Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Stjórnvöld skilja ekki vandann

Mér finnst það stórmerkilegt, að þegar Seðlabankinn og Hagstofan eru nýbúin að birta upplýsingar um mjög alvarlega skuldastöðu heimilanna í landinu, þá flýtur ríkisstjórnin sofandi að feigðarósi.  Ég hef haft ávæning um hluta af þeim ráðstöfunum sem stjórnvöld ætla að kynna í þessari viku.  Sumt er gott, en annað hálf furðulegt í ljósi þess, að þar virðist eingöngu verið að bjargar yfirskuldsettum heimilum, en ekki tekið nægilega vel tilliti til greiðslugetu heimilanna.

Í vinnu "sérfræðingahóps" stjórnvalda um daginn, þá kom fram að 17.700 fjölskyldur ráða ekki við útgjöld og/eða afborganir húsnæðislána.  Þá er eftir að taka inn önnur lán, m.a. bílalán.  Tölur Hagstofu og Seðlabanka benda til þess að um 40.000 fjölskyldur nái ekki endum saman um mánaðarmót eða eigi í erfiðleikum með það.

Skuldakreppan sem dynur á þjóðfélaginu, er sú fyrsta í heiminum sem ekki er hægt að lina með verðbólgu.  Alls staðar annars staðar er verðbólga notuð til að hækka laun umfram skuldir, þ.e. lánveitendur eru látnir taka á sig tjón af kreppunni með neikvæðri ávöxtun eða verulega skertri ávöxtun.  Hér kemur verðtryggingin í veg fyrir það.  Bandarísk stjórnvöld hafa ákveðið að prenta fullt af peningum og búa til verðbólgu.  Áströlsk stjórnvöld gáfu hverjum einasta landsmanni 900 ástralska dali til að búa til verðbólgu.  Hérna eykur verðbólga á vandann.


mbl.is Óttast að upp úr muni sjóða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn hækkar reikningurinn vegna stjórnenda og eigenda gömlu bankanna

Sveitarfélögin í landinu hafa líkt aðrir lántakar orðið fyrir barðinu á þeirri hringavitleysu sem átti sér stað hér á landi á árunum 2004 - 2008.  Þau eru því í þeirri þvinguðu stöðu að verða annað nýta sína tekjustofna í botn, þrátt fyrir niðurskurð í rekstri.  Einu aðilarnir sem virðast ósnortnir af þessum hremmingum eru slitastjórnir gömlu bankanna.

Ég furða mig sífellt meira á því, að stjórnvöld skuli ekki hreinlega skikka gömlu og nýju bankana til að bæta fyrir það tjón sem stjórnendur og eigendur gömlu bankanna ollu þjóðfélaginu.  Íris Erlingsdóttir talaði í pistli um undirlægjuhátt og er ég gjörsamlega sammála þeim orðum.  Sjálfur talaði ég um það bæði hér og í Silfri Egils um daginn að ég vissi ekki til að það væri eitthvert náttúrulögmál, að þegar bankarnir settu hagkerfið á hliðina, þá ættu skattgreiðendur að borga reikninginn og bankarnir að hirða allar fasteignir af fólkinu í landinu.

Ég mótmæli því, að verið sé að innheimta að fullu lán sem fengust með miklum afslætti við yfirfærslu þeirra frá gömlu bönkunum til þeirra nýju.  Ég krefst þess að nýju bankarnir sýni samfélagslega ábyrgð og bæti fyrir það tjón sem gömlu kennitölurnar þeirra ollu.  Ég krefst þess einnig að fjármálafyrirtækin hætti samningum við þá aðila sem mest höfðu sig í frammi fyrir hrun og yfirtaki í heilu lagi eignir þeirra.  Ég krefst þess að stjórnvöld noti öll þau lög sem hægt er að nota, til að stefna þessum mönnum fyrir íslenska dómstóla, leiti uppi allar þeirra eignir í hér á landi og í útlöndum og taki þær eignarnámi hvar sem til þeirra næst, enda er augljóslega um peningaþvætti að ræða.  Sátt mun ekki nást í þjóðfélaginu fyrr en þetta hefur verið gert. 

Þá krefst ég þess að sett verið lög á Alþingi, sem koma í veg fyrir að einkaaðilar geti nokkurn tímann endurtekið það sem við höfum mátt upplífa.  Að fjármálafyrirtæki verði krafinn um að tryggja sig sjálf fyrir rekstraráföllum og þau sem ekki hafi slíkar tryggingar verði svipt rekstrarleyfi.  Að  mun strangari kröfur verði gerðar til áhættustýringa og það varði sviptingu leyfis til að starfa við fjármálafyrirtæki eða eiga verulegan hlut í því (5% eða meira), ef reglur um áhættustýringu eru brotnar.  Ég gæti bætt ýmsu við þennan lísta, en læt þetta duga.


mbl.is Útsvarshækkanir í undirbúningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt skal vera rétt - villandi spurning og villandi fyrirsögn

Fyrirsögn fréttarinnar er ekki í samræmi við innihaldið.  Í könnuninni er spurt:

Hversu fylgjandi eða andvígur ert þú því að lífeyrissjóðir taki þátt í skuldaniðurfellingu húsnæðislána, þó það þýði að lífeyrisgreiðslur myndu mögulega skerðast?

Hér er líklegast verið að vísa til hugmynda Hagsmunasamtaka heimilanna um leiðréttingu á húsnæðislánum heimilanna.  Við þetta er að athuga:

  1. Ekki er gert ráð fyrir því í tillögum HH að lífeyrisgreiðslur skerðist hjá þeim sem eru byrjaðir að taka lífeyri eða hjá þeim sem eru í þann mund að taka lífeyri.
  2. Það eru lífeyrisréttindi sem eiga að skerðast samkvæmt tillögum HH, en þau gera það hlutfallslega og eykst skerðingin eftir því sem lengra er í að viðkomandi taki lífeyri.  Þetta þýðir að skerðingin hefði lent meira á þeim sem eru líklegir til að vera með hærri lán frá Íbúðalánasjóði.
  3. Könnunin fjallar ekki um "almenna skuldaniðurfellingu" eins og fyrirsögnin bendir til heldur almenna skuldaleiðréttingu sem gæti mögulega skert lífeyrisgreiðslur.  Á þessu tvennu er mikill munur.

Annars hefði vrið gaman, ef Landsamtök lífeyrissjóðanna hefðu spurt gagnrýnna spurninga um störf lífeyrissjóðanna, eins og:

  1. Vilja félagsmenn að lífeyrissjóðirnir skili þeim hagnaði sem þeir fengu við kaupa á íbúðabréfum til skattgreiðenda eða húsnæðislántaka?
  2. Vilja félagsmenn taka á skerðingu lífeyrisgreiðslna og/eða lífeyrisréttinda vegna gríðarlegra afskrifta sjóðanna sem afleiðingu af fjárfestingarstefnu sjóðanna?
  3. Vilja félagsmenn að lífeyrissjóðirnir leggi peninga sjóðfélaga í rekstur félaga og fyrirtækja í samkeppnisrekstri, svo sem Vestia, Icelandair, Haga?
  4. Vilja sjóðfélagar að skipt verði um stjórnarmenn í lífeyrissjóðunum?
  5. Vilja sjóðfélagar breyta fyrirkomulagi stjórnarkjörs lífeyrissjóðanna og gera það opið fyrir almenna sjóðfélaga að bjóða sig fram?
  6. Vilja sjóðfélagar minnka vægi atvinnurekenda í stjórnum lífeyrissjóðanna eða útiloka þá alveg frá stjórnarsetu?
Vafalaust mætti spyrja fleiri áhugaverðra spurninga.

Það skal tekið fram, að ég hef fulla samúð með lífeyrissjóðunum vegna hins mikla tjóns sem sjóðirnir urðu fyrir vegna að því virðist lögbrota stjórnenda og eigenda bankanna.  Gleymum því aldrei, að það voru örfáir einstaklingar sem settu hagkerfið á hliðina.  Þessa einstaklinga þarf að sækja til sakar og láta þá greiða fyrir það tjón sem þeir ollu.  Sá tími á að vera liðinn að fjármálafyrirtæki og fjármagnseigendur geti hagað sér hvernig sem er til að hagnast um eina krónu, pund eða dollar í viðbót og þegar eitthvað misferst, þá sé reikningurinn sendur skattgreiðendum.


mbl.is 43% á móti almennri skuldaniðurfellingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leitað að skít með stækkunargleri

Ónefndur fjölmiðill heldur að hann finni einhvern skít um Hagsmunasamtök heimilanna.  Blaðamaður hans forvitnaðist í dag um ársreikning samtakanna, sem er öllum opinn á heimasíðu samtakanna, og spurði svo í leiðinni hvort fólk væri ekki á kaupi eða fengi einhverja bitlinga fyrir störf sín.  Nú á sem sagt að reyna að níða skóinn af líklegast grandvörustu samtökum landsins.  Ekki bara að stjórnarmenn hafi borið verulegan kostnað af störfum sínum fyrir samtökin, heldur á nú að væna menn um að þiggja skattfrjálsar greiðslur og fleira í þeim dúr.

Mikið hljóta þessi samtök að vera vondur þyrnir í augum sumra.  Að senda blaðamann út af örkinni til að reyna að finna eitthvað misjafnt er stórmerkilegt og líklegast mesta viðurkenning sem samtökin geta fengið.

Bara svo það sé á hreinu, þá hafa samtökin einu sinni borgað eina pítu fyrir mig.  Það var í apríl á þessu ári kvöldið fyrir aðalfund samtakanna, þegar undirbúningur hans stóð sem hæst.  Kostnaður minn af vinnu fyrir samtökin er hleypur aftur á tugum þúsunda, ef ekki meira.  Felst sá kostnaður í bensíni, símanotkun, pappír og prentbleki.  Loks nemur vinnutap mitt líklegast ekki undir 500 tímum.

Ég vil enda þetta með tilvitnun í ljóð Einars Benediktssonar Einræður Starkaðar:

Ég mat ekki ljóðglapans lága hnjóð,
sem laklega hermdi, hvað aðrir kváðu,
- né þrælafylgið við fjöldans slóð
í forgönguspor, sem þeir níðandi tráðu.


Klúður Árna Páls - 39% útlána bankanna í vanskilum

Tvær stórar fréttir eru birtar í dag sem lýsa hinum mikla vanda sem heimili og fyrirtæki í landinu standa frammi fyrir.  Langar mig að fjalla um þær hér.

Ábyrgðarmenn skulu borga

Fyrra málið er dómur Hæstaréttar um að lög um ábyrgðarmenn brjóti gegn eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar.  Þetta mál er einfaldlega dæmi um illa undirbúna löggjöf og ekkert annað.  Því miður og ekkert meira um það að segja.  Það sýnir bara hversu mikilvægt er að ná samningum um úrlausn á skuldavanda heimilanna.  Ég skil alveg afstöðu Sparisjóðs Vestmannaeyja, en mikið hefði það verið gott, ef þessi lög hefðu staðist.

Eignaréttarákvæði kröfuhafa er að verða eitt erfiðasta málið í endurreisn hagkerfisins.  Á sama hátt sýnir réttleysi lántaka vegna grófra brota hrunbankanna að veruleg brotlöm er í íslenskri neytendavernd. Íslensk löggjöf snýst allt of mikið um réttindi kröfuhafa og þarf engan að undra, þar sem fjármálakerfið hefur haft ákaflega greiðan aðgang að ráðherrum og þingheimi til að koma sínum málum í gegn.  Jafnvel núna, tveimur árum eftir að mestu efnahagslegu hryðjuverk á byggðu bóli komu í ljós, þá eru stjórnvöld ennþá að sleikja skó fjármálafyrirtækjanna. 

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis bendir til umfangsmikilla lögbrota fjármálafyrirtækja í undanfara bankahrunsins.  Rannsóknir sérstaks saksóknara ýta enn frekar undir þetta og til eru þeir fjölmiðlar sem þora líka að birta gangrýna umfjöllun um meint brot þessara aðila.  En hvað svo?  Þegar Hæstiréttur dæmir að fjármálafyrirtæki hafi brotið lög með grófum hætti, þá koma Fjármálaeftirlit og Seðlabanki og kyssa á meiddið.  Það hófst ekki opinber rannsókn á vegum þessara aðila á því hve umfangsmikil brotin væru og hver skaði lántaka hefði verið af brotunum.  Nei, FME og SÍ gerðust varðhundar lögbrjótanna.

Fjölmiðlum hefur ítrekað verið sendar upplýsingar um fjölmörg lögbrot fjármálafyrirtækjanna, en þeir sýna þeim ekki áhuga ef um er að ræða starfandi fjármögnunarfyrirtæki.  Skattayfirvöld virðast ekki heldur hafa áhuga á hugsanlegum tug milljarða undanskotum fjármögnunarfyrirtækja á virðisaukaskatti. Hvað er í gangi?  Nei, í staðinn, þá væna þau fólk í hagsmunabaráttu um að vera í henni til að skara eld að sinni köku.

40% útlána bankanna eru í vanskilum

Hitt málið er útgáfa skýrslu Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika.  Þessa rits er ávallt beðið með eftirvæntingu, þar sem það segir okkur landslýð hvaða áhyggjur Seðlabankinn hefur.

Seðlabankinn lýsir þremur áhættuþáttum:

Gæði eigna innlánsstofnana:  Mat á eignum banka og sparisjóða er enn háð mikilli óvissu og ójafnvægi er í efnahagsliðum. Dregið hefur úr óvissu er tengist gengisbundnum liðum. Í kjölfar langvarandi samdráttar í þjóðarbúskapnum er fjárhagsleg staða fyrirtækja og heimila veik.

Fjármögnun, lítil virkni markaðar:  Innlán eru uppistaðan í fjármögnun banka og sparisjóða. Þau eru yfirleitt traustari fjármögnun en skammtímalántökur  á markaði en tilfærslur geta orðið milli stofnana. Þá er fjármögnunin nú varin af gjaldeyrishöftum og yfirlýsingu um að innlán séu að fullu tryggð. Markaðir fyrir millibankalán, skuldabréf, hlutabréf og gjaldeyri eru veikburða. Bein erlend fjárfesting og aðgangur að erlendum lánamörkuðum er enn takmörkuð.

Gallar í regluverki og eftirliti: Hrunið leiddi í ljós ýmsa galla í regluverki og eftirliti. Það tekur tíma að bæta úr því og eftir er að móta hvernig unnið verður gegn kerfisáhættu og hvaða stofnanaleg umgjörð á að vera um þá starfsemi.

Í sjálfu sér er ekkert nýtt í þessu, en samt gott að sjá Seðlabankann ekki víkja sér undan vandanum.

Stóra fréttin í skýrslu Seðlabankans er aftur upplýsingar um gæði lánasafnanna.  Hingað til hafa þessar upplýsingar eingöngu komið fram í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en stígur Seðlabankinná stokk og staðfestir tölur AGS.

Tæp 40% af útlánum bankanna eru í vanskilum eða greiðslur á gjalddaga taldar ólíklegar. Már segir mikilvægt að heimilin nýti sér úrræði stjórnvalda til endurskipulagningu lána. Einungis 35% lána án endurskipulagningar er í skilum og 26% í skilum eftir endurskipulagningu.

Á 8 mánuðum tókst bönkunum þremur ekki að auka hlutfall lána í skilum nema úr 58% í 61% og það af bókfærðu virði.  Ef einhver heldur að þetta séu léttvægar upplýsingar, þá er svo ekki.  Eiginfjárhlutfall bankanna nam 17,8% í lok annars ársfjórðungs.  Ef stabbinn af þessum 39% lána sem eru í vanskilum tapast, þá mun verulega ganga á eigið fé bankanna.  Það mun a.m.k. fara vel undir lágmarkið sem er 16%.  Það kallar á aukið framlag eigenda nema takist að snúa þessari þróun við, en það verður eingöngu gert með því að koma til móts við lántaka.


mbl.is Lög um ábyrgðarmenn andstæð stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkið ætlar í innheimtuaðgerð fyrir bankakerfið - Vaxtabætur fyrir skilvísa gera lítið fyrir þá verst settu

Í vinnu "sérfræðingahóps" forsætisráðuneytisins voru vaxtabætur mikið ræddar.  Hafði ég á tilfinningunni, að búið væri að ákveða að hækkun vaxtabóta ætti að vera helsta framlag ríkisstjórnarinnar til að taka á skuldavanda heimilanna.

Það hefur verið mönnum þyrnir í augum að einhver takmarkaður hópur, líklegast 10 - 20 manns, hafa gert í því að svindla á vaxtabótakerfinu.  Þessir aðilar hafa verið með öll lán sín í vanskilum, flutt úr húsnæði sínu, sett það á leigu, heimtað vaxtabætur af ríkinu, fengið þær í hendur og notað í eyðslu.  Ekki ætla ég að mæla þessu fólki bót og tel eðlilegt að á einhvern hátt verði sett undir þann leka.

Ráðgjafar ríkisstjórnarinnar (líklegast embættismenn) hafa sett fram þá hugmynd að þeim einum verði greiddar vaxtabætur sem hafa greitt af lánum sínum.  Þannig sé ljóst að enginn geti talið fram vexti til vaxtabóta nema þeir hafi verið greiddir.  Mér finnst þetta ákaflega varasöm hugmynd, þar sem hún bitnar helst á þeim hópi heimila sem er í mestu vanda.  Raunar gæti þessi útfærsla fjölgað í hópi þeirra sem eru í mestum vanda, þar sem vaxtabætur eru mikilvægur hluti af tekjum þeirra og þó fólk hafi ekki náð að standa í skilum með öll lán sín, þá er ekki hægt að refsa því fyrir það sem bótasvikurum. 

Hafa verður í huga, að stofn til vaxtabóta fæst með því að tiltaka þá vexti sem gjaldfallnir eru af húsnæðislánum viðkomandi.  Eingöngu eru taldir vextir upp að ákveðnu hámarki.  Frá þessum stofni dregst hlutfall tekna, sem núna er 6% en lagt er til að verði 9% á næsta ári.  Ef breyta á kerfinu í það að vaxtabótastofninn nái eingöngu til greiddra vaxta, en ekki gjaldfallinna, þá er verið að raska því kerfi sem verður hefur.  Þá skiptir t.d. máli hvort afborgun láns var greidd 31.12. eða 4.1.  Sé greitt af láninu 31.12. teljast vextirnir til stofns vaxtabóta, en ekki sé greitt 4.1.

Vilji menn breyta þessu, þá er mun nær að fólki sé gefinn kostur á að láta vaxtabætur renna til lánveitandans.  Ekkert er óeðlilegt við slíkt fyrirkomulag. Þannig gæti lántaki sem er í skilum látið vaxtabætur ganga upp í næstu gjalddagagreiðslur og þannig verið laus við þær í einhvern tíma.    Lántaki sem er í vanskilum gæti með þessu grynnkað á vanskilum sínum.

Vaxtabótakerfið er ein leið stjórnvalda til að niðurgreiða vexti húsnæðislána.  Um er að ræða félagslega aðgerð.  Verði hugmyndin um að eingöngu greiddir vextir verði gildir sem stofn til vaxtabóta, þá er ríkið komið í innheimtuaðgerð fyrir bankakerfið.  Ekki er nóg að vanskilagjöld og lögfræðikostnaður hrúgist upp á fólk, heldur ætlar ríkið að taka að þrýsta á fólk að greiða.

Mikil óvissa hefur verið frá 12. febrúar sl. um stöðu gengisbundinna lána, þegar dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að gengistrygging væri ólöglegt form verðtryggingar.  Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu 16. júní sl.  Svo ég tali bara fyrir mig, þá fékk ég bréf frá einum banka í júlí að lán mín hjá bankanum féllu undir fordæmisgildi dóma Hæstaréttar.  Núna fjórum mánuðum síðar hef ég ekki ennþá fengið greiðsluseðil þar sem tekið er tillit til þeirrar skoðunar bankans, að lánin hafi borið ólöglega gengistryggingu.  Ég hef ekki heldur fengið greiðsluseðil, þar sem bankinn hefur rukkað mig í samræmi við tilmæli FME og Seðlabanka frá 30. júní sl.  Eina sem ég hef fengið er greiðsluseðill í samræmi við ólöglega skilmála.  Ég er viss um að mun fleiri eru í þessari stöðu og neita að greiða í samræmi við ólöglega skilmála.  Nú á að refsa fólki fyrir að krefjast þess að fjármálafyrirtækin hlíti dómi Hæstaréttar!  Hvernig væri að yfirvöld sneru sér frekar að því að sjá til að fjármálafyrirtækin fari að dómum Hæstaréttar?  


mbl.is Sumir gætu misst allar vaxtabætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er staða heimilanna, hver er vandinn og hvað þarf að gera?

Eftirfarandi er hluti af efni því sem er í séráliti mínu frá því um daginn í framhaldi af vinnu "sérfræðingahóps" forsætisráðherra.  Fyrst er byrjað á inngangi sem ekki er í sérálitinu.

Inngangur

Á undanförnum vikum hafa komið fram alls konar upplýsingar um greiðslu- og skuldavanda almennings.  Ekki er alltaf ljóst hvenær vandinn er greiðsluvandi og hvenær hann er skuldavandi.  Það er heldur ekki ljóst hvor vandinn er alvarlegri.

Skoðum nokkrar staðreyndir sem komið hafa fram í opinberri umræðu á síðustu vikum:

  • Eignir landsmanna voru, skv. Tíund ríkisskattstjóra, metnar á 3.804 milljarða í árslok 2009 og skuldir 1.892 milljarðar, þ.e. hrein eign, mismunur á þessum tveimur tölum, upp á 1.912 milljarða, þar af á efnaðasti hópurinn, en til hans teljast 3.632 fjölskyldur (geta verið einstaklingar eða hjón), um 630 milljarða í hreinni eign.
  • Fasteignir einstaklinga og hjóna voru metnar á 2.500 milljarða um síðustu áramót, þannig að aðrar eignir námu 1.300 milljörðum.  Samkvæmt Tíund voru aðrar eignir en fasteignir, innstæður og verðbréf um 410 milljarðar, verðbréfaeign var upp á 270 milljarða og innstæður 635 milljarðar (alls 1.315 milljarðar).  Hrein eign í fasteignum, þ.e. fasteignamatsverð mínus lán vegna fasteignakaupa, nam 1.300 milljörðum.
  • Heildarhúsnæðisskuldir almennings vegna kaupa á lögheimili eru rúmlega 1.300 milljarðar.  Af þeim eru verðtryggðar skuldir ríflega 1.100 milljarðar, gengistryggðar um 120 milljarðar og óverðtryggðartæplega 100 milljarðar.  Skuldir með veði nema um 1.200 milljörðum og er sú tala notuð til viðmiðunar.  Áætluð greiðslubyrði af þessum 1.200 milljörðum eru 132 milljarðar miðað við að árlega séu greiddar 60.000 kr. af hverri milljón.
  • Samkvæmt tölum fjármálaráðuneytisins og birtar voru á fundi í Þjóðmenningarhúsinu í október, þá eru fasteignaskuldir almennings sem eru með neikvæða eiginfjárstöðu í húsnæði 125 milljarðar umfram fasteignamat.  Heildarfasteignaskuldir þessa hóps nema um 520 milljörðum, þannig að um 20% skuldanna eru án veðtryggingar.  Greiðslubyrði af 125 milljörðum er 7,5 milljarðar á ári og 31,2 milljarðar af 520 milljörðum.
  • Aðrar skuldir heimilanna nema á bilinu 7-800 milljörðum.
  • Fasteignamat íbúðarhúsnæðis mun lækka um 10% þegar nýtt fasteignamat tekur gildi 1. desember nk.  Það þýðir að um 50 milljarðar færast upp fyrir veðrýmismörkin af því sem áður var innan veðrýmis.
  • Gengisdómar Hæstaréttar munu lækka höfuðstólsstöðu gengistryggðra lána um líklegast 20 - 30%, þó dæmi séu bæði um meiri lækkun og minni.  Vandamálið er að ákvarða hvaða lán falla undir fordæmi Hæstaréttardómanna.  Þó svo að öll lánin geri það, þá verður lækkun gengisbundinna skulda ekki nema 24 - 36 milljarðar vegna áhrifa verðtryggingar og/eða vaxta.
  • Skattskyldar tekjur samkvæmt skattframtölum voru árið 2009 955,6 milljarðar kr.  Þessar tekjur dreifast almennt mjög jafnt á þjóðina fyrir utan að tekjuhæstu 5%-in hafa um 18,1% teknanna eða 177 milljarða.
  • Sé litið til fjármagnstekna, þá kemur í ljós efnaðasti hópurinn er með mun hærri hluta af fjármagnstekjum, en stærð hans segir til um.  Þannig voru uppgefnar (og áætlaðar) fjármagnstekjur tæplega 140 milljarðar árið 2009, en þar af komu um 67 milljarðar í hlut efnaðasta hópsins eða um 48%.  Hann fékk 37% af vaxtatekjum af innstæðum, 72 af vaxtatekjum af verðbréfum, rúm 60% alls arðs og 81% af söluhagnaði af hlutabréfum.
  • Vanskil heimilanna hjá bankakerfinu eru um 15% samkvæmt upplýsingum sem komu fram á fundi í Þjóðmenningarhúsinu.  Þessi tala er eitthvað á reiki og misjfön eftir bönkum.
  • Samkvæmt skýrslu AGS er innheimtuvirði útlána í bankakerfinu 3.700 milljarðar, af því eru um 2.400 milljarðar lán sem ekki er verið að greiða af.  Bókfært virði er um 1.700 milljarðar, þar af er ekki verið að greiða af 765 milljörðum.
  • Neysla er mæld af Hagstofunni árlega.  Nýjustu tölur eru fyrir tímabilið 2006 - 2008, en það tímabil lýsir að einhverju leiti mikilli neyslu, en á móti hefur verðbólga verið um 10% frá árslokum 2008.  Fyrst má nefna að meðalneysla í könnun Hagstofunnar var 2,7 milljónir á hverja neyslueiningu.  Þannig er fyrsti fullorðni á heimili 1,0 eining, aðrir fullorðnir 0,7 einingar hver og börn 0,5 einingar.  Hjón með tvö börn eru þá 2,7 neyslueiningar.  Sé neyslan skoðuð eftir ráðstöfunartekjuhópum, þá kemur í ljós að meðaltal næst hæsta tekjuhópsins (3. af 4) er undir meðaltali allra.  Þetta bendir til þess að þeir sem eru með mestar ráðstöfunartekjurnar halda uppi neyslu í þjóðfélaginu.

Greining á stöðu heimila

Skipta má heimilum upp í nokkra hópa:

Hópur 1:  Fólk í greiðsluvanda, þ.e. skuldir eða upphæð húsaleigu er hærri en greiðslugeta þeirra segir til um.  Telur 17.700 fjölskyldur sem eru í eigin húsnæði og örugglega 4-5.000 fjölskyldur sem eru í leiguhúsnæði.
Hópur 2:  Fólk með skuldir umfram eignir, þarf þó ekki að vera vandamál.  Miðað við núverandi fasteignamat og stöðu lána um síðustu áramót eru ríflega 20.000 fjölskyldur í þessum hópi.
Hópur 3:  Fólk á leið í greiðsluvanda, þ.e. fólk sem hefur t.d. nýtt sér úttekt á séreignarsparnaði, náð að selja seljanlegar eignir og lausamuni eða á annan hátt getað losað pening eða fengið til þess að greiða skuldir.  Gæti líka verið fólk sem sér fram á atvinnumissi eða tekjulækkun og síðan þeir sem sjá fram á að skuldir hækki örar en greiðslugetan, o.s.frv.  Líklegast í kringum 20.000 fjölskyldur sem er í eigin húsnæði og 5 - 8.000 sem eru í leiguhúsnæði.  (Hagstofan telur hátt í 50.000 fjölskyldur í hópum 1 og 3)
Hópur 4:  Fólk sem heldur sjó, en hefur dregið úr neyslu til þess að standa í skilum.  Ég met þetta vera í kringum 20.000 fjölskyldur.
Hópur 5:  Fólk sem er vel sett og húsnæðisskuldir eru meira upp á punt en af nauðsyn.  Hátt í 4.000 fjölskyldur.
Hópur 6:  Fólk sem er með það háar ráðstöfunartekjur að það fer létt með að greiða af húsnæðislánum. Um 18.000 fjölskyldur.
Hópur 7:  Fólk með engar húsnæðisskuldir og býr í eigin húsnæði.  Gæti vissulega verið í hópi 1 eða 3, en það hefur ekki verið kannað. Um 30.000 fjölskyldur.
Hópur 8:  Fólk með tvær eignir og hefur greiðslugetu til að standa undir annarri eigninni.  Talið vera um 1.100 fjölskyldur.

Hafa skal í huga að fólk í með skuldir umfram eignir þarf ekki að vera í vanda, en það hefur orðið fyrir miklum hækkunum á skuldum sínum, sem ekki er óeðlilegt að tekið sé tillit til.  Fólk í hópi 2 er líka í öðrum hópum, þ.e. það getur verið í greiðsluvanda (hópur 1), að baksa við að halda sig frá því að fara í hóp 1 (hópur 3), er að berjast við að halda sjó (hópur 4), er með húsnæðisskuldir upp á punt (hópur 5) eða ræður vel við skuldir sínar, þar sem það hefur góðar tekjur (hópur 6). Í umfjöllun hér er horft til þess fólks, sem er í erfiðleikum vegna stöðu sinnar í hópi 2.  Fólk í hópi 5 er yfirleitt líka í hópi 6, þó á því séu vissulega undantekningar, sbr. lífeyrisþega. eru oft sama fólkið eða a.m.k. er mikil skörun á milli hópanna.  Loks er fólk í hópi 8 oftast líka í einum eða fleiri af hópum 1 - 6.

Markmið aðgerða

Það sem þarf að gera, er (og í þessari röð):

  1. Að fækka eins og kostur er í hópum 1 með ýmsum úrræðum. Með þessu er fækkað í hópi 2 í leiðinni.
  2. Koma í veg fyrir að fólk leki úr hópi 3 niður í hóp 1.
  3. Hjálpa þeim sem verða áfram í hópum 1 sem hraðast í gegn um það ferli sem virðist vera óumflýjanlegt, þ.e. nauðungarsölu, greiðsluaðlögun eða gjaldþrot, en best væri að gera það án þess viðkomandi séu gerðir að sakamönnum eða annars flokks þjóðfélagsþegnum.
  4. Færa sem flesta úr hópi 3 yfir í nýja útgáfu af hópi 4, þar sem fólk getur tekið upp eðlilega lífshætti.
  5. Hjálpa þeim sem eftir verða í hópi 3 með sömu úrræðum og þeir sem eru hópi 1 njóta.

Úrræði fyrir þá sem eru með tvæ eignir eru þegar fyrir hendi.  Bankarnir buðu upp á 110% leið, en hjá a.m.k. sumum er fresturinn útrunninn til að nýta sér hana.

Leiðir

Þær leiðir sem gætu komið til greina og sumar eru í boði:

Leið 1:  Leið Hagsmunasamtaka heimilanna, þ.e. flöt leiðrétting á verðtryggð lán með 4% þaki á árlegar verðbætur frá 1.1.2008, gengisbundnum lánum breytt í verðtryggð lán miðað við stöðu 1.1.2008 og þau fá sama þak á árlegar verðbætur og óverðtryggð húsnæðislán fá þak á vexti frá sama tíma.  Mætti framkvæma hana með þaki á upphæð, eign eða ráðstöfunartekjur allt að teknu tilliti til fjölskyldustærðar. 
Leið 2:  Aðlögun skulda að eignarstöðu, sem er útfærsla af sértækri skuldaaðlögun, oft vísað til sem 80-110% leiðar, þar sem skuldir eru strax færðar niður í 110% af eign og ef ekki er greiðslugeta fyrir því, þá má fara með hana niður í 80% og munurinn á 80 og 110 er sett á 3 ára biðlán.  Einnig má útfæra þetta sem niðurfærslu í eitthvað annað hlutfall, svo sem 100%, 70% eða 60%.
Leið 3:  Greiðslumat, þ.e. að setja fólk einfaldlega í greiðslumat og laga skuldir að greiðslugetu með fyrirvara varðandi breytingar á greiðslugetu á næstu 3 - 6 árum.
Leið 4:  Hækkun vaxtabóta og húsaleigubóta til að gera fólki kleift að greiða hærri upphæð, en almennar tekjur ráða við.
Leið 5:  Hjálpa fólki að skipta um húsnæði og fara í ódýrara.  Hægt er að útfæra þetta á ýmsa vegu, en tryggja yrði að fólk væri ekki að tapa eigin fé í leiðinni.
Leið 6:  Kaupleiga, lánardrottnar taka yfir eign og leigi til baka. 
Leið 7:  Lyklafrumvarpsleið, þ.e. að lánardrottnar taka yfir eign og skuldari er laus allra mála.

Leiðir mátaðar

Máta verður leiðirnar við hvern um sig af hópum 1 til 4.  Langar mig að gera hér tillögu og skal tekið fram, að þetta eru mínar vangaveltur en ekki stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna, þó svo að við hefðum rætt málin um daginn.

Hópur 1  (greiðsluvandi):  Mér finnst rétt að nota fyrst leið 1 (flöt leiðrétting) og síðan leið 3 (greiðslumat) á þá sem leið 1 dugar ekki fyrir.  Leið 4 (vaxtabætur og húsaleigubætur) gætu fækkað í hópi 1, en finna þarf þá blöndu af leiðum sem kosta minnst en bjarga flestum.  Þannig gæti leið 5 (skipta í minna) hjálpað fólki að komast í minna húsnæði og um leið slá verulega á skuldir.  Leið 7 (lyklafrumvarpsleið) þýddi vissulega að fólk stæði eignarlaust eftir, en höfum í huga að sumir eru einfaldlega búnir að skuldsetja sig svo mikið að þeir munu ekki ráð við greiðslubyrðina sama hvað er gert. Hluti af hópi 1 endar í greiðsluaðlögun, nauðungarsölu og gjaldþroti, en fækka verður þeim hópi eins og kostur er eða viðurkenna að það sé annar kosturinn, en hinn sé að fara í ígildi þeirra aðgerða eftir samningaleið. Hluti af hópi 1 er líka hreinlega í þeim vanda að veruleg hækkun tekna er það eina sem dugar.

Hópur 2 (yfirskuldsettir): Þetta er hálfgerður vandræðahópur.  Innan hans getur verið fólk úr öllum hinum hópunum, þ.e. sumir sem fá úrlausn með hópum 1, 2 og 4 og aðrir sem þurfa ekki úrlausn, þar sem staða þeirra er ekkert vandamál.  Hafa skal í huga að yfirskuldsetning getur verið skammtíma vandamál, sem leysist hratt þegar fasteignamarkaðurinn kemst í gang, en fyrir stóran hluta þess hóps sem keypti á árunum 2005 - 2008, þá verður ekki undið ofan af skuldsetningunni nema með því að færa skuldir niður.  Leiðir 1 (flöt leiðrétting) og 2 (aðlögun skulda) eru því fyrsta skrefið og líklega skiptir ekki máli hvor er farin.  Ef það dugar ekki, þá eru viðkomandi líklegast jafnframt í hópi 1 og þurfa því þau úrræði sem þar hafa verið nefnd.

Hópur 3 (á leið í greiðsluvanda): Í fljótu bragði þá mun einhver útfærsla af leið 1 (flöt leiðrétting) henta þessum hópi best.  Hluti af þessum hópum geta einnig verið í hópi 2 (yfirskuldsettur) og þar þarf þá að bæta við einhverri útfærslu af leið 2 (aðlögun að eignarstöðu). 

Hópur 4 (halda sjó):  Margt er líkt með honum og hópi 3, en líklegast þarf ekki að ganga eins langt í útfærslunni.  Þak á eignir og ráðstöfunartekjur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar þyrfti ekki að koma á óvart sem slík útfærsla.  Hugsanlega væri hægt að setja mál hluta hópsins á bið og sjá hvernig fasteignamarkaðurinn þróast á næstu árum.  Stór hluti hópsins er með lága skuldsetningu og tillögulega viðráðanlega greiðslubyrði.  Fyrir þennan hóp er leiðréttingin sanngirnismál og ekki má hunsa það viðhorf.

Hópur 8 (tvær eignir):  Þessi hópur hefur þegar fengið úrræði, en það má einfalda verulega.  Í mínum huga er um einfalda skuldajöfnun að ræða, sem á að renna hratt og vel í gegn án mikillar skriffinnsku eða pappírssöfnunar.

Aðrir hópar eru ekki í vanda með húsnæðislánin sín að sinni og þurfa því ekki úrræði, nema viðkomandi tilheyri einnig öðrum hópi eða hópum.

Lán á yfirskuldsettum eignum

Nú er fasteignaverð vonandi að nálgast botninn.  Yfirskuldsett húnsæði í dag getur verið með verulegt veðrými innan 5 ára, þó höfuðstóll lána hafi ekki verið færður niður.

Bankarnir hafa þegar gert ráð fyrir að talsverður kostnaður falli til vegna greiðsluvanda heimilanna og ÍLS gerir ráð fyrir að sokkinn kostnaður sé um 25 milljarðar.  Lán umfram veð eru í dag allt að 125 milljarðar, þar af liggja 17 milljarðar í lánum ÍLS.  Ef eingöngu þessi hópur er skoðaður þá er nauðsynlegt að geta í hvernig þessi tala getur breyst.

Atriði til hækkunar eru:

  • Lækkun fasteignamats um 8,6%:  Þýðir að ákveðinn hluti lána að upphæð 114 milljarðar sem er í dag með milli 91 -100% veðsetningu fer upp fyrir 100% mörkin.  Varlega áætlað eru þetta 4,9 milljarðar.  Einnig mun hækka sá hluti um 520 milljarða lána sem er fyrir ofan veðrými úr 125 milljörðum í 159 milljarða (án tillits til annarra atriða).
  • Hækkun vegna verðbóta um 3% á þessu ári:  Ofan á um 1.200 milljarða gerir þetta 36 milljarðar.  Hluti af þessu er á 520 milljarðana sem þegar eru á yfirveðsetningu  og annað á þeim 114 milljörðum til viðbótar sem eru á 91-100% veðsetningu í dag.
  • Áhrif greiðslujöfnunar á eftirstöðvar höfuðstóls: líklega vel undir 10 milljörðum miðað við stöðu lána um síðustu áramót.
  • Vanskilakostnaður sem leggst á höfuðstól:  Getur verið umtalsverð fjárhæð, sbr. dóm í Héraðsdómi Suðurlands sl. föstudag, þar sem um 50% lagðist ofan á höfuðstól sem þegar hafði meira en tvöfaldast.

Atriði til lækkunar eru:

  • Dómar Hæstaréttar, þó endanleg niðurstaða sé ekki fengin, þá eru línurnar að hluta skýrar.  Ekki er ljóst hve mikil áhrif dómarnir hafa á höfuðstól gengistryggðra lána, hvað þá lán umfram veðrými, þ.e. hversu stór hluti gengistryggðra lána er á eignum með neikvætt eigið fé.   Gefum okkur að 50% gengisbundinna lána falli undir fordæmisgildi dómanna og áhrifin verði 30% lækkun höfuðstóls, þá er upphæðin 15 - 20 milljarðar.
  • Úrræði sem fólk hefur nýtt sér:  46.400 eru með verðtryggð lán í greiðslujöfnun, 2.500 með gengisbundin lán í greiðslujöfnun, 1.500 hafa nýtt sér lækkun höfuðstóls gengisbundinna lána, 1.300 hafa nýtt sér lækkun höfuðstóls verðtryggðra lána, 1.500 hafa nýtt sér aðlögun höfuðstóls að 110% af veðrými og 950 eru með lán í frystingu.
  • Fleiri dómar Hæstaréttar:   Í þeim verður tekist á um forsendubrest og hvort fasteignalán eiga að vera verðtryggð eða óverðtryggð og bera þá viðeigandi vexti Seðlabankans.
  • Hugsanleg lög frá Alþingi:  Samkvæmt frumvarpi, þá munu lántakar fá að velja milli þriggja lánaforma.
  • Niðurstöður í hugsanlegum álitum ESA og EFTA-dómstóls:  Telji ESA og/eða EFTA-dómstóllinn að neytendaverndarsjónarmið hafi verið að engu höfð, þá gæti álit þeirra lækkað kröfuupphæð lánanna verulega.

Bara út frá ofangreindum atriðum er hreinlega óskynsamlegt að nota skuldsetningu sem vogarskál til að meta hversu brýnt er að bregðast við fjárhagsvanda heimila.  Einnig má benda á, að samkvæmt tölum úr skattskýrslum, þá er verulegur hópur fólks með bæði eignarstöðu í öðrum eignum og ráðstöfunartekjur til að ráða við slíka yfirskuldsetningu.

Framhald síðar með fleira úr séráliti mínu...


Það er nú gott betur en tvíburakreppa á Íslandi

Ef mér skjátlast ekki þá er hér á landi bankakreppa, gjaldmiðilskreppa, skuldakreppa, atvinnuleysi, lánsfjárkreppa (þ.e. við fáum ekki erlend lán) og ætli það sé ekki líka tilvistarkreppa.  Síðan mætti bæta við þetta glatað traust á fjármálakerfið, glatað traust á stjórnmálamenn og glatað von um réttlæti.
mbl.is Margt líkt með Íslandi og Írlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég skýrði leikreglur samfélagsins en hótaði engu

Nokkrir bloggarar og dálkahöfundar hafa farið mikinn varðandi það, að ég hafi reynt að ritskoða fjölmiðla landsins í dag.  Eyjan hefur verið dugleg við að setja linka inn með vísan í helst alla sem tala gegn mér og Pressan sló því upp að ég hefði hótað fjölmiðlum siðanefnd BÍ.

Hvernig getur það verið tilraun til ritskoðunar að ætla að vísa máli til siðanefndar BÍ?  Sá sem segir það, er ekki að hugsa rétt.  Ef blaðamenn líta svo á að ekkert sé að hræðast við það að máli sé vísað til siðanefndar, þá halda þeir áfram að birta fréttirnar sem um ræðir.  Ef þeir hræðast vísun málsins til siðanefndarinnar, þá vita þeir upp á sig skömmina.  Þarna er ekki um nema þessa tvo kosti að ræða.  Hvorugur felur í sér ritskoðun.  Annar felur í sér að ég hef rangt fyrir mér að þeirra mati.  Hinn felur í sér að ég hef rétt fyrir mér að þeirra mati.  Ég hef ekkert ritskoðunarvald, heldur eingöngu tilvísu í réttlætiskennd.

Ef menn vilja tala um ritskoðun, þá ættir þeir frekar að líta á dóma héraðsdóms í vændiskaupamálinu.  Það er ritskoðun, þar sem fjölmiðlum er hreinlega óheimilt að nefna mennina á nafn, þó nöfn þeirra séu alveg örugglega á vitorði þeirra allra.

Það sem mönnum sést yfir í þessu máli er kúgunin sem felst í birtingu DV á einkaréttarlegum málefnum mínum.  Sú kúgun hefur haldið áfram hjá a.m.k. einum fjölmiðli í viðbót (þó það sé kannski full fínt að kalla amx fjölmiðil).  Þessi kúgun snýst um berja niður óæskilega aðila í lýðræðisumræðunni.  Að fjölmiðill getur ákveðið að leggja fæð á einhvern einstakling bara af því að hann var orðinn of áberandi.  Ættu fjölmiðlar ekki að hafa áhyggjur af því?  Nei, þeir hafa að áliti þessara penna áhyggjur af því, að ég telji á mér brotið og tilkynni fjölmiðlum að ég muni ekki líða það, þá sé það ritskoðun.

Friðhelgi einkalífs míns er varið af 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar.  Þetta friðhelgi var rofið af DV í dag.  Stjórnarskrár varinn réttur minn var brotinn og menn tala um mig sem hinn brotlega, þegar ég vara aðra fjölmiðla við að brjóta líka á mér.  Til hvers er stjórnarskráin, ef fjölmiðlar mega vaða yfir hana á skítugum skónum, þegar þeim sýnist.

Ég mótmæli þeirri túlkun að ég hafi hótað einum eða öðrum.  Ég setti leikreglu hvað mig varðar og gekk þar í smiðju stjórnarskrárinnar.  Sú leikregla var, að hver sá fjölmiðill sem hnýsist í mín einkamál, sem eru varin af friðhelgisákvæði stjórnarskrárinnar, yrði kærður til siðanefndar BÍ.  Þetta er nákvæmlega, eins og fólk hefur rétt til að kæra hvern þann sem fer inn á þeirra einkalóð fyrir átroðning og hvern þann sem kemur óboðinn inn í húsnæði þess fyrir húsbrot.  Er það ritskoðun á fjölmiðli, ef ég kæri hann fyrir átroðning á minni einkalóð?  Er það ritskoðun á fjölmiðli, ef ég kæri hann fyrir húsbrot ryðjist hann óboðinn inn í húsið mitt? Nei, og það er ekki heldur ritskoðun, ef ég kæri fjölmiðil fyrir að brjóta á stjórnarskrárvörðum rétti mínum til friðhelgi einkalífs og læt aðra fjölmiðla vita að þeirra bíði sama hlutskipti, ef þeir endurtaka friðhelgisbrotin.  Ég var að benda þeim á hverjar leikreglur samfélagsins eru og að ég ætlaði mér að fylgja þeim.  Ég skýrði fyrir þeim leikreglur samfélagsins,en hótaði þeim engu.


Nokkur frumvörp til skoðunar - Almenningur borgar milljarða meðan bankar borga milljónir

Nú hrúgast inn á Alþingi alls konar stjórnarfrumvörp.  Mig langar að tæpa hér aðeins á efni þriggja, þ.e. mál 200 um ráðstafanir í ríkisfjármálum, 196 um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki og 238 um úttekt á fjárhagsstöðu fyrirtækja og heimila.

Byrjum á þingmáli nr. 200.  Þar er verið að leggja til að heimilin í landinu fái lægri bætur og greiði hærra skatta en áður.  Mismunurinn nemur um 10 milljörðum kr.

Þá er það þingmál nr. 196 um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki.  Þar er lagt til að fjármálafyrirtækin greiði 0,045% skatt af skattstofni sem nær til hluta skulda fyrirtækjanna til að bæta ríkinu upp tjón sem hrunið olli.  Mér telst til að upphæðin nemi núna um 422 milljónum króna.

Það er náttúrulega fáránlegt, að heimilin eigi að bera 10 milljarða vegna tjónsins sem fjármálafyrirtækin ollu, en nýju kennitölur þeirra rétt um 422 milljónir.  Er þetta ekki eitthvað öfugsnúið?  Síðan eiga heimilin auk þess að greiða fjármálafyrirtækjunum það tjón sem heimilin sjálf urðu fyrir.  Hvað er það eiginlega sem kemur í veg fyrir að fjármálafyrirtækin og lánveitendur þeirra beri sjálf þetta tjón?  Hvers vegna geta nokkrir "snillingar" sett fyrirtæki sín á hausinn og sent okkur reikninginn?  Ef þetta hefði verið einkafyrirtæki í öðrum rekstri, þá hefði mönnum aldrei dottið í hug að skattgreiðendur ættu að bera tjónið.  Kröfuhafar eru ábyrgir fyrir sínum útlánum og gjörsamlega kolvitlaust að ríkissjóður sé að hlaupa undir bagga.  Fyrirtækin sem lánuðu íslensku "snillingunum" voru með sína áhættustýringu og hafi hún klikkað, þá er það þeirra mál.  Mistök í útlánum þessara fyrirtækja til íslenskra "snillinga" kemur ríkissjóði og almenningi ekki við.  Því fyrr sem við förum að haga okkur með þetta í huga, því fyrr náum við að rétta úr kútnum.

Loks er það þingmál 238 um úttekt á fjárhagsstöðu fyrirtækja og heimila.  Henni á að vera lokið 1. janúar 2014!  Þarf ég að segja meira.  Það er gott að fara í svona vinnu, en að ætla sér 3 ár í verkið er eiginlega ótrúlegt.  Í frumvarpið vantar auk þess skýringar á því hverjir eiga nákvæmlega að vinna úr upplýsingunum.  Ætlar efnahags- og viðskiptaráðherra að stofna deild innan ráðuneytisins?  Er gerðar menntunarkröfur til þeirra sem eiga að vinna úr upplýsingunum.  Satt best að segja, þá held ég að betra væri að endurvekja Þjóðhagsstofnun eða setja þetta verkefni inn í Hagstofuna.  Síðan geri ég verulegar athugasemdir við það ákvæði laganna sem snýr að öryggi upplýsinganna.  Þar segir að ráðherra skuli gera viðeigandi öryggisráðstafanir án þess að vísa til þess hvaða viðmið skuli nota, þ.e. um að söfnun, vinnslu, varðveislu og meðhöndlun upplýsinganna skuli gilda ákvæði laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Mætti m.a. hafa hliðsjón af 2. gr. laga nr. 100/2010 um umboðsmann skuldara.


Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.9.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 1679456

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband