28.2.2011 | 19:29
Er sæstrengur til Evrópu það sem er best fyrir íslenskt samfélag?
Bloomberg fréttaveitan er með frétt um hugsanlegan útflutning á raforku um sæstreng til Skotlands. Hugmyndin er ekki ný á nálunum, kom líklegast fyrst fram fyrir hátt í 30 árum, a.m.k. tók ég hana til skoðunar við gerð lokaverkefnis míns við Stanford háskóla veturinn 1987 - 88.
Við skulum hafa í huga, að Ísland er þegar einn stærsti útflytjandi raforku þegar. Það er sú raforka sem notuð er við fiskvinnslu, álframleiðslu og aðra raforkufreka framleiðslu á útflutningsafurðum. Þessi notkun raforku er undirstaðan þeirrar efnahagsuppbyggingar sem hér hefur átt sér stað undanfarna áratugi. Önnur hlið á þessu máli er gríðarleg skuldasöfnun þjóðarinnar og gengið hefur verið fulllangt á ýmis náttúrugæði.
Á sínum tíma bar ég hugmyndina um útflutning á raforku um sæstreng undir leiðbeinanda minn, Allan Mann, en hann var á þeim tíma ein helsti sérfræðingur í heiminum varðandi uppbyggingu vatnsaflsraforkuvera. Viðbrögð hans voru heldur snubbótt en þó skýr: Notið raforkuna á Íslandi til að framleiða útflutningsafurðir. Á þeim tíma sem liðinn er hefur ekkert gerst sem sannfærir mig um hið gagnstæða. Ég bý vissulega ekki lengur yfir sambærilegri sérþekkingu á þessum málum, eins og haustið 1988, en hef reynt eftir bestu getu að fylgjast með.
Samkvæmt frétt Bloomberg er verið að skoða að flytja 18 teravattsstundir af raforku árlega til Skotlands. (Landsvirkjun hefur borið þetta til baka og þar segjast menn vera að skoða 4 - 6 TWst, þannig að framleiðslan verði alls 18 TWst.) Samkvæmt vef Landsvirkjunar var ársvinnsla fyrirtækisins 12,2 Twst árið 2009 í 12 orkuverum, þ.e.
- Bjarnarflag 3 MW og 18 GWst,
- Blöndustöð 150 MW og 720 GWst,
- Búrfellsstöð 270 MW og 2,1 TWst,
- Fljótsdalsstöð (Kárahnjúkavirkjun) 690 MW og um 4,6 TWst,
- Hrauneyjafossstöð 210 MW, framleiðsla ekki gefin upp,
- Kröflustöð 60 MW og 480 GWst
- Laxárstöðvar 27,5 MW og 180 GWst
- Sigöldustöð 150 MW og 650 GWst
- Sogsstöðvar 80 MW, framleiðsla ekki gefin upp
- Straumsvík 17 MW varaaflstöð
- Sultartangastöð 120 MW og 880 GWst
- Vatnsfellsstöð 90 MW og 430 GWst
6 Twst er um 50% aukning og ætli Landsvirkjun ekki að segja upp núverandi raforkusölusamningum til stóriðju og loka á sölu til almennings, þá þarf að byggja ný orkuver, endurnýja þau sem eru fyrir og/eða kaupa raforku af öðrum framleiðendum. Nú veit ég ekki hvað mun kosta að byggja þær virkjanir sem þarf til að framleiða 4-6 TWst á ári. Haft er eftir Rögnu Söru Jónsdóttur, fjölmiðlafulltrúa LV, að kostnaðurinn við hverja TWst liggi á bilinu USD 300 - 400 milljónir. Ég geri ráð fyrir að hér hafi eitthvað skolast til og átt sé við kostnað við uppsett afl til að framleiða teravattstundirnar 4-6. Ef svo er, þá er stofnkostnaðurinn á bilinu 140 - 280 milljarðar kr. (1,2 - 2,4 milljarðar USD). Bætum við þetta kostnaðinum við sæstrenginn upp á USD 2,1 milljarðar og fáum heildarkostnað á bilinu 3,3 - 4,5 milljarðar USD (380 - 522 ma.kr.). Bloomberg bendir á að miðað við núverandi markaðsaðstæður fáist 0,3-0,45 milljarðar USD (34-52 ma.kr.) fyrir 4-6 TWst í Bretlandi eða 74 m.USD (8,6 ma.kr.) fyrir hverja TWst. Nú veit ég ekki hvort Ragna Sara tók inn í sína tölu kostnað við flutning á raforkunni frá aflstöð að sæstreng. Líklega yrðu strengirnir margir og færu í hafið á mismunandi stöðum. Þegar verið er að tala um svona stórt verkefni verða örugglega gerðar mun ríkari kröfur um að taka tillit til náttúrunnar. 34-52 m.kr. tekjur af raforkusölu mega ekki verða á kostnað annarra tekna, svo sem af ferðaþjónustu.
Ég reikna með því að svona verkefni verði ekki unnið nema á mjög löngum tíma, líklegast 10-20 árum. Skuldsetning þjóðfélagsins, sem er út úr kortinu núna, verður orðin ein sú hæsta í heimi miðað við landsframleiðslu. Landsframleiðslan eykst vissulega um einhver prósent miðað við núverandi stöðu. Framkvæmdirnar munu valda umtalsverðri þenslu á framkvæmdatímanum, en verði haldið rétt á spilunum, þá verður hún minni en varð af Kárahnjúkavirkjum. Að framkvæmdum loknum er ekki þörf fyrir mikinn mannafla til að reka kerfið.
Gott og vel, eftir 20 - 30 ár verður hugsanlega búið að reisa hér raforkuver um allt land til þess að anna þörf raforkuþyrstra Breta. Spurningin sem við þurfum að svara: Er þetta það sem við viljum? Viljum við verða að raforkuforðabúi fyrir Bretland um ófyrirséða framtíð án þess að það leiði til atvinnusköpunar svo nokkru nemur hér á landi? Um þessar mundir vinna innan við 250 manns hjá LV. Gefum okkur að 50% stækkun á raforkuöflunarkerfinu fjölgi starfsmönnum í sama hlutfalli, þ.e. úr 250 í 375 manns. Gefum okkur síðan að hjá Landsneti (sem sér um flutningskerfið) fjölgi líka um 50%, þ.e. úr 93 í 140 manns og loks að við sæstrenginn starfi um 50 manns. Þá hafa framkvæmdir upp á um 500 milljarða kr. skapað 225 varanleg störf. Það sem meira er: Búið verður að nýta stóran hluta fýsilegra virkjunarkosta og fátt verður um góða staði til að virkja fyrir aðra íslenska atvinnuuppbyggingu. Allt þetta til að fá tekjur upp á kannski 50 ma.kr. á ári. Ég spyr aftur: Er þetta það sem við viljum?
Framtíðarsýn til nýtingu raforku verður að fara saman við framtíðarsýn okkar til atvinnuuppbyggingar. Á hverju ári bætast nokkur þúsund manns á atvinnumarkað. Nýting innlendrar orku er forsenda þess að hægt sé að byggja hér upp nægilega mörg störf. Innlend verðmætasköpun er forsenda hagvaxtar.
Annars er margt svo vitlaust í Bloomberg-fréttinni, að maður veltir því fyrir sér hver tilgangurinn er. T.d. er ekki gerður neinn greinarmunur á raforkuframleiðslu og annarri nýtingu innlendra orkugjafa. Það er líklegast satt, að verið sé að nýta um 18 TWst af innlendri orku, en hátt í þriðjungur fer til húshitunar og sú orka verður ekki nýtt til útflutnings. Síðan hefur Landsvirkjun leiðrétt umfangið og segir það vera 4-6 TWst í stað 18, en viðmælendurnir annað hvort skilja ekki tölurnar eða eru að tala í kross við fréttamann Bloomberg.
Mín skoðun er að ljúka eigi við rammaáætlun um nýtingu orkuauðlinda áður en nokkur ákvörðun um framhaldið er tekin. Gerum hlutina einu sinni rétt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
26.2.2011 | 09:10
Séu einstök fyrirtæki of stór, þarf að takmarka stærð þeirra
Hugmyndir um hækkun innstæðutrygginga voru settar fram af ESB sl. sumar. Í því tilefni birtist frétta á mbl.is 12. júlí undir fyrirsögninni "Innistæðutrygging hækkuð?" Við þessa frétt hengdi ég bloggfærslu sem ég vil endurbirta hérna fyrir neðan. Einnig skrifaði ég færslu um þessa hluti 19. janúar sl. Kolvitlaust að sameina bankana - Þeir eru þegar of stórir fyrir tryggingasjóðinn. Í báðum þessum færslum bendi ég á að innstæðutryggingar sem tryggja eiga íslenskt fjármálakerfi ganga ekki með þá stærð af bönkum sem er hér á landi. Hver banki um sig er einfaldlega of stór fyrir þetta kerfi og tryggingasjóður mun aldrei standa undir því að einn stóru bankanna félli á nefið. En hér er færslan:
Verði þetta að veruleika, þarf að setja tímabundið þak á innlánasöfnun bankanna
Fyrir Alþingi liggur frumvarp, þar sem lagt er til að innstæður verði varðar upp að EUR 100.000. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að greiðslur fari fram að hámarki 20 dögum eftir að Fjármálaeftirlitið hefur úrskurðað að innlánsstofnun hafi verið tekin til slitameðferðar.
Ég veit ekki alveg hvað íslenskum stjórnvöldum gengur til að leggja fram þetta frumvarp. Ekki sé ég að það sé fræðilegur möguleiki á því að ríkissjóður, hvað þá tryggingasjóðurinn hafi fjárhagslegt bolmagn næstu 10 - 15 árin til að standa undir þeim fjárútlátum, sem fall, þó væri ekki nema, eins af stóru bönkunum hefði í för með sér. Vissulega eru sett mikil takmörk á það í frumvarpinu hverjir njóta trygginganna. Þannig eru eftirfarandi innstæður ekki tryggðar
- innstæður í eigu fjármálafyrirtækja,
- innstæður sem tengjast málum þar sem sakfellt hefur verið fyrir peningaþvætti,
- innstæður fyrirtækja sem fjármálafyrirtæki fara með virkan eignahlut í,
- innstæður ríkis, sveitarfélaga, stofnanna þeirra og fyrirtækja að meiri hluta í eigu opinberra aðila,
- innstæður rekstrarfélags verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu,
- innstæður annarra félaga í sömu samsteypu,
- innstæður sem ekki eru skráðar á nafn.
Þrátt fyrir þetta er líklegt að fall eins banka myndi setja ríkissjóð í nær ómögulega stöðu.
Gróft séð má skipta innstæðum í fjóra nokkuð jafna parta, þ.e. bankarnir þrír og síðan aðrir. Falli einhver innlánsstofnun úr hópi hinna minni, þá verður höggið líklegast ekki svo mikið að ríkissjóður geti ekki hlaupið undir bagga. Vandinn verðu mun meiri ef einhver af bönkunum þremur riðar til falls. Þó það gerist er ekki víst að reyni á tryggingasjóðinn, þar sem við hrunið í október 2008 kom í ljós að Íslandsbanki og Kaupþing gátu greitt út sínar innstæður. Landsbankinn hefur ekki ennþá getað gert það gagnvart Icesave-innstæðueigendum.
Um síðustu áramót voru innlán í íslenskum innlánsstofnunum um 1.660 milljarðar, samanborið við rúmlega 3.120 milljarða 30.9.2008. Samkvæmt útreikningi Talnakönnunar fyrir efnahags- og viðskiptaráðuneytið var gert ráð fyrir að um 530 milljarðar væru tryggðir miðað við 50.000 evru tryggingu (prentvilla í athugasemd með frumvarpinu, en þar segir 100.000 evrur). Hækkum upphæðina í 100 þ.EUR og gengi evru upp á 150, þá má gera ráð fyrir að tryggðar innstæður gætu verið allt að 650 milljarðar, þó sú tala sé líklegast í hærri kantinn. (Höfum í huga að eingöngu 1% innstæðureikninga einstaklinga og 4% hjá fyrirtækjum voru með hærri innstæðu en 10 m.kr. annars vegar í lok september 2008 og hins vegar árslok 2008, samkvæmt útreikningum Talnakönnunar.)
Gerum nú ráð fyrir að einn stóru bankanna falli, en hann eigi fyrir 70% af innlánum. Þá standa eftir um 50-60 milljarðar. Reynslan sýnir okkur aftur, að falli einn banki, þá eru miklar líkur á því að hinir fylgi með. Við erum því hugsanlega að tala um að tryggingasjóðurinn þurfi að reiða fram 150-180 milljarða innan viku frá því að bankarnir hrynja. Þið verðið bara að afsaka, en ég sé það ekki gerast. Ekki má gleyma því að áhætta eykst eftir því sem bankarnir stækka og ekki er það markmið þeirra að minnka.
Ef ég á að segja eins og er, þá er eina leiðin til þess að Ísland geti uppfyllt væntanlega tilskipun ESB og þau lög sem liggja í frumvarpi fyrir Alþingi, að setja hömlur á vöxt innlána hjá bönkunum þremur þar til að hér hefur verið komið á betra eftirliti með fjármálafyrirtækjum, regluverk fyrir fjármálakerfið hefur verið stórlega eflt og hér eru framkvæmd alvöru álagspróf. Framtíðarsýnin sem fellst í nýju tryggingakerfi er þess eðlis, að það þarf margar hæfilega stórar einingar í stað þriggja risastórra. ESB er ekki að gera þannig breytingar (samkvæmt fréttum) á tryggingakerfinu, að það henti íslenskum aðstæðum. Hærri tryggingafjárhæð gerir ástandið bara erfiðara í litlum hagkerfum. Telji menn þetta svartsýnistal hjá mér, þá segir reynsla sögunnar okkur annað.
![]() |
Ríkið verði að hlaupa undir bagga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Í gær féll ótrúlega furðulegur dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Sjómannafélagi Íslands gegn Arion banka. Sjómannafélagið krafði Arion banka um endurgreiðslu á ofgreiðslu sem innt var af hendi frá lántökudegi. Upphaflega var lánið 15 m.kr. til 20 ára, en Sjómannafélagið greiddi það upp á 3 árum, alls 37 m.kr. Krafði Sjómannafélagið Arion banka um tæpar 20 m.kr. í ofgreiðslur miðað við að lánið félli undir fordæmisgildi dóma Hæstaréttar í málum nr. 92/2010, 153/2010 og 471/2010. Héraðsdómari féllst á þá kröfu Sjómannafélagsins að framangreindir dómar væru fordæmisgefandi fyrir umrætt lán, þ.e. lánið væri með ólöglega verðtryggingu í formi gengistryggingar. En núna kemur að hinum ótrúlega þætti í málinu:
Dómarinn ákvað að ábyrgð Arion banka á láninu næði bara aftur til þess dags, þegar lánið var formlega tekið yfir af bankanum, þ.e. 8. janúar 2010.
Dómarinn ákvað sem sagt að rök Arion banka ættu að gilda, en um það segir í dómnum:
Stefndi segir að skuldabréf stefnanda hafi ekki verið á meðal þeirra eigna sem framseldar voru frá Kaupþingi banka til Nýja Kaupþings banka 21. október 2008. Skuldabréfið hafi ekki verið framselt stefnda fyrr en 8. janúar 2010. Hann hafi því aðeins tekið við síðustu greiðslunni af bréfinu, 5.901.515 krónum, sem innt var af hendi 13. janúar 2010. Fram til þess tíma hafi stefndi tekið við greiðslum í umboði annars aðila, fyrst Kaupþings banka og síðar Seðlabanka Íslands.
Eins og ég segi, þá veit ég ekki hvort ég eigi að hlæja eða gráta. Fáránleikinn í þessu máli er að Arion banki og áður Nýja Kaupþing sáu um innheimtu á lánum sem voru í eigu þriðja aðila, í þessu tilfelli Kaupþings banka og síðar Seðlabanka Íslands. Ég hef ekki hugmynd um hvort skuldarinn hafi vitað um það, að Arion banki/Nýja Kaupþing hafi eingöngu staðið í innheimtu fyrir raunverulegan eiganda eða ekki.
Það virðist ekki koma málinu við að þegar Nýja Kaupþing var stofnað var gegnið út frá því að bankinn tæki yfir réttindi og skyldur gamla bankans. Sjómannafélagið hefði því mátt ganga út frá því að svo hafi einnig verið þegar þetta lán var yfirtekið. Niðurstaða héraðsdóms er samt sú að Sjómannafélagið þarf að fara í mál við Seðlabanka Íslands til að fá endurgreitt það sem ofgreitt var meðan lánið var í eigum bankans og síðan virðist mér sem best fyrir félagið að láta þar við sitja. Með þessu fær félagið endurgreitt kr. 5.901.515 frá Arion banka og kr. 11.782.549 frá Seðlabankanum eða alls kr. 17.684.064 vegna ofgreiðslna á tímabilinu frá 1.1.2009 til 13.1.2010. Það kemur síðan í hlut slitastjórna eða skiptastjórnar Kaupþings banka að krefja Sjómannafélagið um "vangreiðslurnar" fyrir tímabilið frá lántökudegi og þar til Seðlabankinn eignaðist lánið. Sé ég nú ekki fyrir mér að slitastjórn/skiptastjórn leggist með miklum þunga í þá innheimtu, þar sem þá verða starfshættir Kaupþings banka dregnir inn í máið.
Skaut Arion banki sig í fótinn?
Ég get ekki annað en velt fyrir mér afleiðingum þessa dóms. Nú eru fjármálafyrirtækin á fullu eða endurreikna fyrrum gengistryggð lán, mörg hver allt að 10 ár aftur í tímann. Getur verið að þau hafi ekki heimild til þess vegna aðildarskorts. Getur verið að NBI ehf. sé ekki aðili að lánum sem tekin voru hjá Landsbanka Íslands fyrr en eftir yfirtöku þeirra? Gildir það sama um Íslandsbanka? Er Arion banka ekki heimilt að endurreikna lánin sem hann tók yfir 8. janúar 2010 nema frá þeim degi? Í því fólust rök Arion banka.
Réttindi og skyldur er snúið par. Hafi Arion banki ekki skyldur gagnvart láni Sjómannafélags Íslands nema eftir 8. janúar 2010, þá hefur bankinn ekki heldur réttindi gagnvart láninu nema frá þeim tíma. Þrautavarakrafa Arion banka er, t.d., að bankinn endurgreiði ekki ofgreiðslur sem áttu sér stað áður en bankinn var stofnaður í október 2008. Aftur, hafi bankinn ekki átt skyldur fyrir þann tíma, þá átti hann ekki heldur réttindi. Hver á þá slík réttindi og skyldur? Jú, Kaupþing banki. Hvaða réttindi og skyldur eru það? Að gera upp lán í samræmi við dóma Hæstaréttar frá 16. júní og 16. september 2010. Dettur nokkrum heilvita manni í hug, að Kaupþing banki láti reyni á vangreiðslur nokkur ár aftur í tímann? Samkvæmt tölum í dómi héraðsdóms eru vangreiðslur frá lántöludegi til og með 1.10.2008 kr. 949.511 ef miðað er við óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands. Rökstuðningur Arion banka gengur út á, að ekki sé hægt að krefja bankann um endurgreiðslu á ofgreiðslu sem átti sér stað áður en "stefndi var stofnaður", eins og segir í dómnum.
Þetta er einmitt atriðið þar sem mér finnst Arion banki skjóta sig og keppninauta sína í fótinn: Sé ekki hægt að sækja ofgreiðslur til Arion banka sem áttu sér stað áður en Nýja Kaupþing var stofnað vegna aðildarskorts (miðað við málflutninga annars staðar), þá getur Arion banki ekki heldur krafið lántaka um vangreiðslur vegna gjalddaga áður en bankinn var stofnaður. Réttindi og skyldur Arion banka hljóta að gilda frá sömu dagsetningu. Nú verður Arion banki að ákveða sig frá hvaða dagsetningu þessi réttindi og skyldur bankans eiga að gilda. Þangað til bankinn hefur ákveðið sig, þá er það mín skoðun að enginn lántaki eigi að samþykkja kröfur bankans um vangreiðslur vegna gjalddaga fyrir 8. október 2008. Þessu til viðbótar eiga lántakar að krefjast upplýsinga um það hvenær bankinn tók yfir lán frá Kaupþing banka eða Seðlabanka Íslands og hafna öllum kröfum Arion banka um vangreiðslur fram að þeim tíma. Lántakar eiga aftur á móti að standa fastir á því að höfuðstóll lána þeirra verði leiðréttur, harðneita að ofan á höfuðstólinn verði bætt vangreiddum vöxtum fyrri ára. Eins og Arion banki segir sjálfur í vörn sinni fyrir héraðsdómi, þá er bankinn ekki aðili að þeim hluta kröfunnar.
Er afturvirkni vaxta þar með í reynd úr sögunni?
Ég get ekki annað en valt því fyrir mér hvort með þessu sé afturvirkni vaxtanna úr sögunni, a.m.k. í því tilfelli þar sem krafan/lánið hefur flust á milli kennitalna. "Vangreiddir" vextir ná í öllum tilfellum til gjalddaga áður en þríburarnir féllu. Krafan vegna vangreiðslu ætti því að eiga uppruna sinn hjá þeirri fjármálastofnun sem var handhafi skuldabréfsins á þeim tíma sem "vangreiðslan" átti sér stað. Þær fjármálastofnanir eru nær allar með tölu farnar á hausinn. Því til viðbótar tóku mörg þessara fjármálafyrirtækja og eigendur þeirra á grófan hátt stöðu gegn viðskiptavinum sínum, bæði með markaðsmisnotkun varðandi verð hlutabréfa og ekki síður í stöðutöku gegn krónunni í þeim, að því virðist, eina tilgangi að fella krónuna og græða sem mest á falli hennar.
Ég hlakka til að hlusta á málflutning Kaupþings banka, þegar reynt verður að innheimta vangreidda vexti. Þó svo að slitastjórn/skiptastjórn hafi ekki verið þátttakendur í svikunum, lögbrotunum og prettunum, þá þyrftu þessir aðilar að verja hátterni stjórnenda og eigenda bankans. Sé ég það ekki fyrir mér gerast.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.2.2011 | 15:37
Ef við tökum Björgólf út úr jöfnunni, þá er Ísland í lagi - Hvern er verið að blekkja?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.2.2011 | 14:59
Ekkert ferli stoppar ásetning til illra verka - Málið er að uppgötva illvirkin í tæka tíð
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (62)
15.2.2011 | 21:12
Árni Páll fer með fleipur - Úrskurður Hæstaréttar nær til lán óháð tilgangi og veði
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.2.2011 | 13:12
Hafnar Hæstiréttur afturvirkum vaxtaútreikningi? - Eðli veðs eða lengd lánstíma breytir ekki vöxtum
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.2.2011 | 14:45
Virðisaukaskattssvik fjármögnunarleiga? - Stóru fiskarnir sleppa en þeir litlu eru gripnir
Bloggar | Breytt 21.2.2011 kl. 18:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
12.2.2011 | 15:18
Hvaða framfærsluviðmið eiga við?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.2.2011 | 13:21
Dómsorð að friðhelgiákvæði sé leyfilegar skorður á tjáningafrelsi
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.2.2011 | 13:06
Er aðkoma Samtaka atvinnulífsins að kjarasamningum brot á samkeppnislögum? - Röng taktík launþegahreyfinga dregur úr launahækkunum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.2.2011 | 09:23
Ótrúleg játning varaformanns Sjálfstæðisflokksins: Óvanalegt að foringi í stjórnarandstöðu standi með því sem er rétt fyrir þjóðina
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
7.2.2011 | 20:53
Ekki láta blekkjast. Grunnviðmið er án bíls og húsnæðis.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
7.2.2011 | 19:31
Nú er ég hlessa - Viðmið sem sýna raunveruleikann
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.2.2011 | 12:51
Upplýsingar um heiðarleg viðskipti óskast
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
5.2.2011 | 13:22
Gróf sögufölsun
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
4.2.2011 | 17:02
Frétt um fund eða fréttatilkynning og auglýsing - Hjáróma fagurgali meðan að tjónið hefur ekki verið bætt
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.2.2011 | 14:31
Maður að meiri - fordæmi fyrir aðra í sömu sporum
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.2.2011 | 17:34
Frjálst þjónustuflæði á líka við útsendingar íþróttaleikja - Kaupa má áskrift á Grikklandi og horfa á útsendingu í Englandi
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.9.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði