Leita í fréttum mbl.is

Matsfyrirtækin fá ákúru frá SEC og ESB

Ég var að fletta í gegnum fréttir á FT.com og rakst þar á nokkrar um gagnrýni á matsfyrirtækin.  Ég gagnrýndi þau í bloggi mínu í vor og taldi þau ábyrg fyrir hluta þess vanda sem fjármálakerfi heimsins er komið í. Nú virðist sem bæði ESB og SEC (fjármálaeftirlitið í Bandaríkjunum) séu komin á sömu skoðun.  Og ekki bara það.  SEC telur að matsfyrirtækin hafi orðið uppvís að alvarlegum hagsmunaárekstrum, þegar þau voru m.a. að meta skuldabréf sem tryggð voru með undirmálslánum og öðrum eignum.

SEC ákvað í síðasta mánuði að sækja matsfyrirtækin heim, m.a. í framhaldi af því að Moody's varð uppvíst af villu í forriti sem fyrirtækið dró að greina frá.  (Sjá blogg mitt:  Ætli þetta sé það eina sem Moody's hefur að óttast? frá 21.5.2008.)  Það kemur sem sagt í ljós að matsfyrirtækin höfðu eitthvað meira að óttast.  Ég hef tvisvar velt því fyrir mér hér hvort matsfyrirtækin séu traustsins verð (sjá blogg frá 3.4.2008 og 23.4.2008) og komst að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki. Það hafa greinilega fleiri verið í vafa og því hóf SEC, samkvæmt frétt FT.com, rannsókn sína.

Niðurstöður SEC eru skýrar, að sögn FT.com.  Fyrst er að nefna, að matsfyrirtækin gættu þess ekki að viðhalda eðlilegum aðskilnaði ábyrgðahlutverka, þar sem starfsmenn sem séð hafa um að meta verðbréf vinna oft undir stjórn þeirra sem sjá um rekstur fyrirtækjanna.  Þetta þykir varhugavert, þar sem fyrirtækin fá þóknun fyrir að meta verðbréf og því er hætta á að greinendur gefi ekki hlutlaust mat, ef yfirmaðurinn á í fjárhagslegum samskiptum við viðkomandi aðila.  Christopher Cox, stjórnarformaður SEC, segir að vandamálin hafi verið alvarleg og nefndi dæmi um sömu aðilarnir hafi verið í því að krækja í viðskiptin, semja um verð og sinna greiningu. Ekki bara það, greinendur voru yfirhlaðnir verkefnum sem varð til þess að menn styttu sér leiðir og viku frá líkönum.  Niðurstaðan af öllu þessu er að SEC hefur ákveðið að matsfyrirtækin munu framvegis falla undir eftirlit stofnunarinnar.

ESB ætlar líka að breyta sínum reglum og er fyrsta skref að krefjast þess að matsfyrirtækin sæki um skráningu og fella þau undir eftirlit fjármálaeftirlita.  Ástæðan er að innra eftirlit fyrirtækjanna hefur reynst óviðunandi.  Eru menn innan stjórnkerfis ESB almennt sammála því að matsfyrirtækin beri sinn hluta af ábyrgðinni á lánakreppunni, með því að vandmeta verulega áhættu í tengslum við fjármálavafninga. ESB gerir ráð fyrir að nýja regluverkið verði lagt fyrir forsætisnefnd ESB og Evrópuþingið í október.  Líkt og SEC, hefur ESB áhyggjur af hagsmunaárekstrum innan matsfyrirtækjanna, þar sem viðskiptamódel þeirra byggir á tekjum frá þeim sem fyrirtækin eru að meta.

Ólíklegt er að eitthvað regluverk geti bætt fyrir það klúður sem þegar hefur orðið og það mun örugglega ekki rétt af efnahag heimsins.  Það sem furðar mig mest í þessari umræðu, er að matsfyrirtækin hafi verið svo vitlaus (það er ekki hægt að nota neitt annað orð) að halda, ef marka má frétt FT.com, að sami aðili gæti bæði verið að meta verðbréf og sjá um samninga við útgefendur.  Það er eins og þessir aðilar hafi aldrei heyrt um Basel II, Sarbanes-Oxley eða MiFID en þessi regluverk eru yfirhlaðin kvöðum um aðskilnað ábyrgðarhlutverka, rekjanleika aðgerða og gagnsæi.

Ég verð að viðurkenna, að því meira sem ég les um starfsreglur matsfyrirtækjanna og rekstrarfyrirkomulag er ég sannfærðari um þá skoðun mína, að fyrirtækin bera mikla ábyrgð á fjármálakreppunni og hafa í senn sýnt ótrúlegan hroka og vanhæfni með því að viðhalda ekki faglegum aðskilnaði milli rekstrarhluta fyrirtækjanna og matshluta þeirra. Bara þetta eitt ætti að duga til þess að hvaða aðili sem er, sem tapað hefur peningum á ráðgjöf þeirra, ætti að geta sótt skaðann til þeirra að fullu.  Ég sagði í bloggi mínu 3. apríl sl. að ,,[m]ér þætti a.m.k. athyglisvert að sjá hvað gerðist, ef Askar Capital reyndi að sækja tjón sitt á hendur S&P, þar sem það þarf engan snilling til að sjá að undirmálslánin voru lélegir og áhættusamir pappírar, en ekki einföld og örugg leið til að geyma peninga í stutta stund." Sýnist mér sem Askar Capital hafi bæst vopn í safnið með þeim upplýsingum sem hér er verið að fjalla um.  Skoðun SEC leiddi nefnilega í ljós að fjölmörgum tilfellum er líklegast ekki hægt að treysta mati sem frá þessum fyrirtækjum hefur komið undanfarin ár, þar sem ýmist voru starfsreglur sniðgengnar, faglegum aðskilnaði var ábótavant og hugsanlega var starfsfólk beitt beinum eða óbeinum þrýstingi til að meta verðbréf og fyrirtæki á annan hátt en annars hefði verið vegna fjárhagslegra tengsla við þá aðila sem áttu í hlut. Vissulega eiga fyrirtæki ekki að taka skori matsfyrirtækjanna gagnrýnilaust, en þetta hafa hingað til verið tól sem hafin hafa verið yfir gagnrýni og vart fyrir almenna starfsmenn fjármálafyrirtækja að efast um áreiðanleika þeirra.

Segja má að kaldhæðnin í þessu öllu er, að í Basel II reglunum, þar sem fjallað er um áhættustuðul vegna eiginfjárkröfu, er treyst á ákvarðanir matsfyrirtækjanna um fjárhagslegan styrk fyrirtækja og áreiðanleika verðbréfa.  Færa má rök fyrir því að þetta kerfi sé núna illa laskað, þar sem endurskoða þarf þær einkunnir, sem komið hafa frá matsfyrirtækjunum undanfarin ár, í þeim tilfellum sem minnsti grunur leikur á því að matið hafi ekki verið hlutlaust, að starfsreglur hafi verið brotnar eða að aðskilnaður ábyrgðarhlutverka hafi ekki verið tryggður.  Þetta getur haft gríðarleg áhrif á lánshæfismat og mat á fjárhagslegum styrkleika fjármálafyrirtækja um allan heim, þar sem áhættulíkön flestra þessara fyrirtækja byggja á því að inn í þau fari traustar og áreiðanlegar einkunnir matsfyrirtækjanna.  Ástæðan fyrir því að ég sagði ,,kaldhæðni" er að Basel II reglunum var ætlað að bæta áhættustýringu fjármálafyrirtækja en hafa í reynd (a.m.k. tímabundið) snúist upp í andhverfu sína.  Fjármálafyrirtæki, sem gert var að treysta matsfyrirtækjunum, hafa nú tapað hundruðum milljörðum Bandaríkjadala á því að hafa fylgt fyrirmælum. Ég ætla ekki að kenna Basel II reglunum um, en þarna sannast hið fornkveðna:  Þegar gölluð gögn eru notuð má búast við gölluðum niðurstöðum eða  ,,rubbish in - rubbish out".

Viðbót 17.7. kl. 13:15:

Við þetta má bæta ESB er að íhuga aðgerð sem ekki getur talist neitt annað en íhlutun í Basel II regluverkið, sbr. frétt í Viðskiptablaðinu frá 11.7.  Áhættukostnaður við söfnun og sundrungu aukinn.  Ekki er hægt að skilja þessa frétt á annan hátt, en að ESB sé ekki sátt við áhættustjórnunarreglur Basel II. Það má alveg færa rök fyrir því að Basel nefndin hafi farið of geyst í lækkun áhættustuðla og það hafi á einhvern hátt komið þessari atburðarrás af stað.  Allt í einu þurftu matsfyrirtækin að meta alls konar gjörninga, vafninga og hvað þetta allt nú er kallað, án þess að hafa mannskap, þekkingu eða tækni til að fást við umfangið og flækjurnar.  Með þessu varð til samkeppni milli matsfyrirtækjanna um það hvert yrði fyrst að meta tiltekin bréf/pakka/fyrirtæki og því höfðu menn ekki tíma til að vanda sig eins vel og þörf var á.  Ég hef svo sem áður sagt að uppsprettu fjármálakreppunnar væri að finna í Basel og nú sýnist mér ESB vera sama sinnis.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Hér eru áhugaverðar tilvitnanir í skýrslu SEC:

Tölvupóstur sendur 15. des. 2006 milli greinenda í sama fyrirtæki að lýsa CDO (collateralized debt obligations):

 Let's hope we are all wealthy and retired by the time this house of cards falters.''

Pælingar starfsmanns í tölvupósti frá 2004 um hvort viðskiptavinur fari annað ef greiningin sé óhagstæð:

 I am trying to ascertain whether we can determine at this point if we will suffer any loss of business because of our decision and if so how much.''

Ég fæ ekki betur séð en þetta þætti glæpsamlegt athæfi, ef þetta ætti sér stað innan verðbréfafyrirtækis.

Marinó G. Njálsson, 17.7.2008 kl. 11:23

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Skýrslu SEC er að finna í heild á vefsíðu SEC og má nálgast hana með því að smella hér.  Ég get bara sagt að málin versna eftir því sem meira er lesið.

Marinó G. Njálsson, 17.7.2008 kl. 11:30

3 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Það er hægt að kaupa hvað sem er ef verðið er rétt og líka gæðastimpla á handónýtt drasl. Það þýðir ekkert að koma af fjöllum með langvarandi og kerfisbundna spillingu í fjármálaheiminum. Þetta pappíradrasl var gefið á ónýtar eignir og vonlausa skuldara og til þess að hægt væri að svíkja það inn á lífeyrissjóði og vogunarsjóði og seðlabanka þurfti auðvitað að kaupa á það AAA stimpil. Þetta hefur legið fyrir árum saman og opinberar eignir fjármálaapparatsins í puntustofnunum á við SEC leyfðu eigendum sínum að leika þennan leik að vild. Síðan þegar búið er að mjólka þetta skím til fulls þá þykist þessi lýður ætla að "rannsaka" hlutina sem róar markaðinn í bili og þá er hægt að setja upp ný svindl í breyttu formi og svo springur það í loft upp eftir nokkur ár og svo framvegis. Þetta hefur gengið svona forever á Wall Street og farið síversnandi og fjársvikin verða sífellt tröllvaxnari og ekki við öðru að búast þar sem mafían hefur lengi haft traust eignarhald á svok. "löggæslu".

Baldur Fjölnisson, 17.7.2008 kl. 17:09

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

"Baldur", líklegast er þetta, sem þú segir, styttri lýsingin á þessum "viðskiptaháttum" og það er alveg víst að þátttakendurnir eru margir og flækjan mikil.  Það breytir samt ekki því að fjármálaheimurinn eins og hann leggur sig hefur varla mátt versla með nokkur verðbréf án þess að þau hafi haft stimpil frá þríburunum, Fitch, Moody's og S&P.  Svo langt hefur þessi áhersla á þríburana gengið að seðlabankar og fjármálaeftirlit um allan heim hafa slegið á fingur þeirra sem hafa verslað með ómetna pappíra.  SEC hefur með skoðun sinni fært sönnur á (það sem marga grunaði) að vinnubrögð þessara aðila voru oft ekkert flóknari en að stiga fingri upp í loftið til að athuga hvernig vindar blésu.  Menn voru alls staðar við borðið og skiptu blygðunarlaust um höfuðfat.  Eina stundina voru þeir sem ráðgjafar um það hvernig hægt væri að fela lélega pappíra innan um betri, aðra stundina að semja um verkefni og þóknanir, þá þriðju að meta pappírana oft með einhverjum vúdoo aðferðum (að því helst virðist) eða undir þrýstingi og þá fjórðu að þiggja gjafir frá eigendum pappíranna fyrir að hjálpa þeim að koma verðlausu "rusli" í umferð á toppkjörum.

Í mínum huga hefur trúverðugleiki matsfyrirtækjanna beðið slíkan hnekki, að væri ég framámaður hjá íslensku bönkunum, þá væri ég langt kominn með að höfða skaðabótamál gegn þessum fyrirtækjum.  SEC er búið að leggja til öll rökin sem nota þarf, þannig að sóknaraðilar þurfa nánast ekkert að hafa fyrir því að vinna málið.  Bara þessir tölvupóstar, sem vitnað er í, gera það verkum að matsfyrirtækin eru í reynd búin að viðurkenna að einkunnir þeirra vegna undirmálslánanna voru tómur skáldskapur og glæpsamlegt athæfi. 

Nú ef þetta var svona vitlaust, hvernig er þá hægt að treysta nokkur öðru sem frá fyrirtækjunum hefur komið.  Lánshæfismat, mat á fjárhagslegum styrk, fjárhagslegar horfur, o.s.frv.  Er eitthvað sem segir að þær einkunnir séu á nokkurn hátt betri.  Bankar eiga ekki annarra kosta völ, en að véfengja allar einkunnir sem komið hafa frá þríburunum, sem þýðir að allir áhættuútreikningar þeirra eru í uppnámi.  Hugsanlega jafnast þetta út, þ.e. að vitleysurnar eru ýmist ofmat eða vanmat, en meðan það er ekki á hreinu, þá er mjög erfitt að byggja útlánastarfsemi eða viðskipti með verðbréf á mati þessara fyrirtækja.  Vissulega treysta ekki allir bankar á einkunnagjöfina (vegna samsetningu útlána/eignasafns), en flest allir stóru bankarnir gera það. En það er a.m.k. ljóst að SEC er þessarar skoðunar, þar sem stofnunin hefur gefið grænt ljós á að stunduð sé viðskipti með verðbréf sem ekki hafa enn fengið einkunn frá þríburunum.

Marinó G. Njálsson, 17.7.2008 kl. 18:43

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég hef verið að lesa skýrslu SEC og hún er eins og besti reifari, þar sem lýst er hvernig matsfyrirtækin hafa meiri áhyggjur af markaðshlutdeild en að matið endurspegli verðmæti undirliggjandi verðbréfa, lýsa því yfir að þau viti ekki hvað lá bakvið sumt af því sem þeir voru að meta, vissu af villum í aðferðum sínum, en leiðréttu það ekki til að verja orðspor, breyttu mati til þess að missa ekki markaðshlutdeild, höfðu ekki mannskap til að vinna verkið rétt, brugðu út af verkferlum vegna tímaskorts, skýrðu ekki út frávik, endurmátu ekki pakka, þó svo að nýjar upplýsingar bæru með sér að pakkarnir væru mun áhættusamari en upprunalega mat gaf til kynna og svona mætti lengi telja.  Ég segi bara enn og aftur:  Vilji menn sækja bætur til matsfyrirtækjanna, þá eru öll helstu rökin lögð fram í skýrslunni.

Þessu til viðbótar er áhugavert að fylgjast með rannsókn FBI á undirlánakrísunni, en sú rannsókn vindur sífellt upp á sig.

Marinó G. Njálsson, 18.7.2008 kl. 00:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 82
  • Sl. viku: 276
  • Frá upphafi: 1680564

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband