Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2014
19.2.2014 | 00:05
Vangaveltur um mælingu kaupmáttarbreytingar
Ég hef lengi velt því fyrir mér hvort mæling á kaupmætti sem birt er á hátíðarstundum sé í raun og veru rétt. Þ.e. hin almenna regla að skoða breytingar á launavísitölu og vísitölu neysluverð og segja það sé breytingin launavísitölunni í hag, þá sé kaupmáttaraukning, en sé hún launavísitölunni í óhag, þá hafi orðið kaupmáttarskerðing. Átti í orðaskiptum við Stefán Ólafsson um þetta í dag og vil deila vangaveltum mínum með fleiri.
Rök mín eru að rangt sé að telja hækkun og lækkun kaupmáttar á sama línulega hátt á tekjur yfir neysluviðmiði einstaklings/heimilis og undir viðmiðinu. Rökin eru einfaldlega, að því meiri sem tekjurnar eru, þá aukast líkurnar að vísitala neysluverðs mæli ekki það sem þær fara í.
Fyrir þessa grein langar mig til að nota orðið neysluútgjöld yfir öll útgjöld heimilanna hér fyrir neðan sem ná yfir útgjöld til kaupa vöru og þjónustu og annars kostnaðar sem mældur er í vísitölu neysluverðs. Þetta er náttúrulega ekki hárnákvæmt, en er nógu nákvæmt fyrir mína umfjöllun.
Tvær fjölskyldur
Tökum dæmi um heimili með 260.000 kr. í tekjur eftir skatta og neysluútgjöld upp á 250.000 kr. og annað heimili með 1.000.000 kr. í tekjur eftir skatta og 500.000 kr. í neysluútgjöld. Í báðum tilfellum innifelur vísitala neysluverðs alla flokka sem þessi tvö heimili borgar fyrir með neyslu sinni. Tekjuháa fjölskyldan er hins vegar með annars konar útgjöld og sparnað, sem er ekki mælt í vísitölu neysluverðs.
Nú hækkar vísitala neysluverðs um 4%. Það þýðir að lægri neyslukarfan hækkar í 260.000 kr. en sú hærri í 520.000 kr. Spurningin er: Hvað varð hvor fjölskylda fyrir mikilli kaupmáttarskerðingu? Samkvæmt venjulegum útreikningi verða báðar fyrir sömu skerðingunni, þ.e. 4%, þar sem vísitala neysluverðs hækkaði um 4% án þess að laun hækkuðu. En er þetta rétt?
Önnur fjölskyldan notar öll sín útgjöld í atriði sem mæld eru í vísitölu neysluverðs. Hún verður því líklegast fyrir fullri skerðingu á ráðstöfunartekjum sínum við hækkun neysluútgjalda sinna, þ.e. 10.000/260.000 = 3,85%. Hin fjölskyldan notaði hins vegar bara helming tekna sinna í neysluútgjöldum. Hækkun vísitölunnar skerðir því kaupmáttinn um 20.000/1.000.000 = 2%. Hvað varðar hinar 500.000 kr. sem fjölskyldan hafði til ráðstöfunar, þá er enginn grunnur til að halda því fram að þar hafi orði skerðing á kaupmætti. Kannski gat hún ekki fjárfest eins mikið, greitt eins mikið inn á lánin sín eða lagt eins mikið fyrir. En ekkert af þessu hefur nokkurn skapaðan hlut með kaupmátt að gera og það er hreinlega rangt að rugla þessu tvennu saman.
Hvað ef útgjöldin voru í útlöndum?
Ég skil alveg á hverju það byggir að bera saman launabreytingar og breytingar á vísitölu neysluverðs, en ég tel að í því felist blekking. Dæmi: Heimili er með 2 m.kr. í tekjur á mánuði eftir skatta. Heimilisfólk ferðast mikið til útlanda og verslar þar og eyðir um helmingi tekna sinna. Krónan styrkist um 12% meðan verðbólgan er 4%. Hvort varð fjölskyldan fyrir skerðingu kaupmáttar vegna þess að það var verðbólga á Íslandi eða kaupmáttaraukningu vegna þess að krónan styrktist? Hefðbundni útreikningurinn segði að aumingja fjölskyldan hefði orðið fyrir 4% kaupmáttarrýrnun, samt jókst kaupgeta hennar í útlöndum um 12% vegna styrkingar krónunnar. Það var nefnilega bara sá hluti útgjalda hennar sem fór í neysluútgjöld sem varð fyrir hækkun vegna verðbólgu, hins vegar jókst kaupmáttur hennar í útlöndum vegna styrkingar krónunnar. Þessi fjölskylda varð því fyrir verulegri kaupmáttaraukningu, en ekki skerðingu.
Önnur aðferð til að reikna breytingar á kaupmætti
Ég tel það gefa ranga mynd af þróun kaupmáttar, að reikna annan hluta tekna en fer í neysluútgjöld með þegar verið er að skoða breytingu kaupmáttar. Enginn vandi er að taka tillit til mismunandi neysluútgjalda í samræmi við neysluviðmið velferðarráðuneytisins.
Með þessu er ég ekki að segja að kaupmáttur tekna umfram neysluútgjöld séu alfarið óháð þróun vísitölu neysluverðs. Ég er bara að benda á að þessi tengsl eru allt önnur, en tengsl neysluútgjalda og verðbólgu.
Ég er líka að segja að núverandi mæling á þróun kaupmáttar dregur úr kaupmáttaraukningu þeirra sem eru með tekjur umfram neysluútgjöld miðað við það sem raunverulegt er og eykur skerðinguna. Það er því hreinlega rangt að með því að hækka laun allra sem nemur verðbólgu tiltekins tímabils, þá sé bara verið að varðveita kaupmátt. Svona til að taka ýkt dæmi, þá þyrfti sá sem er með 100 m.kr. í mánaðarlaun eftir skatta að fá 4 m.kr. hækkun (eftir skatta) til að viðhalda kaupmætti í 4% verðbólgu. Það sjá allir að þetta er rugl. Ég fullyrði að enginn einstaklingur nær að eyða mánuð eftir mánuð, ár eftir ár, 100 m.kr. á mánuði eingöngu í atriði sem mæld eru með vísitölu neysluverðs. Og ekki einu sinni þó tekjurnar væru "bara" 1 m.kr. á mánuði eftir skatta.
Ég tel að skilja verða á milli mælingar kaupmáttar vegna neysluútgjalda og annarra útgjalda eða sparnaðar. Þannig þurfi í raun að skilgreina meðalneysluútgjöld, t.d. út frá neysluviðmiðum velferðarráðuneytisins, köllum þau X, og láta hvort heldur breytingar á vísitölu neysluverðs eða launaþróun taka mið af henni. (Of flókið er að láta X vera breytilega tölu fyrir hvert heimili.) X-ið breytist svo með vísitölu neysluverðs og kaupmáttarbreytingar mælast að fullu fyrir ráðstöfunartekju allt að 10-20% umfram X, en komi skert inn í mælinguna eftir það, þar til hún hverfur alveg við t.d. 2X. Með þessu er einfaldlega verið að segja, að útgjöld heimilis umfram 2X innihaldi ekkert atriði sem mælt er með vísitölu neysluverðs.
Áhrif breytinganna
Áhrifin koma eingöngu fram hjá þeim sem eru með ráðstöfunartekjur umfram X + 10 eða 20% hvort viðmiðið sem yrði notað. Þau myndi skýrast í því, að þessi hópur þyrfti ekki sömu prósentutöluhækkun og þeir sem eru með lægri tekjur til að viðhalda kaupmætti sínum byggðum á breytingu á vísitölu neysluverðs. Í nýlegum kjarasamningum var því haldið fram að allir umfram þá launalægstu yrðu að fá sömu prósentuhækkun til að viðhalda sama kaupmáttarstigi. Þetta er náttúrulega ekki rétt, þar sem 295 kr. hækkun á dag hjá þeim í lægstu laununum fer öll í neysluútgjöld meðan fimmföld sú tala hjá einstaklingi með 1.250 þ.kr. fer að öllum líkindum í eitthvað annað en neysluútgjöld. Tekjuhærri einstaklingurinn þurfti líklega í mesta lagi helming hækkunarinnar til að mæta hækkun neysluútgjalda.
Staðreyndin er að hækkun hæstu launa hefur sjaldnast nokkuð með hækkun neysluútgjalda eða verðbólgu. Sá sem er með 8,5 m.kr. á mánuði, hann ræður vel við að neysluútgjöld heimilisins hækki um 100.000 kr. á mánuði. Varla að hann taki eftir því. Hann þarf því ekki 2,8% hækkun launa sinna til að viðhalda kaupmætti, eins og hann er mældur af Hagstofu. Líklegast myndi innan við 0,5% hækkun duga til að mæta hækkun neysluútgjalda vegna verðbólgu. Hin "útgjöldin" koma verðbólgu ekkert við og hækkun eða lækkun þeirra segir ekkert til um kaupmátt.
Ég vona að þessi pæling mín verði einhverjum innblástur til að skoða þetta frekar. Sjái einhver meinbug á rökum mínum, þá þigg ég allar ábendingar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.9.): 6
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 42
- Frá upphafi: 1679457
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 25
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði