Leita í fréttum mbl.is

Samkeppniseftirlit heimilar samstarf með ströngum skilyrðum

Óhætt er að segja að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 4/2012 telst tímamót.  Ekki sá hluti sem snýr að því að fjármálafyrirtæki megi hafa samstarf, það er nú gegn um gangandi rugl í íslensku samkeppnisumhverfi sem verður að fara að stoppa.  Nei, það eru hin ströngu skilyrði sem Samkeppniseftirlitið setur samstarfinu.

Í stuttu máli er ákvörðun Samkeppniseftirlitsins sem hér segir (tekið af vef eftirlitsins):

Samkeppniseftirlitið heimilar fjármálafyrirtækjum afmarkað samstarf sem miðar að því að hraða úrvinnslu skuldamála sem varða gengisbundin lán, í framhaldi af dómi Hæstaréttar Íslands frá 15. febrúar sl.

Við ákvörðunina er horft til mikilvægis þess að hraða endurskipulagningu skulda einstaklinga og fyrirtækja. Er heimildin bundin ítarlegum skilyrðum sem lúta að formi og umgjörð samstarfsins og háttsemi bankanna í tengslum við úrvinnslu umræddra lána.

Áhersla er lögð á að neytendur njóti sanngjarnrar hlutdeildar í ávinningi samstarfsins. Er leitast við að tryggja það með skilyrðum sem kveða á um þátttöku umboðsmanns skuldara í samráðinu og fulltrúa Neytendastofu og talsmanns neytenda einnig gert mögulegt að taka þátt. Einnig er sett það skilyrði að samstarfið bindi ekki hendur einstakra lánveitenda til þess að veita viðskiptavinum sínum betri kjör auk þess sem samstarfsaðilum er bannað að krefjast málskostnaðar í dómsmálum sem höfðuð verða í kjölfar samvinnunnar.

Ennfremur er það skilyrði sett að fjármálafyrirtækin fresti fullnustuaðgerðum vegna krafna sem ljóst er að falli undir dóm Hæstaréttar, meðan á samstarfinu stendur. Samstarfið er afmarkað að öðru leyti við fjármálafyrirtæki sem veitt hafa útlán sem fallið geta undir fyrrgreindan dóm Hæstaréttar og ber hverju þessara fyrirtækja að skipa fastan fulltrúa sem sinnir samstarfinu fyrir þeirra hönd. Jafnframt skal skrásetja samstarfið og halda gögn um fundi og ákvarðanir. Er með þessu reynt að girða fyrir að samstarfið leiði til víðtækara samráðs.

Tímamótin í þessari ákvörðun er aðkoma þeirra sem eiga að gæta hagsmuna neytenda að úrvinnslunni, að neytendur njóti sanngjarnrar hlutdeildar í ávinningi samstarfsins, bannað er að krefjast málskostnaðar í dómsmálum (væri betra ef fjármálafyrirtækin bæru allan málskostnað) og frestun fullnustuaðgerða vegna krafna sem ljóst er að falli undir dóm Hæstaréttar nr. 600/2011 (betra ef næði til allra mála sem eru afleiðingar krafnanna, þar sem yfirdráttur á 10. veðrétti greiðist hugsanlega upp þegar krafa sem fellur undir dómin er gerð upp á lægri eftirstöðvum).

Ákvörðunin sigur Hagsmunasamtaka heimilanna

Ekkert fer á milli mála að hin ströngu skilyrði eru Hagsmunasamtökum heimilanna að þakka.  Þau mótmæltu einhliða samstarfi og bentu á þá hættu sem það hefði í för með sér.  Þau færðu rök fyrir því að aðilar sem bera eiga hagsmuni neytenda fyrir brjósti þurfi að koma að málinu.  Síðast var það ekki gert og þá varð niðurstaðan ákaflega einhliða, svo ekki sé tekið sterkar til orða.

Örlítið um ákvörðunina

Þó ákvörðunin sé í flestum atriðum hið besta skjal þá eru nokkur atriði sem ég hnýt um.  Ég hef þegar bent á tvö að ofan, þ.e. málskostnaðurinn og umfang fullnustu aðgerða.

Mér finnst eðlilegt að fjármálafyrirtækin borgi allan lögfræðikostnað vegna mála sem fara þarf hugsanlega í til að fá álitaefni útkljáð.  Þau hafa lögfræðideildir bak við sig með oft marga lögfræðinga á launum.  Eigi að gæta fullkomins jafnræðis í dómsmálum, þá þurfa lántakar að eiga sama möguleika á lögfræðiaðstoð.  Tiltölulega fáir lögfræðingar hafa sérhæft sig í þessum málum og eru þeir oft í sjálfboðavinnu, þar sem skjólstæðingar þeirra hafa ekki burði til að greiða allan kostnað sem fellur til.  Gera má ráð fyrir að lögfræðiskostnaður í einu máli hlaupi á nokkrum milljónum sé rétt að málum staðið.  Eigi lántakar að fá réttláta málsmeðferð, þá verða þeir að hafa efni á aðstoð lögmanns sem getur undirbúið fullnægjandi vörn.  Því finnst mér sanngjarnt að fjármálafyrirtæki taki á sig lögfræðikostnað lántakanna í prófmálum.

Varðandi að fresta fullnustuaðgerðum vegna krafna sem falla (hugsanlega/líklega) undir fordæmi dóms Hæstaréttar nr. 600/2011, þá megum við ekki gleyma því að í mörgum málum reyna fjármálafyrirtækin að sneiða hjá því að stefna vegna gengistryggðra lána og taka í staðinn mál sem hafa komið til sem afleiðing af hinum ólöglegu gengistryggðu lánum.  Þannig er klassískt að taka fyrir yfirdráttarskuld, vanskil á verðtryggðu láni eða jafnvel að notað er tækifærið þegar fasteignagjöld eru í vanskilum til að láta ólögleg áður gengistryggð mál fljóta með.  Í mjög mörgum tilfellum leiða vanskil á einu láni til annarra vanskila.  Því er ekki hægt að skilja fullnustuaðgerðir vegna gengistryggðra lána frá fullnustuaðgerðum vegna annarra lána og segja að þetta séu óskyldir hlutir.  Þetta er allt samhangandi og því þarf að hætta öllum fullnustuaðgerðum séu áður gengistryggð lán meðal vanskilaskulda viðkomandi skuldara.

Þriðja atriðið sem mér finnst athugunarvert eru eftirfarandi orð í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins:

Ljóst er að réttaróvissa hefur skapast í þjóðfélaginu í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 um endurútreikning lána sem fjármálafyrirtækin veittur (sic) lántakendum í erlendri mynt og getur Samkeppniseftirlitið því tekið undir nauðsyn þess að úr þeim verði skorið sem allra fyrst og með sem skilvirkustum hætti án þess þó að réttarstaða skuldara, neytandans, skerðist að nokkru leyti.

Ég hef aldrei geta skilið það, að dómur Hæstaréttar búi til réttaróvissu sem ekki var til fyrir.  Það liggur í hlutarins eðli, að málinu var vísað til dómstóla vegna réttaróvissu.  Hæstiréttur skar úr um þá réttaróvissu og henni var eitt.  Þar með varð a.m.k. einni réttaróvissu færra.

Þetta orðalag Samkeppniseftirlitsins segir allt til um hvorum megin eftirlitið stendur í þessu máli.  Það stendur með fjármálafyrirtækjunum.  Hið sanna í þessu máli er, að dómur Hæstaréttar staðfestir að umtalsverð réttaróvissa var og er ennþá til staðar

Ákvörðunarorð Samkeppniseftirlitsins

Mér finnst hér í lokin rétt að birta í heild ákvörðunarorð ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins í máli 4/2012.  Er þau að finna neðst í því skjali sem ég vísa fremst í þessari færslu:

III.

Ákvörðunarorð:

Með heimild í 15. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 veitir Samkeppniseftirlitið Samtökum fjármálafyrirtækja f.h. aðildarfélaga sinna og Dróma hf. heimild til samstarfs í tilefni af dómi Hæstaréttar frá 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011. Heimildin tekur til samstarfs um eftirfarandi:

a) túlkun dómsins;

b) aðferðir við endurútreikning á þeim lánum sem hafa að geyma óskuldbindandi ákvæði um gengistryggingu og dómur Hæstaréttar tekur til;

c) endurskoða þá endurútreikninga sem þegar hefur farið fram á framangreindum lánum og kanna áhrif dómsins á þau;

d) greiningu þeirra álitaefna sem nauðsynlegt er að láta reyna á fyrir dómi;

e) val á málum sem hentugust eru til þess að bera undir dómstóla með álitaefni skv. d-lið í huga:

f) val á málsástæðum sem reyna þarf á í dómsmálum skv. e-lið því skyni að eyða sem fyrst allri réttaróvissu.

Heimildin er veitt að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

1. gr.

Fyrirtækjum sem aðild eiga að samstarfi þessu er einungis heimilt að eiga með sér samstarf eða funda á grundvelli undanþágunnar en í því felst ekki heimild til nánara samráðs um verð og viðskiptakjör en kveðið er á um í undanþágu þessari. Öll upplýsingaskipti og samstarf undanþáguaðila umfram þann tilgang sem afmarkaður er í ákvörðun þessari er óheimilt. Óheimilt er með samstarfinu að takmarka rétt einstakra aðila samstarfsins til þess að gera samninga við viðskiptamenn sína sem ganga lengra en keppinautann og eru neytendum meira í hag.

2. gr.

Halda skal skýrar fundargerðir um fundi sem haldnir eru vegna samstarfsins. Þá skal haldið til haga yfirliti yfir öll gögn sem lögð eru fram á fundum eða verða til vegna samstarfsins.

Fjármálafyrirtæki sem aðild eiga að undanþágu þessari skulu tilnefna fastan fulltrúa sem sinnir samstarfinu og situr fundi fyrir þeirra hönd og er ábyrgur fyrir því að ákvæðum ákvörðunar þessarar sé fylgt hvívetna. Skal hann undirrita yfirlýsingu um að hann virði ákvörðun þessa og bann við samkeppnishamlandi samráði.

3. gr.

Aðildarfélögum SFF og Dróma er einungis heimilt að eiga með sér samstarf eða fundi að viðstöddum fulltrúa umboðsmanns skuldara. Skal fulltrúi umboðsmanns hafa aðgang að öllum gögnum sem verða til vegna samstarfsins.

Leiti Neytendastofa eða talsmaður neytenda eftir þátttöku í samstarfi þessu skulu þau fá að njóta sömu stöðu og umboðsmaður skuldara.

4. gr.

Skulu aðildarfélög SFF og Drómi grípa til ráðstafana í því skyni að tryggja að fulltrúar þeirra sem taka þátt í samstarfinu fari að skilyrðum þeim sem fram koma í þessari ákvörðun, sbr. einnig 10. gr. samkeppnislaga.

Hvert fjármálafyrirtæki fyrir sig skal upplýsa Samkeppniseftirlitið innan fjögurra vikna frá dagsetningu þessarar ákvörðunar um þær ráðstafanir sem gripið hefur verið til á grundvelli þessa skilyrðis.

5. gr.

Fjármálafyrirtækin skulu ekki krefjast málskostnaðar í kröfugerð sinni á hendur skuldurum í þeim dómsmálum sem höfðuð verða í kjölfar samstarfs á grundvelli undanþágu þessarar. Leitast skal eftir því sem við verður komið að stefna þeim skuldurum sem að mati umboðsmanns skuldara eru hvað best til þess fallnir að halda uppi vörnum í slíku dómsmáli.

6. gr.

Á meðan samstarf fer fram á grundvelli undanþágu þessarar skulu lánveitendur sem aðild eiga að samstarfinu fresta öllum fullnustuaðgerðum sem byggja á lánum sem ljóst er að falli undir dóm Hæstaréttar í máli nr. 600/2011.

7. gr.

Undanþága þessi gildir til ársloka 2012. Skulu aðilar samstarfsins láta samstundis af samvinnunni þegar undanþágan rennur út. Við lok frestsins skal skila Samkeppniseftirlitinu greinargerð um framkvæmd samkomulagsins og hvernig því er lokið gagnvart fyrirtækjum sem undanþága þessi lýtur að.

8. gr.

Undanþága þessi veitir ekki öðrum aðilum en fjármálafyrirtækjum sem stunda útlánastarfsemi eða stunduðu slíka starfsemi fyrir bankahrunið 2008 rétt til samstarfs sem fer gegn 10. gr. samkeppnislaga.

Undanþágan veitir ekki samtökum ofangreindra fyrirtækja heimild til samstarfs sem brýtur í bága við ákvæði 12. eða 10. gr. samkeppnislaga. Þó er þeim heimilt að útvega fundarritara og aðstöðu.

9. gr.

Komi til þess að gera þurfi frekari breytingar á samstarfinu skal það borið fyrirfram undir Samkeppniseftirlitið.

10. gr.

Samkeppniseftirlitið áskilur sér rétt til þess að óska upplýsinga á hvaða tímapunkti sem er vegna veittrar undanþágu.

Brot á þessum skilyrðum varðar viðurlögum skv. samkeppnislögum.“

Samkeppniseftirlitið

Páll Gunnar Pálsson


mbl.is Heimila fjármálafyrirtækjum samstarf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsbankinn: Dómur hefur lítið fordæmisgildi!

Skuldara barst bréf frá Landsbankanum:

Sæll  
Því miður þá get ég aðeins gefið þér takmarkaðar upplýsingar um stöðu þessara mála þar sem ekki liggur fyrir hvernig þessum málum verður háttað.
Samkvæmt upplýsingum lögmanna bankans þá hefur dómur Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 lítið fordæmisgildi þar sem deilan snérist um það hvort Frjálsa fjárfestingarbankanum væri heimilt að skuldajafna málskostnaðarkröfu stefnanda við vangreidda vexti sem bankinn taldi sig eiga eftir endurútreikning á fasteignaláni stefnenda. Niðurstaða dómsins var sú að bankinn var ekki talinn eiga kröfu á hendur stefnendum vegna vangreiddra vaxta og var því ekki fallist á skuldajafnaðarrrétt bankans.  
 
Í Hæstarétti verður þann 23. mars nk. flutt mál sem mun hafa mun meira fordæmisgildi heldur en framangreindur dómur um framkvæmd endurútreiknings. Eftir dómsuppkvaðningu mun liggja ljósar fyrir hvaða lán þarf að endurreikna að nýju og hvaða aðferðum þarf að beita til þess.
Í hjálagðri fréttatilkynningu sem Landsbankinn sendi út föstudaginn 2. mars  þá kemur fram að bankinn muni senda út greiðsluseðla meðan óvissa er um þessi mál og að hann hvetji viðskiptavini bankans til þess að greiða þá.  
Kveðja

--
Já, dómur Hæstaréttar hefur lítið fordæmisgildi en samt segir bankinn:  

Niðurstaða dómsins var sú að bankinn var ekki talinn eiga kröfu á hendur stefnendum vegna vangreiddra vaxta

Er ekki allt í lagi?  Mér sýnist þessi texti vera ákaflega skýr varðandi það að ekki megi krefja lántaka um seðlabankavexti.

Í dómi Hæstaréttar nr. 600/2011 frrá 15. febrúar 2012  segir auk þess:

Samkvæmt framansögðu verður að taka afstöðu til þess hvort sóknaraðili teljist í ljósi atvika málsins hafa fengið réttmæta ástæðu til að ætla að ekki gæti komið til frekari vaxtakröfu varnaraðila síðar.

Hæstiréttur telur því að málið snúist um hvort reikna megi hærri vexti á kröfuna síðar (eins og reyndar lögmenn Landsbankans komast að niðurstöðu um).

Mér finnst lesskilningur lögmanna Landsbankans ekki upp á marga fiska.  Hvernig geta þeir túlkað orðin sem ég vitna í að ofan, bæði í bréfi Landsbankans og dómi Hæstaréttar, þannig að um lítið fordæmisgildi sé að ræða?

Kannski lögmenn Landsbankans eigi að spyrja sig hvers vegna Frjálsi fjárfestingabankinn átti ekki kröfu vegna vangreiddra vaxta.  Jú, ástæðan er augljós:

..þykir það standa varnaraðila nær en sóknaraðila að bera þann vaxtamun sem af hinni ólögmætu gengistryggingu hlaust og um er deilt í málinu.  Er því fallist á með sóknaraðilum, að sá rangi lagaskilningur sem [...] lá til grundvallar lögskiptum aðila í upphafi og þar til dómur Hæstaréttar gekk 14. febrúar 2011 verði í uppgjöri aðila einungis leiðréttur til framtíðar.

Sem sagt FF átti ekki kröfu til vangreiddra vaxta vegna þess að deilan um vangreidda vexti verður einungis leiðrétt til framtíðar.


Dómur Hæstaréttar er mjög skýr: Vextir verða eingöngu leiðréttir til framtíðar

Dómur Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 um vaxtaútreikning áður gengistryggðra lána er mjög skýr:

..þykir það standa varnaraðila nær en sóknaraðila að bera þann vaxtamun sem af hinni ólögmætu gengistryggingu hlaust og um er deilt í málinu.  Er því fallist á með sóknaraðilum, að sá rangi lagaskilningur sem [...] lá til grundvallar lögskiptum aðila í upphafi og þar til dómur Hæstaréttar gekk 14. febrúar 2011 verði í uppgjöri aðila einungis leiðréttur til framtíðar.

Þetta er eins skýrt og frekast er hægt að komast að orði.  Dómurinn segir að rangur lagaskilningur um vextina verði ekki leiðréttur nema til framtíðar. Hann segir ekkert um það hvort lán þurfi að vera í skilum eða ekki, en vissulega var hann að fjalla um lán í skilum.  Það bara skiptir ekki máli, þar sem það þykir standa nær varnaraðila að bera þann vaxtamun sem deilt eru um í málinu og rangur lagaskilningur um vexti lánsins verður bara leiðréttur til framtíðar.

Rangi lagaskilningurinn felst í fleiru en fullnaðarkvittuninni, eins og Hæstiréttur nefnir.  Hann fellst raunar fyrst og fremst í skuldbindingunni sem birtist á greiðslutilkynningunni. Eða eins og Hæstiréttur segir: 

Voru sóknaraðilar því í góðri trú um lögmæti þeirrar skuldbindingar [um vexti] sem þeir höfðu gengist undir gagnvart varnaraðila..

Þetta atriði er síðan grundvöllur þess að fullnaðarkvittanir fælu í sér að ekki væri hægt að rukka meira, en ekki að fullnaðarkvittun þyrfti líka að vera til staðar eins og segir í framhaldinu:

..og þar með í góðri trú um að fyrrnefndar greiðslur þeirra fælu í sér fullar og réttar efndir af þeirra hálfu. 

Í rökfræði væri talað um að hér væru tvær yrðingar.  Fyrri er góð trú um lögmæti skuldbindingar og sú síðari góð trú um fullar og réttar efndir.  Það sem meira er, að fyrri yrðingin er sterkari yrðingin af þessum tveimur, þar sem sú síðari gildi "þar með", þ.e. síðari yrðingin gildi vegna þess að sú fyrri gildir en ekki öfugt.  Hæstiréttur segir að skuldbindingin sé mikilvægari þátturinn, en fullnaðarkvittunin væri svona eins og kremið ofan á kökuna.

Ætli menn að fara að deila um það hver skuldbindingin hafi verið, þá svarar Hæstiréttur því líka í næstu setningu á undan, því sem nefnt er að ofan:

Við mat á því hvort svo hagi til í máli þessu að heimilt sé að víkja fá meginreglunni er fyrst til þess að líta, að þegar sóknaraðilar á einstökum gjalddögum frá stofndegi kröfunnar og fram til 14. febrúar 2011 greiddu afborganir og vexti af skuldabréfi nr. 712986 gengu báðir aðilar út frá því að útreikningur varnaraðila á fjárhæð afborgana og vaxta tæki mið af því að ákvæði skuldabréfsins um gengistryggingu höfuðstólsins væru gild.

Skuldbindingin felst í því að báðir aðilar hafi haldið að fjárhæð afborgana og vaxta væri gild fram til 14. febrúar 2011.  Hæstiréttur notar þetta atriði til að styðja við það sem á eftir kom og ég nefni að ofan.  (Vissulega er þetta rangt hjá Hæstarétti, þar sem sóknaraðilar gerðu jú athugasemd við fjárhæð skuldarinnar, m.a. á grunni ákvæða vaxtalaga nr. 38/2001 og síðar á grunni niðurstöðu Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 153/2010 frá 16. júní 2010.)

Höfum í huga að í málinu er bara deilt um vextina.  Ekki er deilt um að höfuðstóll lánsins lækki til samræmis við dóma nr. 92/2010 og 153/2010.  Úr því var kljáð í máli nr. 604/2010.  Enn og aftur vil ég því taka fram að niðurstaða Hæstaréttar um vextina er mjög skýr:

það þykir standa nær varnaraðila að bera þann vaxtamun sem deilt eru um í málinu og rangur lagaskilningur um vexti lánsins verður bara leiðréttur til framtíðar


mbl.is Þeir sem ekki greiddu sitja í súpunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögfræðiálit LEX er ekki um niðurstöðu Hæstaréttar!

Er þetta ekki dæmigerð nálgun stjórnvalda á ágreiningi sem kominn er upp. Fá skal tvo óháða lögfræðinga (hvar sem þeir finnast) til að rýna álit lögmannsstofunnar Lex um lögfræðileg álitaefni vegna dóms Hæstaréttar 15. febrúar sl. Eins og fram kemur í...

Námskeið um áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu

Betri ákvörðun, ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar, mun halda námskeið um áhættustjórnun þriðjudaginn 6. mars og stjórnun rekstrarsamfellu miðvikudaginn 7. maí. Markmið námskeiðanna er að kynna aðferðafræði við áhættumat og samspil áhættumats og...

Hæstiréttur: Eingöngu má leiðrétta rangan lagaskilning til framtíðar

Mikið er ég orðinn þreyttur á þeim óheiðarleika sem skín í gegn hjá fjármálafyrirtækjunum og þeim lögfræðingum sem fengnir hafa verið til að fjalla um dóm Hæstaréttar fyrir þeirra hönd. Fjölmiðlar hafa einhverra hluta vegna ákveðið að hoppa á vagninn og...

Erindið um vaxtadóma Hæstaréttar í Grasrótarmiðstöðinni

Í dag hélt ég erindi um vaxtadóma Hæstaréttar í Grasrótarmiðstöðinni. Fjölmiðlar sýndu þessu engan áhuga og er það furðulegt. Meginniðurstöður mínar eru: Dómur nr. 471/2010, fyrsti vaxtadómur Hæstaréttar, stenst enga skoðun. Málið : Rétturinn var...

Mjök erum tregt tungu at hræra

Mjök erum tregt tungu at hræra eða loptvætt ljóðpundara; esa nú vænligt of Viðurs þýfi né hógdrægt ór hugar fylgsni. Svo hefur Egill Skallagrímsson Sonatorrek sitt. Ekki þarf ég líkt og Egill að syrgja syni mína, en mjög er mér samt tregt tungu að hræra...

Dæmigerð útsölulokahækkun vísitölu

Sú hækkun vísitöluneysluverðs er dæmigerð útsölulokahækkun. Á síðasta ári varð hækkunin 1,2% og 1,15% árið áður. Nokkrar fleiri slíkar mælingar má finna, en hafa verður í huga að áður endurspeglaði verðbólga í mars þá verðbreytingu sem núna mælist í...

Fordæmisgildi Hæstaréttardóms víðtækt

Mbl.is birtir frétt um fund sem KPMG hélt um nýgenginn Hæstaréttar dóm um vexti áður gengisbundinna lána. Vitað er í erindi Sigurjóns Högnasonar, lögfræðings. Ekki kann ég nein deili á Sigurjóni önnur en þau, að samkvæmt fundargerð efnahags- og...

Sóttin breiðist út - Stemmum stigum við henni áður en það verður um seinan

Sú sótt sem lagst hefur á okkur Íslendinga er farin að dreifa sér víða. Hjá okkur kom hluti höggsins strax vegna gengistryggingarinnar. Fólkið með verðtryggðu lánin eru farin að finna fyrir hitanum og þar mun bara hitna undir pottinum. Grikkir og...

Vaxtadómar og Árna Páls-lög - hluti 2 - Bláeygur Hæstiréttur?

Óhætt er að segja að Hæstiréttur hafi hrist vel upp í þjóðfélaginu sl. miðvikudag. Í mínum huga kom niðurstaðan ekki á óvart og var gjörsamlega fyrirséð út frá kröfurétti og neytendarétti. Ég verð þó að segja að ég er ekki sáttur við allan rökstuðning...

Líkleg staða lánþegar áður gengistryggðra lána eftir dóma Hæstaréttar

Margir hafa spurt mig hver sé staða sín eftir hinu fjölmörgu dóma Hæstaréttar um áður gengistryggð lán. Hér fyrir neðan er farið yfir grófar niðurstöður helstu dóma, hvað þeir þýða og loks sýnd einföld dæmi. Tímamótadómar Hér eru fyrst tímamótadómar sem...

Leiðbeiningar FME/SÍ og Árna Páls lög hækkuðu vexti um allt að 357 ma.kr. á lánum heimilanna

Ég veit ekki af hverju ég hef ekki gert þetta áður, en í gær fór ég að velta fyrir mér hver hafi verið nákvæmlega áhrif leiðbeininga FME og Seðlabanka Íslands og síðar Árna Páls-laganna (nr. 151/2010) á heimilin í landinu. Hluti af ástæðunni var að...

Þýðing dóms Hæstaréttar fyrir lántaka

Það rigna yfir mig fyrirspurnir um hvað niðurstaða Hæstaréttar í gær þýðir í raun og veru fyrir lántaka. Eins og alltaf er til einföld og ónákvæm skýring og síðan flókin og ítarleg skýring. Einföld skýring Endurreikna skal öll lán, þannig að miðað sé við...

Afturvirkni vaxta ólögmæt af greiddum gjalddögum

Stóridómur Hæstaréttar er fallinn: Ekki er heimilt að endurreikna afturvirkt vexti af þegar greiddum gjalddögum fyrrum gengistryggðra lána Ég veit ekki hvort ég eigi að hlæja eða gráta. Vissi af niðurstöðunni rétt rúmlega þrjú og las frétt mbl.is en...

Sighvati Björgvinssyni svarað

Sæll Sighvatur Þetta er Marinó "nokkur" Njálsson. Þú sendir mér pillur í einhverju bræðikasti, þar sem þér líkar ekki við málflutning minn um orð þín í Silfri Egils sl. sunnudag. Ég tek það fram að ég á ekki í neinu stríði við þig og mér þykir þú fara...

Ótrúlegar rangfærslur í Silfri Egils - Hægri/vinstri skipting er úrelt hugmyndafræði

Ég var að hlusta á Silfur Egils, þar sem eru í panel fjórir einstaklingar. Tveir sem eru að meta stöðuna á hlutlausan hátt, þ.e. Jóhanna Vigdís og Styrmir, og tveir sem eru að drepast úr spælingu yfir góðu gengi SAMSTÖÐU - flokks um lýðræði og velferð,...

Af vanhæfi, hlutleysi og fagmennsku dómara

Á Eyjunni er frétt þar sem rætt er við Brynjar Níelsson (eða vitnað í hann) vegna gagnrýni sem komið hefur á einn dómara í Hæstarétti fyrir að hafa ekki sagt sig frá máli, þegar kom í ljós að góður vinur hans flutti málið fyrir annan málsaðilann. Mér er...

480 ma.kr. menntunarkostnaður lífeyrissjóðanna - Lífeyrissjóðirnir taki yfir Íbúðalánasjóð

Oft hef ég deilt á sýn Guðmundar Gunnarssonar á hlutina. Í dag birtir hann færslu á bloggi sínu, Samhengi hlutanna , og setti ég meðfylgjandi athugasemd inn á hjá honum. Í þessu tilfelli get ég tekið undir flest það sem hann segir. Sparisfjáreigendur...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband