Leita í fréttum mbl.is

Lög sem ekki er hægt að framfylgja - Önnur leið að skattleggja erlenda kortanotkun

Ég skil vel að ríkissjóður vilji ná í viðbótarkrónur í kassann og sjái tækifæri í þeirri verslun sem fer um netið.  Við lagasetningu er þó mikilvægt að hægt sé að framfylgja lögunum.  Samkvæmt lögunum, sem vísar er til í frétt Morgunblaðsins, þá skal

Ég segi nú bara:  Hvaða snillingi datt í hug að setja þetta í lög?

Samkvæmt þessum texta skal erlendur aðili sem selur þjónustu eða vöru á netinu:  a) hafa fullkomna þekkingu á íslenskum lögum; b) sýna frumkvæði að því að fara eftir lögunum; c) fylgjast með og gera áætlanir um sölu til Íslands og skrá sig ef ljóst er að sala fari yfir 1.000.000 kr.

Mér sýnist þessi lög gjörsamlega óframfylgjanleg með þeim hætti sem löggjafinn ætlast til.  Bara a)-liður hér að ofan er "show stopper".  Hvað ætli það séu margir erlendir netsöluaðilar sem hafa minnstu hugmynd um íslensk lög?  Ég efast um að þeir séu fleiri en tveir.  Hvernig eiga menn sem ekki vita af lögunum að geta haft frumkvæði af því að fara eftir þeim?  Og þó svo væri, væru ekki bara nokkrar líkur á því að menn lokuðu frekar fyrir viðskipti við Ísland, en að standa í svona óþægindum.  Loks er það þetta með 1 m.kr. á 12 mánaða tímabili.  Er það í samræmi við gengi krónunnar á viðskiptadegi eða skal miðað við dagsgengi?

Ég átta mig á því að margar netverslanir krefjast virðisaukaskatts af því sem keypt er.  Málið er að þá er eingöngu um að ræða viðskipti við aðila innan stórra landa eða ESB.  Kannski er þetta sem koma skal, en mér finnst það vera ótrúleg tilætlunarsemi að netsöluaðilar þekki íslensk lög.

Hverju skilar þetta og er til önnur leið?

Er von að spurt sé.  Friðrik Skúlason, alias Púkinn, er með færslu við frétt Morgunblaðsins, þar sem hann er með vangaveltur um hverju lögin skili.  Gagnvart virðisaukaskattskyldum aðilum, þá breytir þetta nákvæmlega engu.  Allur virðisaukaskattur sem slíkur aðili greiðir kemur til lækkunar á þeim skatti sem hann þarf síðan að greiða til ríkisins.  Þannig að áhrifin eru 0 kr.  Þá er eftir netverslun einstaklinga þar sem vara er afhent rafrænt.  Hún er talsverð, en ég efast um að hún sé hálfdrættingur á við einn mánuð í innkaupum í Boston, Kaupmannahöfn eða London.  Svo má velta fyrir sér hvort verið sé að mismuna fólki.

Sá sem kaupir flugmiða til útlanda má samkvæmt reglum koma með varning fyrir nokkra tugi þúsunda til landsins án þess að greiða af varningnum virðisaukaskatt eða tolla.  Af hverju ætti þá ekki sama skattfrelsi að gilda fyrir þá sem versla á netinu og hlaða henni niður?  Af hverju á viðkomandi að þurfa að greiða heilan helling fyrir flugmiða og gistingu (eða nota vildarpuntkana) til þess að njóta fríðinda á borð við skattfrelsins á innkaupum?  Hluta þeirrar vöru sem afhent er rafrænt, er jú líka hægt að fá sem hilluvöru.  Fyrir utan að mjög algengt er að fólk kaupi vöru á netinu, láti senda á heimilisfang/hótel þar sem einhvert "burðardýr" tekur við vörunni og "burðardýrið" flytur vöruna skatt- og tollfrjálsa inn í landið.  (Ég átta mig á því að lögin taka til vöru sem afhent er rafrænt, en mér finnst nauðsynlegt að skoða þetta í stærra samhengi.)

Spurningin er hvort það standist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, að sumir geti flutt allt sem þeir vilja til landsins, vegna þess að þeir hafa efni á því að ferðast, en hinir séu krafðir um virðisaukaskatt, afgreiðslugjald, tolla, aðflutningsgjöld og hvað þetta nú allt heitir, bara af því að þeim annað hvort fannst ekkert vit í því að ferðast til útlanda til að kaupa vöruna eða höfðu ekki efni á því.

Öll þessi viðskipti eru greidd með greiðslukortum.  Ég myndi halda að einfaldasta leiðin væri að leggja bara skatt á erlenda notkun greiðslukorta.  Vissulega er hluti þeirrar notkunar útgjöld greidd erlendis, en það mætti leysa með því að hafa þennan skatt 10% í staðinn fyrir 25,5%.  Slík skattheimta væri mjög einföld, þar sem kortafyrirtækin/fjármálafyrirtækin vita upp á hár hve mikið kortin eru notuð.  Námsmenn og þeir sem búsettir eru erlendis, en nota íslensk kort, þyrftu að tilkynna slíkt til bankans síns sem undanþægi þá þau kort (samkvæmt reglum þar um) þessum skatti.

Þetta er í mínum huga einföld, skilvirk og réttlát leið.  Allir sitja við sama borð, en það fer ekki eftir efnahag fólks eða aðstæðum hvort það nýtur skattfríðinda eða ekki.  Gagnvart fyrirtækjum breytir þetta engu, þar sem innskattur vegna þessa dregst frá útskatti og nettóáhrif eru núll.  Gagnvart einstaklingum, þá hækka vörurnar sem keyptar voru á netinu eða í Boston um 10%, en fólk er samt að gera kjarakaup.  Munurinn á verði hér á landi og í útlöndum verður minni, þannig að hluti verslunarinnar færist hingað til lands, kaupmönnum til mikillar ánægju.  Skattmann fær sitt, þannig að allir lifa hamingjusamir upp frá því.  Nú þeir sem telja skattinn vera of háan, þ.e. verið er að leggja skatt á erlenda neyslu, en ekki innkaup, sækja um endurgreiðslu reglum þar að lútandi.

Óhjákvæmilegt að breyta

Verslun á Íslandi líður mjög mikið fyrir verlsunarferðir til útlanda og á netinu.  Um þessar mundir virðist þetta vera sérstaklega áberandi hvað varðar snyrtivörur og svo allt sem hægt að hlaða niður, þ.e. leiki, myndir og rafbækur.  Ekkert nýtt er í því, að Íslendingar versli mikið í útlöndum, en aldrei áður hefur verið eins auðvelt að fylgjast með því í gegn um framkvæmd Seðlabankans á lögum um gjaldeyrishöftin. Nú er það, samkvæmt túlkun SÍ á lögunum, hreinlega hlutverk bankans að fylgjast með notkun greiðslukorta erlendis.

En aftur að óhjákvæmilegum breytingum.  Verslun í landinu er sum hver í dauðateygjunum.  Ekki einu sinni jólaverslunin bjargar henni.  Myndast hefur vítahringur. Innlendir kaupmenn verða sífellt að hækka álagningu sína, þar sem minni innanlands verslun almennings stendur ekki undir rekstri fyrirtækjanna.  Þetta verður til þess að hagkvæmara og hagkvæmara verður að fara í verslunarferðir til útlanda.  Heimsókn í H&M, Target eða Viktoriu Secret, að maður tali ekki um í snyrtivörudeild stórverslunar, er nóg til að ferðin borgi sig og gott betur.  Hjón með ungabarn fá ferðakostnaðinn allan til baka í verðmuninu á kerru undir barnið. Verslun erlendis dregur enn frekar úr innanlands verslun sem verður til þess að álagning þarf að hækkar og vítahringurinn styrkist frekar en hitt.

Meira og minna allt, sem verslað er í utanlandsferðum,  rennur í gegn um græna hliðið í Leifsstöð. Örugglega væri hægt að stoppa nánast hvern einasta farþega sem er að koma úr verslunarferð hvort heldur til Glasgow eða Boston og rukka við komandi um háar upphæðir í tolla, virðisaukaskatt og sekta fyrir tilraun til smygls.  Málið er að það er ekki gert og vonandi munu íslensk stjórnvöld aldrei grípa til slíkra aðgerða.  Þetta er nefnilega hluti af sjálfsbjargarviðleitni landans.  Vöruverð hér á landi eru óhemju hátt bæði vegna aðstæðna sem við ráðum ekkert við, þ.e. fámennis þjóðarinnar og að við erum úti í miðju ballarhafi, og vegna þess að hvergi á byggðu bóli eru neysluskattar hærri.  Þetta atriði hækkar vöruverð strax um tugi prósenta umfram það sem kaupmaður í Bretlandi eða Bandaríkjunum þarf að greiða fyrir vöruna komna að húshlið.  Ofan á þetta háa kostnaðarverð kemur síðan álagning kaupmannsins og virðisaukaskatturinn af álagningunni. 

Eitthvað náttúrulögmál virðist ráða því, að álagning á smávöru (er raunar stór og smá) er mjög há hér á landi.  Eins og kaupmenn miði álagninguna við að fá eðlilega álagningu af vörunni, þegar hún er kominn á tilboð eða útsölu.  Þetta verður til þess, að fólk bíður eftir tilboðsdögum.  Svo kallaðir "tax free" dagar Hagkaups eru t.d. búnir að rústa sölu á ýmisri sérvöru, þar sem fólk bíður með að kaupa vöruna, þar til næstu "tax free" dagar eru.  Afslátturinn, sem er 20%, breytir miklu fyrir mjög marga og ræður því hvort snyrtivörur eru endurnýjaðar, skór keyptir eða peysa á barnið.  En "tax free" dagar Hagkaups er ekki bara að eyðileggja fyrir fyrirtækinu sjálfu, heldur líka öðrum sérvöruverslunum.  Af hverju að kaupa ilmvatn í Debenhams, þegar hægt er að fá það með 20% afslætti á "tax free" dögum í Hagkaup á næstu tveimur mánuðum?  Ef þörfin er mikil, þá er alltaf hægt að sníkja prufu!

Er gerlegt að lækka vöruverð hér á landi það mikið að verslunarferðir leggist af?  Ég efast um það.  Er þá hægt að jafna stöðuna?  Auðvitað er það hægt, en spurningin er hvort viljinn sé fyrir hendi.


mbl.is Virðisaukaskattur á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mann setur nú bara hljóðan eftir að hafa rennt yfir þetta. Stjórnvöld að næla sér í nokkrar krónur í kassan og reka um leið enn einn naglann í líkkistu verslunar og þjónustu innanlands.

Á sama tíma er verið að stórauka framboð á ódýrum flugferðum. 

Sýnist á öllu að búðarskreppan fái fljótt nýja merkingu hjá landanum og var hann nú ekki aldeilis feiminn fyrir þegar það kom að erlendum skreppum. 

sr (IP-tala skráð) 22.12.2011 kl. 19:23

2 identicon

Mikið ofsalega er gott að vera flúinn að klakanum fyrir löngu, ansk. pain er þetta þarna......en það er virkilega hugsað til almennings af okkur fjölskyldunni. Guð blessi Island............................................

Kristinn (IP-tala skráð) 22.12.2011 kl. 20:10

3 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Marinó,

Thetta eru svipadar reglur og gilda í ESB. Fyrirtæki hér í USA sem selja til landa innan ESB, thurfa ad innheimta vsk og skila til vidkomandi lands. Minnir ad thessar reglur hafi komid 2007, man thó ekki nákvæmlega. Vid seljum í gegnum credit card processing fyrirtæki, semi sjá um ad innheimta og skila skattinum til vidkomandi lands, thannig ad vid thurfum ekki ad stússa í thessu sjálf!

Kvedja og gledileg jól

(Afsakadu stafaleysid - er ekki med íslenskt lyklabord uppset á kindle)

Arnór Baldvinsson, 24.12.2011 kl. 09:21

4 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Marinó,

Hér er linkur á fyrirtækið sem við notum og upplýsingar um hvernig þeir meðhöndla VAT í ESB:

http://www.fastspring.com/purchasing-through-fastspring.php

Sjá ennfremur: http://www.fastspring.com/vat.php

Þegar við seljum varning þá seljum við í raun til Fastspring (eða annarra kredit korta fyrirtækja) og þeir endurselja síðan til viðskiptavina okkar. 

Mér sýnist þetta einfaldlega vera tilraun til að samlaga VSK kerfið á Íslandi við VAT kerfið í EU.  Hinsvegar er ég hræddur um að það verði erfitt fyrir Ísland að halda þessu til streitu utan ESB. 

Jólakveðja

Arnór Baldvinsson, 24.12.2011 kl. 19:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband