Leita í fréttum mbl.is

Óréttlætið skal standa vegna klúðurs Alþingis - Þá er bara að höfða skaðabótamál

Íslensk réttvísi á sér enga líka.  Fyrst fá fjármálafyrirtæki að brjóta lög í 9 ár án þess að eftirlitsaðilar geri nokkuð í því, þá eru brotnar grundvallarreglur kröfuréttar með afturvirkum íþyngjandi lögum, bílalánafyrirtæki fá að taka lögin í sínar hendur af því að um einkamál er að ræða og nú síðast kemst hérðasdómur að því að ekki hægt að leiðrétta að aðgerðir sem voru afleiðing af lögbrotum vegna þess að engin lög leyfa það!  Já, vegir réttvísinnar eru sannanlega ósannsakanlegir!

Þetta er svo sem ekki fyrsta málið, þar sem þetta er niðurstaðan.  Um daginn var gjaldþrotaúrskurður staðfestur, þrátt fyrir að gjaldþrotabeiðnina hafi mátt rekja til ólöglegrar gengistryggingar.  Í því tilfelli var um einstaklinga að ræða.  Ég nenni ekki að vitna í yfirklórið sem notað var sem röksemd í því máli, en það er því miður dæmigert fyrir dómstóla að grípa í öll þau hálmstrá sem tiltæk eru, til að verja fjármálafyrirtækin.  Sást það einna best í dómi Héraðsdóms Suðurlands frá því í vor, sem var svo arfavitlaus að Íslandsbanki sá sig knúinn til að eyðileggja málið í flutningi fyrir Hæstarétti svo niðurstöðunni yrði alveg örugglega snúið.

Dómstólar eiga að hafa frumkvæði að því að skoða neytendarétt

Mig langar að minna dómstóla landsins á, að dómar Evrópudómstólsins eru fordæmisgefandi hér á landi.  Samkvæmt nokkrum dómum dómstólsins, þá ber dómstólum að líta til neytendaverndar í úrskurðum sínum, þrátt fyrir að slíkar röksemdir hafi ekki verið hafðar uppi í málarekstrinum.  Einnig hefur lögsögumaður ESB gefið út úrskurð eða leiðsögn (veit ekki hvað á að kalla þetta), þar sem bent hefur verið á að neytendavernd er nánast öllum lögum æðri.  Í máli C-302/04, Ynos, er t.d. fjallað um ósanngjarna skilmála í samningi og hafnað að þeir geti staðist.  Í öðru máli ECJ C-76/10 (forúrskurður), segir:

Council Directive 93/13/EEC of 5 April 1993 on unfair terms in consumer contracts requires a national court, hearing an application for enforcement of a final arbitral award issued without the participation of the consumer, of its own motion, where the necessary information on the legal and factual state of affairs is available to it for this purpose, to consider the fairness of the penalty contained in a credit agreement concluded by a creditor with a consumer, that penalty having been applied in that award, if, according to national procedural rules, such an assessment may be conducted in similar proceedings under national law.

Eða eins og lögfræðinemar á Bifröst ályktuðu "að nauðsynlegt sé fyrir neytendaverndina að þessi fortakslausa skylda [að skoða tilskipun 93/13] sé til staðar, komi sú staða upp að neytandi þekki ekki rétt sinn ellegar hafi ekki ráð á að taka til varna í dómsmáli sem höfðað er á hendur honum, vegna samnings sem inniheldur skilmála sem falla undir tilskipun 93/13", þ.e. um ósanngjörn ákvæði í neytendasamningum (unfair terms in comsumer contracts).  Í úrskurði í máli C-76/10er minnst þrisvar minnst á að dómstólum bera af eigin frumkvæði að rannsaka skilmála sem falla undir tilskipun 93/13 og í er hægt að sjá þetta í fleiri úrskurðum Evrópudómstólsins.

Hér á landi virðist neytendaréttur vera bara eitthvað sem flækist fyrir, hvort heldur löggjafanum, dómstólum eða fjármálafyrirtækjum, eins og dæmin sanna.  Réttindi neytenda eru ítrekað fótum troðin og skiptir engu máli, þó fjármálafyrirtækin hafi skrifað undir yfirlýsingu um að þau ætli að bjóða upp á úrræði eða vinna eigi úr málum eftir tiltekinni forskrift.  Hvorki er haft fyrir því að virða eigin undirskriftir eða fara eftir forskriftinni.

Skaðabótamál

Eina úrræðið sem ég sé neytendur hafa í mörgum tilfellum, er að höfða skaðabótamál.  Tjón margra, t.d. vegna hinna ólöglegu gengistryggðu lána, hleypur á milljónum ef ekki tugum milljóna.  Vandinn við skaðabótamál er að oft er erfitt að sanna nákvæmlega í hverju tjónið er fólgið.  Hvernig á að meta tjón af óréttmætu gjaldþroti, þegar afleiðingar gjaldþrotsins eru hjónaskilnaður eða jafnvel sjálfsmorð?  Sem betur fer eru þetta ekki algengustu fylgifiskar gjaldþrota, en því miður of algengir.

Ég get ekki betur séð en að almennt séu bara tveir kostir í boði:

1.  Fjármálafyrirtæki sem farið hafa fram á nauðungarsölur, vörslusviptingar og gjaldþrot á grunni ólöglegrar gengistryggingar á lánum leiti sátta í þeim málum sem um ræðir og bjóði sanngjarnar bætur til að ljúka málum.  Þegar ég tala um sanngjarnar bætur, þá er ég ekki bara að tala um upphæðir sem tengjast lánunum sjálfum heldur ekki síður sem felst í tjón vegna þess að eign var seld lágu verði, tapaðar tekjur, óþægindi sem lántaki varð fyrir, útlagður kostnaður hans vegna aðgerðanna, o.s.frv.

2.  Að þolendur gerða stefni fjármálafyrirtækjunum og reyni að fá fullar bætur fyrir tjón sitt.  Gera má ráð fyrir að þolendur taki sig saman í hópmálsókn.

Fleiri gætu farið í mál, en bara þeir sem hafa þurft að þola nauðungarsölu, vörslusviptingu eða gjaldþrot.  Allir lántakar sem hafa viljugir eða þvingaðir skrifað undir endurútreikninga eiga líklega skaðabótakröfu á nýju fjármálafyrirtækin.  Byggi ég það á því, að fjármálafyrirtækin máttu vita, miðað við umsögn Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja um frumvarp að vaxtalögum nr. 38/2001, að gengistryggingin var ólögleg og hefðu því átt að hætta öllum tilraunum til innheimtu um leið og málin komust í hámæli vorið 2009.  Raunar vissu fjármálafyrirtækin þetta miklu fyrr, þar sem ég fékk mína fyrstu ábendingu um þetta atriði frá lögfræðingi sem starfaði hjá einum af stóru bönkunum.  Af þeirri ástæðu þykir mér borðleggjandi, að menn vissu að þeir voru ekki bara á gráu svæði, heldur voru að brjóta lög.  Annað atriði, sem mér finnst sanna þessa staðhæfingu mína, er að fyrstu árin vönduðu menn sig mun meira við útgáfu þessara lána, með útgáfu tryggingabréfa, vegna þess að þeir vissu að hinn hátturinn var óheimill samkvæmt lögum.

Ég bíð spenntur eftir því að fyrstu skaðabótamálin fari í gang, en vona að fjármálafyrirtækin sjái sæng sína útbreidda og bjóði sættir.


mbl.is Kröfu um endurupptöku nauðungarsölu hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já skaðabótamál er það sem þarf. Það er ekki við það búandi í lýðræðisríki að lögbrjótar komist hjá refsingu fyrir brot sín og tjón það er gerðir þeirra valda.

Máttur peninga má aldrei ráða gerðum þeirra stofnana sem eiga að verja borgarana.

Embættismenn verða að skilja að þeir eru þjónar fólksins en ekki þeirra er bera á þá fé.

Jónas Jónsson (IP-tala skráð) 20.12.2011 kl. 21:40

2 identicon

Skaðabótamál á og má höfða gegn þeim einstaklingum sem framkvæma gjörðina í nafni fjármálafyrirtækisins.

Gríðarlega mikilvægt að halda vel utanum nöfn gerendanna!

Það eru einstaklingarnir sem framkvæma mannréttindabrotin þó svo að þeir telji sig vera í skjóli kennitölu lögaðila. (það afsakar ekki ofbeldið)

 http://www.svipan.is/?p=22235

Þessi grein er um ársgömul en í fullu gildi, er að vinna nýja grein byggða á reynslu ársins. Partýið er rétt að byrja!

Hólmsteinn Brekkan (IP-tala skráð) 27.12.2011 kl. 11:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.11.): 6
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 228
  • Frá upphafi: 1679929

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 206
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband