Leita í fréttum mbl.is

Eru matsfyrirtækin traustsins verð - hluti 2

Fyrir tæpum 3 vikum spurði ég hvort að matsfyrirtækin (S&P, Fitch rating og Moody's) væru traustsins verð m.a. vegna klúðurs þeirra í tengslum við bandarísku undirmálslánin.  Ég hef aðeins verið að grafa dýpra í heimspressunni og ég furða mig sífellt meira á því að þessum fjármálavafningum hafi verið hampað jafnlengi sem öruggum pappírum og raun ber vitni.  Og ekki bara það, mér hefur verið tjáð að S&P hafi langt fram á síðasta ár verið að bjóða mönnum í fínar veislur og flottar ráðstefnur til að fá þá til að kaupa þessa pappíra.

Um daginn benti ég á, að HSBC stórbankinn hafi afskrifað USD 10,5 milljarða í febrúar 2007 vegna bandarískra fasteignalána (þ.e. undirmálslána), en þá er ekki öll sagan sögð.  Fjölmargir stórbankar höfðu á seinni hluta 2006 verið að reyna að vinda ofan af fjármálavafningum sínum og með því að dreifa áhættunni m.a. með því að skort selja undirmálslánavafninga eða með því að takmarka tjón sitt með því að selja út úr starfsemi sinni þann hluta sem var dýpst sokkinn í fen undirmálslánanna.  Þetta er raunar svo furðulegt dæmi, þegar betur er skoðað, að ég skil ekki hvernig menn gátu verið að meta þessi lán í hæstu hæðir.

Ein af skýringunum sem skotið hefur upp kollinum, er að stórbönkum hafi tekist að fela tap sitt vegna þess hve vel gekk á öðrum sviðum.  Þannig hafi nokkurra milljarða dala afskrift ekki komið fram í ársreikningum vegna þess að bankarnir voru ennþá að hala inn talsverðar tekjur af þessum lánum. Plúsar jöfnuðu út alla mínusana, en þar sem plúsarnir voru fleiri, þá var enginn að gera veður út af fáeinum mínusum.  Við verðum þó að hafa í huga að mínusarnir voru líklegast upp á 3 - 5 milljarða dollara hjá hverjum aðila um sig.

En það er ekki bara að allir þessir bankar hafi þurft að afskrifa eitthvað um 170 milljarða dala á síðustu 12 mánuðum.  Markaðsvirði hlutabréfa þeirra hefur hrunið.  Hér á Íslandi er verið að emja eitthvað út af lækkandi markaðsvirði íslensku bankanna, en það er ekkert í samanburði það sem kom fyrir Bear Stearns sem var seldur fyrir klink eða Citigroup sem tapað hefur 50% af virði sínu, UBS er búinn að tapa 45%, SocGen í Frakklandi tapaði 40% á nokkrum dögum og svona mætti lengi telja.  En á meðan þessir bankar hafa tapað háum fjárhæðum og hrapað í markaðsvirði hafa aðrir, svo sem BNP Paribas, Credit Suisse, Goldman Sachs og Lehman Brothers, haldið sínu.  Er nema von að menn spyrji hvernig standi á þessu.

Skýringarnar virðast vera tvær:  Ítarlegri rannsóknir og aðalbankastjórar taka virkan þátt í áhættustýringu.  Þetta fyrra er ekkert ósvipað og menn eru líklegast að gera í dag.  Þ.e. að treysta ekki blákalt tölum matsfyrirtækjanna, heldur skoða undirliggjandi pappíra og söguna.  Það kemur nefnilega í ljós (eins og ég benti á um daginn) að útlánatöp vegna þessara lána voru alltaf töluverð.  Málið var að lánin voru bara í boði á takmörkuðu svæði.  Það var svo eftir breytinguna sem kennd er við Basel II, að ódýrt lánsfé frá Asíu flæddi inn á markað í Bandaríkjunum (og Bretlandi) og þá var allt í einu farið að bjóða þessi lán út um allt.  Frá 2002 til 2005 fór árlegt umfang lánanna úr tæpum 200 milljörðum dala í tæplega 700 milljarða.  Við verðum að hafa í huga að þessi lán voru áhættulán og sagan sýndi að a.m.k. tíunda hvert lán var gjaldfellt og helmingurinn af þeim endaði með uppboði. Það mátti því vera ljóst hverjum sem vildi skoða þetta, að afskriftir þyrftu að aukast verulega, raunar það mikið að þetta væri ekki áhættunnar virði.

Það vekur því meiri og meiri furðu að fyrirtæki eins og S&P skuli ekki hafa lækkað mat sitt á þessum lánum úr AAA niður í a.m.k. BBB ef ekki CCC sem samkvæmt áhættuskala Basel II hefði líklegast verið rétti staðurinn fyrir þessi lán.  Ábyrgð S&P á bankakreppunni, sem nú ríður yfir, virðist því vera talsverð.  Raunar svo mikil, að ég er trúi ekki öðru en að bankar um allan heim muni sækja skaða sinn til fyrirtækisins.  Get ekki séð að S&P geti vikið sér undan ábyrgðinni, þar sem fyrirtækið var ekki bara að meta lánin heldur tók það virkan þátt í að markaðssetja þau.  (Nokkuð sem ég get ekki skilið út frá hæfisreglum að sé hægt.)  Ég sé það því fyrir mér, að S&P heyri sögunni til innan ekki langs tíma.  Þá er bara einni spurningu ósvarað:  Munu sömu örlög bíða Fitch og Moody's?

Að lokum.  Ég fann skemmtilega grein á vefnum frá 19. mars 2007 undir heitinu Subprime Mortage Lending & the Great Liquidity Crunch of 2007.  Í greininni kallar höfundurinn, Bill Bonner hjá hinu ástralska the Daily Reckoning, undirmálslánin ,,lygara lán" þar sem lántakendur gátu sagt hvaða lygasögu sem var til að fá lánin og fjármálavafningana sem þessi lán enduðu inni í séu engu minni lygar.  Líkir hann þessu við að ómerkilegt svínahakk hafi fengið sama gæðastimpil og hryggur og rifjasteikur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Matsfyrirtækin tóku náttúrulega greiðslur frá fyrirtækjunum á wall street til að fá þessa pakka metna.  Ekki mútur heldur bara venjuleg þjónustukaup.  Með því að fá fleiri fyrirtæki frá wall street til að meta þessa pakka því meir græddu matsfyrirtækin.  Þetta system er náttla meingallað og stórhættulegt og algjör brandari. 

gfs (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 23:00

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þau gerðu nú gott betur en það.  Þau héldu ráðstefnur og kynningarfundi, þar sem þessir pakkar voru mærðir í bak og fyrir.  Ábyrgð þeirra er því mjög mikil og er mér sagt af innlendum miðlara að menn séu að kanna lagagrunn sinn.

Ef þú lest greinina hans Bill Bonner, þá sérðu að hann er þeirrar skoðunar að bréfin hafi í besta falli verið BBB hæf og reiknikúnstir hafi verð viðhafðar til að meta þau ofar. 

Marinó G. Njálsson, 23.4.2008 kl. 23:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 8
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 1680023

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband