Leita í fréttum mbl.is

Þurfum við stjórnarbyltingu?

Jæja, þá er það komið í ljós.  Hið aldurhnigna ljón breska heimsveldisins hefur fundið mús sem það ræður við.  Hér eru menn lítilla sanda, lítilla sæva.  Hvað segir þetta fólki um möguleika okkar innan ESB?  Viljum við treysta ESB fyrir auðlindum okkar, þegar það á að kúga okkur til undirgefni?  Fyrst rýra Bretar eigur íslensku bankanna í Bretlandi um þúsundir milljarða og skerða þannig möguleika breskra innistæðueigenda til að fá greitt út, en við eigum samt að greiða tjónið.  Þetta er hvílíkt bull, að það þarf virkilega siðblindan einstakling til að skilja ekki ruglið.

Það sem mér finnst samt merkilegast, er að stjórnvöldum þessara stórþjóða finnst hið besta mál að íslenskur almúgi eigi að greiða.  Við tókum á engan hátt þátt í þessu og höfðum ekkert um þetta að segja, en við eigum að borga.  Göfgi þeirra er mikil.  Nú þurfum við að snúa okkur að fulli til Rússa (ef það er ekki um seinan). 

En það er fleira.  Við þurfum líka að skipta um ríkisstjórn án tafar og mynda utanþingsstjórn.  Ef Sjálfstæðisflokkur og Samfylking vilja ekki víkja að sjálfsdáðum, þá sting ég einfaldlega upp á að frjálsir Íslendingar myndi sína eigin stjórn.  Finnum hæfa einstaklinga til að mynda alvöru þjóðstjórn.  (Þá er ég ekki að tala um ríkisstjórn alþýðunnar, eins og DV gerði.)  Við getum alveg gert appelsínugulabyltingu eins og Úkraínumenn.  Við getum fellt múra stjórnleysis og óréttlætis, eins og Austur-Þjóðverjar gerðu.  Að minnsta kosti mæli ég með því að stofnaður verði aðgerðahópur (hafi það ekki þegar verið gert), þar sem saman koma einstaklingar með hugmyndir um hvað þarf að gera.  Menn og konur sem hafa þor, dug og kjark til að setja fram nýjar hugmyndir fyrir nýtt Ísland.  Svo verði auglýst eftir frekari tillögum.  Ég er farinn að hallast að við, fólkið í landinu, verðum að taka völdin af þeim sem sváfu á verðinum. Þetta er margt hið vænsta fólk, en það fékk sitt tækifæri.  Ég viðurkenni fúslega að það nýtti það vel til að byrja með, en svo óx viðfangsefni þeim upp fyrir höfuð.  Nú er kominn tími til að hleypa nýju aðilum að.


mbl.is Fáum ekki lán nema Icesave deila leysist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Og hvað svo falla i faðm bandalgasins og undir vald ríkja sem að kuguðu okkur ég held nú ekki Meðan að ESB blindan ríkir þá er betra að fara sér hægt

Jón Aðalsteinn Jónsson, 10.11.2008 kl. 14:22

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég vil taka það skýrt fram, að ég hef aldrei verið ESB-sinni.  Mér hefur fundist allt í lagi að sjá hvað okkur stæði til boða, en innganga yrði alltaf að vera á okkar forsendum.  Ef satt reynist að Bretar og Hollendingar hafa fengið ESB með sér til kúga okkur til undirgefni (sem helst má ráða af þessari frétt), þá útiloka ég möguleikann um ESB, a.m.k. þar til samskipti eru orðin eðlileg.

Málið er bara, Jón Aðalsteinn, að við getum varla treyst íslenskum fjölmiðlum til að greina rétt frá og alveg örugglega ekki íslenskum ráðamönnum.  Þess vegna vil hafa fyrirvara á þessu, en ef satt reynist að það eigi að kúga okkur, þá finnst mér eðlilegt að setja alla umræðu um ESB á ís.  Bara til að vitna í sjálfan mig, þá setti ég eftirfarandi athugasemd inn á Silfur Egils fyrr í dag:

En það er annað í þessu. Viljum við virkilega ganga til liðs við ESB bullurnar eftir þessa meðferð? Það er svo sem sagt, að þangað sæki klárinn sem hann er kvaldastur og því væri það eftir öllu, að við látum ESB að áeggjan Breta og Hollendinga lemja okkur í spað og síðan sækjum við um aðild. Nei, ég vil ekki sjá ESB aðild eftir þessa framkomu. Ég er búinn að skipta um skoðun frá því sem haft var eftir mér í DV á föstudag. Ég vil ekkert hafa með kúgarana að gera.

Marinó G. Njálsson, 10.11.2008 kl. 15:06

3 Smámynd: Kristján Þór Gunnarsson

Það er bara eitt í þessu Marínó og það er að á hverjum einasta degi berast nýjar upplýsingar. Upplýsingar sem almenningur í þessu landi hefur ekkert vitað um. Maður hlýtur að spyrja hvort ekki eigi eftir að koma fram upplýsingar sem breyta myndinni ? Hefur verið upplýst hvert 100 miljarðarnir voru millifærðir úr Kaupþing og fyrir hverja ? Hvað á eftir að koma ljós ? Það er hinsvegar erfitt að sjá af hverju Bresk yfirvöld settu sig ekki í samband við Íslensk; áður en þeir létu til skarar skríða úr því þeir á annað borð beittu svo harkalegum aðgerðum. Getur það verið að þeir hafi vitað hve náin eignatengslin eru ? Sjáið fyrir ykkur að boð berist til Ríkisstjórnarinnar um það að það eigi að loka Kaupþing þegar svo mikil eignatengsl eru beint inn í Ríkisstjórn Íslands ! Þætti sjálfsagt ekki góð hertækni eða hvað ???

Kristján Þór Gunnarsson, 10.11.2008 kl. 15:28

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Kristján, ég er alveg sammála þér, enda vil ég setja fyrirvara við allt sem íslensk stjórnvöld greina frá og rauna líka það sem íslenskir fjölmiðlar greina frá.  Við vitum ekki sannleikann.  Það er heila málið.  Í þessu tilfelli treysti ég orðum Árna Þórs Sigurðssonar, en það gæti alveg eins verið að einhver sé að spila með hann.

Varðandi eignatengslin, þá var það óheppilegt gagnvart ríkisstjórninni að Þorgerður Katrín hafi tekið þátt í umræðu um Kaupþing. En það er ekki Breta að ákveða hvernig málum er háttað hér á landi.

Marinó G. Njálsson, 10.11.2008 kl. 15:41

5 identicon

Þegar íslenska ríkistjórnin horfist í augu við að þau hafa keyrt Vogunarstjóðinn Ísland í gjaldþrot og í framhaldinu gefur út yfirlýsingu um að allir innistæðueigendur íslensku bankanna sitji við sama borð - íslenskir,breskir,hollenskir - þá lýkur þessari milliríkjadeilu.

íslenskir bankar fengu aðgang að evrópskum bankamarkaði í krafti EES samningsins sem íslenska ríkisstjórnin ber ábyrgð á. Bretar og Hollendingar sögðu ekkert þegar bankarnir náðu gríðarlegum árangri í þessum löndum. Nú þegar allt er í kalda koli þá er eðlilegt að bretar og hollendingar mótmæli þvi að íslenska ríkisstjórnin þakki fyrir sig með þvi að láta íslenska innstæðueigendur fara skaðlausa frá borði en gefi hollenskum og breskum innistæðueigandum glottandi fingurinn.

Þráinn Kristinsson (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 17:36

6 Smámynd: Baldvin Jónsson

Ég er til Marínó, og veit um ansi marga bara t.d. héðan úr bloggheimum sem geta haft ýmislegt til málanna að leggja.

Hef líka velt fyrir mér hvort ekki ætti að reyna að vekja Ómar af dvalanum og virkja Íslandshreyfinguna í málið. Er fljótlegra en að stofna nýja hreyfingu væntanlega og þar var fyrir síðustu kosningar allt litrófið í pólitík.

Baldvin Jónsson, 10.11.2008 kl. 18:11

7 Smámynd: Óskar Aðalgeir Óskarsson

Þráinn, skrifaðir þú upp á óútfylltan víxil,sem væri hægt að innheimta hjá þér fyrirvaralaust.Ég veit að ég gerði það ekki.Marinó,ég biðst afsökunar ef ég er að misnota síðuna þína.

Óskar Aðalgeir Óskarsson, 10.11.2008 kl. 19:44

8 identicon

Sammála þér með ríkisstjórnina og dugleysi hennar. Hún þarf að víkja. Hvað bretana varðar þá verðum við að ná einhverju samkomulagi við þá og hollendinga. Hvernig liði íslenskum almenningi ef hér hefði starfað erlendur banki, boðið háa innlánsvexti, fengið milljarða í innlán, farið á hausinn og engin fengið sitt til baka? Bara spurning? Allar þær þjóðir sem etu tilbúnar til að aðstoð virðast setja það sem skilyrði að við náum samkomulagi. Þannig virðist staðan vera í dag. Hvort réttlátt sé að íslenskur almenningur borgi er svo annað mál. Auðvitað á íslenskur almenningur ekki að borga fyrir brjálæði einkafyrirtækis í útlöndum, engin spurning en bankinn auglýsti þetta grimmt með því að nota nafn íslands og tengja það ábyrgð ríkisins. Ég er auðvitað öskureiður yfir þessu eins og aðrir íslendingar en komumst við hjá því að semja?

Arinbjörn Kúld (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 20:38

9 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Var svolítið fúll í morgun Marino þegar ég skrifaði þetta biðst forláts á að ég hljóma svolítð hranalegur. Málið var að ég var nýbúin að tala við mann sem er með rekstur hér í sjávarútvegi mann sem að ég hef reynslu að lýtur yfirleitt á allar hliðar málsins nema í morgun var þungt í honum hvers vegna jú hann telur að tíma sínum við atvinnuekstur farið að ljúka ef við göngum í ESB. Hann kom með mjög sannfærandi rök fyrir því að við gætum lagt uppsjávarflota okkar ef af því yrði. Það skildi ekki vera að þær þumalskrúfur sem á okkur eru og það fall sem að manni sýnist hafa verið hjálpað til með sé að hluta til vegna nýtingar réttar á auðlindum. Auðlindum sem að ESB vantar sárlega þvi hvað hefur hækkað einna mest í heiminum i dag það eru matvæli. Þráinn þegar þú fjarfestir gerir þú ráð fyrir að græða og líka tapa var íslendingum sem að fjárfestu í DeCode bættur skaðinn ekki svo að ég muni ef að bankarnir hefðu haldið hefði fólkið kvartað yfir ávöxtuninni ég held ekki en hvert átti að sækja ávöxtunina jú á bak okkar hér heima þannig að við eigum ekki að borga krónu meira en lög mæla fyrir um. Um leið og einhver stofnar flokk sem að vill efla Ísland sem Ísland vill nýta náttúru auðlindir þess á skynsamlegan máta og efla hag allra borgara þess er ég með.  

Jón Aðalsteinn Jónsson, 10.11.2008 kl. 20:42

10 identicon

Ertu líka orðinn byltingarleiðtogi, Marinó minn?  

Annars er þetta allt hið versta mál. Efnahagsstjórnin virðist í biðstöðu, en vonandi ekki pattstöðu.  Ríkisstjórnin virðist lítið gera annað en að bíða eftir lánafyrirgreiðslu frá IMF og öðrum aðilum.  Þetta er vonandi ekki eins og það virðist.  Ljóst er að ástandið er geysilega viðkvæmt og mikilvægt að segja ekki frá neinu fyrr en það er hægt að staðfesta.  Rússalán, beiðni til Kína og aðrar upplýsingar hafa komið illa við okkur og engar fréttir koma okkur væntanlega betri en þessar fréttir.

Þjóðin bíður eftir ríkisstjórninni og væntir svara. Það er mikil hræðsla og reiði og óvissa í þjóðfélaginu. Þessi biðstaða er mjög óæskileg, hún er okkur dýrkeypt og væntanlega er það skynsamlegt að koma með einhverjar aðgerðir þrátt fyrir að IMF hafi ekki veitt okkur lán. Held að það sé mjög mikilvægt að fólki sé sagt eitthvað enda flæða yfir okkur alls kyns sögur margar fleiri ára gamlar eins og nýjar séu.

Annars finnst mér að við Íslendingar setja okkur í píslarvottahlutverk.  Eins og ég hef áður bent á er það að mínu viti mestu mistökin að gera upp á milli innistæðueigenda á Íslandi og utan Íslands við gjaldþrot Landsbankans. Eitt hefði átt að láta yfir alla ganga og jafnræðisreglan hefði þar átt að gilda þrátt fyrir að það hefði kostað einstaklinga, fyrirtæki og aðra aðila á Íslandi dýrt.  Við reyndum að stinga af skuldunum og erum núna tekin sem slík.  Ef við hefðum meðhöndlað íslenska og erlenda innistæðueigendur líkt værum við í mun betri málum en í dag. Er ég  hér ekki að verja það að beitt var hryðjuverkalöggjöfinni gegn okkur og enskt dótturfyrirtæki Kaupþings fellt á þann hátt.
Það er ljóst að Evrópuríki og Bandaríkin fjármagna að mestu lán IMF og það er að sjálfsögðu þau sem hafa um það að segja hverjir fá lán.  Þessir sömu aðilar sem virðast tefja lánafyrirgreiðslu okkar eru einnig innanbúðar í EB og taka þar okkur væntanlega fagnandi og leyfa okkur að taka upp Evru,... bara sísona án skilyrða myntbandalagsins eins og sumir virðast halda.

Gunn (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 20:44

11 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Hvaðan hefur þú það Marinó að ESB skipti sér eitthvað af auðlindum svona almennt og yfirleitt? - Svíar afhentu ekki ESB stálnámur sínar, né Bretar olíulindir eða Austurríkismenn vatnsaflsvirkjanir? Ekkert slíkt er á dagskrá ESB.

Fiskveiðistefnan á sömu rót og umhverfismál að fiskurinn sem þurfti að vernda virðir ekki lögsögumörk og landamæri og fjölmörg lönd við Norðursjó áttu strönd að sama hafsvæði með sömu fiskistofnum. 

Það kemur auðlindum ekkert við að öðru leiti. Engin þjóð hefur afsalað ESB auðlindum sínum. ESB skiptir sér ekkert af kolanámum, virkjunum, olíulindum, málmnámum eða almennt og yfirleitt auðlindum þjóðanna - nema hvað varðar sameiginleg umhverfismál og þar eru við með ESB þjóðunum í „Kyoto“, „Ríó“ og fleiri alþjóðlegum skuldbindingum.

Helgi Jóhann Hauksson, 10.11.2008 kl. 21:14

12 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Hvað með Makríl Loðnu Síld og hvalveiðar.

Jón Aðalsteinn Jónsson, 10.11.2008 kl. 21:25

13 identicon

Frjálsir Íslendingar myndi sína eigin stjórn. Appelsínugul byltin. Eða ætti það að heita blogg-byltingin þar sem bloggið er orðið sterkasta aðhald við fjórða valdið?

En hugmynd þín hljómar vel, í alvöru talað. Það er hins vegar spurning hvernig gengi að finna flöt á stórum efnisflokkum sem einhugur myndast um. Núna er t.d. umræðan mikið í trúarbragastíl um EES og evruna. Nýjasta útspilið þessi makalausa hugmynd um einhliða upptöku evrunnar sem á sér ekkert fordæmi (þó menn segi annað og nefni Kosovo og Andorra).

En bráðavandinn er það sem brennur á fólki. Hann á að skipta meira máli núna, enda engum í hag að 14 þúsund fjölskyldur með myntkörfulán tapi aleigunni. Enn síður að atvinnureksturinn reki í þrot. Á meðan "réttkjörin" stjórnvöld sýna ekki röggsemi gæti samhentur hópur og yfirvofandi blogg-bylting í það minnsta skerpt á hlutunum. Kannski knúið fram nauðsynlegar kosningar. Og ef það tekst ekki - þá tekið völdin!

Gestur H (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 22:28

14 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Helgi, við vitum ekkert hvaða tilskipanir koma frá ESB og hvort við munum nokkru ráða um þær.  Að því leiti setjum við auðlindir okkar í hendur þeim.  Nú sjávarútvegsstefnuna þekkjum við.  Hún hentar okkur ekki.

Gunn, ég er sammála þér þessu með píslavottahlutverkið.  Óttar Guðmundsson, læknir, kallaði þetta um árið að liggja á nagla.  Austfirðingar gerðu þetta í 25 ár.  Biðu eftir stóriðju, sem lét bíða eftir sér.  Við eigum ekki að bíða, heldur láta hendur strax standa fram úr ermum.  Ef ríkisstjórnin getur ekki stjórnað slíku, þá finnum við einhverja aðra til þess.  Ég er til í að taka þátt í slíku og allir þeir sem ég hef talað við eru til.  Fólk er búið að missa þolinmæðina og vill alls ekki fara leið atvinnuleysis og námslána.  Það vill halda atvinnustiginu uppi hvað sem það kostar.  Það vill frekar greiða fyrirtækjum fyrir að halda fólki í vinnu en að borga fólki fyrir að hafa ekki vinnu.  Við verðum að brjóta þennan kassa sem menn hafa sett utan um viðfangsefnið, þannig að búið sé til pláss fyrir öðruvísi lausnir.

Þráinn og fleiri, það getur verið að það þurfi að semja við Breta og Hollendingar, en Breta ollu okkur skaða, sem skerðir getu Landsbankans til að standa við skuldbindingar.  Þeir sköðuðu líka Kaupþing.  Ég held að við eigum háar fjárhæðir inni hjá Bretum en ekki öfugt.  Ég vil að við leysum þetta tvennt saman, þ.e. icesave og skaðabætur fyrir yfirtökuna á Landsbankanum í London og Kaupþing Singer og Friedlander, vegna þess að þessi tvö mál eiga saman, ekki icesave og IMF.  Það eru tvö óskild mál.

Arinbjörn, mér finnst það fúlt að hér séu útistandandi kröfur vegna icesave.  Málið er að það hefur enginn sýnt fram á tap eins eða neins vegna þessa máls.  Landsbankinn heldur því statt og stöðugt fram að hann eigi nægar eignir fyrir þessum kröfum.  Gefum bankanum færi á að sanna það.  Ég hef alltaf séð ákveðið plott í þessu.  Menn þvinga fram greiðslur frá Tryggingarsjóði innistæðueigenda og fá þá greiðslu.  Þar með verður sjóðurinn kröfuhafi í þrotabú Landsbankans, en hann verður ekki með forgangskröfur eins innistæðueigendur yrðu. Þar með fá breskir og hollenskir kröfurhafar (bankar) meira upp í sínar kröfur og það verða íslenskir skattborgarar sem borga brúsann.  Þess vegna segi ég, áður en Tryggingarsjóðurinn fer að greiða einn eyri út, þá verður Landsbankinn að fá tækifæri til að greiða það sem hann á og það verður að ljúka því skaðabótamáli, sem óhjákvæmilegt er að höfða gegn breskum stjórnvöldum fyrir þann skaða sem þau voru völd að.

Marinó G. Njálsson, 10.11.2008 kl. 22:50

15 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Gestur, vandinn verður því aðeins leystur að við lítum á hann sem úrlausnarefni.  Ég setti fram í blogginu Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum  fram tillögur að 13 aðgerðahópum og læt þá fylgja hér.  Þeir þurfa vafalaust að vera fleiri:

  1. Fjármálaumhverfi: Verkefnið að fara yfir og endurskoða allt regluumhverfi fjármálamarkaðarins.
  2. Bankahrunið og afleiðingar þess:  Verkefnið að fara yfir aðdraganda bankahrunsins svo hægt sé að læra af reynslunni og draga menn til ábyrgða.
  3. Atvinnumál:  Verkefnið að tryggja eins hátt atvinnustig í landinu og hægt er á komandi mánuðum.
  4. Húsnæðismál:  Verkefnið að finna leiðir til að koma veltu á fasteignamarkaði aftur á stað.
  5. Skuldir heimilanna:  Verkefnið að finna leiðir til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot heimilanna í landinu.
  6. Ímynd Íslands:  Verkefnið að endurreisa ímynd Íslands á alþjóðavettvangi.
  7. Félagslegir þættir:  Verkefnið að byggja upp félagslega innviði landsins.
  8. Ríkisfjármál: Verkefnið að móta hugmyndir um hvernig rétta má af stöðu ríkissjóðs.
  9. Peningamál: Verkefnið að fara ofan í peningamálastefnu Seðlabanka Íslands, endurskoða hana eftir þörfum og hrinda í framkvæmd breyttri stefnu með það að markmiði endurreisa traust umheimsins á Seðlabanka Íslands
  10. Gengismál:  Verkefnið að skoða möguleika í gengismálum og leggja fram tillögur um framtíðartilhögun.
  11. Verðbólga og verðbætur:  Verkefnið að fara yfir fyrirkomulag þessara mála og leggja til umbætur sem gætu stuðlað að auknum stöðugleika.
  12. Framtíð Íslands - Á hverju ætlum við að lifa: Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi nýja atvinnuvegi.
  13. Framtíð Íslands - Hvernig þjóðfélag viljum við:  Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi inniviði þjóðfélagsins.

Marinó G. Njálsson, 10.11.2008 kl. 22:58

16 identicon

Mjög gott. Þarna er ein setning hjá þér sem er flott hráefni í "rauða þráðinn" fyrir það sem núna skiptir hvað mestu máli:

"Frekar greiða fyrirtækjum fyrir að halda fólki í vinnu en að borga fólki fyrir að hafa ekki vinnu." Klassi!!

Gestur H (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 23:24

17 Smámynd: Atli Hermannsson.

"Nú sjávarútvegsstefnuna þekkjum við.  Hún hentar okkur ekki."

Marinó. Ég hef alveg sérstaklega lagt mig eftir því hvað það er sem "hentar okkur ekki" varðandi sjávarútvegsstefnu ESB og er litlu nær eftir nokkurra ára leit.

Sem dæmi þá reyndi Björgólfur Jóhannsson fráfarandi formaður LÍÚ  ekki einu sinni að benda á hvað það væri í ræðu sinni á ársfundinum um daginn, heldur sagði stutt og skorinort  að hagsmunir íslands væru best tryggðir utan ESB án þess að rökstyðja það frekar.

Þá skrifaði bæjarstjóri Vestmannaeyja langa grein fyrir stuttu síðan sem gekk út á að sannfæra landann um hið gríðarlega óhagræði sem t.d. bæjarfélag eins og Vestmannaeyjar yrðu fyrir eftir inngöngu í ESB. Eftir lestur greinarinnar var það eina sem stóð eftir, að sjávarútvegsráðherra hefði ekki getað aukið við loðnukvótann eins og hann gerði undir lok síðustu vertíðar. Nú veit ég ekki nema hægt verði að semja um hvaða fyrirkomulag verði haft varðandi loðnuna, sem er deilistofn eins og við vitum og þurfum að semja um hann hvort eð er. Kannski bæjarstjórinn viti að það sé ekki hægt. En bæjarstjórinn hefði þá einnig getað ropað því upp úr sér í greininni að 10 dögum áður en ráðherrann bætti við loðnukvótann hafði hann stöðvað veiðarnar í mikilli óþökk útgerðarmanna - ráðherra hefði þá væntanlega ekki getað gert það heldur.   

Definitions */ @font-face {font-family:"Cambria Math"; panose-1:2 4 5 3 5 4 6 3 2 4; mso-font-charset:1; mso-generic-font-family:roman; mso-font-format:other; mso-font-pitch:variable; mso-font-signature:0 0 0 0 0 0;} @font-face {font-family:Calibri; panose-1:2 15 5 2 2 2 4 3 2 4; mso-font-charset:0; mso-generic-font-family:swiss; mso-font-pitch:variable; mso-font-signature:-1610611985 1073750139 0 0 159 0;} /* Style Definitions */ p.MsoNormal, li.MsoNormal, div.MsoNormal {mso-style-unhide:no; mso-style-qformat:yes; mso-style-parent:""; margin-top:0cm; margin-right:0cm; margin-bottom:10.0pt; margin-left:0cm; line-height:115%; mso-pagination:widow-orphan; font-size:11.0pt; font-family:"Calibri","sans-serif"; mso-ascii-font-family:Calibri; mso-ascii-theme-font:minor-latin; mso-fareast-font-family:Calibri; mso-fareast-theme-font:minor-latin; mso-hansi-font-family:Calibri; mso-hansi-theme-font:minor-latin; mso-bidi-font-family:"Times New Roman"; mso-bidi-theme-font:minor-bidi; mso-ansi-language:IS; mso-no-proof:yes;} .MsoChpDefault {mso-style-type:export-only; mso-default-props:yes; mso-ascii-font-family:Calibri; mso-ascii-theme-font:minor-latin; mso-fareast-font-family:Calibri; mso-fareast-theme-font:minor-latin; mso-hansi-font-family:Calibri; mso-hansi-theme-font:minor-latin; mso-bidi-font-family:"Times New Roman"; mso-bidi-theme-font:minor-bidi;} .MsoPapDefault {mso-style-type:export-only; margin-bottom:10.0pt; line-height:115%;} @page Section1 {size:612.0pt 792.0pt; margin:72.0pt 72.0pt 72.0pt 72.0pt; mso-header-margin:36.0pt; mso-footer-margin:36.0pt; mso-paper-source:0;} div.Section1 {page:Section1

Atli Hermannsson., 10.11.2008 kl. 23:33

18 Smámynd: Atli Hermannsson.

Fyrigefið langhundinn sem fylgir ... ég kann bara enga skýringu á honum. 

Atli Hermannsson., 10.11.2008 kl. 23:39

19 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Atli, það sem hentar ekki í sjávarútvegsstefnu ESB er að þar eru fiskimið sameiginleg, þ.e. allir mega veiða alls staðar.  Það á að heita að það sé einhver kvóti, en það fyrirkomulag hefur bara ekki gengið upp.  Ef þú hefur aðrar upplýsingar, þá væri gott að vita af því.

PS.  Hvaða definition dót er þetta sem fylgdi?

Marinó G. Njálsson, 10.11.2008 kl. 23:39

20 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég kann svo sem skýringu á honum.  Varstu að afrita þetta úr Word?  Þetta er paragraph definition úr Word eða öðru viðlíka forriti.

Marinó G. Njálsson, 10.11.2008 kl. 23:42

21 Smámynd: Atli Hermannsson.

  Marinó. Fiskveiðistefna ESB á aðeins við um sameiginlega fiskstofna bandalagsríkja, fiskstofna þar sem tvö eða fleiri ríki eiga sögulegan nýtingarétt eða af landfræðilegum ástæðum. Hvorugu er til að dreifa hér við land varðandi botnfisktegunir okkar. Það eru ríkjakvótar gefnir úr og hverju landi fyrir sig ber að framfylgja þeirra úthlutunum. Ef einhver vandhvæði hafa verið eða misbrestur á framkvæmd, er það staðbundið vandamál komandi þjóðar og ekki okkar að hafa teljandi áhyggjur af því.

 

Þá ber þess að geta að bandalagsþjóðum er í sjálfsvald sett hvaða fiskveiðikerfi þær nota. Hvort heldur kvótakerfi að okkar fyrirmynd eða dagakerfi að hætti Færeyinga. Því er í raun ekkert til sem heitir „fiskveiðikerfi“ ESB í okkar skilningi.

 

Atli Hermannsson., 10.11.2008 kl. 23:54

22 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Atli, ég er alveg viss um að Bretar og Þjóðverjar munu telja sig eiga sögulegan rétt til veiða við Ísland.  Spánverjar áttu ekki meiri sögulegan  á Bretlandsmiðum, en þessar þjóðir eiga hjá okkur.

Marinó G. Njálsson, 11.11.2008 kl. 00:08

23 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hver vill byrja vegferðina á því að skipuleggja undirskriftaherferð þar sem þess yrði krafist að forsætisráðherra bæðist lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Komið yrði á utanþingsstjórn sem starfaði í samráði við Alþingi og embættismannakerfið.?

Þarna er sá eini vettvangur sem gæti gert samninga okkar við aðrar þjóðir trúverðuga, enda yrðu ráðgjafar þessarar stjórnar skipaðir fólki frá hinum Norðurlöndunum. 

Afneitun Geirs H. Haarde og ráðherrum samstarfsflokksins um það að skipta um stjórn Seðlabankans-ein og sér- sýnir að ríkisstjórnin er veruleikafirrt og vanhæf. Við þessar aðstæður þarf þjóðin að treysta þeim sem með umboð hennar fara. Vísasta sönnun þessarar afneitunar er ný "skoðanakönnun" frá Gallup sem sýnir að Geir nýtur trausts 50% þeirra aðspurðra sem taka afstöðu!

Þegar svo er komið að manni dettur í hug Stalínstímabilið þegar einræðisherrann hlaut 104% fylgi í kosningum þá er mér nóg boðið.

Ég kem daglega á fjölmennan vinnustað þar sem flestir studdu Sjálfstæðisflokkinn fyrir nokkrum mánuðum. Nú eru þar eftir örfáir sem ekki telja að tafarlaust verði að mynda utanþingsstjórn. Geir ráði hreinlega ekki við þann bráða vanda sem aukist með hverjum degi. 

Árni Gunnarsson, 11.11.2008 kl. 00:25

24 Smámynd: Atli Hermannsson.

Marinó. Þó ég hafi það ekki á hraðbergi, þá hef ég séð einhvers staðar að það er gengið útfrá einhverjum tímamörkum sem eru langt fyrir innan þau 30 ár sem liðin eru frá því þessar þjóðir voru hér. Þá vill svo einkennilega til að stærsti hluti togaraflota Bretlandseyja og einnig Þýskalands er í eigu Íslendinga svo varla mikið til að hafa áhyggjur af. Varðandi Spánverja-grýluna sem kallað hefur verið kvótahopp þá er það löngu liðin tíð sem búið er að girða fyrir. Nær væri fyrir Spánverja að óttast okkur Íslendinga sem gerum stærsta uppsjávarflota Evrópu út frá Canarí og veiðir árlega hundruð þúsundir tonn af makríl kvóta ESB í boði Spánverja...     

Atli Hermannsson., 11.11.2008 kl. 00:36

25 Smámynd: Einar Vilhjálmsson

 Frábært framtak Marinó - ég þykk koll í horni í þeim hópi sem koma kann saman til að ræða málin verði mér boðið. Ljóst er að þú hefur stigið afgerandi fram og þarft að bera kindilinn - boða til fyrsta fundar.    RE-ev: Við greiningu og ákvarðanatöku á tæknilega flóknu ferli þar sem markmiðið er að skapa sem mesta hreyfiorku í rétta átt á stuttum tíma er mikilvægt að skilgreina minstu mögulegu breytingu sem skilað getur mestum ávinningi. Hér er vissulega um að ræða mörg huglæg orð og því mikið rúm fyrir skoðanaskipti og vangaveltur um leiðarval  . 1. Fjármálaumhverfi: Verkefnið að fara yfir og endurskoða allt regluumhverfi fjármálamarkaðarins. RE-ev: Hér er sem betur fer ástæða til að ætla að margt sé all efnilegt þótt gloppurnar hrópi á okkur í dag - eftirlitshlutverkið, skortur á beitingu valds, áhættumat, innflutt dómgreind, ótti við að skaða ,,trúverðugleika ...2. Bankahrunið og afleiðingar þess:  Verkefnið að fara yfir aðdraganda bankahrunsins svo hægt sé að læra af reynslunni og draga menn til ábyrgða. RE-ev: Hér er sem betur fer jarðvegurinn að mestu kominn í ljós, áburðurinn líka svo ekki sé talað um þá erfðabreyttu VÁvexti sem ræktaðir voru. Ekkert kemur manni á óvart lengur enda ljóst að segull fjármagns dregur til sín mismunandi mála. Söguna þarf mikið rétt að skrá og skilgreina, draga upp ný kort og hafa staðsetningarpúnktana öllum aðgengilega og skiljanlega.3. Atvinnumál:  Verkefnið að tryggja eins hátt atvinnustig í landinu og hægt er á komandi mánuðum. RE-ev: Mikið rétt og margt góðra hugmynda komið fram í samfélaginu. Hvað sem við köllum hlutina þá er mikils um vert fyrir manninn að hann hafi hlutverk. Lítill aflvaki er í atvinnuleysisbótum. Endurreisnarvinna er eflaust ekki draumahlutskipti en þó skárri kostur fyrir flesta.4. Húsnæðismál:  Verkefnið að finna leiðir til að koma veltu á fasteignamarkaði aftur á stað. RE-ev: Hér er ýmislegt í stöðunni hægt að gera en mikilvægast að ræða þessi mál opinskátt miðað við forsendur– meira, minna, hætta og byrja. 5. Skuldir heimilanna:  Verkefnið að finna leiðir til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot heimilanna í landinu. RE-ev: Hér er ýmislegt í stöðunni hægt að gera og verið nefnt í umræðunni. Skiptimarkaður virðist hafa færst í vöxt  síðustu vikurnar en við þurfum að skoða málin líka útfrá svartasta raunsæi. Leiðin um hækkun á þyngdarpunkti enfahagsreikningsins, færsla talna frá eigin fé til skulda þakkar á aðgerðir strax - til vara skýr skilaboð um það sem ekki verður gert.  Smáskammtapintingar og undirferli er mun óheiðalegra en kröftugur rasskellur.6. Ímynd Íslands:  Verkefnið að endurreisa ímynd Íslands á alþjóðavettvangi. RE-ev: Aldeilis ekkert smámál. Birtingarmynd Íslendinga í úrvalsdeild alþjóða fjármálamarkaða hefur tjargað ímynd þjóðarinnar og ekki bætti úr skák að fas og framkoma sumra leiðtoga hefur gefið borgurum í heimþorpinu tilefni til að láta sér detta í hug að æðruleysi stjórnvalda gagnvart örlögum annarra sé óbærilegt og jafnvel að ólán  þjóðarinnar innihaldi ögn af ásetningi. Á markaði þar sem áreiðanleiki og heiðarleiki skiptir sköpum er tími trúverðugleikans dauður. Tákngerfingar hins dauða trúverðugleika geta ekki lengur troðið upp í nafni þjóðarinnar.7. Félagslegir þættir:  Verkefnið að byggja upp félagslega innviði landsins. RE-ev: Hér er ýmislegt í stöðunni hægt að gera en mikilvægast að ræða þessi mál opinskátt miðað við forsendur– meira, minna, hætta og byrja.  8. Ríkisfjármál: Verkefnið að móta hugmyndir um hvernig rétta má af stöðu ríkissjóðs. RE-ev: Hér er ýmislegt í stöðunni sem verður að ræða af  fullri alvöru viðað við það sem úr er að moða, við að styðjast og á er að byggja í dag.  Hér er mikilvægt að skoða aðgerðaráætlun miðað við vonda úrgáfu af slæmri stöðu og fragn hverju skrefi sem óþarft er að stíga í þá átt. Verst er að þvælast um í heimi smáskammtaraunsæis og úrræða sem öll reynast óheppilega ófullnægjandi9. Peningamál: Verkefnið að fara ofan í peningamálastefnu Seðlabanka Íslands, endurskoða hana eftir þörfum og hrinda í framkvæmd breyttri stefnu með það að markmiði endurreisa traust umheimsins á Seðlabanka Íslands. RE-ev: Verkefnið ber með sér fagra draunsýn sem vissulega þarf að skoða með vel og vandlega en engu að síður hratt og örugglega. Fyrir hverju þarf umheimurinn að treysta Seðlabankanum næstu vikurnar?  Næstu mánuðina ? Næstu árin árin?  10. Gengismál:  Verkefnið að skoða möguleika í gengismálum og leggja fram tillögur um framtíðartilhögun. RE-ev: Er grundvöllur fyrir því að taka þá áhættu að fljótandi krónan geti náð ,,jafnvægi’’ næstu misserin , næstu árin með hætti sem réttlætir notkun hennar sem gjaldmiðils fyrir íslenska þjóð? Klárlega vilja ýmsir reyna hér til þrautar. Hvað má það kosta ?  Það er öllum ljóst að háir stýrivextir munu verða við líði svo lengi sem þessarri tilraun er haldið til streitu. Eftir að ákveðið verður að ræsa þetta spilavít af stað er ljóst að eitt ár en stuttur tími til að komast að því hvort þetta var óráð eða ekki ef þrjóska og þráhyggja ræður för. Í raun þarf ekki þær frænkur til enda mikils um vert fyrir IMF að  kanna eitt skiptið enn hvort úrræðaferlið sé virkilega dautt. Þá væri heiðarlegra að breyta Perlunni í Nothen Lights Casino og dreifa flugfarseðlum á viðeigandi markhóp til að afla gjaldeyris. Krónan þolir vart annað en handstýringu nema samþykkt sé að harða til muna eignaupptöku íslenskra borgara. Gaman væri að ég hefði alrangt fyrir mér hér , en ekkert grýn að leitast við að sanna það.  Ég mun ávallt hugsa vel til krónunnar á Þjóðmunasafninu.  Talandi um krónu þá þykir mér að norska krónan vænlegur kostur í okkar stöðu heildrænt sé komi slíkt til greina hjá Norðmönnum. 11. Verðbólga og verðbætur:  Verkefnið að fara yfir fyrirkomulag þessara mála og leggja til umbætur sem gætu stuðlað að auknum stöðugleika. RE-ev: Hér ræður öllu hvað við gerum í gjaldmðilsmálum.12. Framtíð Íslands - Á hverju ætlum við að lifa: Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi nýja atvinnuvegi. RE-ev: Skemmtilegt umræðuefni. Þurfum að skola leiðir sem miðast við svör firir mismunandi tíma: næstu 4 mánuði, til ársloka 2009, árið 2010 og 2011. Á Olympíuárinu 2012 fer útsýnið að batna og framtíðarsýnin að verða aðdráttarhæfari. 13. Framtíð Íslands - Hvernig þjóðfélag viljum við:  Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi inniviði þjóðfélagsins. RE-ev: Skemmtilegt umræðuefni. Hér vil ég sjá gall harða og töff  réttlætiskennd sem grundvallast á algjöru óþoli fyrir misrétti einstaklinga og skorti á nauðsynlegri aðstoð og tækifærum til þeirra sem minnst meiga sín.  Stefna ber markvisst að því að allir fái aðstoð og tækifæri til að hjálpa sér sjálfir  og efla sitt megnuga sjálf. 

Einar Vilhjálmsson, 11.11.2008 kl. 03:30

26 Smámynd: Baldvin Jónsson

Gaman að lesa yfir þessar hugleiðingar hér.

Atli: Hvernig sérðu stöðuna við ESB aðild öðruvísi af því að íslendingar veiða víðar en við Íslandsstrendur? Ég sé ekki að stýringin á afla hérna heima breytist mikið við það. Sem heild erum við markaður A. Aðrir markaðir þar sem að útgerðarmenn hafa fundið ný tækifæri utan Íslands, eru bara markaðir B og tengjast málinu lítið. Eru gjarnan ekki að greiða til samfélagsins.

Einar: Takk fyrir langlokuna :)  Augljóst að þú hefur verið að stúdera aðeins stefnumótun og þá mest hugmyndina um hið bláa haf.  Það er vissulega mikilvægt að skoða marga hluti í því ljósi, þ.e. að hætta einhverju, draga úr einhverju, auka eitthvað og byrja með eitthvað nýtt. Það á afar vel við í rekstrarþáttunum að mínum mati, en kannski síður við í t.d. félagslega kerfinu. En af svörum þínum að dæma stefnirðu á þingmennsku eða félagsstörf. Mikið af orðum og lítið af upplýsingum.

Það er annars búið að stofna til hóps á Facebook Marínó og aðrir, þar sem að hugmyndin er að búa t.d. til hugmyndabanka. Þetta er að frumkvæði Kjartans Péturs og allir velkomnir sem að hafa áhuga.

Hópurinn heitir: Ný ríkisstjórn Íslands.  Finnið hann með því að fara í leit á Facebook. Sem fyrr segir, öllum frjáls aðgangur.

Baldvin Jónsson, 11.11.2008 kl. 12:55

27 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Baldvin, takk fyrir þetta. Kjartan Pétur var búinn að senda mér þetta og tengilinn má finna hér:

http://www.facebook.com/group.php?gid=39333847131 

Marinó G. Njálsson, 11.11.2008 kl. 13:08

28 Smámynd: Atli Hermannsson.

Baldvin. Varðandi ráðgjöfina þá sé ég ekki neina breytingu. Hafró mun eftir sem áður sjá um allar rannsóknir og tillögur um heildarafla hér við land. Ráðherraráð ESB mun hafa endanlega ákvörðun á sinni könnu - stimplar pappírana. En það mun enginn gera athugasemd við tillögurnar þar, einfaldlega vegna þess að enginn mun geta stutt mál sitt neinum gögnum. Þá munum við eiga okkar ráðherra þar og aðrir sem þar sitja  vilja örugglega ekki að við förum að skipta okkur að einhverjum atriðum er þá varðar sérstaklega.

Þá er öll ráðgjöfin má segja á einni hendi sem heitir Alþjóðahafransókanrráðið í Köben ICES og Hafró er beintengt ráðinu. Með öðrum orðum, sú nýtingastefna sem ráðgjafar ESB standa fyrir er sú sama og Hafró hefur. Svo geta menn deilt um það hversu árangursrík hún er.

Stóra breytingin Baldvin eftir inngöngu í ESB verður, að hverjum sem er verður frjálst að eignast útgerðir og fiskvinnslur að fullu sýnist viðkomandi svo. Í dag mega útlendingar eiga allt að 49,5% á grundvelli EES í gegnum sjóði og hlutdeildarfélög... en enginn hefur notfært sér það hér á landi svo vitað sé -  bara við fjárfest erlendis.

Svo er það spurning hversu mikil ásókn verður í það hjá erlendum ríkisborgurum að eignast íslenskar útgerðir - sem eru á hausnum og skuldar þrefalda veltu sína. Er t.d. miklar líkur á að erlendur banki eða fjárfestingasjóðir sjá sér hag í að fjárfesta í útgerð þar sem skráð verðmæti hennar liggur í aflahlutdeildinni sem er samkvæmt lögum sameign þjóðarinnar - myndar ekki eignarétt og er úthlutað til eins árs í senn. En við þurfum að vera algerlega klárir á því að það opnast allt upp á gátt - og það virkar í báðar áttir. En það er hægt að koma upp girðingum sem gera erlendum ríkisborgurum erfiðara um vik og síður áhugavert að koma ár sinni hér fyrir borð. 

Atli Hermannsson., 11.11.2008 kl. 13:47

29 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Atli, það er eitt í viðbót, sem þarf að huga að.  Spánverjar hafa farið þá leið gagnvart Bretlandsmiðum að kaupa útgerðir á Bretlandi.  Þannig fóru þeir styttri leiðina að því að komast fyrir fiskveiðikvóta  Ég er ekki viss um að við getum haldið erlendri fjárfestingu frá innlendri útgerð, ef við göngum í ESB.  Ekki það að erlendir bankar eiga svo sem beint eða óbeint veð í flestum eigum útgerðanna í dag.

Marinó G. Njálsson, 11.11.2008 kl. 14:03

30 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Úps, Atli, ég var búinn að geyma þessa athugasemd tilbúna án þess að senda hana og ég sé að ég þarf ekkert að benda þér á þetta atriði.

Marinó G. Njálsson, 11.11.2008 kl. 14:04

31 Smámynd: Baldvin Jónsson

Sammála ýmsu hjá þér þarna Atli. En eftir situr spurningin um hvort að ESB tæki þá ákvörðun að öll mið ættu að vera sameiginleg og deila þannig jafnt aflanum milli allra útgerða við Atlantshaf. Gæti sú staða komið upp?

Baldvin Jónsson, 11.11.2008 kl. 14:12

32 Smámynd: Haraldur Hansson

Þetta er virkilega flott, góð og málefnaleg umfjöllun. Ég mun skrá mig á Facebook. Hætti mér ekki út í ESB umræðuna að sinni en er tilbúinn að starfa í aðgerðahópi #5.

Haraldur Hansson, 11.11.2008 kl. 18:09

33 Smámynd: Atli Hermannsson.

Baldvin, varðandi síðustu vangaveltur þínar þá eru þær verulega langsóttar svo ekki sé meira sagt. Því hvorki kem ég auga á í hverra þágu þessi breyting ætti að vera og enn síður hver ávinningurinn yrði.

Það er grunnregla hjá ESB að aldrei er gengið gegn grundvallarhagsmunum neins aðildarríkis. Þá má bæta við að kjölfestan í fiskveiðistjórninni hjá ESB er það sem kallað er hlutfallslegur stöðugleiki. Það er að segja að aldrei er tekið frá einni þjóð til að færa annarri. Því getum við alveg hætt að velta því fyrir okkur að floti Spánverja komi hingað. Heldur gerist það miklu frekar að erlendir aðilar eignist hluti í íslenskum útgerðum. Þá situr eftir spurningin hvort "okkur" standi ógn af erlendu hlutafé sem lækkað gætur skuldastöðu útgerðarinnar og bætir því væntanlega rekstur hennar.

En við eigum að hafa vaðið fyrir neðan okkur og einhenda okkur í að hnykkja enn betur á eignaréttarákvæði þjóðarinnar (ríkisins) á auðlindinni.   


Atli Hermannsson., 11.11.2008 kl. 19:09

34 identicon

Eitt af því sem regluverk ESB leggur upp með er vendun veiðiheimilda og forsendum aflasögu. Ef eitthvað er þá styrkir regluverk ESB ,,meinta eign "útgerðarmanna enda er hljóðið í útgerðarmönnum ekkert sérlega ávært um þessar mundir þegar kemur að umræðunni um að auðlindir tapist við inngönguna. Okkar kynslóð er ekki líkleg til að upplifa slíkt hvað svo sem framtíðin kann að bera í skauti sér.

Miðað við stöðuna í dag væri fróðlegt að vita hversu mikils okkar nágrannaþjóðir meta 25-33% eignaraðild í nýtingarrétti á sjáfarfangi úr íslenskri landhelgi næstu 50 árin. Eitthvað segir mér að sú tala kæmi mörgum á óvart - hversu lág hún er!  Sömu niðurstöðu hef ég á tilfinningunni gagnvart verðmati á eignaraðild í nýtingarétti á auðlindum til orkuframleiðslu. Hvar stöndum við ef  þessar tölur myndu engan veginn hrökkva til að mæta þeim kröfum sem hvíla á þjóðinni? Jú, við getum dregið fram nýtingarrétt á hugsanlegum auðlindum á hafsbotni í 50-91 ára.  Olían verður orðin víkjandi orkugjafi löngu fyrr og einsýnt að þjóðin hefur ekki fjárhagslegt bolmagn til stórræða á þessum vettvangi hvort sem er næstu áratugina.

Ekki má slikja mig svo að mér finnist þetta allt sjálfsagðar fórnir í stöðunni í dag né að ég sé að leggja þetta til. Það breytir því ekki að mér finnst tímabært að ræða málin aðeins útfrá þeirri stöðu sem við erum komin í.  Að svo kunni að fara að okkur takist ekki í þetta sinn að skella yfir úlfa okkar gærum og jarma fátækir, fáir, smáir. 

Einar Vilhjálmsson (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 04:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 1678166

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 43
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband