Leita í fréttum mbl.is

Er verðtrygging nauðsynleg? - 10 af síðustu 20 árum hefur verðbólga verið innan við 4%

Gamall stjórnmálamaður stakk niður penna og fékk birta grein í Fréttablaðinu sl. miðvikudag.  Hann rifjar í greininni upp gamla tíma um spillingu sem viðgekkst í þjóðfélaginu og vanmátt stjórnvalda, Seðlabanka og fjármálafyrirtækja til að vera með alvöru hagstjórn á Íslandi.  Hann fjallar um það hvernig stjórnmálamenn, Seðlabanki og fjármálafyrirtæki létu það viðgangast að sparifé landsmann brann upp, lán urðu að engu og brauðið tvöfaldaðist í verði á einni dagstundu.  Já, hann lýsir í grein sinni vanhæfni eldri kynslóða til að láta þjóðfélagið standa á eigin fótum.  Þessi kynslóð fann upp á því að leysa vandann með því að innleiða verðtryggingu.  Til að byrja með var allt verðtryggt, en svo sáu menn að það gekk ekki.  Þá var ákveðið að búa til tvær stéttir í landinu, fjármagnseigendur sem fengu launin sín í verðtryggðum krónum og launþega sem fengu launin sín í óverðtryggðum krónum.  Síðan þetta gerðist, þá hefur eignartilfærslan verið frá hinum vinnandi stéttum til fjármagnseigendanna.  Ekki bara einu sinni, heldur minnst þrisvar, hefur orðið á stuttum tíma mikil og snögg tilfærsla eigna frá þeim sem hafa þurft að lifa við óverðtryggðar tekjur til hinna með verðtryggðu tekjurnar.  Og inn á milli hefur þessi tilfærsla verið hæg og róleg en með mikinn eyðileggingarmátt.

Í upphafi þessa tímabils fékk ég námslán og síðan aftur nokkrum árum síðar.  Við lok náms míns skuldaði ég um 1.400 þúsund kr.  Á hverju ári hef ég greitt af lánunum með um 4,0% af tekjum mínum (eða hvort það er 3,5%) sem jafngildir hátt í 7% af ráðstöfunartekjum mínum á hverju ári eða hátt í einum mánaðarlaunum.  Maður skyldi nú ætla að lánið væri uppgreitt á yfir 20 árum, þar sem upphæðin var ekki há.  Nei, svo er ekki, þökk sé verðtryggingunni.  Eftirstöðvarnar um síðustu áramót voru tæpar 1.800 þúsund kr.  Vissulega eru þetta ekki jafngildar krónur og fyrir 20 árum, en þær draga samt til sín sama hlutfall launa minna núna og þá.  Þær eru því sami dragbíturinn á heimilisbókhaldið og fyrir 20 árum.  Þessu kerfi vill stjórnmálamaðurinn gamli viðhalda af því að hann heldur að Ísland í dag sé jafn vanþróað efnahagslega og þegar flestir þingmenn komu úr sveitum landsins (og fresta þurfti þinghaldi um sauðburð og réttir) og hagfræðimenntað fólk mátti telja á fingrum annarrar handar (ekki að fjölgun þeirra tryggi eitt eða neitt).  Þegar karlar af kajanum sáu um ávöxtun á fé lífeyrissjóðanna og þegar fella þurfti gengið ef ekki veiddist nóg af þorski eða heitt var í veðri í Evrópu þannig að fiskneysla dróst saman.

Mig langar að benda hinum gamla stjórnmálamanni á að tímarnir hafa breyst.  Nú eru það fjármálafyrirtækin, en ekki sjávarútvegsfyrirtækin, sem stjórna gengi krónunnar og halda á fjöreggi þjóðarinnar.  Þau ákveða hvort hér sé þensla eða samdráttur og um leið ákveða þau hve miklar tekjur þau hafa af verðbótum.  Það hafa orðið endaskipti á hlutunum.  Annað sem hefur breyst er að fleiri stoðum hefur verið skotið undir gjaldeyrisöflun þjóðarinnar.  Ferðamenn, þjónustuútflutningur og stóriðja eru orðin mun stærri en sjávarútvegurinn.  Þjóðfélagið er vissulega en viðkvæmt fyrir áföllum í sjávarútvegi, en ekki nándar eins mikið og áður fyrr.  Fyrir nokkrum árum voru þroskveiðiheimildir skertar um 20% eða svo.  Um 1980 hefði þetta haft í för með sér að minnsta kosti 10% gengisfellingu, en í þetta sinn styrktist gengið!

Verðtryggingin er að éta þetta þjóðfélag upp innan frá.  Tengingin við lán heimilanna er gleggsta dæmið.  Fyrirtæki og heimilin reyndu að flýja þetta umhverfi með því að leita í gengistryggð lán, en fjármálakerfið kunni að verja sig og hefnd þess var grimm.

Stærsti vandi verðtryggingarinnar er að fjármagnseigendur geta alltaf leitað í öruggt skjól sama hvaða vitleysu þeim dettur í hug.  Þurfi bankakerfið að hressa upp á efnahagsreikninginn, þá má bara skapa þenslu eða eignabólu svo hægt sé að lána meira.  Verðtryggingin fóðrar sjálfa sig með því að vera verðbólguhvetjandi.

Gamli stjórnmálamaðurinn óttast að gamli tíminn muni koma aftur, ef dregið verður úr vægi verðtryggingarinnar.  Honum tekst nefnilega ekki að hugsa út fyrir kassann.  Í löndunum í kringum okkur er vissulega boðið upp á verðtryggð skuldabréf, en engum dettur í hug að binda almenning á klafa verðtryggingarinnar.  Meira að segja Evrópusambandið varar við því að í boði séu verðtryggð neytendalán og ætti nú öldungurinn að leggja við hlustir, þar sem hans flokkur telur allt heilagt sem frá ESB kemur.

Mér er alveg sama þó sveitarfélög eða fyrirtæki taki verðtryggð lán eða gefi út verðtryggð skuldabréf.  Fjármálafyrirtækjum er líka velkomið að bjóða upp á verðtryggða innlánsreikninga.  En leggja á af sem fyrst verðtryggingu lána sem almenningi bjóðast.  Við getum byrjað á því að setja þak á árlegar verðbætur sem lækkar hægt og örugglega uns verðtryggð neytendalán heyra sögunni til.  Þannig gæfist útgefendum verðtryggðra neytenda lána svigrúm til að aðlagast breyttum aðstæðum.

En hvað með lífeyrissjóðina, tauta líklega einhverjir.  Já, hvað með lífeyrissjóðina.  Þetta er ein af þessum síbyljum og grátkórum sem heyrist vel í, þegar rætt er um að afnema verðtrygginguna.  Ja, lífeyrissjóðirnir verða bara að vera duglegri við að ávaxta fé sitt, sýna meiri útsjónarsemi og hætta að treysta á sjálfvirkar varnir við hagsveiflum.  Þeir verða bara að hafa fyrir hlutunum eins og almenningur í landinu.  Af hverju eiga lífeyrissjóðirnir að vera í eitthvað meiri vanda við að viðhalda eignum sínum en almenningur að vinna upp í skuldir sínar.  Lífeyrissjóðirnir eru í eigu sjóðfélaga og eiga því að vinna með heildarhagsmuni sjóðfélaga í huga.  Hluti af þeim hagsmunum er að byggja hér upp heilbrigt lánakerfi með viðráðanlegum lánakjörum fyrir sjóðfélagana.  Sjóðfélagar eru ekki til fyrir lífeyrissjóðina, það er öfugt.  Sjóðfélagi sem á nærri skuldlaust húsnæði við lok starfsævi sinnar er mun betur settur en sá sem á bara helminginn í húsinu sínu og fær kannski 20% hærri bætur.  Í árslok 2008 voru skuldir heimilanna við fjármálakerfið rétt rúmlega 2.000 milljarðar litlu meiri en eignir lífeyrissjóðanna sem þá stóðu í 1.700 milljarðar (+/- það sem síðar reynist þurfa að afskrifa).  Á sama tíma var fasteignamat húsnæðis landsmanna um 40% hærra eða 2.800 milljarðar.  Af skuldum heimilanna voru 700 milljarðar vegna verðbóta frá aldamótum.  Af eignum lífeyrissjóðanna voru innan við 300 milljarðar vegna verðbóta á sama tíma.  Viljum við virkilega halda í verðtrygginguna svo lífeyrissjóðirnir geti tryggt sér 43% af því sem verðtryggingin hefur hækkað lán landsmanna (og þar með sjóðfélaga) frá aldamótum?

Með því að setja fyrst þak á árlegar verðbætur og síðan afnema þær með þaki á óverðtryggða vexti húsnæðislána, þá köllum við fjármálakerfið til ábyrgðar á því að viðhalda stöðugleika.  Sé verðbólga lítil, þá þarf ekki háa óverðtryggða vextir til að fá jákvæða raunvexti.  Í 1,5% verðbólgu gefa 5% nafnvextir 3,5% raunvexti.  Málið er að núverandi fjármálakerfi treystir á verðbólguna til að tryggja sér tekjur í formi verðbóta.  Það er mergur málsins og þess vegna verður að grípa inn í.

Já, en verðbólga síðustu ára hefur verið svo mikil að óverðtryggt sparifé mun brenna upp, segir örugglega einhver.  Ok, hefur fólk velt því fyrir sér hve oft verðbólgan hefur verið innan við 4% á síðustu tuttugu árum?  Ég hef skoðað það og niðurstaðan er að það hefur gerst 118 sinnum af síðustu 236 mánuðum samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands.  Já, frá janúar 1991 hefur ársverðbólga á hverjum tíma (verðbólga mæld í 12 mánuði) verið í annað hvert skipti undir 4%.  Líklegt er að næstu fjórar verðbólgumælingar gefi allar ársverðbólgu um og undir 4%, þannig að af 20 árum verða rúmlega 10 með ársverðbólgu undir 4%.  Færum mörkin í 6%, þá fjölgar mánuðunum í 173 eða tæpalega 3 af hverjum 4.  Séu mörkin við 3%, þá eru mánuðirnir 93 eða tæp 40%.  Og 80 mánuðir af 236 mælast með innan við 2,5% ársverðbólgu sem voru verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands.

Ég er sannfærður um að fjármálakerfið hefði hagað sér af meiri ábyrgð og hógværð á árunum fyrir hrun, ef það hefði ekki haft þá hækju sem verðtryggingin er.  Lífeyrissjóðirnir hefðu þurft að leggja meiri vinnu í hluta fjárfestinga sinna, en höfum í huga að á árunum fyrir hrun kom langstærsti hluti ávöxtunar lífeyrissjóðanna frá óverðtryggðum eignum.

Mín niðurstaða er að við getum vel verið án verðtryggingar.  Byrjum á því að setja þak á árlegar verðbætur og afnemum hana svo á nokkrum árum (eða þess vegna strax) af neytendalánum.  Síðar er hægt að afnema hana af öðrum útlánum fjármálafyrirtækja, en við getum ekki bannað fyrirtækjum að fjármagna sig með útgáfu verðtryggðra skuldabréfa. Varðandi verðtryggð innlán, þá verður hvert og eitt fjármálafyrirtæki að eiga það við sig hvort það vilji bjóða upp á þau.  Jafnframt þessu verður að afnema öll verðtryggingarákvæði í öðrum samningum, svo sem leigusamningum.  En það er ekki nóg að afnema verðtrygginguna, ef í staðinn koma himin háir óverðtryggðir vextir.  Í Danmörku hafa fjármálafyrirtæki myndað þegjandi samkomulag um að íbúðalán beri ekki hærri vexti en 5%.  Íslandsbanki býður þegar upp á svipaða vexti vegna húsnæðislána.  Þetta ástand þarf að vera viðvarandi.  Í Noregi geta íbúðaeigendur fært sig á milli fastra eða breytilegra vaxta eftir því hvernig horfir í hagkerfinu.  Þegar útlit er fyrir meiri verðbólgu, þá færa þeir sig í hrönnum yfir í fasta vexti, en velja breytilega vexti, þegar útlit er fyrir stöðugleika.  Með þessu er ábyrgðinni á viðhaldi stöðugleikans varpað yfir á fjármálafyrirtækin, enda eiga þau ekki að nota almenna lántaka sem stuðpúða þegar áhættustýringin klikkar.  Vel rekið fjármálafyrirtæki á að verja almenna lántaka og innlánseigendur fyrir áföllum í efnahagslífinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Marinó,

Ég held einmitt að vegna þess hversu fjármál eru orðin stór hluti af íslensku efnahagskerfi, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, þá haldi verðtryggingin uppi því kæruleysi sem varð til þess að allt hrundi.  Eins og þú segir, ef verðtryggingin hefði ekki verið, þá hefðu fjármálafyrirtækin orðið að vera ábyrgari því þá hefði ekki verið til staðar þessi tenging milli verðlags og verðbóta sem skrúfar allt sjálfkrafa upp og niður og fjármálafyrirtækin eru með sitt á þurru hvernig sem skrúfan gengur.  Afnám verðtryggingar myndi verða til aukinnar ábyrgðar hjá fjármálafyrirtækjum, sem vantar sárlega, og yrði undirstaða undir uppbyggingu fjármálakerfis,  atvinnufyrirtækja og aukins útflutnings.  Ég veit ekki hvort verðtryggingin átti rétt á sér í óðaverðbólgunni milli '75 og '90 en eftir 90 hefur þetta plumað sig nokkuð vel og ég held að það hefði ekkert breyst ef verðtryggingin hefði verið afnumin 1990, nema eins og ég sagði, það hefði ýtt undir ábyrga stjórnun, sem hreinlega gufaði upp upp úr aldamótunum.

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 10.9.2010 kl. 04:10

2 Smámynd: Axel Pétur Axelsson

Var að kanna vexti á húsnæðisláni á Spáni til 25 ára, þeir eru 2,3% og ekkert verðtryggingadót.

Ég hef hingað til verið á móti ESB en er farinn að klóra mér í hausnum yfir því hvort það sé rétt afstaða.

Axel Pétur Axelsson, 10.9.2010 kl. 09:58

3 identicon

Mjög góður pistill.

Við gerð lánasamninga þá þarf að skipta ábyrgðinni með eðlilegum hætti milli lántakanda of lánveitanda.

Í stuttu máli þá er í hæsta móti óeðlilegt að nota lánaskilmála við einstaklinga til að verja sig gegn þróun á markaði. Til þess á hann að nota afleiðusamninga og skynsamlega hegðun á markaði.

Þráinn Guðbjörnsson (IP-tala skráð) 10.9.2010 kl. 10:50

4 Smámynd: Jón Magnússon

Verðtryggingin var neyðarráðstöfun í rugluðu ástandi. Þá voru bæði laun og lán verðtryggð. Síðan var verðtrygging launa afnumin af því að það gátu allir séð að það gat ekki gengið. Hitt áttu allir að sjá líka að sambærileg verðtrygging á lánum væri gjörsamlega fráleit nema við óeðlilegar aðstæður.  Því miður var verðtryggingin ekki afnumin og ég tel hana meðal helstu orsakavalda afbrigðilegrar stjórnunar efnahagsmála hér á landi. Þá tel ég að verðtrygging lána á Íslandi hafi með öðru stuðlað að afbrigðilegri starfsemi íslenskra lánastofnana sem var meðorsakavaldur hrunsins. Í þriðja lagi þá er verðtryggingin eins og þjófur í húsum þeirra sem taka verðtryggð lán og stela frá þeim rauverulegum verðmætum á hverjum degi. Þetta eru verstu og óhagkvæmustu lán á vesturhveli jarðar.  Það er forgangsverkefni og forgangskrafaf að afnema þennan ófögnuð.

Jón Magnússon, 10.9.2010 kl. 11:21

5 identicon

Frábær samantekt.

Vilhjálmur Árnason (IP-tala skráð) 10.9.2010 kl. 17:36

6 Smámynd: Karl Ólafsson

Takk fyrir þetta, Marinó.

Litlu við þetta að bæta, annað en að verðtryggingin er í eðli sínu verðbólgumyndandi og því er það kenning mín að verðbólgumarkmið SÍ upp á 2,5% á ársgrundvelli sé í raun óraunhæft og muni seint nást og í raun ekki fyrr en dregið verður úr vægi verðtryggingarinnar.

Karl Ólafsson, 11.9.2010 kl. 01:56

7 Smámynd: Karl Ólafsson

Biðst forláts, þú ert með það inni í textanum að verðtryggingin sé verðbólguhvetjandi. Las þetta aðeins of hratt yfir í fyrstu yfirferð.

Karl Ólafsson, 11.9.2010 kl. 01:58

8 identicon

Þetta lögmál með að verðtrygging væri verðbólguhvetjandi hefur löngum verið þekkt en það hefur bara ekki mátt segja frá því. Ég benti á það í smá grein í MBL þann 27.11.2006 að verðtryggingin væri verðbólguhvetjandi. Það hefur reyndar margt breyst síðan hún var skrifuð en lögmálin eru ennþá þau sömu.

Magnús Orri Einarsson (IP-tala skráð) 13.9.2010 kl. 14:01

9 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Var að kanna vexti á húsnæðisláni á Spáni til 25 ára, þeir eru 2,3% og ekkert verðtryggingadót.
Ég hef hingað til verið á móti ESB en er farinn að klóra mér í hausnum yfir því hvort það sé rétt afstaða.
 
 

Spænsk húsnæðislán til 25 ára bera 4.45% vexti. Íbúðalánasjóðir Íslands er með ca 4,5%.
 
Verðbólgan á Spáni hefur verið neikvæð um ?1,5% og jákvæð um +1,5% á síðustu 12 mánuðum. Þetta eru því háir raunvextir ef verðbólgan er neikvæð. Aðeins 3% Spánverja taka húsnæðislán sem eru með föstum vöxtum. Hin 97% taka lán með breytilegum vöxtum til max 5 ára. Þá er skuldbreytt og nýr höfuðstóll myndast og nýr kostnaður kemur til. Svona er þetta í mörgum evrulöndum. Fólk eingast þar aldrei húsnæði sitt.
 
Vegna hörmulegs atvinnuástands í ESB tekur fólk út hreina eign sína í húsnæði um leið og hún myndast til þess að geta framfleytt sér og sínum.
 
Það er 20,3% atvinnuleysi á Spáni núna og um 45% hjá ungu fólki.  
 
Á síðasta ári voru Írsk húsnæðislán með alt að 15% raunvöxtum því þar var verðbólgan svo neikvæð.
 
Þeir sem láta sig dreyma um að ESB aðild muni færa Íslendingum ódýrari lán vaða í mikilli villu. Fjárfestar taka sér alltaf áhættuþóknun í samræmi við verðbólgusögu og verðbólguvæntingar. Þá fyrst yrðu lánin dýr á Íslandi.
 

Gunnar Rögnvaldsson, 14.9.2010 kl. 14:22

10 Smámynd: Karl Ólafsson

Gunnar,
þú segir að fólk í Evrulöndum eignist aldrei húsnæði sitt. Ég efast ekki um að það sér rétt hjá þér hvað varðar það fólk sem endurveðsetur hús sín til þess að fjármagna neyslu sína, sem án efa er algengt. Þó er það varla algilt. En á Íslandi eignast fólk heldur aldrei húsnæði sitt. Því veldur að stórum hluta verðtryggingin. Aftur ætla ég hins vegar að bæta hér við; þetta er þó varla algilt. Að sjálfsögðu ná sumir að eignast sitt húsnæði, bæði í Evrulöndum og á Íslandi. Aðstaða eða tækifæri fólks til þess er hins vegar afar mismunandi.

Írar búa við 15% raunvexti segir þú. Aftur efast ég ekki þá tölu, en aftur er all nokkur munur á aðstöðu þeirra og okkar. Þeirra efnahagskerfi er að stilla sig af eftir áfall, ekki alveg ósvipað okkar áfalli. Þar stillast hins vegar stærðir í hagkerfinu af með öðrum hætti en hér. Verðhjöðnun gengur yfir hjá þeim um tíma, fasteignaverð hlýtur að hafa fallið verulega, en lán þeirra hafa hins vegar staðið í stað hvað höfuðstól varðar. Vissulega geta þeir því setið eftir í eign sem um tíma er yfirveðsett og þurft að greiða af því láni sem á eigninni hvílir nokkuð háa raunvexti. En verðhjöðnun þeirra mun ganga nokkuð hratt yfir og hagvöxtur ýta af stað hægfara verðbólgu aftur sem mun leiðrétta þá stöðu með tímanum.

Hvernig má bera það saman við aðstöðu okkar hér? Það er alveg sama hvernig hagstærðir eru stilltar af í okkar hagkerfi, verðtryggingin sér til þess að skuldir okkar geta í raun bara vaxið. Þó fasteignir lækki í verði (þó það gerist ótrúlega hægt á algerlega frosnum fasteignamarkaði), þá hækka aðrir hlutir (opinber gjöld, influttur varningur, olía, ....) og lánin hækka í takt. Vixlverkun veldur því að hér verður aldrei verðhjöðnun, nema e.t.v. einn og einn mánuð með löngu millibili (útsölumánuði?!). Þegar viðsnúningur verður hjá okkur og raunverulegur hagvöxtur kemst af stað aftur, hvað gerist þá? Jú, óleiðréttu lánin okkar hækka þá enn hraðar vegna þess að annars vegar eru þau stökkbreytt eftir skell kreppunnar og svo halda þau áfram að hækka af því að hagvöxturinn þrýstir verðbólgunni enn áfram í a.m.k. 4% stigunum sem við komumst aldrei undir, hvað sem SÍ lofar og hefur að markmiði.

Ég segi nei, verðtryggingin getur ekki gengið upp sem reikningsdæmi, því miður. Hún átti rétt á sér til þess að lagfæra handónýtt hagkerfi, en það átti að leggja hana niður fyrir löngu og það átti að gerast í síðasta lagi um leið og hrunið varð. Það má enn fara þá leið!

Að lokum þetta, "Þá fyrst yrðu lánin dýr á Íslandi", segir þú. Alveg hárrétt, án efa, en enn og aftur, þau hafa verið okkur rándýr hingað til síðustu áratugina, þessi lán. Við höfum bara tekið verkjalyf með þeim til þess að lina verkina, en í raun höfum við bara verið að taka miklu meiri lán en við höfum haft efni á. Ef við höfum ekki efni á að staðgreiða vexti, þá verðum við að taka lægri lán! Við verðum að læra það! Ef okkur lærist það á endanum, þá verður til meiri sparnaður í landinu, meira jafnvægi og á endanum vonandi lægra og stöðugra vaxtastig. Hvort heldur við verðum þá innan eða utan ESB. E.t.v. er ESB tækið til þess að koma okkur í þá stöðu, ég veit það ekki, ég veit að þú telur þig vita að svo sé ekki :-) En víst er ESB ekki töfralausn í þessu sambandi.

Karl Ólafsson, 16.9.2010 kl. 17:19

11 Smámynd: Elías Hansson

Hvað kæmi í staðinn fyrir verðtrygginguna?

Væri það ekki 20-30% vextir?

Elías Hansson, 16.9.2010 kl. 23:22

12 identicon

Ég held að bankarnir hafi allir boðið upp á óverðtryggð lán. Vandamálið var auðvitað að Íbúðalánasjóður lánaði bara verðtryggt. Samt vildi enginn taka óverðtryggðu lánin frá bönkunum, kusu frekar erlend lán eða verðtryggð.

 Þarna var því í gangi upplýst val beggja aðila, þ.e. banka og lántaka að gera þessa tegund af lánasamningi á meðan aðrir buðust. Hvert er vandamálið? Eru menn á móti samningsfrelsi? Og eins og Sighvatur benti á í grein sinni, á tímum neikvæðra raunvaxta þurrkast upp allt mögulegt lánsfé því að sparifjáreigendur kjósa frekar að festa féið í varanlegum* verðmætum eins og t.d. húsnæði, erlendum gjaldeyri eða gulli frekar en að gefa þá til þeirra sem taka lánin. Þetta er rökvillan  hjá þeim sem berjast gegn verðtryggingunni. Án hennar (á tímum verðubólgu) verða annað hvort nafnvextir mjög háir eða lánsfé gufar upp. Marínó og aðrir lántakendur verða að átta sig á því að hádegisverðurinn er aldrei ókeypis.

Haukur (IP-tala skráð) 17.9.2010 kl. 00:05

13 Smámynd: Karl Ólafsson

Haukur, það er að mínu mati engin rökvilla í gangi hjá Marinó eða öðrum sem berjast gegn verðtryggingunni. Rökvillan hins vegar hjá Sighvati og fleirum er að það sé óhjákvæmilegt að lánsfé þurrkist upp og enginn vilji lána út peninga sína ef ekki er boðið upp á verðtryggð kjör. Það gerðist á sjöunda og áttunda áratugnum vegna þess að lán voru veitt á föstum, mjög lágum vöxtum, í óðaverðbólgu. Að sjálfsögðu brann þá sparifé upp!

Ég hvet þig og Elías til að lesa aftur yfir röksemdir Marinós og fleiri aðila (t.d. gamlar færslur á mínu bloggi) þar sem aftur og aftur er farið yfir þessar mýtur um þessi mál. Þið hafið ekkert rangt fyrir ykkur að því leyti að við  eigum því að venjast að valkostur við verðtryggð lán (frestaðir vextir!) eru óverðtryggð lán (staðgreiddir vextir) á okurkjörum, vegna landlægrar verðbólgu sem síðustu ár hefur að hluta til verið kynt undir af verðtryggingunni sjálfri. Ég (og fleiri) held því fram að í því markaðshagkerfi sem við höfum verið að reyna að búa okkur til (með lélegum árangri hingað til) eigi þetta ekki að þurfa að vera svona, því það er deginum ljósara að núverandi kerfi gengur ekki upp, nema fyrir fjármálastofnanir og fjármagnseigendur.

Karl Ólafsson, 17.9.2010 kl. 00:31

14 Smámynd: Karl Ólafsson

Elías,

veltum aðeins betur fyrir okkur spurningu þinni hvort vextir þurfi að vera 20-30% ef verðtryggingar nyti ekki við. Ef það er satt og rétt hjá þér, þá þýðir það að verðbólga væri hér væntanlega allt að 15-25% á ársgrundvelli. Ef það er staðan, hversu betur er þá lántaki settur (nema tímabundið í byrjun), ef þessi verðbólga er viðvarandi og hann frestar greiðslu vaxta þar til síðar á lánstímanum? Það er nákvæmlega það sem verðtryggingin gerir, hún er greiðslufrestur og uppsöfnun á hluta vaxtanna! Ef verðbólgan er landlæg byggist því upp gríðarlegt vandamál fyrir lántakann, því hann hefur látið blekkjast af þeirri tálsýn að hann hafi efni á að taka hærra lán en hann hafði í raun efni á að taka.

Lántakar eiga og verða að meta greiðslugetu sína við staðgreidda vexti!

Karl Ólafsson, 17.9.2010 kl. 01:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband