Leita í fréttum mbl.is

Gott að hafa háleit markmið - þau mega samt ekki skemma fyrir mönnum

Áhugavert hefur verið að fylgjast með viðtölum við leikmenn íslenska landsliðsins hina síðustu daga.  Eitt veit ég fyrir víst, að þegar menn eru farnir að eyða of miklu púðri í að finna að dómgæslunni, þá eru menn á rangri leið.  Ég hitti gamla kempu úr boltanum um daginn og hann sagði út í hött að taka dýrmætan tíma frá undirbúningi í að klippa út atriði í dómgæslu og mæta á fund IHF um málið. 

Tapið gegn Þjóðverjum var ekki dómurunum að kenna.  Tæknifeilar og misheppnuð skot gerðu út um leikinn.  Ég held líka að andlegi þátturinn hafi spilað þar inn í.  Í þriðja sinn mættum við Þjóðverjum í fyrsta leik í milliriðli.  Í hin tvö skiptin komust Þjóðverjar í 6 - 0 og unnu örugglega.  Núna skoruðum við vissulega tvö fyrstu mörkin, en svo kom sex þýsk mörk.  Dejavu.  Menn misstu trúna á því að geta unnið, fóru að flýta sér í sóknarleiknum, ætluðu að vera hetjan sem kom Íslandi aftur inn í leikinn, skora helst tvö mörk í hverri sókn og biðu ekki eftir rétta færinu.  Að ógleymdu því að þýska vörnin var eins og ókleifur hamarinn.

Ég skil vel að menn hafi misst dampinn við að tapa leiknum, en þá á EKKI að færa fókusinn yfir í að finna eitthvað af dómgæslunni.  Hvenær hefur það skipt máli?  Ég man ekki eftir því og þó man ég nokkuð langt aftur, þegar kemur að handbolta.  Eina sem gerðist var, að menn komu ekki tilbúnir inn í leikinn gegn Spánverjum.

Íslendingar lentu í léttasta riðlinum í riðlakeppninni.  Enginn hinna fimm þjóða sem voru með okkur hafa verið meðal hinna fremstu undanfarin ár og jafnvel áratugi.  Ég er sannfærður um að hver sem er af þeim þjóðum sem komust í undanúrslit hefði unnið okkar riðil með fullu húsi stiga.  Það hefðu líka Króatar og Pólverjar gert.  Íslenska liðið vann flesta leikina örugglega og var það glæsilegt.

Eftir á að hyggja var tapið fyrir Þjóðverjum algjörlega óþarft.  Þetta var greinilega besti leikur þeirra í keppninni og raunar eini leikurinn þar sem þeir sýndu eitthvað af viti.  Þetta var okkar slys í keppninni, þó svo að fyrri hálfleikurinn gegn Spánverjum hafi verið lakasti hálfleikur keppninnar.  Málið er bara að Spánverjar eru fanta góðir og síðan hittu þeir á okkur eftir að fókusinn hafði lent úti í móa.

Að menn hafi viljað gull á HM sýnir bara hversu langt þetta lið er komið.  OK, það klikkaði en hve lengi ætla menn að láta það skemma fyrir sér?  Á föstudag er erfiður leikur gegn Króötum um 5. sætið.  Liðið er komið inn í forkeppni OL 2012 og er í dauðfæri að komast á leikana.  Tvö færi gefast og hugsanlega þrjú.  Fyrsta er EM 2012 í Serbíu og þar gefast mögulega tvö tækifæri.  Evrópumeistararnir komast beint á OL 2012, en sé það lið ríkjandi heimsmeistarar, þá kemst liðið í 2. sæti beint til London.  Síðan er það undankeppnin.

Visir.is gerir undankeppninni skil í frétt og út frá henni er ekki ljóst svona fyrirfram hvort það skiptir máli að vinna leikinn á föstudaginn eða tapa honum.  En hér er fyrst riðlaskipting undankeppninnar:

Riðill 1:

2. sæti á HM
7. sæti á HM

Evrópuþjóð - sú þjóð sem nær næstbestum árangri á EM 2012 í Serbíu af þeim sem ekki tryggðu sér sæti í forkeppni ÓL á HM 2011.
Afríkuþjóð - sú þjóð sem nær næstbestum árangri á Afríkumótinu 2011.

Riðill 2:

3. sæti á HM
6. sæti á HM
Ameríkuþjóð
- sú þjóð sem nær næstbestum árangri á Ameríkumótinu 2011.
Evrópuþjóð - sú þjóð sem nær þriðja besta árangri á EM 2012 í Serbíu af þeim sem ekki tryggðu sér sæti í forkeppni ÓL á HM 2011.

Riðill 3:

4. sæti á HM
5. sæti á HM
Asíuþjóð
- sú þjóð sem nær næstbestum árangri á Asíumótinu 2011.
Ameríkuþjóð - sú þjóð sem nær þriðja besta árangri á Ameríkumótinu 2011.

Sigurvegari leiksins fer í riðil 3 og tapliðið, a.m.k. fyrst um sinn, í riðil 2.  Tryggi hins vegar eitt af þeim liðum sem lendir fyrir ofan okkur á HM sæti Evrópumeistara á OL 2012, þá endum við alltaf í riðli 3 sama hvernig leikurinn á föstudaginn endar.  (Þá færast öll liðin upp um eitt sæti.)  Riðill 3 er almennt álitinn léttastur með aðeins tvær Evrópuþjóðir, en á móti kemur að þær ættu að vera mjög jafnar að getu (ekki að það sé almennt mikill getumunur á þessu efstu þjóðum).  Miðað við það, þá er best að vinna leikinn á föstudag og þar með tryggja sig inn í riðil 3, en tap gæti skilað hinu sama.  Til að ganga alla leið, þá reikna ég með að í riðlinum verði Svíþjóð eða Króatía, Ísland, Japan og Brasilía.  Nú er bara að sjá hversu sannspár ég verð.  (Að því gefnu, að Ísland verði hvorki Evrópumeistarar né tapi úrslitaleiknum fyrir ríkjandi heimsmeisturum.)


mbl.is Snorri: Lítur vel út á pappírunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óþarfa annmarkar á kosningum til stjórnlagaþings - Hvenær verða kosningar rafrænar?

Í íslenskum lögum eru skýr ákvæði um framkvæmd kosninga.  Hæstiréttur hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að kosningarnar til stjórnlagaþings hafi ekki uppfyllt þessar kröfur í nokkrum atriðum. Ég fæ ekki betur séð en að þeir annmarkar sem Hæstiréttur nefnir séu allir hræðilega klaufalegir og gjörsamlega óþarfir.

Þau atriði sem kærð voru til Hæstaréttar snúa flest að framkvæmd kosninganna, þó tvö þeirra snúi að talningunni.  Þessi sem snúa að framkvæmdinni vöktu furðu mína, þegar ég kaus sjálfur.  Hér fyrir neðan skoða ég hvert atriði og bendi á hve litlu hefði þurft að breyta til að þetta atriði hefði verið í lagi.

  1. Númeraðir kjörseðlar:  Einhverra hluta vegna ákvað kjörstjórn að hafa kjörseðla númeraða svo hægt væri að sækja einstaka kjörseðla, ef vandamál kæmu upp í myndgreiningu á atkvæðinu.  Með þessu, þá er hægt að rekja hvar atkvæðið var greitt og líklegast á hvaða tíma.  Með aðstoð eftirlitsmyndavéla væri síðan hægt að rekja hver hefði líklegast greitt atkvæðið, a.m.k. í fámennari kjördeildum.  Ég skil vel að menn hafi verið hræddir við nýtt talningarfyrirkomulag og viljað hafa vaðið fyrir neðan sig, en kjörseðlana hefði mátt númera eftir á með því að setja þá í gegn um prentvélar sem prentað hefðu númer á bakhlið seðlanna.
  2. Ekki þurfti/mátti brjóta kjörseðlana saman:  Ég heyrði fyrir kosningar að ekki hafi mátt brjóta kjörseðlana saman, þar sem það hefði aukið líkur á erfiðleikum við lestur atkvæðanna, brotið hefði getað lent ofan í það sem skrifað var á seðilinn.  Einnig hefði farið mikill tími í að slétta seðlana fyrir lestur í talningavél.  Hér hefði verið einfaldast að setja brot í kjörseðlana fyrirfram og gæta þess að brotið lenti á réttum stað.  Í öðrum kosningum hefur ekki verið neitt vandamál að kjörseðlar væru brotnir saman og varla hefði það vafist fyrir vönu talningafólki að undirbúa seðlana í þetta sinn.
  3. Kjörkassa voru opnir og ekki úr traustu efni:  Ég verð að viðurkenna, að mér fundust kjörkassarnir heldur aumingjalegir.  Þeir voru notaðir, þar sem ekki mátti brjóta kjörseðilinn saman, en hefði það verið heimilt, þá hefði verið hægt að nota gömlu góðu kjörkassana.  Eins og ég bendi á að ofan, þá var þessi takmörkun á að brjóta kjörseðlana saman algjörlega óþörf og þar með líka þessi framkvæmd.
  4. Opnir kjörklefar:  Mér skilst að kjörklefarnir sem voru notaðir við kosningar til stjórnlagaþing hafi verið þeir sömu og vegna Icesave.  Þar sem ég kaus utankjörfunda vegna Icesave, þá þekki ég það ekki.  Kjörklefarnir báru þess merki að menn væru að spara.  Líklegast er vandamálið, að það vantar skilgreiningu í lög um það hvaða skilyrði kjörklefar þurfa að uppfylla, þ.e. hæð skilrúma, lýsing og hvort og þá hvernig hægt sé að loka þeim.  Ég sé í sjálfu sér ekki að þessir kjörklefar svipti mig tækifæri til leyndar um það hvernig ég nota atkvæðið mitt, en ég þarf að hafa meira fyrir því að verja leyndina.  Þó svo að það sé tjald fyrir kjörklefa, þá er ekkert sem segir að ég verði að draga fyrir (að ég best veit).  Tjaldið er hjálpartæki.  Í þessum kosningum var ætlast til að einstaklingurinn notaði líkama sinn í stað tjaldsins.  Þetta atriði byggði því á sparnaði og var algjörlega óþarft.
  5. Að talning hafi ekki farið fram fyrir opnum dyrum:  Ég hef aldrei vitað til að þetta væri vandamál og finnst þetta vera hártogun hjá Hæstarétti.  En rétturinn er fastur í formsatriðum og því er um að gera að týna þau öll til.  Aftur er þetta atriði sem auðvelt hefði verið að framkvæma rétt og aftur er það hræðsla manna við nýtt fyrirkomulag, sem rekur menn út í þessa vitleysu.
  6. Frambjóðendur höfðu ekki fulltrúa:  Spurningin hér er hvort það hafi verið réttur frambjóðenda að eiga fulltrúa við talninguna eða hvort það var skylda landskjörstjórnar að tryggja að fulltrúi frambjóðenda væri viðstaddur.  Ég hef ekki næga lagaþekkingu til að vita það, en Hæstiréttur setur út á þetta.  Enn og aftur er þetta heldur aumingjalegt atriði, sem sáraeinfalt hefði verið að hafa rétt.

Með einni undantekningu, þ.e. opinn kjörklefi, þá má rekja öll atriðin til þess að menn panikeruðu vegna fjölda frambjóðenda.  Vegna fjöldans voru fengnar talningavélar og talningakerfi sem skannaði inn alla seðlana.  Menn voru óöruggir með virkni kerfisins og vildu hafa vaðið fyrir neðan sig.  Af þeirri ástæðu voru kjörseðlar númeraðir fyrirfram, ekki mátti brjóta þá saman og þeir voru settir í kjörkassa þannig að lítil hætta væri á því að þeir krumpuðust eða yrðu fyrir hnjaski að öðru leiti.  Að talningin væri ekki opnari en raun bar vitni helgast líklegast af því, að menn vildu ekki hafa almenning hangandi yfir öxlum sér meðan verið var að ráða fram úr tæknilegum vandamálum.  Þetta með fulltrúa frambjóðenda við talningu, þá ber það pínulítið vott um yfirlæti en má líklegast skrifa á klaufaskap.

Rafrænar kosningar

Niðurstaða Hæstaréttar kallar á að sem fyrst verði farið út í notkun rafrænna aðferða við kosningar.  Ætlunin var að hafa slíkt fyrirkomulag í minnst tveimur sveitarfélögum sl. vor, en hrunið kom í veg fyrir það.  Samgönguráðuneytið þurfti að spara og gat ekki séð af þeim peningum sem þurfti í verkið.

Það vill svo til, að ég er einn af þeim sem skoðað hafa fyrirkomulag rafrænna kosninga.  Haustið 2006 var ég beðinn um að skoða rafrænt kosningakerfi sem Samfylkingarfélag Reykjavíkur notaði fyrir prófkjör vegna þingkosninga sem voru vorið 2007.  Um svipað leiti héldu Eistar kosningar sem voru rafrænar og Indverjar nota rafrænar kosningavélar í mörgum kjördæmum.  Í jafn tæknivæddu landi og Íslandi, þá á þetta ekki að vera mikill vandi.  Niðurstaða Hæstaréttar í gær segir mér þó að vanda þurfi til verksins, bæði varðandi lagasetningu og framkvæmd.  Skora ég á innanríkisráðherra að stofna strax starfshóp um verkið svo hægt sé að færa kosningar hér á landi yfir í nútímalegra form.


mbl.is Niðurstaðan vel rökstudd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálf öld að baki - Ferðalag frá fiskveiði þjóð til tæknivædds samfélags

Já, það var 25. janúar 1961 að ég kom í heiminn.  Hálf öld er liðin og fátt líkt með þessum tveimur tímum.  Eitt virðist vera við það sama, ég er einhvern veginn alltaf á undan tímanum.  Ég átti nefnilega ekki að fæðst fyrr en þremur vikum síðar.  Mamma segir að þetta hafi verið í eina skiptið sem ég hafi flýtt mér alla mína æsku Grin

Ég hef svo sem ekki afrekað neitt stórkostlegt á þessum 50 árum fyrir utan börnin mín.  Oftar en ekki endað uppi með silfurverðlaun, nema að ég varð haustmeistari með KR í 4. fl. karla árið 1973, b-lið.  Ég á silfurverðlaun frá Íslandsmóti 2. fl. karla 1978 eða 1979, en það var eins og að verða meistari.  Við Gróttustrákar eiginlega töpuðum titlinum frekar en að Víkingur hafi unnið hann, en mótherjarnir voru svo sem ekkert slor.  Liðin sem við spiluðum gegn samanstóðu af fyrstu "strákunum okkar", þ.e. liðið sem vann B-keppnina í Frakklandi 1989, Kristján Arason, Siggi Gunn, Palli Ólafs, Hansi Guðmunds, Þorgils Óttar og svo þjálfaði Bogdan Víkingana.

Leið mín lá menntaveginn, Mýró, Való, MR, HÍ og Stanford, síðan KHÍ og loks Leiðsöguskólinn sem var líklegast skemmtilegasta námið.  Fyrirtækin sem ég hef unnið hjá eru flest ekki til í þáverandi mynd, þ.e. Prjónastofan Iðunn, Skipadeild Sambandsins, Tölvutækin Hans Petersen, Iðnskólinn í Reykjavík, deCODE, VKS og síðan eigin rekstur Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta.  Iðunn er farin og sama á við um Tölvutækni, skipadeildin heitir Samskip, Iðnskólinn er núna Tækniskólinn og VKS varð hluti af Kögun sem núna heitir Skýrr.

Þegar ég fæddist var vinstri umferð, ekki var hægt að aka hringinn, ekið var yfir fjallvegi til Siglufjarðar, Ólafsfjarðar, Norðfjarðar, Ísafjarðar og Súgandafjarðar.  Vestfirðir einangruðust hálft árið og bundið slitlag var ekki til utan þéttbýlis.  Leiðin til útlanda lá eftir hlykkjóttum vegi um Vatnsleysuströnd og farið var fram hjá hermönnum til að komast út á flugvöll.  Nema að maður færi með Gullfossi með viðkomu í Edinborg á leið til Kaupmannahafnar, eins og fjölskyldan gerði 1967.  Þotur voru ekki til hér á landi og heldur ekki tölvur.  Sveitasíminn var Facebook þess tíma, þ.e. ef maður vildi að öll sveitin vissi eitthvað, þá talaði maður um þau efni í símann (eins og fólk notar Facebook í dag).  Svo má náttúrulega ekki gleyma því að ég er eldri en Surtsey!

Ferð í Fjörðinn var heilmikið ævintýri enda farið yfir Kópavogsháls, Arnarnesháls og framhjá öllum óbyggðasvæðunum sem þarna voru.  Á Íslandi bjuggu um 177.000 manns, á Seltjarnarnesi bjuggu rúmlega 1.300 manns, 6.213 í Kópavogi og Akureyri var næst stærsti bær landsins með 8.835 íbúa.  Vestfirðir voru ennþá fleiri en Austfirðingar, íbúar Norðurlands Vestra og þar bjuggu líka fleiri en í næst stærsta bæjarfélaginu.  Reykvíkingar ríflega 72.000.  Hafnarfjarðarstrætó hökti leið sína og ef maður var heppinn, þá bilaði hann ekki áður en komið var á leiðarenda. Bara þeir allra frökkustu fóru upp að Elliðavatni og þá þótti við hæfi að gista í sumarbústað við vatnið.  Það var góður dagsspölur að fara á Þingvöll og til baka.  Lagt snemma af stað og komið, þegar kvöld var komið, til baka.  Stórvirkjanir landsins voru Steingrímsstöð, Ljósafoss og Írafoss.

Áburðaverksmiðjan og Sementsverksmiðjan voru liggur við einu framleiðslufyrirtæki landsins sem ekki voru í eigu Sambandsins enda var ekkert álver í Straumsvík.  En það gerðist margt á fyrstu 10 árum ævi minnar.  Þjóðfélagið tók stakkaskiptum.

Fyrsta tölvan kom til landsins 1964 frekar en 1965, Búrfellsvirkjun reis og líka álver kennt við Ísal.  Keflavíkurvegur var lagður og helstu leiðir út úr Reykjavík voru bættar.  Strákagöng og Ólafsfjarðargöng voru grafin og sprengd og þar með var vetrareinangrun Siglufjarðar og Ólafsfjarðar rofin. Fyrstu stóru viðburðirnir voru þó Öskjugos, Surtseyjargosið og morðið á Kennedy.  Jú, Bítlarnir komu fram á sjónarsviðið.  1966, nánar tiltekið 30. september, hófust útsendingar sjónvarpsins.  Þær voru í svart-hvítu og til að byrja með tvisvar í viku.  Handboltinn var spilaður í Hálogalandi, en þó eignuðumst við stjörnur á heimsmælikvarða.  Jón Hjaltalín Magnússon fór meira að segja til Svíþjóðar að spila með Drott.  Laugardagshöllin var tekin í notkun 1967 sama ár og Danir niðurlægðu fótboltalandsliðið 14-2.  Ári síðar komu yfir 20.000 manns til að sjá Benfica spila við Val.  Þetta eru einu tvö metin sem ennþá standa.  KR vann sinn síðasta Íslandsmeistaratitil í yfir 30 ár um líkt leiti og síldin hvarf.

Ég var orðinn 10 ára, þegar aðrir en Sjálfsstæðisflokkur og Alþýðuflokkur komust til valda og um líkt leiti gengum við í EFTA.  Nixon og Pompidou heimsóttu Ísland og Fisher og Spassky háðu einvígi aldarinnar.  Tveimur dögum fyrir 12 ára afmælið hófst gos í Heimaey.  Ásgeir Sigurvinsson varð atvinnumaður í knattspyrnu.  Efnahagur þjóðarinnar hrundi og meðalverðbólga var 40% á ári eða svo.  Fermingarpeningar brunnu upp og það gerðu líka húsnæðislán og eignir lífeyrissjóðanna.  Hafi sjöundi áratugurinn verið áratugur pólitísks stöðugleika, þá var sá áttundi allt annað.  Einu tölvurnar sem voru til á landinu voru í sérstökum reiknistofnunum eða skýrsluvélum og komu ýmist frá International Business Machines eða Digital Equipment Corporation.  Við háðum þorskastríð við Breta og Þjóðverja, þegar við færðum landhelgina út í fyrst 50 mílur og síðan 200 mílur.  Lærðum að veiða loðnu og skutum ennþá hval.  Ísbjörn heimsótti Grímseyinga og ekki má gleyma að Hekla tók upp nýtt munstur, gos á 10 ára fresti.  Loksins gátum við keyrt hringinn og nýr vegur kom niður Kambana og upp í Kjós meðan Sléttubúar máttu ennþá aka troðninga til að komast inn á Kópasker. Hræðilegustu lög lýðveldisins voru sett, þegar verðtrygging var leyfð.

Níundi áratugurinn rústaði efnahag heimilanna, enda ruku verðtryggðar skuldir upp úr öllu valdi.  Kvótakerfið var tekið upp um líkt leiti og verðbólgan toppaði í 134%.  Fjármagnseigendur og kvótaeigendur mæra hlutinn sinn, meðan við hásetarnir hörmum okkar.  Jörð skalf og gaus fyrir norðan í einum mestu náttúruhamförum síðari tíma, enda gliðnaði landið um allt að 8 metra!  RÚV missti einkaleyfi á rekstri ljósvakamiðla.  Reagan og Grobasov heimsóttu Höfða og bundu enda á Kaldastríðið.  Kommúnisminn féll í Evrópu.  Einmenningstölvur flæddu inn í landið og tölvusamskipti urðu að veruleika.  Upplýsingaöldin gekk í garð.

Er Ísland betra í dag en á þessum tíma?  Eru vandamálin okkar stærri eða flóknari?  Ég veit það ekki, en hitt veit ég að samfélagið er sífellt að verða flóknara og hættulegra.  Á mínum yngri árum var framið morð á nokkurra ára fresti, núna eru þau mörg á ári.  Fyrirgreiðslupólitík var landlæg, en það var visst siðgæði í vitleysunni.  Fólk gat skilið húsin sín eftir ólæst um nætur og lykla í bílum.  Kerrum var ekki stolið, þó hæg væru heimatökin.  Þetta var tími sakleysisins, nokkuð sem við höfum glatað og kemur ekki aftur.

Það hafa verið forréttindi að lifa þennan tíma, þegar Ísland breyttist úr fiskveiðiþjóð í tæknivætt þjónustu samfélag.  Að fá að taka þátt í þróuninni og byltingunni.  Margt tókst vel og annað fór úrskeiðis.  Hagstjórnarmistökin hafa verið fleiri en tölu verður á komið og þau hafa versnað eftir því sem á ævina hefur liðið.  En við höfum öll tækifæri til að gera gott úr ástandinu, ef við bökkum aðeins og horfum til fortíðarinnar.  Þetta þjóðfélag varð ekki það sem það er vegna eiginhagsmunagæslu og græðgi, þó svo að vandamál dagsins í dag séu vegna þess. 


Önnur uppreisn héraðsdóms - Ætli Hæstiréttur leiðrétti þetta?

Föstudaginn 12. febrúar 2010 gerðist héraðsdómari svo djarfur að dæma fjármálafyrirtæki í óhag og óbreyttum almúganum í hag. Þessi dagur er í minnum hafður, þar sem í fyrsta skipti frá hruni eygði almenningur eitthvert réttlæti. Rúmlega 7 mánuðum síðar...

Stjórnun upplýsingaöryggis er snúin og rannsókn slíkra brota ennþá snúnari

Ólíkt kollegum mínum, sem ræddu við Morgunblaðið, þá þori ég að koma fram undir nafni í uppfjöllun minni um meinta njósnatölvu í húsakynnum Alþingis. Ég sendi raunar bréf á þinghóp Hreyfingarinnar í gærkvöldi, þar sem ég setti fram mínar vangaveltur um...

Spillingin heldur áfram - Þetta lyktar af peningaþvætti

Vigdís Hauksdóttir á heiður skilinn fyrir að upplýsa um þetta mál. Því miður sýnir það og fjölmörg önnur að spillingin er ennþá grasserandi í íslensku viðskiptalífi. Mér er svo sem alveg sama hverjir standa að þessu fjárfestingarfélagi Triton meðan þeir...

Kolvitlaust að sameina bankana - Þeir eru þegar of stórir fyrir tryggingasjóðinn

Það er arfa vitlaus stefna að vilja sameina tvo af stóru bönkunum og síðan láta Byr ganga inn í þann þriðja. Læra menn ekki af reynslunni. Vandamál okkar í dag er að bankarnir voru of stórir og þeir eru ennþá of stórir. Nýleg lög um innstæðutryggingar...

Almenningur hafður að ginningarfíflum - Bankarnir lifa en almenningur tapar öllu

Betur og betur kemur í ljós, að stórir hópar almennra lántaka og lítilla fjárfesta voru hafðir að ginningarfíflum í undanfara gjaldeyris- og bankahrunsins. Fólk var ginnt til að leggja peninga í peningamarkaðssjóði, logið var að því um öryggi...

Ekki má vera með afskipti þegar bankarnir gefa eignir frá sér, en um að gera þegar þeir ganga að eignum almennings

Jóhanna Sigurðardóttir getur stundum verið með ólíkindum. Hún er búin að vera í fararbroddi vinnu sem tryggja á fjármálafyrirtækjum rétt til að eignast allar eignir almennings. Þá mátti skipta sér af ferlinu og um að gera að hlusta ekki á fulltrúa...

Er þetta það sem koma skal? - Enn eitt dæmi um að úrræðin eru ekki að virka

Ákaflega er það þægileg tilviljun, að þessi dómur sé birtur í dag. Hann ætti að vera olía á eld mótmælenda við Alþingishúsið. Ég spyr bara: Er þetta það sem koma skal? Bankarnir lögðu hagkerfið á hliðina. Bankarnir tóku stöðu gegn viðskiptavinum sínum,...

17% þekkja innihaldið en 47% vilja samþykkja

Ég get ekki annað en furðað mig á niðurstöðu þessarar skoðanakönnunar. 47% þeirra sem gefa svar segjast vilja samþykkja Icesave samninginn, en þó segjast aðeins 17% þekkja innihald samningsins. Er ekki allt í lagi? Hafa stjórnvöld hingað til sagt satt og...

Anglósaxneskt fréttamat íslenskra fjölmiðla

Með fullri virðingu fyrir þessum atburði í Tuscon í Arizona, þá skil ég ekki þennan fréttaflutning. Er þetta virkilega mikilvægustu fréttirnar sem hægt er að flytja? Þó svo að bandarískur þingmaður hafi orðið fyrir skotárás og það þyki merkileg frétt þar...

Íslensk lög og stjórnarskrá segja til um friðhelgi einkalífs

Merkilegt er að lesa þessa umfjöllun Morgunblaðsins og raunar Fréttatímans og DV. Hér er blaðamannastéttin að verja sjálfa sig og rétt sinn til að brjóta á friðhelgi einkalífsins. Þær reglur hér á landi sem ganga að ég best veit lengst í því að krefja...

Hæstiréttur gaf fordæmið - Forsendur lánveitanda sem skipta máli ekki lántaka

Lýsing er að bregðast við úrskurði Neytendastofu á sama hátt og Hæstiréttur gerði. Rétturinn velti því ekkert fyrir sér að fjármálafyrirtækin hafi brotið lög heldur hvernig væri hægt að bæta þeim upp tekjumissinn af lögbrotinu. Hæstarétti tókst að gera...

450 milljarðar lánaðir á einum fundi í miðri lausafjárkreppu

Mikið hlýtur Kaupþing að hafa staðið vel. Með nokkurra daga millibili ákveður stjórn bankans að lána vildarviðskiptavinum 450 milljarða kr. og síðan að aflétta ábyrgðum starfsmanna á lánum vegna hlutabréfakaupa. Inni í 450 milljörðunum er sagður vera...

Nær allur raunverulegur hagnaður greiddur út sem arður - Gloppa í skattkerfi

Hún er áhugaverð fréttaskýringin í DV um arðgreiðslur úr nokkrum þekktum fyrirtækjum vegna rekstraráranna 2006 og 2007. Eftirfarandi fyrirtæki eru skoðuð: FL Group: Hagnaður 2006 kr. 44,6 milljarðar, arður 15 milljarðar Exista: Hagnaður 2006 kr. 37,4...

Neytendavernd á Íslandi í hnotskurn - Hún er engin

Ég verð að viðurkenna, að mér kemur þetta nákvæmlega ekkert á óvart. Hér er enn eitt dæmið um það að neytendavernd er besta falli til í skötulíki hér á landi. Hvernig í ósköpunum getur einstaklingur sem er tryggður gegn slysum samkvæmt (að ég reikna með)...

Árið 2010 gerði lítið annað en að dýpka kreppuna

Heilum tveimur árum og nokkrum mánuðum betur frá því að bankarnir hrundu með stæl og lítið hefur þokast við að bjarga landsmönnum úr rústunum. Myndirnar fyrir neðan lýsir best því sem gert hefur verið og bætti um betur á síðasta degi þingsins, þegar...

Árið er nú ekki liðið

Hún er merkileg fyrirsögn þessarar fréttar: Eldgosið ein af stærstu fréttum síðasta árs Til þess að hún væri sönn, þá þarf árið að vera liðið og komið nýtt. Réttari fyrirsögn er: Eldgosið ein af stærstu fréttum ársins sem er að...

Eignaupptaka fest í lög - Engir samningar verða öruggir héðan í frá

Stundum sést stjórnmálamönnum ekki fyrir í asanum. Það er mín skoðun, að lögin um meðferð gengistryggðra lána sé dæmi um slíkt. Með þessum lögum er verið að bjarga því klúðri Gylfa Magnússonar, fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, og Steingríms J....

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband