Sama er hvar litið er til í íslensku efnahagslífi, alls staðar blasa við sömu staðreyndir. Yfirskuldsetning vegna falls krónunnar og yfir 50% verðbólgu síðustu ára er að kafsigla öllu. Bæjarfélög eru á heljarþröm, orkufyrirtæki eru sokkin í hyldýpi skulda, rekstrarfyrirtæki eru skuldsett upp í rjáfur og heimilin sjá ekki til sólar vegna himin hárra lána. Hvenær ætla stjórnvöld og fjármálakerfið að átta sig á því að aðeins eitt er til ráða. Fara þarf í gagngera og róttæka endurskipulagningu, leiðréttingu og niðurfellingu skulda.
Veruleikinn er grákaldur fyrir Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjanesbæ. Báðir aðilar tóku þátt í stóriðjuævintýri sem virðist ekki hafa góðan endi. Hvað er til ráða? Annar aðilinn vill hækka gjaldskrá og varpa skuldunum yfir á saklausa almenna viðskiptavini fyrirtækisins, hinn heldur á í höndunum skuldabréf sem kann að vera verðlaust og á því þann kost einan að auka álögur á íbúa sveitarfélagsins sem berjast við mesta atvinnuleysi á landinu. En álögur verða ekki auknar endalaust, auk þess sem Orkuveita Reykjavíkur getur líklegast ekki lögum samkvæmt varpað þessum byrðum yfir á almenna orkukaupendur.
Hvað er þá til ráða? Svarið er það sama alls staðar: Stilla þarf skuldum í viðráðanlegt horf og annað hvort geyma það sem umfram er þar til betur árar hjá viðkomandi skuldurum eða fá skuldirnar felldar niður. Íslenskt hagkerfi er of skuldsett sem nemur fleiri þúsund milljörðum. Þó svo að við sleppum skuldum hrunsbankanna, þá eru þær skuldir sem eftir eru einfaldlega of miklar. Fjármálafyrirtæki, hvorki innlend né erlend, munu hagnast á því að yfirtaka skuldsettar eignir. Reykjanesbær getur ekki sameinast öðru bæjarfélagi og þannig komist undan skuldum sínum. Ekkert annað bæjarfélag mun vilja taka við þeim eiturbikar sem skuldastaða þeirra suður með sjó er. Fyrir utan að 20-30 sveitarfélög eru í viðlíka vanda. Hvaða gagn er að vara sveitarfélög við vanda sem þau bæði vita af og sjá ekki fram úr að geta leyst?
Stjórnvöld verða að taka af skarið. Þau verða að fá fjármálafyrirtæki hér innanlands og utan til að taka þátt í alsherjar endurskipulagningu skulda heimilanna, fyrirtækja og sveitarfélaga. Ef þessir aðilar eru ekki tilbúnir í slíkt, þá verður einfaldlega að setja lög sem verja lántakendur fyrir því að gengið sé að eigum þeirra meðan þeir eru að vinna sig út úr vandanum. Best er að lánadrottnar sýni lántakendum sínum skilning og taki þátt í endurskipulagningunni. Nauðsynlegt verður að afskrifa háar upphæðir, en þær eru mjög oft hvort eð er tapaðar eða að viðkomandi fjármálastofnun tók þær yfir á mun lægra bókfærðu virði, en krafan hljóðar sem verið er að innheimta.
Ég talaði fyrir því strax 30. september 2008, að nauðsynlegt væri að skipta skuldum lántakenda (þá horfði ég fyrst og fremst til heimilanna, en sá fyrir mér að fyrirtæki og sveitarfélög væru í svipaðri stöðu) upp í "viðráðanlegar" skuldir og síðan þær sem væru "óviðráðanlegar". Lánadrottnar yrðu að sætta sig við að innheimta "viðráðanlegu" skuldirnar, en frysta þær sem væru "óviðráðanlegar". Ég held að ég hafi haft rétt fyrir mér og mér sýnist einmitt staða Reykjanesbæjar, Álftaness og Orkuveitu Reykjavíkur ber þess skýr merki.
En hvenær voru skuldir "viðráðanlegar" og hve lengi þarf að geyma hinar "óviðráðanlegu"? Við viljum halda að skuldir hafi verið viðráðanlegar í upphafi árs 2008. Að minnsta kosti voru lántakar almennt ekki farnir að æmta undan skuldabyrðinni þá. Frá þeim tíma hafa verðtryggðar skuldir hækkað um tæp 30% og gengistryggðar og skuldir í erlendum gjaldmiðlum hafa hækkað að meðaltali um 75% og allt að 152% séu lánin í jenum. Ekki þarf snilling til að sjá, að erfitt er að ráða við svona stökkbreytingu skulda.
Ekki er þó sanngjarnt að sleppa lántökum við alla hækkunina sem orðið hefur og þess vegna verður að finna einhverja sanngjarna niðurstöðu. Vil ég í því samhengi benda á tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna, sem lagt hafa til að sett verði 4% þak á árlegar verðbætur og að gengistryggð lán og lán í erlendum gjaldmiðlum yrðu færð yfir í verðtryggð lán miðað við stöðu þeirra 1.1.2008 og fengju því 4% þakið á sig frá þeim tíma. Hvort erlendir lánadrottnar væru tilbúnir að fallast á þetta er ólíklegt, en því ekki prófa. Ástandið fer stig versnandi. Fleiri og fleiri heimili, fyrirtæki og sveitarfélög eru að komast í óviðráðanlegan vanda og voru nógu margir fyrir í þeim hópi. Álögur verða ekki auknar og ekki verður hægt að láta lífeyrissjóðina hlaupa alls staðar undir bagga.
Satt best að segja, þá sé ég ekki margar leiðir út úr þessum vanda. Einn er að innlendir og erlendir lánadrottnar taki yfir allar þær eignir sem þeir eiga veð í og eignist stóran hluta eigna í landinu. Annar er að lífeyrissjóðirnir gerist björgunarsjóður Íslands, sem er í reynd óbein þjóðnýting á lífeyrissjóðunum eða a.m.k. hluta eigna þeirra. Einstaklingum, fyrirtækjum og sveitarfélögum verði gefinn kostur á mjög ódýrum lánum (og afborgunarlausum til margra ára) frá lífeyrissjóðunum fyrir hinum "óviðráðanlega" hluta lána sinna, en héldu áfram að greiða af "viðráðanlega" hluta lánanna. Þriðji kostur og sá sem ég held að sé óumflýjanlegur, er að innlendir og erlendir lánadrottnar taki á virkan hátt þátt í endurreisn hagkerfisins með því ýmist að fella niður eða frysta á lágum eða engum vöxtum hinn stökkbreytta hluta lána heimilanna, fyrirtækja og sveitarfélaga.
Spilaborg hins íslenska efnahagsundurs hrundi í októberbyrjun 2008. Líkja má afleiðingunum við að íslenskt efnahagslíf hafi lent undir þykkri aurskriðu. Við höfum verið að vinna okkur í gegnum skriðuna og reynt að bjarga því sem bjargað verður. Eftir því sem við komumst neðar í skriðuna, sjáum við betur hve tjónið er mikið. Það, sem virtist heilt, er meira að segja stórlega skaddað og geta okkar til að endurreisa það sem sópaðist í burtu er takmörkuð. Nýtt upphaf verður ekki nema skuldir verði stilltar af þannig að fólk og fyrirtæki geti skilað af sér sköttum og arði til samfélagsins. Eins og staðan er, vantar bæði getuna og hvatann. Hvaða tilgangur er að greiða af lánum, þegar ekki sér högg á vatni? Hvaða framtíð býður þetta þjóðfélag upp á, ef álögur á fólk og fyrirtæki eru svo þungar að enginn stendur undir þeim? Mér sýnist því miður, sem óveðursskýin séu enn og aftur að hrannast upp við sjóndeildarhringinn og munu koma í veg fyrir að geislar vonarglætunnar berist til okkar.
![]() |
Óvissa um eignina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
30.8.2010 | 11:36
Umræða sem þörf er á - Sósíalisti ver auðvaldið
Ég var beðinn áðan um umsögn í nafni Hagsmunasamtaka heimilanna vegna greinar Sigurðar. Mig langar að birta hana hérna ásamt því að ræða grein Ármanns Jakobssonar á Smugunni.
Hagsmunasamtök heimilanna fagna því að líf sé að færast í lögfræðilega umræðu um forsendubrest verðtryggðra lána. Fyrst gerðist það með dómi Héraðsdóms Reykjaness í máli ÍAV vegna íþróttamannvirkjanna á Álftanesi og núna fjallar Sigurður G. Guðjónsson um þetta í grein sinni. Það hefur verið skoðun Hagsmunasamtaka heimilanna frá stofnun samtakanna að verðbætur umfram 4% á ári valdi brotnum forsendum vegna verðtryggðra lánasamninga. Verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands voru 2,5% á árunum 2001 fram á haust 2008 með efri vikmörk 4%. Samtökin telja því að verðbólga umfram efri vikmörk sé frávik frá því sem lántakar gátu búist við og valdi því forsendubresti. Sigurður G. Guðjónsson lýsir þessum forsendubresti vel í grein sinni og það gerði fjölskipaður dómur héraðsdóms líka. Krafa Hagsmunasamtaka heimilanna er að þessi forsendubrestur verði leiðréttur afturvirkt til 1.1.2008. Við höfum ekki farið fram á meira, en vissulega varð einnig forsendubrestur á árunum þar á undan. Við erum tilbúin að láta þann forsendubrest kyrrt liggja verði orðið við kröfu okkar um leiðréttingu til 1.1.2008, en Sigurður ætlar lengra með sitt mál.
Fjármálafyrirtækjum var boðið á síðasta ári til samninga vegna gengistryggðra lána. Þau hunsuðu sanngirniskröfur Hagsmunasamtaka heimilanna þá og fengu í staðinn yfir sig dóma Hæstaréttar. Þau hlupu grátandi í pilsfald FME og SÍ og báðu um að verja sig fyrir hinum illa Hæstarétti sem gert var með því að brjóta gegn neytendaverndartilskipun ESB. Vilja fjármálafyrirtækin taka áhættuna á því að næst verði forsendubrestur dæmdur á verðtryggð lán aftur til 2005 og stór hluti af 50% verðbótum verði dæmdur ólöglegur?
Hagsmunasamtök heimilanna eru tilbúin til viðræðna við fjármálafyrirtæki um lausn á skuldavanda heimilanna. Samtökin hafa enga trú á að stjórnvöld muni taka upp hanskann fyrir heimilin vegna þeirra fjárhagslegu áfalla sem yfir þau hafa riðið. Skjaldborgin góða náði ekki einu sinni að verða tjaldborg og öll úrræði stjórnvalda hingað til hafa gengið út á að tryggja að eins mikill peningur streymi frá fjárvana heimilum til fjármálakerfisins. Ekkert skal afskrifað nema það sé sannanlega tapað og fólk annað hvort búið að tapa eigum sínum (á nauðungarsölu eða vegna gjaldþrots) eða það flúið land vegna þess skuldafangelsis sem felst í úrræðum stjórnvalda. Samtökin fagna því öllum rökum sem geta opnað augu fjármálafyrirtækja fyrir því að viðræður eru af hinu góða. Hagsmunasamtök heimilanna hafa ítrekað boðið fjármálafyrirtækjum upp á slíkar viðræður, nú er það þeirra að bregðast við og þiggja þær. Hægt er að leysa þessi mál utan dómstóla, en þá verða fjármálafyrirtækin að þora að stíga það skref.
Þá er það kostuleg grein Ármanns Jakobssonar á Smugunni. Greinin ber fyrirsögnina Fátækt, sjálfbærni og hanttræn hugsun. Í henni fjallar hann m.a. um fátækt á Íslandi og ber að hluta saman við fátækt á Haiti af öllum stöðum í heiminum. En ég ætla ekki að fjalla um þann hluta greinar Ármanns, heldur pilluna sem hann sendir Hagsmunasamtökum heimilanna. Í grein sinni segir hann:
Eftir hrunið hefur borið nokkuð á því að snúið væri úr fátæktarhugtakinu. Ég þekki sjálfur dæmi um manneskju sem lýsti sér sem fátækri þó að hún ætti bæði veglegt húsnæði, nokkra bíla og hefði farið nokkrum sinnum til útlanda á nýliðnu ári. Sjálfsagt vegna mikilla skulda sem eru sannarlega alvarlegt vandamál. Þess ber þó að gæta að boðið hefur verið upp á úrræði sem hin svonefndu Hagsmunasamtök heimilanna kalla að lengja í hengingarólinni. Það merkir á mannamáli að létt er á afborgunum þannig að ráðstöfunarfé eykst. Skuldin hverfur ekki og fólk á erfiðara með að finnast það eiga húsnæðið, er vissulega í allt annarri stöðu en það taldi sig vera. En fátækt?
Ég verð nú að segja það furðulegan sósíalisma þegar sósíalistinn fer að verja auðvaldið fyrir sanngjörnum kröfum almennings um að auðvaldið skili því sem það hefur ranglega tekið. Sýnist mér þá sem það sé sósíalistinn sem er "svo nefndur" sósíalisti og að flokkur svo nefndra sósíalista sé "svo nefndir" Vinstri grænir. Þegar stuðningsmenn þess flokks, sem telur sig lengst til vinstri í íslenskri pólitík telja sig þurfa að verja arðrán auðvaldsins meðan Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur að lengra þurfi að ganga til móts við skuldsett heimili, þá fer maður að velta fyrir sér hvort ekki hafi orðið endaskipti á hlutunum.
"Vont er þeirra ranglæti, verra þeirra réttlæti", mælti Jón Hreggviðsson í Íslandsklukku Laxness. Koma þessi orð mér sífellt oftar í huga þessa mánuði. Þegar sósíalistar Íslands geta af flokkshollutu ekki staðið með almúganum gegn auðvaldinu, þá vil ég frekar "ranglæti" kapitalistanna en "réttlæti" sósíalistanna.
![]() |
Telja væntanlega 21% vexti sanngjarna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
29.8.2010 | 23:33
Já, einmitt, FME að kenna að Sigga var ekki bannað að kaupa NIBC bankann - Áhættustjórnun Kaupþings var greinilega í molum
Sigurður Einarsson fer mikinn í viðtali við Fréttablaðið. Velti ég því stundum fyrir mér hvort maðurinn skilji það klúður sem hann varð valdur að og hafi yfirhöfuð haft hæfi til að reka, sem stjórnarformaður, stærsta banka Íslands. Hægt væri að tiltaka aragrúa atriða, þar sem mann setur hljóðan við lesturinn. Mig langar að byrja á atriði úr lítilli rammagreina á blaðsíðu 26. Í þessari litlu rammagrein kemur best fram ótrúleg einfeldni mannsins til viðskipta, en þar segir:
Sigurður gagnrýnir að stjórnkerfið á Íslandi hafi ekki stutt Kaupþingsmenn þegar mikið lá við. Hann nefnir til dæmis þegar Kaupþing vildi koma sér út úr kaupunum á NIBC-bankanum í Hollandi. Þá hefði honum þótt æskilegt að fá til dæmis bréf frá íslenska Fjármálaeftirlitinu, sem myndi í raun banna bankanum að ljúka kaupunum.
"Ég margræddi þessi mál við Fjármálaeftirlitið og átti samtöl við ýmsa ráðherra. Aðstæðurnar höfðu breyst svo mikið að þetta var ekki skynsamlegt lengur og við gátum ekki bakkað út úr samkomulaginu einhliða..."
Hvers konar bull er þetta? Átti FME að bjarga Sigga litla út haga af því að hann komst ekki heim? Ganga viðskipta einkabanka út á það, að þegar Siggi og co. eru búnir að koma sér í sjálfheldu, þá á FME að koma og bjarga þeim. Ef það var út á þetta sem viðskiptaáætlanir Kaupþings gengu, þá skil ég vel að allt hrundi þegar gaf á. Það gleymdist að búa farið með björgunarbátum fyrir reksturinn vegna þess að allt gekk út á lúxus björgunarbátana fyrir fyrirmennin og eigendurna. Þetta var eins og með Titanic forðum daga, almenningur á 3. farrými fékk ekki að fara í björgunarbátana hjá fína fólkinu, þó nóg væri plássið. Og skipstjórinn í brúnni, Sigurður Einarsson, kennir núna FME um að hafa ekki bannað sér að stíma á fullu um hættuslóðir.
Annað dæmi er að kenna stjórnvöldum um að hafa ekki sagt bankanum að vaxa hægar, en um það segir Sigurður á bls. 28:
Og það er þannig, í mínum huga, að hafi stjórnvöld talið að við hefðum átt að minnka, vaxa hægar eða til dæmis færa starfsemina eitthvert annað, þá hefðu þau mátt benda okkur á það. Það var aldrei gert. Þannig að þegar spurt er hvort við höfum ekki átt að vita að Seðlabankinn eða stjórnvöld á Íslandi gætu ekki verið lánveitandi til þrautavara eða aðstoðað okkur þá má hugsanlega segja að að við hefðum átt að gera okkur grein fyrir að það væri einhver hætta á því. En ég held að það sé ekki nokkur leið að meta eitthvað í þessu andvaraleysi okkar sem saknæmt. Frumkvæðið á ekki síður að koma frá eftirlitsaðilum og yfirvöldum hvað þetta varðar.
Jú, Sigurður Einarsson, andvaraleysi ykkar var saknæmt. Kannski ekki gagnvart hegningarlögum, en það var það gagnvart hlutafélagalögum, lögum um fjármálafyrirtæki og bókhaldslögum, ef ekki fleiri. Þið ákváðuð að snúa áhættumati bankans á hvolf. Það sem stjórnvöld og eftirlitsaðilar vöruðu ykkur ekki við ákváðuð þið að væri óhætt. Þannig virkar ekki áhættustjórnun. Rétt framkvæmd áhættustjórnun snýst um að greina ógnir og veikleika í (rekstrar)umhverfi fyrirtækis, stofnunar eða þess vegna þjóðar og meta áhrif þeirra á afkomu, hagsæld, hagvöxt eða hvað það nú er sem nota á til viðmiðunar. Þá er næst metið þol fyrirtækisins fyrir áföllum sem gætu riðið yfir, líkurnar á slíku áfalli og þá fyrst fara menn að velta fyrir sér hvaða utanaðkomandi kröfur eru gerðar. Áhættustjórnun er framkvæmd af innri hvötum, ekki ytri. Hún er unnin til að verja eigendur fyrir tapi, fyrirtækið og viðskiptavini fyrir tjóni, til að tryggja órofinn rekstur komi til áfalls. Áhættustjórnun snýst um að viðhalda samfeldni rekstrarins og lágmarka tjón. Áhættustjórnun snýst ekki um að athuga hvort stjórnvöld eða eftirlitsaðilar hafi áhyggjur af einhverju, enda ætti rétt framkvæmd áhættustjórnun að hafa greint slíkt löngu áður en stjórnvöldum (sem ekki sinntu áhættustjórnun) datt í hug að eitthvað hættulegt væri á ferð. Þetta andvaraleysi bankanna þriggja var verra en nokkurt saknæmt athæfi sem samkvæmt skilningi Sigurðar Einarssonar á íslenskum lögum. Og hefði Sigurður Einarsson verið skipstjóri á stóru skemmtiferðaskipi, þá hefði hann líklegast orðið valdur að dauða allra farþeganna, vegna þess að hann hefði beðið eftir því að eftirlitsstofnun hefði sagt honum að það væri hættulegt að sigla á ísjaka. Hann hefði ekki haft vit á því sjálfur hvað var hættulegt.
Þetta sem ég skrifa hér að ofan er svar við spurningu sem Sigurður spyr í viðtalinu, en hún er:
Meginspurningin hlýtur að vera: Af hverju skapast aðstæður hér á Íslandi sem verða til þess að Íslendingar fara verr út úr alþjóðakreppunni en aðrir og þurfa til dæmis að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins?
Svar mitt er einfalt: Vegna þess að menn sinntu ekki áhættustjórnun af innri hvötum heldur sem viðbrögð til kröfu eftirlitsaðila. Og það sem eftirlitsaðilanum datt ekki í hug að gera kröfu um, það hunsuðu menn þrátt fyrir að með því stefndu þeir rekstri sínum, afkomu viðskiptavina og eigenda og hagsæld þjóðarinnar í voða. Aum er sú skýring að kenna öðrum um, þegar sökin liggur hjá þeim sjálfum. Kaupþing sá um að taka stöðu gegn krónunni. Kaupþing átti hugmyndina að jöklabréfunum eða a.m.k. átti drjúgan þátt í þeim vaxtaskiptasamningum sem jöklabréfin höfðu í för með sér. Kaupþing sogaði til sín gjaldeyri á háu gengi og átti síðan stóran þátt í að fella það með því að frysta framboð á gjaldeyri. Kaupþing var alveg sjálfrátt og einfært um allar sínar græðgilegu ákvarðanir, þar sem virðing fyrir þjóðinni og hagkerfinu var fótum troðin vegna þess að hægt var að græða á því. Já, Kaupþing sá sjálft um að fella sig. Það þurfti enga hjálp til þess. Og þetta allt gerðist á vakt Sigurðar Einarssonar, sem kafsigldi skipinu sínu og dró þjóðfélagið með sér.
![]() |
Vill rannsókn á vinnubrögðum sérstaks saksóknara |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
29.8.2010 | 22:56
Skilja á milli framleiðslu, flutnings, dreifingar og sölu raforku
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.8.2010 | 22:55
Vaxtalögin, fjórfrelsið og neytendavernd í ESB lögum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
17.8.2010 | 12:48
Ótrúleg hógværð Seðlabankans - Álit hans skiptir ekki sköpum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
15.8.2010 | 14:18
Stærsti glæpur Gylfa og Seðlabankans var að hylma yfir með lögbrjótum og það er lögbrot
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
14.8.2010 | 12:37
Skildi hvorki spurninguna né minnisblaðið
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (65)
12.8.2010 | 00:13
Leikritið fjármagnseigendur Íslands í leikhúsi fáránleikans
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)
11.8.2010 | 00:07
Álit lögfræðings ráðuneytisins segir gengistryggingu óheimila, en snerist um ranga spurningu
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (37)
10.8.2010 | 15:49
Sannleikanum hagrætt
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
10.8.2010 | 13:12
Æi, Gylfi, hættu að hagræða sannleikanum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.8.2010 | 17:19
Seðlabankinn birtir álit og minnisblað um ólögmæti gengistryggingar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.8.2010 | 21:59
Seðlabankastjóri með skáldskap í sjónvarpsfréttum og gerir lítið úr aðallögfræðingi sínum
Bloggar | Breytt 9.8.2010 kl. 01:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
7.8.2010 | 14:13
Seðlabankinn missagna og gerir lítið úr aðallögfræðingi sínum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.8.2010 | 20:15
Ekki spurning um að dæma heldur að opna fyrir umræðu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
6.8.2010 | 16:42
Fúsk og vanhæfi - Hverjir vissu þetta líka?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.9.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 9
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði