Leita í fréttum mbl.is

1. maí haldinn hátíðlega í 90. sinn á Íslandi

Í dag er 1. maí, frídagur verkalýðsins.  Á þessum degi hafa fyrst verkalýður og síðan launþegar safnast saman um allan heim í yfir 120 ár, misjafnlega lengi í hverju landi.  Hér á landi var dagurinn fyrst haldi hátíðlegur 1923.  Að því gefnu að ekki hafi samkomur fallið niður í millitíðinni, þá er dagurinn haldinn hátíðlegur hér á landi í 90. skipti frá upphafi.  Já, þetta er í 90. skipti sem launafólk kemur saman á þessum degi til að krefjast úrbóta.  Oft hefur það gengið eftir, en síðustu árin hafa orð verkalýðsleiðtoganna verið innantómt hjóm, enda eru þeir flestir orðnir tannlausir og hugsa, að því virðist, meira um eigin velferð en velferð umbjóðenda sinna.

Hátíðarhöldin í ár fara fram í skugga þeirrar kreppu sem hér skall á fyrir fjórum árum.   Kreppunni hefur fylgt meira atvinnuleysi en við Íslendingar erum vanir frá því að flestir núlifandi landsmenn komust á vinnumarkað.  Fleiri einstaklingar og fjölskyldur eiga í erfiðleikum með að ná endum saman.  Fólk á í vandræðum með að skaffa mat á borðið fyrir sig og börnin sín.  Fjölskyldur út um allt land, en þó sérstaklega á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu, eru að missa húsnæðið sitt og er bara vísað á götuna, þar sem félagsleg úrræði skortir.  Kaupmáttarskerðing, hækkun greiðslubyrði lána og lækkun eignaverðs er veruleiki nánast allra. Greiðsluaðlögun og gjaldþrot er veruleiki allt of margra.  Og hvar er verkalýðshreyfingin þegar öllu þessu fer fram?

Er von að sé spurt.  Allt of margir upplifa verkalýðshreyfinguna þannig, að hún hafi hlaupið í felur eða tekið afstöðu gegn almenningi.  Það voru forvígismenn Alþýðusambandsins sem lögðust á haustmánuðum 2008 gegn því að verðbætur á lán væru teknar úr sambandi.  Aftur og aftur hafa forvígismenn launþega talað gegn umbótum og úrræðum vegna þess að þeir þjóna of mörgum herrum.

Höfum í huga á þessum degi, þeim fjórða sem haldinn er hátíðlegur í skugga núverandi kreppu, að þau úrræði, sem fólki hefur staðið til boða, hafa nær öll verið á forsendum þeirra sem settu þjóðina á hliðina, þ.e. fjármálafyrirtækjanna og fjármagnseigendanna.  Innan við 20 ma.kr. af þeim úrræðum sem gripið hefur verið til, hafa ekki komið vegna dóma Hæstaréttar eða eru afskriftir á töpuðu fé.  Á sama tíma hafa fjármálafyrirtækin og fjármagnseigendurnir hagnast um hátt í 400 ma.kr. vegna verðbóta af lánum almennings, lána sem bera óheyrilega háa vextir miðað við að vextirnir eru án áhættu.  Ekkert hefur verið í reynd gert til að gera líf launþega bærilegt.  Ekkert hefur verið gert til að sporna gegn aukinni verðbólgu.  Ekkert hefur verið gert til að vinna upp kaupmáttarrýrnun síðustu ára.  Lítið hefur verið gert til að fjölga störfum í landinu.  Tæp fjögur ár af engum framförum hafa liðið hjá.  Tæp fjögur ár af lélegri varnarvinnu verkalýðshreyfingarinnar hafa liðið hjá.  Tæp fjögur ár af ofríki fjármálafyrirtækja og fjármagnseigenda hafa liðið hjá.  Fjögur töpuð ár hafa liðið hjá.

Hvers vegna hefur verkalýðshreyfingin ekki tekið einarða afstöðu með launþegum landsins?  Ég verð að viðurkenna, að ég skil það ekki.
mbl.is Verkalýðshreyfingin enn í vörn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugmynd að breyttu fiskveiðistjórnunarkerfi

Ég hef hingað til haldið mig frá umræðunni um kvótakerfið, þar sem ég hef ekki talið mig hafa næga þekkingu á málefninu og eins er einhvers konar trúarbragðaofstæki í umræðunni.  Eftir að hafa lesið talsvert um þessi mál á síðustu 2 - 3 árum og þá sérstaklega í tengslum við umræðuna um fiskveiðistjórnunar- og auðlindagjaldsfrumvörp tveggja sjávarútvegsráðherra, þá langar mig að henda fram hugmynd sem ég hef verið að þróa með mér í nokkurn tíma.  (Þeir sem vilja taka þátt í umræðunni eru beðnir um að stilla sig í orðvali og sýna háttvísi.  Ég gæti átt það til að eyða út athugasemdum þar sem menn fara yfir strikið.)

Viðfengsefnið

Í nokkurn tíma hafa stjórnvöld reynt að finna leið til að koma á sátt um fiskveiðistjórnun.  Núverandi kerfi þykir ekki öllum vera gott og t.d. er það talið hamla gegn nýliðun í greininni, kvóti fer frá byggðalögum sem eiga allt sitt undir fiskveiðum, menn selja sig út úr greininni með miklum hagnaði þar sem nýtingarrétturinn er svo mikils virði.  Á móti kemur að þeir sem eru inni í greininni hafa lagt í mikinn kostnað við uppbyggingu og endurnýjum tækja og búnaðar, keypt kvóta dýrum dómi, byggt upp viðskiptasambönd og síðast en ekki síst oft skuldsett sig upp í rjáfur.

Viðfangsefnið er því að finna leið sem tekur á sem flestum af þessum atriðum beint og öðrum óbeint.  Mig langar að snerta hluta af þessu, en á málinu eru óendanlegir angar sem ekki er hægt að ætlast til þess að nokkur einn maður geti haldið utan um. 

Hugmynd að lausn

Ég sé ekki að hægt sé að gefa einhvern langan umþóttunartíma við að koma nýju kerfi á.   Best sé að gera það nánast með einu pennastriki, þ.e. allar aflaheimildir verði innkallaðar frá og með einhverjum tímapunkti, segjum 1.9.2015.  Vissulega mætti gera þetta í áföngum og er sú útfærsla rædd stuttlega síðar í færslunni.

Allar aflaheimildir verði boðnar upp á markaði fyrir utan byggðapott, strandveiðikvóta og hugsanlega sportveiði sem hluta af ferðamennsku.  Gjald vegna byggðapotts, strandveiðikvóta og sportveiðikvóta réðist þó á markaði, en öðrum en hinar aflaheimildirnar færu inn á.  Ríkisstjórnir geta á hverju á ári ákveðið lágmarksverð og þannig haft einhverja stjórn á tekjum sínum. 

Aflaheimildir á markaði væru boðnar upp til nýtingar í mismunandi langan tíma.  Styst til 1 árs og lengst til 15 ára (gætu verið önnur tímamörk).  Þegar kerfið væri komið í fulla virkni yrði skiptingin eitthvað á þessa leið (að frádregnum byggða-, strandveiði- og sportveiðikvóta): 

  • 10% kvóta væri veittur til 1 árs,
  • 10% til 2 ára,
  • 20% til 5 ára,
  • 30% til 10 ára og
  • 30% til 15 ára. 

Aðrar skiptingar koma til greina og bið ég fólk um að hengja sig ekki í skiptinguna heldur horfa á hugmyndina.

Þessu fyrirkomulagi yrði þó ekki komið á í einum rykk heldur tæki það 5 ár.  Það er gert svo útgerðir geti átt heimildir sem renna út eftir 1, 2, 3,.., 14 og 15 ár, þ.e. engin útgerð þyrfti að vera í þeirri stöðu að allar veiðiheimildir renni út í lok yfirstandandi fiskveiðiárs, nema náttúrulega að hún hafi hreinlega sjálf komið hlutunum þannig fyrir.  Að kerfið nær ekki fullri virkni fyrr en á 5 árum þýðir að fyrstu árin fer stærri hluti aflaheimilda í eins og tveggja ára flokkinn. (Vissulega má færa rök fyrir því að það taki 15 ár að ná fullri virkni, en ég held að hægt sé að ná fullri virkni fyrr.)

Áfram gilda takmarkanir á hlutdeild eins aðila og skyldra aðila á aflaheimildum úr hverjum veiðistofni fyrir sig og þeim öllum, þannig að stórir aðilar geta ekki keypt upp allar veiðiheimildir.

Greitt er mánaðarlega í samræmi við veiddan afla.  Hvort það er fyrir síðast liðinn mánuð eða greitt í apríl fyrir janúar er bara útfærsluatriði.

Þar sem veiðiheimild er hlutfall af leyfilegum afla, þá breytist aflamagn hverrar útgerðar með kvóta hvers árs.  5% eru 5% hvort sem kvótinn er 200.000 tonn eða 500.000 tonn.  Ljóst er þó að ríkissjóður fær meira í sinn hlut af 500.000 tonna afla en 200.000 tonna afla hver sem tegundin er. 

Nýtingarskylda eða heimildum skilað

Handhafi veiðiheimilda skal, nema fyrirliggi sérstakar aðstæður, nýta heimildir sínar sjálfur.  Séu þær aðstæður ekki fyrir hendi, þá einfaldlega skilar viðkomandi sínum heimildum og þær leggjast við þær heimildir sem eru veittar fyrir viðkomandi fiskveiðiár.  Sama gerist þegar útgerðarfyrirtæki hættir rekstri, verður gjaldþrota eða menn hætta að sækja í tiltekna fisktegund, þá einfaldlega fer kvóti viðkomandi á markað, ónýttur til nýtingar á yfirstandandi fiskveiðiári, en síðan allur á því næsta samkvæmt reglu að ofan.

Nýliðun auðveld

Samkvæmt þessu fyrirkomulagi, þá er nýliðun í greininni auðveld.  Á hverju ári er opið fyrir nýja aðila inn í greinina og einnig ef ónýttum heimildum ársins er skilað.  Árlega fara allar aflaheimildir sem úthlutað er til eins árs á markað, helmingur af þeim sem úthlutað er til tveggja ára, fimmtungur af þeim sem úthlutað er til 5 ára, tíundi hluti þeirra sem úthlutað er til 10 ára og fimmtándi hluti þess sem úthlutað er til 15 ára.  Alls gerir þetta um 24% allra aflaheimilda á markaði miðað við skiptinguna að ofan.  Önnur skipting gæti bæði hækkað og hækkað þetta hlutfall.

Með þessu fyrirkomulagi fer enginn með aflaheimildir út úr byggðarlaginu og það kostar nýja útgerðaraðila það sama og aðra að afla veiðiheimilda.

Hvað á að gera við skuldir?

Öll útgerðarfyrirtæki eru meira og minna skuldsett.  Deila má um hvort það kerfi sem hér er stungið upp á muni gera fyrirtækjunum auðveldara eða erfiðara að standa í skilum af lánum sínum.  Mesti vandinn er tengdur lánum sem tekin voru til kaupa á aflaheimildum.  Þær heimildir verða nú kallaðar inn og boðnar út á markaði.  Aðrar lántökur tengjast ekki beint öflun heimildanna (þó hugsanlega megi í einhverjum tilfellum segja að um óbein tengsl sé að ræða) og þær fjárfestingar eða breytingar sem peningarnir voru notaðir til munu að öllum líkindum nýtast áfram í nýju kerfi.

Ég tel rétt að komið sé á einhvern hátt til móts við þá sem skuldsettu sig vegna kaupa á veiðiheimildum.  Þá er ég að horfa til fortíðar, ekki framtíðar.  Hreyfingin hefur lagt til sjóð sem hluti veiðigjalds rynni í og úr sjóðnum væri úthlutað til þeirra sem þess þurfa.  Ég held að betra væri að miða við afslátt af veiðigjaldinu, þannig að fyrstu 5 árin, þ.e. frá 1.9.2015 til 1.9.2020 fengju þeir sem væru með slík lán tiltekinn afslátt af veiðigjaldinu til að standa undir afborgunum og vöxtum af lánum vegna öflunar veiðiheimilda, sem viðkomandi hafa núna misst.  Viðkomandi útgerð greiddi þó að lágmarki það lágmarksverð sem stjórnvöld ákvarða að gilda skuli fyrir yfirstandandi fiskveiðiár.

Önnur leið er að útgerðir sem eru í þessum sporum skili heimildum sínum í skrefum, 20% á ári, frá 1.9.2015 til 1.9.2019.  Þannig greiddu þær ekki veiðigjald, samkvæmt þessari hugmynd, nema af þeim heimildum sem þær hefðu aflað sér nýjar eftir 1.9.2015.  Eldra veiðigjald gilti um eldri aflaheimildir.

Markaðsverð

Gera má ráð fyrir að markaðsverð taki að einhverju leiti mið af núverandi kvótaverði, þ.e. á varanlegum kvóta, að teknu tilliti til nýtingartímans.  Varanlegur kvóti í dag er örugglega ekki hugsaður þannig að aflverðmæti eigi að greiða hann upp á 2 árum.  Nei, verð hans er örugglega miðað við 7, 10 eða jafnvel 15 ára nýtingartíma.  Við getum því séð árlegt veiðigjald lækki umtalsvert, en veiðigjald miðað við nýtingartímann hækki.

Skuldsetning útgerðar

Miðað við þessa hugmynd ætti skuldsetning útgerða að minnka umtalsvert.  Margar útgerðir hafa beitt alls konar brögðum við að komast yfir kvóta og oft þurft að kaupa fyrirtæki með mann og mús til þess að geta aukið aflaheimildir sínar.  Sama hefur gilt um þá sem hafa viljað koma nýir inn í útgerð.  Það hefur ekki getað gerst nema með mikilli fjárfestingu í kvóta.

Þegar búið verður að vinda ofan af ofurskuldsetningu liðinna ára, þá mun svo kerfið leiða til lægri skuldsetningar til lengdar.

Önnur opinber gjöld af útgerð og stuðningur við hana

Ég hef ekki sett mig inn í hvaða opinberu gjöld útgerðin ber, en ljóst er að þau verður öll að taka til endurskoðunar.  Veiðigjaldið á, t.d., að standa undir rekstri stofnana sjávarútvegsins sem reknar eru af ríkinu.  Hvað varðar alls konar eftirlitsgjöld og skoðunargjöld, þá er eðlilegt að þau haldi sér, en spurning er hvort útgerðir geti ekki leitað til hvaða hæfs aðila sem er til að sinna slíku eftirliti og/eða skoðun. 

Á móti kemur að útgerðin nýtur opinbers stuðnings, t.d. í formi sjómannaafsláttar, sem er ekkert annað en niðurgreiðsla á launakostnaði sjómanna.  Menn geta haft hvaða skoðun sem þeir vilja á þessu, en sjómannaafsláttur og líka persónuafsláttur er ekkert annað en niðurgreiðsla á launakostnaði, þar sem laun þyrftu að hækka verulega svo launþeginn héldi sama kaupmætti ef þessir afslættir féllu niður.

Ég tel ekki þurfa að herða eftirlit heldur eigi að herða viðurlög við brotum án þess að ég ætli að fara frekar út í það hér.


mbl.is Á rétt á eignarnámsbótum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áminningarbréf ESA er uppfullt af ranghugmyndum og hreinum tilbúningi!

Er búinn að sjá brét ESA til stjórnvalda.  Brandarinn er eiginlega verri en ég hélt. 

Fyrstu fjórir kaflar bréfsins eru almennt hjal sem skiptir ekki máli.  Það er í 5. kafla sem fjörið hefst og bullið.

Rök kvartanda eru m.a.:

In the complaints it is alleged that the ban on exchange rate indexation of loans in Iceland has the effect of making it less attractive for financial institutions to finance themselves in other currencies than ISK.

Ég hef nú vart séð aðra eins steypu!  Bann við gengistryggingu gerir það óaðlaðandi fyrir fjármálafyrirtæki að fjármagna sig í öðrum gjaldmiðli en íslenskum krónum!  Í íslenskum lögum er skýrt tekið fram að heimilt er að taka lán í erlendum gjaldmiðli.  Það eina sem ekki má er að lánið sé í krónum og tengt við erlenda gjaldmiðla.  Hverju var logið að ESA hér?

Næst er þar sem ESA segir:

It was common in Iceland to grant exchange rate indexed loans in so-called "currency baskets" i.e. the loans were indexed to the value of certain foreign currencies such as USD, EUR, CHF and JPY. It varied between loan agreements which currencies were involved and the percentage of each currency in the "currency basket" differed between agreements as well.

Although exchange rate indexed loans were granted in ISK such loans were inevitably linked to the value of other currencies. In order to reflect the risk of granting such loans in ISK! Icelandic financial institutions would therefore probably seek to finance the loans in the currencies that the loans were indexed to.

Já, það var algengt að veita myntkörfulán, en það var ólöglegt.  ESA getur ekki notað það sem rök fyrir að ekki megi banna gengistryggingu að hið ólöglega athæfi hafi verið stundað og að bankar hafi brugðist við ólöglegu athæfi á ákveðinn máta!  Ég held ég hafi ekki séð aumari rökstuðning fyrir því að ekki megi banna lögleysu.  ESA verður að skilgreina hvernig bankarnir hefðu hagað sér, ef þeir hefðu farið að lögum, en ekki réttlæta hegðun þeirra eftir að þeir brutu lögin.

Enn heldur vitleysan áfram hjá ESA:

A total ban on the granting of exchange rate indexed loans in ISK, such as laid down in Act no 38/2001, will dissuade Icelandic financial institutions from financing their loans in other currencies than the national currency and therefore constitutes a restriction on the free movement of capital as provided for under Article 40 EEA.

Er ekki allt í lagi?  Hver var að fylla ESA að ranghugmyndum og tilbúningi?  Ekkert bann er á Íslandi við að veita lán í erlendri mynt svo fremi sem höfuðstóll lánsins er gefinn upp í erlendri mynt, lánið er greitt út í erlendri mynt inn á gjaldeyrisreikning lántaka og lántaki kaupi erlendu myntina til að endurgreiða bankanum.  Bann við gengistryggingu heftir ekki löglegar lánveitingar í erlendri mynt og því geta bankarnir fjármagnað sig á þann veg.  Fyrir utan:  Hvað kemur það vaxtalögum við hvernig bankarnir kjósa að fjármagna sig?  Um gjaldeyrisjöfnuð bankanna er fjallað um í allt öðrum lögum og reglum Seðlabanka Íslands.  Telji ESA að verið sé að hefta möguleika bankanna til að búa til neikvæðan gjaldeyrisjöfnuð, þá er út í hött að benda á vaxtalögin.

Þegar íslensk stjórnvöld bera hönd fyrir höfuð sér, þá gera þau það á kolvitlausan hátt og ESA svarar:

It follows from the above that the restriction of the free movement of capital identified by the Authority in the present letter of formal notice is concerned with Icelandic financial institutions being dissuaded from financing their loans in other currencies than the national curency

Ég skil ekki hvernig ESA kemst að þessari niðurstöðu.  Hvernig getur það latt íslensk fjármálafyrirtæki til að fjármagna sig í erlendri mynt, ef þeim er síðan heimilt að lána þessa sömu mynt út sem lán í erlendri mynt til hvers sem óskar eftir láni?

Ég verð að viðurkenna, að ég hef ekki séð aumari rökstuðning fyrir nokkurri vitleysu en þennan.

Þessi rök ESA að verði sé að hindra fjármálafyrirtæki í að fjármagna sig með lánum í erlendum gjaldeyri eru gjörsamlega óviðkomandi því hvernig bankar endurlána slík lán.  Fyrir utan að ESA færir engin rök fyrir því að sú fjármögnun hafi yfir höfuð átt sér stað á þann hátt sem um ræðir.

Ég held að starfsmaður ESA sem hafði með þetta mál að gera hafi ekki skilið um hvað það snýst.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Gengistrygging lána og frjálst flæði fjármagns

ESA hefur sent íslenskum stjórnvöldum áminningarbréf. Innihaldið er eitthvað á þá leið að ekki sé leyfilegt að banna fortakalaust gengistryggingu lána, þar sem það brjóti gegn 40. gr. EES samningsins. Ég hef svo sem ekki séð bréf ESA, bara heyrt og lesið...

Málaferli ESA og Icesamningurinn eru tvö óskyld mál

Hún er merkileg þessi umræða um að málaferli ESA séu til komin vegna þess að Íslendingar felldu Icesavesamninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki þá tengingu út frá röklegu samhengi. Icesavesamningarnir Um hvað snerust...

Sjálfbærni er lykillinn að öllu

Á Eyjunni eru tvær færslu sem notið hafa mikillar athygli síðustu daga. Önnur er eftir Eygló Harðardóttur Framtíð á Íslandi? og hin eftir Vilhjálm Þorsteinsson Leiðir úr höftum . Báðar lýsa nokkurn veginn sama vandamálinu eða eigum við að segja...

Vaxtadómar og Árna Páls-lög - hluti 3 - Átti Hæstiréttur annan möguleika en seðlabankavexti?

Ég tek það fram að þessi færsla var skrifuð fyrir hátt í tveimur mánuðum. Ég ákvað að bíða með að birta hana þar til lögfræðiálit Hagsmunasamtaka heimilanna um dóm Hæstaréttar 600/2011 lægi fyrir. Nú er búið að birta álitið og því ekki eftir neinu að...

Fjármálafyrirtækin segjast hafa fært lán upp á 185 ma.kr. niður um 146 ma.kr. en bókfæra þau samt á 117 ma.kr.! Eigum við að trúa þessu?

Eitt er það FME og aðrir opinberir aðilar eru orðnir ansi góðir í. Það er að velja orð, þannig að hægt sé að fela sannleikann. Minnisblaðið sem FME gaf út vegna áhrifa af dómi Hæstiréttar í máli nr. 600/2011 er engin undantekning frá þessum orðaleik....

Ógnar dómur stöðugleika eða ekki? Misjafnt eftir því hvenær er svarað!

Fjármálaeftirlitið (FME) hefur birt minnisblað um hugsanleg áhrif dóms Hæstaréttar nr. 600/2011 frá 15. febrúar sl. Samkvæmt frétt á visir.is er niðurstaðan ótvíræð: Fjármálaeftirlitið (FME) telur að áhrif gengislánadóms Hæstaréttar frá 15. febrúar...

Stjórnvöld senda frá sér rugltilkynningu - Af hverju má ekki fara rétt með?

Eftir að hafa lesið tilkynningu stjórnvalda sem birt er á vef Stjórnarráðsins, þá botna ég hvorki upp né niður í því sem þar er sagt. Fyrst er vitnað til þess að almennar niðurfærslur um 20% kosti um 260 milljarða króna og stærsti hluti hennar renni til...

Hvað lærdóm getum við dregið af hruninu?

Ég hef oft velt því fyrir mér hver ætti að vera lærdómur okkar Íslendinga af hruninu. Er svo sem ekki kominn að neinni endanlegri niðurstöðu, en sífellt bætast fleiri kubbar í myndina. Í þessari færslu ætla ég að fjalla um einn vinkil sem er hve auðvelt...

Hvaða áhætta var verðlaunuð?

Þórður Snær Júlíusson, viðskiptablaðamaður á Fréttablaðinu, skrifar grein sem birtist í blaðinu í dag. Þar fullyrðir hann að hinir áhættusæknu hafi verið verðlaunaðir, en hinir sem fóru varlega sitji uppi með skaðann. Hann tekur máli sínu til stuðnings...

Skilaboðin eru skýr: Ekki greiða í lífeyrissjóð nema þú ætlir að búa heima hjá þér á efri árunum

Eftir að hafa lesið skýringu Tryggingastofnunar ríkisins á kostnaðarþátttöku lífeyrisþega vegna dvalar á sjúkrastofnunum eða dvalar- og hjúkrunarheimilum, þá eru skilaboðin alveg skýr: Ef þú sérð fram á að þurfa að nýta þér þjónustu sjúkrastofnunar,...

Af "húmorsleysi" hinna - Aðgát skal höfð í nærveru sálar

Upp á síðkastið hafa komið upp atvik og fram ummæli sem ég verð nú bara að segja, að valda óhug hjá mér. Þegar háttsemin eða ummæli eru borin upp á viðkomandi, þá er svarið "Djók, ég var bara að fíflast" eða eitthvað í þessa áttina. Ef það er ekki húmor,...

Erindi um gengisdóma

Laugardaginn 25. febrúar hélt ég erindi í Grasrótarmiðstöðinni um gengisdóma Hæstaréttar. Erindið var tekið upp og hefur Rakel Sigurgeirsdóttir klippt það til og birt á vefnum. Langar mig að birta upptökuna hér og fjalla lítillega um hvern hluta. I....

Hagnaður bankanna hefði líklegast orðið 450 ma.kr. árið 2011 ef ekki væri fyrir Hæstarétt!

Á síðustu 15 mánuðum eða svo hafa bankarnir barið sér á brjósti fyrir að vera að "afskrifa" háar upphæðir af lánum einstaklinga og fyrirtækja. Samkvæmt tölum á síðu Samtaka fjármálafyrirtækja þá stóð "afskriftartalan" fyrir einstaklinga/heimili í 196...

Hvernig eru verðmæti metin? Náttúran er landsins verðmætasta eign

Hún er merkileg þessi umræða, þar sem verið er að stilla náttúruvernd upp sem óvini verðmætasköpunar. Hvers vegna það er gert veit ég ekki, þar sem fátt bendir til þess að þetta sé rétt. Náttúran er verðmæti og því er náttúruvernd ekkert frábrugðin því...

Þingsályktun Hreyfingarinnar: Hugmynd sem taka verður alvarlega

Ég hvet þingheim til að taka þessa tillögu Hreyfingarinnar alvarlega. Í henni felst virkilega metnaðarfull tilraun til að höggva á hnút sem haldið hefur stórum hluta húsnæðiseigenda föstum. Vissulega er ég ekki hlutlaus, þar sem tillaga Hreyfingarinnar...

Þetta átti ekki að koma á óvart, en er skynsamlegt að draga að greiða?

Merkilegt að það komi stjórnvöldum og Seðlabanka Íslands á óvart að færa þurfi íslenskar eignir hrunbankanna yfir í erlendan gjaldmiðil. Þetta hljómar pínulítið svoleiðis. Héldu menn virkilega að þessir peningar myndu bara liggja inni á reikningum?...

Ekki hægt að bjarga bönkunum eftir 2005! Var reynt nógu mikið? Og erum við búin undir annað áfall?

Nú er fyrstu viku Landsdómsins lokið og heilmargt hefur verið sagt. Menn segja sína sögu sem nánast alltaf er eitthvað stílfærð. Af þeim framburðum sem ég hef komist í að kynna mér, þá held ég að aðeins ein manneskja hafi komið fyrir dóminn og sagt satt...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 1678284

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband