Leita í fréttum mbl.is

Íslensk lög og stjórnarskrá segja til um friðhelgi einkalífs

Merkilegt er að lesa þessa umfjöllun Morgunblaðsins og raunar Fréttatímans og DV.  Hér er blaðamannastéttin að verja sjálfa sig og rétt sinn til að brjóta á friðhelgi einkalífsins.  Þær reglur hér á landi sem ganga að ég best veit lengst í því að krefja opinbera aðila um að gefa upp fjárhagsleg tengsl sín eru reglur Alþingis um hagsmunatengsl þingmanna.  Í þeim vekur sérstaka athygli eftirfarandi setning í 2. gr. reglnanna:

Ekki skal skrá fjárhæð eða verðgildi þeirra þátta sem eru tilgreindir í greininni.

Nákvæmlega.  Friðhelgi þingmanna nær til þess, að þó þeir þurfi að greina frá atriðum sem talin eru upp í 11 töluliðum, þá þurfa þeir ekki að greina frá fjárhæðum eða verðgildi

Opinber persóna eða ekki, þá á einstaklingurinn rétt til friðhelgi einkalífs að því marki sem hann kýs.  Það er ekki fjölmiðla að ákveða hvenær slík friðhelgi er rofin.  Vilji Eiður Smári eða einhver annar bjóða fjölmiðlum í heimsókn til sín, þá er það hans val, en með því var hann ekki að opna alla skápa í húsinu fyrir hnýsni.  Umfjöllun um ferli knattspyrnumannsins Eiðs Smára Guðjohnsen opnar ekki fyrir að hver sem er geti fjallað í óþökk hans um heimilislíf hans, eins og ráða má af málflutningi verjenda.

Ég hef á undanförnum árum fylgst ágætlega með ferli Eiðs Smára Guðjohnsen og ferðalagi hans á milli fótboltafélaga.  Aldrei á þessum tíma man ég eftir því að upplýsingar um laun hans eða söluverð hafi komið frá honum sjálfum.  Hann hefur raunar reynt að fara leynt með slíkar upplýsingar og þær alltaf byggt á getgátum fjölmiðla.  Getgátum sem er hann hefur alltaf kosið að hunsa.  Slíkar getgátur, sem ekki er svarað, gefa fjölmiðlum ekki opið skotleyfi á fjármál hans.  Það sem meira er að hnýsni í fjármál til opinberrar birtingar er brot á íslenskum lögum.

Ef það væri vilji löggjafans að fjármál "opinberrar persónu" væru opinber, þá væri vafalaust til lagagrein sem fjallaði um það.  Svo er ekki.  Í staðinn er í stjórnarskrá, lögum um mannréttindasáttmála Evrópu, hegningarlögum og lögum persónuvernd og meðferð persónuupplýsingar lögð áhersla á rétt fólks til friðhelgi einkalífs.  Að það eigi rétt á því að halda því leyndu sem eðlilegt er að leynt megi fara.  Sé hnýsni í fjármál leyfð, hvað verður þá næst?  Hvað fólk borðar, hvernig það talar við maka sinn og börn, kynlíf fólks?  Ákvæði um friðhelgi einkalífs væri ekki að finna í íslenskum lögum nema til að vernda einkalíf fólks.  Vilji viðkomandi að upplýsingar um hann séu birta, þá er það hans val, en hann hefur líka rétt til að neita því.

Ég tók eftir því um daginn, þegar ég vildi komast hjá því að tilteknar upplýsingar um fjármál okkar hjóna væru birtar, þá glamraði í fréttastjórunum tveimur að ég væri að reyna ritskoðun.  Þetta er kunnuglegur frasi hjá þeim sem hafa lélegan málstað að verja.  Vilji maður ekki opinbera umfjöllun, þá er maður að brjóta á tjáningarfrelsi viðkomandi blaðamanns.  Tjáningarfrelsisákvæði var sett í stjórnarskrá til að verja rétt fólks til að tjá skoðanir sínar, skoðanir sem í leiðinni brytu ekki á rétt annars einstaklings.  Tjáningarfrelsisákvæðið hefur ekkert með það að gera, að fréttamaður hafi frelsi til að birta upplýsingar sem lúta að friðhelgi einkalífsins enda eru slíkar upplýsingar ekki skoðun.  Hömlur á birtingu slíkra upplýsinga skerða því ekki tjáningarfrelsið. 

Hvort það er tilraun til ritskoðunar að vernda einkalífslegar upplýsingar er deila sem seint verður leidd til lykta.  Fjölmiðlar verða að fara að lögum.  Skerði lög rétt fjölmiðla til að birta upplýsingar, þá er það ekki ritskoðun, það er einfaldlega sá lagarammi sem fjölmiðillinn býr við.   Fjölmiðlar eru sífellt að túlka þau mörk sem lögin setja þeim og reyna að teygja þau lengra og lengra. Stundum tekst þeim að fara inn á nýjar slóðir vegna grandvaraleysis þess sem fjallað er um eða einfaldlega vegna þess að viðkomandi hefur ekki kjark, þor eða getu (m.a. fjárhagslega) til að fara með mál sitt fyrir dóm eða siðanefnd Blaðamannafélagsins.  Með því myndast fordæmi sem fjölmiðillinn nýtir sér (eða aðrir) til sambærilegrar umfjöllunar um aðra.  En loks kemur að því að einhver hefur getuna og viljann til að fara með mál fyrir dómstóla og þá er mikilvægt að dómstólar dæmi eftir lögunum, en ekki því að eitthvað hafi fengið að viðgangast.

Þó Eiður Smári vinni mál sitt gegn DV mun það ekki koma í veg fyrir að fleiri nákvæmlega eins fréttir verði birtar.  Það er nefnilega með fjölmiðlafólk, eins og marga aðra, að minni þessi á dóma og lög er ákaflega dapurt.  Þetta sýna hin fjölmörgu meiðyrðamál sem fallið hafa fjölmiðlum í óhag.  Mörg virðast þau vera keimlík.  Ég er ekki hlynntur því að sett verði einhver fjölmiðlanefnd til eftirlits með fjölmiðlum.  Hver fjölmiðill verður að kunna að fara með vald sitt.  Hann verður að átta sig á því sjálfur hvað er leyfilegt og hvað ekki.  Tjáningarfrelsi hefur ekkert með það að gera að setja megi hvað sem er á prent, út á öldur ljósvakans eða á vefinn.  Ekki má rugla saman ritfrelsi og tjáningarfrelsi.  73. gr. stjórnarskrárinnar kveður á um tjáningarfrelsi og segir að ekki megi koma á ritskoðun til að hamla tjáningarfrelsi.  Þar er líka skilgreint að tjáningarfrelsið felist í þeim rétti að láta í ljós hugsanir sínar, þ.e. skoðun.  Í 2.tl. 10. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu segir um tjáningarfrelsi:

Þarna segir að tjáningarfrelsinu megi setja skorður, þ.e. formsreglur, skilyrði, takmörkunum og viðurlögum.  Það vill svo til að 73. gr. stjórnarskrárinnar er útfærsla á 10. gr. laga um mannréttindasáttmálans.

Í almennum hegningarlögum 19/1940 er í XXV. kafla fjallað um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs.  Þar segir í 229. gr.:

Hver, sem skýrir opinberlega frá einkamálefnum annars manns, án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi, er réttlæti verknaðinn, skal sæta sektum eða [fangelsi]1) allt að 1 ári.

Nú spyr ég hvað telst "að nægar ástæður séu fyrir hendi".  Þegar kemur að fjölmiðlum, þá snýst málið oftar en ekki um að selja blað eða auglýsingar.  Verjendur í máli Eiðs Smára gegn DV óttast að vinni Eiður málið, þá geti "útrásarvíkingarnir" farið í mál við blaðið.  Ég verð að viðurkenna að himinn og haf er á milli ástæðu DV til að fjalla um skuldamál Eiðs og þess að fjalla um málefni manna sem settu hagkerfið á hausinn.  Þessi málatilbúnaður verjendanna lýsir hve slæmt málefni þeir eru að verja.  Hvernig getur mönnum dottið í hug að bera saman stöðu íþróttamanns, sem mér vitanlega hefur ekki gert á nokkurs manns hlut, og manna sem hafa líklega kostað hagkerfið og þjóðarbúið fleiri þúsund milljarða.  Síðan má ekki gleyma því, að "útrásarvíkingarnir" eru með lagalega skyldu til að upplýsa opinberlega um fjárhagslega stöðu félaga í þeirra eigu hvort heldur þau eru skráð hér á landi eða öðrum ríkjum Evrópu.  Ég vona innilega að fréttamat DV sé ekki jafn dapurt og þessi rökstuðningur lögmanna þeirra DV manna. 

Mergur málsins í þessu máli og svo mörgum öðrum er þetta ákvæði 229. gr. hegningarlaga.  Ekki má greina frá einkamálefnum annars manns nema nægar ástæður eru fyrir hendi.  Þetta ákvæði er búið að vera í lögunum frá upphafi.  Túlkun þess hvað telst "að nægar ástæður séu fyrir hendi" eru aðrar í dag en 1940.  Það bara skiptir ekki máli.  Lögskýringin sem kemur fram í greinargerð/athugasemdum með frumvarpinu gilda og þar er ég alveg handviss um, að hnýsni í skuldastöðu vegna þess að viðkomandi er áberandi í þjóðfélaginu án þess að hafa gert nokkuð annað af sér telst ekki "að nægar ástæður séu fyrir hendi".

Þetta er nú orðin lengri umfjöllun, en ég ætlaði mér.  Ástæðan er að fjölmiðlar hafa verið duglegir við að fjalla um málið í dag.  Áhugi þeirra á þessu máli er skiljanlegur, þar sem það snýst um hve langt fjölmiðlum er leyfilegt að ganga í hnýsni þeirri um einkamálefni einstaklings. Er það að vera áberandi í umræðu, svo kölluð opinber persóna, næg ástæða til að viðkomandi búi við skerta friðhelgi einkalífs eða hafi jafnvel misst friðhelgina alveg?  Sé friðhelgin skert, að hvaða leiti er hún skert?  Ræður fjölmiðlafólk því hverjir njóta friðhelginnar og hverjir ekki?  Hvenær er einstaklingurinn sviptur friðhelginni og hvaða hluta friðhelginnar er hann sviptur?  Eru það fjárhagsleg málefni í dag, kynhegðun á morgun, drykkjusiðir hinn daginn, kækir hans fjórða daginn og fortíðardraugar fimmta daginn?  Þetta þarf héraðsdómur skera úr um.  Málið snýst ekki um hvaða upplýsingar voru birtar eða hvort þær voru réttar eða rangar.  Málið snýst um hver það er sem ákveður hvort Pétur eða Páll skuli njóta friðhelgi einkalífs síns og hvaða þátta einkalífsins friðhelgin nær til.


mbl.is Verður að sætta sig við umfjöllun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjalti Tómasson

Eins og þú hefur nú reynt á eigin skinni þá eru menn fyrir löngu búnir að átta sig á að þarna er góð aðferð við að gera fólk ótrúverðugt og eða gera því erfitt fyrir í störfum sínum.

Það er yfirleitt nóg að birta lauslega orðaðar fréttir um t.d fjármál einstaklinga, burt séð frá hvort einhver fótur er fyrir fréttinni eða ekki. Fjölmiðlar eru í fæstum tilvikum feimnir við að taka þátt í þessum leik ( nema í þeim tilvikum sem um eigendur þeirra er að ræða ) heldur skáka í því skjólinu að hér sé um tjáningarfrelsi að ræða og þeir séu að uppfylla skyldur sínar við almenning sem eigi rétt á að vita. Þeir hafa semsagt tekið sér það vald að ákveða fyrir almenning hvað hann vill vita og hvað ekki. Mér hefur skilist að fjölmiðlamönnum sé ekkert um að sett sé á stofn eitthvað batterý til að fylgjast með umfjöllun þeirra og segjast þeir óttast að um ritskoðun sé að ræða. Það er að segja, þeir vilja sjálfir hafa þetta vald í sínum höndum ( og eigenda sinna ) og telja að fjölmiðlanefnd verði störfum sínum til trafala. Fyrir einstaklinga gæti hinsvegar slík nefnd orðið til þess að fjallað verði um mál þeirra eftir öðrum mælikvarða en þeim hvort fréttin selur eða að erfiðara verði fyrir óprútna aðila að nota fjölmiðla til að sverta mannorð fólks þó skoðanir þess séu ekki í samræmi við hagsmuni einhvers hóps eða fyrirtækja.

Hjalti Tómasson, 7.1.2011 kl. 18:31

2 Smámynd: ThoR-E

Manni hefur frekar fundist að til dæmis ef litið er til dóma undanfarið að þá falla þeir oftar blaðamanninum í óhag og þurfa þeir þá að borga bætur og orð dæmd ómerk. Meira að segja sér maður blaðamenn dæmda fyrir orð annara, þótt vitnað sé í viðmælendur orðrétt, að þá eru þeir dæmdir.

En þetta hefur auðvitað verið mismunandi eftir málum.

ThoR-E, 7.1.2011 kl. 18:40

3 Smámynd: Elle_

Algerlega: Friðhelgi einkalífsins er ekki skoðun og kemur ekki tjáningarfrelsi við.  Verst að ekki hafa allir nægan skilning eða æru í þessu efni og halda sig geta útvarpað öllu um alla og án samþykkis viðkomandi manna. 

Elle_, 7.1.2011 kl. 20:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 1678172

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 44
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband