Leita í fréttum mbl.is

Þetta átti ekki að koma á óvart, en er skynsamlegt að draga að greiða?

Merkilegt að það komi stjórnvöldum og Seðlabanka Íslands á óvart að færa þurfi íslenskar eignir hrunbankanna yfir í erlendan gjaldmiðil.  Þetta hljómar pínulítið svoleiðis.

Héldu menn virkilega að þessir peningar myndu bara liggja inni á reikningum? 

Samantektin á innlendum eignum hrunbankanna í greinargerðinni með frumvarpinu um breytingu á lögum um gjaldeyrishöftin sýna að þær eru alls 1.166 ma.kr.  Inni í þeirri tölu er skuldabréf sem Landsbankinn þarf að greiða Landsbanka Íslands.  Af þessum 1.166 ma.kr. þarf að greiða erlendum kröfuhöfum 783 ma.kr., sem er "aðeins" 47% af vergri þjóðarframleiðslu.  Á móti kemur að erlendar eignir þrotabúanna nema 1.702 ma.kr. og menn hafa fengið út að 254 ma.kr. af þeirri upphæð renni til innlendra kröfuhafa.  (Af hverju draga menn ekki 254 ma.kr. frá 783 ma.kr. og segja einfaldlega að greiða þurfi 519 ma.kr. út úr landinu?)

Fyrir utan þessa upphæð er fleira misjafnlega þolinmótt fjármagn erlendra aðila sem vill líklegast úr landi á næstu árum.  Vegur þar náttúrulega þyngst endurgreiðslur á lánum frá AGS og öðrum sem lögðu til pening í gjaldeyrisvarasjóðinn.

Gjaldeyrisforði þjóðarinnar var 1.081 ma.kr. 31. janúar sl., þar af 957 ma.kr. í SDR körfu og 124 ma.kr. utan þessarar körfu.  (Samsetning körfunnar er ákveðin af AGS til 5 ára í senn.)  Strangt til tekið væri hægt að nota þessa peninga til að losa um gjaldeyrishöftin.  Slíkt hefði þó mikið rask í för með sér í formi gríðarlegrar gengislækkunar.  Spurningin er bara hvort það sé ekki nákvæmlega það sem við þurfum.

Ég lagði það til í nóvember 2008, að búinn yrði til tveggja vikna gluggi upp úr miðjum janúar 2009, þar sem öllum, sem vildu fara, yrði hleypt með fjármuni sína úr landi.  Skilyrðið væri bara að þeir yrðu að fara á því gengi sem þá væri í boði.  Síðan í lok tímabilsins yrði genginu handstýrt í sama gildi og það stóð í áður en glugginn opnaðist.  Ég held ennþá að þetta hefði verið góður kostur.  Eina sem þurfti að gera samhliða þessu var að taka úr sambandi verðtrygginguna, þannig að losun fjármagns úr landi kæmi ekki niður á skuldum heimilanna.  Ástæðan fyrir því að ég lagði til seinni hluta janúar var að þá er yfirleitt minnstur innflutningur til landsins.

En þetta var ekki gert og í staðinn erum við með gjaldeyrishöft þremur árum síðar, höfum látið eignir útlendinga hér á landi safna vöxtum sem í sumum tilfellum nema um og yfir þriðjungi af höfuðstóli skuldanna og höfuðstóll skuldanna er enn fastur.  Tær snilld!  Eftir því sem peningarnir eru fastir hér lengur á flottum vöxtum og með gjaldeyrishöftum, þá þurfa eigendur þeirra svo sem ekkert að kvarta.  Ef allt gengur upp og krónan styrkist, þá fá þeir fleiri evrur, dollara, pund, franka og jen fyrir krónurnar sínar, en ef því opnuðum allt upp á gátt og hleyptum þeim úr landi með gengisvísitöluna í 350.  Önnur aðferð er að nota grísku leiðina, þ.e. hleypa þeim út með helminginn gegn því að þeir felli hinn helminginn niður.

Höftin eru ekki að virka, eins og við viljum.  Viðurkennum það bara.  Afnemum þau með einu pennastriki, en kippum verðtryggingunni úr sambandi um leið.  Eina annað sem við getum gert er að taka upp aðra mynt og fá lán hjá viðkomandi seðlabanka svo hægt sé að skipta innlendum eignum erlendra kröfuhafa í nýju myntina.  Hugsanlega gætum við fiffað þetta sem rafpeninga, en það væri náttúrulega bara blekking.

Hvernig sem allt horfir við, þá verða gjaldeyrishöft hér þar til við tökum upp alþjóðlega viðurkennda mynt eða að viðskiptajöfnuður við útlönd helst lengi svo jákvæður, að hægt er að byggja upp góðan gjaldeyrisforða.  Ok, þar til við tökum upp alþjóðlega viðurkennda mynt, hvenær sem það verður.  (Gætum líka greitt AGS okurvexti á lánum frá sjóðnum í 20-30 ár og vonað hið besta.)


mbl.is Stoppa útgáfu skuldabréfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú þarf að lækka vexti niður í núll.

BJ (IP-tala skráð) 13.3.2012 kl. 07:59

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Marínó.

Ég er alvega sammála þessum pistli þínum og þarft að vekja athygli á þeirri snilld að láta kvikan pening safna vöxtum á innlendum reikningum sem gera ekkert annað en að auka vandann seinna meir.

Þú bendir réttilega á aðra boðlegu leiðina sem er að láta peningana gossa og frysta verðtrygginguna á meðan.  Á þetta benti sá mæti hagfræðingur Gunnar Tómasson mjög fljótlega eftir Hrun.  Líklegast á sama tíma og hann benti á hvernig hægt er að leiðrétta forsendubrest verðtryggingarinnar með útgáfu skuldabréfs ríkissjóðs sem myndi mynda eiginfjárgrundvöll hjá eigendum verðtryggðra húsnæðislánabréfa.  Gunnar vissi og veit sínu viti og margt væri öðruvísi umhorfs ef menn hefðu hlustað á reynsluna í stað varðhundahagfræðinga kerfisins.

En hin leiðin er skattlagning útstreymis og þá þarf örugglega að frysta vísitölur á meðan. 

En leiðin sem þú nefnir, að taka lán, það er það sem er verið að gera í dag, nema menn hafa ekki kjark til að fara alla leið.  Ennþá.

Það er enginn munur að taka gjaldeyrislán og nota það til að borga út óþolinmóðar krónur eða taka gjaldeyrislán og nota það til að borga út kvikt fjármagn í þeirri mynt sem lánið er tekið.

Lán er alltaf lán, eða það hélt ég.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 13.3.2012 kl. 09:40

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ómar, ég er bara að nefna kostina, ekki forgangsraða þeim eða segja þá alla endilega góða.  Lán er möguleiki sem ég mæli ekki með, en það er samt möguleiki.

Marinó G. Njálsson, 13.3.2012 kl. 10:52

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Ókey skil þig. 

Taldi rétt að hnykkja á að vandinn við kvikt fjármagn hverfur ekki þó menn skipti um gjaldmiðil.  Það er að enginn eðlismunur er á láni frá AGS eða láni frá erlendum seðlabanka í kjölfar myntskipta.  

Þannig að ef það er nothæf leið, þá er þegar búið að leggja drög af henni, en menn hafa ekki haft kjark til að ganga alla leið.

Hefur sjálfsagt með augljóst gjaldþrot þjóðarinnar að gera.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 13.3.2012 kl. 11:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 1678157

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband