Leita í fréttum mbl.is

Óþarfa annmarkar á kosningum til stjórnlagaþings - Hvenær verða kosningar rafrænar?

Í íslenskum lögum eru skýr ákvæði um framkvæmd kosninga.  Hæstiréttur hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að kosningarnar til stjórnlagaþings hafi ekki uppfyllt þessar kröfur í nokkrum atriðum. Ég fæ ekki betur séð en að þeir annmarkar sem Hæstiréttur nefnir séu allir hræðilega klaufalegir og gjörsamlega óþarfir.

Þau atriði sem kærð voru til Hæstaréttar snúa flest að framkvæmd kosninganna, þó tvö þeirra snúi að talningunni.  Þessi sem snúa að framkvæmdinni vöktu furðu mína, þegar ég kaus sjálfur.  Hér fyrir neðan skoða ég hvert atriði og bendi á hve litlu hefði þurft að breyta til að þetta atriði hefði verið í lagi.

  1. Númeraðir kjörseðlar:  Einhverra hluta vegna ákvað kjörstjórn að hafa kjörseðla númeraða svo hægt væri að sækja einstaka kjörseðla, ef vandamál kæmu upp í myndgreiningu á atkvæðinu.  Með þessu, þá er hægt að rekja hvar atkvæðið var greitt og líklegast á hvaða tíma.  Með aðstoð eftirlitsmyndavéla væri síðan hægt að rekja hver hefði líklegast greitt atkvæðið, a.m.k. í fámennari kjördeildum.  Ég skil vel að menn hafi verið hræddir við nýtt talningarfyrirkomulag og viljað hafa vaðið fyrir neðan sig, en kjörseðlana hefði mátt númera eftir á með því að setja þá í gegn um prentvélar sem prentað hefðu númer á bakhlið seðlanna.
  2. Ekki þurfti/mátti brjóta kjörseðlana saman:  Ég heyrði fyrir kosningar að ekki hafi mátt brjóta kjörseðlana saman, þar sem það hefði aukið líkur á erfiðleikum við lestur atkvæðanna, brotið hefði getað lent ofan í það sem skrifað var á seðilinn.  Einnig hefði farið mikill tími í að slétta seðlana fyrir lestur í talningavél.  Hér hefði verið einfaldast að setja brot í kjörseðlana fyrirfram og gæta þess að brotið lenti á réttum stað.  Í öðrum kosningum hefur ekki verið neitt vandamál að kjörseðlar væru brotnir saman og varla hefði það vafist fyrir vönu talningafólki að undirbúa seðlana í þetta sinn.
  3. Kjörkassa voru opnir og ekki úr traustu efni:  Ég verð að viðurkenna, að mér fundust kjörkassarnir heldur aumingjalegir.  Þeir voru notaðir, þar sem ekki mátti brjóta kjörseðilinn saman, en hefði það verið heimilt, þá hefði verið hægt að nota gömlu góðu kjörkassana.  Eins og ég bendi á að ofan, þá var þessi takmörkun á að brjóta kjörseðlana saman algjörlega óþörf og þar með líka þessi framkvæmd.
  4. Opnir kjörklefar:  Mér skilst að kjörklefarnir sem voru notaðir við kosningar til stjórnlagaþing hafi verið þeir sömu og vegna Icesave.  Þar sem ég kaus utankjörfunda vegna Icesave, þá þekki ég það ekki.  Kjörklefarnir báru þess merki að menn væru að spara.  Líklegast er vandamálið, að það vantar skilgreiningu í lög um það hvaða skilyrði kjörklefar þurfa að uppfylla, þ.e. hæð skilrúma, lýsing og hvort og þá hvernig hægt sé að loka þeim.  Ég sé í sjálfu sér ekki að þessir kjörklefar svipti mig tækifæri til leyndar um það hvernig ég nota atkvæðið mitt, en ég þarf að hafa meira fyrir því að verja leyndina.  Þó svo að það sé tjald fyrir kjörklefa, þá er ekkert sem segir að ég verði að draga fyrir (að ég best veit).  Tjaldið er hjálpartæki.  Í þessum kosningum var ætlast til að einstaklingurinn notaði líkama sinn í stað tjaldsins.  Þetta atriði byggði því á sparnaði og var algjörlega óþarft.
  5. Að talning hafi ekki farið fram fyrir opnum dyrum:  Ég hef aldrei vitað til að þetta væri vandamál og finnst þetta vera hártogun hjá Hæstarétti.  En rétturinn er fastur í formsatriðum og því er um að gera að týna þau öll til.  Aftur er þetta atriði sem auðvelt hefði verið að framkvæma rétt og aftur er það hræðsla manna við nýtt fyrirkomulag, sem rekur menn út í þessa vitleysu.
  6. Frambjóðendur höfðu ekki fulltrúa:  Spurningin hér er hvort það hafi verið réttur frambjóðenda að eiga fulltrúa við talninguna eða hvort það var skylda landskjörstjórnar að tryggja að fulltrúi frambjóðenda væri viðstaddur.  Ég hef ekki næga lagaþekkingu til að vita það, en Hæstiréttur setur út á þetta.  Enn og aftur er þetta heldur aumingjalegt atriði, sem sáraeinfalt hefði verið að hafa rétt.

Með einni undantekningu, þ.e. opinn kjörklefi, þá má rekja öll atriðin til þess að menn panikeruðu vegna fjölda frambjóðenda.  Vegna fjöldans voru fengnar talningavélar og talningakerfi sem skannaði inn alla seðlana.  Menn voru óöruggir með virkni kerfisins og vildu hafa vaðið fyrir neðan sig.  Af þeirri ástæðu voru kjörseðlar númeraðir fyrirfram, ekki mátti brjóta þá saman og þeir voru settir í kjörkassa þannig að lítil hætta væri á því að þeir krumpuðust eða yrðu fyrir hnjaski að öðru leiti.  Að talningin væri ekki opnari en raun bar vitni helgast líklegast af því, að menn vildu ekki hafa almenning hangandi yfir öxlum sér meðan verið var að ráða fram úr tæknilegum vandamálum.  Þetta með fulltrúa frambjóðenda við talningu, þá ber það pínulítið vott um yfirlæti en má líklegast skrifa á klaufaskap.

Rafrænar kosningar

Niðurstaða Hæstaréttar kallar á að sem fyrst verði farið út í notkun rafrænna aðferða við kosningar.  Ætlunin var að hafa slíkt fyrirkomulag í minnst tveimur sveitarfélögum sl. vor, en hrunið kom í veg fyrir það.  Samgönguráðuneytið þurfti að spara og gat ekki séð af þeim peningum sem þurfti í verkið.

Það vill svo til, að ég er einn af þeim sem skoðað hafa fyrirkomulag rafrænna kosninga.  Haustið 2006 var ég beðinn um að skoða rafrænt kosningakerfi sem Samfylkingarfélag Reykjavíkur notaði fyrir prófkjör vegna þingkosninga sem voru vorið 2007.  Um svipað leiti héldu Eistar kosningar sem voru rafrænar og Indverjar nota rafrænar kosningavélar í mörgum kjördæmum.  Í jafn tæknivæddu landi og Íslandi, þá á þetta ekki að vera mikill vandi.  Niðurstaða Hæstaréttar í gær segir mér þó að vanda þurfi til verksins, bæði varðandi lagasetningu og framkvæmd.  Skora ég á innanríkisráðherra að stofna strax starfshóp um verkið svo hægt sé að færa kosningar hér á landi yfir í nútímalegra form.


mbl.is Niðurstaðan vel rökstudd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Maelstrom

Mér fannst nú hálf aumingjalegt vælið í stjórninni í kjölfar dómsins. 

Jóhanna talaði um að "ákveðnir aðilar" vildu eyðileggja stjórnlagaþingið og það mætti ekki láta þá komast upp með það.  Það er hálf furðulegt að heyra forsætisráðherra tala þannig til Hæstaréttar.  Hún segir það eiginlega beint út að hæstaréttadómarar hafi verið í eigin hagsmunagæslu en ekki að dæma að lögum.  Furðulegt.

 Ögmundur var ekki mikið skárri. ENGINN, endurtók hann aftur og aftur, ENGINN skaðaðist af þessu klúðri.  Bara stormur í vatnsglasi.  Kannski maður ætti að nota þetta þegar maður er tekinn fyrir að keyra of hratt, keyra fullur eða keyra yfir á rauðu ljósi.  Ef maður er ekki búinn að keyra yfir einhvern þá eru það bara djöfulsins leiðindi í löggunni að vera eitthvað að sekta mann fyrir svona smámál.

Furðulegur málflutningur hjá æðstu mönnum í ríkisstjórn.  Bara gert lítið úr lögum og dómum hæstaréttar og allt kerfið rakkað niður.  Mér finnst þetta nú eiginlega meiri árás á stjórnkerfi landsins heldur en þessi friðsömu mótmæli nímenninganna voru.

Maelstrom, 26.1.2011 kl. 17:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.9.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 1679456

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband