjórnendur fyrirtækja ættu að spyrja sig að eftir áföll dagsins í dag.  Fyrst stórbruninn á horni Austurstrætis og Lækjargötu og síðan bilun í heitavatnsleiðslu á Vitastígi.  Hvað ætli það séu mörg fyrirtæki sem urðu fyrir áhrifum af þessum tveimur atvikum?  Ég giska á um 40 til 50 á hvorum stað, jafnvel fleiri.  Það gera a.m.k. 80 til 100 fyrirtæki.  Hvað ætli mörg þeirra séu með áætlun til að bregðast við svona atvikum? Mín ágiskun er að vel innan við 10 þeirra hafi nothæfa, skjalfesta áætlun (viðbragðsáætlun).  Það getur vel verið að tryggingarnar greiði það tjón sem fyrirtæki verða fyrir, þegar svona lagað kemur upp.  En það er ekki allt.  Töpuð viðskipti, amstur og snúningar, hreinsunarstörf, þjónustuskerðing og margt fleira fylgir svona uppákomum.  Mörg fyrirtæki urðu fyrir óbeinum áhrifum, sem fólst í því að rýma þurfti húsnæði, götum var lokað, rjúfa þurfti rafmagn, reykur barst inn, vatn barst inn, starfsmenn komust ekki til vinnu, starfsmenn fengu áfall, o.s.frv.

Það er fátt mikilvægara í rekstri en að tryggja að hann sé órofinn/samfeldur.  Það er gert til þess að halda í viðskiptavinina, það er gert til að vernda hagsmuni eigenda, það er gert til að tryggja öryggi starfsmanna og það er gert til að uppfylla alls konar skyldur, lagalegar, félagslegar eða samningsbundnar svo eitthvað sé nefnt.  Ein leið til að tryggja samfelldan rekstur, er að undirbúa sig fyrir það óvænta með því að skilgreina, skjalfesta og innleiða stjórnkerfi rekstrarsamfellu (e. business continuity management system).  Kerfið sem slíkt kemur ekki í veg fyrir áföllin, en það hjálpar okkur t.d. að skilgreina viðbrögð, mótvægisaðgerðir og endurreisnaraðgerðir.  Ég sá á myndum sem teknar voru í Lækjargötu í dag að það var verið að bera tækjabúnað út úr brennandi húsinu.  Líklegast voru þetta ósjálfráð viðbrögð, en það er ekki víst að þetta hafi verið það sem nauðsynlega þurfti að bjarga.  Ég veit það ekki en reynsla mín af því að aðstoða fyrirtæki við að útbúa viðbragðsáætlanir segir mér að pappírar og upplýsingatæknibúnaður er það sem mikilvægast er að bjarga.  Nema fullkomin afrit séu til staðar.  En við vitum það ekki nema slíkt hafi verið skoðað meðvitað og skipulega.

Rekstraraðilar geta ekki leyft sér að vita ekki hverju á að bjarga.  Þeir geta ekki leyft sér að treysta á innsæi eða heppni, þegar kemur að því að bregðast við áfalli.  Mannslíf geta oltið á því að fólk hafi fengið þjálfun í réttum viðbrögðum.  Líf rekstrarins getur oltið á því að viðbragðsáætlun hafi verið undirbúin, innleidd og prófuð.  Reynslan af náttúruhamförum á borð við jarðskjálfta og fellibyli hefur sýnt að þau fyrirtæki sem verða fyrir alvarlegu tjóni og hafa ekki skilgreinda viðbragsáætlun eru margfalt líklegri til að leggja upp laupana en þau sem hafa undirbúið sig.  Raunar segja tölur að allt að 90 af hundraði óundirbúinna fyrirtækja, sem lenda í alvarlegu tjóni, ná sér ekki aftur á strik.  Flest deyja drottni sínum innan 6 mánaða.  Mörg hefja aldrei aftur starfsemi.

Hver er staðan hjá þínu fyrirtæki?  Ert þú viss um að starfsemi þess haldi áfram, ef það lendir í tjóni?  Hversu alvarlegt má tjónið verða án þess að það hafi áhrif á starfsemina?  Gætir þú misst vinnuna eftir tjón eða einhver samstarfsmaður þinn?  Veist þú hvaða leið þú átt að fara út úr brennandi húsi?  Er einhver sem heldur utan um það, að allir hafi komist út?  Er víst að launagreiðslur fari fram um næstu mánaðarmót eftir umfangsmikið tjón eða tjón sem einskorðað er við afmarkaðan starfsþátt?  Málið er, að þetta er ekki einkamál stjórnenda.  Það er hagsmunamál allra hlutaðeigandi, að reksturinn geti staðið af sér storminn.

Þó svo að aldrei hafi neitt komið fyrir fram að þessu, þá er með þetta eins og ávöxtun verðbréfa:  Ávöxtun (tjónleysi) í fortíð tryggir ekki sambærilega ávöxtun (tjónleysi) í framtíð.

Lesa má nánar um áhættu- og neyðarstjórnun á vefsvæði mínu.


Ethernet netkortið vantar

Eftir að hafa stúderað þennan lista, þá furða ég mig á því að vanta skuli þá tækni sem gerði okkur yfirhöfuð kleift að samtengja einmenningstölvur á þann hátt sem algengast hefur verið í gegnum tíðina.  Þar á ég við ethernet netkortið sem fundið var upp hjá Xerox PARC 1974.  Án Ethernetspjaldsins hefðum við ekki tengt tölvu saman á jafn árangursríkan hátt og raun ber vitni og framþróun í tölvusamskiptum hefði verið bundin í klafa IBM token ring.  Ég er eiginlega hneykslaður á PC World að horfa framhjá þessu. 

Ég er lika dálítið hissa á því að þeir skulu velja Lotus 1-2-3 en ekki VisiCalc, því VisiCalc var augljóslega langt á undan (1978) og var þar af leiðandi mun merkilegri tækninýjung en bæði Lotus 1-2-3 og Microsoft Excel sem bæði komast á listann.   Sama er hægt að segja um WordStar ritvinnsluforritið (1979), en PC World velur WordPerfect 5.1 í staðinn.

Nú ef við horfum síðan til tækninnar, en ekki bara afurða (sem þessi kosning PC World var um), þá myndi ég setja TCP/IP samskiptaregluna ofarlega á blað.

Svo er rétt að minna alla PC notendur á, að Word og Excel voru fyrst þróuð fyrir Apple Macintosh og síðan voru þau portuð yfir í Windows. 


mbl.is 50 merkilegustu tækniundrin valin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En árið 2000 snjóaði

Það er athyglisvert að sjá að síðast var svona mikil úrkoma í mars árið 2000.  Munurinn á þessum tveimur marsmánuðum er samt sláandi.  Núna rigndi og rigndi en þá snjóaði og snjóaði.  Ég verð nú að viðurkenna að frekar vildi ég fá snjóinn en rigninguna.

Ég man vel eftir þessum vetri, þ.e. 1999 - 2000, vegna þess að við fluttum þá í efri byggðir Kópavogs.  Við fluttum á fimmtudegi 18. nóvember í léttri rigningu og á laugardeginum byrjaði að snjóa.  Og það snjóaði og snjóaði þennan vetur.  Við vorum ekki alveg viss í hvað við vorum komin, því allan veturinn (fyrir utan nokkra daga um mánaðarmót janúar og febrúar) þurfti að ryðja götur og oft höfðu menn ekki undan.  Það góða við þetta er að fólk kynnist, en ansi oft var maður seinn fyrir.  En það var eins og veðurguðirnir hafi ákveðið að klára allan snjó þarna í mars/apríl 2000, því þau fylla ekki tuginn skiptin sem ruðningstæki hafa ekið niður götuna hjá mér síðan.


mbl.is Rigning í mars í Reykjavík 57% yfir meðallagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnun upplýsingaöryggis - námskeið hjá Staðlaráði

Þar sem persónuvernd og upplýsingaöryggi eru mínar ær og kýr, þá langar mig að vekja athygli á því að Staðlaráð Íslands heldur reglulega námskeið um þá tvo staðla sem fjalla um þessi mál (sjá nánar hér um næsta námskeið).  Þetta eru staðlarnir ÍST ISO/IEC 27001 Upplýsingatækni - Stjórnkerfi upplýsingaöryggis - Kröfur og ÍST ISO/IEC 17799 Upplýsingatækni - Starfsvenjur fyrir stjórnun upplýsingaöryggis.  Báðir þessir staðlar komu í uppfærðri útgáfu á síðasta ári.

Það er tvær ástæður fyrir því að ég vil vekja athygli á þessu.  Önnur er mjög sjálfhverf, en þannig vill til að ég er leiðbeinandi á þessum námskeiðum.  Hin er, að mínu viti hafa mjög margir mjög gott af því að kynna sér efni þessara staðla vegna starfa sinna.  Ástæðan er einföld.  Nær allir rekstraraðilar, hvort sem er á hinum svo kallaða almenna markaðir eða hinum opinbera vinna með mikið magn af viðkvæmum upplýsingum.  Hluti af þessum upplýsingum er á rafrænu formi, en mjög mikið magn er ennþá á pappír að ógleymdum þeim upplýsingum sem fólk býr yfir.  Hafi menn ekki leitt hugann að því hvernig er best að verja þessar upplýsingar fyrir tjóni og óleyfilegum aðgangi, þá eru mestar líkur á því að menn séu ekki búnir undir áföll eða uppákomur. 

Stjórnun upplýsingaöryggis snýst í stórum dráttum um að tryggja þrennt: leynd/trúnað, réttleika/nákvæmni og tiltækileika/aðgengi.  Leynd eða trúnaður snýst um að þeir einir eigi að hafa aðgang að upplýsingum sem til þess hafa heimild.  Réttleiki/nákvæmni snýst um að upplýsingum sé haldið réttum í gegnum vinnsluferlið og á vörslutíma.  En tiltækileiki/aðgengi snýst um að þeir sem hafa til þess heimild hafi aðgang að upplýsingunum þegar þeir þess þurfa.  Það má því segja að stjórnun upplýsingaöryggis snúist um að þeir, sem til þess hafa heimild, eigi að hafa aðgang að réttum og nákvæmum upplýsingum þegar þeir þurfa á því að halda.

Þetta eru skýr og skilmerkileg markmið.  Staðlarnir ISO 27001 og ISO 17799 eiga einmitt að aðstoða ábyrgðaraðila upplýsinganna að ná þessum markmiðum.  Þeir þykja báðir mjög góðir til síns brúks, þó svo að þeir séu ekki alfullkomnir.  Þeir þykja a.m.k. það góðir að Persónuvernd, Fjármálaeftirlit og fjarskiptalög (eða greinargerð með frumvarpinu) vísa öll til staðlanna sem tækja eða tóla sem hægt er að nota til uppfylla kröfur um upplýsingaöryggi og persónuvernd.  Það hlýtur því að vera full ástæða fyrir aðila sem þurfa að uppfylla persónuverndarlög og reglur, leiðbeinandi tilmæli FME og ákvæði um öryggi í fjarskiptum að kynna sér efni þeirra nánar.


Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband