Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2014

Enn af áður gengistryggðum lánum

Ég hef nokkuð oft fjallað um áður gengistryggð lán og þá villu sem Hæstiréttur gerði með niðurstöðu sinni í máli nr. 471/2010.  Þá er ég að vísa til þeirrar ákvörðunar dómsins að skera fjármálafyrirtæki niður úr snörunni og dæma þeim betri vexti en áður voru á lánunum.  Nú mun vera búið að stefna máli þar að lútandi fyrir EFTA-dómstólinn, þá ég hafi bara sögusagnir þar að lútandi.

Mistök Hæstaréttar í máli 471/2010

En hvers vegna tel ég að Hæstiréttur hafi gert mistök?  Um það fjallaði ég m.a. í erindi sem ég hélt í Grasrótarmiðstöðinni í febrúar 2012.  Langar mig aðeins og rifja upp það sem ég sagði þá og styrkja þann málflutning með upplýsingum sem síðar hafa komið fram í dómi Evrópudómstólsins í máli C-618/10.

Fyrst eru það rökin mín:

1.  Lánið í umræddu máli (471/2010) var uppgjörsmál.  Það þýddi að skuldari myndi ekki þurfa að greiða til framtíðar neina vexti af láninu.  Því voru ekki lagðir fyrir dómstóla útreikningar á áhrifum seðlabankavaxta á greiðslubyrði lántaka til framtíðar.  Slíkir útreikningar hefðu leitt í ljós að greiðslubyrði hækkaði hjá mörgum lántökum, en lækkaði ekki.

2.  Greitt hafði verið af láninu í mjög stuttan tíma frá nóvember 2007 fram á haust 2008.  Því kom ekki til skoðunar við málaferlin hver áhrif seðlabankavaxta væru fyrir þá sem hefðu verið í skilum með lán frá árunum 2003 og 2004, en skoðun á þeim áhrifum hefðu gert Hæstarétti ókleift að grípa til seðlabankavaxtanna.

3.  Hæstiréttur notaði sem rök í máli 471/2010 að fjármálafyrirtækin hafi fjármagnað sig á tiltekinn máta og því bæri að víkja vöxtunum einnig til hliðar.  Hér gerist Hæstiréttur meðvirkur.  Það kemur máli nr. 471/2010 ekkert við hvernig fjármálafyrirtækið fjármagnar sig.  Rétturinn hefði alveg eins getað talað um stöðu himintunglanna.  Ég var með á sama tíma VAXTALAUST lán frá Lýsingu.  Ég reikna með að með rökum Hæstaréttar, þá ætti Lýsing að stefna mér til greiðslu vaxta, þar sem fyrirtækið borgaði vexti af fénum sem notað var til að fjármagna lánið.

4.  Hæstiréttur notaði sem rök, að ekki væri hægt að binda LIBOR vexti við íslenska lánsfjárhæð.  Aftur gerist Hæstiréttur meðvirkur og það sem meira er rök hans halda ekki.  SP-fjármögnun var með heimatilbúið gengisviðmið og tókst samt að tengja það við LIBOR vexti.  Kaupþing notaði heimatilbúna vexti, sem á yfirborðinu höfðu ekki tengingu við LIBOR vexti.  Þess fyrir utan er lítið mál að tengja LIBOR vexti við lán með því einfaldlega að segja að notaðir séu vextir JPY, CHF, EUR og USD í tilteknum hlutföllum.

5.  Hæstiréttur fór gegn lögum nr. 38/2001, þegar hann vék ófrávíkjanlegri grein laganna til hliðar fyrir frávíkjanlega grein.  Í máli 471/2010 ákvað rétturinn að vextir skyldu ákvarðast samkvæmt 1. málgrein 4. greinar laganna.   Hvernig komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að 4. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 ætti að gilda um þetta mál?  Það er mér gjörsamlega ómögulegt að skilja.  Höfum í huga að þessar greinar eru í II. kafla laganna og efni hans er frávíkjanlegt ásamt efni IV. kafla.  Um þessa tvo kafla segir í 2. gr.:  "Ákvæði II. og IV. kafla laga þessara gilda því aðeins að ekki leiði annað af samningum, venju eða lögum. Einnig verður vikið frá öðrum ákvæðum laganna að því marki sem þar er kveðið á um. Þó er ávallt heimilt að víkja frá ákvæðum laganna til hagsbóta fyrir skuldara."  Já, 4. gr. vaxtalaga gilda því aðeins að ekki leiði annað af samningum, venju eða lögum.  Samt ákvað Hæstiréttur að láta innihald ófrávíkjanlegrar greinar laganna, þ.e. 2. gr., víkja fyrir innihaldi greinar sem skýrt er sagt til um að séu ekki bara frávíkjanlegar, heldur eru sett mjög ströng skilyrði um hvenær megi nota, þ.e. 4. gr.  Dómur Hæstaréttar er því beinlínis rangur út frá lögunum, þar sem samningarnir eru til staðar, þ.e. lánssamningarnir, venjurnar eru til staðar, þ.e. kröfuréttur, og lögin eru til staðar, þ.e. nr. 7/1936 "samningalög" og nr. 121/1994 um neytendalán.

6.  Svo er það dómur Evrópudómstólsins í máli C-618/10.  Í þeim dómi, sem snýst um mjög háa dráttarvexti, segir að sé vaxtaákvæði talið ósanngjarnt (og ég leyfi mér að túlka ólöglegt ákvæði sem ósanngjarnt), þá megi landsdómstóll ekki ákveða annað vaxtaviðmið.  Ástæðan er einföld og ég hef oft skrifað um hana:  Þá einfaldlega hlaða fyrirtæki neytendasamninga með ósanngjörnum og ólöglegum ákvæðum og það versta sem gerist er að dómstólar bendi þeim á hvað sé sanngjarnt og löglegt.  Fyrirtækin tapi engu á brotum sínum, þ.e. þau verða aldrei verra sett, en ef þau hefðu farið að lögum í upphafi.  Út frá niðurstöðu Evrópudómstólsins í máli C-618/10, þá ætti Hæstiréttur að taka upp mál nr. 471/2010 eða það að nota það sem fordæmisgefandi mál við ákvörðun vaxta og fella niður vexti af áður gengistryggðum neytendalánum.  Athugið að þetta á ekki við um lán tekin af fyrirtækjum.  Við erum því að tala um lítinn hluta allra gengistryggðra lána.

Lopinn teygður

Því miður gengur mjög illa að fá niðurstöðu varðandi öll þau mörgu blæbrigði sem fjármálafyrirtækin hafa uppgötvað að eru á áður gengistryggðum lánum.  Síðast á þriðjudag gekk dómur í enn einu málinu.  Í þetta sinn í héraðsdómi.  Ég skil ekki hvers vega varð að stefna því máli, þar sem lánin í máli 600/2011 voru að mörgu leiti eins.  Þá á ég við að þar voru skilmálabreytingar, vöxtum bætt á höfuðstól og fleira þess háttar.  Einnig var í máli nr. 544/2013 dæmt um gildi fullnaðarkvittunar þrátt fyrir vanskil, en í því máli höfðu verið gerðar skilmálabreytingar.  Ég velti því fyrir mér hvers vegna fjármálafyrirtækin eru að teygja lopann svona mikið.  Líklegast eru þau að vonast til að einhverjar kröfur fyrnist eða að laxinn þreytist og hætti að berjast.

Ég held að það sé mikill misskilningur að fólk hætti að berjast.  Raunar er staðan að breytast á þann hátt, að margir þeirra sem áður höfðu ekki efni á því að berjast eru búnir að koma fjármálum sínum í sæmilegt stand, átta sig betur á rétti sínum og ekki síst sjá hver árangursrík baráttan hefur verið, að fleiri eru tilbúnir að leggja út í dómsmál.  Þá hefur ítrekað komið í ljós, að ekki er orð að marka loforð fjármálafyrirtækjanna að finna fordæmisgefandi mál til að klára slaginn.  Í þriðja lagi, þá gerist það ítrekað, að mál eru dregin til baka eða um þau samið utan dómstóla til að ekki gangi fordæmisgefandi dómar.  Í fjórða eru fordæmisgefandi dómskröfur dregnar til baka eða þeim ekki áfrýjað til Hæstaréttar.  Þannig hefði verið hægt að ljúka þessu með gildi fullnaðarkvittunar og afturvirkni vaxta, ef Drómi hefði ekki sleppt að áfrýja þeim hluta dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í málum 603/2010 og 604/2010 til Hæstaréttar.  Mikilvægt atriði um málsaðild (Sjómannafélagið gegn Arion banka) var samið utan dómstóla viku áður en taka átti málið fyrir í Hæstarétti.  Uppgjör vegna máls 600/2011 hafði verið stefnt fyrir dóm, en Drómi hætti við á síðustu stundu, þar sem fyrirtækið óttaðist líklegast niðurstöðuna.  Ekkert af prófmálunum 20 sem talið var þörf á að stefna endaði fyrir dómstólum.

Nú er mál að linni og niðurstaða fáist í þá óvissu sem er til staðar.  Ég trúi ekki öðru en að hægt sé að kortleggja hvað er eftir og ljúka þeim málum sem útaf standa.  Í þetta sinn verði það þó ekki í verkahring fjármálafyrirtækjanna að ákveða í hverju óvissan felst.  Sú leið er full reynd.


Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband