Leita í fréttum mbl.is

Eru matsfyrirtækin traustsins verð?

Við lestur umfjöllunar um efnahagsmál í erlendum og innlendum fjölmiðlum þá ber sífellt meira á gagnrýni á matsfyrirtækin S&P, Moody's og Fitch.  Eru menn í auknu mæli farnir að velta fyrir sér þátt þeirra í þeim mikla vanda sem fjármálakerfi Evrópu og Bandaríkjanna eru í.  Þannig eru nefnilega mál með vexti að þessi fyrirtæki (öll eða sum) hömpuðu skuldabréfavafningum sem innifólu í sér undirmálslánin svo kölluðu. 

Ég spurði af því í færslu hér í gær hvort að þessi fyrirtæki nytu trausts.  Karl Wernersson viðrar sömu skoðun í viðtali við Markaðinn í gær, en hann bendir eins og margir aðrir á það að S&P gaf þessum skuldabréfavafningum einkunnina AAA, sem er hæsta einkunn sem hægt er að fá.  Bandarísk ríkisskuldabréf hafa sömu einkunn og því hefði mátt halda að fjarfesting í þessum skuldabréfavafningum væri sambærileg við að kaupa bréf úr einhverjum flokkum US Bonds.  Nú er komið í ljós að þetta var tóm tjara og líður fjármálakerfi Evrópu og Bandaríkjanna fyrir þessa glórulausu einkunnargjöf.  Það sem er svo alvarlegt við þess einkunnargjöf, er að S&P hefði átt að vita að þessir pappírar voru ekki AAA-bréf.  Þeir voru í besta falli B-pappírar, ef ekki hreinlega verðlausir. 

Ég byggi skoðun mína á umfjöllun fréttaskýringarþáttarins 60 minutes sem sýndur var fyrir nokkrum vikum og því sem lesa má, t.d., á vef BBC og FT.  Þessi undirmálslán hafa verið á markaðnum í nokkur ár.  Þau byggja á því að húsnæðislánafyrirtæki gefa út skuldabréf sem þau selja á markaði á móti þeim skuldabréfum sem húsnæðiseigendur fá.  Þannig enda bréf húsnæðiseigendanna ekki á skuldabréfamarkaði og því eiga húsnæðislánafyrirtækin veðréttin í eigum fólks, en ekki þeir sem í raun fjármagna lánin.  Oft er sagt að undirmálslánin hafi byrjað í Cleveland, þar sem fólk tók lán vegna efnahagskreppu.  Vandamálið við þessi lán er að þau hafa innifalda gildru, ef svo má segja.  Þessi gildra fellst í því að fyrstu tvo árin eru lánin með lágum vöxtum, en eftir það hækka vextirnir verulega, tvöfaldast eða jafnvel þrefaldast.  Það sem meira er að þetta gerist sjálfkrafa.  Fólk sem áður gerði ráð fyrir að greiða USD 1.000 á mánuði þarf allt í einu að greiða USD 2.000 og þeir sem greiddu USD 2.000 greiða nú allt í einu USD 4.000.  Það gefur augaleið í hagkerfi, þar sem þennsla er lítil og atvinnutekjur stöðugar, að almenningur ræður ekki við slíkar hækkanir.  Lánin féllu því í gjalddaga og fjöldagjaldþrot eða -uppboð fylgdu í kjölfarið.  Þessi hrina uppboða og gjaldþrota byrjaði í Cleveland fyrir nokkrum árum, en á meðan húsnæðisverð hélst hátt og ástandið einangraðist við einn stað, þá hafði þetta ekki áhrif.  En á síðustu árum var farið að bjóða þessi lán út um öll Bandaríki og það sem hafði verið staðbundið vandamál var allt í einu farið að verða innanríkisvandamál.  Þetta áttu matsfyrirtækin að sjá fyrir (miðað við reynsluna frá Cleveland) og þau hefðu því ekki átt að halda undirmálslánunum í AAA. Þetta sést m.a. á þessum tveimur gröfum fyrir neðan.

_44217521_growth_subprime_203gr    _44235449_foreclosures_graph203Grafið til vinstri sýnir vöxt undirmálslána á tímabilinu frá 1994 til 2006, en grafið til hægri fjölda uppboða vegna greiðsluþrots á árunum 2000 - 2006 og áætlanir vegna 2007 og 2008.  Hvernig lán sem "tryggð" voru með jafn ótryggum fasteignabréfum gátu fengið einkunnina AAA er með öllu óskiljanlegt.  Matsfyrirtækin sérhæfa sig í svona mati, en láta allar viðvaranir framhjá sér fara.  Allt fram á mitt síðasta ár eru þau ennþá að "gulltryggja" undirmálslánin með einkunnum sínum.  Hvernig getur slíkt gerst? 

En það er fleira sem matsfyrirtækin hefðu átt að vita og vara við.  Fyrstu stóru afskriftir alþjóðlegs banka vegna undirmálslána urðu vegna fjárhagsársins 2006.  HSBC afskrifaði þá USD 10,5 milljarða vegna undirmálslána.  Þetta er gríðarlega há tala og vekur það furðu að nokkur aðili hafi fjárfest í slíkum bréfum á síðasta ári.  Hvað þá fjárfestingabanki á borð við Askar Capital, sem kom nýr inn á markað.  Hver er líklegasta ástæðan?  Jú, eins og Karl Wernersson sagði í samtali við Markaðinn í gær:  "Þetta voru hins vegar afurðir sem virtustu matsfyrirtæki heims voru búin að fara í gegnum og segja að væru jafnöruggar eignir og til dæmis bandarísk ríkisskuldabréf."

Þrátt fyrir fjölmargar viðvörunarbjöllur, þá komu ekki aðvaranir frá matsfyrirtækjunum (a.m.k. fann ég þær ekki með leit á vefnum og 60 minutes fann þær ekki heldur).  Hver svo sem ástæðan var héldu þau sínu mati.  60 minutes spurði áleitra spurninga um ábyrgð matsfyrirtækjanna og ég velti fyrir mér hvort þau séu ekki hreinlega skaðabótaskyld.  Mér þætti a.m.k. athyglisvert að sjá hvað gerðist, ef Askar Capital reyndi að sækja tjón sitt á hendur S&P, þar sem það þarf engan snilling til að sjá að undirmálslánin voru lélegir og áhættusamir pappírar, en ekki einföld og örugg leið til að geyma peninga í stutta stund.  Traustið sem matsfyrirtækin sýndu þessum lánum hlýtur að fá hvern sem er til að efast stórlega um hæfi þessara fyrirtækja til að gefa út einkunnir um fjárhagslegan styrk/veikleika fyrirtækja og skuldabréfa. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband