Leita í fréttum mbl.is

4 ár

Já, það eru fjögur ár síðan Geir H. Haarde bað guð að blessa Ísland.  Ég er ekki viss um að honum hafi orðið að ósk sinni.  Aftur á móti virðist blessunin hafa náð til hluta ofurríkra fjármagnseigenda og fjármálafyrirtækja sem reist voru á rústum fjármálafyrirtækja sem höfðu samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu á sér yfirbragð skipulagðrar glæpastarfsemi.

Allir aðrir voru meira og minni hengdir út til þerris, ef þeim var ekki bara hent beint á eldinn.  Stór hluti almennings og fyrirtækja landsins voru bara talinn til eðlilegra affalla í stríði.  Ekki bara það, þeir sem lifðu af eiga að greiða stríðsskaðabætur til þeirra sem settu allt á hliðina.  Þetta er hundalógík, sem ég skil ekki og hef aldrei skilið.

Margir tóku til varnar

Sem betur fer misbauð mörgum það mikið, að þeir ákváðu að gera meira en að tala um það á Barnalandi, í heita pottinum eða í saumaklúbbum.  Ég held að öllum hafi misboðið, en hvaða gagn er af því að vera misboðið, ef maður býður bara hina kinnina eða kyssir hönd kvalarans?  Því miður, þá tóku fjölmiðlar landsins þá afstöðu almennt að taka málstað kvalaranna.  Því miður, þá tóku stjórnvöld þessa lands, þá afstöðu að taka málstað kvalaranna.  Hingað kom Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og viti menn.  Hann tók sér stöðu með kvölurunum.  Almenningur átti að borga stríðskaðabætur til fjármagnseigenda hér á landi og í útlöndum, því þessir aðilar voru svo fjandi mikilvægir að þeim varð að bjarga.

En eins og áður segir, þá misbauð mörgum það mikið að þeir tóku til varna.  Indefense hópurinn tók til varna í Icesave málinu vegna þess að ríkisstjórn Geirs H. Haarde taldi mikilvægara að halda andlitinu og sýnast grand út á við, en að verja þegna þessa lands fyrir ósanngjörnum kröfum.  Hagsmunasamtök heimilanna og Samtök lánþega tóku til varna í lánamálum heimilanna, vegna þess að stjórnvöldum þessa lands, hvort heldur ríkisstjórn Geirs H. Haarde eða ríkisstjórnir Jóhönnu og Steingríms, fannst það vera rétt að heimilin borguðu stökkbreytta höfuðstóla lána sinna.

Kröfur á heimilin lækkað um 300 milljarða þegar

Þrátt fyrir að fjármálafyrirtæki hafi ekki gengið að kröfum HH og SL í orði, þá eru þau langt komin með að gera það á borði.  M.a. með hjálp dómstóla, þá er búið að lækka stökkbreyttar kröfur lánastofnana á almenning um hátt í 300 milljarða.  Kröfur sem m.a. kröfuhafar hrunbankannahöfðu þegar gefið eftir, en snillingarnir í nýju bönkunum töldu sjálfsagt að halda til streitu.  Merkilegt að maður fái eitthvað á allt að 50% afslætti, en ætli samt að krefja fullt verð fyrir!  Slíkt á ekkert skylt við eðlilega og hvað þá heiðarlega viðskiptahætti.  Svo sem ekki við því að búast í þjóðfélagi sem er gegnsýrt af klíkuskap, leynimakki, vinargreiðum og endalausu vanhæfi þar sem mönnum finnst allt í lagi að sitja við allar hliðar samningaborðsins til að tryggja að einkavinirnir og klíkurnar fái alltaf sinn skerf af kökunni, en almenningur (við sem ekki erum í klíkunni) borgum alltaf það sem sett er upp.

Margt aflaga farið

Langt mál væri að tala um allt það sem aflaga hefur farið í endurreisninni síðustu 4 ár.  Ég ætla ekki að neita því að margt hefur verið gert, en það hefur í 9 tilfellum af hverjum 10 snúist um að þóknast fjármagnseigendum og varðhundi erlendra kröfuhafa, þ.e. AGS.  Niðurskurður í heilbrigðiskerfinu er orðinn slíkur að á það vantar báða fætur og annan handlegg.  Í menntakerfinu hefur svo sorfið að mörgum skólum, að þeir eru vart starfhæfir.  Í velferðarkerfinu sitja öryrkjar og ellilífeyrisþegar eftir með tekjur sem eru langt undir naumhyggjuframfærslu.  Atvinnuleysi hefur verið fært inn í skóla og í stað atvinnuleysisbóta, þá eru stórir hópar fólks komir á námslán.  Einu útgjöldin sem hafa hækkað um tugi milljarða eru vaxtagreiðslur til AGS og "vinaþjóða" til að halda uppi þeirri blekkingu að við eigum gjaldeyrisforða.  Hvernig getur verið að við eigu gjaldeyrisforða, ef hann er allur tekinn að láni?  Og hvaða skynsemi er að taka gjaldeyrisforða að láni, ef það kostar okkur 70, 80 eða 90 milljarða á ári að vera með gjaldyeyrisforðann að láni?  Kannski fatta menn það einhvern tímann, að það skaðar gjaldeyrisstöðu þjóðarinnar, að vera með gjaldeyrisforðann  í formi erlendra lána!

Aumingja erlendu kröfuhafarnir

Hvers vegna eigum við að hafa áhyggjur af eignum erlendra aðila hér á landi?  Hvað koma jöklabréf okkur við?  Hvers vegna eru menn að horfa á hina svo kölluðu snjóhengju sem okkar vandamál, þegar hún er vandamál þeirra sem eiga peninga í snjóhengjunni.

Ég neita að bera ábyrgð á mistökum í áhættustýringu þeirra sem lánuðu peninga hingað til lands.  Ég neita að bera ábyrgð á mistökum í áhættustýringu þeirra sem fjárfestu hér í skuldabréfum sem höfðu skrifað stórum stöfum utan á sér að fælu í sér meiri áhættu en ásættanleg væri nema fyrir þá sem þyldu að tapa þeim peningum sem í þetta væri lagt.  Shit happens, er sagt og þannig var það með þessa peninga.  Þeir eiga einfaldlega að fara aftast í kröfuröðina og verðum við einhvern tímann aflögufær, þá geta eigendur þessara krafna kannski fengið eitthvað upp í kröfur sínar.

Lífeyrissjóðirnir - stærsta óleysta vandamálið

Almenningur varð víða fyrir búsifjum á árunum kringum hrun, en líklegast hvergi eins miklum og hvað varðar lögbundinn lífeyrissparnað.  Inni í lífeyriskerfinu er risastór hola.  Hún var svo sem orðin stór löngu fyrir hrun, en þá var hún viðráðanleg.  Höggið sem hrunið gaf lífeyriskerfinu, var hins vegar gríðarlega þungt og er nánast hægt að segja að um tæknilegt rothögg hafi verið að ræða.   Snillingarnir sem telja sig einráða um kerfið, vilja að komandi kynslóðir bjargi lífeyrinum þeirra.  Þeir vilja fá sinn lífeyri óskertan á kostnað réttingaávinnings þeirra sem greiða til sjóðanna í framtíðinni.  Göfugmannlegt af þeim eða hitt þá heldur.  Ef forseti ASÍ væri í raun að berjast fyrir réttindum launafólks, þá væri það forgangskrafa hjá sambandinu að loka núverandi kerfi og láta greiðendur framtíðarinnar greiða inn í nýja deild í sjóðunum sínum.  Nei, það er ekki gert, vegna þess að forseti ASÍ vill að börnin hans greiði honum lífeyri í framtíðinni, í staðinn að vera maður til að taka á sig þá skerðingu sem óhjákvæmileg er samkvæmt núverandi eignastöðu sjóðanna.  Stjórnvöld og Alþingi eru síðan svottan bleiður að taka ekki hreinlega fram fyrir hendur "snillingunum" og ákveða svona breytingu sjálf.

Endurreisn trúverðugleika

Menn segja að trúverðugleiki Íslands sé að veði.  Bull.  Trúverðugleiki Íslands fauk út um gluggann 2008 og hann verður ekki endurreistur með því að lof mönnum einhverju sem ekki verður hægt að standa við.  Trúverðugleikinn verður aðeins endurreistur með því að segja sannleikann, lofa engu og reyna síðan að gera betur.

Hluti af þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir varðandi trúverðugleikann, er að ekki hafa orðið nægjanlegar breytingar í lykilstöðum í þjóðfélaginu.  Þó svo að Höskuldur og Steinþór hafi ekki verið í gömlu bönkunum fyrir hrun, þá á það við nær alla, ef ekki alla, sem þar vinna.  Sama á við um margar lykilstofnanir.  Nokkrir ráðherrar voru í þeirri ríkisstjórn sem fór með völd hér meðan hallaði undan fæti.  Ríkisstjórn sem var upptekin af því að afneita öllum hættumerkjum og skjóta sendiboðana.  Ríkisstjórn sem tók þátt í hrunadansinum með fjármálageiranum.  Ekki tekur betra við, þegar horft er til þingflokks Sjálfstæðisflokksins.  Þó Geir og Árni hafi farið út af þingi, þá eru allt of margir aðrir þingmenn flokksins annað hvort þeir sömu og sátu á þing meðan allt hrundi eða tóku þátt í sukkinu.  Og einhverra hluta vegna, þá stefnir allt í að þetta fólk fái glimrandi kosningu í næstu þingkosningum sækist það á annað borð eftir áframhaldandi þingsetu.  Er þetta leið til að endurreisa trúverðugleika eða er þetta leið til að verja klíkurnar?

Erfitt hlutverk ríkisstjórna Jóhönnu og Steingríms

Þrátt fyrir það sem að ofan er skrifað, þá viðurkenni ég fúslega að hlutverk ríkisstjórna Jóhönnu og Steingríms var ekki öfundsvert.  Þau tóku við brunarústum, þar sem ennþá loguðu eldar á víð og dreif.  Það sem meira var, að eina byggingarefnið var það sem fannst heillegt í rústunum.  Þau gerðu sér hins vegar endurreisnina erfiðari með því að taka til hliðar það sem best leit út til að láta það í hendur erlendra kröfuhafa.

Dæmigert mun vera fyrir brennuvarga, að þeir sniglast í kringum brunastað til að fylgjast með hvernig til tókst.  Í þessu tilfellu gengu þeir lengra og þvældust sífellt fyrir í slökkvistarfinu og kveiktu nýja elda við öll tækifæri.  Ekki það, að mér finnst ríkisstjórnirnir Jóhönnu og Steingríms einblínt of mikið á upprunalega eldinn, en að mestu látið brennuvargana um að slökkva eldana sem kviknuðu út frá honum.  Þetta er eins og láta árásarmann gera að sárum fórnarlambsins!

Ríkisstjórnir Jóhönnu og Steingríms tóku þá kolröngu ákvörðun að setja endurreisn heimila og fyrirtækja í hendur þess fólks sem orsakaði hrunið.  Það átti aldrei að gera.  Alþingi átti að ákveða leikreglurnar og setja skýr lög um þær.  Síðan átti hlutlaus aðili að sjá um framkvæmdina.  Að setja fjármálafyrirtækin í dómarasæti, þar sem þau eru annar málsaðili, gengur gegn heilbrigðri skynsemi og er helsta ástæðan fyrir því að ekki hefur gengið betur.  Þetta er eins og leikmenn annars liðs í kappleik sjái um dómgæsluna í leiknum.  Geta menn rétt ímyndað sér hversu einhliða sú dómgæsla myndi verða.  Þetta var nú samt gert, vegna þess að Alþingi virðist vera í heljargreipum fjármálafyrirtækjanna og klíkanna.  Raunar er mín upplifun af Alþingi, að sjálfstæði þess sé í nánast ekkert og það fari bara eftir því sem valdaöflin í þjóðfélaginu segja.  (Þá er ég að tala um meirihluta þingmanna, því þar er líka hópur, því miður ekki stór, sem hefur sjálfstæðan vilja ekki bara í orði heldur líka á borði.) Þessi valdaöfl hafa bara áhuga á að skara óhóflegan eld að sinni köku á kostnað almennings.  Þess vegna erum við 4 árum eftir hrun bankanna, enn að horfa upp á gríðarleg vandamál hjá almenningi og fyrirtækjum (þ.e. þeim sem er ekki eru í klíkunni) meðan fjármagnseigendur hafa náð að safna vopnum sínum.

Að lokum

Eins og lesendur pistla minna hafa orðið varir við, þá hefur lengst nokkuð á milli þeirra og þeim fækkað.   Ástæðan er góð og gild, en ég tók hinn 1. september við nýju starfi sem gefur mér færri tækifæri til að standa í þessum skrifum.  Ég mun þó halda áfram að berja lyklaborðið sem þurfa þykir, en eingöngu þegar málin eru stór. 

Ég tel mig eiga stóran hlut í þeim 300 milljörðum sem fjármálafyrirtækin þegar lækkað stökkbreyttar kröfur.  Ég vonast síðan til að ekki undir 150 milljörðum eigi eftir að bætast við og jafnvel allt að 400 milljörðum, þegar dómar verða gengnir í gengislánamálum og þegar Alþingi sýnir loksins þann kjark og þor að samþykkja frumvarp Hreyfingarinnar um björgunarsjóð vegna verðtryggðra lána.  Að frumvarpið hafi ekki þegar verið samþykkt tel ég vera ljótan blett á störf Alþingis.  Fjármunum ofurríkra fjármagnseigenda sem nemur um hærri upphæð var bjargað með einu pennastriki, en þegar kemur að hinum almenna borgara, þá má hann éta það sem úti frýs. Segja má að þetta sé það sem best lýsir hinni meintu endurreisn.  Ég vona að ekki líði önnur 4 ár áður en raunverulegri endurreisn lýkur.


Nýtt lífeyrissjóðakerfi nauðsynlegt - Skilja þarf framtíðina frá fortíðinni

Fyrir um 20 árum var ljóst að þáverandi lífeyriskerfi opinberra starfsmanna stefndi í þrot, ef svo héldi sem horfði, þ.e. að greiðslubyrði myndi smátt og smátt vaxa ríkinu yfir höfuð.  Þá var farin sú leið að skipta Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og fleiri opinberum sjóðum upp í tvær deildir.  Eina sem nýir starfsmenn greiddu í og þeir sem skiptu um störf eða fóru í takmarkað starfshlutfall og aðra sem þeir sem voru fyrir í sjóðnum greiddu í.

Ég held að við verðum að fara svipaða leið varðandi alla lífeyrissjóði í dag.  Raunar held ég að við verðum að taka ennþá stærra og áhrifaríkara skref.

Staðreyndir tala sínu máli.  Nánast enginn lífeyrissjóður stendur undir þeim loforðum sem hann hefur gefið sjóðfélögum sínum þegar sjóðurinn tók við iðgjaldagreiðslum þeirra hvort heldur þær voru dregnar af launum við komandi eða kom úr pyngju launagreiðandans.  Halli sumra þessara sjóða er ógnvænlegur og verður ekki réttur af nema með stórtækum aðgerðum.  Aðrir eru í þokkalegum málum og örfáir í fínum málum.

Þó svo að staða sumra sjóða sé alveg með ágætum, þá tel ég rétt að gera samræmda breytingu á lífeyrissjóðakerfinu.  Hún er sem hér segir:

Frá og með nýju ári verði öllum lífeyrissjóðunum skipt upp í nýjan sjóð og gamlan.  Hætt verði greiða í gamla sjóðinn, en í staðinn hefji allir sjóðfélagar að greiða í nýja sjóðinn.  Gamla sjóðnum verði sem sagt lokað fyrir inngreiðslu iðgjalda, en sá nýi verður virkur frá og með áramótum.  Iðgjöld í nýja sjóðinn verði óbreytt frá sem áður var, nema hvað greiddur yrði strax skattur til ríkisins og útsvar til sveitarfélaga af iðgjöldunum.  Ríki og sveitarfélög yrðu þó að leggja þessar skatttekjur í varasjóð sem aðeins mætti ganga á í sérstökum tilfellum, sem ég ætla ekki að fara út í hér og nú.  Höfum í huga að lífeyrissjóðirnir töpuðu í hruninu vel yfir 100 milljarða af framtíðarskatttekjum ríkis og sveitarfélaga og hafa því glatað rétti sínum til að ávaxta skattféð.

Ávinningur

Hvað vinnst með þessari breytingu?  Í stórum dráttum er það tvennt:

1.  Komið verður í veg fyrir að iðgjaldagreiðendur framtíðarinnar verði látnir borga upp það sem vantar upp á að lífeyrissjóðirnir eigi til að standa undir útgreiðslu lífeyris miðað við loforð sjóðanna um áunnin réttindi þeirra sem greitt hafa í sjóðina til þess.  Uppi eru áform um að hækka iðgjaldagreiðslur í lífeyrissjóðina úr 12% í 15,5%.  Þessi peningur á að koma frá launagreiðendum, sem margir eiga þegar erfitt með að standa undir öllum þeim launatengduálögum sem þeim er ætlað að greiða.  En hvorki þessi viðbótar 3,5% né þau 2% sem bættustu við fyrir 6 og 7 árum var/er ætlað að auka réttindi þeirra sem greitt er fyrir í samræmi við viðbótargreiðslurnar.  Nei, þessi hækkun iðgjalda á að bæta upp það klúður sem orðið hefur í ávöxtun sjóðanna.  Tekið skal fram að hugmyndin um hækkun í 15,5% kom fram áður en lífeyrissjóðunum tókst að tapa nokkur hundruð milljörðum árið 2008.

Mikilvægt er að greiðendur framtíðarinnar verði ekki látnir burðast með lífeyrisskuldbindingar sem lífeyrissjóðirnir standa ekki undir.  Nýjar kynslóðir eiga að vera öruggar um að það sem þær greiða í lífeyrissjóðinn sinn fari í þeirra réttindaávinning, en ekki til að rétta af fortíðarhalla.  Nýjar kynslóðir greiðenda eiga að koma að hreinu borði.  Á sama hátt þarf að skilja á milli fortíðargreiðslna og réttindaávinnings þeirra sem eru núna að greiða í lífeyrissjóði og framtíðargreiðslna og réttindaávinnings þeirra sem munu greiða frá og með áramótum.  Þannig verða minni líkur á að lífeyrissjóðirnir verði tómir þegar kemur að því að þeir sem eru nýlega byrjaðir að greiða í sjóðina, komast á lífeyrisaldur.

2.  Hitt sem ávinnst er að hægt verður að gera upp lífeyrissjóðina og skilja betur hvert tap núverandi sjóðfélaga er.  Staðreyndin er nefnilega sú, að ávöxtun sjóðanna hefur líklegast aldrei staðið undir þeim væntingum sem til hennar var gerð.  Myndast hefur gríðarstór hola í mörgum sjóðanna, ekki öllum, og þessi hola gerir það að verkum að viðkomandi lífeyrissjóðir eiga ekki fyrir þeim greiðslum sem búið er að lofa iðgjaldagreiðendum/lífeyrisþegum.  Menn voru búnir að búa til leikfléttu sem átti að bjarga þessu, þ.e. láta iðgjaldagreiðendur framtíðarinnar borga meira án þess að þeir ættu að njóta þess í betri lífeyrisréttindum.  Viðbótin átti, eins og áður segir, að leiðrétta klúður fortíðarinnar.  Yngri kynslóðirnar áttu að greiða fyrir lífeyri þeirra eldri.

Þó svo að margir sjóðir standi illa í dag, þá er ekkert sem segir að séu færustu sérfræðingar fengnir til að aðstoða við fjárstýringu þeirra, þá geti þeir ekki rétt sig af.  Málið er að þá áhættu á ekki að leggja á framtíðargreiðendur, heldur verða þeir sem eiga réttindi í sjóðunum í dag að bera þá áhættu.  Ég er einn af þeim.  Það sem síðan ekki verður hægt að endurheimta af tapaðri ávöxtun verður síðan ýmist að bæta með sértækum aðgerðum í gegn um skattkerfið eða að koma fram í skerðingu réttinda. 

Lífeyrisréttindi - loforð sem ekki gengu eftir

Nú þýðir ekki að segja, að einhver eigi réttindi vegna þess að viðkomandi greiddi í lífeyrissjóð.  Þau réttindi voru ekki raunveruleg, heldur bara svikin loforð.  Mönnum mistókst í flestum tilfellum að ávaxta eignir sjóðanna, eins og nauðsynlegt var, svo hægt væri að standa við loforð um réttindi.  Við getum ekki ætlast til þess að greiðendur framtíðarinnar taki á sig þau mistök.  Það verðum við, sem greitt höfum í sjóðina að gera.  Skítt?  Já, alveg örugglega, en það eina sanngjarna og réttláta í stöðunni.  Við verðum  að sýna þá manndóm, ef svo má segja, að láta ekki börnin okkar líða fyrir mistök manna sem misfóru með fé okkar.   Þessir aðilar (nær eingöngu karlmenn) klessukeyrðu fína, flotta bílinn okkar og nú eigum við bara til pening fyrir umtalsvert lakari gerð.

Ef rétt verður haldið á spilunum, þá verður hægt að rétta marga lífeyrissjóði af.  Hjá öðrum verður ekki komist hjá einhverjum skerðingum, en mér finnst rétt að stilla þeim í hóf og grípa frekar til sértækra aðgerða til að koma í veg fyrir óbærilegar skerðingar.  Þessar skerðingar þurfa að ná jafnt til almennra lífeyrissjóða og opinberra.  Svo vill til að ég á réttindi á báðum vígvöllum og er því að tala fyrir skerðingu eigin réttinda.  Ég bara sé ekkert réttlæti í því að börnin mín eigi að fá lægri réttindaávinning á hverjar 1.000 kr. greiddar í lífeyrissjóðinn sinn, en eðlilegt er, eingöngu vegna þess að þeim er ætlað að tryggja mér betri réttindi.  Svo lágt neita ég að leggjast.  Nei, hafi einhverjum "snillingum" tekist að tapa mínum peningum í lífeyrissjóðunum mínum, þá skal ég vera meiri maður en svo að ég láti börnin mín borga með mér í gegn um lífeyrissjóðina.

Aldurstengd skerðing réttinda

Ég á 15 - 20 ár eftir af minni starfsævi og mun því borga í nýja lífeyrissjóð í þann tíma (verði þessi hugmynd ofan á).  Vonandi verður skerðing réttinda í þeim sjóðum sem ég á réttindi í, ekki það mikil að hún reynist mér þungbær, en þeir sem komnir eru á lífeyrisaldur eða eru nálægt því gætu orðið fyrir búsifjum.  Af þeim sökum þarf að leggja öryggisnet fyrir þá og hjálpa þeim.  Þetta öryggisnet gæti falist í því að réttindi sjóðfélaga skreðist í réttu hlutfalli við þann tíma sem þeir eiga eftir að greiða í lífeyrissjóð og ekki hjá þeim sem eru byrjaðir að taka lífeyri.  Segjum sem svo að skerða þurfi réttindi í lífeyrissjóði um 10%, þá skertust réttindi þeirra sem eru nálægt lífeyrisaldri um 1 - 2% meðan réttindi þeirra sem yngri eru skertust um kannski allt að 15%.  Á móti kæmi að tækist lífeyrissjóðnum að snúa spilinu við og ávöxtun yrði nægileg til að auka réttindi sjóðfélaga, þá rynni sú aukning fyrst til þeirra sem fengu mesta skerðingu og síðar til þeirra sem sátu uppi með óverulega skerðingu.

Hitt er annað mál, að ekkert óréttlæti fælist í því að allir tækju á sig skerðinguna, jafnt lífeyrisþegar sem aðrir, en í mínum augum, þá snýst þetta ekki bara um hvað er stærðfræðilega rétt heldur líka hvað er siðferðilega rétt.  Og siðferðilega, þá finnst mér ekki hægt að skerða réttindi þeirra sem ekki eiga möguleika á að rétta hlut sinn.  Þess fyrir utan, þá mun skerðing á núverandi lífeyrisþega bara leiða til hærri útgjalda í almannatryggingakerfinu og þar með auka skattbyrðina.  Við sem erum á atvinnumarkaði höfum því einfaldlega um tvennt að ræða: að greiða þetta í gegn um skerðingu lífeyrisréttinda eða að greiða þetta í gegn um skatta til ríkisins.


Illa fengin krafa getur ekki orsakað vanskil - Leiðréttið stökkbreytingu og þá lagast margt!

Í janúar 2009 voru Hagsmunasamtök heimilanna stofnuð.  Markmið samtakanna er meðal annars að vinna í leiðréttingum á lánamálum heimilanna.  Krafa um slíkt var lögð fram strax í febrúar 2009 og hljóðaði hún upp á að forsendubrestur lána yrði leiðréttur, þannig að verðbætur vegna hækkunar vísitölu neysluverðs umfram 4% yrðu felldar niður af lánum.  Færð hafa verið mörg rök fyrir bæði réttlæti slíkrar aðgerðar og ekki síður skynsemi hennar.  Stjórnvöld og fjármálafyrirtæki hafa slegið skollaeyrum vð þessari kröfu með rökunum "ekki hægt".  Aldrei allan tímann hefur verið sest niður og reynt að finna út hvernig þetta gæti verið hægt.  Starfshópur var stofnaður um málið haustið 2010, svo kallaður sérfræðingahópur, en niðurstaða þeirrar vinnu var öll á forsendum fjármálafyrirtækjanna og fengu fulltrúar lántaka ekki einu sinni aðgang að því borði þegar ákveðið var hvaða brauðmolum ætti að henda í lántaka.

Ég sat í þessum sérfræðingahópi og benti í séráliti mínu á hvað þyrfti að gera.  Skipti ég lántöku í hópa (raunar sambærilega og sérfræðingahópurinn) og reyndi að skilgreina til hvaða nauðsynlegra aðgerða þyrfti að grípa.  Ég tel enn að mín nálgun í þessu máli hefði orðið árangursríkari en sú leið sem fjármálafyrirtækin og stjórnvöld fóru.  Auk þess vil ég benda á að tillögur stjórnvalda og fjármálafyrirtækja gerði ráð fyrir meiri leiðréttingu verðtryggðra lána, en reyndin hefur verið.  Munar þar líklegast ekki undir 50 milljörðum króna.  (Hef þó ekki endurreiknað það nýlega.)

Hagsmunasamtök heimilanna hafa ítrekað varað við því sem myndi gerast, ef ekki yrði gripið til víðtækari ráðstafana.  Samtökin hafa bent á að flest úrræði stjórnvalda hafa byggt á því að færa eignir heimilanna til fjármálafyrirtækjanna, þ.e. heimilin áttu að ganga á sparnað og selja seljanlegar eignir svo þau gætu greitt fjármálafyrirtækjunum, en fjármálafyrirtækin ættu ekki að leiðrétta þau afglöp sem hrunbankarnir urðu uppvísir að.  Vissulega tóku lífeyrissjóðirnir og Íbúðalánasjóður ekki virkan þátt í hrunadansi fjármálafyrirtækjanna, en þessir aðilar þáðu með þökkum brauðhleifana sem til þeirra var kastað af nægtarborði fjárglæfrafyrirtækjanna.  Hrunbankarnir orsökuðu hér mikinn óstöðugleika sem lýsti sér meðal annars í falli krónunnar og hækkun verðbólgu.  Þetta leiddi til mikillar hækkunar verðbóta og þessar verðbætur tóku lífeyrissjóðirnir og Íbúðalánasjóður fengins hendi.  Við sem höfum staðið í réttlætisbaráttunni fyrir heimilin lítum svo á að þessar verðbætur séu þýfi og með því að þiggja verðbæturnar hafi lífeyrissjóðirnir og Íbúðalánasjóður orðið þjófsnautnar.

Í öllum siðuðum samfélögum þykir eðlilegt að þjófar sem gripnir eru, séu látnir skila þýfinu og hafi aðrir notið þýfisins, þá skili þeir því líka.  Ekki er tekin gild sú afsökun að menn hafi ekki vitað að um þýfi væri að ræða.  Kannski er grimmt að tala um þýfi, en a.m.k. er um illa fengið fé að ræða og um það gilda almennt sömu reglur.  Hafi fé vrið haft af manni, þá ber að skila því.  Ljóst er að mikið vantar upp á að Ísland teljist til siðaðra þjóða, a.m.k. hvað þetta varðar.  Fjármálafyrirtæki geta augljóslega framið alls konar lögbrot, brotið gegn viðskiptavinum sínum, sett heilt þjóðfélag nánast á hausinn og síðast en ekki síst nýtt lögbrot annarra til að hagnast án þess að þurfa að svara til saka eða bæta fólki og fyrirtækjum skaðann.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa ítrekað varað við því að úrræði stjórnvalda og fjármálafyrirtækjanna væru ófullnægjandi.  Að um tímabundin úrræði væri að ræða til að vonast til þess að viðhalda greiðsluvilja heimilanna.  Vissulega hafa mörg heimili nýtt sér fjölbreytt úrræð, en því miður hafa mörg þessara úrræða ekki leitt til varanlegrar lausnar.  Vandanum hefur verið ýtt á undan í von um að kraftaverkið gerðist.  Fólk fékk að leysa út séreignarsparnað.  Margir nýttu sér það, en nú er sá sjóður uppurinn.  Aðrir áttu einhvern sparnað inni á bankabók, en það var að mestu bara ríka fólkið.  Heimilin náðu að halda sér á floti í einhvern tíma, en hefur hópur þeirra einfaldlega ekki við að ausa bátinn.  Þessu var varað við.  En stjórnvöld voru ekki að hlusta eða í fásinnu sinni trúðu fjármálafyrirtækjunum, þar sem sitja að stórum hluta sama fólk og setti okkur í þessa stöðu.

Meðan stökkið í verðbótum á höfuðstól verðtryggðra lána hefur ekki verið leiðrétt, þá er hætt við að tiltekinn hópur heimila mun bara sökkva dýpra og dýpra.  Önnur ráða enn við birgðarnar, en jafnvel hjá þeim er róðurinn tekinn að þyngjast.  Hvað þarf að gerast svo stjórnvöld og fjármálafyrirtækin átti sig á þessu?  Hvert er virði lánasafns, þar sem hluti lántaka standa ekki undir afborgunum?  Hver er munurinn á því að koma til móts við núverandi lántaka og að afskrifa lán sem hvíla á eign áður en hún er seld áfram? 

Ég veit ekki hvað þarf til svo stjórnvöld og lánveitendur átti sig, en vakni menn ekki fljótlega, þá mun það einfaldlega bitna á greiðsluhæfi Íbúðalánasjóðs og ég er ekki viss um að stjórnvöld vilji hugsa þá hugsun til enda að Íbúðalánasjóður lendi í verulegum vanda.  Í mínum  er það lánasafn verðmætara þar sem búið er að skilja á milli "góðra" lána og "slæmra", þar sem búið er að stilla kröfuna af þannig að lántakinn getur greitt af þeim og hefur vilja til þess.  Loks, í mínum huga, þá er enginn munur á því að láta núverandi lántaka njóta afskrifta sem nýr lántaki fengi.  Raunar tel ég það siðferðislega rétta aðferð.

(Síðar mun ég rifja upp tillögur mínar í sérálitinu og færa frekari rök fyrir því af hverju ég taldi það rétta aðgerð.)


mbl.is Um 500 ný heimili í vanskilum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin endurreista bankastarfsemi á Íslandi

Undanfarin ár hefur ýmislegt gengið á í endurreistum íslenskum bankarekstri. Lengi leit út fyrir að menn hefðu ekkert lært af hruninu, svo sljákkaði aðeins á ofsanum, eins og menn ætluðu að gera einhverja yfirbót, en nú er eins og tímavélin hafi tekið...

Af útúrsnúningi um afnám verðtryggingar

Einu sinni sem oftar gengur Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambandsins, fram á ritvöllinn og talar um afnám verðtryggingar (sjá Afnemum verðtrygginguna ). Einu sinni enn snýr hann út úr umræðunni eins og hann sé haldinn slæmum...

Ferðasumarið mikla með erlenda bílstjóra og enga leiðsögumenn - Vernda þarf vörumerkið Ísland

Tilefni skrifa minna er ekki atvikið á Tjörnesi heldur eitt og annað sem ég hef heyrt af eða orðið vitni að í sumar í tengslum við skipulegðar hópferðir með ferðamenn um landið. Óteljandi hópar ferðamanna eru á ferð um landið í hópferðabílum. Þetta fólk...

Gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls

Á fjörur mínar rak nýlega bók sem mig langar aðeins að fjalla um. Þessi bók vakti áhuga minn fyrir nokkrar sakir, en þó sérstaklega þar sem ég er leiðsögumaður ásamt öllu öðru sem ég geri. Hér um ræðir endurútgáfa Sigurðar Sigurðarsonar á bókinni...

Launaþróun lánþega LÍN neikvæð um 1,77% árið 2011, en launavísitala hækkaði um 9,1%

Á visir.is er frétt um afskriftarþörf Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Hún hefur aukist gríðarlega að því virðist af þremur ástæðum. Fyrsta er nýtt reiknilíkan, önnur er neikvæð launaþróun árið 2011 og þriðja er breytt samsetning og hegðun lántaka. Mig...

Hvenær er kreppunni lokið? Enn er langt í land samkvæmt fræðum neyðarstjórnunar

Ýmsir aðilar virðast vera áfjáðir um að lýsa kreppunni lokið. Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, telur í grein í DV enga ástæðu til óðagots hvað þetta varðar og tek ég undir þetta með henni. Sem sérfræðingur og ráðgjafi á sviði...

Hvaða fyrirtæki eru góð fyrir Ísland?

Fyrir um mánuði birtist í Tíund Ríkisskattstjóra grein eftir Páll Kolbeins, þar sem hann fjallar um tekjubreytingar á fyrsta áratug aldarinnar. Samkvæmt upplýsingum Páls þá hækkuðu tekjur einstaklinga um 62% frá 2001 til 2007, þ.e. úr 845 ma.kr. í 1.370...

Svört atvinnustarfsemi, skattahagræði og skattaívilnanir

Viðskiptablaðið fjallar í dag um svarta atvinnustarfsemi í ferðaþjónustu. Hefur nokkuð borið á þessari umræðu í fjölmiðlum að undanförnu og tengt það við gullgrafaraæðið sem virðist runnið á Íslendinga vegna fjölgun ferðamanna. Erna Hauksdóttir nefnir að...

Evrópurdómstóllinn segir að dómastólar skuli fella niður ósanngjarna skilmála

'I máli C-618/10 Banco Español de Crédito SA v Joaquín Calderón Camino komst Evrópudómstóllinn (Court of Justice of the European Union) að því að landréttur (a national court) geti ekki breytt innihaldi ósanngjarns skilmála í samningi gerðum milli...

Hætta á höfuðborgarsvæðinu vegna eldgosa

Nokkur umræða hefur verið í fjölmiðlum og á netinu um þá hættu sem byggð á höfuðborgarsvæðinu gæti stafað af eldgosum í nágrenni þess. Ég hef nokkrum sinnum fjallað um þessi mál hér á blogginu mínu, auk þess að taka þátt í umræðu á síðum annarra. Sem...

Hver er ávinningurinn af leiðréttingu verðtryggðra lána?

Í gær var dreift á Alþingi skýrslu Hagfræðistofnunar um áhrif annars vegar 10% og hins vegar 25% lækkunar höfuðstóls íbúðalána. Mér finnst þessi skýrsla vera heldur rýr í roðinu og raunar bara tætaramatur. Hún er ákaflega einhliða áróður fyrir einum...

Vangaveltur um skráningu Facebook á NASDAQ

Nýskráning Facebook á NASDAQ hefur vægast sagt farið vandræðalega af stað. Mér finnst þó engin ástæða fyrir fjárfesta að örvænta. Þetta eru bara fyrstu dagarnir. Frá mínum bæjardyrum séð, þá er græðgin að drepa menn. Fyrst það græðgin hjá stjórnendum...

Bannað að skerða, en samt hefur verið skert! - Hver á að borga það sem upp á vantar?

Þórey Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landsamtaka lífeyrissjóða, segir samkvæmt frétt mbl.is að "engan vafa leika á að lífeyrisréttindi njóti eignarréttarverndar stjórnarskrárinnar". Vísar hún til dóma Hæstaréttar, úrskurði umboðsmanns Alþingis og hjá...

Skilaboðin eru skýr: Ekki greiða í lífeyrissjóð nema þú ætlir að búa heima hjá þér á efri árunum - Endurbirt færsla

Í tilefni orða Ásmundar Stefánssonar, þá þykir mér við hæfi að endurbirta færslu mína, Skilaboðin eru skýr: Ekki greiða í lífeyrissjóð nema þú ætlir að búa heima hjá þér á efri árunum , sem ég birti 28. mars sl. Hér er færslan: Eftir að hafa lesið...

Lagt til að 26 atriði fari fyrir dóm, en ekki það mikilvægasta

Ég hef loksins komist í gegn um álitsgerð lögmannanna fjögurra um þau álitamál sem bera þarf undir dómstóla um áður gengistryggð lán. Búið er að bíða lengi eftir þessu áliti og það segir okkur í stuttu máli að við þurfum að bíða lengur. Í álitsgerðinni...

Vefurinn Iceland Guide

Fyrir nokkrum dögum tók ég við vefnum Iceland Guide ( www.icelandguide.is ) af stofnanda hans, Láru Hönnu Einarsdóttur, leiðsögumanni, þýðanda og ofurbloggara. Lára Hanna hefur haldið honum úti í 6 ár og fannst hún ekki lengur hafa tíma til að sinna...

visir.is tilkynnt sem árásarsíða

Ég ætlaði áðan, eins og ég geri oft á dag, inn á visir.is. Þá fékk ég meðfylgjandi tilkynningu á skjáinn hjá mér. Vissulega bregður manni, þegar svona tilkynningar birtast um íslenskar síður og þá sérstaklega fréttasíður. Er tilkynningin fals eða er...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.1.): 4
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 1681251

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband