Leita í fréttum mbl.is

Stefán Jón og spillingin

Egill Helgason ræddi við Stefán Jón Hafstein í Silfrinu í gær.  Nú er ég búinn að hlusta á þetta viðtal þrisvar sinnum og þó margt í því þoli að hlustað sé á það aftur og aftur, þá fer endurtekin hlustun ekki eins mjúkum höndum um annað.

Stefáni Jóni er tiðrætt um spillinguna eins og hún hafi orðið til eftir að Ísland varð lýðveldi.  Þetta er náttúrulega ekki rétt.  Þessi spilling sem hann lýsir er angi af höfðingjaveldinu og er búin að vera til staðar hér á landi frá landnámi.  Þetta byrjaði með Ingólfi Arnarsyni sem nam land og leyfði fólki tengdu sér að setjast að í sínu landnámi.  Seinna færðist þetta á goðorðin í íslenska þjóðveldinu og þaðan yfir á eigendur kirkjujarða.  Enginn fékk neitt eða gat gert nokkurn skapaðan hlut nema með samþykki goðanna, síðar kirkjunnar og konunga.  Þar sem valdið var í sveitunum, þá var eðlilegt að "spillingin" væri mest í sveitunum.  Höfðingjastéttin íslenska var eins og aðallinn í Englandi eða Frakklandi.  Fyrir ofan báða þessa aðila í goggunarröðinni voru hirðmenn/ráðsmenn konunga og síðan konungarnir sjálfir.

Þessi þróun hélt áfram, en með einokunarversluninni kom hingað ný höfðingjastétt sem smeygði sér á milli sveitahöfðingjanna (og jafnvel kirkjunnar) annars vegar og hirðmanna/ráðsmanna hins vegar, þ.e. einokunarkaupmenn.  Undir verndarvæng þeirra fengu sumir að gera hluti og eignast meðan aðrir fengu það ekki.  Engeyjarættin er dæmi um ætt sem fékk meðan sveitarmenn af t.d. Víkingslækjarætt fengu ekki.  Önnur varð í kjölfarið valdamikil, en hin ekki.  (Auðvitað eru margir Íslendingar af báðum.)

Það var inn í þessa stéttarskiptingu sem lýðveldið fæddist.  Þ.e. "spillingin" var til staðar þegar lýðveldið var stofnað, en var ekki orsök spillingarinnar.

Spilling í útdeilingu fjár frá Alþingi var engu minni á 19. öld, en hún er í dag.  Þingmenn gerðu allt sem þeir gátu til að fá pening fyrir sitt kjördæmi á kostnað annarra.  Það var bara ekki kallað spilling á þeim tíma.  Sparisjóðir voru stofnaðir til að tryggja fjármögnun í heimabyggð.  Í því fellst ekki spilling, en hún felst í því að sumir í heimabyggðinni fengu fjármagn til framkvæmda meðan aðrir máttu éta það sem úti fraus.

Bæði stjórnmálamenn og fjármálafyrirtæki hafa haldið áfram sínu striki, að meira skiptir hvert bað um peninginn en að skynsamlegt væri að láta viðkomandi hafa peninginn.  Kolkrabbinn, Sambandið, einkavæðingin, Hagar, gagnslausar eftirlitsstofnanir og núna síðast lífeyrissjóðavaldið eru allt angar af því sem var hér á Sturlungaöld, tímum Thors Jensen, einokunarverslunarinnar eða þess vegna þegar valdið var að Skálholti og Hólum.

Hugsanlega hefur okkur gengið verr að losa þjóðfélagið úr viðjum höfðingjasamfélagsins.  Ég er samt ekkert svo viss um að öll héruð Þýskalands þoli ítarlega skoðun.  Eins og Stefán Jón nefndi, þá er Ítalía fast í ótrúlegri spillingu tengdri skipulögðum glæpum.

Í dag hefur í raun fátt breyst, þ.e. Alþingi og fjármálaöflin ráða.  Vilji meirihluti Alþingis sniðganga skynsemi og réttlæti, þá getur hann gert það.  Vilji fjármálafyrirtæki hygla einum en refsa öðrum, þá getur það gert það.  Málið er að þetta er sama spilling og var síðari hluta 19. aldar, hvorki ný né breytt.

Gleymum því aldrei að þessi spilling er alls staðar í heiminum, þar sem er veruleg stéttarskipting.  Hún er ýmist meiri eða minni hér á landi eftir því hvaða land er miðað við.  Þar sem við viljum bera okkur saman við Norðurlönd, þá er ljóst að mikið verk er eftir óunnið til að koma hlutunum í sama horf og mjög oft efast ég um að það muni nokkru sinni takast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Ef til vill má segja að sú ríkisstjórn sem nú situr ýti undir stéttarskiptingu og þar með spillingu.  Nú eru að myndast tvær stéttir í landinu, sú sem á peninga og sú sem skuldar, þarna er verið að auka bilið jafnt og þétt, allt í nafni jafnaðarmennsku og norrænnar velferðar

Kjartan Sigurgeirsson, 9.1.2012 kl. 13:39

2 identicon

Nokkuð sammála þessu hjá þér, mér fanst einhver falskur tónn innan um og saman við hjá Stefáni, þó margt væri líka rétt. 

Ef við skoðum snjótittlingana vel þá sjáum við að það er ákveðin röð í því hver kemst að bestu svæðunum.  Ef að herðir þá deyja þeir lægst settu fyrst. Trúlega ákaflega skynsamlegt af náttúrunnar hálfu.  Ef einhver snjótittlinganna vildi taka upp annað kerfi (segjum að þeir öðluðust skyndilega getuna til þess) þá myndu þeir kalla gamla kerfið, spillt.  

Við mennirnir erum alltaf að burðast við að láta skynsemina ráða yfir okkar náttúrulegu fítusum, með misjöfnum árangri.  Köllum þetta siðmenningu.  Verðugt verkefni en verður seint fullklárað. 

Kommúnisminn var merkileg tilraun til að slá á puttana á "dýrseðli" mannsins en snérist upp í andhverfu sína trúlega vegna afneitunnar á þessu eðli í stað þess að vinna með því. Með frjálshyggjunni var pendúllinn kominn í hina áttina og dýrseðlið lofað í hástert sem virðist ætla að enda með því að allir snjótittlingarnir drepist, líka þeir feitu!

Það er víst djöfuls millivegurinn og málamiðlanirnar einn ganginn enn ;-)

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 9.1.2012 kl. 14:14

3 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Gleymum því aldrei að þessi spilling er alls staðar í heiminum, þar sem er veruleg stéttarskipting. Hún er ýmist meiri eða minni hér á landi eftir því hvaða land er miðað við. Þar sem við viljum bera okkur saman við Norðurlönd, þá er ljóst að mikið verk er eftir óunnið til að koma hlutunum í sama horf og mjög oft efast ég um að það muni nokkru sinni takast

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að margur maðurinn tekur mikið mark á þér Marinó og þínum skrifum, heill stjórnmálaflokkur tók meira að segja þínar hugmyndir upp fyrir sl. kosningar og gerði að sínum. En ætlastu virkilega til að sæmilega upplýst fólk taki mark á niðurlagsorðum þínum hér að ofan, að stéttaskipting á Íslandi og/eða spilling sé meiri á Íslandi en hinum norðurlöndunum?

Magnús Geir Guðmundsson, 9.1.2012 kl. 17:13

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Magnús, hverju fólk tekur mark á er algjörlega þess ákvörðun.  Ég ætla hvorki að ætlast til einhvers af því eða velta mér upp úr því hvort það sé sömu skoðunar og ég.  Ég fæ ekki betur séð, en í Noregi, Svíþjóð og Danmörku séu menn komnir lengra í þessari þróun en við hér (þ.e. í baráttunni gegn spillingu).  Það er bara mín sýn byggð á því sem ég þekki til þessara landa.  Hvorki þú né aðrir þurfa að vera sammála.

Marinó G. Njálsson, 9.1.2012 kl. 17:24

5 identicon

Sammála þér Kjartan, síðan þarf þjóðin að velta núverandi lífeyrissjóðskerfi um koll, það er bæði 

spillt og rotið.

Guðrún Norberg (IP-tala skráð) 9.1.2012 kl. 17:28

6 identicon

Lífeyrissjóðskerfið hér á landi er til fyrirmyndar. Það er eina kerfið sem stóð af sér hrunið. Ástæðan er sú að aðilar vinnumarkaðarins fara með stjórn þess en ekki stjórnmálamenn eða flautuþyrlar frjálshyggjunnar. Nú geta menn ekki sofið rólegir fyrr en þeir komast í að ganga frá lífeyriskerfinu líka svona eins og sparisjóðunum. Nei það á að láta lífeyriskerfið í friði, það gegnir sínu hlutverki betur en aðrir í þessu þjóðfélagi. Annars er ég sammála Marinó varðandi spillinguna.

Tryggvi Marteinsson (IP-tala skráð) 10.1.2012 kl. 10:49

7 Smámynd: Jóhann Elíasson

Lífeyrissjóðakerfið hér á lndi er EKKI til fyrirmyndar og fyrirmynd hverra ætti það að vera?  Það þarf ekki annað en að skoða það aðeins og vera svolítið GAGNRÝNINN (ekki algjörlega meðvirkur og stara gapandi og slefandi á verkalýðsforkólfa og forráðamenn lífeyrissjóðanna, þegar þeir lýsa ágæti þeirra).  Sem dæmi má nefna að almennur lífeyrisgreiðandi hefur ekkert um það að segja hvernig stjórn lífeyrissjóðs hans er skipuð og fleira er hægt að nefna en ég hreinlega nenni því ekki núna enda rúmast það ekki í athugasemd.

Jóhann Elíasson, 13.1.2012 kl. 15:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 40
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband