24.9.2010 | 16:34
Kostnaður og ávinningur - hvort vegur þyngra?
Sem stjórnarmaður í Hagsmunasamtökum heimilanna hef ég lagt mikla vinnu í þær tillögur sem samtökin sendu frá sér í dag. Þær eru að mati okkar bæði sanngjarnar og réttlátar, þó ég efist ekki um að ekki líki öllum þær. Höfum það alveg á hreinu að Hagsmunasamtök heimilanna voru ekki að setja þessar tillögur fram til að þóknast einhverjum eða reyna að vinna hylli. Tillögurnar eru settar fram núna, vegna þess að ástandið í þjóðfélaginu er grafalvarlegt og samtökin meta það sem svo að annað hrun sé yfirvofandi, ef haldið verður áfram á þeirri braut sem við erum á núna.
Það er eðlilegt að spurt sé hvað svona tillögur kosta, en þetta er flóknara en svo. T.d. langar mig að vita hvað núverandi ástand kostar fjármálakerfið og þjóðarbúið og hve stóran hluta af þeim kostnaði væri hægt að forðast með því að fara í þessa aðgerð sem Hagsmunasamtök heimilanna leggja til. Í hverju fellst kostnaðurinn í dag?
- Lækkandi markaðsverði húsnæðis vegna uppsöfnunar óseldra eigna hjá fjármálafyrirtækjum, offramboðs á markaði þar sem fólk er að reyna að selja t.d. til að forðast nauðungarsölu og óseldar nýjar íbúðir. Fasteignamat íbúðarhúsnæðis var um 2.800 milljarðar í árslok 2008 og hefur fallið síðan. Hver 10% þýða 280 milljarða. Íbúðarhúsnæði var í árslok 2008 með 60% skuldsetningu, þannig að 280 milljarða lækkun fasteignamats veldur beint 6% rýrnun á verðmæti/gæðum lánasafna fjármálafyrirtækjanna. Í þeim tilfellum sem fjármálafyrirtækin miðuðu útlán sín við markaðsverð hefur rýrnun verðmætis/gæða numið 20 - 30%, eftir því hvernig maður reiknar. Þessi rýrnun nær til allra lána með veði í húsnæði, ekki bara húsnæðislána.
- Minnkandi skatttekjur vegna minni neyslu og eftirspurnar í hagkerfinu. Einhvers staðar las ég að skatttekjur ríkisins hafi lækkað um 40 milljarða frá 2007 til 2009. Verðbólgureiknum skatttekjur 2007 og þá fáum við út allt að 138 milljarða. Þetta er þrátt fyrir hækkun skatta á þá sem ennþá greiða eitthvað af viti. Ofan á þetta bætast skertar tekjur sveitarfélaga sem nemur tugum milljarða.
- Aukin útgjöld vegna atvinnuleysisbóta hleypur á milljörðum, er þó skiptimynt miðað við tvo síðustu liði.
- 50.000 manns hafa tekið út 42 milljarða af séreignalífeyrissparnaði hér á landi og síðan hafa fjölmargir tekið út annan sparnað. Með úttöku séreignarsparnaðar er verið að ganga á skattstofna framtíðarinnar.
- 18.000 manns hafa flutt af landi brott á síðustu tveimur árum. Vissulega stór hluti útlendingar, sem voru hér í vinnu, en þeir voru í verðmætasköpun fyrir land og þjóð og það sem mestu máli skipti, borguðu skatta til ríkis og sveitarfélaga. Einnig voru viðkomandi virkir þátttakendur í neyslusamfélaginu, atvinnusköpun o.s.frv. Þegar einstaklingar og fjölskyldur flytja brott, sem eiga skyldmenni hér á landi, þá teygist á fjölskylduböndum og þau jafnvel rofna og það eitt skilur eftir sár sem seint gróa.
- Fjármálafyrirtæki eiga yfir 1.500 íbúðir og á þriðja þúsund eru í nauðungarsöluferli. Mun það fara vel með efnahagsreikning fjármálafyrirtækjanna að eiga 5 -7 þúsund íbúðir sem þau geta ekki selt nema fyrir slikk og þar með lækka fasteignaverð enn, sem grefur undan gæðum lánasafnanna.
- Stærsta og alvarlegasta tjónið verður ekki mælt í peningum. Það er glatað traust og trú á samfélaginu, embættismönnum, bankamönnum og kosnum fulltrúum, brostnar vonir, brotnir draumar, brotthvarf heiðarleikans úr huga fólks og allt það annað huglæga og tilfinningalega skalanum sem er að bresta og brotna. Ég mun t.d. aldrei aftur trúa orði sem kemur frá greiningardeild eins einasta banka hér á landi. Ég mun ekki treysta uppgjöri stærri fyrirtækja og mun því ekki leggja mína peninga í hlutabréfakaup eða aðrar fjárfestingar í slíkum rekstri í ófyrirséðan tíma. Ég mun ekki trúa einu orði sem kemur frá þjónustufulltrúa í banka um kauptækifæri eða sniðuga ávöxtunarleið. Íslenskt þjóðfélag tapaði sakleysi sínu við bankahrunið og fjármálafyrirtækin eru ekkert að gera til að bæta því upp þennan skaða.
Jæja, tökum þá þann "kostnað" sem fjármálafyrirtækin hafa af tillögum HH:
- Lækkun höfuðstóls verðtryggðra lána verður samkvæmt tillögum HH líklega um 18%. Tillögurnar ná eingöngu til lána vegna núverandi lögheimilis, fyrrverandi sem ekki hefur tekist að selja og tilvonandi sem er í byggingu eða ekki hefur verið flutt inn í. Verðtryggð lán eru eitthvað um 1.200 - 1.400 milljarðar og gefum okkur að eingöngu 80% þeirra falli undir tillögur samtakanna. Kostnaður fjármálafyrirtækjanna væri því á bilinu 173 - 202 milljarðar, þar af félli eitthvað um 90 milljarðar á lán hjá Íbúðalánasjóði og því 83 - 102 milljarðar á önnur útlánafyrirtæki.
- Varðandi gengisbundin lán, þá er búið að færa höfuðstól gengistryggðra lána niður í upprunalega krónutölu að teknu tilliti til afborgana, en eftir er að færa önnur gengisbundin lán niður. Þar sem upphæð þeirra er ekki vituð, þá er gert ráð fyrir að sú tala sé 30% af öllum gengistryggðum húsnæðislánum eða 24 milljarðar. Höfuðstóll þeirra mun skerðast um á að giska 35%, en það er breytilegt eftir gjaldmiðlum. Á móti kemur að lánin verða verðtryggð sem gefur hærri vexti og ekki er víst að öll þessi lán uppfylli lögheimilisskilyrði. Tökum samt 35% af 24 og fáum út 8,4 milljarða. Þá eru það áhrifin af því að önnur lán verða verðtryggð með þaki en ekki án þaks eða óverðtryggð. Það eru 18% af að hámarki 56 milljörðum eða 10 milljarðar. Líklegt er þó, að allt að helmingurinn af gengisbundnum lánum uppfylli ekki lögheimilisskilyrðin, þannig að líklegast er kostnaður bankanna vegna gengisbundinna húsnæðislána vegna lögheimilis (núverandi, fyrrverandi eða væntanlegs) um 9,2 milljarðar.
- Þá eru það óverðtryggð lán, mest í formi yfirdráttarlána. Vextir þeirra lækka niður í 8,5 - 10,3% úr 14 - 25%. Meðallækkun er líklegast um 10% á ári. Umfang þessara lána er ekki þekkt, en er vart mikið. Hér er gert ráð fyrir 10 milljörðum, sem gerir þá 2 milljarða.
Miðað við þessar forsendur er heildarkostnaðurinn 192 - 221 milljarður. Af þeirri tölu er það bara sú upphæð sem lendir á Íbúðalánasjóði, lífeyrissjóðunum og smærri sparisjóðum, sem er vandamál, ef svo má segja. Tillögur HH gera ráð fyrir að þessi tala, líklega í kringum 110 milljarðar sé bætt með því að íbúðabréf, húsbréf og húsnæðisbréf Íbúðalánasjóðs taki einnig sama þak á verðbætur fyrir þann hluta þessara bréfa sem notaður var við að fjármagna lán vegna lögheimilis. Vissulega eiga lífeyrissjóðirnir umtalsvert af þessum bréfum, en þau eru líka í eigu annarra fjárfesta. Lendi Íbúðalánasjóður í miklum vanda, þá mun ríkissjóður ekki geta bjargað sjóðnum nema með miklu skattahækkunum. Hér vegast því á hvort lántakar eigi að taka á sig óréttlátar hækkanir, skellurinn eigi að lenda á skattgreiðendum eða þeir taki á sig höggið sem geta unnið það upp með fjárfestingum m.a. í íslensku atvinnulífi sem mun örugglega taka kipp við þessar aðgerðir. HH töldu ekki rétt að útfæra þennan hluta alveg, en samtökin telja að með því að lengja þann tíma sem notaður er til viðmiðunar við útreikning á tryggingafræðilegri stöðu úr 2 árum í 10 ár, þá gefist lífeyrissjóðunum nokkur ár til að jafna sig á þessum tapi. Einnig mætti hugsa sér að láta skerðingu réttinda hafa minnst áhrif á þá sem eru komnir á lífeyrisaldur og mest á þá sem eiga lengst í það að komast á þann aldur. Fyrri hópurinn hefur enga möguleika á að rétta sinn hlut komi til skerðingar, en hinn hefur mikla möguleika á því. Íbúðabréf, húsbréf og húsnæðisbréf lífeyrissjóðanna námu tæplega 454 milljörðum 30. júní sl. af 807 milljarða útgáfu ÍLS eða 56%. Á lífeyrissjóðina falla því 56% af 90 milljörðum auk að hámarki 30 milljarða vegna eigin útlána. Alls gerir þetta um 80 milljarðar, sem jafngildir um 4,5% af eignum lífeyrissjóðanna. Telja HH að þetta sé vel viðráðanlegt tap, auk þess sem gert er ráð fyrir að lífeyrissjóðunum verði bætt þetta upp að einhverju leiti.
Líklegast verður áfallið mest fyrir minni sparisjóði, þar sem svigrúm þeirra er minnst. Af þeim sökum leggja samtökin til að hægt verði að nota hluta vaxtabóta, sem annars hefðu farið til lántaka, til að bæta þeim þetta og síðan með endurgreiddum verðbótum á innstæður yfir 50 m.kr. vegna tímabilsins frá 1.1.2008 til 6.10.2008.
Ef litið er annars vegar kostnað fjármálafyrirtækja af tillögum Hagsmunasamtaka heimilanna og hins vegar samfélagsins af núverandi ástandi, þá finnst mér ekki spurning hvað er rétt að gera. Önnur talan stendur í rúmum 192 - 221 milljarði meðan mælanlegi hluti hinnar fer auðveldlega vel yfir 700 milljarða og gæti hæglega endað í 1.200 milljörðum ef ekki meira. Mismunurinn upp á kr. 500 - 1.000 milljarða er ávinningur samfélagsins af því að velja leið Hagsmunasamtaka heimilanna. Nú er spurningin: Hvort gengur fyrir ávinningur samfélagsins eða fjármálakerfisins? Þeir sem svara fjármálakerfisins, ættu að velta fyrir sér hvað verður eftir í landinu, ef þröngir hagsmunir fjármálakerfisins verða látnir ráða og einnig hvort það séu yfirhöfuð hagsmunir fjármálakerfisins að hanga eins og hundur á fiskroði á uppblásnum kröfum sínum, sem blésu út vegna alvarlegra afglapa og hugsanlegra glæpa á árunum fyrir hrun.
![]() |
Vilja þak á verðbætur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.9.2010 | 17:10
Ef bankakerfið hefði fallið fyrr..
Þetta er áhugavert atriði sem Margrét Tryggvadóttir bendir á í ræðu sinni. Hvað ef bankakerfið hefði fengið að falla fyrr, hverju ætli það hefði breytt?
Allt bendir til þess, að bankakerfinu hafi verið orð ógreiðsluhæft um páskaleyti 2008. Búið var að tæma alla sjóði og ganga á allar þrautavaraleiðir. Þetta vissu Geir og Ingibjörg, Árni og hugsanlega Björgvin. Þetta vissu líka Davíð, Ingimundur og Eiríkur í Seðlabankanum, Jónas hjá Fjármálaeftirlitinu, líklegast allir bankastjórar, bankastjórnir og eigendur stóru bankanna og fjölmargir embættismenn, starfsmenn og ráðgjafar bankanna. Raunar vissu margir þessara aðila haustið 2007 í hvert stefndi. Þess vegna ákvað hluti eigenda Kaupþings að taka mjög virka og grófa stöðu gegn krónunni. Það var álit þessara manna að bönkunum yrði ekki bjargað eftir venjulegum leiðum vegna lausafjárkreppunnar í heiminum og að krónan myndi ekki standast það áhlaup sem færi í gang. Í staðinn fyrir að stíga fram og viðurkenna þessar staðreyndir, þá var farið í umfangsmiklar björgunaraðgerðir, en á endanum var öllum þeim peningum sem í þær fóru kastað á glæ.
Ég hef bara þá mynd af þessu sem birst hefur í fjölmiðlum:
1. Bankarnir notuðu krókaleiðir til að fá þrautavaralán hjá Seðlabanka Íslands með útgáfu "ástarbréfa" sem nytsamir sakleysingjar keyptu og notuðu sem tryggingar í endurhverfum viðskiptum við Seðlabanka Íslands. Þetta kostaði Seðlabanka Íslands 345 milljarðar og setti Sparisjóðabankann (Icebank), VBS og einhverja sparisjóði í raun á hausinn. Bankarnir fóru líka krókaleiðir til að fá lán hjá Seðlabanka Evrópu, beittu við það blekkingum sem skaðaði orðspor þjóðarinnar og gerði það að verkum að Seðlabanki Evrópu og Seðlabanki Bandaríkjanna ákváðu að sniðganga íslenska seðlabankann í gjaldeyrisvörnum.
2. Seðlabankinn ákvað að létta á bindiskyldu bankanna í mars 2008. Það hefðu átt að vera nógu skýr skilaboð til stjórnvalda, að staða bankanna var orðin þess leg að eingöngu mjög umfangsmiklar aðgerðir gætu bjargað þeim. Með því að létta bindiskyldunni var bönkunum veittur aðgangur að nokkurs konar varasjóði. Þessu hefði átt að fylgja mun meira eftirlit með starfsemi bankanna og raunar gefa tilefni til að taka þá í hálfgerða gjörgæslu. Hún hefði ekki þurft að vera áberandi á yfirborðinu, fyrst það var það sem menn hræddust svo svakalega, en þessi aðgerð að létta bindiskyldunni var ein skýrasta vísbendingin um alvarlega stöðu bankanna. Bankarnir voru orðnir þurrausnir af lausafé, voru greinilega búnir að tæma alla möguleika á auknu lánsfé frá Seðlabankanum og því var ekki um annað að ræða en að greiða út trygginguna, ef svo má að orði komast. Höfum í huga að bindiskyldan er hugsuð til að verja hagsmuni viðskiptavina bankanna.
3. Icesave reikningar voru opnaðir í Hollandi og tókst Landsbankanum með því í reynd að svíkja út úr hollenskum sparifjáreigendum og hollenska ríkinu hátt í 1,2 milljarða evra. Haldið var áfram að safna innstæðum á Icesave í Bretlandi, þrátt fyrir að Landsbankamönnum mátti vera ljóst að bankinn væri tækilega gjaldþrota. Hann átti ekki fyrir skuldum sínum og hefði því á vormánuðum 2008 átt að kalla til Fjármálaeftirlitið. Breska fjármálaeftirlitið var mjög meðvirkt í þessu tilfelli, þar sem menn þar á bæ vissu af afleitri stöðu bankans, en ákváðu að treysta orðum íslenskra ráðamanna eða vonuðust til þess að úr rættist.
4. Gengisvísitalan stóð í um 160 fyrir páska 2008. Ef bankarnir hefðu fengið að falla þá, eru talsverðar líkur á að hún hefði veikust orðið í kringum 210 og stæði núna í 170. Þetta eitt og sér hefur aukið skuldavanda heimila, fyrirtækja og sveitarfélaga mjög mikið. Flestir hefðu ráðið við gengisvísitölu á bilinu 180 - 190, eins og hún hefði líklegast legið í mestan tímann.
5. Ekki er víst að allir íslensku bankarnir hefðu fallið, en Landsbankinn og Kaupþing stóðu greinilega mjög illa og Glitnir átti ekki fyrir afborgunum lána 12 mánuði fram í tímann. En blekkingarvefurinn sem settur var í gang með ástarbréf, hlutabréfasvikamyllur, innlánasöfnun og fleira í þeim dúr án þess að 1 króna kæmi frá eigendum til að styrkja við rekstur bankanna segir allt sem segja þarf. Bankarnir voru í reynd gjaldþrota í lok mars 2008.
6. Hægt hefði verið að snúa sér til alþjóðasamfélagsins fyrr og hugsanlega lina áfallið, en líklegast hefði skellurinn verið óumflýjanlegur.
Ég gæti haldið áfram í nokkurn tíma og t.d. rætt um svindl með hlutabréf, blekkingar í kringum gjaldeyrisskiptasamninga og jöklabréf, svikamyllu skúffufyrirtækja, flutning fjármagns til skattaskjóla, lyga stjórnenda bankanna og ráðamanna á Íslandi, en ætla að láta það vera.
Málið er að það var alveg vitað innan stjórnsýslunnar í febrúar 2008 að íslensku bankarnir mynda falla í síðasta lagi í októberbyrjun sama ár. Þetta vita Íslendingar sem voru á Kanaríeyjum með kjaftaglöðum lögfræðingi innan úr bankakerfinu í febrúar 2008. Hann fullyrti í vitna viðurvist að íslenska bankakerfið myndi hrynja í fyrstu viku október þá um haustið. Raunar voru menn svo vissir um þetta að sagan segir að búið hafi verið að skrifa uppkast af neyðarlögum í júní eða júlí og hjá Reiknistofu bankanna var prufukeyrð hjá fyrirtækinu viðbúnaðaráætlun þar sem líkt var eftir hruni eins banka sömu helgi og Lehman Brothers féll. Ég er alveg viss um að innsti kjarni ríkisstjórnar Íslands á þeim tíma vissi af þessari stöðu. Ég skil vel að menn hafi reynt að halda andlitinu út á við. Ég skil vel að þessu hafi verið haldið eins mikið leyndu og kostur var. Ég vil aftur benda á, að erlendir stjórnmálamenn og háttsettir bankamenn reyndu ítrekað að fá íslensk stjórnvöld og Seðlabankann til að grípa inn í atburðarásina, en menn létu sér ekki segjast. Vissulega hafði margt verið gert eftir krísuna 2006, en stjórnvöld virtust ekkert hafa lært nóg af því og svo voru ráðherrar Samfylkingarinnar greinilega svo ánægðir með stólana sína að þeir gerðu ekkert sem gat orðið til þess að þeir misstu sætið sitt.
Kannski sigldu menn ekki sofandi að feigðarósi. Líklegast gerðu menn það með galopin augu og vissu í hvað stefndi og gerðu fjölmargt sem a.m.k. menn vonuðu að myndi afstýra stórslysi. Ég hreinlega trúi ekki öðru. Ég efast ekki um að margt var gert til að afstýra þessu áfalli, en kostnaðurinn við björgunina hefur því miður reynst mjög dýrkeyptur. Er ég þeirrar skoðunar eða vil að minnsta kosti trúa því að einhverjir aðilar innan stjórnsýslunnar hafi reynt sitt besta til að afstýra því sem varð, en annað hvort ekki haft getu, þor eða kjark til að taka nauðsynleg skref, sem m.a. fólust í því að taka fyrr fram fyrir hendurnar á, að því virðist, gjörsamlega vanhæfum stjórnendum bankanna.
Ég er sannfærður um að höggið hefði orðið minna fyrir íslenskt þjóðfélag, ef bankarnir hefðu verið settir í gjörgæslu Fjármálaeftirlitsins strax vorið 2008 á þeim tímapunkti þar sem þeir voru tæknilega gjaldþrota. Í því felast líklegast stærstu mistök og um leið afglöp stjórnsýslunnar og stjórnenda bankanna. Sagan segir okkur, að stjórnendur og eigendur bankanna voru búnir að missa stjórn á atburðarásinni seint í febrúar 2008. Frá þeim tímapunkti voru menn í slæmri afneitun og á kafi í meðvirkni. Menn sem nota óþverrabrögð og jafnvel lögbrot til að komast yfir meiri pening til að halda fyrirtæki sínu á floti, eru í engu frábrugðnir fíklinum sem gerir hvað sem er fyrir næsta skammt. Ég segi óþverrabrögð og jafnvel lögbrot og vísa þá til hvernig nytsamir sakleysingjar voru fengnir til að leppa lán hjá Seðlabankanum (sem er alveg örugglega lögbrot), notuðu útibú sín í útlöndum til að ná til sín lánum frá erlendum seðlabönkum sem bankarnir áttu ekki rétt á, söfnuðu innlánum í Evrópu vitandi að bankinn gæti ekki greitt þau til baka, þvinguðu starfsfólk til að hringja í gamlamenni til að fá þau til að færa ævisparnaðinn í botnlausa hít skuldabréfasjóða, bjóðandi öllum sem báðu um lán gengistryggð lán vitandi að krónan var orðin innistæðulaus, sendandi út greiningar og spár um styrka stöðu efnahagslífsins, þegar allt benti til annars, og svona gæti ég haldið endalaust áfram.
Já, bara að bankarnir hefðu hrunið fyrr, þá værum við mun betur sett í dag.
![]() |
Ógeðsleg framganga Jóhönnu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
20.9.2010 | 23:54
Illur fengur fjármálafyrirtækja fellur í kramið hjá Moody's
Ég er kominn með nóg af þessu bulli sem er í gangi hér á landi. 2006 og 2007 undirbjuggu eigendur og stjórnendur nokkurra fjármálafyrirtækja ófyrirleitna aðför að íslenska hagkerfinu. Hluti af plottinu var að skuldsetja heimili og fyrirtæki landsins ýmist í erlendum gjaldmiðlum eða verðtryggðum lánum. Þegar búið var að ná nægilegri skuldsetningu gerðu þessir aðilar atlögu að íslensku krónunni. Fremstir í flokki fóru eigendur Kaupþings og Glitnis, en til þess fengu þeir drjúga aðstoð frá stjórnendum Landsbankans, sem dældu innstæðum af breskum Icesave-reikningum inn á íslenskan gjaldeyrismarkað. Markmiðið var að ná til sín eins miklu af gjaldeyrisforða þjóðarinnar og hægt var og búa síðan til gjaldeyrisskort. En ekki er hægt að eiga í svona viðskiptum nema fá mótaðila í viðskiptunum. Nokkrir nytsamir sakleysingar voru blekktir til að taka stöðu á móti "fjármálasnillum". Bragðið tókst. Gengið féll hraðar en steinn af bjargbrún. "Fjármálasnillarnir" græddu á tá og fingri, en lífeyrissjóðirnir, almenningur og almenn fyrirtæki sitja uppi með tapið. Lífeyrissjóðirnir þurfa að borga fyrir að vera nytsamir sakleysingjar, en almenningur og fyrirtæki með því að lán þeirra hafa hækkað upp úr öllu valdi.
Einhvern tímann hefði þetta verið kölluð fjársvik. En vegna þess að þetta var gert í gegn um fjármálafyrirtæki með leyfi til alls konar viðskipta, þá virðist þetta löglegt. Það sem meira er, kröfurnar sem myndast hafa á lífeyrissjóði, almenning og fyrirtækin í landinu eru varðar af eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar! Maður hefði nú haldið að stjórnvöld væri æst í að leiðrétta þessa vitleysu, enda er drjúgur hluti fyrirtækja landsins tæknilega gjaldþrota, tugir þúsunda heimila ná ekki endum saman og lífeyrissjóðir landsins sitja uppi með tap upp á fleiri hundruð milljarða. Að ég tali nú ekki um byrðarnar sem lagðar eru á skattborgara. Viðbrögð stjórnvalda voru náttúrulega að frysta eignir "fjármálasnillanna" og sækja þá til saka, krefja fjármálafyrirtækin um að lækka höfuðstól lána og afskrifa það sem nam fjársvikunum og styðja við endurreisn atvinnulífs í landinu. Nei, þetta er það sem ríkisstjórn alþýðunnar myndi gera, en við erum með ríkisstjórn vinstri flokka og hún verndar auðvaldið. Viðbrögð stjórnvalda voru að vernda innstæður "fjármálasnillanna", þannig að þeir töpuðu engu af hinum illa fengna auði sínum, sett voru lög sem bönnuðu lögsóknir gegn fjármálafyrirtækjunum sem svindluðu á viðskiptavinum sínum, önnur lög sem tryggðu að fólk og fyrirtæki gætu örugglega greitt eins mikið og mögulegt er til fjármálafyrirtækjanna af tekjum sínum og sparnaði. Frá þeim tíma hafa yfir 50.000 einstaklingar tekið út yfir 42 milljarða til að greiða afborganir lána sinna. Um þessar mundir eru yfir 2.000 beiðnir um nauðungarsölur í ferli og fjármálafyrirtæki hafa þegar eignast meira en 1.500 íbúðir einstaklinga sem ekki gátu staðið í skilum. Þetta er glimrandi uppskrift að auðsöfnun sem "fjármálasnillarnir" fundu upp. Svindlum bara nógu mikið og svínum á viðskiptavinum okkar og stjórnvöld, FME og Seðlabanki Íslands munu sjá til þess að við eignumst allt. Koma meira að segja með það færandi á silfurfati. Nú ef dómstólar eru með einhvern derring, þá breyta embættismenn lögum og loka fyrir þann leka.
Svo má ekki gleyma því, að sé maður nógu skuldugur, skuldar t.d. 10 milljarða eða meira, þá fær maður ekki bara 90% fellt niður heldur fær að halda öllum eignum sínum. Skuldi maður aftur 2 milljónir, þá þarf maður að borga í topp eða allt er hirt af manni. Mér finnst þessar innheimtuaðferðir fjármálafyrirtækjanna dálítið snúast um að hirða aurinn og kasta krónunni. Skýringin á eftirgjöfinni til þeirra stórskuldugu er að þeir séu ómissandi fyrir fyrirtækið!! Það er svo mikið helv.. bull að ég furða mig á slíkum málflutningi. Ef ég væri lánadrottinn ónefnds stórfyrirtækis og ég væri nýbúinn að tapa 10 milljörðum af kröfum mínum, þá myndi ég aldrei vilja eiga viðskipti aftur við þá stjórnendur sem kostuðu mig 10 milljarða. Þessi klisja um mikilvægi lykilstjórnenda er bölvað kjaftæði. Staðreyndin er sú, að hér á landi er fullt af fólki sem er alveg jafn fært í að tapa 10 milljörðum og gömlu stjórnendurnir, en svo er líka mögulegt að það hafi hæfileika á sviði stjórnunar og rekstrar. Margt af því er að vísu á sextugs- eða jafnvel sjötugsaldri og hefur áratugareynslu í stjórnun og rekstri. Æi, það er náttúrulega of hæft í starfið og gæti náð að byggja fyrirtækið upp að nýju.
Málið er, að svo virðist, sem bakvið tjöldin í nýju bönkunum séu gamlir hundar sem eiga að tryggja að "fjármálasnillarnir" haldi sínu. Þetta eru sömu aðilarnir og lánuðu hinum og þessum útrásarvíkingi milljarða tugi sem síðan hurfu án þess að nokkur skilji hvað varð um þá. Það er t.d. alltaf áhugavert að heyra skýringar Pálma í Fons á því hvað varð um peningana sem fóru í gegnum félögin hans. Það virðist sama hve háar fjárhæðir voru settar í sýndarviðskipti í fyrirtækjum hans, peningarnir finnast ekki, en skuldirnar eru út um allt. Eða aumingja Jón Ásgeir, sem hefur breyst frá því að vera með einkaneyslu upp á 2 milljarða árið 2007 í það að vera á framfæri konunnar sinnar. Það er eins gott að hún á fyrir salti í grautinn. Já, snilld "fjármálasnillanna" er svo mikil að þeir nenna ekki einu sinni að koma með sennilegar skýringar á svindlinu sínu. Þeir nefnilega komast upp með allt á kostnað okkar almennings.
Aftur að þessu með stjórnarskrárbundna vernd eignarréttarins. Þetta er svo mikil steypa að það tekur engu tali. Hvernig getur eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar varið kröfurétt fjármálafyrirtækis á hendur einstaklingi eða fyrirtæki, þegar fjármálafyrirtækið skapaði þær aðstæður sem valda því að einstaklingur eða fyrirtækið geta ekki staðið í skilum? Mér er bara alveg sama þó lögin segja að krafa sé krafa og hana eigi að greiða. Krafan er illa fengin og þess vegna á hún ekki að njóta verndar stjórnarskrárinnar. Tökum alveg gjörsamlega fáránlegt dæmi: Banki A stóð fyrir (samkvæmt skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis) miklu svindli með hlutabréf fyrirtækisins, þar sem röð sýndarviðskipta var notuð til að blekkja markaðinn og láta fjárfesta halda að fyrirtækið væri einhvers virði. Maður lætur blekkjast og kaupir hlutabréf með láni frá bankanum og veði í húsinu sínu. Bréfin urðu verðlaus, en bankinn vill fá húsið. Nú heitir bankinn nýju nafni og hann innheimtir lánið. Blessaður maðurinn hefði aldrei aldrei keypt hlutabréf í A hefði hann vitað að verðhækkun hlutabréfanna var byggð á sýndarviðskiptum. Hann hefði aldrei keypt bréfin, ef hann hefði vitað að árshlutauppgjör bankans síðustu 4 - 6 skipti voru eingöngu jafn ótrúlega góð vegna þess að endurskoðendur bankans tóku þátt í svindlinu eða voru ekki hæfir til verksins (mér er sama hvort er). Hann vissi ekki að lögfræðideild bankans var búinn að spinna vef eignaflækju og fela þannig að raunverulegur eigandi stórs hluta hlutabréfa voru ekki eignarhaldsfélög nytsamra sakleysingja heldur bankinn sjálfur sem með því braut lög. Og greiningadeild bankans sem átti að heita sjálfstæð og óháð eining innan bankans, sendi frá sér hagspár, spár um gengi og verðbólgu sem gáfu í skyn að allt væri í lukkunnar velstandi í þjóðfélaginu, þegar í reynd starfsmenn deildarinnar urðu að passa sig á því hvar þeir stigu niður, þar sem svo margar stoðir bankans voru fúnar að við eitt óvarlegt skref, þá duttu menn af efstu hæð og niður í kjallara. Nei, blessaður nýi bankinn fær kröfur sínar varðar af eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, þrátt fyrir að allt, já ALLT, í starfsemi bankans var meira og minna gegnsýrt af svindli, blekkingum og svikum og þrátt fyrir að ekki eitt einasta orð talsmanna bankans undanfarin 2 ár fyrir hrun var sannleikanum samkvæmt.
Ég býð eftir þeim degi, þegar stjórnvöld þessa lands ákveða að taka upp hanskann fyrir fórnarlömb hrunsins. Ef þau hafa ekki dug í sér til að gera það, þá er tími til kominn, að efnt sé til kosninga. Heimilin í landinu eiga ekki að endurreisa bankakerfið með eigum sínum. Fyrirtækin í landinu eiga ekki að endurreisa bankakerfið með eigum sínum. Og bankakerfið á ekki að endurreisa sjálft sig á grunni myrkraverka fyrirrennara sinna. Bankarnir eiga að sjá sóma sinn í að leiðrétta misgjörðir fyrirrennara sinna, skítt með eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Þetta snýst um mun meira. Þetta snýst um að endurreisa þjóðfélag sem verður eftirsóknarvert, en ekki refsing, að lifa í.
![]() |
Hæstaréttardómur dregur úr óvissu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
17.9.2010 | 21:45
Ákveðið að leita til ESA og EFTA dómstóls - Hæstiréttur leiðréttir forsendubrest lánveitanda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
17.9.2010 | 12:41
Arion banki fékk 750 milljarða afslátt
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.9.2010 | 22:19
Ásta segir allt sem segja þarf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
16.9.2010 | 18:26
Hæstiréttur segir vaxtaákvæði gengistryggðra samninga ógilt
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.9.2010 | 09:35
Jóhanna: Allt einkavæðingunni að kenna - Er það alveg rétt?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
13.9.2010 | 17:01
Fagþekking eða góður stjórnandi - hvað skiptir mestu máli varðandi góða stjórnsýslu?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.9.2010 | 11:29
Fundur um fátækt - 700 - 1000 manns væntanlega borin út vegna skulda á næstu vikum og mánuðum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
10.9.2010 | 00:53
Er verðtrygging nauðsynleg? - 10 af síðustu 20 árum hefur verðbólga verið innan við 4%
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
9.9.2010 | 13:40
Misskilningur eða útúrsnúningur fyrrum bankamanns
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
8.9.2010 | 01:36
Eitruð lán fjármálakerfisins - Úrlausnar þörf allra vegna
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.9.2010 | 18:20
Hagnaður byggður á spá um framtíðargreiðsluflæði - Gengisdómar valda bankanum líklegast ekki neinum vanda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.9.2010 | 23:51
Munur á fjársvikum og gengisáhættu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
6.9.2010 | 12:16
Handvalið mál sem segir ekki of mikið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.9.2010 | 23:26
Íslenska landsliðið má vera stolt af sínum leik þrátt fyrir tapið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.9.2010 | 17:48
Hópmálsókn - stórt skref fyrir neytendarétt
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.9.2010 | 15:21
Svona líka algjör viðsnúningur
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.9.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 1682119
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði