16.2.2010 | 22:06
Hrunið - hlutar 4 og 5: Basel II og matsfyrirtæki
- Basel II regluverkið um eiginfjárhlutfall og áhættustýringu fjármálafyrirtækja, röng innleiðing þess og framkvæmd bæði hér á landi og erlendis
- Alvarlegar brotalamir í starfsemi matsfyrirtækjanna.
Basel II
Ég veit ekki hve margir átta sig á því, að stór hluti regluverks fjármálafyrirtækja á rætur sínar að rekja til Alþjóðagreiðslubankans (Bank of International Settlements, BIS) í Basel í Sviss. BIS er oft kallaður seðlabanki seðlabankanna, þar sem seðlabankar eiga einir aðild að bankanum og BIS er seðlabönkum innan handar um ýmislegt. Núverandi seðlabankastjóri var einmitt sóttur til BIS.
Ein öflugasta nefndin hjá BIS er svo kölluð Basel nefnd (Basel Committee). Hennar hlutverk er að setja ramma og reglur um fjármálaeftirlit. Eitt af grundvallar skjölum, sem nefndin hefur gefið út, er með reglur um eiginfjárhlutfall og áhættustýringu fjármálafyrirtækja. Í núverandi útgáfu er skjalið kallað New Capital Accord eða Basel New Capital Accord, en oftast vísað til þess sem Basel II.
Það er mín skoðun, eftir að hafa bæði kynnt mér og líka notað Basel II í minni ráðgjöf, að Basel II reglurnar, sem áttu að vera gríðarleg framför við stjórnun eiginfjárhlutfalls og áhættu, séu ein helsta ástæðan fyrir því að fjármálakerfi heimsins blés út og síðan hrundi. Fólk má þó ekki misskilja mig, að ég telji Basel II af hinu illa, en staðreyndin er sú, að regluverkið eins og það er sett upp er þensluhvetjandi. Það þrífst á því að bólur myndist og að þær verði sem stærstar. En Basel II fékk góðan stuðning frá matsfyrirtækjunum og má segja að samverkan þessara þátta ásamt gjörsamlega misheppnaðri áhættustýringu leiðandi fjármálafyrirtækja í hinum vestræna heimi hafi að lokum nærri gert út af við fjármálakerfi heimsins.
Það er víst kominn tími á að ég skýri hvað ég á við. Í fyrri Basel reglum sem eru frá áttunda eða níunda áratug síðustu aldar voru frekar stífar reglur um hvernig reikna átti eiginfjárhlutfall út frá áhættu af útlánum og eignasöfnum. Hin margfræga krafa um 8% eiginfjárhlutfall er grunnurinn, en frá þessum 8% voru undantekningar. Í grófum dráttur, þá er engin áhætta talin vera af því að lána ríki, sveitarfélögum og ríkisfyrirtækjum ef þau höfðu ríkisábyrgð. Slík útlán vógu ekkert í útreikning á eiginfjárhlutfalli. Væru lán á fyrsta veðrétti á íbúðarhúsnæði og í öðrum traustum eignum, þá fékkst 50% afsláttur af eiginfjárkröfunni, en annars þurfti að eiga 8 kr. í eigið fé, ef 100 kr. voru lánaðar út. Galdurinn til að fá þetta kerfi til að virka var að lán urðu að vera á fyrsta veðrétti.
Bankamenn fundu fyrir því að þetta trausta kerfi, það hamlaði vöxt banka. Það var sama hvað andvirði eigna jókst mikið, að ákvæðið um fyrsta veðrétt var það sem hélt aftur af útlánaaukningu nema meira eigið fé kæmi til. En fjárfestar vildu það ekki. Þeir vildu fá arðinn sinn út svo þeir gætu leikið sér með peningana annars staðar. Hvað var til bragðs að taka? Jú, aflétta takmörkunum um fyrsta veðrétt og fara að meta lánshæfi fyrirtækja, þannig að hægt væri að lána traustum fyrirtækjum meira. Sama var gert varðandi verðbréfahliðina, þ.e. að meta verðbréf og láta "traust" verðbréf hafa minni áhrif á eiginfjárkröfuna. Úr varð flókið kerfi um eiginfjárhlutfall og áhættustjórnun. The New Basel Capital Accord fæddist eða Basel II. Reglurnar voru gefnar út 2001, en það var misjafnt eftir löndum hvenær þær tóku gildi. Hér á landi tóku þær gildi 2003 og er hægt að rekja húsnæðisbóluna og hlutabréfabóluna beint til innleiðingar reglnanna.
Grundavallarmunurinn á Basel I og II felst í tvennu. Í Basel I voru traust lán bara á fyrsta veðrétti. Í Basel II voru þau lán traust sem voru á fyrstu 80% veðrýmis, þ.e. áhættustuðull þeirra var 0,5 í staðinn fyrir að vera 1 áður. Í Basel I voru öll verðbréf og öll fyrirtæki jafnt metin, en í Basel II er tekið upp lánshæfismat. Það hafði vissulega tíðkast að einhverju leiti, en ekki eins víðtækt og nú varð. Það sem meira var, að því betra sem matið var, þess minni kröfu gerði fjármálagjörningur byggður á matinu til eiginfjárhlutfallsins.
Ég veit ekki hvort nefndarmenn í Basel nefndinni áttuðu sig á því hvaða ormi þeir voru að hleypa út, en það átti fljótlega eftir að koma í ljós. Í fyrsta lagi gerðist það, að útlánageta fjármálafyrirtækja nærri því tvöfaldaðist við innleiðingu reglnanna. Lán sem áður höfðu vegið krónu fyrir krónu inn í útreikning á eiginfjárhlutfalli, vógu allt í einu helmingi minna. Krafa til fjármálafyrirtækja um 8% eiginfjárhlutfall lækkaði í reynd niður í 4%, þó svo ég efist um að það hafi verið reyndin. Hvatning til veðsetningar varð mjög mikil og það sem meira var, að þrýstingur á verð jókst líka. Áður var það fyrsti veðréttur sem skipti öllu, en nú töldust lán traust meðan þau voru innan 80% af verðmæti veðsettrar eignar. Hvað gerðist þegar því marki var náð? Þá var um að gera að hækka verðmæti eignarinnar svo hægt væri að veðsetja hana meira. Þetta átti jafnt við um fasteignir sem verðbréf og voru hlutabréf skýrasta dæmið um þetta. Íslenska "efnahagsundrið" byggði mjög mikið á þessu.
Nú þegar fjármálafyrirtæki voru búinn að fullnýta þetta nýfengna frelsi var áhættustuðullinn lækkaður aftur og nú í 0,35. Lækkun úr 0,5 í 0,35 jók útlánagetu um rúm 42%. Hér á landi kom þessi breyting til framkvæmdar 2. mars 2007, daginn eftir að matarskatturinn var lækkaður! Hvað gerðist hér á landi í framhaldi af því? Jú, það kom nýr verðbólgukúfur, húsnæðisverð hækkaði og krónan styrktist. Í mínum huga er þetta skýrasta sönnunin fyrir því að Basel II er þensluvaldandi og bóluhvetjandi.
Þáttur matsfyrirtækjanna
Matsfyrirtækin eru bæði fórnarlömb og gerendur. Við innleiðingu Bsel II þurfti að meta pappíra, fyrirtæki og opinbera aðila. Eitthvað hafði verið gert af þessu áður, en ekki í því mæli sem nú var. Það var nefnilega eitt aðalatriðið í Basel II, að pappírar, fyrirtæki eða opinberir aðilar sem ekki voru með mat fá sjálfkrafa lakari áhættustuðul og að lágmarki stuðulinn 1,0. Það var því lífsnauðsynlsgt upp á útlánagetu fjármálafyrirtækja, að fyrirtæki fengju betri kjör ef pappírar voru með gott mat og það sama á við umopinbera aðila. Allt í einu heltust yfir matsfyrirtækin þúsundir, hundruð þúsunda, ef ekki milljónir beiðna um að meta hin og þessi atriði. Þetta varð að gerast einn, tveir og þrír og það réðu matsfyrirtækin ekki við. Þau höfðu ekki mannskap, hvað þá nægilega marga með rétta þekkingu, menntun eða reynslu. Þetta gat ekki endað nema með ósköpum og það var niðurstaðan.
Í skýrslu bandaríska verðbréfa eftirlitsins (Securities Exchange Commission, SEC) frá sumrinu 2008 kemur fram að víða var pottur brotinn hjá matsfyrirtækjunum (sjá færslu mína: Matsfyrirtækin fá ákúru frá SEC og ESB). Við heimsókn SEC til matsfyrirtækjanna kom í ljós að verklagsreglur höfðu verið margbrotnar. Aðskilnaður ábyrgðahlutverka var ekki virtur sem varð til þess að sami aðili sá um samningagerð um verð á þjónustu og um að meta það sem samningurinn snerist um. Moody's varð uppvíst að alvarlegri forritunarvillu (sjá Ætli þetta sé það eina sem Moody's hefur að óttast?), sem hafði veruleg áhrif á mat einstakra pappíra. Ástæðan fyrir þessu var að viðskiptavinunum lá á og matsfyrirtækin voru ekki vanda sínum vaxinn. En þetta var ekki það versta.
Versta atriðið í þátttöku matsfyrirtækjanna var þegar þau fóru að skipta sér að samsetningu fjármálavafninga, rekstri fyrirtækja og veita ráðgjöf um eignasölu. Nú voru þessi fyrirtæki farin að leiðbeina viðskiptavinum sínum um það hvernig hægt væri að hafa áhrif á mat til hækkunar! Þetta er náttúrulega gróft brot á hlutleysiskröfunni sem gerð er til matsfyrirtækjanna. Hvernig á þriðji aðili að geta treyst mati matsfyrirtækjanna, þegar þau eru farin að veita ráðgjöf líka? Ég verð bara að segja, að ég skil ekki af hverju matsfyrirtækjunum hefur ekki verið stefnt fyrir það tjón sem mat þeirra olli. Hin hliðin var að þröngva opinbera aðila til að einkavæða arðsöm fyrirtæki af einhverjum óskiljanlegum ástæðum, eins og Micheal Hudson sagði í Silfri Egils í byrjun árs.
Það er ekki hlutverk matsfyrirtækja að gera neitt annað en að koma með vel rökstutt mat á þeim atriðum sem þau hafa tekið að sér að meta. Hvort það er lánshæfi ríkja eða fyrirtækja, áhætta fólgin í fjármálavafningum eða hvað það er annað sem um ræðir? Matið á að vera gegnsætt og byggt á fyrirfram gefnum mælikvarða, sem hefur sannað gildi sitt á löngum tíma. Það er ekki hlutverk fyrirtækjanna, að veita ráðgjöf. Um leið og þau gera það, þá gera þau sig vanhæf. Svo einfalt er það. Á ensku er til lykil hugtak sem er "segregation of duties" og hefur verið þýtt á íslensku "aðskilnaður ábyrgðarhlutverka". Matsfyrirtækin virðast, samkvæmt skýrslu SEC, ekki skilja þetta hugtak.
Þetta tvennt saman
Ef við skoðum virkni Basel II og matsfyrirtækjanna saman, þá er ljóst að auðvelt er fyrir fjármálafyrirtæki að misnota sér matsfyrirtækin til að auka áhættusækni en samt uppfylla Basel II reglurnar. Það var niðurstaða SEC að slíkt hafi átt sér stað, m.a. með ráðgjöf matsfyrirtækjanna til fjármálafyrirtækja um það hvernig hægt væri að búa til vafninga úr ótraustum skuldabréfum sem fengu mat langt umfram áhættuna sem fólst í skuldabréfunum. Matsfyrirtækin leiðbeindu fjármálafyrirtækjunum sem sagt um það hvernig þau gætu snúið á matið!
Þetta skiptir máli gagnvart Basel II, þar sem skuldabréf, sem skoruðu ein og sér varla hærra en A eða þess vegna BBB+, urðu allt í einu AAA vöndlar. Þar með urðu þau að góðri söluvöru. Kaupendur voru yfirleitt önnur fjármálafyrirtæki sem þannig eignuðust góðar eignir oft í skiptiviðskiptum. Þ.e. banki A átti AAA metna fjármálavafninga og banki B átti sambærilega vafninga, þó í báðum tilfellum að undirliggjandi skuldabréf (sem veðin voru í) væru með mun lakara mat. Með því að eiga gagnkvæm viðskipti, þá hækkaði matið á eignasafni bankanna og þar með eiginfjárgrunnurinn. Hærri eiginfjárgrunnur þýddi meiri útlánageta. Önnur leið var að endurskipuleggja fjárhag helstu skuldunauta, oft með sjónhverfingum, til að hækka lánshæfismat þeirra. Hærra lánshæfismat styrkti eiginfjárgrunninn og þar með jókst útlánagetan.
Nú kemur að raunverulegri áhættustýringu fjármálafyrirtækjanna. Með eignabólan hélst gangandi og verð hækkaði stöðugt, þá virtust eiginfjárgrunnur fjármálafyrirtækjanna vera góður, en svo var ekki. Hækkun eiginfjárgrunnsins var á fölskum forsendum náð fram með fjármálaleikfimi. Dæmi var um að rökin með áhættumati og matseinkunn með fjármálavafningi hafi verið um 400 blaðsíður, þar sem stærðfræðiformúlur þöktu drjúgan hluta síðnanna. Fjármálaverkfræðingar og doktorar í fjármálastærðfræði voru allt í einu orðnir mikilvægustu starfsmenn fjármálafyrirtækja og matsfyrirtækja. Í skýrslu SEC kemur fram, að mönnum þótti þetta ótrúverðugt. Það kom líka á daginn, að einfaldleikinn er oft næst sannleikanum. Eiginfjárgrunnur mjög margra fjármálafyrirtækja var byggður á sandi sjónhverfinga.
Auðvitað er það mannlegi þátturinn sem brást. Græðgi stjórnenda fjármálafyrirtækja og matsfyrirtækja varð fjármálakerfi heimsins að falli. Fjármálafyrirtækin nýttu sér veikleika Basel II reglnanna til hins ítrasta. Í þeim var nefnilega gert ráð fyrir, í einhverri furðulegri einfeldni, að menn spiluðu ekki á 80% veðsetningarregluna. Það var ekki hægt, þegar eingöngu fyrsti veðréttur var í lægri áhættuflokki. Það er bara eitt lán sem kemst á fyrsta veðrétt, en hægt er að bæta endalaust á meðan þakið er miðað við 80%. Verðmatið er bara hækkað og þá er hægt að skuldsetja meira. Ég segi því, eins og ég hef sagt áður: Blame it on Basel.
Í athugasemd við færslu 6. október 2008 segi ég:
Það eru einmitt kröfur í Basel II regluverkinu sem gerðu það að verkum að lánalínur bankanna voru innkallaðar. Ekki er ég að setja út á það, en það voru þessar sömu kröfur sem gerðu það að verkum að matsfyrirtækin fóru í þann sérkennilega gjörning að snúa handónýtum BBB undirmálslánum í AAA gæðapappíra þar sem Basel reglurnar komu í veg fyrir að stóru bankarnir gætu keypt BBB undirmálslánin í sama mæli og AAA pappíra. Að stórir bankar í Bandaríkjunum hafi fengið bandarísku matsfyrirtækin til að hjálpa sér að snúa á Basel reglurnar er númer eitt, tvö og þrjú ástæðan fyrir því að allt er í steik í fjármálaheiminum í dag.
Þetta er kannski vel í orð lagt, en það er staðreynd að menn gerðu eitt og annað til að leika á reglurnar og matsfyrirtækin virðast hafa verið ákaflega viljug til að taka þátt í því. SEC dróg í sinni skýrslu fram fjölmörg atriði, þar sem ekkert fer á milli mála að maðkur var í mysunni. Má þar t.d. nefna tölvupóst frá 15. des. 2006 milli greinenda í sama fyrirtæki þar sem þeir eru að tala um CDO (collateralized debt obligations):
Let's hope we are all wealthy and retired by the time this house of cards falters.
Pælingar starfsmanns í tölvupósti frá 2004 um hvort viðskiptavinur fari annað ef greiningin sé óhagstæð:
I am trying to ascertain whether we can determine at this point if we will suffer any loss of business because of our decision and if so how much.
Ég fæ ekki betur séð en þetta þætti glæpsamlegt athæfi, ef þetta ætti sér stað innan verðbréfafyrirtækis. Niðurstaða SEC af úttekt sinni var líka að skikka matsfyrirtækin undir eftirlit sitt og leggja til að þau verði undir eftirliti fjármálaeftirlita í hverju landi fyrir sig.
Ég gæti svo sem haldið áfram með þessa færslu, en læt hér staðar numið.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 3
- Sl. sólarhring: 10
- Sl. viku: 46
- Frá upphafi: 1680034
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 40
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Þetta er afar fróðlegt og opnar sýn inn í heim sem maður þekkir ekki og hefur ekki eða hafði ekki pælt mikið í.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 16.2.2010 kl. 23:57
Takk fyrir góða(r) bloggfærslu(r).
Blame it on Basel. Miðað við þetta sem þú segir, og ég hef ekkert vit á, þá má augljóslega færa rök fyrir því að boltinn byrji að rúlla með Basel II.
Hrímfaxi (IP-tala skráð) 17.2.2010 kl. 00:14
Hrímafaxi, já hann gerði það, þó svo að hugmyndin með Basel II hafi verið að gera áhættustýringuna raunsærri.
Marinó G. Njálsson, 17.2.2010 kl. 07:31
Góður pistill Mainó
Það væri fróðlegt að kafa dýpra í hver stóð á bak við það að BIS breytti reglum sínum.
Eins og málið snýr við mér er það nokkuð augljóst.
Það eru stóru bankarnir í USA og Bandaríkjastjórn.
Bandaríkjastjórn er búinn að safna skuldum árum saman og á ekki nokkra möguleika á að greiða þær upp og kemur til með að eiga í vandræðum með að greiða vextina.
Fyrir Bandaríkjamenn er bara ein leið út úr þessum vanda, að skapa gríðarlega verðbólgu. Þetta hefur tekist afburða vel. Eftir nokkur ár verða þeir búnir að helminga skuldir sínar með verðbólgunni.
Goldman Sachs og fleiri bankar sáu sér leik á borði og stukku á vagninn, lánuðu eins og brjálaðir menn seldu svo undirmálslánin út um allan heim og hirtu gróðan.
Bandaríkjamenn og peningamennirnir í City eru snillingar. Þeir sölsa undir sig eignir og lönd með fjármálagjörningum og styrjöldum og láta svo almenning út um allan heim borga kostnaðinn fyrir sig.
Þetta er tær snilld.
Sigurjón Jónsson, 17.2.2010 kl. 13:47
Þakka þér fyrir fræðandi samantekt, Marinó!
Flosi Kristjánsson, 17.2.2010 kl. 16:41
Þú skautar nú samt frekar létt yfir þetta. Eins og þú kannski veist þá er Basel II saman sett úr þremur þáttum, þ.e. útlánaáhættu, markaðsáhættu og rekstraráhættu. Það er rétt að útlánaáhættan var metin minni í Basel I en II en hinir tveir mælikvarðarnir komu síðan til viðbótar og í heild sinni var ekki verið að létta á kröfum heldur auka þær. Eiginfjárhlutföll bankanna lækkuðu við upptöku á þessari aðferð. Ofan á þetta (Pilar1) er komið sjálfstætt áhættumat sem tekur til eðlisbundinnar áhættu í starfsemi hvers fjármálafyrirtækis og er álag ofan á Pilar 1, nefnilega Pilar 2. Og enn hækkar eiginfjárhlutfallið. Þar ofaná hafa eftirlitsaðilar gert ríkari kröfur um eigið fé en segir í þessum reglur og gilti það m.a. á Íslandi þar sem hlutfallið var 10% en ekki 8%. Hlutfallið 8% gilti eftir álagspróf eftirlitsins. Það getur vel verið að minnkað vægi á útlánaáhættu hafi haft einhver áhrif til þennslu en mér finnst þetta mjög svo hæpin söguskýring. Basel reglurnar eru til að mynda evrópskar og ekki prakteseraðar í USA þar sem hamfarirnar hófust og fasteignabólan var hvað ofsafengust.
Grétar (IP-tala skráð) 17.2.2010 kl. 17:04
Grétar, ég veit ekki hvaðan þú hefur það að Basel reglurnar séu evrópskar, því það er rangt. Þær gilda fyrir fjármálafyrirtæki um allan heim. Í Basel nefndinni er m.a. fulltrúi bandaríska seðlabankans. Það námskeið sem ég sótti í upplýsingaöryggisþáttum Basel II var haldið í Bandaríkjunum og það sóttu nær eingöngu starfsmenn bandarískra fyrirtækja.
Ég átta mig á því að það eru fleiri undirstöður í Basel II, en hér er ég eingöngu að vísa til framkvæmdarinnar á áhættuvægi (risk weight). Ég er ekkert einn um að halda þessu fram, að Basel II sé bólumyndandi. T.d. kom hingað til landsins prófessor frá bandarískum háskóla árið 2006 (ef ég man rétt) og hann kenndi Basel II um húsnæðisbóluna.
Vissulega skauta ég létt í gegn um þetta, enda um bloggfærslu að ræða ekki fræðigrein.
Marinó G. Njálsson, 17.2.2010 kl. 20:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.