Leita í fréttum mbl.is

Lengra verður ekki gengið - Sjálfbærni er ekki fyrir hendi

Það er nánast sama hvert litið er, efnahagur ríkja á Vesturlöndum er molum.  Skuldasöfnun þjóða, hvort heldur ríkjanna sjálfra eða einkageirans er orðin svo mikil að útilokað er að þessar skuldir verði nokkru sinni greiddar.  Bara vextirnir af skuldunum eru komnir upp fyrir öll þolmörk.  Kerfið er ekki lengur sjálfbært.

Grunnur allra hagkerfa er sjálfbærni.  Að kerfið hafi getu til að viðhalda sjálfu sér.  Fjármálakerfið er ein mikilvægasta eining hagkerfisins ásamt heimilunum, fyrirtækjum og hinu opinbera.  Sjálfbærni kerfisins þarf að virka þannig að seinni stoðirnar þrjár hafi efni á að eiga í viðskiptum við þá fyrstu.  Því þarf að vera heilbrigður vöxtur í fyrirtækjahlutanum (sem fjármálakerfið og hið opinbera vissulega tilheyrir, en þá bara sem vinnuveitendur) svo hinir tveir afli nægilegra tekna til að standa undir útgjöldum sínum.  Við getum sagt að rekstrarafgangur heimilanna, fyrirtækja og hin opinbera fyrir fjármagnsliði þurfi að vera nægilega hár til að standa undir þeim vöxtum og afborgunum sem þarf að greiða.  Þar stendur hnífurinn í kúnni.  

Ísland

Nærtækast er að horfa til stöðunnar hér á landi.  Skuldir almennings hafa hækkað úr 25% af ráðstöfunartekjum árið 1980 í hátt í þriðja hundrað prósent.  Ef ekki væri fyrir baráttu Hagsmunasamtaka heimilanna og fleiri aðila fyrir leiðréttingu og niðurfærslu á stökkbreyttum skuldum værum við vafalaust komin yfir 300%.  Alvarlegi hlutinn í þessu er að raunvextir á þessum skuldum eru á bilinu 4 - 12% og að meðaltali líklega í kringum 7% (verð að viðurkenna að ég hef ekki þá tölu á takteinunum), en það þýðir að nafnvextir eru að jafnaði 4% hærri.  Raunvextir á lánum fyrirtækja eru ekki lægri nema síður sé.  Svona raunvextir eru hér allt lifandi að drepa.  Þeir hneppa fólk og fyrirtæki í ánauð fjármálakerfisins vegna þess að enginn getur staðið undir svo háu vaxtastigi til langframa.

Hver er staða heimilanna fyrir fjármagnsliði?  Undanfarin 30 ár hafa heimilin í landinu að jafnaði ekki haft nægan afgang til að greiða vexti og afborganir og lausnin hefur verið frekari lántaka, sem síðan hefur undið upp á sig með frekari vanda í greiðslu fjármagnsliða. Skýringarnar á þessum skorti á sjálfbærni íslenskra heimila er vafalaust margar.  Lág laun eru veigamikil skýring, hár framfærslukostnaður er önnur, en sú sem vegur þyngst er hve fjármagnsliðir eru háir í rekstrarreikningi heimilisins og þar eru vextir veigamikill þáttur.  Stór hluti heimila í landinu er að greiða yfir 40% af ráðstöfunartekjum sínum í afborganir og vexti lána.  Af þeirri tölu er ekki óalgengt að vextir og verðbætur nemi 2/3 - 3/4 af greiðslunni, ef ekki meira. Ég fullyrði að enginn stendur undir slíku til lengdar, enda almennt talað um, að fari greiðslubyrðin yfir 26%, þá sé hún orðin það há að ekki verði við ráðið.

Bandaríkin

En þetta sjálfbærni vandamál er ekki bara á Íslandi.  Skuldaþak bandarísku alríkisstjórnarinnar stendur í ríflega 16 billjónum dala ($16 trillion).  Miðað við 1,5% ársvexti, þá þarf að greiða 200 milljarða dala bara í vexti og þá á eftir að greiða lánin niður, sé það á annað borð ætlunin (sem ég er ekki viss um).  Tvöfaldist vextirnir þá fer talan í 400 milljarða USD.   Útgjöld ríkissjóðs er eitthvað í kringum 2,4 billjónir USD ($2,4 trillion), en vandinn er að skatttekjur alríkisstjórnarinnar eru (að því að ég best veit) bara 1,1 billjón USD, þ.e. það er halli upp á 1,3 billjón USD.  Vaxtagreiðslurnar eru því um 18% af tekjum og tvöfaldist vextirnir (sem líklegt er að gerist á næstu 5 árum), þá erum við að tala um 36% af tekjum (miðað við núverandi tekjur og skuldastöðu).  Staðan er greinilega ósjálfbær.  Skuldastaða alríkisstjórnarinnar er orðin slík að í veruleg óefni er komið og sér ekki fyrir endann á því.

Ríki Evrópu

Því miður einangrast þetta ástand ekki við Bandaríkin.  Mjög margir ríkissjóðir í Evrópu eru líka í þessari stöðu.  Við höfum fengið að fylgjast með þróun mála í Grikklandi undanfarna mánuði og bendir allt til þess að Grikkland muni lýsa sig gjaldþrota innan fjögurra vikna.  Ekki einu sinni 50% afskriftir/eftirgjöf skulda ríkissjóðs er nóg til að rétta skútuna af.  Ástæðan er enn og aftur að þær skuldir eru of háar til að halda gríska hagkerfinu sjálfbæru.  Ítalía, Írland, Ungverjaland og mörg önnur Evrópulönd eru í sömu stöðu.  Fáir átta sig á því, að Austurríkismenn eru á nálum út af stöðunni í Ungverjalandi.  Ástæðan er að austurrískir bankar eru búnir að taka allt of mikla áhættu þar.  Gangi maður um götur Búdapest, þá bera ótrúlega margir bankar nöfn austurrískra banka.  Deustche Bank á líka mikið undir þar.  Munurinn er sá, að hlutfallslega eiga austurrísku bankarnir meira undir.  Fari Ungverjaland sömu leið og Grikkland, þá er ekki um neitt annað að ræða fyrir austurrísk stjórnvöld en að þjóðnýta marga stærstu banka Austurríkis eða láta þá fara á hausinn.  Þar með dregst Austurríki inn í hóp þeirra ríkja sem eru í mestum vanda.

Er hægt að ná sjálfbærni?

Þegar stór er spurt er oft fátt um svör.  Ég get ekki séð að hægt sé að ná sjálfbærni við núverandi skuldastöðu þjóða í Vestur-Evrópu og Bandaríkjanna.  Nokkur lönd Suður-Ameríku hafa gengið í gegn um þetta og Argentína ákvað einfaldlega að stilla kröfuhöfum upp við vegg og segja að þeir gætu bara fengið það sem Argentína hefði efni á.  Allt annað yrði afskrifað.  Sumir eru að reyna telja heiminum trú um að það sé það sama og gert var hér á landi.  Svo er þó ekki.  Hér var að mestu ákveðið að kröfuhafar fengju það sem eignir landsmanna stæðu undir.  Á þessu tvennu er regin munur.  Þess vegna er staða fyrirtækja og heimila, sem farið hafa í gegn um úrræði bankanna, ennþá býsna erfið.  Ekki var gengið nógu langt, þar sem sjálfbærni var ekki höfð að leiðarljósi.

Lykillinn að sjálfbærni er vaxtastigið.  Vaxtastig sem er t.d. hærra en hagvöxtur getur ekki verið sjálfbært.  Ef fjármagnseigendur taka meira til sín en nemur verðmætaaukningu í þjóðfélaginu, þá er í reynd minna eftir til uppbyggingar.  Fjármagnseigendur eru ekki í endurreisnarstarfinu.  Þeir eru bara að hagnast á því að láta aðra nota sína peninga í endurreisnina.  Krefjist þeir of hárra vaxta, þá annað hvort vill enginn fá peningana þeirra eða að þeir sem gera það þurfa að vera með ævintýranlegan vöxt hjá sér.  Fjármagnseigendur geta því reynt að halda uppi vöxtunum og reynt að þvinga lántaka til að sætta sig við ofurkjör eða þá að þeir lækka vaxtakröfuna sína og koma peningunum í vinnu.  Hér á landi eru bankarnir á fullu við það fyrra, þ.e. eru að halda fólki og fyrirtækjum í spennitreyju hárra vaxta sem viðkomandi er neyddur til að greiða, þar sem engin raunveruleg samkeppni er á fjármálamarkaði.  Höfum í huga að bankarnir eru fullir af ódýru sparifé sem bankarnir borga nánast ekkert fyrir.  Lífeyrissjóðirnir safna og safna inn á reikninga í bönkunum og hjá Seðlabankanum.  Þessir aðilar ættu því að vera að bjóða ódýrt lánsfé, en svo er ekki.  Meðan vaxtakrafan er jafn há og raun ber vitni, þá sitja peningarnir þar áfram.  Fólk og fyrirtæki eru nefnilega búin að átta sig á því, að afgangur fyrir fjármagnsliði leyfir ekki frekari skuldsetningu.  Hvorugur aðili er með sjálfbæran rekstur.  Ef hér á landi væri raunveruleg samkeppni um lántaka, þá væru bankarnir á fullu að undirbjóða hver annan.  Raunvextir væru komnir niður í það stig, að fólk sæi hag sinn í að skipta um viðskiptabanka.  Fá Arion banka til að fjármagna uppgjör á hávaxtalánum hjá Íslandsbanka eða Landsbanka og svo öfugt.  Þannig skapaðist svigrúm fyrir lántakann að taka meira að láni til að fara í arðsamar, sjálfbærar fjárfestingar.  Nei, í staðinn er kostnaði við fjármagn haldið það háu, að heimilin og fyrirtæki eru sífellt að skera niður á rekstrarreikningi sínum (og þar með draga úr veltu í þjóðfélaginu) til að greiða af fjármagnsliðum.  Lausn sem eykur á vanda þjóðfélagins.

Þjóðfélögin

Segja má að allt of mörg þjóðfélög á Vesturlöndum standi frammi fyrir þríþættum vanda, þ.e. stór hluti bankakerfis landanna gengur á gufunni og er í reynd ógjaldfær, ríkissjóðir ganga á gufunni og eru í reynd ógjaldfærir og innanlandsneysla er langt umfram innanlandsframleiðslu sem endar í ógjaldfærni þjóðfélaganna.  Ég er búinn að fjalla um tvennt þetta fyrra, en þá er það þetta þriðja.  Það heitir með öðrum orðum að viðskiptajöfnuður sé neikvæður.  Slíkt kallar á erlendar lántökur sem bitnar á greiðslujöfnuði við útlönd.  Ísland er gott dæmi um þjóðfélag, sem er ekki sjálfbært vegna þess að verðmætasköpun í landinu hefur ekki undan þeirri neyslu sem er í landinu.  Þess vegna lækkar krónan alltaf, þess vegna eru við stöðugt með hærri verðbólgu en í nágrannalöndum okkar.  Þjóðfélagið er ekki sjálfbært.  En við erum ekki ein um þetta.

Allt of mörg lönd í Evrópu eru með neikvæðan viðskiptajöfnuð.  Fyrir tíma evrunnar, þá sigu gjaldmiðlar Grikklands, Ítalíu, Frakklands, Spánar og Portúgal jafnt og þétt gagnvart þýska markinu og svissneska frankanum.  Margt var líkt með hegðun þessara mynta og krónunnar.  Ástæða var sú sama.  Sífellt var verið að fella gengið til að hemja innanlandseftirspurn eftir erlendum varningi.  Pesetinn spánski var í fjölda mörg ár í kringum hálf króna, sama hvað krónan féll gagnvart dollar eða pundi.

Hegðun gjaldmiðla er ein sterkasta vísbending um sjálfbærni.  Gjaldmiðil sem sífellt er að lækka, gerir það þar sem þjóðfélagið er ekki sjálfbært.  Það er ekki jafnvægi milli þess sem er framleitt í landinu og þeirrar neyslu sem þar á sér stað.  Vissulega getur matvælaframleiðsla í landinu satt alla landsmenn, en flytja þarf inn hráefni til iðnaðar eða iðnaðarvörurnar sjálfar.  Stjórnvöld hafa ekki vilja til að sporna við þessu eða að afnám hafta og tolla opnaði fyrir innflutning, oft að kröfu stórra landa eins og Bandaríkjanna eða Þýskalands.  Nú flæðir t.d. þýsk framleiðsla um alla Evrópu og verður oft til þess að kæfa niður innanlandsframleiðslu sem smátt og smátt leggst af.

Svo hastarlegt sem það er, þá þurfa þjóðir að setja upp múra hafta og tolla til að stuðla að jafnvægi milli innflutnings og útflutnings, a.m.k. þær þjóðir sem geta ekki látið gjaldmiðil sinn falla.  Þetta þýðir að lífsgæði munu versna.  Þeim mun fækka sem hafa efni á uppþvottavél eða vera með fleiri en einn bíl, svo dæmi séu tekin.  Sófasettið verður að endast lengur og sama á við um tölvuna.  Stilla verður kaupmátt að því sem þjóðfélagið hefur efni á, en ekki það sem við viljum hafa.

(Tekið skal fram að allar skoðanir í þessum pistli og ályktanir eru mínar, þó svo að ég styðjist við margt sem ég hef lesið bæði fyrr og síðar.)


Verðtryggður vandi í hnotskurn - 600 ma.kr. að láni, 685 ma.kr. í verðbætur á 14 árum

Framundan er borgarafundur í Háskólabíói undir heitinu Er verðtryggingin að kæfa heimilin? þann 23. janúar nk.  Verð ég þar með framsögu og mun fjalla bæði um fortíð og framtíð en einnig reifa hugmynd hvernig taka má á hluta fortíðarvandans.

Tilefni þessara skrifa er bæði fundurinn, en ekki síður póstur sem mér barst áðan.  Hann lýsir verðtryggðum veruleika allt of margra Íslendinga.  Í staðinn fyrir að endursegja efni póstsins, þá vil ég birta drjúgan hluta hans:

Ástæða þess að ég skrifa þetta e-mail til þín núna eru þessar undanfarandi vangaveltur mínar og til glöggvunar þá tók ég mið af eigin láni sem tekið er síðla árs 2004 þegar við hjónin keyptum eða stækkuðum við okkur íbúð og tókum 18.100.000.- íbúðalán með 4.2 % föstum vöxtum ásamt verðtryggingu. Lánið er tekið hjá Landsbanka Íslands.

Ég vil byrja á að taka fram að lánið er í skilum og hefur alltaf verið það. 

Það breytir ekki því að þegar ég skoðaði greiðsluseðil sem ég er með núna vegna greiðslu í janúar á þessu ári þá eru eftirstöðvar lánsins 29.600.000.- liðlega og hefur því hækkað um 11.500.000. á þessum 7 árum.

Til viðbótar þessu hefur verið greitt mánaðarlega í þessi 7 ár um 100.000,- kr að meðaltali (byrjaði í c.a 90 þús er nú í 109 þús) í þessi 7 ár eða c.a 8.400.000.-

Samanlögð hækkun ásamt greiddum afborgunum er því 19.900.000.- eða með öðrum orðum tvöföldun láns að viðbættum 1.800.000.- (þetta eru svona einfaldaðar og afrúnnaðar tölur allt saman ekki kr og aurar).  Skv. þessu þá er kostnaður minn við það að fá þessa peninga lánaða, um 19.900.000.- í þessi sjö ár eða með öðrum orðum þeir vextir sem hafa fallið á lánið frá 2004.  Og má því e.t.v. segja að vextir lánsins á þessum 7 árum séu 109 % (eða kostnaðurinn áf láninu er 109%). [Raunar 109,94%]

Hvernig getur svona lagað verið látið viðgangast?  Viðkomandi greiðir allar greiðslur eins og um er beðið, sem nema 46,4% af upprunalegri lánsfjárhæð og skuldar samt 63,5% umfram upprunalega lánsfjárhæð.  Eins og hann reiknar út, þá jafngilda afborganir, vextir og verðbætur fyrir þetta 7-8 ára tímabil 110% af upprunalegri lánsfjárhæð.

600 ma.kr. teknar að láni en 685 ma.kr. bæst á sem verðbætur

Verðtryggðar skuldir heimilanna við fjármálafyrirtæki voru um 1.285 ma.kr. í lok september á síðasta ári samkvæmt upplýsingum á vef Seðlabanka Íslands.  Erfitt er að segja nákvæmlega til um hve stór hluti af þessari tölu er verðbætur (Seðlabankinn veit það, en gefur ekki upp), en hægt er að nálga töluna með einföldum hætti.  Seðlabankinn á tímaraðir sem sýna skiptingu lána heimilanna í verðtryggð lán, óverðtryggð og gengisbundin aftur til 31.12.1997.  Samkvæmt þeim voru verðtryggðar skuldir heimilanna 342 ma.kr. í árslok 1997 en komnar í 1.285 ma.kr. lok september 2011.  Hafa skal í huga að útlán nýju bankanna þriggja er á kaupvirði krafnanna úr gömlu bönkunum, þ.e. af frádregnum afslættinum sem bankarnir fengu, þannig að líklegast er verið að krefja lántaka um eitthvað hærri upphæð.  Til að reikna út hve háar verðbætur eru á hverju ári, þá tek ég stöðuna í árslok og margfalda með verðbólgu næsta árs.  Með þessari aðferð fæ ég út að verðbætur frá árslokum 1997 nemi rúmlega 685 ma.kr., þ.e. að af núverandi stöðu lánanna, séu 600 ma.kr. það sem tekið var að láni, en 685 ma.kr. eru verðbætur!

Nú væla einhverjir hagfræðingar og segja að fái maður einn hest að láni, þá eigi maður að skila hesti, eða hvernig þessi myndlíking er.  Mér sýnist aftur að ekki sé bara verið að skila einum hesti, heldur séu þeir ríflega tveir á 14 árum.  Sé farið lengra aftur í tímann versnar myndin.

Burt með verðtrygginguna

Í ótrúlega misheppnaðri skýrslu sem Gylfi Magnússon, þáverandi ráðherra, pantaði vorið 2010 um verðtrygginguna koma fyrir nokkrar kostulegar setningar.  Hér eru tvær:

Varðandi fjölbreytni fjárfestingarkosta þá má líta svo á að verðtryggð ríkisskuldabréf séu áhættulaus eign og að án þeirra sé enginn slíkur fjárfestingarkostur til staðar...

Fullyrða má að þau rök að verðtryggðir fjárfestingarkostir leiði til minni hættu á óviljandi eignatilfærslum sé rétt...

Skýrslan heitir "Verðtrygging á Íslandi - Kostir og gallar", en fjallaði bara um kosti hennar fyrir fjárfesta og ókostina fyrir fjárfesta, ef hún væri ekki til staðar.

Ofangreindar setningar segja allt sem segja þarf.  Lánveitendur vilja halda í verðtrygginguna vegna þess að þá þurfa þeir ekki að hafa fyrir lífinu og vegna þess að með henni á sér stað viljandi eignatilfærsla frá lántökum til lánveitenda.


Ætli Steingrímur gefi kvóta af ótta við lögsókn?

Ég get ekki að því gert, að óttast niðurstöður samningaviðræðna sem Steingrímur ber ábyrgð á fyrir hönd Íslendinga.  Fjórum sinnum hefur hann og/eða samninganefnd sem hann skipaði lúffað í samningum við erlenda aðila og meinta erlenda aðila.  Þrjár Icesave umferðir voru farnar og í öll skiptin tókst samninganefndunum að sneiða hjá vilja Alþingis.  Í millitíðinni lúffaði Steingrímur skjálfandi af hræðslu yfir meintum erlendum kröfuhöfum, þegar samið var um að heimilin í landinu ættu að taka á sig klúður vanhæfra íslenskra bankamanna, en ekki þeir sem lánuðu þeim og sýndu með því enn meira vanhæfi.

Hingað til hefur Steingrímur ekki átt í vandræðum með að skilgreina samningsviðmið.  Í hvert sinn hefur nánast aðeins eitt þeirra nást, en hinum verið fórnað, þ.e. að ná samningi.  Óttast ég því að, eins og í fyrri samningum, fái mótaðilarnir nærri því allt sitt í gegn og við sitjum uppi með samning sem gengur þvert gegn íslenskum hagsmunum.


mbl.is Vilji hjá Íslandi til að semja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tökum vel á móti fjárfestum þvert á það sem sagt er af ýmsum!

Án allrar kaldhæðni, þá eru þetta góðar fréttir. Ekki bara það, þetta er í ótrúlegri andstöðu við málflutning hér innanlands um þetta efni. Umræðan undanfarin misseri hefur snúist um það hvað "kerfið" væri andsnúið erlendri fjárfestingu. Vá,...

Stefán Jón og spillingin

Egill Helgason ræddi við Stefán Jón Hafstein í Silfrinu í gær. Nú er ég búinn að hlusta á þetta viðtal þrisvar sinnum og þó margt í því þoli að hlustað sé á það aftur og aftur, þá fer endurtekin hlustun ekki eins mjúkum höndum um annað. Stefáni Jóni er...

"Geta búist við að fá að meðaltali 40 prósenta niðurfellingu af lánunum"

Á vef dv.is er lítil frétt um skuldauppgjör "tískuverslanaveldisins NTC" við Landsbankann. Ég ætla ekki að gera það uppgjör að umtalsefni heldur ummæli sem DV hefur eftir talsmanni Landsbankans: Talsmaður Landsbankans vill ekki tjá sig um það hvort...

Af norðurljósum og hitastigi

Tvisvar með stuttu millibili hafa birst fréttir, þar sem fjölmiðlafólk (þ.e. blaðamaður mbl.is og fréttakona á RÚV) tengja möguleikann á því að sjá norðurljósin við hitastig. Þar á milli eru ENGIN tengsl. Bara til að hafa eitt á hreinu, þá myndast...

Endurbirt færsla: Sparnaður er svo fjárfestar fái ódýrt lánsfé! - Raunverulegt hlutverk lífeyrissjóða er ekki sparnaður

Ég birti þessa færslu 5.10. sl. og í henni lýsi ég hvert sé að mínu mati (á dálítið "brútal" hátt, þ.e. viljandi talað í gífuryrðum) orðið raunverulegt hlutverk lífeyrissjóðanna eða eigum við að segja lífeyrissöfnunar almennings. Sparnaður er svo...

Íþróttamaður ársins: Þórir Hergeirsson

Samtök íþróttafréttamanna hafa valið íþróttamann ársins á hverju ári frá 1956 eða alls 55 sinnum. Fyrir dyrum stendur að velja íþróttamann ársins í 56. sinn á næstu dögum. Úr einstaklega vöndu er að ráða fyrir íþróttafréttamenn, þar sem enginn...

Glæsilegir viðskiptahættir nýrra banka eða hitt þó heldur

Sveinbjörnn Sveinsson setti færslu inn á vegginn hjá Lilju Mósesdóttur sl. þriðjudag 27. desember. Mér finnst að þetta innlegg hans verði að fá betri umfjöllun og krefjist raunar rannsóknar, því sé þetta rétt sem hann heldur fram í innleggi sínu, þá er...

Hóphugsun

Jón Trausti Reynisson skrifar góðan leiðara í DV um hóphugsun og rekur að mörgu leiti hrunið til hennar. Hóphugsun heitir á ensku Groupthink. Hugtakið hefur líka verið þýtt á íslensku sem hjarðhegðun, enda má segja að hópurinn sem fellur í gildru...

Lög sem ekki er hægt að framfylgja - Önnur leið að skattleggja erlenda kortanotkun

Ég skil vel að ríkissjóður vilji ná í viðbótarkrónur í kassann og sjái tækifæri í þeirri verslun sem fer um netið. Við lagasetningu er þó mikilvægt að hægt sé að framfylgja lögunum. Samkvæmt lögunum, sem vísar er til í frétt Morgunblaðsins, þá skal aðili...

Bankarnir forðast úrskurði í óþægilegum málum - My way or no way!

Á nokkrum vikum hafa þrjú mál, sem voru fyrir Hæstarétti, endað með án endanlegs úrskurðar. Fyrsta er að nefna mál Arion banka gegn Sjómannafélagi Íslands, en samið var um það mál áður en dómsniðurstaða fékkst. Hin tvö málin eru bæði mál sem bankarnir...

Hæstiréttur vandar um fyrir lögfræðingum Arion banka

Í annað sinn í desember vísar Hæstiréttur frá máli, þar sem fjármálafyrirtæki ónýtir málið með furðulegum uppákomum í tengslum við breyttar kröfur fyrir dómi. Ekki það, að í þessu máli, var ekki heilbrú (að mínu mati) í niðurstöðu Héraðsdóms Vesturlands,...

Óréttlætið skal standa vegna klúðurs Alþingis - Þá er bara að höfða skaðabótamál

Íslensk réttvísi á sér enga líka. Fyrst fá fjármálafyrirtæki að brjóta lög í 9 ár án þess að eftirlitsaðilar geri nokkuð í því, þá eru brotnar grundvallarreglur kröfuréttar með afturvirkum íþyngjandi lögum, bílalánafyrirtæki fá að taka lögin í sínar...

Breytingar á vef og þjónustu Betri ákvörðunar ráðgjafarþjónustu Marinós G. Njálssonar

Þó ótrúlegt sé, miðað við þann tíma sem ég hef lagt í vinnu við hagsmunagæslu fyrir lántaka og heimilin, þá vill svo til að ég rek mitt eigið fyrirtæki, þar sem brauðstritið fer fram. Það heitir því sérkennilega nafni Betri ákvörðun sem rekja má til þess...

Múrbúðin og samkeppni á Íslandi

Á Eyjunni er frétt (fengin úr Viðskiptablaðinu) um málsókn Jóns Helga Guðmundssonar, aðaleiganda BYKO, gegn Baldri Björnssyni, stofnanda Múrbúðarinnar. Ég ætla ekki að fjalla um málið sem fréttin er um heldur það sem segja má að sé undanfari þess. Fyrir...

Útbreiðsla vírusa, landfræðileg lega Íslands og landlægt kæruleysi - Vírusvörn í jólapakkann?

Áhugaverð frétt um útbreiðslu tölvuvírusa er á forsíðu Fréttablaðsins í dag, en þar segir: "Tugir þúsunda tölva sýktar". Í fréttinni, sem einnig má lesa hér , segir að samkvæmt rannsókn "sem unnin var við tækniháskólann í Delft í Hollandi", þá sé Ísland...

Neikvæður viðskiptajöfnuður er stærsta vandamálið - Sama sagan út um allt

Ég hef oft verið spurður að því hvers vegna krónan styrkist ekkert þó svo að góður afgangur sé af vöruskiptum. Svarið er einfalt: Vegna þess að viðskiptajöfnuður þjóðarbúsins við útlönd er í steik. Viðskiptajöfnuður er annar helmingurinn af...

Stóra fréttin er: Rúm 57% hafna fjórflokknum

Hvernig geta menn sagt að Sjálfstæðisflokkurinn fengi 50% fylgi, þegar hugur 56% er ekki þekktur. Nær væri að segja að 22% styddu Sjálfstæðisflokkinn og menn vildu fara út í vangaveltur um mögulega kjörsókn, þá væri hægt að teygja þessa tölu upp í...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 1681256

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband