Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010
30.4.2010 | 13:03
Gengistrygging höfuðstóls er ólögleg og ekki má skipta henni út fyrir aðra verðtryggingu
Héraðsdómur Reykjavíkur kvað í morgun upp úrskurð í máli NBI hf. (Landsbankans) gegn fyrirtækinu Þráinn ehf., þar sem gengistrygging höfuðstóls láns er dæmd óheimil með vísan til dóms héraðsdóms frá 12. febrúar sl. Dómarinn, Jón Finnbjörnsson, fer með dóm sinn skrefinu lengra en Áslaug gerði í febrúar. Hér er nefnilega (samkvæmt frétt mbl.is) dæmt að önnur verðtrygging komi ekki í staðinn fyrir gengistrygginguna og því standi bara eftir upprunalegi höfuðstóllinn auk vaxta eða eins og segir í fréttinni:
Miða verði við upphaflegan höfuðstól auk áfallinna vaxta, en ekki megi reikna annars konar verðtryggingu í stað gengisviðmiðunar.
Að þessu athuguðu verður að miða við að upphaflegur höfuðstóll skulda varnaraðila hafi verið 357.500.000 krónur og að hann hafi ekki hækkað.
Þetta er stórt skref í réttarbaráttu heimilanna og fyrirtækjanna. Verði þessi dómur staðfestur í Hæstarétti, þá færast ÖLL gengistryggð lán niður í upphaflegan höfuðstól að viðbættum LIBOR vöxtum samkvæmt skilmálum lánsins og frádregnum afborgunum.
Það er með þennan dóm, eins og dóminn 12. febrúar, að bíða verður eftir Hæstarétti. Niðurstaða hans er ekki sjálfgefin. Því miður. En þangað til: Til hamingju Ísland.
Ekki heimilt að gengistryggja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
29.4.2010 | 12:31
Námskeið: Áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu
Dagana 25. og 26. maí verða haldin á vegum Betri ákvörðunar ráðgjafaþjónustu Marinós G. Njálssonar tvö námskeið um Áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu. Námskeiðin hefjast kl. 9.00 báða dagana og standa til um kl. 17.00.
MARKMIÐ námskeiðanna er að kynna aðferðafræði við áhættumat annars vegar og stjórnun rekstrarsamfellu hins vegar og samspil áhættumats og stjórnunar rekstrarsamfellu.
Áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu eru tveir af grunnþáttum í góðum stjórnháttum fyrirtækis. Fátt er mikilvægara en að fyrirtæki hafi góða vitneskju um ógnir og hættur í umhverfi sínu og grípi til viðeigandi ráðstafana til að draga úr áhrifum þeirra á rekstrarleg og viðskiptaleg markmið. Þetta er hægt að gera með því auka þol fyrirtækisins fyrir áhrifum óæskilegra atvika í rekstrarumhverfi þess með því að greina hver slík óæskileg atvik geta verið og grípa til ráðstafana til að styrkja inniviði fyrirtækisins. Atburðir undanfarinna vikna, mánaða og ára ættu að segja fyrirtækjum að slíkt er bráð nauðsynlegt.
Efni námskeiðanna
Efni námskeiðanna er miðað við þær kröfur sem gerðar eru um áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu í reglum Persónuverndar nr. 299/2001 um öryggiskerfi persónuupplýsingar, í leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins nr. 1/2005 um rekstur upplýsingakerfa hjá eftirlitsskyldum aðilum og í reglum Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 1221/2007 um vernd upplýsinga í almennum fjarskiptanetum, nr. 1222/2007 um virkni almennra fjarskiptaneta og nr. 1223/2007 um vernd, virkni og gæði IP fjarskiptaþjónustu. Jafnframt eru dekkaðar allar almennar kröfur til stjórnunar rekstraráhættu og stjórnunar á samfelldum rekstri fyrirtækja sem ekki þurfa að uppfylla framangreindar reglur. Kröfur sem endurskoðendur setja gjarnan fram eða matsfyrirtæki á borð við Standard & Poors, Moody's eða Fritch. Tekið skal skýrt fram að námskeiðið fjallar ekki um áhættustjórnun eða áhættuútreikning vegna útlánaáhættu eða fjárfestingaáhættu, þó svo að vissulega sé hægt að nýta sér þær aðferðir sem kynntar verða við slíka áhættustjórnun.
Námskeiðin styðjast við staðla um stjórnun upplýsingaöryggis: ISO 27001 og ISO 27002; um áhættumat og áhættustjórnun: ISO 27005, BS 31100, AS NZS 4360 og leiðbeiningar frá The Institute of Risk Management og The Association of Insurance and Risk Managers; um stjórnun rekstrarsamfellu: BS 25999, PAS 56 og leiðbeiningar frá Business Continuity Institute, Disaster Recovery Institute og Survive, The Business Continuity Group. Síðan er byggt á CobiT (Control Objectives for Information and Related Technology) frá IT Governance Institute og The Standard of Good Practices for Information Security frá Information Security Forum.
Hverjum er námskeiðin ætluð
Námskeiðin eru ætluð hverjum þeim sem er að fást við áhættustjórnun í sínu starfi eða stjórnun rekstrarsamfellu. Það geta verið forstjórar, framkvæmdarstjórar, stjórnarmenn, millistjórnendur, öryggisstjórnendur eða sérhæfðir starfsmenn svo dæmi séu tekin. Námskeiðin geta vissulega nýst mun fleiri aðilum, svo sem fulltrúum í borgar-/bæjar-/sveitarstjórnum eða öðrum fulltrúum almennings sem eru að fást við mikla óvissu- eða áhættuþætti í sínu starfi eða vilja öðlast nánari skilning á þessum atriðum. Hafa skal í huga, að stjórnun rekstrarsamfellu er ekki það sama og neyðarstjórnun, en hún innifelur hana.
Þetta er í þriðja sinn sem þessi námskeið eru haldin. Í fyrri tvö skiptin var mikli ánægja með efni þeirra frá þátttakendum, sem hafa meðal annars verið frá fjármálafyrirtækjum og fjarskiptafyrirtækjum.
Betri ákvörðun ráðgjafaþjónusta Marinós G. Njálssonar
Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar hefur fengist við ráðgjöf sem tengist stjórnun upplýsingaöryggis í 7 ár. Áður starfaði Marinó við sömu hluti hjá VKS hf. (núna hluti af Skýrr) og var öryggisstjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu. Meðal viðfangsefna, sem Marinó hefur fengist við, eru innan íslensku stjórnsýslunnar, heilbrigðisgeirans, hjá lífeyrissjóðum og fjármálafyrirtækjum, auk þess að vera leiðbeinandi hjá Staðlaráði Íslands á námskeiðum þess um staðlana ISO 27001 og ISO 27002 sem fjalla um stjórnun upplýsingaöryggis. Marinó flutti einnig erindi á ráðstefnunni InfoSec World 2006, þar sem hann fjallaði um áhrif ytri krafna á rekstrarumhverfi fyrirtækja og stofnana.
Betri ákvörðun hefur á síðusta árum m.a. aðstoðað VALITOR í gegn um vottun samkvæmt ISO 27001, þar sem áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu spiluðu mjög stóran þátt, og síðan Íslenska getspá/Íslenskar getraunir í gegn um vottun samkvæmt ISO 27001 og WLA SCS (World Lottery Association Security Control Standard). Mikið reyndi á vinnu Betri ákvörðunar fyrir VALITOR í október 2008, þegar fjármálakerfi landsins lék á reiðiskjálfi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vígin gefa sig eitt af öðrum. Á Svipunni er frétt undir fyrirsögninni Bankar semja um myntkörfulán og þetta að stjórn Íslandsbanka vill koma til móts við þá sem tóku bílalán. Vissulega kemur í hvorugri fréttinni fram hvað er gert og hvort það verður afturvirkt, en orð eru til alls fyrst. Nú er bara að vona, að það taki ekki marga mánuði þar til næstu skref verða tekin.
Ég hef oft sagt, að bankarnir eiga að vinna með viðskiptavinum sínum að lausn vandans. Það á að vera markmið allra fyrirtækja að viðhalda langtíma viðskiptasambandi við viðskiptavini sína. Því fyrr sem hægt verður að leysa vanda heimila og fyrirtækja, því fyrr læknum við þjóðfélagið. Lækningin verður að felast í því að ÖLL heimili og fyrirtæki séu eins virk og hægt er í því að skapa hagvöxt. Þannig er staðan ekki í dag.
Ég skora enn og einu sinni á fjármálafyrirtækin að koma til viðræðna við hagsmunaaðila og samtök lántaka um leiðir út úr þessum vanda. Ég trúi því ekki, að menn vilji bíða eftir niðurstöðu Hæstaréttar hvort heldur í bílalánamálunum eða málum sem farin eru í gang varðandi forsendubrest og önnur sem eru í undirbúningi um markaðsmisnotkun, fjárhagsglæpi og fleira eftir því. Ég trúi því að til sé betri og fljótvirkari lausn og skora enn og aftur á fjármálafyrirtækin að koma að samningaborðinu. Hagsmunasamtök heimilanna eru hvenær sem er búin til viðræðna. Það er betra að semja en að fá yfir sig lög eða dóma.
Vilja koma til móts við þá sem tóku bílalán | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
27.4.2010 | 14:47
Gufa frá bráðnun undir jökli
Meðfylgjandi eru myndir úr vefmyndavél Vodafone. Sú til vintri sýnir (hringað utan um) hið gríðarstóra op sem hefur myndast neðst í Gígjökli og stígur gufa stöðugt þar upp. Einnig má sjá gufu stíga upp frá ánni sjálfri þar sem hún fellur í gamla lónstæðið. Á myndinni til hægri hef ég hringað utan um tvo gufustróka sem standa upp úr jöklinum. Hvort þeir eru vegna hitans frá vatninu sem rennur niður jökulinn eða vegna þess að hraunið er komið svona langt, er ómögulegt að dæma af myndunum, en eitt er víst: Gufan leitar upp á við, þannig að gufumyndunin á sér stað neðan við neðri staðinn í jöklinum.
Viðbót 28.4.2010: Á þessari mynd sést gufan mjög vel, sem sýnir að hraunið er komið nokkuð langt niður jökulinn.
Hraun komið um 1 km frá gígnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 28.4.2010 kl. 20:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þeim tilvikum fer fækkandi, þegar ég átta mig á málflutningi Gylfa Magnússonar. Fyrir nokkrum dögum lýsti hann því yfir að ekki væri frekara svigrúm til að koma til móts við heimilin í landinu með almennum aðgerðum, en svo kemur hann í dag og vill ólmur bjarga stofnfjáreigendum sparisjóðanna.
Ég ætla ekki að setja mig upp á móti því að hinum venjulega stofnfjáreiganda sé bjargað. Þá á ég við fólkið sem gerðist stofnfjáreigandi af rækni við sveitina sína. Fólk sem fyrir mörgum árum gerðist stofnfjáreigandi og lagði sannanlega sína peninga í sparisjóðinn sinn. En ég er alfarið á móti því að fjárfestum, sem lögðu peningana inn í sjóðina með gróðahyggjuna eina að leiðarljósi, sé bjargað áður en heimilum landsins er bjargað. Ég vil fá rétta forgangsröðun hjá stjórnvöldum. Sem stendur hefur henni að mestu verið snúið á hvolf.
Brýnt að leysa vanda stofnfjáreigenda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
26.4.2010 | 12:45
Aðalfundur Hagsmunasamtaka heimilanna
Aðalfundur HH í Sjómannaskólanum 27. apríl 2010
Aðalfundur HH verður í Tækniskólanum (Sjómannaskólanum) við Háteigsveg 2. hæð t.v. 27. apríl n.k. Fundurinn hefst kl. 20.00 Upplýsingar um frambjóðendur má finna á heimasíðu samtakanna.
Stjórn HH hvetur félagsmenn til að gefa sér tíma til að mæta á aðalfundinn og hafa áhrif á val stjórnar, breytingu á lögum samtakanna og fylgjast almennt með störfum samtakanna. Samtökin starfa á lýðræðislegum grunni eftir lýðræðislegum hugsjónum og aðhald og aðkoma félagsmanna er mikilvæg.
Erindi Baldurs Péturssonar rekstrarhagfræðings er áhugavert m.a. vegna starfa hans og reynslu sem aðstoðarframkvæmdastjóra Endurreisnar og þróunarbanka Evrópu (European Bank). Erindið heitir Áhættustjórnun og endurreisn og fjallar um endurreisn íslenskra heimila, atvinnulífs og hagkerfis. Þess má geta að Baldur vann á sínum tíma hjá iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu og hefur unnið við endurreisn atvinnugreina hérlendis.
Dagskrá fundarins verður sem hér segir:
1. Setning
2. Skýrsla stjórnar
3. Reikningar samtakanna
4. Lagabreytingar (sjá tillögur á heimasíðu)
5. Kosning 7 manna stjórnar (sjá framboð á heimasíðu)
6. Erindi Baldurs Péturssonar fyrrum aðstoðarframkvæmdastjóra Endurreisnar og þróunarbanka Evrópu (European Bank)
7. Kosning 7 varamanna
8. Kosning skoðunarmanna næsta árs
9. Önnur mál
a. Tillaga stjórnar að árgjaldi 2010
b. Tillaga um baráttumál og kröfur HH
c. Lausnartillaga
d. Ályktun fundarins
Vinsamlega ath. að aðeins skráðir félagsmenn geta boðið sig fram til stjórnarstarfa og hafa atkvæðisrétt á aðalfundi. Skráning í samtökin er möguleg á heimasíðu samtakanna og á fundarstað.
Hagsmunasamtök heimilanna
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.4.2010 | 12:07
Matsfyrirtækin fá útreið hjá bandarískri þingnefnd - Staðfesta það sem ég hef áður skrifað um
Ekkert í þessari frétt Morgunblaðsins kemur mér á óvart. Þetta er nákvæmlega það sem ég hef sagt í nokkrum pistlum mínum um matsfyrirtækin og vinnubrögð þeirra. Líta verður á fyrirtækin sem mjög mikilvægan hlekk í svikamyllu fjármálafyrirtækjanna, t.d. varðandi undirmálslánin. Þessi svikamylla teygði anga sína hingað til lands. Dæmi voru um að skuldabréfaflokkar íslensku bankanna með veði í húsnæðislánum hafi fengið AAA mat, þó svo að enginn aðili hér á landi fékk svo mikið sem AA. Annars er hægt að lesa fyrri pistla mína um þetta með því að fylgja tenglunum hér fyrir neðan:
Hrunið - hlutar 4 og 5: Basel II og matsfyrirtæki (16.2.2010)
Svindl matsfyrirtækjanna og Basel II reglurnar (25.10.2008)
Bandaríkin þurfa að bæta skaðann (17.10.2008) (Lokaorðin eru bæði rétt og röng!)
Löngu tímabær aðgerð (16.10.2008)
Geta þeir ekki hætt þessari vitleysu? (11.10.2008)
Sökudólgurinn fundinn! Er það? (16.9.2008)
Matsfyrirtækin fá ákúru frá SEC og ESB (17.7.2008)
Eru matsfyrirtækin traustsins verð? (3.4.2008)
Eru matsfyrirtækin traustsins verð - hluti 2 (23.4.2008)
Ég geri mér fulla grein fyrir að ekki stenst allt í þessum skrifum þá naflaskoðun sem birtist í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis eða hefur komið fram í fjölmiðlum undanfarna 18-20 mánuði. En það er samt eiginlega lyginni líkast hve oft mér ratast rétt á. Hafa skal í huga að elstu færslurnar eru meira en tveggja ára gamlar, þ.e. frá því áður en hinn almenni Íslendingur hafði minnsta grun um hvað biði okkar.
Hörð gagnrýni á matsfyrirtæki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.4.2010 | 16:05
Góður maður í vandasamt starf
Ég vil byrja á því að óska Höskuldi til hamingju með nýja starfið. Brotthvarf hans úr stóli forstjóra Valitor er óvænt og verður skarð hans vandfyllt. Þar hefur hann stýrt fyrirtækinu giftusamlega í gegn um þann ólgusjó sem íslenskt fjármálakerfi lenti í á haustdögum 2008.
Án þess að vita hverjir aðrir sóttu um, þá held ég að stjórn Arion banka hafi ratast rétt á í vali sínu. Bankinn mun fara nokkuð á nýjar slóðir í mörgum efnum, en það verður bara gott. Valinn var traustur og heiðarlegur maður, sem ætti að vera hafinn yfir allan vafa.
Ég sendi Höskuldi bestu óskir um gott gengi í nýju starfi með þökk fyrir samstarfið á liðnum árum.
Höskuldur H. Ólafsson ráðinn bankastjóri Arion banka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.4.2010 | 20:02
Hagsmunasamtök heimilanna áttu fund með AGS
Hagsmunasamtök heimilanna áttu fund með AGS í dag. Var fundurinn að frumkvæði AGS. Fórum við yfir málin án þess að reynt væri að komast að einhverri niðurstöðu. Er það tilfinning mín, að vilji sé fyrir því hjá AGS að taka á skuldamálum heimilanna, en fólk verði að horfast í augu við að það fái ekki allan skaðann bættan. Ekki að við hjá HH höfum nokkru sinni reiknað með því.
Allt snýst þetta um svigrúmið sem fjármálafyrirtæki hafa og hvernig er hægt að nýta það. Fjármálafyrirtækin hafa ekkert verið mikið að gefa upp hvert þetta svigrúm er og því er ekki ljóst úr hverju við höfum að moða. Fundurinn var mjög jákvæður, en enn er langt í land með að niðurstaða fáist.
Í mínum huga er búið að greiða úr greiðsluvanda talsverðs hluta heimilanna, en það var gert á kostnað skuldavandans. Afleiðingin er að fasteignaverð fer ennþá lækkandi, lítil hreyfing er á fasteignamarkaði, nýfjárfestingar heimilanna eru nánast engar, fólk er bundið átthagafjötrum og kveður meira að segja svo rammt við að fólk getur hvorki skilið né hafið saman sambúð í stærra húsnæði. Allt bitnar þetta svo á neyslunni og lífsgæðum almennings.
Á undanförnum vikum hefur efnahags- og skattanefnd verið að skoða skuldamál heimilanna og einnig þverpólitískur starfshópur Alþingis (sem ég á sæti í). Margt hefur komið út úr þessu starfi, en betur má ef duga skal. Vandinn er risavaxinn, ef finna á allsherjarlausn og því er spurningin hvort ekki megi byrja á bráðavandanum sem felst í vanskilum heimilanna við fjármálakerfið. Þegar allt kemur til alls, þá eru þær tölur ekki svo svakalegar, ef eingöngu er horft til þeirra afborgana sem eru í vanskilum. Ef 3 - 4 mánuðir af 40 ára láni eru í vanskilum, þá er það eingöngu fáein prósent af lánsupphæðinni. Uppsöfnuð slík vanskil í bankakerfinu nema í mesta lagi nokkrum milljörðum, hugsanlega innan við einn milljarð króna. Ég held að skynsamlegt væri að taka þessi vanskil hreinlega til hliðar og geyma endanlega afgreiðslu þeirra til síðari tíma. Gefa fólki kost á að byrja með hreint borð án þess að verið sé að afskrifa eitt eða neitt eða færa lánin niður. Með því gæfist lengri frestur til að finna stóru lausnina.
Ég heyri allt of mikið af því að úrræði stjórnvalda og fjármálafyrirtækjanna séu ekki að virka eins vel og lagt var upp með. Í svari efnahagsmálaráðherra á Alþingi um daginn kom fram að innan við 300 manns hafi farið í gegn um sértæka skuldaaðlögun, úrræðið sem átti að vera svo svakalega skjótvirkt. Í tölum sem ég fékk í morgun, kemur í ljós að innan við 1.000 manns hafa óskað eftir greiðsluaðlögun og mjög fáir hafa náð að fara í gegn um ferlið. Höfum í huga, að það er mat Seðlabankans, að 28.300 heimili (eða 39% heimila sem eiga eigið húsnæði) séu í neikvæðri eiginfjárstöðu í húsnæði. 65% "ungra" heimila eru í þeirri stöðu. 23.850 heimili eru að mati Seðlabankans í vanda, en það eru heimili sem ekki ná endum saman eða eru á mörkum þess að geta staðið undir greiðslum og framfærslu. Það er mín skoðun að hér sé um talsvert vanmat að ræða og hópurinn sé talsvert stærri. Í mínum huga er 23.850 svo sem alveg nógu stór hópur og kallar á frekari aðgerðir.
Á aðalfundi Hagsmunasamtaka heimilanna, sem verður 27. apríl kl. 20.00 í Sjómannaskólanum við Háteigsveg, þá er ætlunin að kynna bæði endurnýjaðar kröfur HH og tillögu að lausnarleið. Ný stjórn samtakanna mun síðan fá það hlutverk að útfæra tillögurnar nánar og, ef vilji er fyrir því, að kynna þær fyrir almenningi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
20.4.2010 | 12:05
Aðvaranir Ólafs Ragnars fullkomlega réttmætar - Betra að vera viðbúinn eða gera ekkert
Nokkuð er rætt á fréttasíðum og í bloggheimi um viðtal Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, við BBC í gærkvöldi. Mjög margir gagnrýna Ólaf Ragnar fyrir að vara menn við því að Katla sé komin á tíma og gos í henni gæti orðið margfalt verra en gosið í Eyjafjallajökli. Tala ýmsir um athyglissýki og vilja fá hann úr fjölmiðlum.
Ég get ekki annað en furðað mig á þessum viðbrögðum. Hér á landi erum við að upplifa afleiðingar mestu fjármálaóreiðu sem þjóðin hefur lent í. Hún fékk að viðgangast vegna þess að við (og ég þar meðtalinn) hlustuðum ekki á þá sem vöruðu okkur við. Jónína Ben var atyrt í fjölmiðlum og kölluð brjáluð í hefndarhug, sama var sagt um Jón Gerald og ýmsa fleiri. Ólafur Ragnar er bara að segja sannleikann. Við megum búast við mörgum stórum gosum á þessari öld. Það er skynsamlegt fyrir flugmálayfirvöld í Evrópu að vera undir það búin. Það er mjög viturlegt fyrir okkur sem þjóð að vera undir það búin.
Hugsanlega kom það mönnum á óvart, að það skyldi gjósa í Eyjafjallajökli. Samt voru öll teikn sem bentu til þess. Kannski máttu jarðfræðingar ekki vara okkur við, vegna þess að vitneskjan um það sem gæti gerst er kannski verri en afleiðingarnar ef enginn veit neitt. En nú er gosið byrjað og við vitum ekki hve lengi það mun standa eða hvaða áhrif það mun hafa á búsetu undir Eyjafjöllum næstu mánuði og ár. Sveitin verður aftur blómleg á svæðinu nokkrum árum eftir að gosinu lýkur, en núna er skaðinn skeður og til að varna frekara tjóni, þá þarf að grípa til aðgerða. Í mínum huga væri ákaflega skynsamlegt að flytja skepnur af bæjum undir Eyjafjöllum og nýta eitthvað af yfirgefnum gripahúsum á Suðurlandi. Það getur varla farið verr með skepnurnar, en að halda þeim í því óvissuástandi og heilsuspillandi aðstæðum sem þær eru í núna. Höfum í huga að kúabúin þarna eru mikilvæg fyrir mjólkurframleiðslu í landinu. Það er því mikilvægt, að framleiðsla þeirra sé hafin yfir allan vafa um hollustu og heilbrigði. Einhvern tíma mun taka að gera annað húsnæði klárt, en því fyrr sem er byrjað, því fyrr verður það tilbúið.
Aftur að orðum Ólafs Ragnars. Á Íslandi eru um 180 virk eldfjöll. Stór hluti þeirra hefur gosið frá landnámi og á þriðja tug hefur gosið á síðustu 110 árum. Við komumst ekki hjá gosum með því að tala ekki um þau. Við komumst ekki hjá afleiðingum þeirra með því að sussa á forsetann. Það sem meira er, að við verðum þess verr undir þessi gos búin, sem við hugsum minna um þau. Ólafur Ragnar talaði um að búast mætti við fjölmörgum gosum á þessari öld. Hann talaði um að Kötlugos yrði verra en gosið í Eyjafjallajökli og að önnur hamfaragos gætu orðið enn þá verri. Þetta er allt rétt og satt. Búum okkur nú vel undir þessar hamfarir og látum afleiðingar þeirra ekki koma okkur á óvart.
Ég er ráðgjafi um áhættumat, áhættustjórnun, öryggisstjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu. Ég sé allt of oft í mínu starfi, að einfaldara aðgerðir geta gert gæfumuninn. Ég vil að lokum nota slagorð sem ákveðið fyrirtæki hefur notað í auglýsingum sínum: Ekki gera ekki neitt.
Vilji einhverjir fá nánari upplýsingar um þjónustu mína eða hafa spurningar, þá er best að ná í mig með því að senda póst á oryggi@internet.is og ég hef samband til baka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.1.): 0
- Sl. sólarhring: 29
- Sl. viku: 197
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 39
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði