Leita í fréttum mbl.is

Fagþekking eða góður stjórnandi - hvað skiptir mestu máli varðandi góða stjórnsýslu?

Nefnd þingmanna hefur komist að þeirri niðurstöðu rétt sé að stefna þremur eða fjórum ráðherrum fyrir Landsdóm vegna vanrækslu í starfi.  Tilhögun Landsdóms er barn síns tíma og get ég ekki séð að þetta fyrirkomulag breyti nokkru, nema hugsanlega að fæla fólk frá því að taka að sér æðstu stjórnunarstöður hjá lýðveldinu Íslandi.  Ég tek það skýrt fram, að ég vil gjarnan að ráðherrar axli ábyrgð á gjörðum sínum án þess að vera beittir óeðlilegum pólitískum þrýstingi heldur fyrst og fremst vegna þess að þeir áttuðu sig sjálfir á klúðri sínu.  Enginn fjórmenninganna, sem hér um ræðir, sáu einu sinni ástæðu til að biðja þjóðina afsökunar á því að hagkerfið hrundi á sinni vakt fyrr en búið var að bauna á þá linnulausri gagnrýni.  Nú Geir H. Haarde var svo ósvífinn, að hann baðst afsökunar á Landsfundi Sjálfsstæðiflokksins, ekki í ræðustól á Alþingi.  En ég ætla ekki að tala um Landsdóm og klúður ríkisstjórnar Geirs H. Haarde heldur fara yfir vangaveltur sem Vilhjálmur Þorsteinsson setur fram á blogginu sínu um hvað prýði góðan ráðherra og ræða fleira því tengdu.  Skoðum fyrst hvað Vilhjálmur segir um nýtt stjórnskipulag:

Forsætisráðherra á helst að kjósa beinni kosningu.  Hún eða hann velur ráðuneyti sitt, gjarnan fyrir kosningar.  Þingmenn geta ekki jafnframt verið ráðherrar.  Ráðuneyti eru þá skipuð fólki með fagþekkingu, gott orðspor og dómgreind; reynslumikið fólk af viðkomandi sviðum.  Þetta er svipað því sem tíðkast í Frakklandi og Bandaríkjunum.

Margt er til í þeim málflutningi Vilhjálms að oft skorti fagþekkingu hjá ráðherrum, en það verður ekki leyst með því að kjósa forsætisráðherra beint og það er heldur ekki eina vandamálið.

Sá ráðherra sem hefur á á síðustu 18 mánuðum staðið sig best að áliti þjóðarinnar hafði tvo mjög mikilvæga kosti:  1.  Þekkti vel til málaflokksins.  2.  Þekkti vel til stjórnsýslunnar og þeirra vinnubragða sem þar eru viðhöfð.  Já, ég er að tala um Rögnu Árnadóttur.  Annar ráðherra þótti hafa mjög góð fagþekkingu, en var algjör græningi þegar kom að stjórnsýslunni.  Hann missti traust þjóðarinnar, þegar sú vanþekking hans kom í ljós.

Þegar kemur að vali á ráðherra er nauðsynlegt að skoða margt.  Þekking á málefninu er vissulega mjög mikilvægt, en að kunna að vinna eftir reglum stjórnsýslunnar er gríðarlega mikilvægt.  Þá er ég ekki að tala um að gefa eftir gagnvart stjórnsýslunni, heldur þekkja og lög og reglur um málsmeðferðir og fleira í þeim dúr.  En þetta tvennt hefur ekkert að segja, ef ráðherrann er haldinn ákvörðunarfælni, vantar rökhyggju/-vísi, hefur ekki bein í nefinu eða þekkir ekki til stefnumótunar. 

Við fáum ALDREI heila ríkisstjórn sem uppfyllir lýsingu Vilhjálms:  "Ráðuneyti eru þá skipuð fólki með fagþekkingu, gott orðspor og dómgreind; reynslumikið fólk af viðkomandi sviðum."  Ég fæ ekki séð að þetta hafi heldur gengið upp í Bandaríkjunum og Frakklandi.  Gárungarnir tala um ríkisstjórnir Bandaríkjanna sem Goldman Sacks stjórnir og finnst mér það ekki til merkis um að ráðherrar hafi verið valdir vegna hæfni þeirra og alls ekki hæfi þeirra, heldur vegna þess að þeir tilheyrðu valdablokk.

Vilhjálmur vill að kjósendur viti fyrirfram hvaða ráðherrar myndi ríkisstjórn þess sem er að sækjast eftir embættinu.  Þetta er göfugt markmið, en hér á landi eru fjórir stórir flokkar og einhverjir minni.  Miðað við 10-12 ráðherra og 6 framboð, þá gerir þetta 60 - 72 einstaklinga.  Ég efast bara hreinlega um að við eigum svo marga sem vilja taka að sér þær ábyrgðarstöður sem hér um ræðir og eru "með fagþekkingu, gott orðspor og dómgreind; reynslumikið fólk af viðkomandi sviðum", eins og Vilhjálmur vill gjarnan sjá gegna þessum stöðum.  Miklu nær er að halda núverandi fyrirkomulagi að ráðherrar séu almennt valdir úr hópi þingmanna, en að ráðherra víki af þingi meðan hann gegnir starfi ráðherra og varamaður taki sæti hans.

Ég held raunar að stærsta vandamálið sé ekki val á ráðherra heldur hversu vanbúin stjórnsýslan er í mörgum efnum.  Þó Ísland sé fámennt, þá þarf stjórnsýslan að kljást við alveg jafn flókin og mikilvæg verkefni og hjá fjölmennari þjóðum.  Vegna fámennisins, þá þarf hver starfsmaður stjórnsýslunnar að geta sinnt fjölbreyttum verkefnum.  Þeir geta því ekki leyft sér að gerast miklir sérfræðingar á hverju sviði.  Íslenska stjórnsýslan þarf almennt fólk með breiða þekkingu en hún verður þá í staðinn ekki mjög djúp á nema á takmörkuðum sviðum og nú er ég ekki á nokkurn hátt að vega að ríkisstarfsmönnum.  Í þessu liggur vandi íslensku stjórnsýslunnar, en ekki hver er fagþekking eða reynsla ráðherrans.  Lausnin á þessu er að gera stjórnsýslunni kleift að sækja sér þegar þörf er á sérfræðiþekkinguna til aðila utan hennar, en þá þurfa þeir sem vinna í stjórnsýslunni að hafa þor og greind til að vita hvenær þekking þeirra brestur.  Jafnvel þetta dugar ekki alltaf, þar sem í samfélaginu eru oft ekki einu sinni til trúverðugir einstaklingar með þá þekkingu sem vantar og í því lá líklegast einn stærsti vandinn í aðdraganda bankahrunsins.  Nú hafi þessir einstaklingar verið til, þá unnu þeir oftast fyrir fjármálafyrirtækin beint eða óbeint og áttu lífsafkomu sína undir því að veita þá ráðgjöf sem hentaði fjármálafyrirtækjunum.

Ég hef nákvæmlega enga trú á því, að það hefði nokkru breytt gagnvart bankahruninu að ráðherrar hefðu verið valdir með öðrum hætti.  Vandinn lá í einbeittum brotavilja stjórnenda í fjármálakerfinu.  Hann lá í ósvífni manna, sem lugu upp í opið geðið á ráðamönnum.  Hann fólst í því að menn breiddu yfir vandann í opinberri umræðu af ótta við að opinber umræða yki á vandann.  Hann fólst í því að menn þorðu ekki að stoppa fjármálafyrirtækin af ótta við að þeir væru að stoppa eitthvað gott og gætu átt von á málsóknum.  Hann fólst í því að stjórnsýslan var ekki búin nægri þekkingu til að skilja hvað var í gangi eða nægum styrk til að stöðva það sem menn sáu að var ekki í lagi.  En þetta vandamál var fyrst og fremst hjá litlum hluta stjórnsýslunnar, þ.e. þeim hluta sem var að kljást við fjármálakerfið, og svo ekki síður almennt hjá þjóðinni.  Stærsta vandamálið var að við trúðum því að stjórnendur og eigendur fjármálafyrirtækjanna væru að vinna að þjóðarhag.  Við trúðum því að þeir væru að vinna af heiðarleika að byggja upp öflug fyrirtæki með sterka fjárhagsstöðu.  Við trúðum af innilegri einfeldni á hið góða í íslenskum "viðskiptajöfrum" en sitjum nú uppi með að þetta voru engir "jöfrar", þetta voru bara ósköp venjulegar aurasálir sem létu stjórnast af eigin siðblindu.

Niðurstaða mín af nokkurra ára vangaveltum um hvernig sé best að velja ráðherra er sú, að hæfileiki ráðherrans til að setja sig hratt og vel inn í mál, þekkja vel lög og reglur stjórnsýslunnar, kunna deila verkefnum, skilja kjarnann frá hisminu og geta tekið ákvarðanir byggðar á rökvísi skipti meira máli en hver menntun eða önnur reynsla viðkomandi er.  Auðvitað hjálpar það yfirleitt að hafa góða fagþekkingu, en eigi ég að velja á milli fagþekkingar og færni í stjórnun og ákvörðunartöku, þá vel ég það síðara.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Alveg rétt hjá þér - Ragna stóð sig vel/en Gyfli Magnússon mun síður.

Fagþekking er engin trygging fyrir góðri frammistöðu.

Á sama tíma, þurfum við einnig að velta fyrir okkur, fulltrúar hverra eiga ráðherrarnir að vera.

Ef ráðherrarnir eru einungis aðilar úr stétt háskólasamfélagsins, þá væntanlega hefur það þær afleiðingar, að sýn háskólamanna kemst mun fremur að en almennings á götunni - svo maður nefni dæmi.

Hingað til hefur verið reglan, að ráðherrar ættu í einhverjum skilningi að vera fulltrúar fólksins - en auðvitað er það mörgum takmörkunum háð, hverjir komast í reynd að, o.s.frv. 

Á hinn bóginn samt sem áður, þurfa áhrif helst sem flestra hópa að skila sér inn í það hvernig málum er háttað hérlendis, þannig að engum stórum hópi finnist hann vera fyrir borð borinn.

-------------------------

Venjan hefur verið sú, að líta svo á að mikilvægara sé að sjónarmið hópa samfélagsins komi fram, fremur en að þeir sem eru í stjórnmálum séu sjálfir handhafar þeirrar þekkingar er til þarf.

Þá þekking komi þá úr stjórnkerfinu og ásamt þeim ráðgjöfum sem aðilar hafi sér til fulltingis.

------------------------

Að sjálfsögðu þarf að bæta stjórnsýsluna - en einnig held ég gæði þeirrar hugmyndavinnu sem unnin er hjá stjórnmálaflokkunum þannig að þær hugmyndir sem þeir koma fram með séu heilsteyptari og betur ígrundaðar.

Við erum að sjálfsögðu ekki á leiðinni að búa til einhverja endanlega lausn allra vandamála - hið fullkomna fyrirkomula!

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 13.9.2010 kl. 21:20

2 Smámynd: Ragnar Eiríksson

Þetta er góð grein hjá þér og sönn og rétt greining á vandanum.   Það eru allnokkrir góðir einstaklingar á þingi núna og verða vonandi fleiri ef við berum gæfu til að fjarlægja skemmdu eplin og kjósa inn nýtt fólk.  Það er engin von til að aðferð Vilhjálms við val á ráðherrum komist í framkvæmd á okkar tíma - ekki einu sinni þó stjórnarskráin verði endurskoðuð.    Ef verklaginu í ríkisstjórn og á Alþingi er breytt, t.d. að alltaf séu skráðar fundargerðir, ráðherrar séu samábyrgir, nefndafundir alþingis séu að mestu opnir og mál séu uppi á borðum þá er von til að stjórnarfarið skáni, ekki síst þegar og ef starfsfólk ríkisins/ráðuneyta er ráðið eftir hæfni en ekki flokkslit!

Kveðja

Ragnar Eiríksson

Ragnar Eiríksson, 13.9.2010 kl. 22:00

3 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Það er líkt og vant er að ég get tekið undir mjög margt af því sem þú segir og raunar flest. Kjarni málsins er að vinnureglur séu skýrar og farið eftir þeim. Einhverjar nýjar kúnstir við ráðherraval koma ekki að neinu gagni ef verklagið er það sama.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 15.9.2010 kl. 02:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 1678129

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband