Leita í fréttum mbl.is

Þingsályktun Hreyfingarinnar: Hugmynd sem taka verður alvarlega

Ég hvet þingheim til að taka þessa tillögu Hreyfingarinnar alvarlega.  Í henni felst virkilega metnaðarfull tilraun til að höggva á hnút sem haldið hefur stórum hluta húsnæðiseigenda föstum.

Vissulega er ég ekki hlutlaus, þar sem tillaga Hreyfingarinnar byggir á minni hugmynd.  Hana setti ég fyrst fram í séráliti mínu með skýrslu "sérfræðingahóps" um skuldamál heimilanna í nóvember 2010.  Eins og annað í því séráliti, þá féll hún í grýttan jarðveg enda ekki sett fram að fulltrúum "réttra" aðila. 

Útfærsla tillögunnar í ályktun Hreyfingarinnar er unnin í samvinnu þingmanna Hreyfingarinnar, framkvæmdastjóra þinghópsins og mín.  Markmiðið er að finna leið sem hægt væri að hrinda í framkvæmd.  Í mínum huga er endanleg útfærsla ekki aðalmálið og t.d. væri hægt að tengja hana við hugmynd Ólafs Margeirssonar um "peningaprentun".  Í slíkri útfærslu fengju kröfuhafa peningana sína strax (með eðlilegum afslætti) og því væri bæði hægt að "prenta"minna af peningum og greiða "prentaranum" hærri vexti.

Þátttaka margra

Tillagan gerir ráð fyrir að árlegar verðbætur umfram 2,5% verði færðar af  lánunum vegna áranna 2008 - 2011 yfir í sérstakan afskriftarsjóð.  Er lengra gengið en í tillögum Hagsmunasamtaka heimilanna sem gerðu ráð fyrir 4,0%.  Munurinn á þessu tvennu er ekki mikill í heildarupphæðinni, en skiptir gríðarlegu máli fyrir lántaka.  Sjóðurinn verði síðan greiddur niður á 25 árum með 3,5% óverðtryggðum vöxtum.

Gert er ráð fyrir þátttöku margra aðila við að greiða niður sjóðinn.  Þ.e.

  • lántaka í formi mjög hóflegs vaxtaálags.  Álagið nemur í upphafi 2.500 kr. á ári af hverri 1 m.kr. sem skuld stendur í, en lækkar niður í 1.000 kr. eftir 15 ár.  Lækkunin nemur 100 kr. á ári;
  • bankar og eigendur bréfa sem Íbúðalánasjóður og forverar hans hafa gefið út til að fjármagna útlán sjóðsins, s.k. HFF-bréf, aðrir en lífeyrissjóðir greiði 0,195% eignaskatt af eignum sínum sem lækkar árlega um 0,005% þar til hann endar í 0,075%;
  • vaxtabætur sem annars hefðu runnið til lántaka renni til sjóðsins, ljóst er að lán án niðurfærslu hefðu gefið lántaka hærri vaxtabætur en með niðurfærslu og mismunurinn fari því í að greiða niður sjóðinn án nokkurs kostnaðarauka fyrir ríkissjóð;
  • lífeyrissjóðirnir greiði eignarskatt af eignum sínum til að dekka það sem þá vantar upp á.

Árleg greiðsla af sjóðnum er áætluð innan við 15,2 milljarðar króna.

Annar kostnaður

Hver sem hefur vit á fjármálum sér að annar kostnaður getur verið við hugmyndina.  Sá kostnaður felst t.d. í töpuðum væntum tekjum, að vextir sem greiddir eru af afskriftarsjóðnum séu lægri en "markaðsvextir", að verðbætur eru ekki greiddar af sjóðnum o.s.frv.  Þessi kostnaður er raunverulegur að því marki að við gerum ráð fyrir áframhaldandi óstöðugleika og óbreyttu húsnæðislánakerfi.  Í Danmörku eru vextir af húsnæðislánum neikvæðir um þessar mundir.  Það þykir ekkert tiltökumál, þar sem það eru vextir yfir allan lánstímann sem skipta máli.

Von allra hér á landi er að stöðugleiki náist og verðbólga minnki.  Stærstu áhrifavaldar í verðbólguþróun eru fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóðir.  Fjármálafyrirtæki sem lánveitendur stjórna framboði á lánsfé.  Þau geta því myndað bólur og haldið aftur af þeim.  Lífeyrissjóðirnir sem fjárfestar hafa mikil áhrif á ávöxtunarkröfu á markaði og framboð á fé til fjárfestinga.  Mikilvægt er því að þvinga þessa aðila til að taka þátt í að viðhalda stöðugleikanum.

En núverandi kröfuhafar þurfa ekki að verða fyrir þessum afleidda kostnaði verði farin leið "peningaprentunar", þ.e. ef Seðlabankinn verði látinn fjármagna sjóðinn að fullu í upphafi og eigi hann í reynd, en kröfuhafar fái í staðinn niðurfærsluna greidda að fullu við stofnun sjóðsins.  Þar sem sjóðurinn myndi krefjast afsláttar af kröfunum, þá þyrfti sjóðurinn ekki að vera eins hár án þess að endurgreiðslum væri raskað.  Þannig væri hægt að greiða eitthvað hærri vexti til Seðlabankans fyrir vikið.

Samtaka nú

Ég skora á þingmenn að koma upp úr pólitískum skotgröfum og fjalla um þessa tillögu Hreyfingarinnar án upphrópana.  Sumir geta örugglega ekki haldið aftur af sér og tala um að einhverjir sem ekki þurfi séu að fá niðurfærslu.  Við þessu er einföld lausn.  Bjóðum þeim sem ekki vilja eða telja sig ekki þurfa möguleika á að segja sig frá úrræðinu.

Ég reikna líka með því að upphefjist rammakvein frá forsvarsmönnum lífeyrissjóðanna, en það sem farið er fram á varðandi þátttöku þeirra er ekki einu sinni það sem skattgreiðendur gáfu þeim þegar Steingrímur J. Sigfússon veitti þeim 33,4 ma.kr. afslátt af svo kölluðum Avens-bréfum.  Sýnið karlmennsku og hættið að kvarta.  Við erum öll í þessu og þurfum öll að leggjast á árarnar til að komast út úr þessu.  Já, þetta skerðir árlega ávöxtun sjóðanna um á bilinu 0,07 - 0,14% sem vart telst há tala.  Gagnvart fjármálafyrirtækjum og eigendum HFF-bréfa (annarra en lífeyrissjóða), þá er þetta líka óveruleg skerðing á ávöxtun.  Í báðum tilfellum er gert ráð fyrir "peningaprentun" og greitt verði fyrir afskurðinn þegar hann verður framkvæmdur.

Tæknileg mál

Ég hef heyrt menn velta fyrir sér hvernig niðurfærslan verði framkvæmd, hvernig kröfur færist yfir í afskriftarsjóðinn og skattskyldu niðurfærslunnar.  Einfaldast er að framkvæma niðurfærsluna sem greiðslu inn á höfuðstól lánanna eða með skilmálabreytingu.  Hvorutveggja eru vel þekktar aðferðir og ætti því vart að vefjast fyrir nokkrum í framkvæmd.  Um leið og skuldir Íbúðalánasjóðs lækka, þá framkvæmir sjóðurinn sambærilega aðgerð á útlánum til heimilanna.

Eigi núverandi kröfuhafar eftir niðurfærsluna kröfu á afskriftarsjóðinn, þá er einfaldast og eðlilegast að sjóðurinn gefi út skuldabréfaflokk eða flokka sem afhentir verði kröfuhöfum í samræmi við upphæð kröfu þeirra.  Skuldabréfin geti eftir það gengið kaupum og sölum á markaði. Greiði sjóðurinn kröfuhöfum beint við yfirtöku, þá er það Seðlabankinn sem eignast skuldabréfin og getur selt þau á markaði.

Setja yrði lög um að niðurfærslan væri ekki skattskyld.  Lítið gagn er í því að lækka greiðslubyrði um 20% árlega, ef maður fær í hausinn himinn háa skattkröfu í staðinn.  Algjört skilyrði fyrir aðgerðinni er því skattleysi niðurfærslunnar.


mbl.is Leggja til almenna niðurfærslu lána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er svo rétt hjá þér Marinó. En, því miður mun þingið ekki bera gæfu til þess að taka á þessu, enda ekki við öðru að búast þegar situr meira en helmingur þingmanna ennþá þar inni sem tók þátt í hruninu með einum eða öðrum hætti. Ríkisstjórn sem setur skattaálögur í forgang mun aldrei hafa skilning á því að niðurfærslan yrði skattlaus. Ef eitthvað væri myndi hún reyna finna leið til þess að hækka skattinn. Svona er ástandið í dag og á ekkert eftir að batna með þessa úrsérgengu úreltu pólítíkusa sem við höfum niðrá þingi. Svo ég tali nú ekki um þá sem eru gagngert þar inni til að verja hagsmuni og þá á ég ekki við hagsmuni almennings. Sorglegt, en staðreynd engvu að síður.

Sigurður Kristján Hjaltested (IP-tala skráð) 13.3.2012 kl. 16:15

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Tillagan er góð en að er henni síst af öllu til framdráttar að Hreyfingin skuli ekki hafa leitað eftir meðflutningsmönnum úr öðrum flokkum. Skil raunar ekkert í þannig vinnubrögðum. Yfirleitt er leitað eftir þverpólitískri samstöðu um svona mál, um slíkt eru fjöldi dæma sem náð hafa í gegn.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 13.3.2012 kl. 16:27

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sigurður, þetta er misskilningur hjá þér.  Leitað var til allra flokka um stuðning, en menn vildu ekki vera með.

Marinó G. Njálsson, 13.3.2012 kl. 17:12

4 Smámynd: Magnús Ágústsson

Marinó vildi virkilega enginn þingmaður hjá öðrum flokkum ver "memm# enn eru menn í þessum sorglega sankassa leik

Annars er ég sammála þér þetta er ein besta aðferðin við að leiðrétta stökkbreyttu lánin

Magnús Ágústsson, 14.3.2012 kl. 12:21

5 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Höskuldur Þórhallsson ákvað að gerast meðflutningsmaður.  Öllum þingmönnum var boðið að vera með á því eins og Marinó sagði.  Mælt var fyrir málinu í dag.

http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?lidur=lid20120314T175804&horfa=1

Þórður Björn Sigurðsson, 14.3.2012 kl. 22:09

6 Smámynd: Hjördís Vilhjálmsdóttir

Alltaf er látið skipta máli hvaðan góð ráð koma. Það er hroki sem er án efa stór sökudólgur hrunsins. En í hann verður haldið og það fast.

Evt hefðu þau átt að gefa málið til meirihlutaþingmanna, þá hefði það farið í gegn. Leyfa þeim að eiga hugmyndina. Það er ekki hefð fyrir þvi að minnihluti nái málum í gegn.

Hjördís Vilhjálmsdóttir, 15.3.2012 kl. 08:20

7 identicon

Góð ráð eru ekki málið í þessu landi. Lygar og lögbrot eru það.

Til dæmis er þessi klassíska lygi ennþá í fullu gildi, hagnaður lögbrota er afskrifaður sem tap, ekki dónó að vera í slíkum bissniss:

http://ruv.is/frett/tapa-38-milljordum-a-gengislanadomi

sr (IP-tala skráð) 17.3.2012 kl. 18:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 3
  • Sl. sólarhring: 126
  • Sl. viku: 686
  • Frá upphafi: 1677708

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband