Leita í fréttum mbl.is

Almannatryggingaflækjan og mannréttindabrot á lífeyrisþegum - Umbóta er þörf

Fyrir hartnær áratugi fékk ég það verkefni í vinnunni að greina allar breytur og stikur í lögum um almannatryggingar og reglugerðum sem Tryggingastofnun ríkisins vann eftir. Ástæða var að fyrirtækið sem ég vann hjá var að forrita nýtt hugbúnaðarkerfi fyrir TR.  Ég átti að ljúka þessu af á dagsstund eða svo, þar sem mönnum datt ekki annað í hug en að það færi nú vart meiri tími í verkið.  Reyndin varð önnur.

Þegar ég var beðinn um að skila af mér, þar sem nauðsynlegt var að leggja afraksturinn fyrir fund, þá höfðu gott betur en 8 tímar farið í verkið og ástæðan var einföld.  Ég hafði þá þegar uppgötvað 239 breytur og stikur sem höfðu áhrif á útgreiðslur úr kerfinu.  (Breyta er stærð sem sett er inn einstaklingsbundið (oftast upphæð) eða eftir hópum meðan stika (e. parameter) er ýmist hreinn fasti eða föst tala byggð á útreikningi (oftast einhvers konar hlutfallstala.)  Já, 239 breytur eða stikur.  Er nema von að fáir, ef nokkrir átta sig á virkni kerfisins.

Það sem mér fannst vandasamast í greiningu minni voru atriði sem virtust gjörsamlega ósamrýmanleg eða svo vítavert ósanngjörn.  Mörgum þessara atriða er búið að breyta síðan, sumum til batnaðar, en ég held ég sé ekki að ýkja að flestum  hafi verið breytt til hins verra. 

Margt í almannatryggingakerfinu er sett þar inn af göfugum hug.  Þá á ég við barnabætur, makabætur, ekju- eða eknabætur, örorkulífeyrir, örorkustyrkir, ellilífeyrir, tekjutrygging o.s.frv.  en svo átta menn sig á því að ríkissjóður stendur ekki undir þessu öllu.  Við því er brugðist með tekjutengingum á alla kanta.  Slíkar tekjutengingar eru náttúrulega ekkert annað en jaðarskattar eða hreinlega aukaskattheimta á lífeyris- og bótaþega.  T.d. borga lífeyrisþegar tvöfaldan fjármagnstekjuskatt á við aðra.  Tekjuteningar gera það að verkum að um leið og persónuafslætti lýkur, þá tekur við kerfi, þar sem lífeyrisþegar fá ekki njóta aukinna tekna.  Þeir eru hreinlega skattlagðir hátt í 100% af öllum umframtekjum.

Margar óeðlilegar skerðingar

Margar af þessum skerðingum eru ekki óeðlilegar, en þó mætti færa skerðingarmörkin ofar.  Þá á ég við að viðkomandi njóti t.d. greiðslna úr lífeyrissjóði upp að vissu marki umfram lágmarksframfærslulífeyris, en skerðingin hefjist síðan og sé stigvaxandi.  Mér finnst alveg eðlilegt að sá sem hefur góðar tekjur úr lífeyrissjóði sé ekki líka að fá fulla tekjutryggingu.  Sama á við um húsaleigubætur.

Ein er sú skerðing sem ég skil ekki eða á ég að kalla skatt.  Það er skerðing vegna fjármagnstekna.  Fjármagnstekjur eru taldar sameiginlegar hjónum.  Þannig að sé annað lífeyrisþegi, þá skerða fjármagnstekjur hins lífeyrisgreiðslurnar sem nemur 25% af fjármagnstekjunum.  Ekki er einu sinni gert ráð fyrir fjármagnstekjuskattinum, sem þýðir þá að 25% af því sem er eftir skattinn skerði tekjurnar.  Nei, það er of flókið.  Fái hinn aðilinn 100.000 kr. í fjármagnstekjur, þá renna fyrst 20.000 í skatt og síðan dragast 25.000 kr. frá lífeyrinum.  Þannig að af 100.000 kr. eru 55.000 kr. eftir.  Maki lífeyrisþegar og lífeyrisþegi borga því 45% fjármagnstekjuskatt.  Og ég hélt að fjármagnstekjuskattur ætti að vera lægri en tekjuskatturinn!  Af þessari ástæðu, þá er ódýrara fyrir maka lífeyrisþegar sem er með eigin starfsemi (einyrki), að hafa starfsemina á eigin kennitölu því að öllum líkindum borgar þá viðkomandi ekki nema 42% skatt af hagnaði í staðinn fyrir 45%!

Lífeyrisþegum refsað fyrir að lenda í slysi

Annað dæmi er af lífeyrisþeganum sem er svo óheppinn að lenda í slysi.  Hann er óheppnasti maður á Íslandi þá stundina.  Í fyrsta lagi er honum refsað fyrir það í útreikningi á slysabótunum fyrir að vera lífeyrisþegi og síðan refsar TR honum fyrir að fá bæturnar!  Má hann bara þakka fyrir að skulda ekki TR pening eftir að hafa fengið hungurlúsina frá tryggingafélaginu.  Vissulega er búið að breyta einhverju af þessu, en eilíf skal vera skömm þeirra þingmanna sem létu glepjast af fagurgala tryggingafélaganna og samtaka þeirra á 10. áratug síðustu aldar.  Í fjöldamörg ár voru þeir sem lentu í slysum sviptir eðlilegum bótum vegna þeirra lævíslegu ákvæða sem sett voru inn í lög.  Og enn hörmulegra er að Alþingi hafi ekki séð sóma sinn í að leiðrétta hlut þeirra sem í því lentu.

Þekki þetta á eigin skinni

Tekið skal fram að konan mín er 75% öryrki vegna MS sjúkdóms og hefur því verulega skerta starfsorku.  Þekkjum við hjónin því margar af fátækragildrum almannatryggingakerfisins á eigin skinni.  Á sumum þessum skerðingum hef ég skilning, en aðrar eru settar inn, að því virðist, af hreinni mannvonsku.  Líklegast hafa menn komist að því að einn eða tveir einstaklingar hafa komist gegn um einhverja kjánalega glufu í kerfinu og ætlunin hefur verið að setja tappann í.  Æðubunugangurinn hefur síðan verið svo mikill, að breyting var ekki keyrð á allt kerfið heldur bara sýndarsafn eða að menn höfðu ekki fyrir því að skoða jaðartilfellin.

Mörg dæmi um hreina mannvonsku

Mannvonskutilfellin eru svo mörg að það mundi æra óstöðugan að telja þau upp.  Til mín kom um daginn maður sem heldur úti vefsvæði, þar sem vakin er athygli á mannréttindu lífeyrisþega.  Án þess að þekkja sögu hans neitt umfram það sem hann sagði mér á hlaupum, þá virtist mér sem kerfið væri markvisst að brjóta hann niður.  Öll sjálfsbjargarviðleitni er laminn til baka af fullri hörku.  Honum skal gert ókleift að lifa sjálfstæðu lífi.  Þannig er saga margra öryrkja.  Hrúgum þeim inn í sambýli, þar sem hægt er að fela þá fyrir umhverfinu.  Tölum niður til þeirra á opinberum fundum með því að segja "ástandið getur nú ekki verið svona slæmt", eins og ég hef heyrt nokkra ráðherra segja.  Jú, það er það og líklegast mun verra.

Aftur að mannvonskutilfellunum.  Þegar skattar á hátekjufólk voru hækkaðir um 5% sumarið 2009 fengu lífeyrisþegar á sig 27% skattahækkun!  Ljóst er hver eru breiðu bökin í samfélaginu!  Í liggur við hverjum einustu fjárlögum er bætt við nýrri breytu eða stiku í almannatryggingakerfið. Ekki til að hækka réttindi.  Nei, til að klípa af þeim sem minnst hafa!  Efnaðir Íslendingar geta alveg greitt 50-60% skatt af tekjum yfir 1 milljón.  Þeir eiga a.m.k. auðveldara með það en sá sem er á lífeyri.  Nei, það má ekki vegna þess að þessir ríku gætu farið eitthvað annað með peningana sína.  Vitiði hvað.  Þeir fóru annað með peningana sína meðan skattumhverfið hér var þeim eins hagstætt og hugsast getur, þannig að það getur ekki versnað.  Farið hefur betra fé!

Breytinga þörf strax

Framkoma hverrar ríkisstjórnar á fætur annarri við lífeyrisþegar jaðrar við mannréttindabrot, ef hún er það ekki.  Kerfinu verður að breyta.  Ég veit að  endurskoðun er í gangi, en það er með breytingar á almannatryggingakerfinu, eins og stjórnarskránni.  Vinnan gengur hægt og tillögur daga gjarnan uppi.  Nema náttúrulega þær sem eru til skerðinga.

Ég hef verið hlynntur því í mörg ár, að breyta áherslunum og fara frá því sem fólk getur ekki yfir í það sem fólk getur.  Ég hef margoft tekið þátt í umræðu um starfsorku.  Líklegast fyrir á árunum 2004 - 5, þegar ég vann að ráðgjöf um upplýsingaöryggi hjá flestum af stærstu lífeyrissjóðum landsins og síðan aftur þegar ég vann að ráðgjöf fyrir Starfsendurhæfingarsjóð.  En ég veit ekki hvort allir átti sig á því, að slíkt kerfi virkar ekki nema atvinnulífið taki þátt.  Hvaða gagn er af því að vera með breytilega 25-50% starfsorku, ef ekkert starf býður upp á breytilegt 25-50% starfshlutfall?

Annað sem þarf að gera er að taka almennilega til í lögum um almannatryggingar.  Einfalda fyrirkomulagið, fella út alls konar furðulegheita ákvæði.  Gera skerðingar sanngjarnar og réttlátar.  Afnema fullkomlega tengsl á milli tekna lífeyrisþega og maka.  Nauðsynlegt er að kerfið hvetji til atvinnuþátttöku, en letji fólk ekki með hugsunarlausum skerðingum.  Á ég þá sérstaklega við örorkulífeyrisþega.

Jóhanna Sigurðardóttir skipaði nefnd haustið 2007 til að endurskoða almannatryggingakerfið.  Fyrir þeirri nefnd fór Stefán Ólafsson.  Hvað varð um vinnu þessarar nefndar?  Af hverju var ekki haldið áfram?  Var þetta eins og alltaf, að þeim er fórnað fyrst sem eru í veikustu stöðunni!  Núna er Árni Gunnarsson í forystu fyrir vinnunni.  Hvað tefur orminn langa?  Stefánsnefndin átti að skila af sér í nóvember 2008.  Var sú vinna ekki nógu góð?

Ég hef sagt áður og vil endurtaka það:

1.  Skilgreinum kerfið eins og við helst viljum hafa það væru engar takmarkanir á fjármagni.

2.  Áttum okkur á því hverju við höfum efni á núna og hvernig staðan mun þróast næstu árin.

3.  Skilgreinum algjör grunnréttindi í kerfinu sem við erum ekki tilbúin að fórna, sama hvað.

4.  Forgangsröðum því sem ekki er hluti af grunnréttindum, en er inni í draumakerfinu.

5.  Bætum eins og við getum atriðum úr lið fjögur ofan á grunnréttindin.

6.  Setjum okkur tímaplan um hvenær  það sem eftir er gæti verið komið til framkvæmdar að gefnum efnahagslegum forsendum.

Almannatryggingakerfið á ekki að vera vandamál eða olnbogabarn.  Það á að vera verðugt viðfangsefni, þar sem unnið er eftir skýrum markmiðum.  Ég geri mér fyllilega grein fyrir að öllum markmiðum verður ekki náð, en séu þau ekki til staðar, þá vitum við ekki hvert við stefnum.


SFF notar loðið orðalag og segir ekki alla söguna

Samkvæmt fréttum frá SFF þá hafa lán heimilanna verið færð niður um tæpa 200 ma.kr.  Efast margir um sannleiksgildi þessarar staðhæfingar og er ég í þeirra hópi.  Í fyrsta lagi, þá er ekki hægt að lesa þessa tölu út úr reikningum fjármálafyrirtækjanna, hversu góður vilji væri til þess að leita af þeim.  Í öðru lagi, þá eru, eins og segir í frétt mbl.is, ekki allir sáttir við að túlka aðlögun stöðu lána að lögum vera niðurfærslu.  Síðan í þriðja lagi, þá er ýmislegt sem bendir til þess, að fjármálafyrirtækin séu ekki að tapa neinu á þessum aðgerðum, þar sem a) sum þeirra eru ekki einu sinni að skila þeim afslætti sem þau fengu af lánasöfnunum frá gömlu hrunbönkunum og b) eru í tilfelli áður gengistryggðra lána bara að fresta tekjufærslunni, þ.e. í staðinn fyrir að hafa háan höfuðstól í bókum sínum sem myndar hagnað síðar, þá eru þau að rukka mun hærri vexti en áður og fá hagnaðinn eftir þeim leiðum.

Samtök fjármálafyrirtækja og fjármálafyrirtækin sjálf þorðu ekki að hleypa Hagfræðistofnun Háskóla Íslands í þau gögn sem upplýsingar um "niðurfærslu" lánanna eru byggðar á.  Hvers vegna ætli það sé?  Varla er það bankaleynd, þar sem ekki var farið fram á að sjá upplýsingar sem greinanlegar eru niður á viðskipta vini.  Samt var því borið við.  Hver getur ástæðan þá verið?  Eina vitræna skýringin sem ég hef, er að undirliggjandi gögn gefa aðra mynd, en upplýsingar SFF.

Svara er enn beðið

Þegar Hagfræðistofnun Háskóla Íslands var falið að sannreyna upplýsingar SFF um "niðurfærslu" lána heimilanna, var ég ásamt nokkrum öðrum á vegum Hagsmunasamtaka heimilanna boðaður á fund tveggja starfsmanna stofnunarinnar.  Á þeim fundi lagði ég fram 10 spurningar sem ég taldi mikilvægt að fá svör við. Einn félaga minna lagði síðan fram nokkrar í viðbót.  Hagfræðistofnun hunsaði þessar spurningar að mestu og er þeim að því leiti ósvarað.

Spurningarnar voru ekki settar fram að nauðsynjalausu.  Við sem höfum legið yfir tölum um skuldamál heimilanna höfum nefnilega áttað okkur á þeim gloppum og misræmi sem er í tölunum og upplýsingum sem birtar hafa verið opinberlega.  Meðan ekki fæst skýring á þessu misræmi og gloppum, þá getum við ekki tekið tölur SFF trúanlegar.  Þær stemma ekki við upplýsingar úr opinberum gögnum frá Seðlabanka Íslands og sem ráðherrar hafa gefið upp á þingi.

Spurningar eru sem hér segir.  Fyrst frá mér:

1.    Hvaða lán heimilanna færðust frá gömlu bönkunum til þeirra nýju?  - Þessari spurningu er ekki svarað, bara er talað um íbúðalán.
2.    Hver var upphæð einstakra lánaflokka hjá hverjum banka um sig, annars vegar bókfært verð í gamla bankanum og hins vegar gangvirði/raunvirði í nýja bankanum við yfirfærslu?  Þ.e. hvaða afslátt fékk hver og einn banki af mismunandi flokkum útlána til heimilanna (samkvæmt útlánaflokkun Seðlabanka Íslands)?  -  Þessari spurningu er bara svarað að hluta.
3.    Hvaða lán heimilanna urðu eftir hjá gömlu bönkunum og hvert var bókfært virði þeirra 30/09/2008 og hvert er bókfært virði þeirra núna?  -  Þessari spurningu er bara svarað að hluta.
4.    Í hagtölum Seðlabanka Íslands kemur fram að lán heimilanna lækkuðu umtalsvert á milli talna í september og síðan í lok október 2008?  Hver er skýringin á þessari lækkun milli mánaða, þ.e. hve stór hluti er vegna lána sem færðust á milli gömlu og nýju bankanna og hve stór hluti er lán sem urðu eftir í gömlu bönkunum og eru því ekki inni í tölu SÍ vegna október? -  Þessari spurningu er svarað að mestu leiti.
5.    Samtök fjármálafyrirtækja hafa fullyrt að áður gengistryggð lán hafi verið færð niður um 130 ma.kr.  Hvernig er þessi tala fengin?  Hver eru áhrif endurútreiknaðra vaxta á þessa upphæð?  Eru endurútreiknaðir vextir inni í 130 ma.kr. eða utan?  Hvernig breyttist (áætlað) heildargreiðsluflæði (tekjustreymi) fjármálafyrirtækjanna fyrir og eftir endurútreikning?  -  Þessari spurningu er ekki svarað.
6.    Í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna er á blaðsíðu 30 fullyrt að öll gengisbundin lán hafi verið færð yfir með yfir 50% afslætti.  Óskað er eftir staðfestingu á því að þetta sé rétt.  Nú ef svo er ekki í tilfelli lánasafna heimilanna, hver er skýringin á því að skýrsluhöfundar fullyrða þetta?  Ef þetta er rétt, hvernig kemur það þá heim og saman við 130 ma.kr. töluna að ofan?  -  Þessari spurningu er ekki svarað.
7.    Samkvæmt Creditor Report Kaupþings frá febrúar og fram í ágúst 2009, þá voru lánasöfn að bókfærðu virði 1.410 ma.kr. færð yfir til Nýja Kaupþings á 456 ma.kr.  Óskað er eftir staðfestingu á að þetta sé rétt tala og ef ekki hver hún var í raun og veru?  Ef hún var ekki þessi tala, þá er óskað eftir að vita hver talan var.  -  Þessari spurningu er ekki svarað.
8.    Í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sem birt var 14. september sl. eru birtar tölur um stöðu lánasafna í stofnefnahagsreikningi nýju bankanna.  Óskað er eftir upplýsingum um það hvernig lán heimilanna skiptast niður í flokkað samkvæmt útlánaflokkun SÍ. -   Þessari spurningu er bara svarað að hluta og ekki er vitnað í fyrirspurn Guðlaugs Þórs í skýrslunni heldur í eldri fyrirspurn frá Ásbirni Óttarssyni.
9.    Fjármálafyrirtækin hafa fullyrt að afskriftir þeirra vegna lána heimilanna nemi yfir 160 ma.kr.  Hve stór hluti þessara afskrifta er leiðrétting í bókhaldi fyrirtækjanna vegna lögbrota, hver stór hluti er hluti af þeim afslætti sem fékkst af lánasöfnunum við flutning þeirra og hve stór hluti er niðurfærsla á gangvirtu höfuðstóli eins og hann var skráður við flutning í nýju bankana?  -  Þessari spurningu er ekki svarað.
10.    Fjármálafyrirtækin hafa fullyrt að afskriftir hafi numið 160 ma.kr.  Hafa aðrar afskriftir átt sér stað, þ.e. svo dæmi sé tekið á lánum heimilanna, sem urðu eftir hjá gömlu bönkunum?  Er einhver hluti þessara 160 ma.kr. vegna afskrifta á lánum sem ennþá eru í eignasöfnum gömlum bankanna og hve stór hluti, ef svo er?  -  Þessari spurningu er ekki svarað.

Síðan frá félaga mínum í hópnum:

11. Í samræmi við IAS 39 þá gera bankarnir væntanlega upp útlán sem keypt eru með miklum afslætti (deep discount) með aðferð virkra vaxta.  Í því ljósi þarf að greina á milli þess hversu stóran hluta afsláttarins megi rekja til tapaðra krafna og hversu stóran hluta afsláttarins megi rekja til núvirðingar.  Í ljósi þess að verið er að skoða svigrúm bankanna til niðurfærslu lána til heimilanna er eðlilegt að bankarnir gefi upp í tölum hvernig þessi skipting var í upphaflegu verðmati brotið niður á tegund lánasafna og hvernig bókfærð staða afsláttarins, eftir teg., sé nú m.v. síðasta árshlutauppgjör í samanburði við kröfuvirði.

12. Vegna núvirðingar „deep discount“ lána þá hafa bankarnir væntanlega gefið sér einhverja ávöxtunarkröfu og miðað við IAS 39 er ávöxtunarkrafan sú sama út allan lánstíman (miðað er við upphaflega virka vexti) a.m.k. á íbúðarlánum sem bera fasta vexti.  Hvaða ávöxtunarkröfu gera bankarnir til niðurfærðra lána til heimilanna eftir tegundum útlána? Hefur sú ávöxtunarkrafa breyst frá upphaflegri ákvörðun ef svo er þá hvernig?  Hér kemur upp sú spurning hvernig IAS 39 eigi við hér, þegar lánasöfn bankanna voru meira og minna keypt með miklum afslætti og jafn mikil breytingi hefur orðið á vaxtastigi í landinu frá hruni sem raun ber vitni.  Væntanlega hefur ávöxtunarkrafan verið gerð þegar vaxtastig var óeðlilega hátt mv. það sem vænta má í dag til framtíðar.  Spurning hvort ekki sé eðlilegt að aðlaga þessa ávöxtunarkröfu sem gæfi eðlilegilegri niðurstöðu og aukið svigrúm til afskrifta á lánasöfnum.  Hafa verður í huga að hér eru mjög sérstakar aðstæður og í upphafi gert ráð fyrir því að stór hluti afsláttarins færi í að leiðrétta lánasöfnin fyrir þeim forsendubresti sem hrunið leiddi af sér.  Auðvelt er að „reikna afsláttinn út af borðinu“ með óraunhæfri ávöxtunarkröfu.

13. Þegar bankarnir gefa upp sínar afskriftartölur er mikilvægt að gera sér grein fyrir forsendum sem að baki þeim liggja.  T.d. hefur bönkunum verið gert að tekjufæra ekki gengismun af gengistryggðum lánum.  Hér þurfa bankarnir hreinlega að gefa upp aðferðarfræði sína í þessu sambandi.  Best er að taka dæmi:  Gengistryggt lán að kröfuvirði kr. 1.000.000 er yfirtekið af bankanum á kr. 500.000.-  Við endurskipulagningu lánsins er kröfuvirðið kr. 1.500.000.-  Lánið er fært niður í kr. 1.000.000.- Hvað myndi bankinn tilgreina að hann hafi veitt mikinn afslátt af láninu í samræmi við þær tölur sem opinberlega eru í umræðunni?  Er mismunur eftir tegundum lána, verðtryggt, óverðtryggt eða gengistryggt?

14. Hluti útlána bankanna til heimilanna eru þannig að þrátt fyrir forsendubrest þá er til staðar nægjanlegt veðrými og greiðslugeta lánþega.  Hefur afsláttur sem fékkst í upphafi af þessum lánum verið tekjufærður?  M.ö.o, er litið á þessi lán sem fullendurskipulögð og afsláttur því tekjufærður strax?  Hvernig er litið á lán sem farið hafa í gegnum 110% leiðina, eru það lán sem bankarnir líta á sem full endurskipulögð lán?

15. Lýsing á aðferðarfræði bankanna við tekjufærslu afsláttar af niðurfærðum útlánum til heimilanna (endurmat útlánasafna).  Eitthvað virðist aðferðarfræðin vera mismunandi eftir bönkum mv. framsetningu upplýsinga um vaxtainnlausn bankanna skv. ársreikningum.

Þessar spurningar voru ekki settar fram af nauðsynjalausu og ekki heldur af einhverri meinfýsni.  Nei, þær voru settar fram til að hjálpa Hagfræðistofnun við vinnu sína.  Leiða stofnunina inn á rétta braut (að okkar mati), sem myndi verða til þess að niðurstöðurnar stæðust faglegar kröfur og það sem meira er.  Þær væru hafðar yfir allan vafa.  Við bíðum ennþá svara!


mbl.is Óánægja með framsetningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstaða - flokkur lýðræðis og velferðar

Ég vil byrja á því að óska Lilju Mósesdóttur til hamingju með fundinn í dag og flokkinn.  Nýju afli Samstöðu - flokki lýðræðis og velferðar hef verið hleypt af stokkunum. 

Þegar stefnuskrá flokksins er skoðuð koma fram ýmis óhefðbundin atriði.  Þekki ég þessa hluti ágætlega, þar sem ég hef verið í bakvarðasveit flokksins, þ.e. í hópi þess fólks sem undirbjó stofnunina, skilgreindi stefnuskrá hans o.s.frv.  Vildi ég með því taka þátt í að endurreisa Ísland á forsendum lýðræðis og velferðar, þar sem

  • unnið er gegn landlægri spillingu,
  • rödd fólksins fær að heyrast,
  • tekið er á málefnum líðandi stundar á forsendum þjóðfélagsins en ekki úreltra flokkspólískra lína,
  • hugað er að velferð einstaklings,
  • lágmarksréttindi einstaklingsins eru varin,
  • málefnalegri umræðu er fagnað og ágreiningur er hluti af því að finna farsæla lausn og
  • samfélagsleg ábyrgð kallar á þátttöku allra.

Með því að taka þátt í þessu starfi vil ég halda áfram að verða að liði í endurreisninni og vona að þátttakan komi ekki í veg fyrir áframhaldandi samstarf við þá samherja í baráttunni fyrir réttindum heimilanna sem ég hef unnið mest með hingað til.  Ég vona líka að gott samstarf, góð samstaða geti átt sér meðal þessara aðila, þó þegar kemur að kosningum muni hver og einn örugglega gera sínar hosur grænar fyrir kjósendum hver á sinn hátt.  En munum að sameinuð stöndum vér, sundraðir föllum vér!

Samstaða - flokkur lýðræðis og velferðar mun vinna hlutina á sínum verðleikum og vonandi munu aðrir gera það líka.  Skotgrafarpólitík sem gengur út á smjörklípur, að fara í manninn en ekki málefnin og að tala aðra niður frekar en að tala fyrir sínum málefnum, er því miður hinn sorglegi veruleiki hins hefðbunda flokkakerfis.  Í síðustu kosningum kom fram afl sem sveigði af þeirri leið og hefur sýnt að það sé hægt.  Samstaða - flokkur lýðræðis og velferðar ætlar sér að vinna á sömu forsendum, þ.e. við tölum fyrir okkar málstað en ekki niður málstað annarra.

Samvinna sem flestra skilar okkur áfram

Svo það sé á hreinu, þá er mitt markmið ekki að fara í framboð, heldur vinna að góðum málefnum með góðu fólki.  Vona ég innilega að það takist.  Ég stefni að því að vera óbreyttur flokksmaður sem framvarðasveit hans getur kallað á sér til aðstoðar eða skyldustarfa í þágu málefnanna.  Það sem gott fólk er vonandi í öllum flokkum, þá mun ég halda áfram að vinna með þeim sem með mér vilja vinna. 

Endurreisn Íslands er á ábyrgð okkar allra.  Sagt er að margar hendur vinni létt verk og er það hverju orði sannara. Viðfangsefnin eru mörg og þau þarf að leysa.  Í minni hugmyndafræði eru eingöngu til viðfangsefni, ekki vandamál.  Á hverju viðfangsefni eru mörg sjónarhorn sem skoða verður af kostgæfni, þannig að valin sé lausn eða blanda lausna sem hentar hverjum aðstæðum best.  Slíkt tekst eingöngu þegar ólíkir aðilar koma að lausn málsins.  Slíkt tekst eingöngu, þegar við hvetjum til heilbrigðs skoðanaágreinings í fyrri hluta vinnunnar sem við síðan reynum eftir fremsta megni að leysa úr á leið að niðurstöðu.  Þetta er aðferðafræði lýðræðislegrar umræðu, þetta er aðferðafræði lýðræðislegrar vinnubragða og þetta leiðir vonandi af sér niðurstöðu sem breið samstaða er um.  En hver sem niðurstaðan verður, þá má hún ekki vera á kostnað manngilda okkar.  Hún má ekki brjóta gegn siðgæðisvitund okkar.  Niðurstaða sem gerir það, er slæm niðurstaða hvernig sem á það er litið.


mbl.is Flokkur lýðræðis og velferðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Námskeið um áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu

Betri ákvörðun, ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar, mun halda námskeið um áhættustjórnun þriðjudaginn 6. mars og stjórnun rekstrarsamfellu miðvikudaginn 7. maí. Markmið námskeiðanna er að kynna aðferðafræði við áhættumat og samspil áhættumats og...

Margar aðrar hliðar á tapi lífeyrissjóðanna

Margt hefur verið rætt um tap lífeyrissjóðanna af hruni fjármálakerfisins í framhaldi af birtingu skýrslu rannsóknarnefndar lífeyrissjóðanna. Sitt sýnist hverju um hve mikið tapið hafi orðið, en eitt er víst að það er meira en sjóðirnir hafa viljað...

Eitt verk óunnið - Stokka þarf upp í þeim sjóðum sem ekki eru að standa sig

Ég er algjörlega sammála Arnari Sigurmundssyni að menn þurfa að læra af reynslunni. Því miður segir reynslan okkur, að menn eiga erfitt með að læra af reynslunni. Best sé að nýir menn læri af reynslu þeirra sem brugðust. Því skora ég á Arnar...

Vita lífeyrissjóðirnir eitthvað sem aðrir vita ekki - Vextir af ríkisskuldabréfum og sjálfbært vaxtastig

Hún virðist ekki rökrétt sú ákvörðun lífeyrissjóðanna að ætla að breyta erlendum eignum í íslenskar krónur á þessum tímapunkti. Hvort heldur ákvörðunin er skoðuð út frá sjónarhorni lífeyrissjóðanna eða ríkisins. Líkt og Morgunblaðið bendir á, þá mun leið...

Endurskipulagning fjármála einstaklinga, heimila og fyrirtækja þarf að miðað við ársbyrjun 2008

Hlustaði aðeins á óundirbúnar fyrirspurnir á Alþingi áðan. Forsætisráðherra er enn að berja hausinn upp við steininn. Hún segir að mikið sé búið að gera, en gleymir því, að allt er meira og minna gert á forsendum fjármálafyrirtækjanna. Ég veit ekki hve...

Ber Landsbankinn þá ábyrgð á núverandi verðbólgu?

Greiningardeildir bankanna eru stundum alveg óvart uppspretta skemmtiefnis. Oftast hefur það verið greiningardeild Arion banka, sem veitt hefur mér slíka skemmtun, en núna er það deild Landsbankans. Niðurstaða greiningardeildar Landsbankans er að 2,5...

Kynslóðatilfærsla lífeyriskerfisins er frá þeim YNGRI til þeirra ELDRI!

Ég get ekki að því gert, að það fer voðalega í taugarnar á mér, þegar Gylfi Arnbjörnsson, Arnar Sigurmundsson og fleiri varðmenn lífeyrissjóðakerfisins byrja með grátkórinn sinn um að amma gamla eigi að greiða verði lífeyrissjóðirnir krafðir um að taka...

Áritunarsaga úr banka

Mér barst um daginn póstur frá manni sem sagði mér sögu af samskiptum sínum við viðskiptabankannn sinn. Hann óskaði eftir því að áritað væri á skuldabréf greiðsla af láni. Hér fer saga hans nánast óbreytt eins og hann skrifar hana. Eina sem ég breytti...

Er búinn að fá upp í kok á ruglinu

Nú er enn einu sinni verið að fjalla um Vafningsfléttuna í fjölmiðlum, landsdómsmál Geirs tröllríður öllu og Baldur Guðlaugsson ætlar að sleppa við ákæru vegna meintra innherjasvika á tæknilegum formsatriðum. Þessu til viðbótar er verið að skuldahreinsa...

Ekki hefur verið sýnt fram á að svigrúmið sé fullnýtt, hvað sem "hlutlausir aðilar" segja

Sagan endalausa heldur áfram. Hagsmunasamtök heimilanna spurðu í haust hvert væri það svigrúm sem fjármálafyrirtækin hefðu fengið til að leiðrétta lán heimilanna. Óskað var eftir því að fá réttar og nákvæmar upplýsingar frá opinberum aðilum og...

Dóttirin ballerínan í viðtali við Morgunblaðið

Mig langar að birta hér viðtal sem Morgunblaðið tók við dóttur mína og birt er í blaðinu í dag. Vona að Morgunblaðið fyrirgefi mér birtinguna, þar sem þetta er nú einu sinni birt á Moggablogginu. -- Harður heimur, en þess virði Sæunn Ýr hefur verið...

Hagfræðistofnun ályktar vitlaust út frá tölum

Eins og ég sýni fram á í færslu í gær, þá dregur Hagfræðistofnun ranga ályktun út frá þeim upplýsingum sem hún vinnur með. Er alveg með ólíkindum hvað niðurstaða stofnunarinnar er gjörsamlega á skjön við fyrirliggjandi upplýsingar. Langar mig að birta...

Verðtryggður vandi - Glærur frá borgarafundi

Ég var með framsögu á borgarafundi í Háskólabíói 23. janúar. Í meðfylgjandi skjali eru glærurnar mínar fyrir þá sem hafa áhuga á að skoða þær.

Líklegast ríflega 52 ma.kr. eftir af svigrúminu eða 55%

Nú er vika síðan ég var boðaður á fund Hagfræðistofnunar til að sjá drög að þeirri skýrslu sem gefin hefur verið út. Við lestur draganna féllust mér eiginlega hendur svo margt einkennilegt var í þeim. Lokaútgáfan byrjar á sömu einkennilegheitunum....

Lýðræðisleg umræða verður að eiga sér stað

Í gær áttu sér stað umræður á Alþingi um hvort draga eigi til baka kæru á hendur Geir H. Haarde. Ég viðurkenni það fúslega, að ég fylgdist ekki með umræðunni og kaus frekar að horfa á handbolta en fréttir. Ég er því gjörsamleg ómengaður af þeirri umræðu...

Keypt álit eða af virðingu fyrir fræðunum?

Ég get ekki annað en velt fyrir mér hvort komin sé upp sams konar samband milli sérfræðinga innan háskólasamfélagsins og "hinna ósnertanlegu" hér á landi og lýst var í myndinni Inside job að hafði myndast milli "sérfræðinga" í bandarískum háskólum og...

Baráttan um mikilvægasta gjaldmiðilinn - Viðskiptastríðið sem fáir vita af

Eru "árásir" á ríkissjóði nokkurra Evrópulanda bara tilviljun? Var nauðgunarákæran á Dominique Strauss-Kahn (DSK) óheppilegt atvik? Er tímasetning arabískavorsins eða átaka við Íran bara eitthvað hlaut að koma að í lýðræðislega elskandi heimi? Er hækkun...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband